Hörpuvísur

Sigurður dýralæknir sendi Árgalafélögum líka, fyrirfram, efni í Hörpuvísur, fyrriparta undir nokkrum mismunandi rímnaháttum. Þegar ég var að hnoða saman botnunum var „vorhret á glugga“ sem hafði augljós áhrif á innihald þeirra:

Ferskeytt
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól á lofti
en vetur ennþá virðist með
vorið upp’ í hvofti!
 
Stefjahrun
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin för.
Lítið hef þó hana séð,
á hitann virðist spör.
 
Gagaraljóð
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin ganginn sinn.
Ef gengi úti faldprútt féð,
fljótt það myndi setja inn.
 
Nýhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu sína.
Glæstar vonir geng ég með:
„Góða besta, farð’ að skína!“
 
Stafhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin blíðu með
en Vetur kóngur fer ei fet,
færir okkur páskahret.
 
Samhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól frá vetrarbeð.
Nú er aumt og nakið tréð,
í náttúrunni lítið peð.
 
Stikluvik
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu,
en þó verður varla séð
að vorið komi henni með.
 
Valstýft
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól.
„Út að ganga! Allir með!
Upp á hól“.

 

 

Einmánaðarvísur

Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:

Breiðhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum trjánna.
Logar sól um land að nýju,
leikur glatt í straumi ánna.
 
Langhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinunum.
Í morgunsárið, eftir níu,
augun þorn’ á steinunum.
 
Draghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum.
Andinn verður ör að nýju
öllum gleymir meinum.
 
Skammhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á grein,
hverja sólar gleypir glýju,
gleðin ríkir ein.
 
Úrkast:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brumin.
Frjóin vori fagna nýju
frá sér numin.
 
Dverghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum.
Dagsins sjá þau dýrð að nýju
en deyja sum.

 

Jólakveðja 2013

Heimi forðum hinstu speki Hávi kvað:

Ef rekur menn á rangan stað

reynist best að hjálpast að.

 

Ofurgræðgi einkavegi út af fór.

Enginn syngur einn í kór.

Með öðrum verður maður stór.

Vinarþel er fundið fé

sem forðar oss frá grandi.

Óskum þess að ætíð sé

allt í góðu standi.

 

Gefðu þjáðum þelið hlýtt,

þerra sárastrauma

og þá lifir upp á nýtt

alla þína drauma.

Ef reynist þungur raunakross

að rata veginn sinn,

þá kærleikur, að kenna oss,

kemur sterkur inn.

 

Á berum orðum, sem bjarta höll,

byggjum okkar hug.

En baktalsvammið! Veljum öll

að vísa því á bug.

Heyrist sagt að sækist enn

sér um líkir.

Þar sem ganga góðir menn

gleðin ríkir.

 

Jafnt á árið jöfnum út

jólasiðinn:

Argan leysa innri hnút

og elska friðinn.

Er gæfan horfin, grafin virðing, gleðin köfnuð?

Hvar sem tekst að tvístra söfnuð

tryggjum mannúð, frelsi, jöfnuð.

 

Ef að bara endurnýtum ástarvöttin,

upp þá lýsum allan hnöttinn

og enginn fer í jólaköttinn.

 

Vér hrægammar

VÉR HRÆGAMMAR

Bjarg-Ráður

hefur látið boðin

út ganga:

 

„Hrægammar

mati Forsendu-Brest

af sjálfheldufé

afdala“.

 

Ég er hrægammur.

 

Sit yfir

minni séreignarhjörð

í þokuslæðingi

og degi tekið að halla.

 

Framundan

er Vogunarskarð

til friðsælli byggða

og í boði

að tína í sig á leiðinni

einn og einn skrokk

 

af eigin fé.

 

„Hrægammar

skulu ekki fá

að kemba hærurnar.“

 

Fundinn fjársjóður

Á sunnudaginn var Anna María að grúska eitthvað í skápum og kössum með gömlu dóti. Svo kemur hún, þessi elska, og réttir mér samanbrotið, línustrikað blað sem hún hafði fundið. Þegar ég brýt sundur blaðið þekki ég strax rithöndina hans pabba heitins. Og viti menn. Á blaðið hefur hann skrifað mér kveðju í tilefni fertugsafmælis míns, fyrir hönd þeirra mömmu. Kveðjan er fallegt ávarp og fjórar frumsamdar vísur, sem ég var búinn að steingleyma að væru til, og eru mér því sannarlega fundinn fjársjóður. Vísurnar eru svona:

Íþróttunum alla tíð,

einkum snjall í körfu.

Finnur lausn í harðri hríð,

hugarflugi djörfu.

 

Hesta sína heiðra kann,

hátt á fjöllum ríður.

Á fullum kostum flengist hann,

fjörðið ólgar, sýður.

 

Áfram lítur æfileiðar

undralönd.

Tíðast hefur tvo til reiðar,

tölt við hönd.

 

Farsæll hefur fjóra tugi

farið keikur.

Enda er hann ofurhugi,

aldrei smeykur. 

 

Annars gáfu foreldrar mínir mér hestastein í fertugsafmælisgjöf, stuðlaberg úr Hrepphólum  sem stendur í hlaðinu og festur hefur verið við járnhringur – og svolítill áletraður málmplatti með tilefninu og tveimur vísum, þar sem minnst er fyrsta alvöru gæðingsins sem ég eignaðist og geymi alla tíð næst hjarta:

Átti Hreimur hylli í för,

hratt þó steymdu árin.

Ennþá dreymir ólgufjör,

aldrei gleymist klárinn.

 

Vítt um landið velja má

vegi margrar gerðar.

Leystu hestinn, leggðu á,

löngun er til ferðar.

 

Pabbi kunni sannarlega að setja saman vísur – og hefði gjarnan mátt gera meira af því.

Frónar versta stjórn

Það var allra fremst í forgangsröð verkanna hjá núverandi ríkisstjórn að afturkalla sérstakt auðlindagjald, fyrir leyfi til að nýta sjávarþjóðarauðlindina. Þegar fyrsta fjárlagafrumvarp stjórnarinnar lítur dagsins ljós, með blóðugum niðurskurði á mörgum sviðum, verja talsmenn hennar aðgerðirnar með orðunum: „Það þarf að forgangsraða“. Það vita allir að staðan er erfið og nauðsynlegt er að forgangsraða. Og pólitík snýst mikið til um það hvernig er forgangsraðað. Þessi ríkisstjórn forgangsraðar svona:

Þjónar hér, af þjóðarauð,

þykkast skera ríkum brauð.

Mammon ver, og færir fórn

Frónar versta ríkisstjórn.

 

Austurleitarvísur

Fjallferð Austurleitar á Grímsnesafrétti

 

Austurleitin enn skal halda inn til fjalla,

um birkihlíðar, bratta stalla,

bunulæki, gil og hjalla.

 

Hófasláttinn herða má við háar brúnir

Hrossadals, í friðinn flúnir

fjallmenn, samt við öllu búnir.

 

Kætir geð að komast inn úr Klukkuskarði.

Um hvað rætt þó engan varði,

og eitthvað lækki pelans kvarði.

 

Leiðin síðan liggur norður Langadalinn.

Faðma allan fjallasalinn.

Fegurst þessi afrétt talin.

 

Undir kvöldið lenda Kerlingar við kofa.

Jafnan farið seint að sofa

og sungið eins og raddbönd lofa.

 

Kamarinn í Kerlingu er kúnst að nýta:

Þú berar úti bossann hvíta

og bakkar inn, til þess að skíta.

 

Aftur sama aðferð þegar út er farið;

á hækjum sér, með höfuð marið

og helgidæmið allt óvarið.

 

Héðan fjallmenn hálfan ríða hring um Breiðinn.

Kargaþýfð og löng er leiðin.

Já, lystug verður blóðmörssneiðin.

 

Fyrst skeiðið renna, skála undir Skriðuhnjúki.

Flæðir þaðan mosinn mjúki,

móðir jörð sem þakin dúki.

 

Höfuð ber og herðar yfir, Hlöðufellið.

Það augum kastar, ansi brellið,

yfir hraun og jökulsvellið.

 

Á feti ríður flokkurinn á Fífilvelli.

Tign er yfir Tjaldafelli

sem tekur undir smalans gelli.

 

Ei lokka Skersli. Lengra sér til Lambahlíða.

Þangað ekki þarf að ríða

þó að sjáist „kindur“ víða.

 

Skyggnst er um af Sköflungi og Skjaldbreið líka.

Spariklæðum fjöllin flíka.

Fegurð sem á enga líka.

 

En skelfing líkjast skítahraukum Skefilfjöllin!

Eins og hafi hægt sér tröllin

á harðaspretti suður völlinn.

 

Teygist líka töluvert úr Tindaskaga

enda tröllin oft að plaga

iðrakveisur, forðum daga.

 

Hrafnabjargahálsinn þykir hörmung sveitar

sem blá af kulda bráðum neitar

að bíða komu Vesturleitar.

 

Öræfanna úti brátt er ævintýri.

Kveður fjallaheimur hýri

er heilsar smölum Kringumýri.

 

Að lokum þarf að lóna suður Lyngdalsheiði.

Jafnan ber þar vel í veiði,

vænir dilkar á því skeiði.

 

Rökkurvökur, rómur hás og rassinn sári!

Þokkalegur, þessi fjári,

en þeginn vel á hverju ári.

 

Þó að smalar þvældir gerist, þverri kraftur,

í skinni brennur brátt hver kjaftur

og bíður þess að fara aftur.

 

Birtist áður í Hvatarblaðinu, málgagni Umf. Hvatar í Grímsnesi, sept. 2013

 

 

Himneskt haust?

Sumarið hefur verið heldur vætusamt, svo jafnvel sækir leiði að besta fólki. Undanfarnir septemberdagar hafa hins vegar verið með ágætum, og þá eru vonirnar fljótar að glæðast:

Sumar bauð það súran kost
að seint úr hug mun líða.
Náði hingað næturfrost.
Nú er sól og blíða.

Það er ei við leiða laust
af langri sumars vætu
en fáum við kannski himneskt haust
með hita og sólarglætu?

Lífs míns á vegi

Í dag eru 30 ár frá því ég hitti konuna mína fyrst. Ég var tæpra 22 ára gamall þennan apríldag þess dásamlega vors árið 1983, ekkert annað en unglingsgrey sem lítið vissi um það sem máli skiptir í lífsbaráttunni, þó ég þættist náttúrulega hafa svör á reiðum höndum við flestu, eins og gengur.

Þetta var sem sagt vorið þegar útskriftin úr Kennó var á næsta leiti og býsna margt að gerast – allt skemmtilegt. Við kynntumst fyrir algera tilviljun, í gegnum sameiginlega vini, á skemmtistað í Reykjavík sem þá var í móð og hét Hollywood. Við vorum samt alveg ábyggilega bæði ‘úr móð’ þarna inni, innan um diskóliðið. Vonandi bæði hallærisleg og sveitó í þeim samanburði. En náðum svona ljómandi vel saman, eitthvað.

Þeir sem þekkja Önnu Maríu vita hve yndisleg hún er í alla staði, svo ég þarf ekkert að útmála það hér, hún lýsir sér best sjálf. En í tilefni dagsins birti ég hér afmæliskvæði sem ég orti einu sinni til hennar:

Ástin mín

Lífs míns á vegi,
vakir enn minningin
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.

Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.

Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá  skil – þar duga skammt
skilningarvitin.

Dásemdir hreinar:
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.