Dagsins önn

Í dagsins önn er ýmislegt að bralla,
iðjar hver að sínu skylduverki.
Um veikleikana sjaldan sjáum merki,
á snúning „vélin“ stöðugt látin malla.

 

Á glansmyndina fólks má ekki falla,
fyrirmyndarþegn, og landsins erki-
týpa er hinn staðfasti og sterki,
stofuprýði, laus við útlitsgalla.

 

Þannig mynd við teiknum, tæra, stillta,
tímalausa vídd í skýrum ramma
og litavalið feiknvel fer við normin.

 

Stundum verða glímur bræðrabylta
og blómin lifa eina stund og skamma.
Er lognið fyrir eða eftir storminn?

 

Áramótin 2019-2020

Þetta var aldeilis úrvalsgott ár þegar litið er inn á við – á fjölskylduna. Allir við heilsu og hamingju, þó auðvitað hrjái einn og einn einhverjir kvillar, eins og gengur. En þegar hismið er greint frá kjarnanum þá búum við hjónin við sannkallað barna- og fjölskyldulán. Það er ekki sjálfgefið að yngsta barnið af sex nái þrítugsgsaldri án stóráfalla í fjölskyldunni. Fyrir það ber að þakka. Og vona það besta. Elska og njóta.

Undirritaður komst loks í langþráða aðgerð; hnjáliðsskipti, og allt gengur í framhaldinu að vonum skv. bestu manna yfirsýn. Vonir standa til að ganga og hreyfing verði í boði næstu árin með þvífylgjandi heilsueflingu. Annars er mesti spenningurinn nú hvort nýja hnéð þoli ekki örugglega útreiðar a.mk. jafnvel, og helst betur, en hið gamla og ónýta gerði ágætlega. Anna María er stálslegin; þó hún bíði líka eftir hnjáliðsskiptum á báðum og sé fyrir vikið hætt að hlaupa, þá gengur hún úti í náttúrunni af miklum móð, og lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna. Við þurftum að láta tíkina Freyju fara á vit feðra sinna og mæðra og söknuður er að henni, elskulegt og yndælt kvikindi.

Úr samfélaginu eru verri tíðindi. Sívaxandi misskipting í okkar ríka samfélagi með alvarlegum afleiðingum – eins og eilífum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu – er mikið áhyggjuefni. Og sífellt koma upp á yfirborðið ný og ný spillingarmál. Allir gerðu sér svo sem grein fyrir viðvarandi spillingu: hið gamla helmingaskiptakerfi stærstu stjórnmálaflokkanna var grundvallað með fullveldinu og ól þá spillingu sem hefur verið landlæg allar götur síðan; og þá meðvirkni sem byggst hefur upp meðal þjóðarinnar. Allt of margir hafa litið, og líta enn, undan eða með velþóknun á skattsvikara og gráðuga undanskotsmenn – „vinnukonuútsvar“ stórgróssera í gegnum tíðina, aflandsreikninga nútímans – og náin faðmlög stjórnmála og viðskiptalífs sem kristallast í formönnum tveggja stjórnmálaflokka, beggja fyrrum forsætisráðherra, og svo núverandi sjávarútvegsráðherra. Að ekki sé talað um dómstólana og allt hitt svínaríið.

Vonbrigði ársins eru Vinstri grænir. Björt framtíð og Viðreisn slitu stjórnarsamstarfi þegar spilling dómsmálaráðherra (tveggja fremur en eins) Sjálfstæðisflokksins opinberaðist. Vinstri grænum dettur slíkt ekki í hug en láta sér vel líka að innanbúðarmaður í Samherja, gerspilltu fyrirtæki, sé ráðherra sjávarútvegsmála. Þeir láta sér vel líka að vinna með manni sem nýtti sér innherjaupplýsingar og seldi í „sjóði 9“ korter í hrun og sagði um þann gjörning:  „…ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til …“. Auk þess að sitja á skattaskjólsupplýsingum og fá lögbann dæmt á þann fjölmiðil sem ætlaði að birta upplýsingarnar fyrir kosningar. Svo eitthvað sé nefnt. Í ofanálag hefur Vgf svikið öll kosningaloforð sín er vörðuðu jöfnun lífskjara. Skömm að því.

Sendi „hugheilar“ óskir um gleðilegt nýtt ár.

Gleði og farsældar fjölskyldan naut,
fyrir það bljúgur nú þakka.
Hamingja, ekki neitt óþarfa skraut,
til áranna næstu ég hlakka.

 

Sparibúið á spillingarbraut
speglar sig broshýrt á þingi
viðskiptaliífið og valdstjórn, með graut
sem vonar að þjóðin svo kyngi.

 

Nú árið er liðið og engu ég skaut
upp hér að þessu sinni
femur en áður. Frá mér nú þaut
ein flísin af ævinni minni.

 

 

 

Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,
háð eru víða stríðin.
Varnir bresta börnum;
bani, ótti, flótti
– vonir þeirra þverra –
Þjóðum skömm er rjóða
æskublóði, í æði
afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju
eru margir argir
af kjörum sínum, kveina,
komið rof í hófið.
Væri flott ef fleiri
fyndu göfuglyndið,
gleðistundir góðar
gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,
geisla börn í veislum.
„Sönn er jólasælan“,
syngja Íslendingar.
En ekki allir hlakka
ósköp til, þó dylji.
Til einhvers auður þjóðar
ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara
heims, má ekki gleyma
að verma opnum örmum
óttaslegna á flótta.
Gæðastundir gleðja,
gefum þær af kærleik.
Um land og lög við sendum
ljúfar friðardúfur.

 

 

Skáldið frá Kirkjuhóli

Í Norðlingabók Hannesar Péturssonar, seinna bindi (Bjartur/Bókaútgáfan Opna, 2017) er skemmtilegur, stuttur þáttur um Stefán Guðmundsson, betur þekktan sem Stephan G. Stephansson. Hannes segir:

Víðimýrarsel mun vera eina býlið á Íslandi sem tengist Stephani G. í vitund alls þorra manna. […] Mjög fáir munu þeir sem renna þá huganum til Kirkjuhóls, fæðingarstaðar skáldsins, nokkru sunnar og neðar í sveit. Kirkjuhóll virðist nær að öllu horfinn úr sögu Stephans (bls. 125).

Foreldrar Stephans, Guðbjörg Hannesdóttir frá Reykjarhóli þar í sveit og Guðmundur Stefánsson frá Kroppi í Eyjafirði fengu ábúð að Kirkjuhóli árið 1852 og bjuggu þar í 8 ár, til 1860, en eftir það á Syðri-Mælifellsá til 1862 og Víðimýrarseli til 1870. Þá fóru þau búferlum, fyrst norður í Bárðardal og svo vestur um haf þremur árum seinna.

Stefán fæddist á Kirkjuhóli 1853 og ólst þar upp fyrstu 7 ár ævinnar en í Víðimýrarseli frá 10 til 18 ára aldurs.

Frá Arnarstapa yfir sé
örsmátt Sel, í skjóli.
Sterkan fléttuðu Stephan G.
stráin á Kirkjuhóli.

 

 

Jólakveðja 2018

Ósköp vesæl vaknar sól,

varla lyftir brúnum.

Niðurlút, og nyrst við pól

norpar, mörkuð rúnum.

Og dagur eitthvað dundar sér,

en dregur stöðugt ýsur.

Í svefnrofum á fleti fer

með fornar rökkurvísur.

Þá birtan heims á hjara dvín

er huggun landsins börnum

að máninn hátt á himni skín

með höfuðkrans úr stjörnum.

Þar geislar bregða létt á leik,

því ljóst að ei er köfnuð

trúin, þó að von sé veik,

á visku, frið og jöfnuð.

Mín ósk er sú, það eitt er víst,

enn þó bregðist skjólin,

að fái kærleikslogi lýst,

og ljómi heims um bólin.

 

Hrímnir

Flestir hugsa margt við áramót,
minnast þess sem færði ást og gleði.
Kannski líka kemst á hugann rót
kvikni það, sem betur aldrei skeði.
Munum þá að gera bragarbót
og bera sig, því lífið er að veði.

Í mysu lífsins maðkur víða sést,
manninn, svik og pretti, oft skal reyna.
Það er sem blessuð skepnan skilji flest,
skynji hugann, engu má þar leyna.
Það veit sá sem eignast úrvalshest
að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.
Þín kroppuð tótt nú himni móti starir
sem áður horfði frán um fjallahring.
Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,
ég aldrei framar óð minn til þín syng
og engin von með hneggi þú mér svarir.

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls
ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:
„Viltu með mér núna, nýr og frjáls,
njóta listagangs, í fullum burði“?
Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls
að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Jólakveðja 2017

Drungalegur dagur skammur
deyfir lund og vinnuþrek.
Niður bælir næturhrammur,
niðasvartur, eins og blek.
Huggun er að ljósið lifir,
lengir göngu sína brátt,
vakir lífi öllu yfir,
eflir von og kærleiksmátt.

 

Jólakveðju ég vil senda;
jarðarbúar öðlist frið!
Þeim er eitthvað illt kann henda,
af öllum mætti veitum lið.
Það er list að þola saman,
þraut fær traustur vinur eytt,
maður er víst mannsins gaman,
þó margur hafi rjómann fleytt.