Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,
háð eru víða stríðin.
Varnir bresta börnum;
bani, ótti, flótti
– vonir þeirra þverra –
Þjóðum skömm er rjóða
æskublóði, í æði
afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju
eru margir argir
af kjörum sínum, kveina,
komið rof í hófið.
Væri flott ef fleiri
fyndu göfuglyndið,
gleðistundir góðar
gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,
geisla börn í veislum.
„Sönn er jólasælan“,
syngja Íslendingar.
En ekki allir hlakka
ósköp til, þó dylji.
Til einhvers auður þjóðar
ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara
heims, má ekki gleyma
að verma opnum örmum
óttaslegna á flótta.
Gæðastundir gleðja,
gefum þær af kærleik.
Um land og lög við sendum
ljúfar friðardúfur.

 

 

Skáldið frá Kirkjuhóli

Í Norðlingabók Hannesar Péturssonar, seinna bindi (Bjartur/Bókaútgáfan Opna, 2017) er skemmtilegur, stuttur þáttur um Stefán Guðmundsson, betur þekktan sem Stephan G. Stephansson. Hannes segir:

Víðimýrarsel mun vera eina býlið á Íslandi sem tengist Stephani G. í vitund alls þorra manna. […] Mjög fáir munu þeir sem renna þá huganum til Kirkjuhóls, fæðingarstaðar skáldsins, nokkru sunnar og neðar í sveit. Kirkjuhóll virðist nær að öllu horfinn úr sögu Stephans (bls. 125).

Foreldrar Stephans, Guðbjörg Hannesdóttir frá Reykjarhóli þar í sveit og Guðmundur Stefánsson frá Kroppi í Eyjafirði fengu ábúð að Kirkjuhóli árið 1852 og bjuggu þar í 8 ár, til 1860, en eftir það á Syðri-Mælifellsá til 1862 og Víðimýrarseli til 1870. Þá fóru þau búferlum, fyrst norður í Bárðardal og svo vestur um haf þremur árum seinna.

Stefán fæddist á Kirkjuhóli 1853 og ólst þar upp fyrstu 7 ár ævinnar en í Víðimýrarseli frá 10 til 18 ára aldurs.

Frá Arnarstapa yfir sé
örsmátt Sel, í skjóli.
Sterkan fléttuðu Stephan G.
stráin á Kirkjuhóli.

 

 

Jólakveðja 2018

Ósköp vesæl vaknar sól,

varla lyftir brúnum.

Niðurlút, og nyrst við pól

norpar, mörkuð rúnum.

Og dagur eitthvað dundar sér,

en dregur stöðugt ýsur.

Í svefnrofum á fleti fer

með fornar rökkurvísur.

Þá birtan heims á hjara dvín

er huggun landsins börnum

að máninn hátt á himni skín

með höfuðkrans úr stjörnum.

Þar geislar bregða létt á leik,

því ljóst að ei er köfnuð

trúin, þó að von sé veik,

á visku, frið og jöfnuð.

Mín ósk er sú, það eitt er víst,

enn þó bregðist skjólin,

að fái kærleikslogi lýst,

og ljómi heims um bólin.

 

Hrímnir

Flestir hugsa margt við áramót,
minnast þess sem færði ást og gleði.
Kannski líka kemst á hugann rót
kvikni það, sem betur aldrei skeði.
Munum þá að gera bragarbót
og bera sig, því lífið er að veði.

Í mysu lífsins maðkur víða sést,
manninn, svik og pretti, oft skal reyna.
Það er sem blessuð skepnan skilji flest,
skynji hugann, engu má þar leyna.
Það veit sá sem eignast úrvalshest
að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.
Þín kroppuð tótt nú himni móti starir
sem áður horfði frán um fjallahring.
Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,
ég aldrei framar óð minn til þín syng
og engin von með hneggi þú mér svarir.

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls
ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:
„Viltu með mér núna, nýr og frjáls,
njóta listagangs, í fullum burði“?
Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls
að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Jólakveðja 2017

Drungalegur dagur skammur
deyfir lund og vinnuþrek.
Niður bælir næturhrammur,
niðasvartur, eins og blek.
Huggun er að ljósið lifir,
lengir göngu sína brátt,
vakir lífi öllu yfir,
eflir von og kærleiksmátt.

 

Jólakveðju ég vil senda;
jarðarbúar öðlist frið!
Þeim er eitthvað illt kann henda,
af öllum mætti veitum lið.
Það er list að þola saman,
þraut fær traustur vinur eytt,
maður er víst mannsins gaman,
þó margur hafi rjómann fleytt.

 

Glíman við tungumálið

Hvað annað sem um rímur og rímnahætti má segja eru bragarhættirnir hreint afbragð til að æfa sig í meðferð tungumálsins, til að efla orðaforða, sníða hugsun sinni stakk og koma frá sér, þegar best lætur, meitluðum, vitrænum hendingum. Sléttubönd eru hvað vandmeðfarnasti bragarhátturinn, en lesa má slíkar vísur jafnt aftur á bak sem áfram án þess bragarhátturinn riðlist. Best er ef merkingin snýst við, eftir því hvorn veginn er lesið. Slíkar vísur eru kallaðar „refhverf sléttubönd“. Meðfylgjandi eru nokkrar hringhendar sléttubandavísur, jafnvel dýrari, og þó skáldskapurinn í þeim sé ekki rishár eru þær afrakstur skemmtilegrar glímu höfundarins við tungumálið. Og það er einmitt galdurinn: Að glíma við tungumálið, svo það deyi ekki átakalaust!

Halda áfram að lesa

Vigdís ársgömul – Kveðja frá afa

Liðið núna eitt er ár,
ævin varla hafin.
Bæði gefið bros og tár,
blíðu og kærleik vafin.
Lýsa upp heiminn ljósar brár,
ei lítið montinn afinn.

Vinna munt þú marga dáð,
málin stöðugt ræðir.
Yndi hefur um þig stráð,
ömmuhjörtun bræðir.
Um fingur þér, sem fínan þráð,
foreldrana þræðir.

Óskrifað er æviblað,
enn þarf vernda haginn
svo dembir þér ekki á dýpsta vað,
af dæmum lærist aginn.
Vigdís, þú töltir tign af stað!
Til hamingju með daginn!

Við áramót 2016-2017

„Nú árið er liðið í aldanna skaut“
og aldrei það komi til baka
með Icehot, sem Borgun til skyldmenna skaut,
í skjólin þeir auðmagni raka,
og forsætisráðherrann flagsækið naut,
fnæsandi, siðspillt og gaga,
vort Alþingi, hæstvirt, er lægst núna laut,
samt ljóst að af miklu’ er að taka,
því lífeyrisfrumvarp á launþegum braut
sem lítt höfðu unnið til saka.

 

Nýtt ár er í vændum, og útlitið svart,
því afturhaldsstjórn er í pípum
sem gefa mun almenningseigurnar skart
til útvaldra’, í passlegum klípum,
og auðmönnum hleypa á fljúgandi fart,
þessum forhertu, siðlausu týpum,
en sjúklingur! fljóta til feigðar þú þarft
í fenjum með botnlausum dýpum.
Ég játa, mér finnst þetta helvíti hart.
Til heilbrigðra meðala grípum!