Heitir dagar

Kona mín varð sextug 14. ágúst sl. og samdægurs var tíu ára brúðkaupsafmælið okkar. Þó liðnir séu rúmir þrír áratugir frá því við „byrjuðum saman“, eins og það er kallað, erVLUU L100, M100  / Samsung L100, M100 hún samt alltaf þessi fallega kona á þrítugsaldri sem ég kynntist fyrir margt löngu og heillaðist af. 

Við héldum upp á tímamótin með því að bregða okkur til Krítar í 10 daga og til að gera nú eitthvað til hátíðarbrigða samdi ég handa henni þetta litla ljóð:

Heitir dagar

Glóðheitir dagar

á Krít.

 

Hrifnæm kona

kemur til mín

með heillandi bros

og hreint.

 

Vakinn en orðlaus

á hana lít,

 

þessi fallegu,

tindrandi augu

sem engu

fá leynt;

 

það eru glóðheitir dagar

á Krít.

 

Manngildi, þekking, atorka

Eftir að hafa lesið síðustu færslu hér á síðunni (Ljóð á vegg) urðu einhverjir forvitnir (reyndar bara tveir 😉 ) og spurðu um ljóð sem ég orti á fimmtugsafmæli Menntaskólans að Laugarvatni, hvort það væri aðgengilegt einhvers staðar á Netinu, sem það er ekki. Ég bæti bara úr því hér og nú:

Manngildi, þekking, atorka

Menntaskólinn að Laugarvatni fimmtugur

Tileinkað minningu Bjarna Bjarnasonar, skólastjóra.

 

Vorið hlær í vatnsins bláa fleti,

viðrar sig um nakið kjarr og grundir.

Um miðjan daginn blærinn leggst í leti,

lóan syngur, þrestir taka undir.

 

Hæst á fögru sviði, manngerð merki,

myndug tákn um heitar andans glóðir.

Þær hugsjónir sem voru hér að verki

varða mörgum leið á nýjar slóðir.

 

Alla tíð er þarft að skilja það

að þekking aðeins gilt er stefnumið

ef með í för er metnaður og natni.

 

Metum það sem hver fær áorkað.

Af vinarþeli mælt er manngildið

í Menntaskólanum að Laugarvatni.

 

 

Ljóð á vegg

Í dag var brautskráður frá Fjölbrautaskóla Suðurlands dágóður hópur af efnilegum ungmennum, af ýmsum brautum. Þetta er alltaf jafn gleðileg og hátíðleg athöfn, þarna taka á móti prófskírteinum sínum krakkar sem við kennarar höfum haft, mislengi auðvitað, undir handleiðslu okkar. Til hamingju með áfangann „klárar“ góðir.

En brautskráningardagurinn hafði einnig sérstaka þýðingu fyrir mig. Á áberandi VLUU L100, M100  / Samsung L100, M100stað framan við hátíðarsal skólans er nú búið að skrúfa upp á vegg plötu með áletruðu ljóði sem ég samdi í tilefni af þrjátíu ára afmæli hans þann 13. september 2011. 

Ég er óneitanlega töluvert stoltur af því að eiga nú uppihangandi ljóð í báðum „skólunum mínum“, Menntaskólanum að Laugarvatni þar sem ég lauk stúdentsprófi árið 1980 og Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem ég hef kennt síðan haustið 1993.

Í ML hangir á virðingarstað ljóð sem ég orti á 50 ára afmæli skólans, sonnettan Manngildi, þekking, atorka, óður til þessarar menntastofnunar tileinkaður minningu afa míns, Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni, upphafs- og aðalbaráttumanni fyrir stofnun hennar á sinni tíð. Í FSu er Fjallganga, þrítugsafmæliskveðja, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem Maggi Tryggva var svo vinsamlegur að taka fyrir mig. Ljóðið er svo:

Fjallganga

Fjölbrautaskóli Suðurlands 30 ára 13. september 2011

 

Hér yfir vakir Ingólfsfjall

með urðarskriður, hamrastall

og lyng og tæra lind.

Á efstu brúnum orðlaus finn,

að á ég hafið, jökulinn

og háan Heklutind.

 

Við hraunið sveigir Ölfusá

með iðuköstum, flóðavá

og góða laxagengd.

Þó brúin tákni mannsins mátt

þá mótar áin stórt og smátt,

vort líf í bráð og lengd.

 

Get Suðurfjórðung faðmað hér,

á flug með hröfnum kominn er,

ef tylli mér á tær,

um sögufrægar sýslur þrjár

með sanda, hveri, jökulár

og byggðarbólin kær.

 

Nú grípur augað glæsihöll,

við gula litinn þekkjum öll,

þar fjöldinn allur fær

að þroska bæði hug og hönd

og hnýta lífsins vinabönd,

þar héraðshjartað slær.

 

 

 

Hörpuvísur

Sigurður dýralæknir sendi Árgalafélögum líka, fyrirfram, efni í Hörpuvísur, fyrriparta undir nokkrum mismunandi rímnaháttum. Þegar ég var að hnoða saman botnunum var „vorhret á glugga“ sem hafði augljós áhrif á innihald þeirra:

Ferskeytt
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól á lofti
en vetur ennþá virðist með
vorið upp’ í hvofti!
 
Stefjahrun
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin för.
Lítið hef þó hana séð,
á hitann virðist spör.
 
Gagaraljóð
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin ganginn sinn.
Ef gengi úti faldprútt féð,
fljótt það myndi setja inn.
 
Nýhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu sína.
Glæstar vonir geng ég með:
„Góða besta, farð’ að skína!“
 
Stafhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin blíðu með
en Vetur kóngur fer ei fet,
færir okkur páskahret.
 
Samhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól frá vetrarbeð.
Nú er aumt og nakið tréð,
í náttúrunni lítið peð.
 
Stikluvik
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu,
en þó verður varla séð
að vorið komi henni með.
 
Valstýft
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól.
„Út að ganga! Allir með!
Upp á hól“.

 

 

Einmánaðarvísur

Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:

Breiðhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum trjánna.
Logar sól um land að nýju,
leikur glatt í straumi ánna.
 
Langhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinunum.
Í morgunsárið, eftir níu,
augun þorn’ á steinunum.
 
Draghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum.
Andinn verður ör að nýju
öllum gleymir meinum.
 
Skammhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á grein,
hverja sólar gleypir glýju,
gleðin ríkir ein.
 
Úrkast:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brumin.
Frjóin vori fagna nýju
frá sér numin.
 
Dverghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum.
Dagsins sjá þau dýrð að nýju
en deyja sum.

 

Jólakveðja 2013

Heimi forðum hinstu speki Hávi kvað:

Ef rekur menn á rangan stað

reynist best að hjálpast að.

 

Ofurgræðgi einkavegi út af fór.

Enginn syngur einn í kór.

Með öðrum verður maður stór.

Vinarþel er fundið fé

sem forðar oss frá grandi.

Óskum þess að ætíð sé

allt í góðu standi.

 

Gefðu þjáðum þelið hlýtt,

þerra sárastrauma

og þá lifir upp á nýtt

alla þína drauma.

Ef reynist þungur raunakross

að rata veginn sinn,

þá kærleikur, að kenna oss,

kemur sterkur inn.

 

Á berum orðum, sem bjarta höll,

byggjum okkar hug.

En baktalsvammið! Veljum öll

að vísa því á bug.

Heyrist sagt að sækist enn

sér um líkir.

Þar sem ganga góðir menn

gleðin ríkir.

 

Jafnt á árið jöfnum út

jólasiðinn:

Argan leysa innri hnút

og elska friðinn.

Er gæfan horfin, grafin virðing, gleðin köfnuð?

Hvar sem tekst að tvístra söfnuð

tryggjum mannúð, frelsi, jöfnuð.

 

Ef að bara endurnýtum ástarvöttin,

upp þá lýsum allan hnöttinn

og enginn fer í jólaköttinn.

 

Vér hrægammar

VÉR HRÆGAMMAR

Bjarg-Ráður

hefur látið boðin

út ganga:

 

„Hrægammar

mati Forsendu-Brest

af sjálfheldufé

afdala“.

 

Ég er hrægammur.

 

Sit yfir

minni séreignarhjörð

í þokuslæðingi

og degi tekið að halla.

 

Framundan

er Vogunarskarð

til friðsælli byggða

og í boði

að tína í sig á leiðinni

einn og einn skrokk

 

af eigin fé.

 

„Hrægammar

skulu ekki fá

að kemba hærurnar.“

 

Fundinn fjársjóður

Á sunnudaginn var Anna María að grúska eitthvað í skápum og kössum með gömlu dóti. Svo kemur hún, þessi elska, og réttir mér samanbrotið, línustrikað blað sem hún hafði fundið. Þegar ég brýt sundur blaðið þekki ég strax rithöndina hans pabba heitins. Og viti menn. Á blaðið hefur hann skrifað mér kveðju í tilefni fertugsafmælis míns, fyrir hönd þeirra mömmu. Kveðjan er fallegt ávarp og fjórar frumsamdar vísur, sem ég var búinn að steingleyma að væru til, og eru mér því sannarlega fundinn fjársjóður. Vísurnar eru svona:

Íþróttunum alla tíð,

einkum snjall í körfu.

Finnur lausn í harðri hríð,

hugarflugi djörfu.

 

Hesta sína heiðra kann,

hátt á fjöllum ríður.

Á fullum kostum flengist hann,

fjörðið ólgar, sýður.

 

Áfram lítur æfileiðar

undralönd.

Tíðast hefur tvo til reiðar,

tölt við hönd.

 

Farsæll hefur fjóra tugi

farið keikur.

Enda er hann ofurhugi,

aldrei smeykur. 

 

Annars gáfu foreldrar mínir mér hestastein í fertugsafmælisgjöf, stuðlaberg úr Hrepphólum  sem stendur í hlaðinu og festur hefur verið við járnhringur – og svolítill áletraður málmplatti með tilefninu og tveimur vísum, þar sem minnst er fyrsta alvöru gæðingsins sem ég eignaðist og geymi alla tíð næst hjarta:

Átti Hreimur hylli í för,

hratt þó steymdu árin.

Ennþá dreymir ólgufjör,

aldrei gleymist klárinn.

 

Vítt um landið velja má

vegi margrar gerðar.

Leystu hestinn, leggðu á,

löngun er til ferðar.

 

Pabbi kunni sannarlega að setja saman vísur – og hefði gjarnan mátt gera meira af því.

Frónar versta stjórn

Það var allra fremst í forgangsröð verkanna hjá núverandi ríkisstjórn að afturkalla sérstakt auðlindagjald, fyrir leyfi til að nýta sjávarþjóðarauðlindina. Þegar fyrsta fjárlagafrumvarp stjórnarinnar lítur dagsins ljós, með blóðugum niðurskurði á mörgum sviðum, verja talsmenn hennar aðgerðirnar með orðunum: „Það þarf að forgangsraða“. Það vita allir að staðan er erfið og nauðsynlegt er að forgangsraða. Og pólitík snýst mikið til um það hvernig er forgangsraðað. Þessi ríkisstjórn forgangsraðar svona:

Þjónar hér, af þjóðarauð,

þykkast skera ríkum brauð.

Mammon ver, og færir fórn

Frónar versta ríkisstjórn.