Úr dagbókinni 2019

Úr dagbókinn 2019. Safnið telur 175 vísur:

04.01.19

Hvað boðar gleði gamlárskvölds?
Gæfu og lífsfylli?
Já, alltaf þegar arfa og hölds
ekkert kemst í milli.

07.01.18

Það er kominn tími til
að taka niður skrautið.
Um hjalla, sléttur, hæðir, gil
hefst nú daglegt stautið.

Þegar kaldur kreppir skór
og kyndir illa mórinn
hjálpar oss, í anda frjór,
orkumálastjórinn.

09.01.19

Miðflokkurinn þjófstartaði á Klausturbar árlegum Bessastaðafagnaði forseta lýðveldisins fyrir Alþingi:

Þeir eltu hann á tveggja hjóla hreinum
þó heldur mikið ískraði í bremsum
en Sigmundur, hann sat á kolli einum,
og sá ei fyrir leynimakk með gemsum.

Á hreinum kostum félagarnir fóru,
í fjöru sælands þótti gott til veiðar.
Upp á klakkinn hengdu litla hóru
sem heldur þótti vera treg til reiðar.

Nú velti sér að urta illa þokkuð,
með ógnarskrækjum, sem í hlustir stungu.
Af drukk úr kerjum víðum var ei nokkuð
velfært, utan karpið meins af tungu.

Svo kom að því að yfir brögnum birti,
bakfalla og hláturrokusnerra
er dró til stól, og öðrum fastar yrti
utanríkismálasendiherra.

Þá var eins og blessuð skepnan skildi,
skjallið allt, og þrútið höfuð reisti.
Á Klausturbarnum var það mesta mildi
að Miðflokkurinn sjálfur upp sig leysti.

20.01.19

Hvorki dugar vol né víl
þó vetur ríði í garð
og hvergi sjái í dökkan díl
nema dálítið lambasparð.

21.01.19

Starfsmaður krafðist þess að málverk Gunnlaugs Blöndal af nakinni konu yrði fjarlægt af veggjum Seðlabankans:

Berandi brjóstin þær grafa
bannhelgi feðranna. Krafa
um líkamlegt frelsi.
En er listin í helsi,
fyrst nekt má þar helst ekki hafa?

22.01.19

Nú er frost á Fróni,
sem fanna klæðist serk.
Sígur senn að nóni,
svalans tökin sterk.

23.01.19

Það var ekki verið að spyrja fólk um afstöðu þess til útfærslna. Aðeins hvort fólk væri hlynnt eða andvígt veggjöldum.

Í vegagerð virðið ei lagði,
þar virðist allt reiknað skakkt,
um veggjöldin þingheimur þagði
í þvældri kosningadragt.
Á snöggu augabragði
álit nú fram hefur lagt
einhver sem áður sagði:
„Ekki á minni vakt“.

30.01.19

Allt að gerast í höfuðborginni:

Í Reykjavík eru Klausturkráin
og kaupaukans helgu vé.
Ó, borg mín, þar sem blessuð stráin
breytast í pálmatré.

01.02.19

Ragnar og Bryndís eiguðust son í dag. Hann er níunda undur veraldar – níunda barnabarnið:

Í hendur okkar lífið lagði rós,
ljúfur ómar hjartastrengur.
Í morgun fyrsta dagsins leit nú ljós
lítill, undurfagur drengur.

03.02.19

Mér ungum þótti allra best
og ennþá gleði veitir
að teygja vakran viljahest
vítt um fagrar sveitir.

04.02.19

Andlitshreina eygja má
upp á steini karla.
Jeminn eini, JBH
jörðu greinir varla.

05.02.19

Í logni blíðan baðar tind
með blautum himnasvampi.
Þegar leysir ljúfan vind,
logar þerrilampi.

06.02.19

Formaður Miðflokksins hafði sínar skýringar á Báru með upptökutækið:

Bára hefur botni náð,
beiskur eitursveppur,
illum svikahröppum háð,
harðsvíraður leppur.

Leikur þeirra laumuspil
og lævíst njósnakerfi,
að sýnast erlend. Um það bil
öruggt dulargervi.

07.02.19

Við það yndi að þó dyndi
og yfir hryndi þil.
Aftur myndi upp í skyndi,
ekkert fyndi til.

14.02.19

Að ‘drepi mann of mikill asinn’
er aðal nútímafrasinn.
Til að sporna við því
spái ég í
að liggja í bælinu, lasinn.

Nú er það náðugt hjá blókinni,
nýtur sín alveg á brókinni,
kannski svolítið spes
en af spenningi les
í Íslensku orðsifjabókinni.

Er það ekki aðalaðferðafræðin að gefa erlendum auðhringjum afslátt af öllu mögulegu hérlendis, í nafni atvinnuuppbyggingar og gott ef ekki byggðastefnu? Milljarðahundruð streyma nánast skattfrjáls úr landi fyrir nokkur störf. Og mengun. Nú eru það íslensku firðirnir sem gefa á norskum laxeldisauðhringjum:

Sannleikur helvíti harður!
Vor náttúruauðlindaarður
er útvöldum fáum
leikur að stráum
en vor skrælingjahlutur er skarður.

23.02.19

Ólafur Ís. og Karl Gauti gengu (loksins) í Miðflokkinn:

Af bullubulli ríkir.
Við blinda augað kíkir.
Ganga í takt.
Gildismat skakkt.
Sækjast sér um líkir.

24.02.19

Konudagurinn er í dag:

Karlrembuleg konudagsvísa

Á mig leikur taktfast tif,
tímann bleikan lita.
Í mér kveikir Adamsrif
ástarveikishita.

27.02.19

Miðflokks hvítu merarnar
mikið virðast lasnar.
Þessir helvítis hálfvitar
haga sér líkt og asnar.

Vigdís Hauks. var ekki alveg með það á hreinu hvort væri vinnufriður eða ekki í borgarstjórn:

Valdist í borgarstjórn versta lið
og vinnufriður því enginn
en við höfum góðan vinnufrið,
vináttu- bindum þvenginn.

12.03.19

Stórpólitísk skipan dómara í Landsrétt úrskurðuð ólögmæt af Mannréttindadómstól Evrópu. Ríkisstjórnin brest við niðurstöðunni að vonum:

Stjórnin daginn glaðan gerir sér
í geislaryki þéttu, handan tómsins.
Snýr bökum saman, enda ljóst hún er
ósammála niðurstöðu dómsins.

13.03.19

Ekkert bítur á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra, enda veit hún betur en aðrir:

Dómstóla skal vera dómframkvæmd fróm,
dómsvirðing þar á hangir.
Þann kvað upp ráðherra dómsmála dóm
að dómarnir séu rangir.

Dómsmálaráðherrann var látinn „stíga til hliðar“ tímabundið til að „skapa vinnufrið“:

Þróast margt á verri veg,
valt nú ein úr sessi.
Ruðningsáhrif alvarleg,
Ísland guð því blessi.

18.03.19

Börn fá pítsu að borða ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli“:

Vitiði, þannig er það,
þvílíkt spennandi að
fá pizzu að borða
ef frá uppreisn skal forða.
Í heiminum brotið er blað.

28.03.19

WOW fór á hausinn, sem fyrirséð var, og hófst þá upp „hjálpræðiskór“ félagsins á Netinu:

Kross- í hernum hyllir láf,
Hjálpræðis- fólk syngjandi.
Aðrir eru Vottar Wow
vinabjöllum klingjandi.

07.04.19

Litli ljúfur, yngsta barnabarnið, fékk nafnið sitt í gær. Hann heitir Hilmir Ragnarsson. Ég leyfði mér að tala til hans að lokinni athöfn, svo:

Byggir traustu bjargi á,
berð með sóma nafnið þitt.
Lífið ákaft lofa má,
lánar okkur gullið sitt.

13.04.19

Á efstu hæð hótels í Þórshöfn:

Kátur út um gónir gluggann,

gestur á sjöttu hæð.

Út siglir sálarduggan,

svona ei við mig ræð …

 

19.04.19

Rifjað var upp, í tengslum við umræður um 3. orkupakkann, að Sigm. Davíð, þá forsætisráðherra, hafði setið á tali við Cameron forsætisráðherra Englands og brallað um orkusölu gegnum sæstreng:

Sátu tveir á tali;
Tjallinn Kameron
og
Simmi orkusali.

21.04.19

Útí garði fagur fugl
fyllist innri gáska,
hið sama gamla sumarþrugl
syngur hverja páska.

25.04.19

Sumardagurinn fyrsti

Færir sumar okkur yl,
ekki regni hreytir.
Nærir sálu, trauðla til
trega stormur þreytir.

En oftar á þessi lýsing betur við:

Þreytir stormur trega til,
trauðla sálu nærir.
Hreytir regni, ekki yl
okkur sumar færir.

29.04.19

Vorið mér um vanga strauk,
vakti góðar kenndir.
Í minninganna munabauk
morgunstundin lendir.

03.05.19

Í nýjasta hefti Sónar rifjar Þórður Helgason upp þessa vísu Páls Ólafssonar, sem sögð er hafa farið á flug árið 1896:

Þegar mín er brostin brá,
búið Grím að heygja,
Þorsteinn líka fallinn frá
ferhendurnar deyja.

Þarna eru Páll sjálfur, Þorsteinn Erlingsson og annað hvort Grímur Thomsen eða Steingrímur Thorsteinsson sagðir síðustu varðmenn ferhendunnar.

Þessi visa kallaði á mikil viðbrögð næstu ár og áratugi, þar sem henni var andmælt; ferhendurnar myndu sannarlega lifa. „Yngsta afkvæmi vísunnar eftir Pál … birtist árið1998“ segir Þórður (Són, 16:2018, bls.116).

Hér kemur þá örverpi til viðbótar, í afturúrkreistingi þessum:

Ei strengur brestur stuðlamáls,
þó stefja kyrrist duna
því glæður Þorsteins, Gríms og Páls,
geyma ferhenduna.

Alltaf vorar að lokum:

Laufið springur óðum út,
ásinn glingri klæðist.
Fuglinn syngur bragarbút,
blærinn kringum læðist.

23.05.19

Leikur í stráum ljúfur blær,
logi á bláum grunni.
Björkin mín háa vaggar vær,
vakinn úr dái runni.

24.05.19

Það er bæði ljúft og skylt að þakka góðar afmæliskveðjur.

Ástar nýt, víst á ég mér
ógnarsterka keðju.
Þúsundfalt ég því vil hér
þakka vinarkveðju.

25.05.19

Eykst með aldrinum vægi
andans, og frá mér því bægi
fánýtu prjáli.
Finn hverju máli
lausnir í sólarlagi.

Mætt’ ég lífi lif’ á ný
líkast myndi breyta
mörgu. En setja aflið í
að Önnu minn’ að leita.

Þrátt fyrir ljúfar sólskinsstundir er ekki allt sem sýnist, og mörg er raunin …

Lífs í gjólu lítið skjól
logi sólar hefur.
Valds í ól hann allur kól,
einn í bóli sefur.

10.06.19

Barnabarnið okkar, Soffía Sif Árnadóttir, fermdist í Þorlákskirkju í dag. Hún fékk kveðju frá afa:

Stöðugt, eins og tímans tif,

tikkar hjólið lukku

er molum bætir Soffía Sif

í sína gullakrukku.

 

13.06.19

Forsetar á ferð við sporð Sólheimajökuls. Fylgdarlið á vappi um allar koppagrundir:

Ekkert nýtt mun undir sól,
þó undrin geymi vengið.
Það er eins og út úr hól
álfur hafi gengið.

Meðan beðið var eftir ferðamannahópnum sat ég í rútunni og náði sjálfu af mér sofandi:

Inni í bílnum alvarleg

og ágeng glóbal vorming

svo þessa vísu orti eg

algerlega dorming.

 

Fyrirsögn af RÚV.IS:

Refsivert að bjarga fólki af Miðjarðarhafi“

Ítalirnir út úr kú

inn’í sínum þrönga hólki.

Raunalegt ef reynist nú

refsivert að bjarga fólki.

 

16.06.19

Lúsmý olli skaða víða, ekki síst í sumarbústaðalöndum:

Allsbert fólk í erg og gríð

úti, í sumarfríi.

Yndisstundir, ár og síð,

á með lúsamýi.

 

20.06.09

Ástandslýsing:

Blýþungt lognið úti er,

óttublærinn feigur.

Inni þögnin eyrun sker.

Eg er hvergi deigur.

 

30.06.19

Veðurlýsing:

Gott er veður, gósentíð,
gleði má ei dylja.
Golan við mig gælir blíð,
geislar sólar ylja.

03.07.19

Barst hjartnæmt bréf, frá Elizabetu vinkonu minni, og komst við að lesa um föður hennar, „áður en hann var ótímabær“ og „áður en hann gaf upp drauginn“. Það er reyndar umhugsunarvert að hann skyldi gefa upp drauginn, og varpar nokkrum skugga á minninguna. Því draugar eiga allt undir dul sinni og uppgefinn draugur er því eins berskjaldaður og keisarinn nakinn … En takk fyrir bréfið, kæra Elizabeth …

Hversdagslífið lofs er vert,
lukku- sterk er taugin,
en það er spurning, þá fer hvert
þegar gef upp drauginn?

08.07.19

Heilræðavísa:

Ef setur þig háan á hest,
hafandi mikið, þarft mest!
þá átta- ert villtur,
alveg gjörspilltur.
En batnandi manni er best.

Stjórnmálaskörungur“ dagsins …

Talfærið ljómandi liðugt
við loforðin, jafnvel er sniðugt
hve margt frá í gær
nýja merkingu fær.
Og sumum finnst þetta siðugt!

Vísnagerðin …

Vísnagerð lokkar mig löngum
og ég laumast í slíkt eftir föngum.
Reyn’ að hitta í liðinn,
finna ljóðstafakliðinn,
en allt er þó tekið með töngum.

14.07.19

Framkvæmdaveður“ í júlí:

Mínúturnar safnast saman,
senn því kemst í feitt.
Hef af bæði gagn og gaman
að gera ekki neitt.

Það þótti, í gær, fyrir gróðurinn,
gott ef ‘ann væta myndi.
Nú er af mesti móðurinn,
útaf mannskaða regni og vindi.

14.08.19

Afmælisdagur eiginkonunnar:

Öðrum konum af hún ber,
ég allt á henni’ að þakka.
Til fleiri ára í för með þér
feikna mikið hlakka.

15.08.19

Við margt er að glíma:

Ef kreist fram gæti Kvasisblóð
og kynt upp á mig trúna,
mynd’ ég snöggvast yrkja óð,
ódauðlegan, núna.

16.09.19

Gleðistefin geyma skalt,
sem gull í hnefa þínum,
þó gengi bréfa gerist valt
í gömlum sefaskrínum.

17.08.19

Hinsegin dagar …

Fjölbreytninni fögnum við,
í friði hver má sýsla.
Ganga saman, hlið við hlið,
hundur, köttur, mýsla.

22.08.19

Mikil umræða var um ofurlaun sveitarstjóra á Íslandi, ekki síst í örsamfélögum, þar sem yfirmennirnir slógu út borgarstjórann í Reykjavík, New York og fleiri stórborgum úti í heimi, ásamt æðstu embætismönnum ríkisins:

Hvergi hefur fundist fé
til fátækra í raunum
því tryggja ber að sómi sé
að sveitarstjóralaunum.

Trump ætlaði að kaupa Grænland, rétt sisvona í gegnum Twitter:

The future there will be just fine and
our freedom and greatness will shine grand
for the right fee.
Folks, you’ll see!“
En það gefur á bátinn við Grænland.

23.08.19

Forsætisráðherrann vildi þegar allt kom til alls gjarnan hitta Mike Pence:

Áður talið ekki sjens
að ‘ún fólann hitti
en föl er núna fyrir pence,
fyrir neðan mitti.

25.08.19

Fyrsta haustlægðin kynnti sig í spákortum veðurfræðinga:

Sumars lending síst er mjúk,
með snerru kemur haust.
Skella mun á feikna fjúk
fyrirvaralaust.

Í garðinum drekkur gróður af stút
með góðri iðsvörun
og limgerðið græn’ hefur gefið út
gula viðvörun.

Fjöldi fólks hellir úr koppum sínum í Málvöndunarþættinum á Fjasbók:

Málvöndun er mikið hér af mörgum stunduð.
Oft er hún þó illa grunduð.

26.08.19

Allt ætlaði að verða vitlaust þegar borgarfulltrúi tjáði þá skoðun sína að minnka ætti kjötframboð í mötuneytum skólanna, jafnvel að útiloka það alveg:

Það á að gefa börnum brauð,
blómkál, skyr og rjóma,
fisk og ávöxt, feitan sauð
svo fullorðnist með sóma.

28.08.19

Þingið kom saman í dag eftir sumarfrí:

Þýtur í runni, þrútið loft.
Það er ekki lengur gaman.
Þyngsli í höfði, þreyttur oft.
Þingið aftur komið saman.

Sigmundur Davíð gerði enn einu sinni í buxurnar með yfirlýsingum sem stönguðust með öllu á við gjörðir hans í forsætisráðherratíð sinni:

Í andlegum fangbrögðum flæ drenginn,
fíflið hann Cameron blekki.
Ég samþykkti’ að leggja sæstrenginn
til að sýna það hentaði ekki“.

Svo kom hann í beina útsendingu að ráðleggja Bretum í Brexitmálum:

Um brexit veitti Bretum ráð:
Í beinni útsendingu
strunsið út og þæfið þráð
í þykka hrútskýringu.

Dagurinn endaði þó vel:

Finn draumaheima þýðan þyt
þelið sætta.
Með gleði í hjarta geng á vit
góðra vætta.

29.08.19

Mannskepnunnar margt er böl,
Mammonsþræll í festi,
stutt í öfga, freistniföl,
með fordóma og lesti.

12.09.19

Lagðist undir hnífinn og fékk viðgerð á hné:

Nýtt á fótinn fékk ég hné,
fyrir þetta gamla.
Ætlast til þess, eftir hlé,
mér ekkert muni hamla.

Þessi lýsing getur átt við ýmsan nú á dögum:

Vitnar mest í sjálfan sig,
svindilbrask og lygi,
orðflóð hefst á hættustig,
sem hundruð belja mígi.

Eitt helsta áhugamál íhaldsins í áratugi er orðið að sérstöku baráttumáli Framsóknar og Vinstri grænna:

Framsókn ávallt félagsvæn,
sér finnur hirslur digrar,
og veggjöld orðin vinstri græn,
vinnast nýir sigrar.

Í lok dags á spítalanum:

Við yndisstundum ekki býst,
í alvöru og djóki,
því sofna núna verð ég víst
í verkjatöflumóki.

13.09.19

Og dagurinn er tekinn snemma á Landspítalanum:

Upp er vakinn, árla mjög,
aðeins til að pissa.
Við það ætt’ að varða lög
og vera talin skyssa.

Endurvinnslur eru vinsælar meðal vísnagerðarmanna:

Ef ég væri orðinn lítil fluga,
ég eflaust myndi kitla nefið þitt
en flugnaspaði myndi mig á duga
að merj’ í eina klessu, holy shit!

Þó ég ei til annars mætti duga
ég inn um gluggann þreytti flugið mitt
því regnið mér er allra efst í huga
en ekk’ að kitla nef og gera hitt.

Margir hafa það verra en ég“ …

Létt er mér, þó strítt sé starf,
að staulast um á hækjum
því saklaus lýður leysa þarf
úr lífsins verri flækjum.

14.09.19

Halldór birti fjári góða teikningu í Fréttablaðinu í dag. Vísan lýsir myndinni:

Gulrótin sem glópaagn
er gömul, bitur saga
og yfirfullur aðals-vagn
sem öryrkjarnir draga.

Fjasbók er yfirfull af gangna- og réttamyndum þessa dagana. Töluveðrur lægðagangur hefur sett mark sitt á smalamennskur:

Á Suðurlandi sjaldgæft er ‘ann rigni,
að sjáist eitthvert fólk í réttunum,
á hæstu tónum tenórar þar digni,
og troði Magnús Hlynur upp í fréttunum.

Allvel Kára kynnumst vér,
kúgast, fretar, hóstar,
hnerrar, skyrpir, snýtir sér,
og sjálfu á Fjasbók póstar.

Meira í endurvinnsluna:

Afi minn fór á’onum Rauð
í iðjuleys’ á bæi.
Svon’ er að vanta veraldarauð
og vera mikill gæi.

16.09.19

Stjörnuglópar telja sig hafa fundið nýja reikistjörnu, með vatni og þar með hugsanlega lífi. Fyrir meira en fjórum áratugum lá það fyrir og tilkynnt okkur menntskælingum hvar vitsmunalíf væri að finna í algeimi, utan Jarðar. Stjörnuspámenn nútímans vaða því í villu og svíma með sín nýjustu útspil.

Þann stjörnuglóp ei trúverðugan tel
sem trúir því er nýjast var að ske.
Í næstu framtíð förum við til El
en fráleitt K2 18 B.

17.09.19

Enn er endurunnið:

Afi minn fór á’onum Rauð
utan við tún og bæi.
Varast gæti villunauð
ef veröldina sæi.

Haustvísur eru árlegur faraldur

Ort ég mikið hef um haust,
himinbogans dætur,
hrímað birki, blaðalaust,
bikasvartar nætur.

19.09.19

Hið innra veðurlag er sígilt yrkisefni:

Svo glæður tímans gefi þér
góðan yl í sálu
þarf að treysta sjálfum sér
á svelli lífsins hálu.

Bergþór Ólason „Klausturmúnkur“ var kosinn formaður með 2 atkvæðum á fundi umhverfisnefndar. Af því verður að draga eftirfarandi ályktun:

Nefndarstarfið gekk í gær
glatt, að Bergþórs vonum:
Mátað hafa tíkur tvær
t
ittlinginn á honum.

Hugleiðingar um lífið og tilveruna:

Ei er sjálfsögð sálarheill
né sómastand á kroppnum.
Hætt er við að finnist feill
í fótum, búk og toppnum.

Margt býr göfugt myrkri í,
munúð sælla drauma,
frjóvgun morguns, fæðing ný,
flæði orkustrauma.

20.09.19

Ríkislögmaður hafnar, fyrir hönd forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar, öllum kröfum Guðjóns Skarphéðinssonar um skaðabætur í makalausri greinargerð sem hann lagði fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Kemur það eins og köld vatnsgusa, eftir sýknudóma í Hæstarétti og afsökunarbeiðni forsætisráðherra fyrir ári síðan:

Hjá ómerkingum æran fer,
útlegð vís í heiðni,
ef merkingarlaus með öllu er
afsökunarbeiðni.

21.09.19

Ef að fagran áttu draum
en afl þér lítið gefið
hindrun engri gefðu gaum,
gakktu fyrsta skrefið.

24.09.19

Kær samstarfsmaður minn, Lárus Ágúst Bragason, er sextugur í dag. Af því tilefni sendi ég honum þessa afmæliskveðju, undir dróttkvæðum hætti:

Ljúfur, gæddur gáfum
góðum, sagnafróður.
Virði allra varðar,
við ungdóminn styður,
glaður, lítillátur.
Lestar um vengi hesta.
Af sómamanni sönnum
er saga Lalla Braga.

25.09.19

Haust

Litadýrðarlota!
Laufið skreytir reitinn
gulu, rauðu. Gælir
gola vær og hrærir
grein en fagurgræna
grasið heldur fasi.
Heiminn lítur himinn,
hélugrár, og tárast.

26.09.19

Haust II

Logn. Svo rok og rigning
rúður þvo. Á súðum
veður, dimmir. Dauður
dæmdur gróður. Í ræmur
flíkur rifna. Fokið
flest í skjólin. Sólin
sífrar, gleymd og grafin.
Gangur lægða strangur.

Vinn þessa dagana við að ragast í vísnasafni mínu og koma einhverri reiðu á skipulagið:

Athyglin skýr, set annað í bið,
ekkert fær huganum sundrað.
Í Kleppsvinnu núna keppist ég við,
kominn á blaðsíðu 100.

29.09.19

Sléttubönd

Sefa fyllir ólga ör,
ekki stillur dvelja.
Efagrillu fresta för,
fráleitt villur kvelja.

Er nóg komið af barlómi?

Í vaxtahít við greiðum gjöld,
erum gróða ausnir brunnar.
En nú við eigum niðjafjöld,
og njótum hamingjunnar.

Rímæfing:

Lítil von að lon og don
linni svona tali:
Heimtar konan honum son,
hraustan konung ali.

02.10.19

Meiri sléttubönd

Böndin sléttu flétta fín,
fanga rétta braginn.
Höndin þétta, gletta, grín,
gjarnan létta daginn.

Daginn létta gjarnan grín,
gletta, þétta höndin.
Braginn rétta fanga, fín
flétta sléttuböndin.

03.10.19

Hannes spurði hvað framtíðin hefði gert fyrir hann?

Fortíð hefur framtíð gefið feikna mikið
en ófædd farið yfir strikið,
ekkert grillað, Hannes svikið.

Enn meiri sléttubönd:

Lokar stundarblundur brá,
bylgjast sundur lundin,
þokar undan grundin grá,
griðum bundin mundin.

Mundin bundin griðum, grá
grundin undan þokar,
lundin sundur bylgjast, brá
blundur stundar lokar.

Rímæfing:

Jafnan augað glöggt er gests,
gangur rakinn úrvalshests,
daufleg ræða pokaprests,
pirringur vegna nestis klessts.

05.09.19

Mektarmenni“ víða um heim hrauna yfir Gretu Thunberg:

Á þekkingu engin er þurrð
er þekjuna skortir nú burð.
Í horn, milli veggja,
hólmsteina leggja.
„Knýr Hösmagi hurð …“.

Enn af framtíðarótta hólmsteina þessa heims:

Með frekju sýnir hún sig,
senn kemst á hamfarastig.
Mín heimsmynd er svert!
Já, hvað hefur gert
framtíðin fyrir mig?

15.10.19

Mikið skýjafar var í morgun, svartbólstrað, og reyndi sólin hvað hún gat að brjóta sér leið í gegn. Henni tókst um stundarsakir að skjóta geisla sínum til mín:

Sólin skrýðir skýin grá,
skýtur fríðum geisla.
Gólfi skríða skuggar á
skammvinn, prýðis veisla.

16.10.19

Undir Eyjafjöllum er margt að sjá. M.a. hafa umfarandi konur afklæðst nærfötum sínum og hengt þau á túngirðingu við hringveginn. Bóndi hefur af einhverjum orsökum hunsað að aka heim af túninu heyrúllunum:

Bóndinn hunsar hirðinguna,

af hugsun taka sýnir völd:

Berar konur, og brjóstahöld

bráðum sliga girðinguna.

 

17.10.19

Öfugmælavísa:

Af aðdáun líð ég engan skort,

ekki þar míg uppí vindinn,

vísurnar ekki af sístu sort,

svo er ég líka fyndinn …

 

21.10.19

Íssslídígar“ er öllum fremri þegar kemur að fjármálagjörningum:

Aflandsprinsa metum meir,
um mörlandann fer kliður:
Við Seðlabankann bruna þeir
brattar Þvottárskriður.

Við bankasölu Bjarna lög,
bæta vina hag.
Klappstýrurnar kætast mjög,
Katrín missir þvag.

Að öðru. Veðrið er sígilt:

Undan venur angann sinn,
ekki kveðjur vandar.
Frá er snúinn faðmurinn,
frostið köldu andar.

22.10.19

Sléttubandavísa, refhverf:

Maður þessi heldur heit,
hvergi undansláttur.
Glaður hressir sína sveit,
sjaldan blundar máttur.

Máttur blundar, sjaldan sveit
sína hressir glaður.
Sláttur undan, hvergi heit
heldur þessi maður.

 

Kannski tilefni þessarar vísu hafi blundað í minninu við samningu sléttubandanna?

Æ skal velja vinar traust,
virðis- dvelj’ í þanka.
Mætti telja makalaust
mér að selja banka.

Um þessar mundir eru 7 ár frá samþykkt frumvarps að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu með 2/3 hlutum atkvæða. Alþingi hunsar kjósendur – og lýðræðið:

Langar, áður leggst í gröf,
að linni sáru þránni.
Nú er orðin nokkur töf
á nýju stjórnarskránni.

Eftirvænting ekki dvín,
aldrei guggna má.
Nær mun þjóðin njóta sín
með nýja stjórnarskrá?

Það má heita kaldur koss,
kúgun lýðs og fána,
að innvígð nátttröll neita oss
um nýju stjórnarskrána.

Margt er okkar mein og hrun
en mín er þessi spáin:
Næstu kynslóð næra mun
Nýja stjórnarskráin.

24.10.19

Stynur margur stressaður,
streðið rýrir haginn,
en bæði sæll og blessaður
býð ég góðan daginn.

03.11.19

Í svartasta skammdeginu er sólarglætan velkomin:

Er ljós á fleti líður skort,
lítil fetin jagar,
bálað geta brenni vort
bjartir vetrardagar.

Pabbahelgar“ heitir framhaldsþáttur í sjónvarpi allra landsmanna, og hefur hlotið mikið lof „fyrir raunsæi“ og að „stinga á ýmsum kýlum í samfélaginu“:

Um neyðaruppköst, næturfliss,
nakta kvenmannsbelgi.
Röfl og drykkja, rúnk og piss;
rishá pabbahelgi.

04.11.19

Rétt í þessu fyrsta föl
féll á pallinn.
„Að moka snjó er mesta böl“,
mælti kallinn.

07.11.19

Er grímu vel eg stað og stund,
ei strengi þel í hlekki.
Þó falli él á frosna grund,
fræin kelur ekki.

10.11.19

Allar nætur sáttur sef,
þó sveigi af dregnum línum.
Fast í gildin held, og hef
hreint fyrir dyrum mínum.

13.11.19

Þorsteinn Már Baldvinson hefur í gegnum Samherja stundað ‘umfangsmikla starfsemi’ í Afríku árum saman. Hans maður í ríkisstjórninni, Kristján Þór Júlíusson, gætir hagsmunanna hjá framkvæmda- og löggjafarvaldinu:

Miskunnsami Samherjinn fer
suður um höfin, því ljúflingur er,
fiskar í matinn, um fátæka sér
uns freigátan siglir á spillingarsker.
Þorsteinn lítið úr býtum því ber.
„Blessaður, það er Kristján Þór hér!
Fréttin kemur alveg að óvörum mér!
Elsku vinur, hvernig líður þér?“

15.11.19

Aldrei eru of oft rifjaðar upp aðferðir fjármálaráðherrans síðustu andartökin fyrir hrun bankanna 2009:

Vafningur víst upp á 10,
viðskiptapólitík hög:
Að selja í Sjóði 9
ef sett verða neyðarlög.

Síldarvinnsla nokkur á Austfjörðum sendi tölvupósta á Samherja til að fá fræðslu um viðskiptahætti fyrirtækisins í Afríku, ef nýta mætti þær aðferðir á Grænlandi til að næla í veiðikvóta:

Í skammdegismyrkri á skjánum
er skemmtanagildispróf.
Framhaldssögu af sjánum
Síldarvinnslan nú óf:
„Verðum að vera á tánum,
viðskiptin hríðarkóf.
Finnst, ef fengist á lánum,
framkvæmdaáætun gróf
um auðlind hjá fjarlægum fánum
við fátækleg kofahróf?
Frá Afríku, utanúr blánum?
Ekkert dugar oss hóf,
þurfum mikla reynslu af ránum,
ráðgjöf og glærushow“.

Gunnar „Klausturbragi“ hafði mestar áhyggjur af börnum Samherjamanna við uppljóstrun um „starfsemi“ fyrirtækisins:

Vernda skal blessuð börnin,
bægja illu þeim frá“.
Á Klaustri var til þess törnin
tekin, það allir sjá.

Lík eru gin og görnin
Gunnari Braga á.

01.12.19

Boðnarmiði ber þá fregn
að betur við ég kunni
en biturt frostið – rökkurregn
og ró, á aðventunni.

Ekki snýst alveg allt um veðrið:

Eigra fláir andans hjarn,
illvíg hrjáir veira.
Aurinn dáir auðsígjarn,
alltaf þráir meira.

Að því gái innra skyn
að ég nái fljóta.
Aðeins þrái að mitt kyn
auðnu fái njóta.

02.12.19

Í dag er það svo:

Mikið er mannkynsins brasið
og mengun á hnettinum.
Það er grenjandi rigning og grasið
grænkar á blettinum.

04.12.19

Nú hefur hann heldur snúist til vetrartíðar. Dróttkvætt:

Frostköld mjöllin fellur
falleg á minn skalla,
bráðnar þar án biðar,
bleytan skjótt vill leita
bakið niður, búkinn
baðar, ekki laðar
fram af vörum frómar
fyrirtölur. Bölva.

07.12.19

Það þurfti að losna við vanhæfan Ríkislögreglustjóra úr embætti. Flokkurinn sér auðvitað um sína og greiðir honum 57 milljónir við starfslok, svo hann þurfi ekki að líða skort, fremur en öryrkjar og ellilífeyrisþegar:

Aðþrengdir fái við starfslok start,
styrk til að kaupa pillur.
Hjá Haraldi’ er útlitið heldur bjart
með hátt í 60 millur.

Jón eða séra Jón?

Sumt er það sem sumur má
í samtryggingarvægni.
Sem dæmi mætti minnast á
mútugreiðslur/þægni.

Enn að veðri:

Nú er fönn á Fróni,
freðin jörð.
Klakaklárinn Skjóni
krafsar börð.

Hannes Hólmsteinn var látinn skrifa „ritdóm“ um bók hins norska fyrrum seðlabankastjóra, Svein Harald Öygaard. Öygaard brást við snarlega og sagði réttilega að það væri eins og að „láta kalkún meta Þakkargjörðarhátíðina“ að fá Hannes í þetta:

Um átrúnað sinn og upphafna Krist
til eilífðar stendur vörð.
Krítík í Mogganum, krydduð af lyst
er kalkúnsins þakkargjörð.

09.12.19

Klukkan á eldavélinni sýndi 02:54 þegar ég var að tygja mig í háttinn, eftir langan dag. Um 11:00 fór ég til Rvk. að sækja rútukálf, ók honum á Selfoss og þaðan með körfuboltaliðið í Stykkishólm. Þaðan að leik loknum með liðið aftur heim og svo til Rvk. að skila bílnum. Renndi svo á eigin bifreið um nóttina sem leið lá heim:

Þá er dagur að kveldi kominn,
kominn tími að nátta sig.
Tanngarð fyrst ég þarf að þvo minn,
þvag að losa og hátta mig.

10.12.19

Stefán Þorleifsson tónlistarkennari og kórstjóri birti færslu á Fjasbók þar sem sagði: „Núna eru veðrin bara gul, appelsínugul og rauð.“ Í kjölfarið kom listi með 113 íslenskum orðum sem lýsa veðri:

Tungumálið tapar krafti,
tilbrigðanna fína blæ,
og fátæklegra fer úr kjafti,
fjársjóð kastað er á glæ.

Í dag brast á með ofsaveðri víða um land, sem olli stórtjóni og margháttuðum vandræðum í mörgum byggðum, sérstaklega Norðanlands:

Nú örlar hér á vetrarveðri,
víst er nokkuð hvasst
og hugsanlegt að hann í neðri
heljarbyggðum fast
kveði að og krafta reyni
á kunnuglegan hátt.
Orðið gæti margt að meini,
magnist leikur þrátt.
Gerast öfgaviðbrögð vani,
veðurkvíði norm?
Ekki vera úti’ á flani
ef óðan gerir storm.
Best er að halda sig heima,
hvíla, og áhyggjum gleyma.

15.12.19

Ragnar, sonur minn, birti í lokuðum hópi á Netinu mynd af syni sínum. Um það hefi ég eftirfarandi að segja:

Yngsta barnabarnið, Hilmir Ragnarsson, er dásamlegur drengur, bráðum eins árs og mikið „krútt“ eins og sagt er, jafnvel „ofurkrútt“ svo gripið sé til Fjasbókarfrasanna. Afi er ákaflega stoltur af honum, eins og öllu sínu magnaða fólki.

Hilmir alltaf æðrulaus,
ekki bugast lætur.
Venur hvorki vol né raus,
voðalega sætur.

16.12.19

Vegna vísunnar um Hilmi hér næst að ofan stigu ýmsir fram í dag á Fjasbók og gáfu mér hæstu krútteinkunn. Er það án vafa ,,besta jólagjöfin í ár“. Má teljast líklegt að ef Rás 2 hefði staðið fyrir vali á krútti, en ekki mannesku ársins hefði ég fengið allnokkrar tilnefningar, ef ekki flestar. Hér er því vinsamleg ábending til þeirra sem hafa horn í síðu minni:

Um þú getur talað trútt,
sem að trölli vilt mig gera.
Yfirmátaofurkrútt
er ég talinn vera.

19.12.19

Lagðist í rímæfingar upp í rúmi, rétt fyrir svefninn:

Halli skjallið fagurt fer,
fráleitt svallar nætur.
Snjalli kallinn ennþá er,
ekki fallast lætur.

Lætur fallast, ekki er
ennþá kallinn snjalli.
Nætur svallar, fráleitt fer
fagurt skjallið Halli.

20.12.19

Og áður en ég steig framúr snemma í morgun hélt ég áfram þar sem frá var horfið:

Skjótast fóta tekur til,
tæpast hótar mönnum.
Rótast grjótið undan il,
ekki blótar grönnum.

Grönnum blótar, ekki il
undan grjótið rótast.
Mönnum hótar, tæpast til
tekur fóta skjótast.

Sjálfsvísur eru alltaf varasamar:

Hvergi skráð í sjálfu sér

að snúið þráðinn gæti

en stakan náði stráknum mér,

stuðla þjáður blæti.

 

21.12.19

Mannlýsing:

Alltaf snjáður, öðrum háður,

er óráðið geð.

Ansi bráður, enginn þráður,

ótal gráður með.

 

23.12.19

Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,

háð eru víða stríðin.

Varnir bresta börnum;

bani, ótti, flótti

vonir þeirra þverra –

Þjóðum skömm er rjóða

æskublóði, í æði

afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju

eru margir argir

af kjörum sínum, kveina,

komið rof í hófið.

Væri flott ef fleiri

fyndu göfuglyndið,

gleðistundir góðar

gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,

geisla börn í veislum.

Sönn er jólasælan“,

syngja Íslendingar.

En ekki allir hlakka

ósköp til, þó dylji.

Til einhvers auður þjóðar

ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara

heims, má ekki gleyma

að verma opnum örmum

óttaslegna á flótta.

Gæðastundir gleðja,

gefum þær af kærleik.

Um land og lög við sendum

ljúfar friðardúfur.

 

24.12.19

Kveðjan í jólakortum barnanna:

Ekki sífellt við svífum

um sólgylltar blómagrundir

og ævisagan er ekki

eilífir góðvinafundir

en víst er að góður mun grunnur

gleði og hamingju undir

að eiga í leikhúsi lífsins

ljúfar samverustundir.

 

Kveðjur í jólakorti til konunnar:

Skríða skal ég fyrir þig,

skafl frá dyrum moka,

ferðast, ganga fjallastig,

fleiru áfram þoka,

við freistingarnar fara’ á svig,

með framúrakstur doka,

og ágætt væri að opna sig,

urða fýlupoka,

ef þú bara elskar mig

ævina til loka.

 

Elsku hjartans ástin mín,

óska þér góðra jóla,

öll svo næstu árin þín

ylji friðsæl gola.

Krummi er í hópum fyrir utan stofugluggann okkar. Einn sat í ösp nágrannans og kroppaði þar græðlinga og krunkaði vinalega:

Krummi úti krunkar
kroppar af greinum fræ.
Hugheilum kærleikskveðjum
kastar ‘ann ekki á glæ.

25.12.19

Jóladagsmorgunn er mildur,
magnaður friður og ró.
Í stofunni hlýtt, og í stillu
stirnir á nýfallinn snjó.
Að skríða þá uppí aftur
er yndisleg, nærandi fró.

31.12.19

Áramótavísan:

Nú árið er liðið, en engu ég skaut
upp að þessu sinni
fremur en áður. Frá mér nú þaut
flís af ævi minni.

Úr dagbókinni 2018

Úr dagbókinni 2018. Safnið telur 210 vísur/erindi

07.01.18

Veðurlýsing:

Vætan er lárétt og lemjandi.
Löðrandi stormurinn emjandi.
Rigning og rok!
Rennbleytufok!
Blautlega söngvana semjandi.

08.01.18

Hugleiðing:

Vel það hefur verið kannað
og vísindalega sannað
að flestir bæð’ um eitthvað annað
ef það vær’ekki bannað.

20.01.18

Bóndadagur:

Í þurrakaldri þorratíð
þvottur blaktir á snúru
og þjóðin kjamsar kinnavíð
á kæstu, reyktu og súru.

01.02.18

Veðurvísa:

Úti staddur áðan nam
(engin rökin þyngri)
væntanlegan veðraham
með vinstri bendifingri.

Af veðri og færð:

Sjálf- á rennireiðinni,
reynir á í neyðinni,
margir lengi’ á leiðinni,
lokað er á Heiðinni.

03.02.18

Bóndadagssviðaveisla haldin á miðjum þorra:

Á þorra bóndinn borðar svið,
best er augnakonfektið.
Á eftir ropar og rekur við,
ræðum ekkert framhaldið.

05.02.18

Tíðarfarið:

Árans stríð um ár og síð
að óblíð tíðin líði.
Fjárans hríðarfár. Þín bíð,
fríða þýðuprýði.

06.02.18

Útsýnið:

Falleg sýn til fjalla,
fyllir gil og drög
mjöll, og strýtustalla
stilla ísalög.

Bráðum er mitt búið spil
en blóðið myndi styrkja
hefði’ ég meiri tíma til
að tutlast við að yrkja.

Dróttkvætt:

Strengur veðrar vanga,
vítisélin bíta,
kæfa vill mig kófið
hvíta, fyllir vitin.
Vel þó gengur, viljug,
vindinn klýfur yndið,
megnar hreti móti
merin heim mig bera.

10.02.18

Vitlaust veður víða um sveitir, en besta útreiðaveður á Selfossi:

Útreiðar, mitt óskastarf
og ei um skjól nein kvöð,
svo opna í flýti í Flóa þarf
fjöldahjálparstöð.

11.02.18

Loksins nú ‘ann eitthvað er
upp að rjúka.
Kannski’ er best að kúra sér
og kviðinn strjúka?

14.02.18

Kára gamla slær á slig
slen, af hárri elli,
en rumskar svo og ræskir sig
og rekur við, með hvelli.

Ásmundur Friðriksson var gagnrýndur harðlega fyrir háar akstursgreiðslur, á kostnað skattgreiðenda, að erinda fyrir sig og flokkinn í bland við alþingisferðir. Svo rífur hann bara kjaft:

Ásmundi gengur önugt flest,
allur í fornaldarstílnum.
Á heildina litið er, held ég, best
að haf’ ‘ann sem mest í bílnum.

Við akstur hindrar þá ekki neitt
með íhaldsfórnarlundina.
Einnig mæta þeir yfirleitt
óbeðnir á fundina.

15.02.18

Auðvitað kom í ljós að aðrir þingmenn voru heilmikið á ferðinni, þó ekki kæmust í hálfkvisti við Munda Frikk.:

Umferð við þingið þykir slík,
og þyrlar upp ferðarykinu,
að rotturnar í Reykjavík
ryðjast burt af skipinu.

18.02.18

Frekar kaldur febrúar,
en frostið nú að digna.
Á fannabreiðufreðurnar
farið er að rigna.

Vísan endurunnin eftir heimsókn FSU-liðsins í Stykkishólm, þar sem mínir menn skutu Snæfellinga nánst í kaf af þriggjastigafæri:

Frekar kaldur febrúar,
frostið þó að digna.
Á youtube finnur fréttirnar:
FSU lætur rigna.

20.02.18

Úr veðurfréttum:

Flughált, þungfært, þæfingur,
þoka, hálkublettir,
krapi, renningskæfingur,
kafaldsbyljir þéttir.

26.02.18

Ekki fleira um ég bið,
allt vil til þess vinna
að áfram leiki lánið við
líf og heilsu minna.

Töluvert er nú um að nemendur fái sk. „opin vottorð“ í skólum og þurfi þá ekki að mæta nema þegar þeir megna það, eða þegar þeim sýnist. Þetta er mikilvægt úrræði fyrir þá sem eiga við alvarleg veikindi eða vanda að stríða, en er svo sem líka þægilegt fyrir hvern sem er, ef út í það er farið. Og það eru ekki bara skólanemendur í vanda sem fá opin vottorð. Katrín Jak. skrifaði t.d. upp á opið vottorð fyrir formann og þinglið Sjálfstæðisflokksins nýlega:

Mannkynssögu sígild stefin,
síst með tíma minnkar efinn.
Með opin vottorð, aflátsbréfin,
öllum synd er fyrirgefin.

04.03.18

Er vetrarsólin vermdi ból
og vakti kalið hjarta
norðan gjóla í gulum kjól
gekk í salinn bjarta.

05.03.18

Náströnd kalla norðlægt sker,
narrast þangað lóa.
Aðeins tórir önnur hver
úr því fer að snjóa.

Jasso:

Ei minn huga glepur gull,
því glaður frá mér bendi.
Mín innsta þrá, af yndi full,
er mér föst í hendi.

06.03.18

Tilvitnunin er í pistil á Herðubreið, um Sigríði Andersen dómsmálaráðherra, sem Vg. styður heilshugar í spillingunni og varði vantrausti á Alþingi í dag:

Afstöðu þeirra undrast hlýt,
áður var siðferðið vænna.
„Eins og að éta óðs manns skít“,
atkvæðin Vinstri grænna.

22.03.18

Drótt- er hefðar -háttur,
hagleiks -kvætt og bragar-.
Stuðlar, höfuðstafir
standi rétt, og vandi
hálf- og alríms heilum
hendingum að lenda
í þremur risum. Rómað
renni og fram kenning.

23.03.18

Fjasbók löngum les hún,
ljóða „stórust“ þjóðin.
Þar þusa mjög og masa
margir, virðast argir.
Enn sést Pollyanna,
aðrir steypu blaðra.
Alveg verðlaust orðið,
ef enginn þegir lengur?

Flýt í ös að ósi.
Enginn daginn lengir.
Meir ei hef í háfi
held’r en áin geldur.
Víða bar í veiði
vel, eg margt við dvelja
vil, en tíminn telur
taktviss griðin niður.

24.03.18

Er í morguns árið
undurfögur stundin.
Hrím á jörðu harðri,
himinn tær, og skærir
geislar sólar gæla
grundu við í friði
stafalogns, og lofa
lýðum degi blíðum.

25.03.18

Klæðist snemma, framúr fer
ferskur, tremma laus við.
Fæðist stemma, óvart er
ágæt, hremmir rausið.

26.03.18

Veri blessað, vorið!
Vindar æsast, yndi
flestra, næturfrostið,
faðmar jörð og hörðu
élin bíta, ýla
sem englasöngur löngum.
Vinafastur, að venju,
vorboði er horið.

01.04.18

Silfurtjöldum sviptir frá
sólin, full af gáska,
svo um græsku gruna má!
Gleðilega páska.

03.04.18

Grunuð var um græskufjör,
glottið klippt og skorið,
og sólin brimhvítt brúðarslör
breiddi yfir vorið.

04.04.18

Ný fimmáraáætlun hægristjórnar Vg. leit, ef líta skyldi kalla, dagsins ljós:

Örorku og elliþega
arði ræna,
tel því utan vamms og vega
vinstri græna.
Lygamerði lítið trega
en lýsi frati,
það er alveg augljóslega
„allt í plati“.

16.04.18

Ef staðan virðist vonlítil,
vandi hér að þreyja,
stóru plönin strax bý til
og stefnu upp næ sveigja.

17.04.18

Fer í bítið ferskur út,
flest eg hlýt að megna!
Mér frá ýtir morgunsút
að moka skít og gegna.

18.04.18

Mér varð á að stafsetja meinlega vitlaust í vísu sem ég birti hér í gær. Þessi er ort í skaðabætur:

Í bítið ég á fætur fer,
fyllist óðar mundin,
rauðagull úr býtum ber,
blæðir morgunstundin.

Birti barnamynd af sjálfum mér í tilefni af Barnamenningarhátið í Reykjavík. Stína í Austurhlíð skrifaði í athugasemd við myndina: „Sumir að krútta yfir sig“:

Er „að krútta yfir sig“,
eins og verðlaust glingur.
Við glæsileikann gekk á svig
gamall Laugvetningur.

19.04.18

Tónleika er dagur, tærnar uppí loft,
um textaheftið renni lokayfirferð.
Svo góðar náðarstundir gefast ekki oft
en gamalt fyrir pallastöður hvíla verð.

02.05.18

Vorið góða, grænt og hlýtt, og gleði þrungið.
Þannig ávallt um það sungið.

Ei síst á vorin samt er ljóst að snjókorn falla,
köld og blaut, á allt og alla.

Fuglinn kúrir felum í um frostanætur.
Mætti vel fá miskabætur.

Minn þröstur góður þegir núna þunnu hljóði.
Fékk ei styrk úr sjúkrasjóði.

Á fægðu svelli Fannar skautar faldi búinn,
fast að meynni faðmur snúinn.

Í birkilautu bunar engin blátær spræna.
Tíðin hana tók til bæna.

Saman þetta setti ég með sól í hjarta.
Gaman er að kveina’ og kvarta.

07.05.18

Eftir hríðar beittan byl
brosti sól í heiði.
Til skiptis komu með kulda’ og yl,
hvað er hér á seyði?
Fari veðrið fjandans til,
fremur haugaregn ég vil.
Nú bar vel í veiði!!!

08.05.18

Sitt lítið af hvoru úr þjóðarsálinni eftir kvöldið:

Okkar vegur“ virtist beinn,
vinningslagið fundið.
Það samt ekki þoldi neinn,
þvælt og teygt og undið.

Eurovision vegur beinn
þó varla sigri Ari.
Núna efast ekki neinn
að hann fram úr skari.

13.05.18

Gleður þessi morgunn mig,
minn er hugur opinn,
því gula fíflið glennir sig
og góður kaffisopinn.

16.05.18

Má ég yrkja lítið ljóð
og lofa dagsins verk?
Sjálfs míns lof og siguróð,
minn sanna hetjumóð,
að reyna að blása reyk af glóð?
Rökin eru sterk.

17.05.18

Borgarstjóraefni íhaldsins gekk hvorki né rak í kosningabaráttu sinni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og dró því formann flokks síns og fjármálaráðherra úr Garðabæ á blaðamannafund til að lofa framkvæmdafé úr ríkissjóði í umferðarmannvirki í Reykjavík. Aumara getur það varla verið:

Gróða- er og gósentíð,
gengur allt í haginn.
Fjármálaráðherra fékk, um hríð,
að flytja sig „í bæinn“.

Í örvæntingu leggst nú lágt
Laxdals fremsti kappinn.
Óskaplega á hann bágt,
ýtir á neyðarhnappinn.

19.05.18

Það gustar um trén.
Glymur af dropum
á glerinu.
Skammt þess að bíða
að skoli mér burt
af skerinu.

20.05.18

Sonnetta í tilefni komandi kosninga:

Í hreppsnefnd þjóðin kýs á köldu vori.
Hvað skal gera? Engir vitar lýsa
og kenningarnar fráleitt veginn vísa!
Valt er lánið, hik í hverju spori.

En færi svo að frambjóðandi skori,
flytji mál sem uppúr sýndist rísa,
við hjá mörgum tæki töl’verð krísa;
hvort treysta orðum nokkur lengur þori?

Flestir hafa kosið lygalaup,
lengi, sagt er, skal víst manninn reyna.
Ennþá víða sjá má svikahrappa,
sjálfgerð brot í áramótaskaup.
Öðrum röftum betra væri’ að beina
til botns í flösku. Reka svo í tappa.

21.05.18

Oddviti Árneshrepps á Ströndum er einörð fylgiskona Hvalárvirkjunar og gerir ekkert, segir ekkert og ákveður ekkert í nafni hreppsins varðandi virkjunarmálin án þess að ráðgast við HS Orku og framkvæmdastjóra Vesturverks, verktakafyrirtækis sem hefur virkjanaframkvæmdir á sinni könnu:

Oddvitinn vestur- með verk
í vinstri mjöðm, en samt sterk.
Með stikkorðum lærðum
líkn veitir særðum
hreppsnefndin, mikil og merk.

25.05.18

Þar sem ég verð seint talinn jámaður, geti verið stríðinn og hníflóttur (þó þess sjáist ekki merki á höfuðlaginu) og sé almennt séð þokkalega leiðinlegur að meðaltali, var það sannarlega gleðilegt að fleiri hundruð manns skuli hafa ómakað sig að senda mér fallega kveðju á afmælisdaginn.

Við stoðir traustar stend og fell.
Á sterkar vinakeðjurnar
svo af mér næstum andlit féll!!!
Allar þakka kveðjurnar.

26.05.18

Það er margt að minnast á,
margar gæðastundir,
og mig fýsir alltaf þá
aftur í hrossalundir.

27.05.18

Sveitarstjórnarkosningar að baki. Þarna er gripið til mállýsku sem tíðkuð var í ungdæmi mínu á Laugarvatni, svokallaðrar „pétísku“, sem aðrir en innvígðir skilja ekki – og eiga ekkert að skilja:

Þjóðin veður þykkan reyk,
það hún telur betra.
Altso, ljóst að von er veik
Willisa og Pétra.

28.05.18

Eilífðarvandi leirskáldanna:

Þó gerði daglangt dauðaleit
ég dýra fann ei orðið.
Úr huga þessi slitur sleit
og sló á lyklaborðið.

29.05.18.

Eru þetta ekk almenn sannindi?

Þegar ei er staðan sterk,
um stefnumiðin kýtið,
að kalla þá á kraftaverk
kemur fyrir lítið.

Græði maður mikið skjótt,
mun hann fyrir vikið
týna áttum firna fljótt
og fara yfir strikið.

31.05.18

Eftir að „hann“ sló úrkomumetið í maí þraut honum erindið:

Lengi sálarkraftinn kól,
kreppt þó tórði þráin.
Núna geislasverð frá sól
sígur inn um skjáinn.

Öryrkjar og aldraðir geta ekki beðið“ eftir launabótum, sagði forsætisráðherra fyrir kosningar, þá óbreyttur, og setti í brýrnar. Það var forgangsmál. Nú er boðuð lækkun á auðlindagjaldi og hafa Vinstri grænir fundið sér nýtt áhugamál og nýja forgangsröðun, með formann atvinnuveganefndar í fararbroddi og hina marserandi á eftir. Enda „dýnan í kjallara hvíta mannsins“ þægilegri en bert kofagólfið:

Forgangsröðin reyndar var
ríkum að létta streðið
og útgerð vernda. Öryrkjar
og aldraðir geta beðið.

Horft í eigin barm:

Á ýmsu sem ég ekki skil
oft þarf skoðun segja.
Kannski mun ég koma til?
Kannski lær’ að þegja?

Mestan fæ ég morgunverk
í mjöðm og hupp og læri
þegar kemur krafa sterk
að kúst og fæjó hræri.

01.06.18

Gjörvöll útjörð gul og klén

en gróska færist tún í.

Lít ég komið lauf á trén

loks í byrjun júní.

 

09.06.18

Þján af nettri þjóðarrembu,
þakka glettu roksins.
Í grárri, þéttri gróðrardembu
grænkar, sprettur loksins.

Lebron James og Cleveland Cavaliers var sópað 0-4 af Golden State í úrslitum NBA deildarinnar. Meintur „kóngur“ hvarf til búningsherbergja án þess að þakka andstæðingunum fyrir leikinn:

Líður illa Lebron James,
leiksins grillur hálar.
Liggur milli helju og heims,
haldinn kvillum sálar.

Vætutíðin:

Vor á hundavaði fer,
á vætustundum lumar,
svo að grund í gulu er
gegnblaut undir sumar.

Best við metum bleytutíð
ef burt ei fet vill hopa.
Hvað er betra’ en þoka þýð
og þétta netið dropa?

Pólitíkin:

Gjarnan blekkir þingið þig,
þar á hrekk mun örla.
Vantar ekki visku mig,
veröld þekki gjörla.

Lífsins visku luma á,
læst ég giska fróður:
Upp á diskinn ætti’ að fá
eftir fiskiróður.

12.06.18

Með ferðamenn á Flúðum, stoppað í hádegismat:

Áðan fékk á Farmers bístró
fylli mína.
Sést að nú er orðin „ístró“
yfirlína.

13.06.18

Karlakór Hreppamanna skoðaði inntakið og upphafið að Flóaáveitunni við Hvítá. Á þessum slóðum, ofan við Brúnastaði, stíflaðist áin gjarnan fyrrum af ís og jakaburði og flæddi þá yfir landið svo Flóinn varð sem flói. Skurðurinn liggur svo þráðbeinn, væntanlega eitthvað vestur af suðri fyrstu fáa kílómetrana, með stefnu sunnanvert við Ingólfsfjallið. Sverrir Ágústsson leiðsagði um sínar heimaslóðir í vorferð kórsins:

Glöggur fer með gamanmál,
geiflar sig og derrir.
Að burðum vænn og besta sál,
Brúnastaða-Sverrir.

14.06.18

Mikið gekk á í Vestmannaeyjum eftir sveitarstjórnarkosningar. Páli Magnússyni alþingismanni kennt um að íhaldið tapaði meirihlutanum í hreppsnefnd:

Í Eyjum nú suðar í sveiminum,
svart yfir þrónni og geyminum.
Á plani, með pirring í ‘hreiminum’:
„Palli er einn í heiminum“.

Uppnám varð vegna þess að „transari“ átti að leiða Gleðigönguna í Reykjavík:

Feðraveldisþróttur þvarr
um þrep eitt, sunnan heiða.
Glæsilega Gógó Starr
gönguskrúð mun leiða.

Það er engin nýlunda að tvíræðni fylgi Sigríðarnafninu:

Í Fagrahvammi blómlegt ból,
byggðu hjónin ungu
og Indriði smiður sæll með tól
Sigríðar frá Tungu.

16.06.18

Björn Ingi Hrafnsson kom Steikhúsinu Argentínu í þrot. Í sama mund varði Hannes víti frá Messi:

Ekki mikið, margur sér,
að mörlanda sé þokað.
Víða um heim af okkur er
Argentínu lokað.

19.06.18

Viðkoma í Borgarnesi á leið vestur á firði með ferðafólk, og svo rekur bíllinn sig áleiðis:

Brunaði í Borgarnes,
beint í pissustoppið.
Yrki stöku. Æ!!! Á Fés-
ið hún hefur sloppið!

Hraunsnef undir hamravegg,
háreist bæjarstæði.
Héðan næsta legg í legg,
leið um Dali þræði.

Belgingur í Búðardal,
bjart og þurrt og napurt.
Ástand hérna orða skal:
Ekki sýnist dapurt.

Himin strýkur heiðarbrík,
hennar ríkur kraftur.
Við Hólmavík er helgi slík.
Held ég kíki aftur.

20.06.18

Á heimleið frá Heydal í Mjóafirði er komið við í Vatnsfirði:

Þorvaldi varla veitti af
vendi, og hirtingu líka.
Hvort tveggja Vatnsfjarðargoða gaf
gustmikil, Ólöf ríka.

22.06.18

HM í fótbolta stendur yfir:

Nígeríski útherjinn
átti góða spretti.
Boltann rakti, blekkti hinn,
og beint í markið setti.

27.06.18

Spark í mynd er margtuggið,
mál er nú að linni.
Beint við öllum blasir við
að Brasilía vinni.

28.06.18

Enn á ferðinni með túrista:

Á sig broddana binda
og belti með öryggislinda.
Samhæfð og vökul
á Sólheimajökul
sér um vegleysur vinda.

Og leikur um kvöldið:

Náðargjöf er Neymari,
nettur knött að elta
og sá andans sveimari
vill uppúr dögg sér velta.

04.07.18

Á Landsmóti hestamanna:

Eftir stanslaust rok og regn,
já, rosa og drullumak,
þá blessuð sólin braust í gegn
og brosti andartak.

20.07.18

Að ríða sveitir, frjáls um fjöll,
er feikna mikils virði,
þrönga dali, víðan völl,
um veðrið ekkert hirði.

Sjáum víða um kring oss
eldsins raunir harðar
en eg hef lagt á ágætt hross,
annað lítt mig varðar.

23.07.18

Rauneyg, tárvot rósablöð
rauðar brárnar sýna
en himinn grár, með heilsuböð,
heilar áru mína.

25.07.18

Staddur í svokölluðu „Fontana“ á Laugarvatni:

Í gullnu minningaglufunni
geng nú að einni prufunni
að komast á legg:
Ég klifr’ yfir vegg,
fullur, í Gömlu gufunni.

30.07.18

Við Anna María renndum upp í Borgarfjörð dagpart:

Þó að alveg svíki sól
sýnir landið manni
að það á skilið þvílíkt hól.
Um þetta vitnar Glanni.

Tryggir Deildartunguhver
trölla ávöxt mikinn.
Kraumu heimsókn eftir, er
enginn maður svikinn.

31.07.18

Háspekilegt:

Gefur lífið mér svo margt,
mest ef svífa gildi
þau er drífa þor og art
þess er hlífa skyldi.

Von er á fjölgun barnabarna:

Lukku-grér, eg segi satt,
því sifjar eru teitir,
fjölga sér, og gengur glatt,
gleði mér það veitir.

03.08.18

Hver er maðurinn?

Í æskusporum „okkar manns“
og allra seinni ferða
féll á silfur sálar hans,
seint mun fægður verða.

08.08.18

Gengur allt á verri veg,
vonir margra bresta.
Sagan alveg lygileg,
lífið firra mesta.

Gengur allt að vonum vel
og væntingarnar miklar
svo að ekkert torfært tel.
Tinda maður stiklar.

09.08.18

Alheim lofa ekki skalt,
hann oft á hrekkjum lumar:
Úti bjart, og ekkert kalt,
eins og það sé sumar!

Þegar ekki er hægt að kveina yfir rigningu finnur maður eitthvað annað:

Ekki hugnast ástand mér,
ansi hreint er þjáður
því að hitinn orðinn er
alveg nítján gráður.

Er Úlfgrímur raknaði’ úr rotinu
í rykugu, dimmasta skotinu,
kom stuna og hósti,
hann stóð upp, með þjósti:
,,Fjandinn að neiti ég flotinu“.

Ljómar sólin, læknar mein,
lyftir geði súru.
Blærinn vaggar birkigrein,
bylgjast lök á snúru.

Mætti gjarnan minna á
að mör er versta raunin
og kjörþyngd eflaust allir ná
ef ‘ún hækkar launin.

Hingað kom með hitann sól,
himnatjöldin fallin.
Höfuð mitt í höndum fól
er hóf að loga skallinn.

14.08.18

Afmælisvísa:

Brosið hefur stundir stytt
og stutt, á nótt sem degi,
löngum verið ljóðið mitt
og ljós á mínum vegi.

29.08.18

Dregnir eru á flot forsætisráðherra, hagfræðingar og seðlabankinn til að segja launafólki að ofurlaunahækkanir elítunnar séu eðlilegar en kröfur þess og hækkanir í komandi kjarasamningalotum verði að vera hógværar og hóflegar því annars fari allt á hliðina. Hafiði heyrt sönginn áður? Verst að þetta gengur alltaf í lýðinn, ef ekki undir eins þá fyrir rest.

Beitt á fullu heilum her
við hentirullu tama.
Um lygabullið öllum er
alveg drullusama.

Settur til verka í garðinum:

Grasið sker og grjótið ber,
grunda hér skal pallinn.
Gröf nú er að grafa mér,
griðahlerinn fallinn.

Námsmaður erlendis birti grein um lánaníð LÍN:

Íslenskt lán er algert rán,
óp í gjána bresta-,
æviþján og þjóðarsmán,
þrælaánauð mesta.

05.09.18

Þessar sveiflur þoli vart,
þeim af ég fæ geð rið.
Ástand núna ansi hart,
alltof gott er veðrið.

06.09.18

Gerist amstrið leiðinlegt
og lífsins stakkur þröngur?
Besta ráð við því er þekkt;
það er að fara’ í göngur.

12.09.18

Gjarnan yrki úrvalsljóð,
einnig góðar vísur,
um Fjasið allt svo funi glóð
en fáir dragi ýsur.

13.09.18

Að hausti núna falla fer,
fölnar jarðargróður,
sólríkt þó í september,
sumarauki góður.

14.09.18

Verjendur hinna dæmdu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem töluðu tæpitungulaust, voru sagðir hafa verið „myrkir í máli“.

Friðsælt í brandi og báli.
Bómullin gerð er úr stáli.
Sér Geirmundur breytir,
nú Guðfinnur heitir.
Verjendur myrkir í máli.

15.09.18

Eitthvað mikið á sér stað,
árlegt ferli tryggt:
Nær oss sífellt sækir að
svartamyrkrið þykkt.

Kemur nú af fjallið féð
feitt, og lafamótt.
Brátt mun allt, að best er séð,
á bensínvélum sótt.

Vaknar gömul von, og mér
vex að nýju kraftur.
Sólin blindar, glampar gler,
gott ‘ann rignir aftur.

16.09.18

Kominn er á Kálfstindana hvítur litur.
Höfuðdjásn við hnakka situr,
hárið prýðir stjörnuglitur.

Fögur er á festingunni flóra stjarna.
Úr hnýta vönd ég vildi gjarna,
ver’ um eilífð með þér þarna.

17.09.18

Haldið ekk’ um hádaginn sé hitasvækja!
Haustið gott er heim að sækja,
vill höfðinglega skyldur rækja.

Glöð í bragði greiðir sólin gyllta lokka.
Grund, með sína grænu sokka,
góðan býður af sér þokka.

Blakkur himinn, blíða, kuldi, birta sólar.
Andstæðir og ýktir pólar.
Inn í vetur tíminn rólar.

Lýsingin á fullveldishátíð fína fólksins á Þingvöllum kostaði sitt:

Á Þingvöllum er þrálátlega þok’ og ísing.
Dagsbirtan er daufleg lýsing,
í diskóljósum skærum því syng.

18.09.18

Áslaug Thelma Einarsdóttir var rekin úr starfi hjá Orku náttúrunnar fyrir það að kvarta undan káfi, áreitni og almennum dónaskap yfirmanna gangvart konum:

Eftir mikið „ha og humm“,
hik, og skýrslur þunnar,
margir núna yrkja um
orku náttúrunnar.

Fram kom að heildarkostnaður Þingvallafundarins hafi verið tæpar 87 milljónir – en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 45 milljónum. Ekki mátti minna vera fyrir Piu Skærsgaard.

Til veisluborðs af bestu gerð
bjóðum enn að nýju
og teljum glöð fram tvöfalt verð
til að hylla Piu.

Enn fjallað um orkuveitubrottreksturinn. Framkvæmdastjórinn sagði af sér, en hver á að sækja um?

Orku-boltinn braut af sér,
brúnum skeit í töðuna.
Sá yðar sem syndlaus er
sæki nú um stöðuna.

21.09.18

Minnkar gálaust greddustreð,
það granít #meeto kvarnar.
Þá helltist yfir haustið, með
hrútasýningarnar!!

25.09.18

Í sjónvarpinu mínu heyrði ég í gærkvöldi að margskonar samgöngubætur kæmu ekki til greina – nema með veggjöldum. Í morgunkaffinu rifjaði óljúgfróður upp að á kosningafundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands hefði núverandi samgönguráðherra, með hnefann á lofti, kallað yfir lýðinn: „Veggjöld verða ekki á minni vakt“!! og hlotið góðar undirtektir áheyrenda.

Á þjóðar vorrar þröngu leið
þyngist sífellt róður
en gatan verður bein og breið
borgi göngumóður.

27.09.18

Hannes Hólmsteinn birti loks „skýrslu“ sína um efnahagshrunið. Þar kom m.a. fram eftirfarandi um Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra: „ … „Feldur hans er mjallahvítur eins og þeirra Jóns Sigurðssonar og Hannesar Hafsteins og Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar.““

Kollsteyptu bréfin, korter í hrun,
kappinn Bjarni seldi.
Nú gengur ‘ann um, og mestur víst mun,
í mjallahvítum feldi.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kröfur um 375 þúsund króna lágmarkslaun ekki „í samræmi við raunveruleikann“.“

Á hausinn þjóðin þessi fór
(það er önnur saga).
Af verklýðs launakröfukór
má kláran lærdóm draga.

01.10.18

Kári flýtir, og snýtir sér,
snerrinn, lýtur rúnum.
Dári skrýtinn, ýtinn er,
errinn skýtur brúnum.

11.10.18

Fátt var fjallða meira um í október en Braggamálið; óhóflega framúrkeyrslu við endurbyggingu gamals herbragga og náðhúss við Nauthólsvík. Eyþór Arnalds greip auðvitað „stráið á lofti“ og krafðist ábyrgðar borgarstjóra og afsagnar:

Allt eins og stráið eina
er upp vex á danskri grund,
fokdýrt, sem fréttir greina,
fegrar dags morgunstund.
Á snöggu braggabragði
breyttist í fölt og ljótt,
forlögin fyrir sagði:
ferillinn endar skjótt.

16.10.18

Að nú þrengja þrútin ský,
með þokustreng í hæðum.
Þurr er enginn þráður í
þæfðum engjaklæðum.

Meira af Braggamálinu:

Eftir áreiðanlegum heimildum óljúgfróðs sagnfræðings slæ ég þessu fram:

Það er afleitt, en Bragginn er ekkert spes,
í óráði stjórnmálagarpa.
Parþenonhofið hjá Perikles,
Perlan, Ráðhúsið, Harpa.

Að öðru …

Ljósið besta lýsir mér,
ef lengi ok þarf bera.
Í raunum slíkum rökkrið sker
rafmagnsljósapera.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar útskýrði á mannamáli hvað felst í orðum ráðamanna þjóðarinnar um kröfugerðir verkalýðsfélaganna í komandi kjarasamningalotum:

Ef þjóðfélag forsmáir landsins lýð,
í leiknum bara gammar,
þá er það helvítis hrákasmíð,
til háborinnar skammar.

17.10.18

Enn af bragganum:

Braggenn ýter veð öflonöm
og innflötte melgreses vöndörenn.
Þjóðen gengen af göflonöm
en gleymdör er Þingvallaföndörenn.

Já, Þingvallafundurinn fór víst líka vel yfir strikið, þó það sé allt gleymt og grafið. Steingrímur Joð flutti inn „háæruverðugt strá“ úr danska þinginu:

Margt er dýrkeypt Danmörku frá,
sem deilum hefur valdið.
Í sumar flutti inn Steingrímur strá,
stöðugt er því framhaldið.

18.10.18

Bjartsýnisraus á tímum „netlægrar neikvæðni“:

Mjög er þannig málum stillt
að mannsins velti kerra
en fátt er svo með öllu illt
að ekkert finnist verra.

22.10.18

Í hagyrðingahorni á kótelettukvöldi Karlakórs Rangæinga sl. laugardagskvöld var eitt yrkisefnið formaður kórsins, Hermann Árnason, og afrek hans. Lagði þetta m.a. í púkkið:

Um fjöllin síst er gatan greið
þó geti talist lekkert,
Hermann stoltur stjörnu reið,
stöðvar hann víst ekkert.

23.10.18

Morgunvísa

Áfram brunar knörr minn keikur
í kröppu öldusafni.
Ennþá við mig lífið leikur,
land er fyrir stafni.

Síðdegisvísa

Þegar ýfir gaman grátt,
geðið dýfu tekur.
Ástin hrífur andans mátt,
aftur lífið vekur.

Kvöldvísa

Lengir kvöldin, vetrar vá
vagni köldum ekur.
Hengir tjöldin úrug á
alheim, völdin tekur.

24.10.18

Hádegisvísa

Flétturöndin himinhá,
heillar vöndur ljósa.
Sléttuböndin yrkja á,
orðaföndur kjósa.

Önnur síðdegisvísa:

Síðdegis leit sólin oss;
sýndist verð’ að gjalli
er himna- loks fékk konan -koss
og hvítvín út’ á palli.

25.10.18

Bragginn er eilífur og danska melgresið. Og Gunnar Gunnarsson skrifaði Leik að stráum í Danmörku:

Víst er að sjaldan við sjáum
samhengið, þó að við gáum.
Burst eða braggi?
Í blíðunnar vaggi
ljúfur er „Leikur að stráum“.

Kuldalegt er út að litast í dag og kallar á sléttubönd:

Dapur hímir runnur rór,
raunir gríma hylur.
Napur tími, kuldakór
kvæði hrímuð þylur.

26.10.18

Hringhvend sléttubönd, refhverf, í haustmyrkrinu:

Hljóður skari yndi er,
ekki bara þiggur.
Skjóður varinn sómir sér,
sjaldan barinn liggur.

Umhvefismál eru til umræðu þessa dagana, og alla daga, enda framferði mannskepnunnar í náttúrunni ekki til sóma:

Ef stóru nú mænum á myndina
við mígum í uppsprettulindina.
Á heildina litið
úr nál er ei bitið.
Þetta er neðan við þindina.

27.10.18

Ólafur Ragnar sagði frá því í útvavrpsviðtali, með stolt í rómi, að Dorrit væri búin að láta taka sýni úr hundinum Sámi til varðveislu og síðari tíma klónunar:

Stöðugt á Dorrit má stóla.
Vor stórasta hugmyndaskjóla
„pund fyrir pund“.
Plís! Bara hund,
en klónaðu ekki hann Óla!

29.10.18

Listaverki var komið fyrir úti í Tjörninni í Reykjavík. Það var sagt vera „hafpulsa“ til heiðurs Hafmeyjunni frægu í Kaupmannahöfn. Mest minnti það þó á nábleikan mannstittling, og þótti fáum fagurt:

Hún er gefandi, listamannslundin
og í lífinu verðmæt hver stundin.
Með pulsu í Tjörninni,
hversdags í törninni,
andlegur friður er fundinn.

31.10.18

Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna. Það eru mun langdrægari áhrif sem hljótast af því að breyta kerfinu sjálfu“, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, aðspurð um afstöðu sína til ríkisstjórnarsamstarfs Vg og Sjálfstæðisflokksins í ljósi fjármálaglæpa fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar:

Ef kvelur oss kerfislæg hætta

skal kerfinu breyta, og þvætta

einstaklingsglæpi

með orðhengils’hæpi’

því siðferðið ekki má smætta.

 

03.11.18

Ók starfsfólki (konum) á Dvalarheimilinu Lundi í óvissuferð um Rangárþing. Fyrsti viðkomustaður var Nauthúsagil. Meðan konurnar örkuðu upp í gil með leiðsögumönnum og ég beið eftir hópnum skall á með byl:

Ana í óvissuferð,

úti því sjálfsagt ég verð.

Við Nauthúsagil

norpa í byl.

Glætan að leit verði gerð!

 

Frá Nauthúsagili var ekið í Fljótshlíðina og í skóginn á Tumastöðum. Þar var næsti viðkomustaður, gengið um og höfð nokkur viðdvöl í skógarrjóðri.

Í Tumastaðaskógi trén eru reist og há

og töluvert finnst þar af hágæðalogni.

Og inni á milli trjánna yrkjunum planta má

af alúð, þannig að úr þeim togni.

 

Þennan dag var grimmt auglýstur „Neyðarkall“ björgunarsveitanna, sem hannaður var í nýrri stellingu, í „gömlum stíl“:

Nú get eignast neyðarkallinn,

ný er stellingin.

Ennþá kynja- alger hallinn;

engin kellingin!!

 

12.11.18

Karlakór Hreppamanna var á tónleikaferð um Norðurland um helgina, sungið í Miðgarði á föstudagskvöldið og á Dalvík á laugardag. Við fórum nokkrir kórfélagar með Ármanni Gunnarssyni dýralækni o.fl. að skoða hesthús Dalvíkinga sem er upphaflega loðdýrahús – og auðvitað bauð dýralæknirinn upp á allskyns af gleri á „kaffi“stofunni. Í hrókasamræðum þar gerðust flestir skáldmæltir og köstuðu fram fyrripörtum sem mér var ætlað að botna. Einn var í þessa áttina:

Bersköllóttir bræður tveir
á botni þéttum siiiita.

Botnaði þetta þannig og sendi til upphafsmanns:

Grímur ekki yrkir meir,
angrar hann víst skiiiita.

Annar fyrripartur sem þeir feðgar á Kjóastöðum, Hjalti og Bjarni, ásamt Hjálmi hinum unga voru hvað ákafastir að ota fram, hljóðar svo:

Fuglar eru fleiri hér
en frillurnar í Bankok.

Þetta er augljóslega vandmeðfarið, ekki síst undir áhrifum lyfja dýralæknisins og langtíma afleiðinga þeirra. Það var ekki fyrr en í sjoppunni í Borgarnesi á heimleiðinni sem ég bangaði einhverju saman, horfandi á misgilda kórlimi starfa að mat sínum (ef mat skyldi kalla):

Félagar mínir fengu sér
franskar, bjór og langlok
u.

14.11.18

Sjálftökuliðið á Alþingi lætur ekki að sér hæða:

Aukum í aðstoðarleðeð“
(alþinge leit efer sveðeð):
„17 hér vantar.
Sjúklingafantar
og örerkjar enn geta beðeð“.

Vinstri grænir halda áfram að styðja fjármálaelítuna við að mergsjúga íslenskan almúga, níðast á öryrkjum og ausa í einkaarðgreiðslur úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Ef þú hana Kötu kaust
og keyptir alla frasana:
Allt fram streymir endalaust
oní dýpstu vasana.

15.11.18

Jón Gnarr fargaði eftirlíkingu af listaverki eftir götulistamanninn Banksy sem hann hafði fengið að gjöf í borgarstjóratíð sinni, þegar íhaldið ætlaði að hanka hann á því að hafa þegið „ósiðlega“ gjöf sem borgarstjóri. Vg verður trúlega fargað í næstu kosningum:

Viðutan eru og ‘vanksí’
vinstrigræn, já eitthvað ‘kranksí’.
Hver verður ei skrýtinn
síétandi skítinn?
Sömu örlaga bíða og Banksy.

Bjarni Ben. bullar tóma steypu til varnar fjárlagafrumvarpi sínu og heldur því fram að öryrkjar hafi notið kjarabóta umfram alla aðra í samfélaginu, þegar hann sjálfur og þingliðið hafði nýverið þegið launahækkanir sem einar og sér eru hærri en laun margra hópa launamanna í landinu. Stjórnarandstaðan benti á þetta en aflandspésinn sat við sinn keip:

Andstaðan þvælu á borð nú ber
en Bjarni fljótt á kýlin stingur:
„Að yfirleitt verði fólk öryrkjar hér
er óskaplegur misskilningur“.

16.11.18

Þórarinn Eldjárn skrifaði góðan pistil í Skólavörðuna þar sem hann benti á að íslensk börn teldu tryggast að ákalla almættið á ensku, ef þau vildu eiga von um að bænheyrast:

Þegar okkur út á hlið
erfiðleikar beygja
öruggast mun við almættið
‘ómægod’ að segja.

Meira af bulli Bjarna Ben. um kjör öryrkja í umræðum um fjárlagafrumvarið:

Kynnir stoltur fjárlög flott,
en framúr hann vill ekki keyra.
Þó Bjarni hafi það býsna gott
blómstra víst öryrkjar meira.

17.11.18

Það hefur gengið á með strekkingi og gusum í allan dag, reyndar „Queen í öllu“. En við erum svo heppin hjónin að hafa fengið til næturdvalar yngsta barnabarnið, dásamlega stúlku, bráðum tveggja og hálfs árs kraftaverk, svo það er meira en notalegt í kotinu:

Afans brýtur alla skel,
ysja lítil gleður.
Inni nýt ég yndis vel,
úti skítaveður.

18.11.18

Á dimmu og hljóðu vetrarkvöldi:

Víðan himna ganginn gengur,
gamla trimmið streðar.
Síðan dimmur strokinn strengur,
stilltur fimmund neðar.

Smá rímæfingar:

Vinur í raun og vakinn, er
að vonum besti „tindurinn“.
Hrynur í daun og hrakinn, fer
úr honum mesti vindurinn.

19.11.18

Ævintýraþema í limrusmíð:

Dýrið með fráhnepptan frakkann,
en Fríða þá reigð’ aftur hnakkann:
„Já, hvað vilt’ upp á dekk?“
Um jólin þó fékk
perrinn að kíkja í pakkann.

Mjallhvít var góðhjörtuð mey,
mælti víst aldregi: „Nei“!
Er kynnti hann vin sinn
hún sagði við prinsinn:
„Allt er í harðindum hey“!

Laumaðist strax út af leið
lagðist í grasið og beið
þolinmóð virtist
þegar hann birtist
Rauðhetta, úlfinum reið.

20.11.18

Framhald:

Svo greinir frá Hans og frá Grétu
að grimmir í ofninn þau létu.
Þau gát’ana platað.
(Vegna ríms nú er glatað
að Alþingi afnam hér z).

Þyrnirós svaf og hún svaf,
svo bæði missti hún af
Snappi og Tinder.
En á Fjasbók nú mynd er
í kommentum skotin í kaf.

Spurt er: Telst Andrés með öndum?
Þett’ er umdeilt víða í löndum
og milli hópa rís veggur;
Duck eða steggur?
Er Donald brabra í böndum?

Fjaðrafok var út af athugasemdum hjúkrunarfræðinga við mynd og texta í barnabók Birgittu Haukdal, þar sem talað var um hjúkrunarkonu og myndskreytingu af starfsmanni í kjól og með hárkappa:

Kynja viljum fangbrögð forðast
og fellum mál við enskan takt.
„Hjúkka“ nú má ekki orðast.
Ætli „hjúkk-it“ getum sagt?

21.11.18

Meira ævintýraþema:

Það var ólga í Öskubusku
sem æddi um gólfin, með tusku:
„Alveg stein-djöfull-blindir
á staðalímyndir!!!“
hún æpti í morgunsins musku.

Kalla má bévítans bullu
blágráan úlf, sem á fullu
hafði korter í 2
étið kiðlinga 7.
Var þá dasaður orðinn, með drullu.

Stökk hann úr kerlingar klóm
svo klesstist þar ekki við góm.
„Þessi sætabrauðstæknir
verður trúlega læknir“,
sagði refurinn, skjálfandi róm.

Úlfurinn blés og hann blés,
með blóðhlaupin augun og fés.
Þá grísirnir hlógu
uns tveir þeirra dóu.
Já, þessi saga er svolítið spes.

Spjátrungur mikill og spaði,
spinnur upp sögur með hraði
og margar til meins,
öll vitleysan eins!
Kötturinn stígvélaði.

Loks varð henni mjög á í messunni,
mistök, við fjallið, hjá skessunni!
Hún átti krakka með hor
og kraftmikinn bor
EN LOFTIÐ VAR LEKIÐ AF PRESSUNNI!!!

24.11.18

Við erum ótrúlega gæfusöm stórfjölskylda. Barnalánið er ekki einleikið og í dag fékk nýjasti fjölskyldumeðlimurinn nafnið sitt; Vaka, Freyju- og Bjarnadóttir á Þóroddsstöðum.

Lífið, elsku litla smá,
leiki þér í höndum
og skip þitt víðan sigli sjá
seglum öllum þöndum.

26.11.18

Gott nú ekki Grímur fær,
grímur renna á hann tvær.

27.11.18

Forsætisráðherra taldi ekki ástæðu til að bregðast við Klausturdónum með afsagnarkröfu því slík væri íslensk stjórnmálamenning:

Brosmild kattarþvottinn þvær,
þjófagengisfylgdarmær.

29.11.8

Heiladauðir drekk’ einn pott,
svo dáldið á þá fellur.
Samt er drullan soldið ‘hot’
sem að frá þeim vellur.

Vatnsheldur smekkur og svunta,
og samfella nauðsynleg er.
Á þingi er kolbrjáluð kunta
og karlpunga slefandi her.

Þá góðu drengi ég dæma ei vil,
dauft er í þinginu, kvenfólk í röðum,
svo dáindismenn þurfa’ að drekka sig til
fyrir dýrindsveislu á Bessastöðum.

Af einlægni opnaði sig:
„Það allra versta við þig
er hve þú ert góður
og óljúgfróður!!
Sko, ég er að míga í mig“.

30.11.18

Guðmundur í Brim var í sjónvarpsviðtali:

Glaður við góðverkið dó
er til Guðmundar arðgreiðslur dró
eins og ofalinn kálfur,
en átti sig sjálfur.
Fagur fiskur í sjó.

01.12.18

Fyrsti des. er fagur runninn,

fögnum stolt við þjóðarbrunninn.

Þó fullveldis við fengjum grunninn

fyrir hundrað árum

lokasigur ei er unninn.

Þó að eigin flaggi fána,

fóstri heita afreksþrána,

þá efstu þarf hún yfir rána,

ófleyg þjóð í sárum:

Staðfesta nýju stjórnarskrána!

 

03.12.18

Oft um dimman desember
drungi vex í hjörtum
ef kynjavera krímug fer
á kreik í skotum svörtum
en ekki við á eyju hér
yfir neinu kvörtum
því Venus hátt á himni er
og heilsar geisla björtum.

Viðkvæm mál ef orða á
svo ei af hljótist verra
Gunnar Bragi glansar þá
sem góður sendiherra.

04.12.18

Flugabeitt er frostsins kló,
fálmar mér um kinnar
svo mér verður um og ó.

05.12.18

Sólveig Anna var kölluð vanstillt, galin og vitfirrt vegna kröfugerðar Eflingar fyrir láglaunakonur:

Vanstillt, galin vitfiirrt“;
valdakarlarit birt.
Þögul ekki sit snyrt,
svara öllum hnityrt.

Ekki hafði Katrín kjark
að kalla þá réttu nafni
en Lilja setti magnað mark,
urðaði margan auman svark
í ofbeldismannasafni.

12.12.18

Ríkisstjórniun svæfði í nefnd tillögu um afnám „krónu á móti krónu skerðinga á örorkubætur og ellilífeyri:

Loforð svikin, engin efnd,
allt er hér í plati.
Svo er málið svæft í nefnd
samkvæmt stjórnar mati.

Nýtt sér hafa Vg völd,
verkin tala mikið.
Spánný veg- og veiðigjöld
og veika fólkið svikið.

Framsókn hefur fund í lagt
og formaðurinn sagt
um veggjöld orð með allri makt:
„Ekk’ á minni vakt“!!!

13.12.18

Spakur liggur, spyrtur fastur,
á spena sinnar póli tíkur.
Sannleik hver er sárreiðastur
ef sést í rifnar eigin flíkur.

Sjá má nú Sjálfstæðisflokk
snúandi framsóknarrokk
í vinstri grænum,
hlýðnum og vænum.
Helvítis fokking fokk!

23.12.18

Jólakveðja 2018

Ósköp vesæl vaknar sól,

varla lyftir brúnum.

Niðurlút, og nyrst við pól

norpar, mörkuð rúnum.

 

Og dagur eitthvað dundar sér,

en dregur stöðugt ýsur.

Í svefnrofum á fleti fer

með fornar rökkurvísur.

 

Þá birtan heims á hjara dvín

er huggun landsins börnum

að máninn hátt á himni skín

með höfuðkrans úr stjörnum.

 

Þar geislar bregða létt á leik,

því ljóst að ei er köfnuð

trúin, þó að von sé veik,

á visku, frið og jöfnuð.

 

Mín ósk er sú, það eitt er víst,

enn þó bregðist skjólin,

að fái kærleikslogi lýst,

og ljómi heims um bólin.

 

28.12.18

Kaupi sínu kveikir í
kverúlantaflokkur
svo rakettum, með ryk og blý,
rignir nið’rá okkur.

31.12.18

Datt nú allt í dúnalogn,
dátt hlær sól á himni.

Og botnið svo þetta, ef þið getið!!

Að tímamótum troðum stig,
tímans opið sárið,
þá er best að þróa sig
og þakka liðna árið.

 

Nýja stjórnarskráin

Lýðræðið hér laga skal,

enn logar frelsisþráin.

Góð næring í þann nestismal

er nýja stjórnarskráin.

 

Lýðræðið er heldur heft,

hækka þyrfti ráin.

Bíður nota, negld og skeft,

nýja stjórnarskráin.

 

Er stýrið brýtur stjórnarlið,

stefnan út í bláinn

réttir nökkva að nýju við

nýja stjórnarskráin.

 

Ef þjóð í bölmóð byltir sér,

bros á vörum dáin,

náðarmeðal nýtast er

nýja stjórnarskráin.

 

Stöðugt milli þrætuþings

og þjóðar, breikkum gjána

en náttum innan náins hrings

með nýju stjórnarskrána.

 

 

Úr dagbókinni 2017

Úr dagbókinni árið 2017. Safnið telur 314 vísur.

08.01.17

Bjarni ben í sjónvarpsviðtali:

Bjarni lyga styðst við staf,
streyma af hans vörum
furðu mikil ókjör af
ónákvæmum svörum.

15.01.17

Daglegt brauð hin dimma hlið,
drungaleg og blaut þján.
Með sömu tuggu tekur við
tvöþúsund og sautján.

Sundlaugarverðir á Akranesi vísuðu berbrjósta konu upp úr lauginni. Netið logaði:

Kona fer, um brjóstin ber,
í baðlaug á Akranesi.
Nei, sko! Er að nudda sér
um Netið, hver lúsablesi?

20.01.17

Bóndadagsveislan:

Sviðin upp úr vatni veidd,
veislu bíður maginn,
og þorramungát mild fram reidd
mér á bóndadaginn.

21.01.17

Ingi Björn Guðnason, Selfyssingur búsettur á Ísafirði, óskaði eftir limru:

Svo Inga Björns efli nú hag
ég ætla að stunda mitt fag.
Limru því yrki
og anda hans styrki.
Það er kjöldráttar dagur í dag.

25.01.17

Þarfnast þessi frekari skýringar?

Ofhitni kerfið um kring
er kúl, svona annað slagið
að passa að pæla einn hring
um Panamasamkomulagið.

26.01.17

Á leið á BETT kennslutæknisýninguna í London:

Sem Garðar hólmann, fús að flýj’ ‘ann
því framtíð svört þar tekur við.
Nú um borð í Norwegian,
nú flýg inn í sólskinið.

Hugleiðing:

Gustur vatnið gárar.
Geisli vekur blóm.
Kona verkin klárar,
karl í slettir góm.
Sögur aldrei sárar
ef sagðar einum róm.
En þegar illa árar
allir fá sinn dóm.

30.01.17

Það var alveg yfirgengileg mannmergðin í London. Ófært um Chinatown vegna ~mannfararflóða“:

Sem móða um strætin mannahjörð,
myrkeyg í straumsins þunga,
myljandi niður móður jörð
og mengandi hennar lunga.

31.01.17

Kosningafréttir að vestan:

Nú dámar mér! Það dreymdi að hann Dónald greyið
skammtaði’ á garðann, skraufþurrt vegið,
en skeit svo bæði og meig í heyið!

Trump, því miður, sýður seið
svo ei griðum lúti.
Þannig ryður þrautum leið,
því er friður úti.

Kerfisbundin skattsvik með blessun stjórnvalda“ er fyrirsögn dagsins í Fréttatímanum:

Blessaður stóreignabokkinn
með bönd sín um stjórnmálarokkinn.
Spillingin lifi!
Landsmenn það skrifi
á íhald og framsóknarflokkinn.

1.02.17

Áframhald að westan:

Hafinn þar westra nú er nýr
neytendavalsútdráttur
í beinni. Mjög í roði rýr
raunveruleikaþáttur.

Trúðurinn opinberar sig:

I know that they like it a lot,
the ladies, so I give it a shot
and grab them by pussy.
Then I grab me some sushi.
Now, see all the power I’ve got!“

Í andliti karlinn er krumpinn,
í kerskni því oft líkt við rumpinn
á óþarfanauti
í flagi. Með tauti
verður þá hvekktur og hvumpinn.

Þar um segja mætti margt,
mörk velsæmis teygja.
Finnst mér þetta fjandi hart,
fer samt best að þegja.

6.02.17

Jón Viðar drullar yfir sjónvarpsþættina Fanga:

Í góðu lagi leikurinn
en lokaþáttinn best við grisjum.
Hann endar svona, maður minn,
í melódramatískum klisjum!

7.02.17

Stjórnmálamenningin:

Með himinskautum hátt nú fer
og hæfileikar dafna.
Boðar í málum beiti sér
best, sem kjósendur hafna.

8.02.17

Vetrarveðrið:

Sunnanátt af austri hrín,
í andlitsdráttum greinir
að þegar hátt í kofa hvín
Kári mátt sinn reynir.

Eys úr koppum og kirnum
og klessir þessu, svo firnum
sætir, á glugga.
Nú glymur við skrugga
með rafhlöðnum, glóandi glyrnum.

10.02.17

Skýringar óþarfar:

Vetrarloppan vöndur kropps,
vorið toppar stundir.
Eg þá hoppa utan stopps
út um koppagrundir.

11.02.17

Muni vakir, en máls hef brest,
mest til sakar gefið.
Meitluð staka megnar best
mér að taka skrefið.

Hvað hægrimaður var þetta aftur …?

Stýrði rændri skútu á sker,
af skjánum mændi þjáður.
Hyglir frændum, alveg er
útvegsbændum háður.

Að öðru:

Hvenær svanasönginn hér
syng, það plan er falið.
Af gömlum vana á fætur fer
við fyrsta hanagalið.

13.02.17

Hádegismatur á Litlahrauni:

Himneskan fáum hádegismat
sem hljóðir á við kjömsum.
Hrekk upp! Einn, og seinastur sat
yfir soðinni ýsu, með hömsum.

Bullið:

Nú var hann Bubbi að byrja,
beljandi falskur, að kyrja
Bíbí og blaka.
Öll borgin mun vaka.
Ekki er aþþí að spyrja.

Nú er hann Bubbi að byggja,
að býsna mörgu’ er að hyggja.
Vinnuharður, en natinn,
og eftir hádegismatinn
finnst ljúft milli hluta að liggja.

Það var aldeilis kjaftur á kellunni
og karlgreyið varð fyrir dellunni
eins og romm út á skyr.
Svo rauk hann á dyr
er náði hún fjórtándu fellunni.

14.02.17

Valentínusardagur:

Ef konan blómvönd krefst að fá
og kominn ert með það í mínus
er helst að siga hundum á
helvítið ‘ann Valentínus.

Limrubullið:

Það er hálftómt í helvítis glasinu
og hundaskítur í grasinu
hjá Guðmundi ríka
sem reynir víst líka
að lifa á borgarabrasinu.

15.02.17

Íhaldið einkavæðir allt fyrir gróðavinina:

Ekkert nú ætla að drolla
og enn síður leggja þeir bolla
því einka skal væða
fyrir vini að græða
en við borgum vegatolla.

Dagleg nautn:

Það er fínt að fleygja sér
fyrir innan gluggann.
Um augnlok siglir, sýnist mér,
sama gamla duggan.

19.02.17

Blessaðar konurnar:

Í heiminn körlum koma þær,
þeim kenna sig að fóta.
Við þeim lukkan ljúfast hlær
er lífs með konu njóta.

Gamli enn að járna sjálfur:

Gömlum verður um og ó,
ástand mjög að kárna.
Með harðsperrur í hupp og þjó
og höndum, af að járna.

22.02.17

Forsetinn ver ekki hrifinn af ananas á pizzur:

Á Bessastöðum er ananas
ekki á pizzuréttunum.
Hinum megin er grænna gras.
Gúrkutíð í fréttunum.

Birgir Ármannsson, einhver glaðbeittasti þingmaður Íslandssögunnar, gagnrýnir stjórnarandstöðuna fyrir skort á gleði: „Einhver kolvitlausasta fýlubomba sem ég hef séð“, segir fýlusvipur aldarinnar:

Birgir skilið ekki á
óþefsbombuvosið.
Nú er ei með hýrri há,
horfið geislabrosið.

Anna María prjónar litfagra og góða vettlinga:

Á prjónunum leikur með liti,
listfengi mikið.
Góður á höndunum hiti,
handbragð ei svikið.

24.02.17

Svona var veðrið þennan daginn:

Vetrar nú er veður gott,
vinds með kúli hressu.
Fróðir trúa’ að verði vott
-og varla snúa þessu.

… og íhaldsstuttbuxnadúllurnar halda áfram að streða:

Labbakútar lúðir
mót lýði krit reisa
því brennivín í búðir
er bölvuð vit leysa.

26.02.17

Ungur maður fórst í snjóflóði í Esju:

Snjókorn eru ekki neitt,
ofan koma smá.
En þegar safnast öll í eitt
ógnarkrafta fá.

28.02.17

Alltaf er tími til að bulla:

Ef að skal til einhvers meta
úr sér gengið vaskafat,
ó, hve væri gott að geta
geymt þar úldinn dósamat.

Ekki má lengur tala tæpitungulaust um þetta:

Skrauthvörfin núna skemmta um of,
skrýtinn við þind finn seiðing,
því að nú kallað er þungunarrof
það sem hét fóstureyðing.

Karlakórsæfing getur mörgu bjargað:

Svart er núna komið kvöld,
kyrrð um Árnesþing,
en andinn brennur, að því völd
er ágæt kóræfing.

Dagur að kveldi kominn:

Brátt nú fer að bæla mig,
bíða morgunverkin:
Upp að rífa aftur sig
eða sækja klerkinn.

1.03.17:

Vesaldómur:

Járnað góðan hef ég hest,
Hrímni, trausta klettinn.
Í skjólin þó er fokið flest,
fór ei skeifnasprettinn.

Liðinn dagur, langar til
að leggjast niður flatur.
Þessa eymd ég ekki skil,
orðinn haugamatur.

3.03.17

Úr rætist vesaldómnum:

Á föstudögum finn mig best,
frjór í hug og glettinn.
Í fínu veðri, fyrir rest,
fór ég skeifnasprettinn.

8.03.17

Bölvað íhaldið vill einkaskattleggja almenning en hlífa ofurríkum auðlindajöfrum:

Flest viljum við akfæra vegi,
um víðáttur, dali og sveigi.
Það vel þess er virði
og veggjöld ei byrði
þó borga úr borginni eigi.

Limrubull:

Hjá Lúlla var ljóður á ráði
að löngunina af honum bráði
í félagsskap kvenna
og ei honum að kenna
hve Þjóðhildur ákaft hann þráði.

Systur hans Dags eru dökkar
í dúndrandi yfirvigt, klökkar
af innbyrgðri mildi
sem enginn þó skildi.
Þetta fordómasamfélag sökkar.

Stundum hangi heima
um helgar, læt mig dreyma
Kvasis um blóð,
svo Braga í slóð
einn um nótt ég sveima.

17.03.17

Limrubull:

Það var dansað og drukkið á Hóli,
meðan dragspilið þandi hann Óli,
úr söngbókum lunginn
til morguns var sunginn,
í pásunum púaður njóli.

18.03.17

Veðrið á Íslandi fylgir sjaldan árstíðum:

Eftir vorblíðu’ í allan vetur,
sem vanann úr skorðum setur,
kemur vetur í vor
með vesöld og hor
svo ég þarf að búa mig betur.

28.03.17

Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann „gríðarlega stóran sigur með því að lúskra illilega á annarri konu:

Andann rétta um ég bið,
og með dæmum kenni;
„falleg högg“ í andlitið
svo eftir sjái’ á henni.

Eins og „gengið hafi á hurð“
af heiftúð nauðug sorðin,
á vinstra auga með vænan skurð
og vönkuð, sýnist orðin.

Góða finn hér fyrirmynd,
sem fjölgar bótaþegum:
Með hnjánum beinir í hennar þind
höggum svakalegum.

Grið og miskunn gefðu ei,
í gólfi lent, í kröggum,
skalt klára þetta kvenmannsgrey
af krafti, þungum höggum.

Fór í níundu aðgerð ein,
sem ansi gott má telja,
og þrjátíu líkams brotin bein
er býsna mikil elja.

Selfossbrúna Ölfusár
undir krakkar steðja.
Hver öðrum þar veitir svöðusár
er sjálfsagt um að veðja.

Hæðum afreksíþrótt nær;
ef annan hittir: berð‘ann!
Lífsundirbúning æskan fær,
aðdáunarverðan.

HB Grandi ætlar að loka öllu draslinu á Akranesi. Fjöldi fólks lendir á vergangi. Eitthvað meira um það að segja?

Milljörðunum mokað úr
mar hjá HB Granda.
Á því verður örfár múr-
aður. Sér til handa
úr auðlindinni, í aflandstúr,
óhóf kann að blanda.
Mikið er ég orðinn súr
yfir þessum fjanda.
Íhaldið mun alltaf búr-
anum þétt hjá standa.
Á meðan fær sér landinn lúr.
Það leysir allan vanda.

29.03.17

Blessaður veslingurinn Sigmundur Davíð vogar sér ekki að greina frá hverjum hann var í samskiptum við þarna áður en upp komst um svikamylluna þeirra hjóna:

Kettir heitan kringum graut
klókir jafnan læðast
en fer af krafti um flagið naut
og fljótt er því að mæðast.

Blikar auga botnfrosið,
bera margir grímu.
Þennan sannleik þekkjum við,
því má hefja rímu.

Það er að vogunarsjóða sið
og Sikileyja „Dona“
að segja eitthvað einhvern við
einhvernveginn svona:

Kannski ef á einhvern hátt
eitthvað sniðugt gerum
úr býtum óðar, allt í sátt,
ofurfeitt við berum.

Lágum rómi, í laumi, bið
að leysum þannig málin
að opnist gátt á aflands hlið
svo innum komist sálin“.

Allt er talað undir rós,
ekkert hægt að sanna.
Nú barnaskapur birtist ljós
bláeygra þing-manna.

Þeir elta mann um veröld vítt
og velgjörð sinni lofa.
Í hótelsvítum er á mig ýtt
og í bjálkakofa.

Allt mitt verk ég vann til góðs,
nú vitar allir loga,
en frá að greina er æði óðs,
ekki mér það voga.

30.03.17

Rörsýn
Innblásið af Landsýn, eftir Björnstjerne Björnson. Syngist af innlifun við lag Edvards Griegs:

Ólafur tiginn Ólafsson
ók um víðan Borgarfjörð.
Stýrði til eigin erfðaríkis,
átti þar dýra jörð.
Stórbrotinn stafn sást rísa.
Í Stafholtstungunum ei í kot skal vísa.

Ólafur tiginn Ólafsson
ekki föðurtúni bast.
Settist hann að þar suð’r á melum
svona hið fyrsta kast.
Í athafnaskáldsins anda
allt hann kannaði; banka leit þar standa.

Ólafur tiginn Ólafsson
átti Hverfisgötuhöll.
Musterið gaf af mildi framsókn,
með fylgdu gæði öll.
Rausnin í reyk þó vaðin,
ríkisbanka hann fékk að kaupa’ í staðinn.

Nálgaðist mark, við Merkel-lýð
mælti nokkur valin orð.
Til ísalands stolnum flaug á fjöðrum,
falsið þar lagði’ á borð.
Enginn það athugaði,
Óli mælti þá, seðla í baði:

„Ríkidæmi hef ég hlotið
helling líka undan skotið.
Ég er hrifinn, hjartað bærist
hugur minn á þessu nærist.
Verður öll mín gjörð að gulli,
gapa fífl við lygabulli.
Sál mín grá af gróðahyggju,
gengur út af Kvíabryggju“.

Ólafs dæmum, allar tíðir,
allir fylgi jarðarlýðir:
„Ég er hrifinn, hjartað bærist
hugur minn á þessu nærist.
Verður öll mín gjörð að gulli,
gapa fífl við lygabulli.
Sál mín grá af gróðahyggju
gengur út af Kvíabryggju.

Gullið bræð! Beint í æð!“

1.04.17

Í rútuferð. Við hraðabraut í Garðabæ blasir við ónýtt drasl sem er himnasending í bleytutíðinni:

Fyrst jörðu blæðir, sem blautum svamp,
og blási vel um sveitirnar
er blessun mín að combicamp
komi nú í leitirnar.

Og meira úr sömu ferð:

Lífið, það er þrautaskrafl
og þó oft vitum svarið,
yfir svona ógnar skafl
ekki verður farið.

9.04.17

Brennivín í búðir“ syngja íhaldsbörnin. Í Amríku er það svona:

Til sölu byssur og brennivín
í búðinni við hornið.
Af fægðu hlaupi frelsið skín
í flöskuglampa lýðholl sýn.
Fyllir mælinn kornið?

14.04.17

Páskar framundan:

Nú býðst okkur nöpur páskanorðankæla.

Hita nær ei mælir mæla.

 

Dáfríð geislum dreifir föstudaginn langa.

Sól til viðar seint mun ganga.

 

Um yfirráðin átök milli íss og bríma.
Í framlengingu fer sú glíma.

 

Ríkisstjórnin svíkur öll loforð og „boðar fimm ára fjármálaáætlun sem gengur í berhögg við fyrri yfirlýsingar um endurreisn heilbrigðiskerfis og sókn í menntamálum“, skrifar Torfi Tulinius:

Ræningjaflokkar um Frón
fara sem veiðislyng ljón.
Stjórnin þá styður
og stelur, því miður.
Þýfið er þjóðfélagstjón.

15.04.17

Apríl er ekki alslæmur, alltaf. En stutt í kuldann:

Bylgjast nú sængur á snúru.
Sviðið með vorlegri flúru.
Himinfley siglir.
En svalinn sig ygglir:
,,Bragða skal svörður á súru!“

16.04.17

Páskavísur:

Mannkyn ráfar myrkri í,
við morð og stríð og háska.
Getum við eitthvað gert í því?
Gleðilega páska.

Sól í heiði situr vær,
sína greiðir lokka.
Okkur leiðir yndiskær,
yfir breiðir þokka.

19.04.17

Birti tvær myndir á Fjasbók af okkur hjónum í tilefni 34 ára sambandstímamóta, aðra frá upphafinu og hina úr nútímanum, með þeim orðum að frúin hefði „hangið með mér allar götur síðan“. Stína í Austurhlíð taldi ástæðuna augljósa; engin alvöru kona stæðist töfra hagmælskunnar:

Að sönnu er það ekkert grín,

á því jafnan græði

að silkitróðu töfra mín

tíðu ástarkvæði.

 

20.04.17

Í nestið kveða kann ég lítt,
klaufa meðal talinn.
Myndi héðan fara frítt
ef fyllti téðan malinn.

Berleggjaðar
í bandaskóm,
ungur meyjarbarmur
brumar.

Sólgleraugun
setja upp
í gulum hlýrabolum
gumar.

Skríður þykkur
skýjabakki,
á löngum, dimmum éljum
lumar.

Það er komið
sumar.

03.05.17

Sýnd var í sjónvarpi heimildamynd um baráttu Skagfirðinga gegn háspennulínu þvert yfir blómlegar sveitir:

Laxárstíflusprengja springur!
Þá sparði hvorki hug né mund,
því eitt sinn þótti Þingeyingur
þrautgóður á raunastund.

Virðist þar nú önnur öldin,
alveg kokgleypt foldarspjöll.
En vopnin brýna, skekja skjöldinn,
Skagafjarðardalatröll.

Breska krúnan fer fram á 1,5 milljóna evra skaðabætur, vegna brjóstamynda af hertogaynjunni af Cambridge.
Myndirnar settu sálarlíf bresku þjóðarinnar á hliðina. Það voru þó ekki brjóstamyndirnar sem fóru verst í bresku þjóðina:

Ekkert milli mála fer,
mjög er fríð um barminn.
En prinsinn ekki á brjóstin ber,
bara endaþarminn.

Sveitarstjórn Flóahrepps ákvað að láta skólastjórann fjúka. Í fréttum birtist sftirfarandi klausa: „…Á fundi fræðslunefndar og sveitarstjórnar í morgun var einnig rætt um velferð nemenda og ábyrgð fullorðinna á umræðunni um skólann þeirra.“

Flóamannafórnarlund
er fyrir Kampholtsmóra
sem ræður þeim að rétt sé stund
að reka skólastjóra.

Vigdís nokkur, margfræg af endemum, tjáði sig, eftir nokkurt hlé, um ágæti mestu afturhaldsklíkunnar í Framsóknarflokknum:

Vigdís í kjaftinum kræf.
Guðfinnu gefur hún five
og Simma og Braga!!!
Ja, svei alla daga!!!
‘Bat out of hell’ is alive!!!

Að öðru:

Mikið um, í margri sveit,
móa, urð og klungur.
Af ferðum mínum verst þó veit
að vaða illar tungur.

04.05.17

Núna er í frjálsu falli
ferleg ríkisstjórn.
Refskák leið með lygabralli;
leikin Óttarsfórn.

09.05.17

Stjórnardáða er dýrð um of,
drýpur smjör af henni.
Um hana ætti’ að yrkja lof,
ekki því samt nenni.

Nú er úrið orðið 10,
eg því stúrinn fer að h8.
Senn þó dúra, sæll að 9,
síðan kúri jeg til 8.

Málmar og gler að ganga 12,
nú gott er sér að halla.
Tálmar mér, og treð því gólf,
svo tæpur er ég varla.

10.05.17

Hvergi er notalegra að vinna að trúboðinu um hinn vonda ríkisrekstur, yfirburði einkaframtaksins og kosti einkavæðingar, … en í öruggu skjóli sem opinber starfsmaður…“ skrifar Steingrímur í blaðagrein í Fréttablaðinu:

Háborðinu hrynur af
hratið eftir svolana.
Háskólinn alveg helling gaf,
Hannes tínir molana.

11.05.17

Sláttur hófst seinna þetta vorið en stundum áður:

Karlinn fjandi aumur er,
allur þorrinn máttur.
Bletturinn í órækt fer,
ekki hafinn sláttur.

16.05.17

Það var skammt til þess skylli á þoka
svo Skammólfur ákvað að doka
uns lítið var ljós.
Það var draumur í dós.
En kamrinum láðist að loka.

20.05.17

Ef ég gæti óskað mér
alls í svangan maga
fengi ég bæði fisk og smér
flesta vikudaga.

Af flokksþingi Framsóknar:

Helst af fundi framsóknar
að flokksmenn allir mættu þar,
SIngi af sér svikin bar
en Simmi kraup við gráturnar.

Ennþá framsókn eitthvað mun víst lafa,
innan flokks er tæpast neinn í vafa.
Og þar er enginn af því neitt að skafa:
„Allir vildu Lilju kveðið hafa“.

Af vorverkum:

Núna margt í moldu fer,
mykja og hrossaskítur.
Húskarl víða á hóla ber,
höfði á meðan lýtur.

Lyktin er í loftinu,

leggur fyrir vitin,

fjandi mikið finn ég því

að fellur í mér nytin.

 

Sonnetta

Út um gluggann sé ég sólarlag,
þar silfur togast inn í gullinn loga.
Þangað ætti enginn sér að voga
sem ætlar sér að líta nýjan dag.

Á vesturhimni varla sé nú roða,
veit ég þó í austri skýin bleik.
Röðull, er það háð í hráskinnsleik?
Hefur þú mér stefnt í sálarvoða?

Það mun á efsta degi duga skammt
að dvelja við sinn skitna æviharm
og brjóta heilann, biturt ævikvöld.

Á landi voru kvað þó kveða rammt
að hversdagstrú á hulinn verndararm.
Núna Kostkó upp er runnin öld.

24.05.17

Jeg er alveg æðislega sáttur
eftir hlýja næturgróðrarskúr
og engin heimsins ógn, né dularmáttur
á þess kost að leggja mig í súr.

Ljúf er gangan lífs á veg,
leiðir fátt sé teppa
og hrossum mínum ætla eg
út á grös að sleppa.

Ljúf er gangan lífs um veg,
létt í fangið gola,
gróðurangan yndisleg,
úðinn vang að skola.

Núna þarf ég nokkur orð að mæla!
Neita þó að sé með minnstu stæla!
Þarf samt fyrst, þið afsakið, að æla.
(Í andskotanum, hvað er ég að pæla?)

Fékk margar góðar afmæliskveðjur á Fjasbók:

Hjartað nú orðið meirt og milt,
muna kenni glóðar.
Það er mér bæði þjált og skylt
að þakka kveðjur góðar.

25.05.17

Enginn bjór og ekkert skraut,
enginn kökubakstur.
Afmælisdagsins dýrðar naut,
í draumi, við rútuakstur.

Ef að sé og ef að skyldi
einhversstaðar náð og mildi,
kannski þá Sigmundur samtök stofni
svo að framsókn um herðar klofni.

Nú má aftur neyta brauðs,
njóta brauðmolanna.
Heims því fæ í hléi auðs
hlýju eina sanna.

29.05.17

Vísindaferð Fjölbrautaskóla Suðurlands til Valencia og Alcoy á Spáni. Útsýn úr rútunni á leið til Alcoy:

Á ferð um hrjóstrug héruð Spánar,
hreyfir ekki vind.
Loft af reykjarbólstrum blánar,
bölvuð hryggðarmynd.

Skólaheimsókn í Alcoy. Eftir hringferð um skólann var boðið til hádegisverðar:

Víst þarf sýna, í vísindaferð,
vinnuaga harðan.
Svo rennur hjörðin, alls riktis verð,
og raðar sér á garðann.

Í einni kennslustofunni stóð beinagrind úti í horni, með grænan stráhatt á kúpu:

Í aldanna rás hefur vitið vægt,
það vakir með kynslóðaarfi,
svo kennaraliðið er lítilþægt
og lengi endist í starfi.

Svo var skólastarfið kynnt í fyrirlestrarsal:

Hjörðin í munúð mestri,
og á meðvitundarrófi,
á fróðlegum fyrirlestri
með faglegu glærusjóvi.

30.05.17

Það rignir víðar en á Íslandi:

Það er grenjandi úrhellis gróðrartíð,
grámóskan ekkert að digna.
Rólegur heima á herbergi bíð.
Hann hættir um síðir að rigna.

Dómsmálaráðherrann hljóp frá tillögu hæfisnefndar til að koma „réttum aðilum“ í nýstofnaðan Landsrétt:

Við því alþjóð aldrei bjóst
að eyddi skítablettinum.
Nú er orðið alveg ljóst
að hún spillir réttinum.

02.07.17

Skólaheimsóknum og vinnuferð að ljúka og þá tekur við vikulangt frí, sem nýtt er svona:

Nú er þetta nokkuð gott,
nú má drekka ‘lunch’.
Og það er ljóst ég þæði dott
eftir þriggja tíma struns.

03.06.17

Af biturri reynslu fyrri ára reyndi ég að tryggja mig með þí að vefja tær með íþróttalímbandi:

Nú er framtíð nokkuð skær,
njóta mun þess lengi
að ég hafði teipað tær
túrinn áður gengi.

04.06.17

Í Alicante lá margur dallurinn, ekki af vanefnum smíðaður, við bryggju:

Hér er brakandi þurrkur, hádegishlé,
í höfn allir einþóftudallarnir.
Það er ládauður sjór og lítið að ske,
lagstir að, grásleppukallarnir.

Að liggja í sólbaði svolitla stund
og sofa, ei talið er galið.
Ef í logunum kærulaus lengirðu blund,
löngum þó galið er talið.

Næturhimin skekja skruggur,
skýin bólstrar rafurmagns.
Í brjósti mínu enginn uggur,
öll þau virkjum brátt til gagns.

05.06.17

Lífið á sólarströnd:

Frá morgunmat svaf undir sólu
í sandinum gyllta með ströndum.
Síðdegis gladdist við gjólu,
glansandi, allur í röndum.

Gleðiefnin gefast skjótt,
gott er hvað með öðru,
gyllinæð og líkþorn ljótt
ef líka á tær færð blöðru.

Hvað er nú betra en kyrrð og ró
undir kræklóttu pálmatré?
Kvöldsólin gyllti, til hvíldar sig bjó,
en hver ætli drottningin sé?

06.06.17

Rán að löndum lyftir sér,
ljómar ströndin fögur.
Þræða böndin bylgjur hér,
báru föndra kögur.

07.06.17

Upp á höfðann árdegis,
Önnu lítið tafði!
Svo í búðir síðdegis.
Sigur mikinn hafði.

What the hell! I went to mall,
don’t want to tell about it!
Like a kelling, first to fall!
Found there helling? Doubt it.

08.06.17

Rómantíkin ríður mér á slig
er reyni’ að taka hana’ á næsta stig.
Ég er latur og leiður,
ljótur og breiður
en Anna er alltaf söm við sig.

09.06.17

Nú líður senn að lokum Spánardvalar,
ljúfir dagar enda gjarnan skjótt.
Þó miður dagur sé á mörkum kvalar
mun ég þar um ekkert segja ljótt.
Og það er annað hljóðið, þegar konan talar,
hún þráir hitamollu dag og nótt.

Vigdís er eins árs í dag:

Liðið núna eitt er ár,
ævin varla hafin.
Bæði gefið bros og tár,
blíðu og kærleik vafin.
Lýsa upp heiminn ljósar brár,
ei lítið montinn afinn.

Vinna munt þú marga dáð,
málin stöðugt ræðir.
Yndi hefur um þig stráð,
ömmuhjörtun bræðir.
Um fingur þér, sem fínan þráð,
foreldrana þræðir.

Óskrifað er æviblað,
enn þarf vernda haginn
svo dembir þér ekki á dýpsta vað,
af dæmum lærist aginn.
Vigdís, þú töltir tign af stað!
Til hamingju með daginn!

14.06.17

Ákvörðun ríkislögreglustjóra um „aukinn sýnileika vopnaðra lögreglumanna á fjölmennum útisamkomum“ er umdeild, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Á málinu eru bara tvær hliðar, eins og sýnt er í meðfylgjandi sléttuböndum.

Siðar löggu, fráleitt fer
fyrstur að bögga lýðinn.
Friðar glöggur, ekki er
eilíft að ‘plögga’ stríðin.

15.06.17

Í skoðunarferð með eldri borgara í Rangárþingi var Akureyjarkirkja í Landeyjum einn viðkomustaðurinn:

Í Njálsbúð margir ástir vilja virkja,
víst að gjarnan sést í holdið bert.
Þetta hér er Akureyjarkirkja,
oft á milli leiða það er gert.

21.07.17

Við sumarsólstöður í rigningu og roki:

Hvergi banginn vítt um vang,
votur spranga hól og drang.
Sumarangan fyllir fang
furðu langan sólargang.

Birkið dansar býsna villt,
búk og mjaðmir sveigir.
Alveg virðist orðið tryllt,
alla limi teygir!

Smá lífsspeki:

Eftir dýfu, upp á fót,
enginn hífir lengur.
Einn að klífa upp í mót
út á lífið gengur.

Ekkert græðir tímans tönn,
talsvert skæð við rætur
svo undan blæðir, ekki spönn
að sér hæða lætur.

22.06.17

Það er nóg að gera á helstu ferðamannastöðum, m.a. Geysi í Haukadal:

Nokkuð þarf til neyslu hér
af nauti, svíni, lambi,
kjúkling, fiski. Og kokkur sker
kál af nokkru drambi.

Margur fer um hlöðin hér,
hópinn ber með straumi.
Þjóðin sér að þessi her
þungur er í taumi.

… og víðar:

Komu í hugann kristileg
kartaflan og grjónið
þegar kotungskarlinn ég
keyrði í Bláa lónið.

24.06.17

Góða veislu gjöra skal:

Eftir góða yndisreið
eitt er mesta hnossið:
Þegar hefur skellt á skeið
skaltu éta hrossið.

Kvöldsólin er kynjavera,
kveður sumardaginn.
Þó ekkert láti á því bera,
hún eflir sálarhaginn.

Við miðnætti á Ísalandi er
ekki’ á himni ský.
Júnínóttin undur eldar mér,
að því lengi bý.

26.06.17

Ef styrr þér óar, stundarfró
styður þó á fætur
en betur stóísk styrkir ró,
stressið róa lætur.

27.06.17

Á ferð um Dali vestur:

Oft var legið í laugum
á Laugum í Sælingsdal.
Í baði fór Bolli á taugum
við biturt Guðrúnar tal.

Ferðamaðurinn grípur oft til „örn-þrifa ráða“ og því eru sett upp skilti til leiðbeiningar:

Sagt er að margt sé mörgu í
en maður sínu þarf að ljúka
þó að á private property
prohibited sé að kúka.

Viðkoma í Ólafsdal í Gilsfirði:

Það er fagurt enn í Ólafsdal,
og ansi mögnuð skólasaga.
Út á haf og upp í fjallasal
útsýn gleður bjarta daga.

30.06.17

Enn á ný staddur á Geysi með ferðamenn. Vel útilátinn hádegisverður í boði:

Af stórum skammti stendur við
steikin hér á Geysi.
Í þægindunum þigg svo grið
og þýðan vindinn leysi.

04.07.17

Allt er vænt sem vel er grænt,
vel því hænt að minnið.
Á það mænt en engu rænt
ef að kænt er sinnið.

05.07.17

Staddur á Skarfabakka að bíða eftir ferðamönnum í rútuna:

Skemmtiferðaskipið margt
skríður hér að landi
en farþeganna önnum vart
urðun á kúki og hlandi.

06.07.17

Í fréttum var að breskar unglingsstúlkur flykkist í skurðaðgerðir til að láta „fegra“ skapabarma sína:

Breskar í biðröðum standa
barnungar stúlkur í vanda.
Sárri, að vísu,
sjálfsmyndarkrísu
klámstöðlum heiður til handa.

07.07.17

Staddur með ferðamenn á Snorrastöðum á Mýrum:

Upp úr hrauni Eldborg rís,
allt nú vaxið kjarri.
Eflaust hérna aftur gýs
okkar dögum fjarri.

Svo var ekið í Stykkishólm:

Við tókum dallinn Baldur yfir Breiðafjörð
á björtum, undurfögrum sumardegi.
Ég sendi klökkur þúsundfalda þakkargjörð
að þurfa ei að keyra slæma vegi.

08.07.17

Næsti áfangastaður var Breiðavík og síðan Látrabjarg:

Hér er mikið rok og regn
og rætið þokufarg
svo að það er mér um megn
að mæra Látrabjarg.

Upp komst að bilun hafði orðið í skólphreinsikerfi Reykjavíkurborgar, og mannlegt affall flotið hindrunarlaust í sjóinn:

Kötturinn heldur hægt sér fer
heitan graut í kringum
en fólkið skvampar og skemmtir sér
í skólpi frá Reykvíkingum.

09.07.17

Á leið um fjallvegi til Ísafjarðar:

Yfir dalalæða liggur,
í lofti nokkuð svalur
og kossa sólar þakklátt þiggur
þorpið Bíldudalur.

Æður kúrði út við fjörð,
yfir krían flaug.
Ró og friður, rómuð jörð
við Reykjarfjarðarlaug.

Grípandi, hrífandi hrynjandi,
hreinsandi náttúrurapp.
Syngjandi, dansandi Dynjandi
fær dynjandi lófaklapp.

Efst á Hrafnseyrarheiðinni
er heljarmikill skafl.
Sá páfann, svo vel bar í veiðinni
að span’ ‘ann, og spá svon’ í leiðinni
um spennandi endatafl.

Hafa um það vissu vil
en vötn öll núna sýnast
Dýrafjarðar falla til.
Fjörið þar vill týnast.

Staður þessi þykir við að hjarna,
því af festu tóku menn til varna
og laxakvíar fljóta um fjörðinn þarna,
fágæt blessun, helvítið a’tarna.
Fyrir löngu bjó þar Óli Bjarna.
Bið ég um að nefna stað þann arna.

Geisar foldarfegurð skæð,
feikna sálarbyrði
sýn af fjórðu hótel hæð
hér á Ísafirði.

Í rólegheitum á hótelherbergi streymir ýmislegt fram:

Aumur larfur, ætíð hvarf,
engum þarfur, blauður.
Alger skarfur, andlegt svarf,
eins og karfi rauður.

Nú er best að nátta sig,
nudda sér innundir skelina,
lesa í bók, og lokastig
að leggjast í öndunarvélina.

10.07.17

Ók ferðamönnum inn undir botn Álftafjarðar, hvaðan leið þess lá yfir í Bjarnardal í Önundarfirði:

Á svæði lítil þekking, því
þessa mynd ég tók.
Hvað nefnist fossinn inni í
Álftafjarðarkrók?

Ók mína leið að taka á móti göngugörpunum, tók mynd og lagði þessa gátu fyrir Fjasbókarvini:

Að líta í bækur og landakort
legg ég til er ferðast skal.
Ein hér getraun, upp á sport:
Einhver sem þekkir fjall og dal?

Fyrir botni dals, og klýfur hann í tvo, er fjallið Hestur:

Spekingslega spáði gestur,
spurði um fjall og dal.
Nágranninn hér heitir Hestur,
og horfir fram um sal.

Í biðinni vakna oft þarfar spurningar eins og: „Hver er tilgangurinn með lífinu? Til hvers er ég hér?“

Hvers ei vil ég vera án,
en við mín örlög reira?
Það er blessað barnalán,
bið ég ekki’ um meira.

13.07.17

Þremur dögum eftir Ísafjörð er ég staddur í Landmannalaugum, enn að bíða eftir göngufólki, en …

Þar standa bílarnir í röðum, Roverar og Duster,
og regndroparnir hanga’ á framrúðunni.

Ekið um Dómadal og niður Land, komið við hjá Þjófafossi:

Þjófafoss er þekkilegur,
þegar vatn er í’onum.
Þannig að sér dável dregur,
í dag var ég í skýjonum.

14.07.17

Örlítil sjálfsupphafning:

Mætti ég biðj’ um það betra
en bráðgóða limru hér letra
sem dáðst verður að
og dreift svo með hrað-
i til mörlandans menningarsetra?

Og svo að allt öðru:

Vitum að valinkunnur
varla er galinn, þunnur.
Valdið með plottar,
siðferðið vottar
en fyrir því falinn grunnur.

Og enn öðru:

Ef að mætti monta sig
máske einu sinni
langar mig bara að belgja mig
af börnum, og konu minni.

15.07.17

Smá öfugmæli skaða engan:

Nú líklegast legg ég mig bara
og lífsneistann reyni að spara,
leggst undir feld,
reyni svo eld
að skotsilfri mínu að skara.

16.07.17

Kvennalandsliðið í knattspyrnu stillti sér upp til myndatöku í uppgöngutröppur flugvélar, með þjálfarateymið fremst á myndinni:

Öll barátta blæs út í vind,
hér blasir við feðranna synd
sem gróflega ‘fokkar’
í stelpunum okkar
á karlamengaðri mynd!!!

Endurminningin merlar …

Rétt tæplega tuttugu vetra
og tveggja, ég svam lokametra
sem heimalningsfjandi.
Hún dró mig að landi
(og undir sig vandi).
Hvað getum við beðið um betra?

18.07.17

íslenskt sumarveður?

Nú skal ei trylla og tæta
heldur trygglega heimilis gæta.
Svo andsjálfið finni
heldur mér inni
heiðarleg hásumarvæta.

Forseti lýðveldisins var í miðri áhorfendaþvögunni á fyrsta leik Íslands á EM í Hollandi:

Forsetinn var ekk’ í VIP stúku,
vaskur hann sat hjá þeim flippsjúku.
Við voðalegt stappið
og víkingaklappið
króníska fékk hann svo kipplúku.

19.07.17

Félag Ólafs Ólafssonar gæti innleyst yfir 800 milljóna hagnað“ mátti lesa á Netinu:

Lífið er bæði margþætt og magnað
ef markinu ekki við týnum;
að ‘mennirnir’ fái hógværan hagnað,
smá hlutfall af verðleikum sínum.

25.07.17

Beðið í Hveragerði. Ryðið farið að lita hvíta klæðningu hússins sem við blasir út um framrúðuna:

Ágengan heyrðu í öspunum þytinn,
áfallið gufað og járnið var þurrt.
Í verkið því ráðist með rauðbrúna litinn,
um ríflegan verktíma ekki er spurt.

26.07.17

Ók eldri borgurum á Selfossi í Þórsmörk, og til baka. Örlygur skólameistari og Sigurður dýralæknir voru leiðsögumenn. Komið hafði verið fyrir útvarpssendi í rútunni sem þeir sátu í en móttökuskilyrðin voru ekki upp á sitt besta þannig að farþegar mínir námu fátt af þeim fróðleik sem í boði var. Vegurinn inneftir er heldur ekki fyrir skemmtiferðir:

Á skaki þessu skemmti mér,
skemmdum við þó liggi.
Í útvarpinu urga hér
Örlygur og Siggi.

29.07.17

Fallegt sólarlagið myndað:

Kvöldsól heitan kveikir eld,
kyndir andans bál.
Hennar málverk fyrir milljónir seld.
Þessa mynd ég keypti. Skál!

10.08.17

Allt stefnir eina leið…“

Liðið er stefnulaust, starandi,
sturlun í augunum, farandi
gráðugra, graðara
hærra og hraðara,
hvergi sperringinn sparandi.

Í hreppnum varð héraðsbrestur,
hrakinn í burtu gestur.
Þar greip um sig ótti
því ‘onum þótti
sannleikur sagna bestur.

Karl er að smyrja og smúla
og smælar með uppglenntan túla.
Þó ákaft það reyni
og orku í beini
hann fer ekki’ í skóna hans Skúla.

11.08.17

Meira af bulli …

Sigfinnur stekkur á stöng
um starmýrar vorkvöldin löng.
Þó alla hann toppi
í ónytjuhoppi
bresta þó svanir í söng.

Valur er fáséður fugl
sem flaug í sumar af BUGL.
Um mela og móa
mest er að dóa
þyljandi voðalegt þrugl.

Margt er í pípum hjá Páli,
pilturinn eins og á báli!
Í seglin fær byr
og Sigríði spyr:
,,Viltu kjúklingasalat með káli?“

Friðsamur búsmalinn bítur.
Bærinn er málaður hvítur.
Gælir við vangann
golunnar angan.
Við túngarðinn túristi skítur.

Nútíma kynhneigð er krísa
og hvötunum erfitt að lýsa.
Þó eikynhneigð geisi
og náttúruleysi,
faðmist nú, piltur og físa!

12.08.17

Og enn meira bull …

Bóthildur hvergi var bangin
og bónorðið dró ekki’ á langinn:
,,Ég brúðgumann el
og bragðast mun vel
Hólmfreður, reiktur og hanginn“.

Sigmundur Davíð er súr
því Sigríður And. er á túr
um Eimreiðarlendur
og honum ei stendur
á sama um „sjálfseigin“ kúr.

Margt er í myrkrinu falið.
Að magna upp ótta er galið.
Kvalir og helsi.
Konan þarf frelsi.
Þar liggur vandinn og valið.

Nú er bjart og norðanátt.
Nú dró ský frá sólu.
Nú mun varmans njóta brátt.
Nú dró ský fyr sólu.

19.08.17

Hún Gréta Rós Grétars. frá Lundum
var grátlega fyndin á stundum.
Úr læðingi leysti
lof og háreisti.
Samt var hún ferleg á fundum.

Mynd birtist af Bandaríkjaforseta við stýri í bátkænu, blásandi í KluKluxKlan-seglið:

Heimsmyndin: Lok, lok og læs.
Lífsspekin: Enginn er næs.
Á kynþáttahyggju
ýtt er frá bryggju.
Í seglin bastarður blæs.

20.08.17

Það er margt að minnast á,
mikill heimsins þunginn.
Væla út af mörgu má,
margur grísinn stunginn.

Gott að fá að undrast á
ýmsu, þrá og dreyma.
Alltaf má í mörgu sjá
margt, og spá og sveima.

21.08.17

Telja ágústmánuð má
mjög svo bjartan vera.
Úti flestir eru þá
ýmislegt að gera.

22.08.17

Líf í fang mér lilju gaf,
lofnarangan nærir,
léttir gang, og ljóminn af
lit í vanga færir.

Ef gamall lifi, gleðjast hlýt,
er góð, óskrifuð regla,
þegar yfir líf mitt lít
loks við rifun segla.

Tungan bundin, tekur á,
en trúgjörn lundin mætti
alveg stundarfriðinn fá
fyrir undanslætti.

23.08.17

Mögl og streð ei meta kann,
mildi geð þarf prýða.
Núna gleður margan mann
mikil veðurblíða.

Ei minnsta vott úr býtum ber,
berst mót hrottakófi.
Minn brotinn pottur eflaust er
en allt er gott í hófi.

Gleði, yndi, gæfa mest,
gull í lyndissjóði,
að vita í skyndi vakran hest,
vekja mynd í ljóði.

24.08.17

Nú verður að gæta að orðum sínum – og hugsunum!

Alveg var Eiríkur sleginn
því of þótti bolurinn fleginn
og máls á því ljáði.
Í myrkvuðu háði
karlinn var fljótlega fleginn.

Sjaldan það kemur að sök
ef á segli og vindi kann tök
og Týr hélt það slyppi
þó á Tinnu hann skryppi
en aldrei er ein Bára stök.

25.08.17

Stutt er í að allir Íslandsfirðir verði fullir með laxakvíar norskra fjárfestingarfélaga, sem ekki fá lengur heimildir til að menga firði heima hjá sér.

Nú er uppi nokkurt þref
um nýting landsins fjarða.
Gróða hafa norskir nef
og nytjastefnu harða.
Hér er ennþá alþekkt stef
að engan muni varða
sýn á yfirvaldsins vef,
verndun best að jarða.
Auðlindirnar gjaldfrjálst gef,
gull á Íslands kvarða.

27.08.17

Jarðskjálftar í Bárðarbungu …

Í bríma sér byltu og óku
svo burtu gaflana tóku
Bárður og frú
og rétt fyrir 3
bunguna skjálftarnir skóku.

Eftir ábendingu kunningja og til að samræma við fréttaflutning:

Í bríma sér byltu og struku,
svo burtu gaflarnir fuku,
Bárður og frú
og rétt fyrir 3
bunguna skjálftarnir ‘skuku’.

Við lækinn var Geir talinn latastur,
lá þar, í andanum flatastur,
langt fram á haust.
Þá brýndi hann raust:
,,Enginn er einna hvatastur“.

Margrét Guðmundsdóttir, íslenskan í forgang?

Það er maðkur í móðurmálstægjunum
svo af metnaði sá skal nú fræjunum
til afburðarmennsku
í ritlist, á ensku,
sunnlensku bóka- í bæjunum.

Á daginn hefur dugað mér
að draga stöðugt ýsur.
Er kvölda tekur alsæll er
að yrkja slæmar vísur.

Hvað er betra’ en kvöl og pín
í kristilegum anda?
Litlu verkin láta sín
gegnt lokadómi standa?
Sum þó virtust býsna brýn,
bæta úr heimsins vanda,
reyndust bara bitlaust grín
og bárust ei til stranda
-lítilla sæva og sanda-

29.08.17

Félag eitt kennir sig við ‘þróun’ og vill byggja „nýjan“ miðbæ á Selfossi:

Þróun nær, um þröngan stig,
á þráðan, hæsta tind
er flóamennskan fetar sig
um falska götumynd.

Konan skrapp í berjamó í dag:

Kvöldmaturinn kjarnafæða,
krækiber og skyr með rjóma.
Hér er úrval um að ræða,
Íslands kost og þjóðarsóma.

Skyrið í dollunni heitir nú „Ísey“:

Hví má ei bara skyrið heita skyr?
Hvað skemmir gamla nafnið?
Er íslensk málhefð rétt við dauðans dyr?
Mun djásnið þjóðar flutt á minjasafnið?

Nú mér er sagt að skyrið sé ei skyr,
en skítamix úr jógúrtgerlum.
Í forundran og fávisku ég spyr:
Má falsa allt með gömlum perlum?

04.09.17

Enn ein um veðrið:

Út um grundir undur nem,
eins og hellt úr fötu.
Dró því hund af sundi sem
sá í næstu götu.

13.09.17

Ekkert hef nú ort um hríð,
engin stefin fundið.
Birti ef ég enn, með tíð,
orðavef get bundið.

14.09.17

Mildri hönd um hauður fer
haust, með sólarblíðu.
Ljós og skuggi leika sér
í litarófi fríðu.

15.09.17

Gleðidagur í pólitíkinni. Þegar maður vissi ekki hvað tók vði!

Um dyggðir spilling spólar reyk,
þeim spýtir í hrákadallinn,
en nú á þjóðin næsta leik,
nú er stjórnin fallin.

16.09.17

Stjórnin er fallin, svo fagna má,
fyrr en að nokkurn varði.
Í framtíðarhorfur flestir nú spá,
með framboðakosningaarði.
Mætti ég biðja um meiri virkt,
melgrasskúfurinn harði,
en að framsóknaríhald sé styrkt
undir spillingarbarði?

17.09.17

Meira um íslensku stjórnmálamenninguna:

Skal stokka spilin, sprengja’ upp klíkuheim,
og spillinguna héðan burtu skera?
Eða frekar fyrirgefa þeim,
fyrst þeir vita ekki hvað þeir gera?

18.09.17

Á Íslandi blasir við álitamál,
hvort í eldhúsi þingsins mun boðinn
sami grautur úr gamalli skál
eða glænýr og passlega soðinn?

19.09.17

Brynjar Níelsson var til umfjöllunar vegna stöðu sinnar í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sem fjallaði um „uppreist æru“ Roberts Downey og fleiri mál, en Brynjar hafði varaið kynferðisbrotamenn:

Harður ytri skrápur bara blekkir,
já, Brynjars æði viðhorf margra skekkir.
Hann trega sínum í táraflóði drekkir
því tilfinningar öðrum betur þekkir.

Af öðrum meiði:

Verst er lífið vekur tár,
varga drífur að.
Engu hlífa sjáist sár,
sífellt ýfa það.

20.09.17

Þarfnast ekki skýringa:

Nú mun virkni ‘nývaldsins’
nokkuð styrkja verða.
Enn blæs sirkus íhaldsins
til óráðs kirkjuferða.

21.09.17

Tíminn stríður straumur er,
stofna víða dregur.
Flotinn skríður fram úr mér
fyrirkvíðanlegur.

Ögn og mikið, allt í senn,
augnablikið nemur.
Fyrir vikið, á mig enn,
óvænt hikið kemur.

22.09.17

Sléttubandaæfing:

Drengur góður alltaf ert,
ekki bróður hnjóður.
Fengur tróðu -silki sért,
síður óður skjóður.

23.09.17

Kosningaloforð:

Ef velferð styrkið og stjórnarskrá,
stoppið siðferðistrosninga,
á menntun að gagni gerið bót,
þá geng ég bundinn til kosninga.

26.09.17

Allir fimm stjórnarmenn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar sögðu sig úr flokknum, vegna meintrar aðfarar að fyrrverandi formanninum Sigm. Da. Gun.:

Það má telja nú þyki súr
þjóðhreinsunardraumurinn
fyrst að liggur Framsókn úr
flóttamannastraumurinn.

29.09.17

Enn dró til tíðinda í Framsóknarflokknum:

Gunnar Bragi gekk á vegg
og gerði hið eina rétta
með hnút í maga. Hans nístir negg
að neyðast út í þetta.

Og leiðtoginn mikli:

Fráleitt ég sem flokkinn klauf.
Fremstur ég er talinn.
Á fróni ég ei friðinn rauf.
Fyrstur ég mun valinn“.

03.10.17

Wintrissjólinn reyndi að gera upp skattaskuldir vegna undanskota aflendis en fékk að nýta sér gengistap við uppgjörið:

Í Kastljósi gerðu hælbítar hrekk,
um heiminn allt þaðan upp lapið.
Þá var mokað úr sjóðum í sekk
og sent, til að fylla í gapið
hjá skattstjóra. Í fyrstu ferlega gekk,
en fljótlega léttist skapið.
Fyrir náð og miskunn hjá nefndinni fékk
að nýta sér gengistapið.

04.10.17

Merki Miðflokksins kynnt. Útlend bykkja á afturlöppunum:

Íslenski hesturinn er vinalegur en getur risið upp á afturlappirnar þegar hann þarf að sýna kraft sinn og óttaleysi.“

Framsóknin oft í fasi skýr,
sem fjörið ólmi.
Í frumeðli sínu flóttadýr
og flýr af hólmi.

07.10.17

Heimilsisstörfin:

Upp úr bæli hífði hupp
þó heldur vildi lúra.
Í staðinn hef nú stólað upp
og stendur til að skúra.

Haustmorgunn:

Léttur úði, litaskrúð,
lífs nú hlúð að vonum.
Kári prúður söng við súð
svo ‘ún trúði honum.

09.10.17

Skuggi höfundar á vegg:

Einhver situr andspænis mér,
ekki virðist nú ræðinn.
Kannski bara kinokar sér
að kanna óþekktu svæðin?

10.10.17

Elvar Eyvindsson var kominn á framboðslista XM:

Í birtu morguns blasti við, svo góndi,
blöðum fletti, mín undrun vex ’em ið.
Á Skíðbakka hefur skorinorður bóndi
skyndilega fengið exemið!!!

Þorsteinn Logi keyrði ketið heim að dyrum:

Ljóst að ég lofræðurnar noti
er ljúfmetið hylli
því með kjöti frá Egilsstaðakoti
kistuna fylli.

12.10.17

Nú liggja skuggarnir langir,
litlir mjög fyrir sér,
og í hæglæti hangir
haustfríið yfir mér.

17.10.17

Það var mikil upplifun að koma með Karlakór Hreppamanna í sk. Arnarhreiður í Ölpunum, og taka þar lagið undir skafheiðum himni. Þaðan er útsýn mikil og „sér vítt of vítt / um veröld alla“ eins og segir í frægu kvæði:

Nú er hugur norður frá,
nýtir frjáls vindana.
Héðan Arnarhreiðri frá
hyllir Kálfstindana.

Við komuna heim til Íslands tók á móti okkur karlakórsmönnum „austan kaldinn“ eftir Þýskalandsferðina:

Nú er komið napurt haust
og nokkuð fölur kórinn.
Það er ekki þrautalaust
að þamba svona bjórinn.

18.10.17

Skoða myndir frá Munchen:

Eins og nú fari inn í hólk
og aftur á bak í tímanum
og sjái að rakst á „eitt og eitt fólk“
sem oft var á kafi í símanum.

19.10.17

Vilhjálmur Bjarnason „fjárfestir“ kvaðst ekki nenna að sitja undir bulli:

Hvatur ætt’ að hætt’ og fara,
hingað mætti dræmur, raftur
latur þrætti, þætti bara
þingið bætt ef kæm’ ei aftur.

24.10.17

Gunnar Straumland tjáði sig um menntun, nám og námsmat:

Nær telst sjálfsagt nú til dags
að nám sé einstaklingsmiðað
nemendunum til nota og hags.
En námsmat er staðlað og friðað.

Biskup þjóðkirkjunnar fannst ástæða til að kvarta undan gagnrýni fréttamiðla á Bjarna Ben.:

Í Valhöll Frúin fann sér hjörð
að frelsa, nú um daga.
Ætla lúinn oní jörð
utan trúfélaga.

26.10.17

Dróttkvætt:

Moð er gott til glóðar
en gengið hefur lengi
að ríkir vaði reykinn
og reyni sínu að leyna.
Út þarf særa svörin,
að sinni er mál að linni
valtra pörupilta
prettaaflandsfléttum.

31.10.17

Höfug anda, halda grið,
hinstu rökin
svo að haustið hikar við
að herða tökin.

Léttur úði leggur sig
á lítinn súðarglugga.
Úr landi prúðu er lokastig
litaskrúð að nugga.

Hellist dökkvi hauður á,
heims nú sökkva verðir.
Haustsins nökkvi heldur frá
höfn í rökkurferðir.

01.11.17

Fyrst var það dagrenningin …

Degi mjög, í morguns ár,
mæti lúnum.
Svo ljóma kinnar, loga brár,
hann lyftir brúnum!

… og svo pólitíkin …

Ási Frikk á býsna bágt,
á bílinn snápar rýna.
En Rauði krossinn lýtur lágt
með lögfræðinga sína.

08.11.17

Veðrið og náttúran …

Bíllinn öslar kalsakrap,
karskur þó á vegi,
inn í koldimmt alheimsgap,
út á björtum degi.

… og svo pólitíkin, en formaður Vinstri grænna var staðinn að því að vilja heldur mynda stjórn með afturhaldinu en að reyna að breyta samfélaginu til hins betra:

Ef að Katrín ætlar sig að hneigja,
að altarinu leiða Spillingu,
þá út um gluggann fjöreggi mun fleygja
með Feigð við arm, í brúðkaupshyllingu.

… og svo aftur að veðrinu …

Nú er glæra götu á,
glit- hin skæra -veisla
steypuhræru í frosti, frá
framljóss tæra geisla.

09.11.17

Vildi gjarnan vinalegt
verða barn að nýju
með öskurtarnir, ógeðslegt
iðraskarn og spýju.

12.11.17

Við hjónin drifum okkur í óperuna og þar var hægt að gleyma svikum Vg um stund:

Með pörupiltanna þroska
í pólitíkinni froska
sit uppi með.
Mildar þó geð
tilþrifasöngur í Tosca.

13.11.17

Tveir þingmenn Vg greiddu atkvæði gegn stjórnarsamstarfi við spillinguna:

Framundan útflött eyðimörk,
örlögin sjást í grettunni.
Í rökkrinu Andrés og Rósa Björk
rísa upp af sléttunni.

Vinstri grænir ganga hér
(gellur núna ýlan)
lokaspölinn. Eftir er
aðeins „græna mílan“.

Fer að Íslendinga sið,
aldarlanga glíman:
Alltaf vinnur íhaldið.

15.11.17

Við sögðum fyrir kosningar að við höfnuðum engum og getum því ekki sagt eftir kosningar að við höfnum engum – nema Sjálfstæðisflokknum. Það væri óheiðarlegt.“ Svona hljómaði réttlæting Vg.

En þetta sama fólk sagði margt fleira fyrir kosningar, sem það kýs nú að þegja um að hafa sagt eða meint nokkuð með. Alla vega þarf ekkert að standa við það eftir kosningar, sem er víst samt strangheiðarlegt gagnvart eigin kjósendum!

Var siðferðilegt fúafen,

formyrk, spillt óværa.

Nú, fyrir stól, er Bjarna Ben.

boðin viðreist æra.

 

Frostkaldir dagar:

Vetrarmjöllu stirnir strá,
stjarnahöllin glitar,
letrar fjöllin úrug á,
einnig völlinn litar.

Prýða mjallargeislar gljá
glóð á hjalla tindrar.
Skrýða fjallaeggjar, á
efstu skalla sindrar.

Myrkur bætir, ekki er
andinn næturvætir.
Styrkur mæti, sjaldan sér
sálin þrætur bætir.

16.11.17

Meiri sléttubönd:

Galinn skjóður, ekki er
enn í bróðurgriðum.
Talinn óður, fráleitt fer
fyrir góðum siðum.

19.11.17

Ljós og skuggar leika sér,
ljómar muggubeður.
Fannaduggur, fjallasker,
fagurt gluggaveður.

Niðdimm er í nóvember
nóttin hér á fróni.
Reið um frerann rennir sér,
rymur sverum tóni.

20.11.17

Katrín Jakobsdóttir valdi að leiða Svarta-Pétur til ráðuneytis:

Sinnið kelur soraél,
svika- kvelur vetur.
Katrín elur syndasel,
Svarta- velur Pétur.

21.11.17

Hallmundur Guðmundsson, hagyrðingur á Hvammstanga, birtir á Fjasbók stundum myndir af sér, og gjarnan vísur með, við störf hjá vegagerðinni, við sjnómokstur á vegum eða viðhald þeirra:

Hallmundur hreinsiskati
heiðina ruddi – í plati
en lokaði veginum
og sig lagði að deginum
í ríkisapparati.

22.11.17

Lárus Ágúst Bragason skrifar gjarnan athugasemdir við vísur mínar, eitthvað á þessa leið: ,,,,,,,,,,,,,,,, nú styttist í ljóðabókina ,,,,,,,,,,,,,,,

Styður mig, „stuðlafallsblókina“
þó „stefjahrun“ renni í brókina.
Hann er stopull og stirður
og „stórlítils“ virður
leirinn, í ljóðabókina.

Enn af Týndu-Kötu:

Núna, þegar nálgast jól,
náungkærleik sýndi.
Katrín reisti Skálkaskjól
en skarti sínu týndi.

Gæti loks stillt mína strengi
og staðið í blóma, mjög lengi,
ævintýr lifað
og ljóð um þau skrifað
ef að nú fimmeyring fengi.

Minn var drottinn mestur gerður“
margir telja víst.
En trúarbrögð – seint talið verður
tjón sem af þeim hlýst.

23.11.17

Sólarlagið er hvetjandi:

Samdi óð við sólarglóð
sumar hljóðu kvöldin.
Vekja góð og vönduð ljóð
vetrar blóðug tjöldin.

25.11.7

Eftir stjórnarmyndun Vg. með íhaldi og framsókn:

Þá foreyðingar fann sér línu
að fyrr en þetta kýs
rísa hár á höfði mínu
og heita vatnið frýs.

27.11.17

Það er fátt sem segir meira til um súbstans í fólki og flokkum en hvernig það og þeir takast á við það þegar hlutirnir fara ekki alveg eftir þeirra höfði“, segir Kolbeinn Proppé í gær á Fjasbokarsíðu sinni.

Ég tek undir þetta. Og nú þegar hlutirnir fara alls ekki eftir Kolbeins eigin höfði frá því fyrir kosningar, þá segir það töluvert til um súbstans í honum og félögum hans.

Mikið væri gott ef fólk gæti litið meira í eigin barm og sett sömu kröfur um heilindi á sjálft sig og það gerir á aðra“, bætir Kolbeinn við. Rétt er að taka undir þau orð líka, og biðja hann að fá lánaðan spegil einhvers staðar, líta í hann og spyrja: Hvort mun þetta höfuð hafa mælt svo um, fyrir kosningar, að mynda ætti ríkisstjórn um spillingu?

En kannski hefur hann bara fengið sér nýtt höfuð? Eða nýjan súbstans í höfuðið? Þeir fást víst fyrir lítið í Valhöll.

Á siðbót fylgi safnaði
svo að allvel dafnaði
en Kolbeins súbstans kafnaði
er kjósendunum hafnaði.

Ásmundur Einar var ánægður með málefnasamning ríkisstjórnar sem hann var að setjast í, án þess að hafa fengið ítarlega kynningu á honum. Allir muna líka hvernig hann flúði á mettíma úr framsóknarflokki Steingríms J. yfir í framóknarflokk Sigmundar Davíðs:

Ásmundur Einar Daða
ekki nú telur skaða
að fordæmispretti
fyrrum hann setti
er flúði á hámarkshraða.

29.11.17

Í fannaglætuflúrað rím
frostið lætur rökin.
Loks er grætur loðið hrím
losar næturtökin.

Brunatökum bláum með
breiðir lökin hvítu
yfir þökin, blómabeð,
bala, vök og strýtu.

Loks í vísu hugsun heil
helst frá fyrstu línu
allt til loka. Engan feil
á sé verki mínu.

Enn að pólitíkinni:

Sem vinnunámskeið velur dans
-vinstri, hægri, snú-
og flýgur kát í faðmi hans
er fangar hennar trú.

Þannig er mál með vexti að fyrir utan svefnherbergisgluggann, á versta stað framan við húsið, er ljósastaur sem gónir sífellt inn og beint í augu mín þegar ég leggst á koddann. Sendi honum þessa kveðju:

Dæs! Við húsið dúsar gaur,
dottar rétt við stétt.
Les ég glósur ljósastaur,
ljótt er smettið grett.

08.12.17

Á leið til vinnu á Litlahrauni þurfti eg að stöðva við Björk, rífa upp símann og taka myndband af sólarupprásinni.Stórfenglegt:

Augun greip morguns árið,
austan er gullinn roðinn.
Blátjöldin prýðir párið,
úr penslinum slettu goðin.

12.12.17

Er ekki sígilt að henda í eina endurvinnsluveðurvísu, fyrst kúvending hefur orðið á árstíðum í einni svipan?

Ísa hefur leyst á lóni,
logar sólarglóð,
nú er ekki frost á Fróni,
funar í æðum blóð.

13.12.17

Enn af sólrisi:

Líta röðul merla má
milli svefns og vöku.
Um slíka fegurð alltaf á
að yrkja góða stöku.

Og stuttu seinna:

Sól fer öll í augu mín
undir stýri.
Lendi, ef svo áfram skín,
útí mýri.

15.12.17

Kenningaæfing:

Sverðaþundur, silkigrund,
sónarglundur.
Gunnar fundur, Ýmis und,
Óðins hundur.

Og formæfing með sléttuböndum:

Veði Óðins forða frá
frétta glóðarperu.
Beði ljóða unir á,
andans gróður veru.

16.12.17

Úr ólíkum áttum:

Að berjast með oddi og egg
ég ætla, en forsjáll þó legg
hugann í bleyti.
Einnig því heiti
að skerða ei hár mitt né skegg.

Konan styður, ástin er
andans friður styrkur.
Inni í griðum uni mér,
úti er niðamyrkur.

Gróður jarðar grunnar túnin grænni slikju
sem kæfð er svo í kúamykju.

Merla tún og móaholt af mjallarbóni
en burt það krafsa Brúnn og Skjóni.

Haginn væni? Hjarnið kalda? Hundur grafinn?
Þar lengi hefur legið vafinn.

Katrín vill sinn frama fá
og finnst að gera megi
góða málamiðlun á
mun á nótt og degi.

19.12.17

Biskupsnefnan opnaði munninn um fátæktarumræðu á Íslandi:

Við tökum samtalið seinna,
fólk sífrar en drepst vart úr hor,
því biskupinn liggur við beinna.
Svo bjargar því nálin í vor.

22.12.17

Jólaandinn:

Nú eru margir í miðjum klíðum
að molna’ undan hátíðarstressinu,
æða í búðir í straumum stríðum,
stareygir leitandi’ að dressinu

svo lendi’ ei í klóm, eða kafni í víðum
kjafti á jólafressinu.

Veðrabrigði …

Nú hann fyrir víst ei veit
hvaða veður á að þróa
svo úr nokkrum skýjum skeit
skúrum, út í snjóa,
ræskti sig, með loga leit
á löndin sín í Flóa.

23.12.17

Þoddlákur:

Þorláksmessuþrifin,
þau eru ekkert grín,
líkt og upp lóð séu rifin,
leið, en heilsurækt fín.

Jólakveðja 2017:

Drungalegur dagur skammur

deyfir lund og vinnuþrek.

Niður bælir næturhrammur,

niðasvartur, eins og blek.

Huggun er að ljósið lifir,

lengir göngu sína brátt,

vakir lífi öllu yfir,

eflir von og kærleiksmátt.

 

Jólakveðju ég vil senda;

jarðarbúar öðlist frið!

Þeim er eitthvað illt kann henda,

af öllum mætti veitum lið.

Það er list að þola saman,

þraut fær traustur vinur eytt.

Maður er víst mannsins gaman,

þó margur hafi rjómann fleytt.

 

31.12.17

Hrímnir

Flestir minnast margs við áramót,

minnast þess sem færði ást og gleði.

Kannski líka kemst á hugann rót

kvikni það, sem betur aldrei skeði.

Munum þá að gera bragarbót

og bera sig, því lífið er að veði.

 

Í mysu lífsins maðkur víða sést,

manninn, svik og pretti, oft skal reyna.

Það er sem blessuð skepnan skilji flest,

skynji hugann, engu má þar leyna.

Það veit sá sem eignast úrvalshest

að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

 

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.

Þín kroppuð tótt nú himni móti starir

sem áður horfði frán um fjallahring.

Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,

ég aldrei framar óð minn til þín syng

og engin von með hneggi þú mér svarir.

 

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls,

ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:

Viltu með mér núna, nýr og frjáls,

njóta listagangs, í fullum burði“?

Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls

að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Úr dagbókinni 2016

Úr dagbókinni 2016. Safnið telur 273 vísur

01.01.16

Tek út fyrir tímaskort,
tættur dreg nú ýsur,
svo ég hefi ekki ort
áramótavísur.

Árið byrjar býsna vel,
bar víst lítt á sprengjuskaða,
og fréttist næst að fínna mél
flytja megi til Bessastaða.

10.01.16

Bjart er yfir byggðum hér,
blikar vetrarsunna.
Miðjusveigður orðinn er,
eins og síldartunna.

Skín við sólu skammdegis-
skýjaslæðuvafur.
Fyrir því mun framvegis
finnast hjartastafur.

31.01.15

Finna má af fegurð nóg
er frost í kinnar bítur.
Úti á skafli siglir sjó
svartur hundaskítur.

03.02.16

Snjóar lárétt. Austan átt.
Ansi harður bylur.
Spörva náfrétt. Gaman grátt
gróður jarðar hylur.

03.02.16

Umf. Njáli vikið úr HSK“ máti lesa á sunnlenska.is. Betur hefði farið á „Skarphéðinn vísaði Njáli á dyr“, það sem raunverulega gerðst í brennunni: Vísaði Njáli á dyr og lét hann ekki brenna:

Atburðarásin mér áður fyr
fannst alltaf í sögunni skrýtin.
Skarphéðinn neyddi Njál á dyr,
næg voru til þess vítin.

06.02.16

Að loknum æfingadegi Karlakórs Hreppamanna á Eyrarbakka í dag var í boði humarsúpa á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Þar var mikið sungið:

Svona góður karlakór
kyrjar ekki víða.
En orðspor hans til fjandans fór,
flestir dottnir íða.

08.02.16

Sólin gyllir efstu egg
á alheimsmorgunsvifi,
gleður þannig snót og segg…
Ekki meir á ykkur legg
af öðr‘eins niðurrifi.

10.02.16

Útsölulíkur á laugardag,
langar margt að kaupa.
Útsölu lýkur á laugardag,
langar strax að hlaupa.

13.02.16

Þegar sólin skærast skín
og skellir kossi á glugga
að skúra gólf er skemmtun mín
og skolvatn meira grugga.

14.02.16

Með stunum ég í stólinn sest,
stefnir í framtakskrísu.
Held að sé til heilla best
að hræra í eina vísu.

Að lifa, það er mikið mál,
mína aðferð þó fann:
Lagði í það líf og sál
að leggjast upp í sófann.

Tært og fagurt útsýnið,
eykur mjöllin vægið.
Geislar landið gæla við,
Gylfi tekur lagið.

Eða kannski…

Tært og fagurt útsýnið
eykur mjöllin vægið.
Mætti gjarnan gera við
götótt ósonlagið.

Tók mynd á hestbaki í fallegu veðri, og þó Hekla blasti við, alsnjóug í sólskininu, heillaði annað meria:

Gefst ég upp, loksins, á leti
leiðist í blíðunni hér inni.
Sjálfsagt að sólskinið meti
en sjáið þið eyrun á merinni!

16.02.16

Ýmsir á Boðnarmiði gerðu athugasemdir við það að greinir gæti staðið undir rími og ljóðstaf:

Stuðlar ekki, stutt og lin,
stendur tæp í rími.
Veslings greinisendingin,
einelt hér með flími.

21.02.16

Konudagsvísa. Reyndar eru allir dagar konudagar.

Augun stjörnuhiminn hár,
hjartað brunnur vona.
Þú ert, gegnum öll mín ár,
alltaf dagsins kona.

24.02.16

Mikill snjór fellur af þakinu, lokar fyrir „óæðri“ útgönguna úr bílskúrnum og fyllir „grillskotið“:

Mokað hef nú skarð í skafl,
í skoti get því tsjillað.
Við þorra sjálfan þreytti afl.
Það var alveg grillað.

25.02.16

Biskupstunga…

Biskup einni talar tungu,
telst hún klofin þó
eftir Fjölnis orðastungu.
Er þá komið nóg?

29.02.16

Eftirtekjan ansi rýr,
eykur lítið haginn
þó ég sé í góðum gír
að grilla allan daginn.

07.03.16

Mjólkurbú eitt heitir „Kú“:

Ef við beygjum kýr um kú,
sem kann að virðast snúið,
verður strax að nefna nú
að nýju, mjólkurbúið.

08.03.16

Þegar beygði kú um kýr,
(sem kýr á ísnum hála)
framandi þá fram kom dýr.
Fyrir því má skála!

16.03.16

„Krónan er gjaldmiðill góður“
gjammar Sigmundur móður.
Auð sinn þó felur
sá óprúttni melur,
á Tortólu svimandi sjóður!

Fjárhagstengsla birtir blað,
þeim besta aldrei skeikar,
en töl’vert ennþá tefja það
tækniörðugleikar.

Svo núna í fréttirnar fari,
fljótur, mér liggur á svari!
Úr klóm þarf að smjúga
svo hverju má ljúga?
Jóhannes útskýrari?

23.03.16

Er klósettin verða kynlaus,
og klefarnir líka,
tylla sér saman á trúnó
typpi og píka.

25.03.16

Sóley litla stækkar og stækkar:

Heldur betur hefur tognað
úr henni Sóleyju.
Afi hefur bara bognað,
blár af ólseigju.

Bar ekki siðferðileg skylda til að segja frá“ Wintirs-hneysunni var haft eftir SDG í fjölmiðlum:

Sjái valdsmenn að sér“.
Svo orðum Hallgrímur fer
um siðferði þitt,
þvælt og marglitt.
Keisarinn kviknakinn er.

27.03.16

Reynið nú að finna frið,
forðist allan háska.
Sálarpúkum gefið grið.
Gleðilega páska.

Frelsi að hafa val“, segja stelpurnar berar að ofan í Laugardalslaug. „Free the nipple“!

Óneitanlega finnst þeim fylgja
frelsi að hafa val
svo yfir þá flæðir brjóstabylgja
sem baða í Laugardal.
Þær brjóta nú geirvörtuhelsið harða,
heimta úr klóm sinn gral,
bælingu aldanna jákvæðar jarða
því jöfnuður ríkja skal.

28.03.16

Halda lóur heim um veg,
hroll að brjósti setur.
Kælan úti kvíðvænleg,
kominn frostavetur?

30.03.16

Hvort að við skattaskjól
skildingar eigi sér ból
ekki það man.
Of eða van?
Nei! sjáiði, brýst nú fram sól!

Af stalli drullufúll nú fellur
fettur, grýttur hrotti.
Ósnjalli bullugúllinn gellur
grettur, hnýttur plotti.

31.03.16

Á Hóli í bólið fer sjóli í sól,
hann Snjólfur, og ólar þar Fjólu.
Þá hjólar Óli með skjólu í skjól
við skólann og dólar í rólu.

Óður er róðurinn, góða með glóð
gróðinn, og fóður í sjóðum.
Hljóður með skjóðuna, bjóðandi blóð
bróður, en slóðin með þjóðum.

06.04.16

Gunnar Smári Egilsson fjallaði um spillingu á Íslandi:

Í mæðu dagsins megum ekki gleyma
að milljónerar feiskja burðarraft
er auð sinn fjarri Garðarshólma geyma,
-en gera eins og fyrir þeim var haft.

07.04.16

Vigdís Hauksdóttir með enn eina snilldina í fjölmiðlum:

Gengisfellir sjálfa sig.
Nú særir framaþráin.
Við veruleikann lent á svig.
„Ljúf er stjörnuspáin“.

09.04.16

Núna, þegar vaknar vor,
er varla mikil fórn
þó við ekki spörum spor
gegn spilltri ríkisstjórn.

11.04.16

Fyrst klæðalaus nú er keisarans slekt,
þá kemur sér hún viti
að veðrið er alveg voðalegt,
værðarsól og hiti.

12.04.16

Loðna hönd í lúffu sé
laumast út með glundrið.
Skammtar síðan skúffufé,
Skagafjarðarundrið.

13.04.16

Íhald sýnir magnað move,
málið reyrt í hafti
og skoðanafrelsi skert á RÚV,
skal þar halda kjafti.

15.04.16

Fróðleg lesning atarna … Ljóta ormagryfjan, þetta auðræðiskerfi sem valdaflokkarnir hafa skapað hér á landi. „Þetta er ógeðslegt samfélag“, sagði einhver. Og þessu geta spilltir stjórnmálamenn viðhaldið í skjóli og umboði kjósenda sinna. Svei því.

Fyrir skattaskjólum svag
og skófla undan þjóðarhag
allt frá stríðsgróðaflaum
að stórveisluglaum.
Hver bað um svona samfélag?

17.04.16

Sitt kvæðasafn Kári nú þylur,
og kaldhæðni sína ei dylur,
sem er helvíti svalt,
enda hljómar það allt
eins og blindöskuþreifandi bylur!

18.04.16

Ólafur Ragnar sækist eftir endurkjöri!!!

Mörlandinn í miklum vanda,
moldríkir taka hér öll völd.
Vinur fólksins vill því standa
vaktina fram á næstu öld.

20.04.16

Til greiðslu nú* 14.990, kr.
* Tímabil til greiðslu er líðandi mánuður og út næsta mánuð. Sé um áskriftarbreytingu að ræða, höfum við tekið tillit til inneignar sé hún fyrir hendi.“Þetta er afritað af áskriftartilboði fyrirtækis sem mun heita 365 miðlar. En hvað gerist? Jú auðvitað er lokað fyrir allt draslið þann 18. apríl og á svokölluðu þjónustuborði fékk ég þau svör að þessi klausa gildi ekki af því keyptur hafi verið ‘stakur mánuður’. Hvergi kemur fram á samþykktu tilboði að klausan ‘stakur mánuður’ ógildi það sem kallað er ‘tímabil greiðslu’, þ.e. ‘líðandi mánuður og út næsta mánuð’:

Tölvert um tilboð sem freista,
tillitslaus ásókn og gimm,
en það má ei þýinu treysta
í 365.

21.04.16

Kjaradeilur eru daglegt brauð og heilu stéttirnar samningslausar mánuðum saman:

BHM súran með svip
þó sannlega bjóðist uppgrip
(en vissir vankantar):
Háseta vantar
á kvalaskoðunarskip.

Að veðri:

Virðist ég trúlega voða svag
en veit ei hvort nú mætti biðja
um gleðilegt sumar, og góðan dag,
áður gengur yfir næsta hryðja?

Félagsbú Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks“ var titill greinar í Stundinni og kom m.a. fram að „Finnur og áðurnefndir félagar hans, þeir Sæmundur Runólfsson, Kristján Skarphéðinsson, Ólafur Andrésson, Hrólfur Ölvisson og Rafn Guðmundsson, eiga saman 80% í hlutafélaginu Innri-Kóngsbakka hf. Til fróðleiks má geta þess að Tryggvi Pálsson, bankastjóri Íslandsbanka, af grónum íhaldsættum, á 20% af Innri-Kóngsbakka og er þar í nokkurskonar félagsbúi með Framsókn.“

Auðhylma heitir undra kýr
Innri-Kóngs á bakka.
Þar má finna fleiri dýr,
falska héra og rakka.
Flokkar reka þar félagsbú,
fjár-hirðar saman makka
alveg þangað til þrýtur trú
og þjóðin lætur þá flakka.

23.04.16

Fugls að messa í moll og dúr
er mikilsverður rétturinn.
Gaf í morgun gróðrarskúr
svo grænkar óðum bletturinn.

Balletverk af bestu gerð
mér býður listahaukur.
Úti á bletti, einn á ferð,
iðjar hrossagaukur.

24.04.16

Reisi andlegt ríki mitt
á reið í kvöldblíðunni.
Er fákur skynjar frelsi sitt
fæðist staka á munni.

29.04.16

Hótel Húnavellir auglýsa „gjöf á gjafabréfum …“

Húnavatnssýslan heillar,
hótelin þar ég vel.
Það álit annars ég kaupi
ekki dýrar en sel.

Ótrúlega fagurt sólsetrið hér heima þetta kvöldið:

Veröld fögur vekur móð
og víkkar huga minn.
Vel nú logar vorsins glóð
um vesturhimininn.

04.05.16

Er fasteignin haldin galla?“ spyr lögmannsstofa ein í auglýsingu:

Á lögmenn er klárt að kalla,
á kúnnana mun ei halla,
ef u.þ.b. fer að falla
fasteignin haldin galla.

07.05.16

Umfjöllun í sjónvarpi um söngvakeppnina Eurovision:

Felix reynir fleirum með
að finna lagið rétta.
Lokaúrslit sýnast séð:
Svíþjóð vinnur þetta.

08.05.16

Einhverjir hafa kannski haldið að lokauppgjörið færi fram handan Gjallarbrúar.

Síst var gamla glíman unnin,
grær seint skítleg und.
Upp er hér í heimi runnin
hefndarinnar stund.

Hefur Nýja-Ísland nokkurn dreymt?
Sjáið nýjasta verkið á fjölunum!
Þar íslenska þjóðin getur gleymt
og gulnað með Panamaskjölunum.

09.05.16

Helstu sótraftar voru ýmist dregnir á flot eða siglt í naust fyrir komandi forsetakosningar:

Davíð sem álfur út úr hól,
allar hans vonir farnar.
Ólafur flýr í öruggt skjól
með eftiráskýringarnar.

Fékk ég nóg af fréttaverði
finnst ég þurfi að æl’ ‘onum.
Ekki núna Guðna gerði
greiða meððí að hæl“onum.

Endalaust í Andra Snæ
eru margir að gogga
en finna hugljúfan helgiblæ
á höfundarverki í Mogga.

Ef reiknum allt með öllu
eru útlínur nokkuð skýrar:
Mikið hallar á Höllu
og heimtur Ástþórs rýrar.

Örfáum kannski að endingu nær
atkvæðum saman að nurla.
Betur ‘ann hefði bakkað í gær
blessaður kallinn hann Sturla.

10.05.16

Þessari snilld úr Lífs-stílskálfi DV má til með að ræna og deila: „Vandaðar líkkistur á hagstæðu verði“:

Spennan vex, ég fiðring finn
fara’ um allan kroppinn,
lágstemmdan því lífsstílinn
löngum set á toppinn.

15.05.16

Fallega afastelpan Margrét Stefánsdóttir fermdist í dag:

Gæfan sína götu fer
gleði fram að draga
og hún vakir yfir þér
alla þína daga.

25.05.16

Daginn eftir afmæli á Fjasbók:

Næstum kjaftstopp orðinn er,
öllum kveðjum fagnað.
Þakkir sendi. Þykir mér
þetta alveg magnað.

30.05.16

Viðbrögð við skrifum „smjörklípumeistarans“:

Heimskur maður horfir á
hina gegnum rörið
og ef telur þurfa, þá
þránað klípur smjörið.

08.06.16

Forsetakosningar nálgast:

Eitthvert þeirra ef ég fæ
ekki breytir öllu:
Guðna téhá, Andra Snæ
eða bara Höllu.

09.06.16

Í morgun fæddist Bryndísi og Ragnari fyrsta barnið, dásamleg dóttir:

Fagra líf! Nú víst ég veit,
vel að okkur sóttir.
Árla morguns ljósið leit
lítil Ragnarsdóttir.

Kári Stefánsson skrifaði magnaða grein í blöðin um einn forsetafrmabjóðandann, og er hér umorðuð:

Frá rumi, mjúkum rómi,
rennur lygamiga
vel í sjónvarpsvélar
en veltir fláðum gelti.
Orðlaus aflandsmörður
ólmur flýr af hólmi.
Skelmir úti að skíta.
Skeit í brækur feitum.

Liðið skammarskeiðið,
skríður út úr hýði
og óðar ræðst á aðra.
Ekki þjóð samt blekkir,
aðeins sóttarsauði
er sveima hringinn kringum
og marka skálkaskjólið,
skjaldborg klíku valda.

12.06.16

Gælir við mann gjólan
í geisla sólar veislu.
Brattur slæ ég blettinn
með bros á vör og losa
rekju plast í poka.
Við páfann tefli. Efli
andans vængja vind, og
virkja. Dróttkvætt yrki.

15.06.16

Christiano Ronaldo var beygður í viðtölum eftir jafntefli gegn Íslendingum í fyrsta leik á EM og fékk það óþvegið frá heimspressunni í kjölfarið:

Vill hann mjög greiðsluna vanda.
Fyrir virkni til fóta og handa
fyrstur oft valinn.
Um veröld nú talinn
lítilla sæva og sanda.

Bragarbót. Eða tilbrigði við stef.

Er sperrtur við sparkið að vanda.
Við spegilinn helst vill þó standa.
Bestur var valinn.
Nú bara er talinn
lítilla sæva og sanda.

16.06.16

Einhver verður að taka upp hanskann fyrir vesalings drenginn frá Madeira sem á ekki sjö dagana sæla:

Mikill var framherjans feillinn
er fráhverfur laumaðist veill inn
með orðhengilshátt.
En þetta gaman er grátt.
Einelti heitir það, heillin!

21.06.16

Á leið ríðandi norður Kjöl, enn einn ganginn!

Heita laugin þarfaþing
þvældum hestaköllum.
Svo gyllir sólin sjónarhring
er sest á Hveravöllum.

22.06.16

Næturstaður Ströngukvíslarskáli:

Öræfin kenndir ljúfar fram laða,
lengi að þeirra áhrifum bý.
Um lágnættið hrossin í ljósi sig baða,
leysist upp jökullinn himininn í.

25.06.16

Horft út um dyr fjárhúshlöðunnar í Lauftúni, Skagafirði:

Sólarbirtan síast inn
og sumargróðursþefurinn.
Kynnast dyrakarmurinn
og köngulóarvefurinn.

29.06.16

Í Árbúðum á suðurleið braust regnboginn fram í dökku skýjatrafi:

Mætti Bifröst brúka ég,
bara rétt í skyndi,
holóttan þá himnaveg
hinum megin fyndi.

02.07.16

Hera frá Þóroddsstöðum setti heimsmet í 250 m. skeiði á Landsmóti hestamanna að Hólum í Hjaltadal:

Heimsmetið fallið á Hólum!
Hera nú bjargaði jólum
hjá Vekurðar-Bjarna.
Vittu atarna!!
Snjallastur byggðum á bólum!!

02.07.16

Lagður af stað í hringferð um landið með ástralska skólakrakka og nokkra kennara þeirra. Fyrsti áningarstaður Hvammstangi:

Eftir mæðu og mimru
og margþvælda orðhengilsimru
á Hvammstangabraut
heilann ég braut
niður í lélega limru.

03.07.16

Næst var áð á Akureyri og þannig um að litast:

Götur auðar, það get ég svarið,
er gæddi mér á steik.
Heyrði að margir hafi farið
að horfa á einhvern leik?

Frakkarnir voru „ekki menn við að eiga“:

Stendur yfir leikur á Stade de France
og stöðuna þarf upp á nýtt að vega.
Sigraður virðist þessi víkingafans,
en við hverju bjuggust menn eiginlega?

Lúta þurftum lágt í gras
og lokuð virtust nú öll sund.
Við þekkjum best vort þjóðarfas:
„Þrautgóðir á raunastund“.

Núna er það opinbert
að aftur hetjur snúa
en það má teljast þakkarvert
að þjóðin fékk að trúa.

Svona var í gistiheimilinu:

Í gólfborðum öllum gnestur hér
auk gufuþunnra veggja
svo að þörfin engin er
eyra við þá leggja.

04.07.16

Ekið í spreng austur á Djúpavog. Gist í Berunesi:

Dauður sjór við Djúpavog.
Sem dýran kveðskap lesi
af handriti að handan. Og
horft frá Berunesi.

Þegar löng er önn við rútuakstur
alltaf bensínfæti dvínar máttur.
Þá er víst, er útaf ertu lagstur,
að þín bíður góður sinadráttur.

05.07.16

Morgunsólin skein skært í Berunesi og skuggar langir:

Fyrir víst, að vesalingi mínum,
veit að þessi skuggi fylgir stíft
sem geltin tík með bóndagarmi sínum
er gamanvísur mínar hafa ýft.

06.07.16

Heimkominn úr hringferðinni baðaði rósin öllum öngum úti í garði, breiddi úr blöðum og baðaði hvít blómin í sólinni:

Undir timbur- brúnu -belti
blómstrar fögur þyrnirós.
Hvað hún þarf, ég vöngum velti:
vætu, skjól og sólarljós?

Ég þekki aðra ekki síður
yndisfríða blómarós
sem, hvað sem öllu öðru líður,
þarf ást og bros og lágstemmt hrós.

08.07.16

Búinn að skila af mér farþegunum á Keflavíkurflugvelli:

Að ferðalokum finn ég til
í fótum stirðum tveim.
Eymslin þó ég eftir skil;
eg er kominn heim.

Kasti ræður nú kylfa,
kominn tími á Gylfa,
ástralskan kominn með hreim
en er nú kominn heim.

12.07.16

Bryndís birti á Fjasbók mynd af Vigdísi sinni mánaðargamalli:

Heimi glaðbeitt horfir mót
hugrökk myndarkona.
Líkist afa smáfríð snót
(segi bara svona!).

Jasmín kom í heimsókn til afa og ömmu, akandi með vinkonum sínum austur um sveitir!!!

Sautján. Bílpróf taka: Tékk.
Svo: Tæta út til sveita.
Jasmín: Frökk og fremst á bekk.
Fyrirmynd má heita.

Áfram vill brjálæðið virkja og virkja:

Sem eldur í sinu æðið fer,
því aldrei virðist ljúka.
Næst skal tvenna nýja hér
nýta Kárahnjúka.

13.07.16

Það er gömul og gild verslunarhagfræði að ekkert þýði að vera með ákv. vöru í hillunum af því hún klárast alltaf strax! Sama lögmál er haft í heiðri um almenningssalerni hjá Akureyrarbæ, ef marka má frásagnir fjölmiðla:

Vill túrismans berja í brest,
á betri veg þoka:
Myndist salernisbiðröð er best
bara að loka.

Þetta bitnar á Akureyrarkirkju, sem er vinsæll ferðamannastaður. Þar er salernum lokað vegna ágangs:

Hópinn kveisa heltók, bráð.
Hafði áð fús.
Guðshús opið, altæk náð,
samt ekki náðhús.

14.07.16

Forstjóri Útlendingastofnunar sendi Kjararáði beiðni um launahækkun vegna álags:

Halló, kæra kjararáð,
krakkarnir eru að stríða mér 🙁
Álag mikið, alltaf þjáð
og útlendi lýðurinn fjölgar sér,
tekur yfir land og láð
svo logandi ótti í hjartað sker.
Með vísun til þjánar og þjóðarhags
þarf ég kauphækkun. Strax!

Kominn er úrskurður kjararáðs,
kynntur þar góður siður:
Snarhækka launin, lýðnum til háðs,
ef leggja á starfið niður.

Annað og óskylt efni:

Fátt er svo með öllu illt
að ekki boði gott.
Hefur drenginn margan mýlt
að fá mjúkan kattarþvott.

16.07.16

Músarrindlar gerðu sig heimakomna fyrir utan stofugluggann hjá mér og spígsporuðu undir garðhúsgögnunum:

Bæla sig undir borði
býsna lítil, kvik yndi.
Vængirnir þeim frá forði
fúlu kattar svik lyndi.

17.06.16

Það ætti ekki að vera mikil kúnst að taka viðtöl í útvarpi: segja sem minnst sjálfur en láta viðmælandann njóta sín. Ekki er þessi list öllum gefin:

Nú talar Hallgrímur Thorsteinsson.
Það mætti tífalda útvarpsgjaldið
ef gæfist einhver glætuvon
að gæti hann kjafti haldið.

23.07.16

Lagður upp í enn eina rútuferðina:

Áði hjá Urriðafossi
(ekki þó ferðast á hrossi).
Þá spurn nú fram ber
sem brennur á mér:
Líður að kveðjukossi?

Fögnuð mikinn finn hjá mér
er ferðast um landið víða
því ég fæ, sem þakka ber,
að þamba kaffi og bíða.

Fagurt er í Drangshlíðardal, handan Skógaár.

Fjölgun ör telst ei fögur hlið
á ferðamannasenu
en kraðakið ekkert kemur við
kýrnar hennar Lenu.

Það er gaman, þannig séð,
að þreyja, draga ýsur,
raunir laga, róa geð
og reka saman vísur.

Við Skógafoss:

Hraðar tifa taktinn skal,
sinn tíma lifa í önnum,
og fossinn klifar fánýtt hjal
ferða- yfir -mönnum.

Næsti viðkomustaður:

Vel haldinn, úr hungri ei dey
og á Hótel Dyrhólaey
engu ég kvíði
þó kvöldverðar bíði
því allt er í harðindum hey.

Eftir kvöldverðinn sem beðið var eftir:

Útlendar stúlkur á þvílíku þambi
að þjóna, sem tekst að mestu leyti,
og allir japla á ofsteiktu lambi
einsog í skólamötuneyti.

Ferskur vakna fyrir sex,
fagna morguns gælu.
Allt mitt næmi vel þá vex,
veitir aukna sælu.

24.07.16

Útsýn frá Dyrhólaey:

Um er að litast, ládauður sjór,
lyfta sér drangar úr hafi.
Himinninn falinn, fuglinn er rór,
fjaran skreytt öldunnar trafi.

Biðin getur tekið tíma:
Töfrastundin!
Prúður, fyrir pílagríma,
pósar lundinn.

Við Jökulsárlón:

Stórir jakar strandaðir,
strauminn við þeir díla.
Eins og birnir bandaðir,
búin hinsta hvíla.

Ef rútu græna rekist á
(rétt að mynd fyrst „lækið“)
skal höfund vísu heilsa’ uppá,
hans er þetta ækið.

Íslenska ungmennalandsliðið tapaði fyrir Svartfellingum í úrslitaleik Evrópumótsins eftir framlengdan leik:

Hingað til aðeins þeir óviskudjörfu
sér ætluðu’ að hoppa’ upp á mána
en ungmennalandslið Íslands í körfu
nú allaleið hækkaði rána!

Þá að pólitíkinni:

Þökk sé ævinlega elítunni
að hún bara fjári góð er í
að flytja digran sjóð úr samneyslunni
því sumir gætu bjargráð lært af því.

25.07.16

Við Freysnes má láta sér líða vel,
logn og 14 gráðu hiti
klukkan 9 að morgni, og trúgjarn ég tel
að talsvert meira gott á viti.

Íhaldið ætlar að einkavæða allan fjandann og leyfa byggingu risasjúkrahús fyrir ofurríka í Mosfellsbæ:

Svo illa lerkuðum leið mér ei fyr,
á Lansann þrekaður samt ég næ.
Þar er lúinn miði við lokaðar dyr:
„Læknirinn skrapp upp í Mosfellsbæ“.

Siðblindur Davíð skrifaði flokksfélögum bréf úr útlegðinni þar sem hann útlistaði sekt allra annarra en sjálfs sín:

Í vor lagði yfir vondan þef
og vitað hvaðan blés áttin.
Núna var ritað reffilegt bréf
í raun-veruleikaþáttinn.

26.07.16

Enn á ferðinni, nú til fjalla, akandi:

Heiðríkt! Nú út sér úr augum!
Og enginn er farinn á taugum!
Fjallabaksleið
furðu er greið
og fagurt í Landmannalaugum.

Á visir.is var þess getið í fyrirsögn að sjö rússneskum sundmönnum væri meinuð þátttaka í Ólympíuleikunum, og að það væru „Góðar fréttir fyrir Hrafnhildi“:

Ólympíugullið hefur safngildi
og gott er það að hreppa.
Góðar fréttir fyrir Hrafnhildi
ef fáir mega keppa.

Á sama stað mátti lesa þessa fyrirsögn: Bæjarstjóri Ölfuss: „Kjaftshögg fyrir byggðirnar“:

Staðan virðist alltaf erfið,
engar halda tryggðirnar
og sífellt reynist kvótakerfið
kjaftshögg fyrir byggðirnar.

27.07.16

Frekari skýringar óþarfar:

Hérna eirum vér oss,
engan berum vér kross
nema túrhestanauð.
Mér sárabót bauð
sólin við Seljalandsfoss.

Sumt er heilagt innra með oss
sem til einkamála höfum talið,
en Gljúfrabúi, gamli foss,
getur ekkert lengur falið.

Við Gígjökul, þar sem skriðjökullinn er alveg að hverfa, og lónið löngu horfið með öllu:

Fyr fáum árum undir lá
ógnarþykku jökulmeni.
Eftir nú, sem enn má sjá,
aðeins þessi litli speni.

Vegurinn inn í Þórsmörk er nú býsna góður …

Náttúruundur eigum vér
óumdeilanlega
en mikilvægast orðspor er
okkar góðu vega.

Aftur í Þórsmörk, í Básum:

Enn skal mér þann óleik gera
sem allan skrokkinn kvaldi
að láta mig í losti vera
liggjandi í tjaldi.

28.07.16

Á ferðamannasalerni var búið að hengja upp mynd sem sýndi að sitja ætti á klósettinu en ekki standa á brúninni boginn í hnjánum við losun haughúss:

Á salerni’ að ná er sæla
en ef síður vilt ata hæla
þegar að þjáir skita
þetta er gott að vita.

Meira úr Þórsmörk:

Einhvern tímann ungur las
það ætti að vera gaman
en tjöld og bíll og tjald og gas
trauðla fara saman.

Eftir rás um úfin fjöll,
oní Bása vegur.
Taðið krásir, tjaldið höll,
túrinn dásamlegur.

Eftir vílin og vomin
vindgang og kviðverki. Sko minn!
Fékk sér af mat
og vaskaði fat.
Nú er dagur að kveldi kominn.

29.07.16

Oftlega hefur aflabrestur
orsakað veiðibann.
Sannleikurinn er sagna bestur
ef Sigmundur veiðir hann.

Kvöldsólin er oft dásamlega falleg:

Dálitla, gula duggan
damlar á leið í skuggann.
Sólgullið fley
siglir í þey.
Útsýn um eldhúsgluggann.

03.08.16

Enn á ferðinni. Öræfajökull og Hvannadalshnjúkur blasa við á björtum degi:

Í sálinni mjög verð ég mjúkur
og máttlaus nánast minn búkur.
Deyfðin útskýrð
með náttúrudýrð
sem framleiðir Hvannadalshnjúkur.

04.0816

Bjartur hásumardagur og dýrðina held ég noti,
damla með hnakk minn og beisli að Vælugerðiskoti.
Hrossin full af kæti, eins og kálfar oft að vori,
kerrt um hnakka, viljug og silkimjúk í spori.
Er reiðtúrum var að ljúka bar heldur vel í veiði,
vekurð næg sem gladdi; öll þrjú á flugaskeiði!
Nú Traustamótið nálgast og nauðsyn svör að fá:
Veit nokkur hvar og hvenær á að skrá?

06.08.16

Gist og etinn kvöldskattur á Hótel Önnu, Moldnúpi:

Ilmur nær áhugann kveikja
svo út um er farinn að sleikja.
Hótelið: Anna,
etin hin sanna
fyrirtaks Fagradalsbleikja.

Frá sama stað, út um herbergisgluggann:

Byrjað enn bílstjórarandið
og býsnagott er á mér standið.
Ég lít út um gluggann,
sé ljósið og skuggann
leika og glettast við landið.

07.08.16

Limruæfingar:

Mér svellþykkir sendir að gjöf ull-
arsokkar. Þeir reyndust ei gjöfull
vermir. Því míg
í skóna. Ei lýg.
Helvítis, andskotans djöfull.

Það ætlar að lát’ undan löngunum,
liggur hvers annars í föngunum,
læðist svo kímið
í lokaða rýmið
en graðhestamúsik á göngunum.

Slopp með hnöppum ei hneppi,
hnappaklappinu sleppi.
Slappur í tröppum.
Sveppir á löppum.
Úr leppum. Happið þá hreppi.

08.08.16

Horft upp í Öræfajökul neðan af Ingólfshöfða-söndum:

Á háborði hátíðardúkur
alhvítur úr fjarlægð, og mjúkur.
Fullhuginn skýri
við Fagurhólsmýri,
er reistur Rótarfellshnjúkur.

Og áfram er ekið til vesturs, heim á leið:

Nú er ég kominn að Klaustri,
keyrði þangað úr austri.
Setið í vaffi
Systra- í – kaffi
áfram svo farið í flaustri.

Varúð á vegunum mjóum
því vaggandi kerruna drógum.
Pínd áfram tík,
pissað í Vík
og anað svo áfram að Skógum.

Brunað frá Skógum í skyndi
(skæð Eyjafjöllin í vindi)
um Hvolsvöll og Hellu
á heimleið til kellu,
við Bitru allt leikur í lyndi.

14.08.16

Afmælisdagur frúarinnar:

Það er rigningartíð og rökkrið sækir á,
rósin úti ber nú dimman farða.
Í morgun augu leit – og loga sá
ljósin sem að götu mína varða.

Bauð henni út að borða í tilefni dgsins:

Hvar býðst þér hin besta sæla
ef við bragðlauka viltu gæla?
Það fer ekki milli mála;
Matur í Tryggvaskála.

15.08.16

Yfir sjónvarpinu. Undanrásir hundraðmetrahlaups karla á Ólympíuleikum:

Það er eins og þúsund volt
þenji afl í sinum
þegar ætíð Úsein Bolt
æðir fram úr hinum.

Og meira þaðan:

Sýndu margir brosið breiða,
brást þeim ekki miðakaupið
er van Niekerk sáu fljótast skeiða
fjögurhundruðmetrahlaupið.

Vænti þess að margur meti
metnað hans og stolt
en hvað ætli núna Gatlin geti
gegn honum Júsein Bolt?

Eftir úrslitahlaupið:

Fráni örninn ekki sestur
á sinn hvíldarstað.
Í hundrað metrum hver er bestur?
Held nú vitum það.

16.08.16

Yfir kvöldmatnum ei kvartaði,
konan fær bestu dóma,
ei skar við nögl er skammtaði:
Skyr og ber með rjóma.

Heimspekilegar vangaveltur uppi í sófa:

Það er gott að þvælast um.
Það er gott að hvílast.
Gott er afl í geðsmunum,
gott er ei að mýlast.

27.08.16

Vorum í nafngjafarveislu áðan hjá Bryndísi og Ragnari og ég skildi eftir á servíettu handa sonardóttur minni:

Þú komst í heiminn kraftaverk,
kynngimögnuð þóttir.
Vönduð smíð og viljasterk,
Vigdís Ragnarsdóttir.

Meiri heimspekilegar vangaveltur uppi í sófa:

Ágústkvöld, og dálítið að dimma,
dýpstu rök nú leita hugann á.
Getur orðið býsna römm sú rimma
er reyni botn í sjálfan mig að fá.

Held sé best að halla sér
þó hugur reiki víða.
„Enter“ – síðan ætla mér
undir sæng að skríða.

03.09.16

Eru ađ baki björt og hlý,
blíðu sumarkvöldin.
Haustið teiknar tildrög ný,
tekur gríma völdin.

05.09.16

Norðurljósin voru óvenjufjörug:

Mikiđ fyrir glaum og glans,
galskapurinn ræður,
tröllin stíga trylltan dans
međ tækifærisslæður.

Mannlýsingar:

Vammið við er spyrtur,
veruleikafirrtur,
í beinum eitur,
undirleitur,
til fárra fiska virtur.

Um háriđ vel er hirtur,
hálstau, sléttar skyrtur,
hjartaheitur,
í huga teitur,
vel af öllum virtur.

Blótandi og byrstur,
í brennivínið þyrstur,
einskis nýtur
augum gýtur,
flýr af hólmi fyrstur.

07.09.16

Veðurlýsing:

Alkunn haustsins aftankyrrð
er í líki skötu.
Gustug mjög, í geði stirð,
gusar nú úr fötu.

Og …

Konan veðri birginn bauð,
ber í fötu ultu.
Komin heim þau kát hún sauð
í krækiberjasultu.

Frelsast hver mín fínust taug
ef fengi andlega sorgun.
Enn ein vikan frá mér flaug,
fimmtudagur á morgun.

Sjónvarpsdagskráin, maður lifandi …

Alltaf skal mitt útsvar greiða
yfirmátaglaður
en Útsvar veldur ógnar leiða,
það ekki lifir maður!

Orkustreymi orðið tregt,
í anda þykknar húmið.
Á skjánum ekkert skemmtilegt,
skreiðist því í rúmið.

09.09.16

Fjasbók spyr í ritvinnsluglugga: „Hverju ertu að velta fyrir þér?“ Og af því tilefni varð þetta til:

Hvað er það sem hvílir þér á hjarta?
Hverju ertu að velta fyrir þér?
Sækir þú í sumarljósið bjarta
sem að fyrir löngu horfið er?

Það er gott að finna fagrar myndir,
fram þær draga hugarskotum úr
þegar á þig sækja gamlar syndir
sem að reyndust illa kleifur múr.

10.09.16

Stefnir í formannskosningu í Framsóknarflokknum og margir segja ekki annað en að þeir styðji þann sem kosinn er:

Í formannskjöri gefum engin grið
en gröfum axir, hundi fögnum vér,
og það góða prinsipp stoltir stöndum við
að styðja alltaf það sem kosið er.

11.09.16

Konur biðu afhroð víða í prófkjörum hjá íhaldinu, m.a. ráðherra ferðamála og formaður allsherjarnefndar:

Kjósendurnir konum hafna,
hvernig má það vera?
Ranka Elín ætti að dafna,
ekkert búin að gera
(afcr).

Unni heldur betur brá
er birtist niðurstaðan.
Að henni er eftirsjá,
þó Ási „bæti“ skaðann.

Fleri konur sátu í súpunni eftir prófkjör:

Kosningu ekki Kjerúlf fær,
en á kreppu setur fingur:
Á Alþingi, hið næsta, nær
ei nokkur Vestfirðingur!

Afgamlir karlar halda sínu:

Össur sætið að vana ver,
vaki margra spurninga.
Hve marga ennþá eigum vér
ævagamla smurninga?

Árni Páll sagðist eftir sigur í prófkjöri stefna að fylgisaukningu og þriðja þingmanninum í SV-kjördæmi:

Vegsemdar er vegur háll,
hver vargur þarf sitt æti.
Fylgið yki Árni Páll
ef hann bara gæti.

12.09.16

Formaður Framsóknarflokksins kvað einingu ríkja innan flokksins. Þá bárust Sigurði Inga áskoranir úr hverju landshorni að bjóða sig fram í formannskosningu:

Óumdeildur, æðsti guð
Íslands, leiddi flokkinn.
Er nú komið eitthvert suð,
annað hljóð í strokkinn?

Einhver hluti framsóknarmanna er vaknaður eða að vakna úr álögum. Margir eru þó enn ósjálfbjarga í huliðshjúp. Og mér fannst illa gert af fráfarandi umhverfisráðherra að spyrða saman í eitt formann sinn og varaformann. Þar er himinn og haf á milli:

Panama-dýrlingur veraldlegs vanda,
víst ertu dáður enn.
Manngildi fórnað þeim Herra til handa,
himneskur verður senn.
Krossfestur, eltur til annarra landa,
eins og Jesús ‘i den’.
Uppúr flokksins stórmenni standa,
„stórkostlegir menn“.

17.09.16

Stinga má höfði í stein,
stilla þar fókus og brain.
Sjá laftunguhunda
lúpast að Munda
og bítast um Panamabein.

18.09.16

Sigm. Davíð fékk yfirburðakosningu í 1. sæti framboðslista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi á kjördæmisþingi sem haldið var í Mývatnssveit:

Bjuggu þar fyrrum fyrirmyndir
sem fórnuðu öllu gegn stíflum.
Ráða þeim sveitum nú siðferðisblindir?
Safn af taglhnýttum fíflum?

Tilefnið er prófkjör undanfarið og formannsdraumar:

Til eru fræ sem fengu þennan dóm
að falla í kjöri’ og verða’ ei þingmannsblóm.
Eins eru þeir sem þreyta formannsslag
án þess að hafa í það rödd og lag.

21.09.16

Veðurlýsingar:

Ekki má við öllu sjá,
er í dái sólin?
Svæla grá nú sækir á,
sælu- þrái skjólin.

Veðrin finn um vanga minn,
votan stinningskalda.
Ef fljótt ei linnir ætla inn,
eg vil sinni halda.

22.09.16

Ástandslýsing:

Ansi brátt mér aftur fer,
við elli sáttur glími.
Klukkan átta, komið er
kvöld og háttatími.

Fæ mér kríu, floppa mat,
flæðir hlýja um kroppinn.
Klukkan níu á koppnum sat,
klukkan tíu sloppinn.

Nú er ég léttur í lund
á leiðinni suður, á Grund.
Með mér það ber,
að mín núna er
ævi á elleftu stund.

23.09.16

Rigningartíð:

Lætur eftir um það bil
yfirfulla svelgina.
Á að lygna og létta til,
líklegast um helgina.

24.09.16

Pólitíkin er með miklum ódæmum:

Bráðum fellur flatt á svell,
flónskubrelluklíka.
Lygavella skýrir skell,
skæð er dellan líka.

25.09.16

Formaður Sjálfstæðisflokksins er kominn í drengjakórinn, enda stutt í kosningar:

Heyrðum barbabrellu
Bjarna hjá í fréttum,
dæmalausa dellu,
dyn sem jarm í réttum.

27.09.16

Sami maður tjáir sig í sjónvarpi:

Ælan kemur upp í háls
ef á þarf Bjarna hlýða.
Hann með klofna tungu táls,
talar fagurt víða.

Það er fallegt veðrið í dag:

Fáum sól- og heiðríkt haust,
heima skjól á pöllum.
Hauður kól, með hása raust
og hvítan kjól á fjöllum.

Strýkur gjóla hönd um hól,
hæg í skjóli liggur.
Þar í bóli, klædd úr kjól,
kossa sólar þiggur.

02.10.16

Framsóknarflokkurinn kallaði til þings til að kjósa nýja forystu:

Það er ekki þrautalaust
þing að halda flokka.
Svikabrigsl og tapað traust
tæpast fylgið lokka.

05.10.16

Staddur í Finnlandi á fangelsismenntunarráðstefnu:

Fyrir dregin tímans tjöld,
tími sig að bæla.
Nú er semsagt niðdimmt kvöld,
nætur bíður sæla.

Finnska haustið kælir kinn
er kvölda og dimma tekur.
Kátur sofna, því máttinn minn
morgunsólin vekur.

Sigmundur Davíð fullyrðir að flokksþing Framsóknar hafi fyllst af framandi Framsóknarmönnum, sem hafi reynst vera kínverskir ferðamenn.

Kínverjum margt um kennum við enn,
svosem kolefnismengandi hulu.
En er’ ekki framandi framsóknarmenn
bara fjöður af hænunni gulu?

07.10.16

Iðulega ærir mig
andans kraft að virkja
en inn á milli sjálfar sig
svona vísur yrkja.

Skylt er að ferðast og skoða heiminn,
skemmtilegt þykir mér flest.
Auðnist mér komast allan um geiminn
alltaf þó heima er best.

11.10.16

Mína heimabagga bind,
belti svörtu meður.
Þegar mér í verkin vind
er víst að eitthvað skeður!

Allt í skyndi eignast vil,
af önuglyndi státa.
Ef með fyndi öðrum til,
ætli myndi gráta?

Alltaf gefa öðrum vil,
anda hef því státinn,
svo, án efa, brúa bil
og bitran sefa grátinn.

Minningar frá Róm, fyrir þremur árum, birtust á Fjasbók í formi myndar af undirrituðum:

Skoða mátti margt í Róm,
menning draup af stráum
sem hrærði þennan hrekkjalóm,
hárum sviptan gráum.

12.10.16

Um þá væsir utangarðs,
ákaft blæs á glugga.
Við svíun dæsi sófabarðs,
sig er næs að hugga.

16.10.16

Helgarferð til höfuðborgar Katalóníu, dagur 4. Útsýnið í dag:

Yfir lækinn leitar þrátt,
lítt’ þér, maður, nær!
Sérstaklega ef þú átt
íðilfagrar tær.

Miður hress að morgni dags,
um miðjan daginn lúinn.
Um kaffileytið kvarta strax,
um kvöldmat alveg búinn.

18.10.16

Lesist lárétt og lóðrétt í bragliðum:

Morgungleðin gefur sælu,
gleðin veitir sálarfriðinn,
gefur sálarsómann þráða,
sælufriðinn þráða, löngum.

Formaður Sjálfstæðisflokksins setur upp fermingarsvipinn í fjölmiðlum er hann kemur úr skúmaskotum:

Kann að stunda ljótan leik,
loforð hundafóður,
svo á fundum, í svörtum reyk,
segist undurgóður.

Borgun styrkti Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflpkkinn um 250.000, enda fengu Engeyingar að kaupa fyrirtækið af ríkinu á gjafaprís:

Gott ef vini áttu að,
í öldum dagsins ströngum,
sem passa’ að lítið úr lófa blað
lendi ei hjá röngum.

19.10.16

Magnús Halldórsson sagði að Davíð Oddsson hefði verið eins til augnanna og hundur nýkominn af sjálfdauðu hræi, á myndum sem birtar voru af honum í sjónvarpi frá aðdraganda hrunsins:

Fláræðið er fengilegt,
flökta sjónir víða.
Davíð lýgur, það er þekkt,
en það má ekki líða.

26.10.16

Í augnablik nú upp er stytt,
einnig hægur vindur,
fer ég því í fletið mitt,
fúll og önuglyndur.

Kári sparar kúlurnar
og kaldan byssustinginn
svo ég blæs út blöðrurnar
og brosi allan hringinn.

Karlakvöld Karlakórs Hreppamanna er framundan:

Eru af borði borin köld
blessuð lömbin?
Mætum þá á karlakvöld,
kýld er vömbin.

Er heima liðin ölsins öld,
ekkert gaman?
Mætum þá á karlakvöld,
kneifum saman.

Í hring um gleðihrókafjöld
hrossaketið.
Skemmtun góð er karlakvöld:
kyrjað, etið.

Hófleg þarf að greiða gjöld,
gamla leppa,
föstudags á karlakvöld
kórsins Hreppa.

27.10.16

Kosningabaráttan einkenndist mest af auglýsingum í fjölmiðlum, og níði á samfélagsmiðlum:

Endalaust er auglýsingaflóð,
innihaldið bara skammlíf froða.
Óskaplega bágt á þessi þjóð
að þurfa’ að hlusta’ á svona lygahroða.

29.10.16

Kosningadagur í dag:

Öðruvísi mér áður brá.
Nú ekki reyndist valið létt.
En alltaf stóla á það má
að ég hafi kosið rétt.

Og þegar tölur fóru að birtast í kosningasjónvarpinu:

Erum bæði, við konan, hvekkt,
svo kvöldið verður langt,
því mjög finnst okkur merkilegt
hve margir kjósa rangt!

Það er aumt ef verður á Íslandi kyrr
þessi óstjórn. Helsta var fréttin
að færri núna en nokkurt sinn fyrr
nýta kosningaréttinn!

En þá að veðrinu:

Vetur líður, vitum að
vorið kemur aftur.
Vosbúð, myrkur – velur það
varla nokkur kjaftur.

09.11.16

Kosið er víða um heim, m.a. til Alþingis á Íslandi og í forsetastól Bandaríkjanna:

Nýja tíma viljum vér,
veröld betri skapa.
Víða um heiminn virðist mér
vonin núna hrapa.

Trump var kosinn með minnihluta atkvæða:

Til að vinna sigur sætan,
og sýna örbirgð platfræða,
hljóta verður, mjög svo mætan,
minnihluta atkvæða.

11.11.16

Með haustlægðir sogast að sunnan um heim,
þú svartvængjuð geðvonskubryðja,
í rembingi, öskrandi öllum að þeim
sem Ísland nú byggja, og niðja.
Síausandi hlandi, svo lággeng og leim
að lengi mun hörmuð sú iðja.
Sko, lúskrastu burtu, já, langt út í geim
og láttu mig oftar ei biðja.

12.11.16

Vetur kemur ekki enn,
á mér lemur regnið.
Betur hemur sál sig senn,
sólar nemur megnið.

13.11.16

Það er margt sem þokan veit,
þröngt og svart er gilið.
Innra skart og unaðsreit
annar vart fær skilið.

Gegn heimsósóma herör sker,
hér svo tímann vel nýti
fyrst vill kanna hvort ei er
kristilegt í helvíti.

14.11.16

Af stjórnarmyndunarviðræðum:

Von er nú til viðreisnar
voru spillta landi.
Hin bjarta framtíð bíður þar
í bláu handabandi.

Er Bensi vel úr garði gerður?
gott er ei um slíkt að spá
en eitt er klárt – að alltaf verður
ákaflega, höndin, blá.

15.11.16

Loks sást snjór, eftir langvarandi rigningartíð, og stórhríð norður í landi:

Stöðugt regn ei líkar lýð,
en loks er kominn vetur.
Myrkur bakki og manndrápshríð
mörgum geðjast betur.

Bjarni Ben. kvartar yfir því að aðrir séu ósveigjanlegir í stjórnarmyndunarviðræðum:

Bjarni vill ei biskupsfórn,
né beygja krókinn,
svo að náist starfhæf stjórn.
Staðan flókin.

17.11.16

Dagur íslenskrar tungu var í gær, og kórinn söng suður í Hafnarfirði með Kvennakór Hafnarfjarðar:

Hátíð, glaumur og gaman!
Gladdist hópurinn saman!
Allir þar sungu
á íslenskri tungu
og enginn var fúll í framan!

18.11.16

Bjarni Ben. gafst upp og Katrín fékk umboðið:

Gerði Bjarni’ upp á bak
eftir bölvað vandræða skak
en hvað með Katrínu Jak.
á hverjum hefur ‘ún tak?

21.11.16

Með hálsbólgu og höfuðverk,
horstraumsflóð úr nefi,
sýklaskít í kinn og kverk,
kjaftfullur af slefi.

Sonnetta:

Þú Vetur ríkir, eftir vota tíð,
á vanga blíður hér á Suðurlandi,
bjartur, stilltur, allt í góðu standi
en stríður norðanlands, með kóf og hríð.

Samgöngur með flugi fara’ í steik,
fyrir vestan margir hanga tepptir.
Þó rjúpnaskyttu úr freðnum faðmi slepptir
ei farsælt er að bjóða þér í leik

því útlitsfagrar leikjaþrautir þínar,
þekkja margir vel á eigin skinni;
þeim öllum stjórnar kuldalegur kraftur

með kolamyrkar, opnar skemmur sínar
og gott er því að geyma sér í minni
að sú gula rís, og vorið kemur aftur.

En snúum okkur að -flensunni:

Að liggja sjúkur ekki virðist verra
þó von um góða heilsu sé að þverra.
Mjög nú þarf ég magavöðva sperra
því mikið svakalega verð að hnerra.

-veðrinu:

Vetrarmjallar mikla höll
meður hjalla fríða,
bratta stalla, undrin öll
Ingólfsfjallið prýða.

-konunni:

Allar sorgir alheims ber,
óráðs borga slaginn,
ef á torgum, einn með þér,
fæ allan morgundaginn.

-og fréttunum. Rjúpnaskyttu var leitað í tvo sólarhringa á Fljótsdalshéraði, og hún fannst heil á húfi:

Ennþá margir fara’ á fjöll,
fullhugar, með hlátrasköll,
gana út um víðan völl,
þau viskutröll,
vanbúin, í veður öll.

25.11.16

Ekki gat Katrín myndað stjórn frekar en Bjarni Ben.

Nú á taugum næstum fer
nýkjörin þingmannasveit
því að niður njörvuð er
nánast á byrjunarreit.

Enginn friður var í fjölmiðlum vegna einhvers sem kallað var „black friday“:

Föstudagur til fjár
fannst mér hljóma mun skár.
Vor ævitíð liðin
með íslenska kliðinn.
Dagurinn svartur – og sár.

27.11.16

Eftir hlýja aftanskúr
enn á ný má bóka
að sólarglýja greiðir úr
gullnum skýjaflóka.

Núna heiður himinn er,
hár og breiður, meðan
allar leiðir opnar mér
og andann seiðir héðan.

Sólin vekur sinnismátt,
síðu þekur tjöldin.
Að því rekur reyndar brátt
að rökkrið tekur völdin.

Lesandi hafði á orði við ofangreinda vísu að „dýrt væri ort“.

Dæmalaust nú dýrt er ort,
dillar raust af gorti.
Get, í flaustri, skýrt hér skort
ef skellur hlaust af sporti.

28.11.16

Maður kvartar ekki oft,
augun skarta bliki.
Glaður svarta lífsins loft
lít, og bjartur þyki.

29.11.16

Eigandi Brúneggja var óforskammaður í sjónvarpsviðtali:

Bóndans réttu ráðin við
rekstri snúnum:
Skallagríms að skondnum sið,
skí/ýtur brúnum.

30.11.16

Í kjölfar „Brúneggjamálsins“ beindist gagnrýni að Matvælastofnun fyrir slælegt eftirlit. Halldór teiknaði í Fréttablaðið um eftirlitsiðnaðinn, sem íhaldið vill skera burt. Gildir þá einu hvort er matvælaframleiðsla, fjármálakerfi, ferðamannaiðnaður, velferð eða vinnumarkaður:

Í sólþurrki jörð getur sviðnað
og sérpökkuð frostvara þiðnað.
Lofa skal frelsið,
losum því helsið
og skerum burt eftirlitsiðnað.

Framsóknarskötuhjúin gera það ekki endasleppt í fjölmiðlum:

Marga gerir Gunnar bragi
úr gljúpum, pólitískum leir
og engin von sér Vigdís hagi,
varla nokkur þolir meir.

1.12.16

Nokkrir glotta núna við,
net í plottin riðið.
Væri gott að gera’ að sið
að gæðavotta liðið?

3.12.16

Þó lækki enn á lofti sól,
þá lengjast búrvökurnar.
Daga og nætur mig reka á ról
rúsínukökurnar.

5.12.16

Hæstaréttardómari varð uppvís að því að vera stórtækur á hlutabréfamarkaði með arf sem honum tæmdist.

Til andskotans á einu bretti
æða jörð og sól.
Höfum því í Hæstarétti
hlutabréfaskjól.

7.12.16

Mér í æðum ólgar blóð,
andans glæðir bríma.
Vísa, kvæði, limra, ljóð,
líka fæðist ríma.

Ef í sinni sitru finn
sem að rynni héðan,
anda brynni, óðinn spinn,
iða’ í skinni’ á meðan.

Ansi fátt er ósjálfrátt,
engan mátt nú styggja.
Skal og nátta eftir átt,
utan gátta liggja.

Smákökubaksturinn kominn á fullt á heimilinu:

Augun glaðar úrvalstinnur,
æsist vökuglampinn.
Bragð er að þá „barnið“ finnur
í búri kökustampinn.

8.12.16

Um hvað gæti verið þessi vísa?
Vandi er um slíkt að spá.
Mjög er vinsælt veðrinu að lýsa
og vita hvernig stjórna á.

9.12.16

Núna tækni nýti mér.
Núna þankann telgi.
Nú út vísur nokkrar sker.
Nú er að koma helgi.

Degi hallar, desember,
dimmur vetrarprósinn.
Konan brosir, hvít hjá mér
kveikir sálarljósin.

Á Netinu birtist texti úr samræmdu prófi frá Námsmatsstofnun. Ekki var það björguleg þýðing:

Ennþá frá tíma til tíma,
tíminn áfram silast
og hellir sér yfir lág svæði hugans.
Ég bilast.

12.12.16

Furðu milt og frostlaus jörð,
í felum kápan hvíta.
Grænar flatir, flókabörð,
friðsælt um að líta.

Um veruleikann veit ei gerla,
hvort vetrar blómstrar rósin?
Eða sjást í myrkri merla
marglit jólaljósin?

20.12.16

Hvíldarlaust heldur UNICEF áfram, daginn út og inn alla daga, að nauðga íslenskri tungu. Í fullkomnu ósamræmi við tilefnið. Hvers vegna þarf að auglýsa svo göfugan málstað með jafn ömurlegum leirburði? Því það er borðleggjandi að bestu skáld og hagyrðingar landsins myndu með glöðu geði semja eitthvað sómasamlegt – og gefa vinnu sína.

Íslenskt mál í heiðri hef,
hugann gullkorn auðga,
en jólavísur UNICEF
jafnan tungu nauðga.

21.12.16

Sólhvörf bæta sálarhag,
síga brúnir vart,
alveg bit hvað er í dag
ógeðslega bjart!

24.12.16

Jólakveðja 2016 – dróttkveðin:

Stríðs í heimi hrjáðum,

hungursneyðar, leiðum,

er fjöldi enn, sem um aldir,

óttasleginn á flótta.

Eins og Jósef Jesúm

úr jötu tók, um götur

hrakinn, úr landi sem hundur,

svo hlífa mætti lífi.

 

Þennan mæta manninn

myrtu valdsmenn kaldir

sem þelið ekki þoldu

þýða, og hylli lýðsins.

Nú á tímum „nýjum“

neglum á krossa, steglum,

þá sem valdi velgja

vel undir uggum, við stugga.

Augum lítum ætíð

 

Assange þannig og Manning.

Af lífi, og sögulegu,

lærum, vinir kærir.

Aðeins andófslundin

oki lyftir. Tyftir

illan bifur. Hjá öllum

til árs og friðar miði.

 

Hérna blessuð börnin

brosa sem sól um jólin.

Annars staðar þau stuðar

stríð með sprengjuhríðum.

Selja vesturveldi

vopnin. Huga opnum!

Innum oss að þessu:

Eru þau mannverur?

 

31.12.16

Við áramót 2016-2017

Nú árið er liðið í aldanna skaut“

og aldrei það komi til baka

með Icehot, sem Borgun til skyldmenna skaut,

í skjólin þeir auðmagni raka,

og forsætisráðherrann flagsækið naut,

fnæsandi, siðspillt og gaga,

vort Alþingi, hæstvirt, er lægst núna laut,

samt ljóst að af miklu’ er að taka,

því lífeyrisfrumvarp á launþegum braut

sem lítt höfðu unnið til saka.

 

Nýtt ár er í vændum, og útlitið svart,

því afturhaldsstjórn er í pípum

sem gefa mun almenningseigurnar skart

til útvaldra’, í passlegum klípum,

og auðmönnum hleypa á fljúgandi fart,

þessum forhertu, siðlausu týpum,

en sjúklingur! fljóta til feigðar þú þarft

í fenjum með botnlausum dýpum.

Ég játa, mér finnst þetta helvíti hart.

Til heilbrigðra meðala grípum!

 

Úr dagbókinni 2015

Árið er 2015, Safnið telur 193 vísur

01.01.15

Það er við hæfi að ég sendi konu minni fyrstu kveðju nýs árs:

Léttir angur lundin þín
lífs á gangi mínum.
Enn mig langar, ástin mín,
upp að vanga þínum.

 

12.01.15

Í fréttum var þetta helst.

Það herðir heldur á frosti.

Heimsbyggðin öll er í losti.

Á fötluðum brotið.

Fólkið er skotið.

Aðra smyr brauðsneið með osti.

 

14.01.15

Sóknarpresturinn í Vík kvaddi sér hljóðs á Fjasbók og tilkynnti að 29 ár væru frá því hann tók við kallinu. Hann fékk í kjölfarið fjölmargar heillakveðjur. Þess má geta að Gulla, kona hans, er bekkjarsystir mín úr menntaskóla:

Vinsæll er Víkurprestur

og varla því víkur prestur.

Haraldur Magnús

í messunum sagnfús

og hjá Guðlaugu aufúsugestur.

 

15.01.15

Í dag eru 20 ár frá því snjóflóð olli hörmulegu stórslysi á Súðavík. Í Kastljósi var viðtal við konu sem lifði af, bjargaðist eftir 14 tíma undir brakinu af húsi fjölskyldunnar, þá unglingur að aldri. Frásögn hennar var átakanleg:

Alltaf með sár á sálinni.

Snjóflóðagnýr undir nálinni.

Hugsanir stríðar

en höggið kom síðar.

Skelfing í minningaskálinni.

 

Nú er að hefjast enn eitt HM í handbolta, nú haldið í Katar. Íslendingar eru á meðal keppenda og því fylgja ákveðin leiðindi:

Ennþá er vakin upp vofan.

Vonsvikinn þrýsti á rofann.

Kuldi og vetur

kvalið mig getur

og helvítis HM-stofan.

 

19.01.15.

Það er mikill lægðagangur þessi misserin og sér ekki fyrir endann á honum:

Endalaus vosbúð og væta,

í vindinn er ennþá að bæta,

svo blyndöskubylur

er blotinn við skilur.

Er furða að þjóð vilji þræta?

 

21.01.15

Borgarfultrúar Framsóknarflokksins gera það ekki endasleppt. Eftir Moskuhneykslið fyrir síðustu kosningar bæta þær um betur með því að skipa annálaðan og þjóðþekktan rasista og hommahatara sem varamann í Menningarráð Reykjavíkur:

Dýrð sé oss, dætur og synir

drottins guðs. Burt skreiðist hinir.

Vora finnum vér línu

að frelsarans pínu“.

-Framsókn og flugvallarvinir.

 

22.01.15

Skagamenn heimsóttu FSu í 1. deild karla í kvöld:

Létt var yfir liðinu,

leikið á nokkurrar pressu.

Allir voru á iðinu

nema Skagamenn sem riðu ekki feitum hesti frá þessu.

 

24.01.15

Þrátt fyrir mikinn lægðagang og læti í veðrinu er nauðsynlegt að halda ró sinni:

Hávaðasöm og hyldjúp lægð

hertekur landið og miðin.

Að Gustavsbergi ég geng með hægð

því góð voru bóndadagssviðin.

 

Handboltalandsliðið stendur í ströngu og var „með bakið upp við vegg“ þegar það mætti Egyptum í síðasta leik sínum í riðlakeppni HM og sæti í 16 liða úrslitum að veði, þar sem Danir bíða, en helsta skytta liðsins, Aron Pálmarsson er fjarri góðu gamni:

Guðjón Valur gerði sitt,

sá gamli ennþá nokkuð fit.

Danir bíða við hornið hitt,

-held við þurfum nýja skytt

u.

 

Fyrrnefndur Aron var sleginn niður í miðbæ Reykjavíkur og missti af undirbúningsleikjum fyrir HM. Í næsta leik á undan Egyptum mættu Íslendingar Tékkum þar sem Aron fékk annað höfuðhögg og vankaðist svo hann var úr leik:

Aftur fékk hann einn á kjamma,

aftur lá í valnum.

Engan bolta, ekki djamma,

ósköp hart á dalnum.

 

25.01.15

Umboðsmaður Alþingis hefur birt skýrslu sína um afskipti Hönnu Birnu af lögreglurannsókn á ráðuneyti sínu. Umræður um þetta mál á Alþingi hafði hún fyrr kallað „ljótan pólitískan leik“:

Þar sem logar, þar er gjarnan reykur,

í þéttu rými að lokum kæfir mann.

Hvort er það nú ljótur pólitískur leikur

að ljúka upp, eða reyna að fela hann?

 

26.01.15

Víglundur Þorsteinsson kemur fram með gamalkunna samsæriskenningu um glæpi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Alþingis, allra helstu íslenskra stofnana og margra erlendra aðila gegn íslenskum almenningi í hruninu:

Í bræði vætir Víglundur nú tenn,

vopnast, fægir ryð af snaginhyrnu

því agalega vondir vinstrimenn

veltu af stóli smáðri Hönnu Birnu

og gengu líka alltof nærri Geir!

Slíkt inmúraðir ei fyrirgefið fá,

sín finna hefndarráðin valdasjúkir

og drýsla marga í dimmunni má sjá

en Davíð upp á fjósbitanum húkir.

Til hinsta dags í flórnum þrauka þeir.

 

Eftirfarandi texti er klipptur úr Fréttablaðinu í gær: „Umræðan er einungis að fara að aukast vegna þess að stöðugt fleiri fá tækifæri til að tjá sína skoðun sem áður höfðu það ekki. Samskipti milli fólks eru að fara að aukast og þau eru meira og minna að fara að eiga sér stað….“:

Eru að fara að eiga sér stað
aukin samskipti fólks í milli,
því er að fara að aukast mjög
umræða góð og málfarssnilli.

 

30.01.15

Þó umgjörð HM í handbolta sem haldið er í Katar um þessar mundir sé slétt og felld ganga ásakanir um að dómgæslan hafi hjálpað heimaliðinu áfram í keppninni, jafnvel talað um mútur og dómarahneyksli:

Yfirborðsáferðin lygn

en alltaf er dómarinn skyggn.

Furstar í Katar,

kolspilltir snatar,

kaup sér meistaratign.

 

02.02.15

Mannlýsingar úr sveitinni:

Í afdalakoti bjó kall,
sem kúkaði‘ og hrækti í dall.
Japlandi roðið
og reykjandi moðið
reið hann svo fullur á fjall.

 

Og kellingin feiknmikið fall
sem forðaðist gesti og spjall.
Í myrkustu krókum
hún muldi úr brókum
í soðningu, saman við gall.

 

Syni var stillt upp á stall,
samt stundaði ónytjubrall.
Góða fylli í kvefi
fékk hann úr nefi
svo allur varð grár eins og gjall.

 

Dóttirin iðaði öll
úti um móa og völl.
Í dagbækur skráði
að skemmtun hún þráði,
skagfirska sveiflu og böll.

 

03.02.15

Mannlýsingar af mölinni:

Í borginni lögmaður bjó
sem bergði af stressinu fró.
Keppti við grannann
í græðgi, og vann ´ann.
Frá dýrðinni ungur svo dó.

 

Frúin er fínasta snobb
sem faðmaði annan, hann Rob.
Hún aðeins fær unað
við allsnægt og munað,
á rándýran kobbidí kobb.

 

Dóttirin orðin er djörf,
af drykkju um helgar oft stjörf
og af afskiptaleysi
þessu ógissla pleisi
hugsar hún þegjandi þörf.

 

Sonurinn beinni á braut,
bráðger og sterkur sem naut.
Á kagganum fer um
fullur af sterum,
flottur, en geðið í graut.

 

05.02.15

Mannlýsingar úr þorpinu:

Þorparinn þrautgóður var,
á þakkir og hrósið ei spar.
Í orðfæri „linur“:
„Elskan“ og „vinur“,
og kleip svo í kellingarnar.

 

Konan hjá kunningjum sat
í kaffi, og bauð sér í mat,
til að þefa upp fréttir
og það var nú léttir
ef fásinnu fundið þar gat.

 

Strákur á þrítugu stóð,
staðarins uppháhalds jóð.
Að spóla í brekkum
á belgvíðum dekkjum
stundaði, miklum af móð.

 

Stelpan á liðinu lúin
fyrir löngu í huganum flúin.
Þá bar þar að Dana
sem barnaði hana-
og þar með var draumurinn búinn!

 

06.02.15

Eyðimerkuróráð:

Þrammandi‘ í eyðimörk þrír,

af þorsta er hugur óskýr.

Svo líðanin batni

leita að vatni

en dropinn hjá guði er dýr!

 

Andinn í óráði dalar,

bara ímyndun þorstanum svalar.

Í sturlun þeir ná

stjörnur að sjá

og til þeirra himinninn talar!!!

 

Á kvöldgöngu kærustupar,

hún komin á steypirinn var.

Þau gönguleið breyta

og á gistihús leita

en vertinn þar veitir afsvar:

 

Þið finnið í fjárhúsi hey.

Bara fyrningar reyndar, OK?“

Þar Jósef á ný

fer að jagast í því

að varla sé María mey:

 

Ég hef aldrei hold þitt séð bert

og hitt höfum við aldrei gert.

Það er hlálegt að blanda

í þetta heilögum anda!!!

Hvað heldur þú að þú sért?“

 

Af tuðinu María mæddist,

upp í myglaða jötuna læddist

og myrkrið óp klauf.

Hennar meyjarhaft rauf

freslarinn þegar hann fæddist.

 

09.02.15

Um þá hegðan að hlaupast undan ábyrgð og láta öðrum eftir að halda uppi samfélagsþjónustu en nýta sér hana að fullu eftir sem áður:

Sett á haus með svikafléttum

og í sárum þjóðin lá.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

 

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

Virtist allt á réttu róli

rummungunum hjá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

 

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

Nú er Bjarni‘ í nokkrum vanda

nú fer að koma‘ í ljós

hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.

 

10.03.15

Á búslóðarböndin þeir skáru,
búkkinn þá hrundi. Með sáru
ópi við brást.
Í birtingu sást
að ennþá var borð fyrir Báru.

 

12.03.15

Ekki‘ er öll vitleysan eins!
og eigi var hikið til neins
því í loftinu lá
löngun og þrá
milli Sleggju og Steins.

 

18.03.15

Vorið fann sinn hvíta kjól
og klæðist brúðarslöri.
Nú ég æði út á hól
æsku- hlaðinn fjöri.

 

Vorið fór í hvítan kjól
og keypti brúðarslörið.
Höldum núna heilög jól,
held að það sé kjörið.

 

21.03.15

Sjáið núna! Sólin skín!
og syngur fugl sitt lag!
Töfrar kór fram tónverk sín
á tónleikum í dag!

 

22.03.15

Nú er loks til sólar sér,
sunnudagur gjöfull,
hef ég allt á hornum mér;
helvítis, andskotans, djöfull!

 

Nú er dynur haglél hart
og hratt í lofti syrtir,
gleðibros mitt veiklast vart;
ég veit að aftur birtir.

 

Úr reiðtúr engin orðin fregn,
enda fastur liður:
Sólskin, haglél, slydda, regn,
svikalogn og hviður.

 

03.04.15

Nú á tímum telur smátt
trúarþruglið stranga
svo fíflagangi flíka mátt
á föstudaginn langa.

 

8.04.15

Sumt mætti alveg una í þögn.
Í eiginhagsmunaskyni
forsætisráðherrann gróf upp gögn
frá Guðjóni Samúelssyni.

 

Allsekki var það illa meint
þó aftur vini sína
Illugi greyið alveg hreint
óvart hitti í Kína.

 

Simmi brúar gliðnandi gjá,
glóir á perum öllum.
Hann ekki lengi hangir á
hugmyndum eitursnjöllum.

 

17.04.15

Lítið borið á því enn,
mitt andlit skorið þéttara,
en kannski vorið vakni senn?
Þá verður sporið léttara.

 

21.04.15

Ágætur flóa- er -friður
þar sem frjóan á jarðveg sá siður
að breiða út snakkið.
Og baktjaldamakkið!!!!
Það sannlega segi ég yður.

 

23.04.15

Komið norðanfár og fjúk,
frostrós víða brumar.
Landið þakið þykkum dúk,
það er komið sumar.

 

Dottnir eru ei af baki
og allt á fínu róli
fyrst gátu loftað grettistaki.
Gott hjá Tindastóli.

 

25.04.15

Inni sit með símann minn,
sól á himni gleður.
Um allan kroppinn yl ég finn,
ekta gluggaveður.

 

Ég er bú’nað járna fimm,
jólin daga flesta,
enda stunda útitrimm
með alla mína hesta.

 

26.04.15

Gott að finna gust um kinn,
gleður sinnið kvalda.
Verst að linnir vart um sinn
vetrarstinningskalda.

 

Þið, sem við skjáina skrunið
og í skorti við brauðmola unið!
Eins og vel kveðin vísa
nú vísindin rísa:
„Hannes að rannsaka hrunið“!

 

27.04.15

Er Eygló gamla alveg lost?
Hví urrar Kári grimmdarfrost
svo ömurlega í öllu hvín?
Eriddigi bara grín?

 

02.05.15

Þjóðin sýnir þor og dug.
Þrótti íhald tapar.
Sjóræningjar fara á flug.
Framsókn niður hrapar.

 

Hamingjan í hæstu mekt
í hægriöfgaþíðunni.
Nú er allt svo yndislegt
og útreiðar í blíðunni.

 

04.05.15

Enn mun verða erfið raunin
inn- að styrkja -viðina
því annars munu lægstu launin
landið setja’ á hliðina.

 

05.05.15

Æ, já – viltu koma með eina á þá sem hirða allan arðinn í þessu þjóðarbúi? spurði Eygló Eiðsdóttir eftir lestur vísunnar frá því í gær:

Gleðipillur upp nú urnar,
arka stjórnir kvalaveg
með þungan bagga, arðgreiðslurnar,
og ábyrgð, sem er hrikaleg.

 

Um ríkisstjórn SDG

Samfélags grefur samtakamátt
og sundurlyndisfjandann elur.
Launamenn alla hún leikur grátt
en landsgæðaarðinn í ríka telur.

 

10.05.15

Mæðradagsvísan:

Lífs á himni skærast skín

skips míns leiðarstjarna.

Elsku, besta mamma mín

merlar alltaf þarna.

 

18.05.15

Þeyr með Glóð við gjörð í för,
í gusti makkar brúsa
og knapann heilla Hátíð, Ör,
Hrímnir, Venus, Spúsa.

 

19.05.15

Úthaga skipað á aftasta bekk“,
úrsvalur vindurinn þuldi
svo heimurinn kæfandi hóstakast fékk.
Helvítis, andskotans kuldi.

 

22.05.15

Úlpu um mittið undireins bind
og erfitt í peysu að tolla.
Á hestbaki ég heimta vind!
Helvítis, andskotans molla.

 

27.05.15

Eftir langerfiðustu af sex fæðingum móðurinnar var hann tekinn í hasti og settur í súrefniskassa, þar sem pabbi gat fyrst skoðað frumburð sinn gaumgæfilega í gegnum glerið. Næstu tvö árin vildi hann hvergi vera annars staðar en í fangi og við brjóst mömmu sinnar, og drakk þar í sig sína bestu eiginleika: umhyggju, vandvirkni og lífsgleði. Þetta er sem gerst hefði í gær.

Viljinn skýr og virðing sterk,
að varúð beygðist krókur,
öll sín skyldi vanda verk
og vakna gleðihrókur.

 

Ragnar enn á réttri braut
og ræktar vinarhuginn.
Með sínum kunna þokka þaut
þriðja áratuginn.

 

Úr ferð starfsfólks FSu til Finnlands og Eistlands

26.05.15

Anna skundar, í ferðum fljót,
framhjá margri kránni
svo á mér birtist býsna ljót
blaðra á stóru tánni.

 

27.05.15

Þegar maður fer í frí
eru fyrstu morgunverkin
að hemja skjálftann og huga’ að því
að hylja næturmerkin.

 

Lagleg mjög um lend og hupp,
lundin góð, og svona
lýsir heiminn allan upp
þessi yndislega kona.

 

01.06.15

Hvern langar ei langt út í geim?
Nema lyndi og þjóðanna hreim?
En þegar atið er mest
er alltaf best
með henni að koma sér heim.

 

04.06.15

Ók nemendum Vallaskóla í vorferð inn í Bása, þar sem gist var í skála.

Er lifnar gróður lyftist brún,
en lítið hefur á því borið;
haginn gulur heim við tún.
Hvenær kemur blessað vorið?

 

Fingur sljóir, slær mér að,
slokknar líf í tásum.
Ég man hlýrri, játa það,
júnídag í Básum.

 

Björn hér fyrrum bjó í Mörk
sem bróðir reyndist Kára.
Nú vitjar mín, svo vísu’ á örk
verð um hann að pára.

 

09.06.15

Loksins birtist lauf á trjám,
loksins grænka börðin.
Loksins aftur lyftir brám,
loksins vaknar jörðin.

 

14.06.15

Blátær himinn blasir við,
ei bærist á kolli hárið.
Feikilega friðsælt svið
og fallegt í morguns árið.

 

18.06.15

Þetta var helst að frétta af hátíðinni „Halló Akureyri“!

Nýta Pollinn sem næturgagnið,
nú telst busl þar svalt
því iðragerla er þar magnið
áttahundruðfalt.

 

20.06.15

Fyrsta stopp í fyrstu langferðinni með ferðmenn í sumar:

Á grænni rútu við glæstan Skógafoss,
í glugga sér í myndasmiðinn,
sem bíður einn en hugsar mest um hross
og heyrir varla fossaniðinn.

 

Dálagleg Dyrhólaey
í dýrðlegum kvöldsólarþey.
Þetta mýrdælska svið
verð að sætta mig við
því allt er í harðindum hey!

 

21.06.15

Er sem fyr augum mér dökkni
og aðeins að rómurinn klökkni
er ég stend og gón-
i á Jökulsárlón?
Jæja, enginn er verri þó vökni.

 

22.06.15

Ástarbríma enn í hjarta finn,
orðlaus jafnan verð í Skaftafelli.
Fósturjarðar legg ég kinn við kinn
en kossi fyrst á varir hennar smelli.

 

Er föðurlandsins helga dýrð óhult?
Á heimanmund að vernda, eða’ ofnota’ ‘ann?
Sjá, bílastæðið alveg orðið fullt!
Ennþá bætist jafnt og þétt í flotann.

 

Aftanfriður, útsýn góð,
allt í nokkuð fínu standi.
Veiðihús, í grilli glóð,
gistinótt í Meðallandi.

 

23.06.15

Með leiðsögn, varkár og vökul
ef vafrið þann auruga hökul.
Á margt er að líta
(en hvorki míga né skíta)
um sumar við Sólheimajökul.

 

24.06.15

Heiðhvolfin himinblá,
hamrar og jökulgljá,
litfagrir balar,
lækurinn hjalar,
stansað við Stakkholtsgjá.

 

25.06.15

Höfum rambað um mel og í rásum
á rútubíl stynjandi hásum.
Þá er ómaksins vert
og engastund gert
að drífa upp búðir í Básum.

 

Af krafti sem kann enga vægð
er klettaborg jökulvatnsfægð,
gljúfrum öll sorfin
og Gígjökull horfinn
en lifir þó fornri á frægð.

 

Að ofan eins og rök ull
Eyjafjallajökull.
Sá nafnkunni, fríði
er náttúruprýði.
Dýrðarinnar djö…gull !!!

 

Gamlir menn eiga ekki að liggja á dýnuræksni í tjaldi:

Þegar heilan hvíldardag
hefur, þá er alveg rakið
ef að verður illt á mag-
anum, velta sér á bakið.

 

26.06.15

Núna borga eg mitt ævigjald,
við útilegur gerist harla stirður,
of gamall til að troðast inn í tjald,
með tak og ónýt hné, og lítils virður.

 

Vinir, þennan sjáið sviðna haus!
svartan, fúlan, þó á hálsi lafi!
Grettir sterki var við lánið laus,
látum eins og þessi betra hafi.

 

27.06.15

Stoppað í Hellisheiðarvrkjun:

Úr iðrum jarðar fundið féð
fer um merktan krana
en Orkuveitan meiru með
mjólkar túristana.

 

28.06.15

Ferðamannastraumur bara vex og vex,
vonglatt fólk um landið þarf að keyra.
Bandarískir gestir borða hér á KEX
borgara og ket, og eflaust fleira.

 

05.07.15

Veröld hyggur vel að oss,
vini trygga hefur.
Birkið þiggur blautan koss,
blærinn dyggur gefur.

 

Foldarskrúðið fer á ið,
fagna lúðir steinar.
Léttur úði leikur við
laufi prúðar greinar.

 

06.07.15

Hringferð með hóp ferðamanna frá Hollandi hefst í dag:

Að utan margir, var við verð,
velja gamla frónið.
Með Hollendinga fer í ferð,
fyrst í Bláa lónið.

 

Laugarvatn í Laugardal
lífs- minn kveikti -þróttinn.
Í þeim fagra fjallasal
er fyrsta gistinóttin.

 

07.07.15

Frá Laugarvatni lagt af stað,
lýsir sólin bjart inn.
Gullna hringinn á ég að
aka fyrripartinn.

 

Það er alveg undravert,
að ekki sit á hrossi!
Geri eg það opinbert:
ók að Hjálparfossi.

 

Með Fróni við stöndum og föllum,
fögnum þess kostum og göllum:
Loftfærslan hröð
við Hrauneyjastöð
en alltaf er fagurt á fjöllum.

 

Gott að fá ég ekki á!
Engin whiskíflaska
og leitt að sjá, mér liggur hjá
lúin ferðataska!

 

08.07.15

Eftir góðan morgunmat
margt er vert að skoða.
Á ferðum þó skal forðast pat
og að fara sér að voða.

 

Brautin er þvottabretti
svo bílinn í fyrsta gír setti.
Í Landmannalaugum
er lið samt í haugum
og smælið á hverju smetti.

 

Á fimmta tíma merkja má
að mesta gleðin þverri.
Heppinn var að hitta þá
heillakarlinn Sverri! (… Geir Ingibjartsson)

 

Með háði útúr hefðum sný
og helgimyndaklastri.
Hekla þarna hangir í
heldur ljótu mastri.

 

Er nú kominn upp í rúm,
enn þó laus við tremma,
og mér finnst það alveg too m
uch hve ræst er snemma!

 

09.07.15

Hrauneyjar – Landeyjahöfn.
Fyrir hrynjandi ágætis nöfn.
Nú verð ég að þreyja.
Til Vestmannaeyja
klýfur dallurinn dröfn.

 

Sveittur nú sit ég á dollunni,
sjálfsagt að skila út rollunni
sem át af í gær
úrbeinað lær.
Næsta mál: Móka í mollunni.

 

Efalaust oft hafið keyrt
áleiðis framhjá og heyrt
þessar hlálegu sögur
um að Hlíðin sé fögur.
Já, sölumenn engu fá eirt.

 

Um Gunnar er togað og teygt,
t.d. heyrist því fleygt
að tauma- í -skaki
hann skylli af baki
– og aumingja bóndinn sá bleikt!

 

Nú ég yrki bragarbót,
bara fyrir Magnús.
Fljótshlíðin er ekkert ljót,
akrar bleikir túns við fót
og margur þar söng- og sagnfús.

 

Við Skógafoss nú enn ég er.
Ansi fer það hratt nið-
ur. Illt að maður aldrei sér
aftur sama vatnið.

 

10.07.15

Hve fagurt í þurrki og þey!
Er því nú að heilsa? Ó nei.
Í hávaðaroki
mér er hætta á foki
ofan af Dyrhólaey.

 

11.07.15

Stundum getur vindur vægt,
nú varla hreyfast flöggin
og friðsæl um sig hefur hægt
höfug morgundöggin.

 

Á ferðalaginu þarf að fylgjast með helstu fréttum: Bjarni og Hera urðu í dag Íslandsmeistarar í 100 m. skeiði þriðja árið í röð:

Eftir þetta Íslandsmót
opin- mætti -bera
áskrift, því svo öskufljót
eru Bjarni og Hera.

 

Aftur að ferðalaginu:

Ferðamannafjöldi vex,
framtíð þannig metum:
Tölur sannar, sinnum x,
það sem við annað getum.

 

Ef stuðlar ei v með v-i
í vandræðum lendir og straffi.
En burtséð frá því
mun ég borða á ný
silung á Systrakaffi.

 

12.07.15

Á Íslandi vítt er til veggja
og vandalaust farið bil beggja.
En á ákveðnum stöðum
þarf að standa í röðum
og bílnum ólöglega leggja.

 

Ísland, það er ofursvalt,
með asfalti, hrauni, melum.
Gestir vorir á það allt
ota myndavélum.

 

Þar híma allar rúturnar í röðum
með rassinn uppí haugablautan vindinn.
Þær vildu gjarnan ver’ á öðrum stöðum,
verkjar sárt í dekk og stíf er grindin.
Svo situr bílstjórinn og flettir blöðum,
bölvaður, og þykist vera fyndinn!

 

Afmælisdagur dótturdóttur:

Hefur tóna hreina,
hjarta úr gulli skartar.
Gefur ömmu og afa
undur góðar stundir.
Stálpast hefur stelpan,
sterk í hverju verki.
Orðin sextán ára,
asi er þetta, Jasmín!

 

13.07.15

Góðan daginn, göngum að
grænni meri, reistri.
Í bleytu leggjum brátt af stað
til Borgarfjarðar eystri.

 

Í ferðabæklingsauglýsingum
er eins og sérhver fjörður logi
en veruleik ei læðumst kringum
í leiðu veðri’ á Djúpavogi!

 

Víða fegurð ljóðræn lifir,
landið faðminn býður.
Nú fara viljum Öxi yfir,
undir leggjast síður.

 

Fossar margir fagrir hér
freyða um klappir harðar.
Ágætlega af Öxi sér
ofan til Berufjarðar.

 

Víða á mínum ferðum fer,
og á fjasbók vísum læði.
En það sem aðeins óska mér
er íslenskt sjoppufæði.

 

Tileinkað Eygló Eiðsdóttur, í sudda og þoku á Borgarfirði eystri:

Heimamönnum legg nú lið,
lands að auka virði.
Sjáið bara útsýnið
austur á Borgarfirði!

 

Enn frá Borgarfirði:

Er mig að dreyma eitthvert rugl,
í andagt við Kjarvals hné?
Í litadýrðinni liggur fugl
og lætur sem ekkert sé!

 

14.07.15

Við Jökulsá á Fjöllum. Dettifoss og Selfoss skoðaðir:

Dettinn ertu Dettifoss,
dettur um máða steina.
Það er margt sem þjakar oss,
þú veist hvað èg meina.

 

Skapari góður! Ei skelf oss!
Sko! Þarna settirðu fagn inn!
Sjáiði, þetta er Selfoss!
En shit! Hvar er Pylsuvagninn?

 

Komið í Sænautasel. Sauðféð bítur þekjuna:

Margt skrýtið til skoðunar vel,
mig skúbba samt þessu ég tel.
Að Hrúturinn Hreinn
fari hringveginn einn
og hvílist við Sænautasel!

 

Þó að virðist spaug og spé
má spyrja, í því skyni
að vita hvort þessi sauður sé
af séraguðmundarkyni?

 

Að annars ráðum aldrei fer,
ein skal heldur dúsa
til efsta dags, og þæfast þver
á þekju Sumarhúsa.

 

Andar dagsins önn á ný
frá öðru tímaskeiði.
Saga landsins lifir í
litlum bæ í heiði.

 

15.07.15

Farið um Mývatnssveit og til Húsavíkur í dag:

Gjóskuauðn og gullið traf,
gleði, sorgir.
Drottinn tók, og drottin gaf
Dimmuborgir.

 

Á Hverfjalli þurfa menn ekki að kvíða
þeim kæfandi gróðri sem dreifir sér víða
og geta því skefjalaust skrefað upp sandinn,
og skeiðað svo niður, það minnstur er vandinn.
Ó, hó, laus er nú fjandinn!

 

Ferðamenn höfðu tjaldað á hrauninu við Grjótagjá:

Innsýn veitir gjáin grjóts
í glettur fyrri alda.
Á barmi þessa brunafljóts
er býsna gott að tjalda.

 

Túrað í kulda og trekki
en tanað í sólskini ekki.
Ferðin því varð hröð
í funandi jarðböð.
Þannig ég landið mitt þekki.

 

Umhyggjan engu lík,
í anda og hjarta rík.
Sit ég og tsjilla
hjá Systu og Villa
í heimsókn á Húsavík.

 

16.07.15

Ekið á einum degi frá Mývatni að Ósum á Vatnsnesi:

Áfram veginn kátur keyri,
í kvöld er stefnt til Ósa.
Nenni’ ei að kveða’ um Akureyri,
óver- fer að -dósa.

 

Glæðum lífi gamlan tíma
í Glaumbæ, Skagafirði.
Kveðum enn. Sú kúnst að ríma
er kannski einhvers virði?

 

Glímdi við malbik og möl í dag,
frá Mývatni vestur að Ósum,
og reyni nú saman að berja brag
en býst ekki við neinum rósum.

 

Útsýnið frá Ósum: Hliðið á girðingunni í forgrunni vakti athygli:

Augum renni
yfir sviðið.
Fyrst þá kenni
að flott er hliðið.

 

17.07.15

Gist í gömlu timburhúsi á Ósum:

Um gólfborð núna gengið er,
gnestur í hverju tré.
Á því, vil ég óska mér,
að aldrei verði hlé.

 

Eflaust gæti einhver hér
oní gryfju fallið.
Myndir tvær en á þeim er
eitt og sama fjallið.

 

18.07.15

Daglega ég deili hér
dýrum vísum, smellnum.
Eitthvað nú mér aftur fer,
orðlaus verð á Hellnum.

 

Hún Margrét varð 13 ára í gær:

Í foreldranna ættarmót
allt það besta sóttir.
Mikil fyrirmyndarsnót,
Margrét Stefánsdóttir.

 

19.07.15

Kominn heim eftir hálfs mánaðar ferðalag:

Héðan ég í friði fer
því frúin nú upp sló
humarveislu handa mér
og hafði meir en nóg.

 

Þú ert óstöðvandi, hvað er í morgunmatnum hjá þér, spurði Anna Lína frænka mín:

Alltaf sami morgunmatur,
málið snýst um annað:
Vakna seint og vera latur,
vísur þá get hannað.

 

22.07.15

Ók Önnu Maríiu og systrum hennar tveimur að Króki í Grafningi:

Um tíuleytið lagt af stað
í Laugaskarð, frá Króki.
Systur þetta ætla að
ana, í flugnamóki!

 

25.07.15

Fórum í dag vestur í Borgarns að heimsækja Gunnar Sigurjónsson skólabróður minn og Guðrúnu Hilmisdóttur konu hans, kæra vini okkar:

Gamlirauður reyndar er
af ryði nokkuð lúinn
en um landið okkur ber
-aftur og nýbúinn!

 

Og svo var áð í Borgarnesi:

Lífið ei lukkuna sparði
er laugardeginum varði
með Guðrúnu’ og Gunna.
Glampandi sunna
og skjól í Skallagrímsgarði.

 

18.08.15

Glæsikosta tekinn til
á tölti, skeiði, brokki.
Geði Bjarna gefur yl
gæðingurinn Hnokki.

 

29.08.15

Laugardagur. Úti er
eitthvað hægt að bauka.
Glóir sól og gefur mér
góðan sumarauka.

 

19.09.15

Nú er úti veður vott,
varla stætt í hviðum,
sem mér þykir þvílíkt gott,
það er allt sem bið um.

 

27.09.15

Þó veður núna víst sé þurrt
sér vindur Kári í skjólin.
Piltur sá með pí og kurt
prófar vetrartólin.

 

03.10.15

Alltaf finnst mér yndislegt
einn að bíða’ í flugstöð.
Betra aðeins áður þekkt
aftastur í slugsröð.

 

25.10.15

Laufin falla gul af grein,
glóey varla hjarir.
Vetur kallar, kyssa stein
kaldar mjallarvarir.

 

28.10.15

Ef vetrarmyrkur, rok og regn
reynir styrkinn á,
vísu yrkið grýlu gegn,
gleði virkið þá.

 

08.11.15

Tíminn strýkur um strengi,
styrkum höndum – og lengi
órar mann síst
það eitt sem er víst:
Valt er veraldar gengi.

 

09.11.15

Heillaráð andskotans:

Ef að hrjáir manninn kynleg kvöl og pína,
kannsk’ ‘ann bara þurfi’ á hjálp að halda,
þá er best að einkavæða ömmu sína,
annars hún mun markaðstjóni valda.

 

10.11.15

Sá ég heiðan sumardag á fjöllum,
sælureit, og gnægtir handa öllum.
Það er gott í þankaórum dreyma
þegar maður liggur veikur heima.

 

Svolítil vísnagáta í kjölfar blaðalesturs:

,,Lífið gaf mér Luca og Cal“,
lítill svanaungi kvakar.
,,Í englasveit ég una skal,
og ekki ríkidæmi sakar“.

 

17.11.15

Eitthvað er nú skrýtið að ske,
í skyndi held mig leggi!
Pönnukökur og plokkfisk sé
prýða Hvíta veggi!

 

19.11.15

Hekla er alveg hulin mjöll,
hásætið skipar með sóma
í roða úr austri, og Eyjafjöll
aldeilis fögur ljóma.

 

26.11.15

Þorbjörg systir mín er sextug í dag:

Var skammaður, kjassaður, kysstur,
já, kærleikur innstur og ystur.
Þett‘ er öryggisnetið
og aldrei fullmetið
að eiga svo ágæta systur.

 

30.11.15

Fagurt nú til fjalls að líta,
fannaslæðu jörð er klædd.
Frost í kinnar finn ég bíta,
funa heitum sálin glædd.

 

Smá pólitík inn á milli:

Vigdís bæði vinsæl, góð og skýr
og veit sko alveg hvað hún syngur.
Páll á móti virðist vansæll fýr
og voðalegur þurfalingur.

 

Aftur að veðri og nátúru:

Mjúk nú fellur mjöllin,
myndar birtusindur.
Himinn sortnar, heimi
hverfa rósaljósin.
Fagnar lýður logni,
létt er fönn og glettin.
Ef upp með roki rýkur
ratar enginn um vengi.

 

01.12.15

Mikið gekk á í fjölmiðlum í viðvörunum vegna yfirvofandi veðurofsa:

Barma eymingjarnir sér,
undir sængur skríða.
Þetta fræga illviðr’ er
allra mesta blíða.

 

Vetrarríki:

Vetur kreppir kló.
Krafsa hross í mó.
Mér er um og ó.
Allt á kafi’ í snjó.

 

Stjórnmálamaður taldi erlenda sérfræðinga sem bentu á ískyggilegar horfur í efnahagsmálum Íslendinga þurfa á endurmenntun að halda:

Komin hringinn, hér um bil,
heimsbyggð núna aftur kennt mun
sérfræðinga að siða til
og senda þá í endurmenntun.

 

Þessi í Erfðagreiningu situr ekki alltaf á friðarstóli:

Til eilífðar skemmtir með skvaldri
skrattanum. Ritar með galdri
svartagallsletur:
„Setjið á vetur
karl á áttræðisaldri“.

 

07.12.15

Enn er varað við stórviðrum og fólk beðið að halda sig innan dyra. Síðan hreyfir varla vind:

Eg hef fengið upp í kok
af öllu þessu floppi.
Hvar er þetta rosa rok?
Rétt að kasti toppi!

 

Gegnum mókið greini klið,
glym af máli hröðu.
Daglangt hermir útvarpið:
,,allir í viðbragðsstöðu.“

 

Uppnám þetta alveg skil,
augnabrúna- margir -krepptir,
því víða standa vonir til
að veðurspáin gangi eftir.

 

Er landið siglir hallt á hlið
við hættustig mig flokka
því kökuboxin kúri við.
Konan prjónar sokka.

 

Inni er gott að geta kúrt
er gustar vel á Fróni
en þó bragðið afar súrt
af öllu þessu tjóni.

 

23.12.15

UNICEF á Íslandi var með auglýsingaherferð í sjónvarpi um sín góðu málefni, því miður í „bundnu“ máli. „Vísurnar eru svo hræðilegar að þær eru eiginlega fyndnar, lesnar með svona yfirmáta hátíðlegum brag“, skrifaði Fjasbókarvinur:

Íslensk ljóð, hin æðstu stef
áttu, hvert sem ferð.
En hleypið aldrei unicef
aftur í vísnagerð.

 

29.12.15

Virðist mér veröldin dormi
vær, bæði’ í efni og formi.
Kann líka ske
kyrrðin að sé
stilla á undan stormi?

 

Járnaði tvö og settist í hnakkinn.

Hrossin veita hjarta yl,
hitta veika blettinn.
Hlakka alltaf tölvert til
að taka skeifnasprettinn.

 

Aftökuríma

Meðfylgjandi smáríma er ort í kjölfar reiðtúrs, sem lauk í gær, um söguslóðir síðustu aftakanna á Íslandi árið 1830, þegar Agnes og Friðrik voru hálshöggvin að Þrístöpum. Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í / á Þingi stendur fyrir ferðum þessum og segir þátttakendum söguna af þessum blóðuga atburði, tildrögum hans og ýmsar skemmti og fróðleikssögur úr héraði.

 

1. ríma – Ferskeytt

Um mér velti annan hring,

eitthvað lúrinn stytti.

Sagnavísan Vatnsdæling

veit á morgun hitti.

 

Klárar fara á kerru létt,

kátur snýst í hringi.

Akstursstefnan svo er sett

að Sveinsstöðum í Þingi.

 

Hitta skal þar mætan mann,

Magnús jarlinn heitir,

með rjóma landsins ræðst í hann

að ríða þar um sveitir.

 

Karlinn fer um götur greitt,

grundin syngur fögur.

Þess á milli út í eitt

ylja góðar sögur.

 

Kallar sagan okkur á

út úr kennileitum.

Natan, Agnes, Friðrik fá

flæði hug- af skeytum.

 

Þingeyra- með sálmasöng

sekur kvaddi hlaðið.

Steig af klárnum, kraup í þröng

og kyssti öxarblaðið.

 

Frá Þrístöpum um Forir flaug

fjörlegt hrossastóðið.

Við reksturinn þarf trausta taug

er tekur hitna blóðið.

 

Áð um stund að Stóru-Borg,

stefnt hjá Borgarvirki.

Alla í Breiðabólstað sorg

burtu kátur yrki.

 

2. ríma – Braghent

 

Frá Bólstað riðnar blautar mýrar brattra hlíða.

Við Þverárrétt við látum líða

úr limum, ef að strengir svíða.

 

Um Þverármúla, þræddum Breið, í þykkni grófu,

þokuhuliðshendur ófu

Heiðargötur, Kattarrófu.

 

Kuldalegt á knapa norður Katadalinn.

Norður-Íshafs næddi svalinn,

nestis- orðið djúpt í malinn.

 

Yfir ríðum ána þarna ótal sinnum.

Fær hún nóg af nánum kynnum

nasa, er við hestum brynnum.

 

Götur batna, greiðist leið og geðið lyftist,

þó þokan ekki sundur sviptist

að sönnu til hins betra skiptist.

 

Undir Hjöllum Illuga- er áð á stöðum.

Þykir blessun þar á hlöðum

þreyttum knöpum, undur glöðum.

 

Bæinn hérna brenndi Friðrik, banar Natan.

Á höggstokkinn þá greiddist gatan,

gæfusmiðsins tæmdist fatan.

 

3. ríma – Dverghent

 

Knapar hross sín til nú taka,

tylla gjörð.

Leggja´upp, sömu leið til baka,

léttræk hjörð.

 

Mikið óhapp hendir hesta

heim við Tjörn

en hvergi gæfuböndin bresta

í bjargartörn.

 

Eftir þetta brá til betra,

birti til.

Útsýn höfðum hundruð metra,

hér um bil.

 

Katadalur, Kattarrófa

komu’ í ljós.

Fegurð, sem mér lá í lófa,

lofi jós.

 

Af Vatnsnesfjalli blómleg búin

við blöstu, niðri.

Þá við stefndum, með þjóhnapp núinn,

að Þverá syðri.

 

Um kvöld, að loknum kattarþvotti,

kyrrt og hljótt

heilsubjór í heitum potti

hverfur fljótt.

 

4. ríma – Draghent

 

Á fætur allt á fjórða degi

fjörugt liðið sprettur.

Eftirvænting, satt ég segi,

sýna augnaglettur.

 

Að járna hófa, herða ólar,

hesta reka saman

og ríða burt, við sælu sólar,

er svakalega gaman.

 

Magnús léttur sannar sögur

segir, allar góðar.

Inn á milli yrkir bögur,

á okkur hina ljóðar.

 

Vendum nú í Vesturhópið,

á vatnið þar skal stefna.

Í taumi hrossin, töfradópið,

tölt og skeið vil nefna.

 

Í Bjargavík, að baki skriðu,

er beitt og taumar leystir.

en lausir ekki lengi biðu,

lögðu‘ á flótta, reistir.

 

Er þetta vesen var að baki

að Vatnsenda skal riðið.

Þar enginn reykur rauk úr þaki

en Rósa stóð við hliðið.

 

Núna stutt í Vaðhvamm virtist,

og von um gleðistundir

er hófaljónum Hópið birtist

hafið syngur undir.

 

Að Þingeyrum á þeysispretti

þjótum fjöruborðið.

Á flugatöltið Funa setti

já, flug er rétta orðið.

 

Áhrif slíkrar yndsireiðar

ekkert trúði‘ ég bætti!

En gifting hjóna, ástareiðar,

ansi marga grætti.

 

Að Sveinsstöðum er ljúfur leggur,

Lér á drjúgu tölti.

Uppnuminn var orðinn seggur

af öllu þessu brölti.

 

5. ríma – Breiðhent

 

Sólin morgun logar langan,

leikur blær um greinar trjánna.

Sperrtur upp, finn spariangan

spretta upp á milli tánna.

 

Vatnsdal nú er vit að ríða

vart mun svona aftur bjóðast.

Eftir mörgu er að bíða,

allir loks af stað þó skjóðast.

 

Mikil kúnst að ríða rörið

það ræðir Magnús vel og lengi.

Guðný ber nú brúðarslörið,

brosið Jökuls lýsir vengi.

 

Fínt að berja Vatnsdalsveginn,

vöruflutning lengi tefja.

Í Flögu vel er fylling þegin,

fínt er nestið Hvamms, án refja.

 

Við Kornsá ekki gáfust griðin,

geystumst Undirfells í réttir,

Vatnsdalsá á vaði riðin,

vætu stóðið á mann skvettir.

 

Næst er komið heim að Hvammi,

Haukur vel á móti tekur.

Fyrir augum fagur rammi,

foldarskartið andann vekur.

 

Í hlöðu ljúft er lagið tekið,

til lofts er hátt, svo tónar óma,

kaffi þegið, úr rétt svo rekið,

riðið heim í sólarljóma.

 

Í hestaferðum kaldir kyndast

katlar, sálarspennu losa.

Margir vildarvinum bindast,

vekja‘ upp minningar- og brosa.

 

Íslands síðstu aftökunum

ætíð þjóð er skylt að minnast

Magnúsar í mælskubunum,

margir þessum sögum kynnast.

 

 

Úr dagbókinni 2014

Árið er 2014. Safnið telur 113 vísur

25.02.14

Bjarni Ben. var í viðtali í Kastljósi í gær beðinn um að svara fyrir einhver kosningaloforð:

Æru varið ekki gat,
aulasvaraglundur.
Eins og þvara eftir sat,
eða barinn hundur.

 

12.04.14

Ort um mynd af Þorbjörgu systur minni haldandi á ömmustelpunni Kolbrúnu Ylvu:

Við kærleiksatlot Ylva býr
sem æ í minni geymir.
Ömmu faðmur er svo hlýr
að undur vel þar dreymir.

 

15.04.14

Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:

Breiðhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinum trjánna.

Logar sól um land að nýju,

leikur glatt í straumi ánna.

 

Langhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinunum.

Í morgunsárið, eftir níu,

augun þorn’ á steinunum.

 

Draghenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinum.

Andinn verður ör að nýju

öllum gleymir meinum.

 

Skammhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á grein,

hverja sólar gleypir glýju,

gleðin ríkir ein.

 

Úrkast:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brumin.

Frjóin vori fagna nýju

frá sér numin.

 

Dverghenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum.

Dagsins sjá þau dýrð að nýju

en deyja sum.

 

16.04.14

Sigurður dýralæknir sendi Árgalafélögum líka, fyrirfram, efni í Hörpuvísur, fyrriparta undir nokkrum mismunandi rímnaháttum. Þegar ég var að hnoða saman botnunum var „vorhret á glugga“ sem hafði augljós áhrif á innihald þeirra:

Ferskeytt

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól á lofti

en vetur ennþá virðist með

vorið upp’ í hvofti!

 

Stefjahrun

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin för.

Lítið hef þó hana séð,

á hitann virðist spör.

 

Gagaraljóð

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin ganginn sinn.

Ef gengi úti faldprútt féð,

fljótt það myndi setja inn.

 

Nýhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin göngu sína.

Glæstar vonir geng ég með:

Góða besta, farð’ að skína!“

 

Stafhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin blíðu með

en Vetur kóngur fer ei fet,

færir okkur páskahret.

 

Samhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól frá vetrarbeð.

Nú er aumt og nakið tréð,

í náttúrunni lítið peð.

 

Stikluvik

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin göngu,

en þó verður varla séð

að vorið komi henni með.

 

Valstýft

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól.

Út að ganga! Allir með!

Upp á hól“.

 

23.04.14

Ort síðasta vetrardag:

Hittir beint í hjartastað

að heyra’ í regni niðinn

og vera nokkuð viss um að

veturinn er liðinn.

 

Eygló spreðar undir nótt

átta, níu gráðum!

Á mæli sé að hægt og hljótt

hefjist sumar bráðum.

 

28.04.14

Húsfreyjan á Grímsstöðum fangaði athygli mína í þætti Láru Ómarsdóttur, með orðum sínum og sýn:

Herðubreið fær hundrað stig,
hjartað nærir lengi.
„Fjöllin hafa fangað mig“,
fegurst heit þeim strengi.

 

30.04.14

Borðtölvan komin í gang aftur, eftir að hafa verið í viðgerð:

Fram á varir færist bros,
fingur strjúka höku.
Sit ég móti Machintosh
og meitla eina stöku.

 

02.05.14

Íhaldið í Árborg sendi út kosningaáróðursbækling sinn með Sunnlenska fréttablaðinu í gervi upplýsingarits fyrir sveitarfélagið, allt á kostnað skattgreiðenda:

Íhald kemst á æðra stig,

útsvar nýtt af viti,

og skemmtilegt að skeina sig

á skatta greiddu riti.

 

11.05.14

Mæðradagurinn er í dag og ég skrifaði eftirfarandi stöku í dagbókina hennar mömmu minnar:

Illt að rata æviveg,

æsku- kveðja bæinn.

Þína leiðsögn þakka ég

þér, á mæðradaginn.

 

13.05.14

Hera frá Þóroddsstöðum og Bjarni Bjarnason urðu Reykjavíkurmeistarar í 250 metra skeiði um daginn, á tímanum 22,3 sek. Setti mynd af þeim úr sprettinum inn á Fjasbók, og þessa vísu neðan við:

Kjarvalsdóttir hvellvökur

kom úr legi Gunnar.

Þarf ei fingra- né fótskökur,

framættirnar kunnar.

 

18.05.14

Getur allt ef ætlar sér,

áfram veg ‘ann ber hugur.

Tíminn flýgur, orðinn er

Árni Hrannar fer-tugur.

 

25.05.14

Átti góðan afmælisdag í gær. Flest fólkið mitt kom í heimsókn og góðum kveðjum rigndi á Fjasbók:

Ánægður með allt ég var,

afmælis naut heimsóknar.

Á þessum miðli þeygi spar

að þakka allar kveðjurnar.

 

7.06.14

Ort í reiðtúr á efnisfolanum Hrímni:

Uppi heldur sjálfum sér,

syngur undir vegur.

Grái folinn ungi er

ekki dónalegur.

 

Og í næsta reiðtúr var Spurning tekin til kostanna:

Spurning hefur folöld fætt,

Fjöður, Ör og Tý.

Í annað hlutverk er nú mætt,

undir hnakk á ný.

 

8.06.14

Útigönguhrossin komin á járn og í reiðtúr um „Votmúlahringinn“ með þrjú til reiðar varð til þessi vísa:

Hryssa ljós og hestar tveir

að hátíð daginn gera.

Frá vinstri: Ljósbrá, Þokki, Þeyr,

með þeim er gott að vera.

 

10.06.14

Útreiðar og tamningar ganga vel í sumarblíðunni:

Léttur vilji sýnir sig,

Silfri eykur þorið.

Gleður sífellt meira mig,

mýkir alltaf sporið.

 

Ei hæfileika, leikni, fjör

lækinn yfir sóttir!

Gullin perla er hún Ör

enda Þóroddsdóttir.

 

Hátíð litlu líst mér á,

leynist þarna framinn?

Um það má víst ýmsu spá,

enda lítið tamin.

 

11.06.14

Ellefu hross hreyfð í dag, þeim riðið eða þau teymd. Allt að gerast í tamningunum svo tamningamaðurinn og eigandinn er alsæll:

Heldur vel á hrossum gekk

að hreinsa sálarlindir.

Gullna vængi gleðin fékk

svo ég gleymdi að taka myndir!

 

21.06.14

Ása Nanna Mikkelsen, áfangastjóri FSu og samstarfsmaður síðustu tvo áratugi, gekk út af vinnustað sínum í síðasta sinn í gær að lokinnni farsælli starfsævi:

Töluvert skrýtin tilfinning

að töltir útúr húsi.

Vont að missa, þig vefji um kring

veröldin og knúsi.

 

22.06.14

Kolbrún Ylva, systurdótturdóttir mín, varð eins árs þann 3. júní sl. en Þóra Þöll mamma hennar hélt upp á afmælið í dag. Sendi þessa kveðju í korti:

Ævinnar fyrsta stóra stund

fyrir stúlkuna undur fína.

Gott er að eiga gleðifund,

gott er að elska sína.

 

28.06.14

Arngrímur Árnason var fermdur heima hjá sér í Bergen í Noregi í vor, ári seinna en jafnaldrarnir á Íslandi, en hélt veislu fyrir ættingja og vini á Íslandi í dag:

Framtíðin er full af von,

færin opin bíða.

Gæfan Arngrím Árnason

ávallt megi prýða.

 

17.07.14

Þessi þarfnast ekki frekari skýringar:

Mér er gefin síðust sort,

sálu efi nagar,

því lengi hefi engin ort

ylhýr stefin bragar.

 

18.07.14

Það þótti tíðindum sæta, eftir að rignt hafði linnulaust í a.m.k. tvo mánuði, að veðurfréttamaðurinn í sjónvarpinu sagði að „breytinga væri að vænta á föstudaginn og þá færi að rigna“. Upp rann föstudagur:

Úrvalstíðin er í dag

enda föstudagur.

Hitti á naglann veðurspá,

loksins fór að rigna!

 

19.07.14

Enn af veðrinu, sem á hug landsmanna allan:

Lemur túðu lárétt regn,

lægð á súðum veður.

Sumar flúði sorta fregn

sólarskrúðið meður.

 

En ekki þýðir að æðrast eða væla yfir veðrinu hér á landi:

Forðast myrkan forarpytt,

fráleitt yrki trega.

Konjaksstyrki kaffið mitt

svo kólni virkilega.

 

Og svo er að taka upp hugarfar Hannesar í „Stormi“ og fleiri kvæðum:

Ælu rekur upp í kok

eilíft dekur sólar.

Gleði vekur regn og rok,

raunir tekur, skólar.

 

20.07.14

Eftir dásamlega sprettutíð undanfarið lagðist hann í langvarandi þurrk í allan morgun:

Gróðurtíð um grund og skóg.
Grasið víða bælnar.
Af logni og blíðu líst mér nóg,
landið fríða skrælnar.

 

10.09.14

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt og Ármann Þorgrímsson orti um að herrarnir hugsuðu bara um að „elda eigin steikur“. Ég lýsti því sem í boði væri fyrir almenning úr því eldhúsi:

Aumt er þeirra eldhúsmakk,

allt er fæðið svikið,

eðalsteikin“ úldið hakk,

óæt fyrir vikið.

 

Í blöðunum var vitnað í fjárlagafrumvarpið, þar sem útgjöld til háskólanna voru sögð samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar:

Háleita markmiðið hækkar

ef háskólanemunum fækkar.

Best að múgurinn gorti

af menntunarskorti,

þá stuðningshópurinn stækkar.

 

12.09.14

Haustið lætur á sér kræla með hefðbundnum hætti:

Kunnugt er nú komið haust,

kuldableytudrulla

og aftur byrjað, endalaust,

alþingi að bulla.

 

Elfa bróðurdóttir mín er alveg yndisleg. Hún benti fólki á að taka upp léttara hjal á Fjasbók og gaman væri líka að tala um það sem vel er heppnað. Ég tek hana á orðinu:

Ég nú verð að játa að

ég er nokkuð góður.

Rökin sem að sanna það

má sjá í dóttur bróður.

 

Núna er eitt barnið í þingliði Sjálfstæðisflokksins að berjast í að koma brennivíni í matvörubúðir:

Þegar bjór og brennivín

í búðum hér mun fást,

kaupstaðarangan óðar dvín

og á mér mun varla sjást.

 

Ekki var blekið þornað á fjármálafrumvarpsdrögunum þegar tilkynnt var um verðlækkun á krúseronum, en eins og menn vita þá er ekki étið mælt í þeim:

Í útrás viljum aftur skeiða,
efla ríkra hag.
Toyota býður Bjarnagreiða
bara strax í dag!

 

13.09.14

Á dv.is mátti í dag lesa eftirfarandi: „Karlmannlegt útlit á borð við sterka kjálka og áberandi kinnbein gætu heillað konur upp úr skónum en slíkir karlar bjóða ekkert endilega upp á besta sæðið.“:

Konur hrausta karlmenn þrá,

um kjálka svera og lungun.

Ef eymingja þær hátta hjá

hætta vex á þungun.

 

16.09.14

Hauststemmning:

Sumartáta sárum trega
siglir bát í naust.
Farfakáta, klæðilega
kjóla mátar haust.

 

Haustin eru hefðbundin. Náttúran skiptir um föt og tjaldar því sem til er og mannlífið allt kemst í fastari skorður – fyrsta kóræfingin er í kvöld:

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

17.09.14

Arion banki greiddi rúmlega hundrað lykilstarfsmönnum bankans um 380 milljónir króna í kaupauka á síðasta ári.“ Þetta kemur fram á visir.is í dag.

Svo lykilstarfsmenn lifi dús

og litið geti sólina

við helmingum okkar hungurlús

og herðum sultarólina.

 

Dagur Sigurðsson er mikið í fjölmiðlum í Þýskalandi þessa dagana enda orðinn landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta.“ (visir.is)

Ég trúi á það er ég geri
án alls hroka.“
Annars víst að burt hann beri
boltapoka.

 

18.09.14

Prestur í Selfosskirkju var kærður fyrir að sýndar voru kynfæramyndir í fermingarfræðslu. Hneykslunarvert hvað dregið er í fermingarfræðslunni inn í kirkjur landsins:

Séra minn! Sjáðu nú hér
syndugan unglingaher
með limi og píkur
við altarisbríkur!
Nánast við nefið á þér!

 

Þegar byrjað er á limrum, þá er stundum eins og skrúfað sé frá krana:

Um hádegi Vigga var vakin
til vinnu, því þurrkur var rakinn
Undir dalanna sól
fór úr sokkum og kjól
að snúa á Nallanum, nakin.

 

Kalla má Sigmundarsið

sannleik að velta á hlið.

Sá ég spóa

suðr í flóa

en það kemur því ekki við.

 

22.09.14

MS hefur verið dæmt til stórfelldra sektargreiðslna vegna viðskiptahátta sinna. Fyrrverandi eigandi fyrirtækisins Mjólku, sem MS kúgaði út af markaði, keypti gjaldþrota og endurgreiddi svo hinar samkeppnishamlandi álögur þegar fyrirtækið var komið í eigu KS, lýsti í Kastljósi samskiptunum og viðskiptasiðferðinu:

Framsóknaríhaldið drottnar til sjávar og sveita.

Samtryggða helmingaskiptingin gerir menn feita.

Frumvörpin LÍÚ og Samsalan semja.

Sjóðirnir þingmenn og ráðherra temja.

Mafía er það og mafía skal það heita.

 

23.09.14

Sagt var frá því á netslóð að Vilhjálmur Bjarnason kvartaði og kveinaði á þingi yfir breytingum á dagskrá ríkisútvarpsins. Er ekkert þarfara að tala um á þingi?

Ræðuslorið á slóðinni

sligar eins og mara.

Villi, þyrmdu þjóðinni:

Þegiðu nú bara!

 

24.09.14

Varastallari útskrifarárgangs ML 1980, Sigurður Tómas Magnússon, bauð til samsætis á heimili sínu. Ýmsir buðust til að koma með veitingar, m.a. Dóri og Tóti sem buðust til að koma með steikt kjötfarsbrauð með kavíar og sultu:

Kjötfarssneið er volg að veði,
í vinning færðu hana,
ef mætir þú í glaum og gleði
með gömlu brandarana.

 

Hraungosið norðan Vatnajökuls er mjög í fréttum, sem von er, enda orðið með allra mestu hraungosum á landi hér. Undirliggjandi er ógnin af gosi undir jöklinum sjálfum:

Myndir ís með ógnarþunga

út í fjöllin sker

en þegar rumskar Bárðarbunga

hún bræðir fljótt af sér.

 

26.09.14

Haustvísur urðu til í dag:

Laufið fellur, sjón að sjá

sumarvelli, götu.

Regnið skellur ofan á

eins og helli’ úr fötu.

 

Yfir hauður hellist myrkur.

Hærra gnauðar vindur.

Litur rauður verður virkur.

Vakir auður tindur.

 

Hin pólitíska umræða lætur ekki að sér hæða þessa dagana, fremur en vant er:

Friðarverðlaun og vöffludeig
vondan að þeim setja geig!
Gæðamjólkur taka teyg
og tylla á MS blómasveig.
Sé Framsókn og flugvallarvini
frægðar sig baða í skini.

 

28.09.14

Það þarf nú engan formála að þessu:

Úti friður, funar sól,

fagurt litaróf.

Í flestum veðrum finn ég skjól

að fara yfir próf.

 

28.09.14

Haldin var herjans bænasamkoma fyrir fullum sal í Hörpu að viðstöddum forseta Íslands á fremsta bekk ásamt biskupi. Beðið var fyrir því nauðsynlegasta; kvótakerfinu, breyttu viðhorfi til fóstureyðinga, ríkisstjórninni og valdsmönnum öllum:

Að valdstjórninni vanga sný,

veitir sá er ræður

en bænir komast ekki í

okkar minnstu bræður.

 

29.09.14

Birti nýja „forsíðumynd“ á Fjasbók, af sjálfum mér ríðandi á Þey, uppvöfðum og glæsilegum. Myndin fékk góðar viðtökur og viðbrögð frá ýmsum og ég reyndi að fanga þau í bundnum máli:

Hesturinn fríður og klipinn í kverk,

kraftmikill, prúður og reistur.

Maðurinn sannkallað meistaraverk,

munnsvipur ljótur og kreistur.

 

Hallmar Sigurðsson sneri út úr þessu og ég svaraði á þessa leið:

Hesturinn fríður og léttur í lund,

langstígur, mjúkur og vakur.

Knapinn á baki er kóngur um stund,

kátur og mígandi slakur.

 

Spurt var hvort ekki væru örugglega báðir Laugvetningar:

Tveir Laugvetningar leika sér,

ljúft er þeirra gaman,

en úr sig fljótt sá skjótti sker,

skallinn súr í framan.

 

30.09.14

Sagt var frá því í fjölmiðlum að Jónína Ben. og Gunnar Krossfari byggju frítt í villu aldraðs milljónera sem kominn er með alzheimer. Hún krefst þess að búa þar áfram og fá tugi milljóna af auðnum því hún hefði verið svo góð við hann og í raun „gengið honum í dóttur stað“:

Gunnar og guð vita engin

góðverk sem toppa það

að Jónína glæsta er gengin

þeim gamla í dóttur stað.

 

02.10.14

Verjandi bankagangstera taldi saksóknara vanhæfan fyrir dómi, því hann hefði „lækað“ einhverja færslu á Fjasbók:

Bankagangster segir svarinn
sannleik, nema hvað!
Á Fjasbók sjálfur saksóknarinn
setur læk á það.

 

04.10.14

Þjóðfélag á heljarþröm?

Heilbrigðiskerfi á heljarþröm,
höktandi beinagrind.
Menntagyðjan er mergsogin,
máttlaus og næstum blind.
Dómsvaldið í dauðateygjum,
dapurleg hryggðarmynd.
Ríkisútvarpið rekið á gaddinn,
eins og riðuveik, horuð kind.
En framkvæmdavaldið fleytir rjómann
í friði, og leysir vind.

 

07.10.14

Birt var mynd af þeim bræðrum Tryggva og Guðna Ágústssonum með forystusauðinn Gorba á milli sín:

Sjáið Brúnastaðabræður,

bregst ei ættarsvipurinn.

Þeirra sönnu súperræður

semur forystugripurinn.

 

Það er nokkuð fagurt út að líta þessa dagana. Rósin skrúðgræn við skrifstofugluggann og birkitrén skarta fagurgul að baki hennar, en hekkið ekki eins litskrúðugt:

Björkin heillar huga minn.

Hekkið -svepp er með ryð-.

Gægist rós um gluggann inn.

Gott er blessað veðrið.

 

08.10.14

Til hamingju herramenn! Skál!

Hitnar senn nautnanna bál!

Eftir engu að bíða!

Dettum nú í’ða’!

(sko, meðferð er allt annað mál).

 

10.10.14

Meira af limrubulli:

Ennþá ég Magnhildi man!

Í mörgu var of eða van

og í megrunarkasti

á trailer, í hasti,

var keyrð út á hvalskurðarplan!

 

12.10.14

Samstúdentar ML ’80 hittust heima hjá varastallara í gærkvöldi. Í dag birtust myndir úr samkvæminu á Netinu. Um myndirnar:

Undra heimsins til það telst

í tímans harða stríði

að fólkið hefur ekkert elst

árin hratt þó líði!

 

Hvað er gott?

Gott er að veita góðu lið,

gott er að tendra neista.

Gott er sínu að gangast við,

gott er vini að treysta.

 

13.10.14

Enn ein limran:

Ekki’ er öll vitleysan eins!

Annað með liðið hans Sveins.

Af leiðindaböggi

það liggur við höggi

flatt, milli sleggju og steins.

 

Einhver tjáði sig um það að myndast ekki nógu vel:

Margur kann að myndast vel,

sem meitluð, grjóthörð tinnan.

Miklu varðar meir, ég tel,

manneskjan að innan.

 

15.10.14

Sjálfstæðismenn eru farnir að tala af auknum þunga enn á ný um einkavæðingu og ofkostnað við allt sem heitir „eftirlit“ í þjóðfélaginu:

Upptrekkti ránfuglinn ræstur,

rómurinn holur og æstur:

Algeran skilnað

við eftirlitsiðnað

því hver er sjálfum sér næstur“.

 

16.10.14

Evrópumeistaramót í hópfimleikum var haldið í Laugardalshöll. Bein lýsing var í sjónvarpinu:

Fimleikadrottningar dansa,

dýfa sér, hoppa og glansa.

Útsending fín,

Einar og Hlín,

en ég sárlega saknaði Hansa.

 

19.10.14

Í heimsókn hjá mömmu fór ég að hugleiða tímann:

Tíminn skrefum tiplar smám,

töf og hvíld hann neitar.

Fólk af honum dregur dám

er drauma sinna leitar.

 

23.10.14

Hestamenn deila hart um staðsetningu landsmóta, og þing LH leysist upp þegar formaður og stjórn segja af sér í kjölfar samþykktar tillögu sem gengur þvert gegn fyrirætlunum stjórnarinnar:

LH er gallalaus gripur,

ganglagin hryssa og pipur.

Á mótum nýr blær!

Hún bítur og slær!

Syndin er lævís og lipur.

 

Lögreglan tekur við hríðskotabyssum frá norska hernum, Alþingi veit ekkert af málinu fyrr en blöðin birta frétt. Deilt er um tilgang og afleiðingar vopnvæðingar löggunnar:

Gaddavír er til að girða.

Orð eru nýt til að yrða.

Markmið og gagn?

Hlutverk og magn?

Með vopnum skal menn myrða.

 

24.10.14

Umræðan í íslensku samfélagi er fljót að sveiflast til. Það sem einn daginn er svo mikilsvert að nánast allir hafa skoðun, tjá hana og er mikið niðri fyrir, er gleymt og grafið á morgun, enda annað hitamál komið til:

Fjármálaráðherra á skrifstofu sinni:

Matarskatti mætti gleyma,

múgur annað hneyksli þarf“.

 

PR-GROUP ríkisstjórnarinnar, eftir stutta umhugsun:

Að byssukaupum tal skal teyma,

þá tekst að draga skatt í hvarf“.

 

25.10.14

Á spíritísku laugardagskvöldi:

Eitthvað er óþekkt á sveimi,

undarlegt handanað streymi?

En ýlfrið nú þekki!

Kemur þar ekki

glaðasti hundur í heimi!

 

30.10.14

Það er nóg að gera hjá spunameisturum, a.m.k. tveir í hverju ráðuneyti og veitir ekki af. Ekki minnkar þó bullið. Í fornum sögum er að finna annað nafn á stéttina:

Hálfan sannleik segir oss,

sérhagsmunavörður.

Spinnur, vendir kvæði í kross,

kallast Lyga-Mörður.

 

05.11.14.

Fyrirsögn á RUV.IS, undir gleiðbrosandi Seðlabankastjóranum: „Allir dauðöfunda okkur“:

Að vopni verður allt enn.

Veröldin lýtur þér senn.

Með titrandi tár

þig tilbiðja, Már,

Íslands öfundarmenn.

 

Svokölluð friðþæingarkenning er grundvöllur hins lútherska trúnaðar:

Brunar með glaumi og gleði
til glötunar fullhlaðinn sleði.
En lífið varð skák
með lundgóðan strák
er faðir hans fórnaði peði.

 

13.11.14

Forsætisráðherrann er loks með hýrri há, en ekki jafn grautfúll og leiðinlegur og hann jafnan er:

Lánabólgan leiðrétt er,
lýð ég forða tapi.
Langar mig í Land-Rover,
léttur er í skapi.“

 

17.11.14

Eftirminnileg viðtöl í Kastljósi kvöldsins við systurnar Snædísi og Áslaugu Hjartardætur um aðstæður þeirra og mikilvægi túlkasjóðs, sem er tómur, og túlkaþjónustu fyrir fatlað fólk:

Virðist hægt allt í heimi að gera,

fyrir heilbrigðan Jón – ef er séra!

Þegar fæst ekki túlkur

þar tjá sig um stúlkur:

Engin hornkerling vil ég vera“.

 

29.11.14

Eftir setu á meiraprófsnámskeiði helgarnar langar:

Við langar setur, lon og don,

lokast um huga vegur.

Þá bjargar Árni Ingólfsson,

einkar skemmtilegur.

 

30.11.14

Spáð er „brjáluðu veðri“. Síðdegis er orðið bálhvasst:

Kári nokkuð argur er,

eins og flokkur villtur.

Hrindir okkur, mæðir mér,

mikill þokkapiltur.

 

1.12.14

Eftir storminn kemur lognið:

Kári frómur kominn er

með kæra rjómablíðu.

Kyrrum rómi kveður mér

kvæðin ómaþýðu.

 

4.12.14

Bjarni Ben. skipaði nýjan innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu, loksins eftir langa mæðu. Ýmsir þóttust kallaðir, m.a. Pétur Blöndal og þingflokksformaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem á sinn djöful að draga:

Bjarni um víðan fór völl
og varaðist þingmennin öll.
Fór um hann ótti
svo Ólöfu sótti
út yfir firnindi og fjöll.

 

Í Árvakursmóum var aftur
Evrópulöngunarkraftur
Ragnheiðar mældur.
Og Pétur er spældur.
En í þingflokknum klappar hver kjaftur.

 

10.12.14

Prófatörnin stendur sem hæst og m.a. yfirferð Njáluprófa:

Sífellt eflir saga Njáls
sálarheilsu manna
og sanna góða grósku máls
gullkorn nemendanna.

 

11.12.14

Sigrún Magnúsdóttir hélt makalausa varnarræðu á Alþingi fyrir afstöðu sinni og Framsóknar til niðurskurðar RÚV, og sagði að sem kaupmaður vissi hún að hafa þyrfti ýmislegt í huga, m.a. hvort varan væri rétt merkt:

Er varan rétt merkt“?

Er vald nógu sterkt?

Er Sigrún forhert?

Er RÚV einskisvert?

 

Orðið býsna vetrarlegt út um gluggann á upphituðu húsinu að litast:

Núna þekki næðinginn.
Núna ríkir veturinn.
Nú er góður norparinn.
Nú er rétt að taka inn.

 

Óli Palli er með þátt á RÚV, Stúdíó A, þar sem ýmsar hljómsveitir og listamenn flyta lög sín og ljóð. Í kvöld var m.a. Leoncie á dagskránni:

Lærabera Leoncie
sá líða frjálst um sviðið
en eggjahljóðin henni í
heilla meir en iðið.

 

Ekk féll þessi vísa í kramið hjá öllum:

Það má reyna bragarbót,
en best er víst að þegja.
Ekki skil ég hætishót
en hérna verð að segja:

 

Leggjabera Leoncie
líður frjáls um sviðið.
Skrokknum víða urgar í,
enda mikið ryðið.

 

13.12.14

Enn er spáð hvelli í kvöld og nótt og allan morgundaginn líka, svei mér þá. En alla vega er nú lognið á undan storminum:

Frost og stillur, fold nú má
í fannamillikjólinn.
Máninn tyllir tánum á
og töfrum gyllir hólinn.

 

18.12.14

Töluvert hefur snjóað og börn njóta sín úti við:

Skrýðir fjöll og skógarhöll,
skjannamjöll á grundum.
Hávær köll og hlátrasköll
heyrast öllum stundum.

 

24.12.14

Vísur fóru á nokkra jólapakka:

Víst er gott að vita það,

vetrar í hörðu éli,

að gott er að halla höfði að

hlýju og mjúku þeli.

 

Til að leysa þunga þraut

Þorgeir skreið undir feldinn.

Lagði þar friðar beina braut

og bardaga- sefaði eldinn.

 

Léttir angur lundin þín

lífs á gangi mínum.

Enn mig langar, ástin mín

upp að vanga þínum.

 

Hækkar sólin heims um ból,

því himnasjóli réði.

Fínan Sóley fer í kjól,

fagnar jólagleði.

 

Djörf í fasi, dömuskott

djásn í asa brímans.

Eigðu Jasmín árið gott,

ögn í glasi tímans.

 

Eina fróma ber fram bón,

blíðum rómi mínum:

Þessi sóma og heiðurshjón

haldi ljóma sínum.

 

31.12.14

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristinn teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.

 

Úr dagbókinni 2013

Árið 2013. Safnið telur 114 vísur

23.01.13

Við bekkjarbræðurnir úr B-bekknum í KHÍ vorum að undirbúa 30 ára útskriftarafmæli í vor. Vangaveltur um matseðil voru þar á meðal, hvort ætti að velja fyrir allan hópinn og þá hvernig:

Svona mætti orða könnunina:

Hvað viltu dýrðlegt á disk?

Dugar ei lengur neitt gisk,

sút eða hik.

Settu þitt prik

við annaðhvort önd eða fisk.

 

31.01.13

Við undirbúning fyrrnefndrar hátíðar var sæst á að 27. apríl væri heppilegur dagur til veisluhalda. Síðar áttuðu menn sig á því að það mun vera kjördagur til Alþingis. Ólafur Arngrímsson taldi það engin tormerki, hann hefði hvort eð er ekki kosið í nokkrum undanförnum kosningum, og engin ástæða til þess að hann færi að bæta við meira af því sem fyrir er:

Ábyrgð neina Óli ber

á undanförnum þingum.

Þar nuddar upp úr níði sér

nóg af vitleysingum.

 

02.03.13

FSu vann Reyni í Iðu:

Heimaliðið komst á kreik,

kátur frá því greini.

Tæpur svo, í seigluleik,

sigur vannst á Reyni.

 

06.03.13

Brast á með stórhríð, á miðju vori!:

Núna vetur vöndinn hóf,

vind í metra tugum.

Nærri getur! Neyð og þóf,

nema betur dugum.

 

17.03.13

Tvær fermingar í dag. Jasmín Ragnarsdóttir fermdist í Garðakirkju:

Gæfan við þér brosir blítt,
sem blik frá stjörnum skærum.
Lífið hefur að þér ýtt
ótal tækifærum.

 

Þorsteinn Stefánsson fermdist í Fríkirkjunni:

Þá lífið opnar litla gátt,
lagið nýttu feginn.
Alltaf skaltu hugsa hátt
og horfa fram á veginn.

 

31.03.13

Páskaveðurvísa:

Sólin himni siglir á
seglum þöndum.
Næturfrerinn fýldur þá
fer með löndum.

 

16.05.13

Sjúkraprófið búið. Einkunnum skilað. Hvað skyldi þá taka við?

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár

kannar leiðir nýjar.

 

01.06.13

Frétt á dv.is frá Japan um fyrirtæki sem neyddist til að hætta að selja hundamat unninn úr íslensku hvalkjöti:

Verndum hvalaveiðina.

Verðum hér að stund’ ‘ana!

Seljum marga sneiðina

sem fer beint í hundana.

 

04.06.13

Kom áðan í heimsókn til Óla Th. og Gyðu. „Enginn fær að fara fyrr en hann er búinn að skrifa í gestabókina. Hingað til hefur enginn neitað“, sagði Óli. Ég skrifaði:

Bæði hjónin fim og flott,
frjótt er andans hvelið.
Kaffið er hér æði gott
eins og vinarþelið.

 

05.06.13

Eftir nokkurra daga rigningu og rok birti loks til:

Nakta loks er sól að sjá,
sólin klæðum fletti.
Gylfi ætlar út að slá,
út að slá á bletti.

 

08.06.13

Það er dásamlegt veðrið þessa dagana, loksins komið sumar. Mild vætutíð og sprettan góð. Dásamlegir útreiðardagar:

Mjög er veðrið milt og gott,
mikið sprettur gróður.
Lagði því á ho-ho. „Hott,
hott“, ég sagði rjóður.

 

16.06.13

Sendi eftirfarandi kveðju á Netsíðuna „Takk Óli“ þegar síðasti landsleikur Ólafs Stefánssonar stóð yfir í beinni útsendingu í sjónvarpinu:

Óli Stefáns, engum líkur,
öll þín snilld og töfrabrögð.
Aldrei fæðist annar slíkur,
þín ævintýri lengi sögð.

 

25.06.13

Sigmundur Davíð var í heimsókn hjá danska forsætisráðherranum, og hafði það helst til frásagnar af fundinum að sú danska kynni ágæta dönsku!

Sigmundur Davíð, þeirri dönsku
drýldinn í íslenskan bröns ku
boðið nú hafa.
En bindin samt lafa
við þjóðrembukúrinn úr frönsku
m.

 

07.07.13

Marga er farið að lengja eftir sólskini, þetta sumarið:

Nú er úti veður vott,

vindar stöðugt blása

svala gráa sumardaga.

Þetta’ er orðið ansi gott

engin gefin pása.

Gylfa frú sig grætur hása.

 

08.07.13

Mánudagur:

Út er sofinn, orku með

sem eykur blundur fagur.

Ekkert meira gleður geð

en góður mánudagur.

 

09.07.13

Þriðjudagur:

Sýni bæði djörfung, dug,

svo dívan nýta megi.

Fátt eitt meira herðir hug

en hvíld á þriðjudegi.

 

Forsetinn skrifaði undir lög um lækkun sérstaks veiðigjalds, þrátt fyrir að honum bærust 35 þúsund undirskriftir kosningabærra manna um að gera það ekki. Samdi vísnagátu í tilefni dagsins:

Vakur mjög í vindi snýst.

Veldur styr að morgni.

Brjóstið mjög út belgir víst.

Beittur Jóns í horni.

 

10.07.13

Miðvikudagur:

Ég kúri, en seilist til kökunnar

í kyrrð, milli svefnisins og vökunnar.

Hve mildur og fagur

er miðvikudagur

um sláttinn, ef nýttur til slökunar.

 

11.07.13

Fimmtudagur:

Fluggreind tík og friðsamleg,

til fyrirmyndar oft,

svo fimmtudegi fagna ég

með fætur upp í loft.

 

12.07.13

Föstudagur:

Við grundun boðorðs guð minn sat,

sem gott er fram að draga:

Eigðu náðugt eftir mat

alla föstudaga“.

 

13.07.13

Laugardagur:

Ávallt skaltu leita lags

að losna flest við störfin.

Besta lofgjörð laugardags

er lítil vinnuþörfin.

 

14.07.13

Sunnudagur:

Víst má í því fróun fá

og finna eflast haginn

að liggja sínu liði á

langan sunnudaginn.

 

06.08.13

Óli Björns tilkynnti að hann væri mættur á kontórinn eftir góða verslunarmannahelgi:

Óli Björns á kontór kom

kátur eftir helgina.

Samband náið hafði hann

haft við rauðvínsbelgina,

sungið og í Úthlíð glatt

alla drykkjusvelgina!

 

13.08.13

Ferðasumrinu lokið. Fimm vikuferðir á hestum um íslenska náttúru. Gerist ekki betra:

Þá er ferðum um fjöll og dali,

fjörur, hraun og kjarrið græna

lokið að sinni.

Sá ég heiðbláa himnasali,

fann hávaðarok og dembu væna

á eigin skinni.

Af útiveru enginn verður minni.

Ofar mönnum trónir tign,

í tröllsham eða blíð og lygn,

náttúran – og sérhver sál

sem að nemur hennar mál

til smæðar sinnar, hrærð, í auðmýkt finni.

 

14.08.13

Anna María á afmæli í dag:

Enn hve ljóma augun þín,

allan lýsa bæinn

og brosið, það heilar heimsins pín.

Til hamingju með daginn.

 

29.08.13

Nú eru göngur hafnar fyrir norðan, reyndar af sérstökum ástæðum. Vonandi fer allt vel þar um slóðir. Eftir hálfan mánuð eða svo hefst eðlilegur gangnatími. Ég átti þess kost að smala með Grímsnesingum í fyrra, sem afleysingamaður fyrir Þóroddsstaðabændur í Austurleit. Það var ógleymanlegt, enda hvergi að finna jafn glæstan afrétt og afréttur Laugdæla og Grímsnesinga óneitanlega er. Að lokinni þeirri fjallferð samdi ég eftirfarandi vísur, sem ég birti hér af því tilefni að styttist óðum í brottför Austurleitarmanna að nýju. Ég mun hugsa til þeirra:

Austurleitarvísur
Fjallferð Austurleitar á Grímsnessafrétti

Austurleitin enn skal halda inn til fjalla,
um birkihlíðar, bratta stalla,
bunulæki, gil og hjalla.

Hófasláttinn herða má við háar brúnir
Hrossadals, í friðinn flúnir
fjallmenn, samt við öllu búnir.

Kætir geð að komast inn úr Klukkuskarði.
Um hvað rætt þó engan varði,
og eitthvað lækki pelans kvarði.

Leiðin síðan liggur norður Langadalinn.
Faðma allan fjallasalinn.
Fegurst þessi afrétt talin.

Undir kvöldið lenda Kerlingar við kofa.
Jafnan farið seint að sofa
og sungið eins og raddbönd lofa.

Kamarinn í Kerlingu er kúnst að nýta:
Þú berar úti bossann hvíta
og bakkar inn, til þess að skíta.

Aftur sama aðferð þegar út er farið;
á hækjum sér, með höfuð marið
og helgidæmið allt óvarið.

Héðan fjallmenn hálfan ríða hring um Breiðinn.
Kargaþýfð og löng er leiðin.
Já, lystug verður blóðmörssneiðin.

Skeiðið renna, skála undir Skriðuhnjúki.
Flæðir þaðan mosinn mjúki,
móðir jörð sem þakin dúki.

Höfuð ber og herðar yfir, Hlöðufellið.
Það augum kastar, ansi brellið,
yfir hraun og jökulsvellið.

Á feti ríður flokkurinn á Fífilvelli.
Tign er yfir Tjaldafelli
sem tekur undir smalans gelli.

Ei lokka Skersli. Lengra sér til Lambahlíða.
Þangað ekki þarf að ríða
þó að „sjáist“ kindur víða.

Skyggnst er um af Sköflungi og Skjaldbreið líka.
Spariklæðum fjöllin flíka.
Fegurð sem á enga líka.

En skelfing líkjast skítahraukum Skefilfjöllin!
Eins og hafi hægt sér tröllin
á harðaspretti suður völlinn.

Teygist líka töluvert úr Tindaskaga
enda tröllin oft að plaga
iðrakveisur, forðum daga.

Hrafnabjargahálsinn þykir hörmung sveitar
sem blá af kulda bráðum neitar
að bíða komu Vesturleitar.

Öræfanna úti brátt er ævintýri.
Kveður fjallaheimur hýri
er heilsar smölum Kringlumýri.

Að lokum þarf að lóna suður Lyngdalsheiði.
Jafnan ber þar vel í veiði,
vænir dilkar á því skeiði.

Rökkurvökur, rómur hás og rassinn sári!
Þokkalegur, þessi fjári,
en þeginn vel á hverju ári.

Þó að smalar þvældir gerist, þverri kraftur,
í skinni brennur brátt hver kjaftur
og bíður þess að fara aftur.

31.08.13

Pétur Stefánsson játaði auðmjúklega og með eftirsjá í frábærri vísu að hafa sett x við B í síðustu kosningum, en jafnframt að það gerði hann ekki aftur:

Að hann setti x við B
af auðmýkt núna játar.
Á því verður ævihlé,
aðra stafi mátar.

 

31.08.13

Jónas Haukur kom heim til Íslands frá Bergen í síðustu viku og heimsótti okkur mömmu hans. Við gerðum eins vel við hann í mat og drykk og mögulegt var: grilluðum hrossalundir, sem Jónas dásamaði m.a. í færslu á Facebook. Ég setti inn þessa athugasemd:

Ef góða veislu gjöra skal,
galdur einn ég þekki:
Herra, Guð, í himnasal,
hrossið klikkar ekki.

 

1.09.13.

Rok og rigning. Enn ein lægðin gengur yfir:

Úti heyrist hávært væl,

hugarró misbjóða.

Enn ein lægð, og engum dæl,

alger grenjuskjóða.

 

5.09.13

Bekkjarbræður úr ML birtu á Facebook af sér mynd úr ferð í Veiðivötn. Systur tjáðu sig um myndina, um glæsileik þeirra og minnst var á að líkast væri að þeir hefðu verið geymdir í formalíni frá skólaárunum. Fram kom þá að formalín hefði ekki farið „mildum höndum“ mannsreður í safni á Húsavík. Var þá formalínið dregið til baka en í staðinn minnst á vínanda:

Reður manns kvað rýrna mest

rakur í formalíni

og glæsipiltar gamlast best

glaðir af brennivíni.

 

Lít ég vaskar veiðiklær.

Vinir! þið stöðugt batnið.

Samviskan er silfurtær,

þið sötrið, og berjið, vatnið!

 

5.09.13

Eyrún Guðmundsdóttir lýsti rafmagnsleysi við götuna vegna aðgerða fjölmenns flokks frá Orkuveitunni sem græfi holur. Sennilega væru mennirnir að reyna að laga slæmt karma vegna aðgerða við lagningu ljósleiðara fyrr í sumar:

Teknar í garðinum grafirnar,

grafa á Orkuveituna,

því „dyrakarmað“ komið var

í klessu, útí bleytuna.

 

14.09.13

Ort í kjölfar eilífrar umræðu, m.a. þingmanna, um óþurft listamanna og listsköpunar:

Djöfull er djöfullinn góður!
Hann dansar í kringum oss, óður!
Og menningarlífi,
sem guð oss frá hlífi,
laumar í frummannsins fóður.

 

21.09.13

Eftir langt rigningarsumar stytti loks upp með norðanátt. Þá er hætt við hélu á bílrúðum á morgnana, en líka vona á fallegum kyrrðardögurm:

Sumar bauð það súran kost
að seint úr hug mun líða.
Náði hingað næturfrost.
Nú er sól og blíða.

 

22.09.13

Tveir dagar í röð, og maður fyllist bjartsýni:

Það er ei við leiða laust
af langri sumars vætu
en fáum við kannski himneskt haust
með hita og sólarglætu?

 

30.09.13

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson vakti athygli á því að „svá er“ rímar við „Wow air“:

Nútíminn rafknúið ráf er
en í rauntíma Framsókn í kláf er
á leið yfir álinn
með áherslumálin.
Við sjónbaug hvarf vélin frá Wow-air.

 

15.10.13

Þegar heim var komið úr ferð KKH til Rómar og farið að skoða myndirnar urðu til meðfylgjandi vísur:

1. vísa:

Vá! hvað úrvalið er flott
og efnið, finndu, líka gott!“
„Nú, ætlar þú að kaupa klút?
Komdu, góða, héðan út.“

 

2. vísa:

Augun gleðja undur tvö,
annað sjónum falið.
Í veröld allri eru sjö.
-Átta, ef rétt er talið!

 

3. vísa:

Baddi huga hefur bægt

heim, sér til að orna:

Kunnu þeir nokkuð í rófurrækt

Rómverjar til forna?

 

4. vísa:

Mikilfengleik má til sanns

marka í Rómarsetri

að fangar ógnarfjölda manns

forstofan hjá Pétri.

 

5. vísa:

Ef fleygir í brunninn mynt, þá má
marka að snúir aftur.
Í mannhafinu, mátti sjá,
er mikill segulkraftur.

 

6. vísa:

Guð láti gott á vita

er gleypum við næsta bita.

Böl þess’ að kyngja.

Og bannað að syngja!

Þröngt mega sáttir sitja.

 

7. vísa:

Tók á annan aldartug

að opna dýrðarskelina:

Fornar minjar fanga hug

og fóðra myndavélina.

 

8. vísa:

Eitthvað virðist Siggi sjá

við sundurgrafna jörð.

Eiríkur grimmi gengur hjá.

Grétar stendur vörð.

 

9. vísa:

Myntu fleygði frú um öxl

því finna Róm vill aftur.

Gylfi stóð og gnísti jöxl-

um. Gamall fylliraftur.

 

10. vísa:

Mjög er athyglinni beitt,
engu þar við blandandi.
En Böðvari er býsna heitt
og blundar Jenný standandi.

 

11. vísa:

Í Vatikanið ætla inn
að undralistagliti.
Frómur rekur flokkinn sinn
fyrrum hrepps oddviti.

 

12. vísa:

Mörg til forna gyðjan gekk
glæst um Colosseum
og þær vilja upp á dekk
enn, í þessum véum!

 

13. vísa:

Vatikansins mikli múr,
merki‘ um vald og auð.
Fjölda þræla undinn úr,
upp á vatn og brauð.

 

14. vísa:

Í rjómablíðu í Rómarborg

reyndist margt að kanna.

Þess til gengu þrátt um torg

Þorvaldur og Anna.

 

15. vísa:

Eitthvað markvert segir Sjöfn.

Það er sól, en engin gjóla.

Í svalheitunum sýnast jöfn

Sigurður og Fjóla.

 

16. vísa:

Hér er listagatan greið

úr glingri ýmsu’ að moða.

Halla gengur heim á leið,

hinar þurfa’ að skoða.

 

17. vísa:

Ekki virðist undirleit,

út nú glennir fingur.

Agnes sér að Anna veit

alveg hvað hún syngur.

 

18. vísa:

Fjögur eyru fíla Sjöfn

af fróðleik rykið dusta.

Sumir, nefnum engin nöfn,

nenna ekki’ að hlusta.

 

19. vísa:

Gamlar minjar grafnar upp

á gullin klínd var svertan

Eins og fljóð með fílahupp

Francós rjómatertan.

 

20. vísa:

Gleðjast þegnar Fagra-Fróns,

frískir dag og nætur,

nema Siggi Sigurjóns,

soldið man, og grætur.

 

21. vísa:

Bílstjórar lævísir lómar

svo léttgeggjað kaosið ómar.

Hér færa þarf fórn!

Fín umferðarstjórn

hjá Edit, í öngstrætum Rómar!

 

22. vísa:

Flekklaus hér múgurinn fetar,

jafnt Frakkar sem Rússar og Bretar.

Í annála set

að Elísabet

um páfagarð gekk með hann Grétar.

 

23. vísa:

Lært af löngu skaki

í lífsins ferðahraki

að nóttu jafnt sem degi:

Nema sér bróður eigi

ber er hver að baki.

 

24. vísa:

Lítið ítölskuna þekki.

Eitthvað samt verð að fá.

Hvað það verður veit ég ekki.

Við skulum bara sjá“.

 

25. vísa:

O, la vita bella!

írskan fundum bar“.

Áslaug, Jenný, Ella

eignast minningar.

 

26. vísa:

Þó falleg, gömul æskuást

ekkert sýnist dofna,

margfalt þarna matur brást

og Miklós er að sofna.

 

27. vísa:

Fer um salinn fögnuður,

frá er loksins röðin:

Silfrið rekur Ásthildur

oní salatblöðin.

 

28. vísa:

Ég skal bara játa enn,

þó jafnan séu beittir:

Af rápi verða miklir menn

miður sín, og þreyttir.

 

29. vísa:

Um loftið einhver angan fer

og undan best að líta.

Verst ef, eins og virðist mér,

Valdi þarf að skíta?

 

30. vísa:

Erða þessi, eða þessi gata?“

Nei, þetta var nú bara grín.“

Það er mikil þraut að rata

þegar vantar fjallasýn.

 

31. vísa:

Um vanga meyjar ljósið lék,

lygnum augum góndi,

því rétt sér bak við runna vék

röskur kúabóndi.

 

32. vísa:

Mörlandanna sælust sjón

að sjá, er himnaduggan.

Þó er ljóst að þessi hjón

þakka fyrir skuggann.

 

33. vísa:

Eftir stappið stöðva skal,

stundarhvíld er brýn.

Konni, eins og kriminal,

kneifar bjór og vín.

 

34. vísa:

Við slöknum öll ef fáum frí,

finnum hefjast bringu.

Dreyminn Palli er dottinn í

Dressmannauglýsingu.

 

35. vísa:

Andans ró og yndi finn,

ein er stundum gott að sitja.

Ættum við kannski, Óli minn,

eitthvert hingað suður flytja“?

 

36. vísa:

Í sólarglennu situr hér

sitt af hvoru tagi:

Norræn frú, en aftar er

ekta suðrænn gæi.

 

37. vísa:

Það er gott að þenja sig,

þokkinn berst um loftin,

líkt og eitthvert æðra stig

andi gegnum hvoftinn.

 

38. vísa:

Prófum ekki eftir beið,

útúr hafði lekið,

í flýti Hjalti fram úr skreið

og fór í apótekið.

 

39. vísa:

Ykkur dugar ekkert pex,

endar það með veini.

Kábojhattur, harkan sex,

hólkinn mundar Steini.

 

40. vísa:

Aðeins komst á liðið los,

líktist mannastöppu,

þá sáust tvær með sælubros

í sól, við Spánartröppu.

 

41. vísa:

Grímur speki grundar vær.

Gramur stillir Rúnar hljóðið.

Brjóstsykurinn Brynjar fær.

Bettý nemur orðaflóðið.

 

24.11.13

Fránum augum löngum lít

lífsins þýfi karga:

Út að hreinsa hundaskít,

heimi þarf að bjarga.

 

27.11.13

Sigmundur Davíð, forsætisráðherra, varaði þingfulltrúa á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins við því að stjórnarandstaðan myndi snúa út úr öllu þegar skuldaniðurfellingartillögur hans yrðu kynntar, og myndi ekki hika við að ljúga:

Bera andstæðingar sig,

útúrsnúning feta,

ætla’ að ljúga upp á mig

öllu sem þeir geta.

 

30.11.13

Þá er loforðasúpan fram reidd:

Löngum þeirra’ er lofa mest

lækkar strýtan.

Framsóknar er fyrir rest

fallin spýtan.

 

Framsókn er með lík í lest,

loforð svikin.

Formaður í fýlupest

fer nú mikinn.

 

23.12.13

Jólakveðjan þetta árið á gangleri.is:

Heimi forðum hinstu speki Hávi kvað:

Ef rekur menn á rangan stað

reynist best að hjálpast að.

 

Ofurgræðgi einkavegi út af fór.

Enginn syngur einn í kór.

Með öðrum verður maður stór.

Vinarþel er fundið fé

sem forðar oss frá grandi.

Óskum þess að ætíð sé

allt í góðu standi.

 

Gefðu þjáðum þelið hlýtt,

þerra sárastrauma

og þá lifir upp á nýtt

alla þína drauma.

Ef reynist þungur raunakross

að rata veginn sinn,

þá kærleikur, að kenna oss,

kemur sterkur inn.

 

Á berum orðum, sem bjarta höll

byggjum okkar hug.

en baktalsvammið, veljum öll

að vísa því á bug.

Heyrist sagt að sækist enn

sér um líkir.

Þar sem ganga góðir menn

gleðin ríkir.

 

Jafnt á árið jöfnum út

jólasiðinn:

Argan leysa innri hnút

og elska friðinn.

Er gæfan horfin, grafin virðing, gleðin köfnuð?

Hvar sem tekst að tvístra söfnuð

tryggjum mannúð, frelsi, jöfnuð.

 

Ef að bara endurnýtum ástarvöttin,

upp þá lýsum allan hnöttinn

og enginn fer í jólaköttinn.

 

24.12.13

Í jólapakka til konunnar:

Ef kemur á mig eitthvert los

og undan fargi styn,

rétta mig aftur englabros

og augna þinna skin.

 

28.12.13

Ari, yngsta barnið okkar hjóna, er 24 ára í dag:

Unnum heimsins happafeng

er herti vetur strangur:

Eignuðumst ljúfan, lítinn dreng

svo lengdist sólargangur.

 

Úr dagbókinni 2012

Árið er 2012. Safnið telur 103 vísur

23.01.12

Árni Páll Árnason gerði illa undirbúna tilraun til uppreisnar gegn Jóhönnu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar eftir að hann var látinn taka pokann sinn í ráðherra- og ráðuneytafléttu:

Vegur fremdar víst er háll,

valt er fyrra gengi.

Uppreisn gerði Árni Páll.

Ekki stóð hún lengi.

 

25.01.12

Alþingistíðindi

Sigmundur Ernir var í útlöndum og varamaður mættur suður til Reykjavíkur til að leysa hann af á meðan, í atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu á afturköllunartillögu Bjarna V. Benediktssonar:

Sætt er heimsins ljúfa líf

og lag að Ernir þetta kanni.

Á meðan Ásta stendur stíf

og stuggar burtu varamanni.

 

Fleiri voru í útlöndum. Össur flýtti sér heim til að greiða atkvæði, einhverjir (illar tungur?) segja að það hafi ekki eingöngu verið til að gæta Geirs, bróður síns:

Út í heimi styttir starf,

því stefnu vill hann eyða.

Yfir gamlan, Össur þarf,

eigin skít að breiða.

 

Uppnám í grasrót VG vegna umpólunar Ögmundar, manns réttlætisins. Því er haldið fram að hann vilji íhaldið, já raunar allt, frekar en Steingrím:

Hí á Steingrím! Hefnt sín gat,

hugann litar sorti.

Orku fyrir endurmat

Ögmund hvergi skorti.

 

Mjög er innra eðlið hreint.

Yndið himnafeðra

ekki lengur getur greint

Grím frá þeim í neðra.

 

Einhverjir samþykktu ákæru á Geir Haarde á sínum tíma, sátu m.a. í Atlanefndinni sem lagði hana til, en virðist nú hafa snúist hugur:

Áður höfðu ákært Geir,

og einhver von á þingi,

en núna settu niður þeir

Nonni, lambið, Ingi.

 

Nefndarformaðurinn sjálfur, fyrrum meintur „pólitískur galdrabrennuforingi“ er einn þeirra sem snúist hefur á sveif með fyrrum óvinum sínum og óvægnum gagnrýnendum á Morgunblaðinu:

Villiköttur vill í hark,

vissu fyrri selur.

Um það höfum órækt mark

er Atli þrisvar gelur.

 

Nú er svo komið að kjósendum er ómögulegt að átta sig á því hver er hvað á Alþingi og fyrir hvað þingmenn standa, ef þeir standa þá fyrir nokkuð?

Þingmenn frábær fyrirmynd,

frægðin vex á þingi!

Um sali, eins og sóttarkind,

snúast þeir í hringi.

 

26.01.12

Vigdís Hauksdóttir hefur oft „glatt“ landsmenn með gjammi sínu. Nýjast var yfirlýsing um að „daun“ legði af Samfylkingunni:

Vigdís í þykkum sveimi sést,

súrnar gamla brýnið.

Er finnur eigin fýlupest

hún fitjar upp á trýnið.

 

Viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðismanna við ráðningu Jóhanns Haukssonar í starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafa verið með þeim hætti að halda mætti að þeir sjálfir væru einkabörn guðs almáttugs. Mætur maður sagði að halda mætti að þeir væru „saklaus, krullhærð löm að vori“.

Íhald og framsókn; lömbin ljúf

sem leika frjáls um börðin.

Er saklaus dilla dindilstúf

detta aldinspörðin.

 

31.01.12

Bessastaðabóndinn kvað vera á leið á Suðurpólinn, í boði helstu héraðshöfðingja westan hafs. Ekki sjá allir þá utanlandsför sömu augum:

Á Bessastöðum björt er sól,
þar á Brúnastaðaundrið skjól
því Ólaf vill á veldisstól.
Jóka draum um annan ól,
í orðum draum sinn þannig fól:
„One way ticket to the pole“!

 

08.02.12

Loks er varpað ljósi á
langa Vafningsfléttu.
Af sögu þeirri sjálfsagt fá
sumir hryllingsgrettu.

 

Sýna málsins sakargögn
að sagan, rétt ég vona,
er í stuttri endursögn
einhvernveginn svona:

 

Bræður tvennir bralla margt,
banka hyggjast kaupa.
Vilja gjarnan græða skart,
með gull í vösum raupa.

 

Saman eiga þessir Þátt,
þaðan mikinn vilja’ arð.
Morgan Stanleys góna’ á gátt
og grenja’ út tugamilljarð.

 

Kaupa’ í Glitni sjö prósent,
svífa’ á gróðavegi!
Óðar samt er lánið lent
á lokagreiðsludegi.

 

Uppgjör því til fjandans fer,
með félagssjóði blanka.
Til lausnar þrautalending er
lán frá keyptum banka!

 

Reglum samkvæmt meira má
Milestone ekki lána.
Forða Þáttur engan á,
útlit bjart að grána.

 

Til bjargar sjóða svikavef,
seint þó finnist vitni.
Annars tekin yrðu bréf
sem áttu þeir í Glitni!

 

Sveins- og Wernerssynirnir
sjá nú vonir dofna.
Leysa vandann, vinirnir,
Vafning nýjan stofna!

 

Skyldi lán til Vafnings veitt
en velt svo beint til Þáttar
svo milljarðana gætu greitt
og gleiðir lagst til náttar.

 

En Vafning þarf að veita fé
svo veð sé fyrir láni!
Lífsvon Sjóvar lét í té
lyfjakeðjubjáni.

 

Nú aðeins vantar undirskrift!
Er þá nokkur heima?
Ef enginn getur armi lyft
má öllu þessu gleyma!

 

Þó ekki verði öllu náð
sem enn mun talið hreinna.
Þeir hafa undir rifi ráð
og redda þessu seinna.

 

Til Milestone bara færa féð
úr fúnum Glitnis aski.
Þáttarskuldin þvegin með
þokkapiltabraski.

 

Lagaregluverkið var
með vilja þarna brotið
er lítilsigldir lúserar,
léku djarft og rotið?

 

Hið nýja félag fullgilt var
fjórum dögum síðar.
Með traustum Sjóvárbréfum bar
bankaskuldir fríðar.

 

Nú er loksins Vafnings veð
vottað, eftir baslið,
lánið hægt að möndla með
og millifæra draslið.

 

Hefst nú siðlaust sjónarspil,
samningurinn skráður,
(með falsi grófu færður til)
fjórum dögum áður!

 

Aðeins verður vandamál
ef vitnast þessi flétta:
Yrði drísildjöflum hál
dagsetningin rétta!

 

Fram þá stígur Bjarni Ben.
til bjargar, ættarsprotinn.
Pennann glaður grípur – en
gjörningurinn rotinn.

 

Skjalið virðist skíraglit,
skrautritað með „heading“!
Eðli þess með öðrum lit,
algjör skítaredding.

 

Bjarni nú sinn tíma tók
að tæma bankahólfin.
Veit að senn mun bankinn „broke“,
brostin hallargólfin.

 

Vafningsskuld að vonum greidd
með vænu láni’ í Glitni!!
Summan gegnum Svartháf reidd.
Sýnist púkinn fitni!

 

Greitt til baka bara smá
brot af lánsins virði:
Borgar þjóðin þaðan frá
þeirra skuldabyrði.

 

Útrás landið vefur vor
víkingsfrægðarljóma.
Í bankainnrás eðlisþor
æðstan veitir sóma.

 

Saga þessi aðeins er
almennt, lítið dæmi
um sigra þegar saman fer
snilld og íslenskt næmi.

 

09.02.12

Lilja kynnti Samstöðu, nýja flokkinn sinn, og Sigga storm sem sína hægri hönd!

VG, með Steingrím í stafni,

stóð bara ekki’ undir nafni.

Þó samherja lasti

í samviskukasti,

það er lofsvert – svo Lilja ei kafni.

 

Þeir ofríkis ráðamenn bogni!

– það rýkur víst sjaldan í logni –

Stormurinn hrífur

og samstaðan blífur

þó samviskan teygist og togni.

 

14.03.12

Magnús Halldórsson sendi í tölvupósti myndir sem voru teknar af honum á Stuðli sínum með þessum orðum: „Þessar myndir tók Halldór minn í byrjun mars af okkur Stuðli, krapasull og leiðinda færi á veginum, sem fátítt er á þessum slóðum“. Sendi honum þessa vísu til baka:

Í krapasulli karlinn gamli

keyrir ljóðastaf.

Flugtak nálgast, helst að hamli

að hettan fýkur af.

 

27.03.12

Hreinn bróðir sendi á Netinu mynd af bráðefnilegum fola sem á í tamningu, Sprota, undan Þóroddi og Spátu Gadldursdóttur og Spár. Hreinn fékk þessa vísu til baka:

Prúður gengur folinn frjáls,

fögrum litnum skartar.

Með vind í faxi vefur háls,

vonir kveikir bjartar.

 

Hreinn svaraði auðvitað með vísu þar sem hann kvaðst sæll með sendinguna. Ég sendi honum aðra:

Verður ertu víst að fá
í vísu lítinn mola.
Syngja hlýtur sá sem á
svona góðan fola.

 

05.04.12

Ávallt skal forðast stríð og styr,

stefnan sé friður.

Að ganga hægt um gleðinnar dyr

er góður siður.

 

26.04.12

Seiður heitir aðalreiðhesturinn minn undanfarin ár, ferðavíkingur mikill. Belgísk stúlka í ferðahópi sumarið 2011 tók mynd af mér á Seiði uppi á Hellisheiði, þar sem klárinn svolgrar í sig vatnið úr tærum fjallalæk, í glaðasólskini. Myndin varð tilefni til eftirfarandi:

Efst á Hellisheiði,
við heillandi sólarglit,
sit ég glaður á Seiði
með svolítinn kinnalit!

 

Trausti vinurinn teygar,
taktfast við lækjarhjal,
dýrustu veraldarveigar
-vatnið í fjallasal.

 

Fagurt er jafnan á fjöllum,
finn þar hinn tæra hljóm.
Anda, með vitunum öllum,
að mér þeim helgidóm.

 

Mér best á öræfum uni,
andinn mig þangað ber.
Finnst þar eins og að funi
frelsið innan í mér.

 

05.05.12

Framsóknardraugar ýmsir hófust upp, þegar Þórólfur Matthíasson beindi opinberlega nokkrum spurningum til Bændasamtakanna, eftir að hafa loks fengið í hendur ársreikning þeirra, og jusu svívirðingum yfir hagfræðinginn á samskiptasíðum fyrir þann dónaskap að voga sér að spyrja þetta háæruverðuga apparat spurninga:

Ekki spyrja um það má,

einn skal kyrja sönginn,

sannleik yrja – senn mun þá

sálar byrja þröngin.

 

08.05.12

Mikið er nú fagurt út að líta þessa dagana. Alla vega hérna sunnanlands. Og stúdentar úttöluðu sig í gær, í sjónvarpi allra landsmanna, um prófabölið við þessar aðstæður. Þetta er víst eilífðarmál?

Sólin skín af himni heiðum,
hengir lín á gylltan baug.
Faðminn sýnir foldarbreiðum,
fangar mína innstu taug.

 

Það er samt ólíklegt að blessaðir stúdentarnir endist lengi úti við. Er þetta ekki kallað „gluggaveður“?

Værðarfullur vindur ber
um vorið bull og skvaldur.
Gamla rullan, ennþá er
alveg drullukaldur.

 

11.05.12

Það fer ekkert á milli mála að Anna María er ákaflega ánægð með eiginmann sinn. Þegar ég kom inn áðan ljómaði hún öll af hrifningu og greinilegan ánægjublæ mátti greina í rödd hennar þegar hún sagði, án þess hún vissi að heyrðist til hennar:

Vinnuhestur, vindur sér

í verkalistann sáttur.

Blessun mesta bóndinn er,

búinn fyrsti sláttur.“

 

13.05.12

Mæðradagurinn er í dag. Fæstir eiga öðrum en mæðrum sínum meira að þakka og óbreyttir jafnt sem andans jöfrar hafa hyllt þær í verkum og orðum, sumir ódauðlega. Ég legg þetta í púkkið:

Aldrei gleymist ástarþel,
æsku- dreymir glæður.
Innri geyma eldinn vel
allar heimsins mæður.

 

17.05.12

Himinn blár, en horfinn snjár,

hagans grár er feldur.

Nóttin ári nú er sár,

Norðan-Kári veldur.

 

14.06.12

Kom heim úr hestaferð, alveg sótsvartur í framan af ryki. Var nokkuð lúinn eftir langan dag í hnakknum og þá tók Anna María, þessi elska á móti mér með sínum hætti:

Konan beið með bros á vör og bjór í glasi.

Alltaf ljúf og létt í fasi

þó liggi ég í hrossabrasi.

 

16.06.12

Fjórði í hestaferð: Hella-Skúfslækur.

Feykilega fóru vel
fögur listahrossin.
Viljug tölta mó og mel,
með þeim dillar bossinn.

 

20.06.12

Fékk þessa hugdettu, svona fyrir svefninn, enda búinn að ríða út í dag og lesa tvær skáldsögur, aðra í gær og hina í dag:

Glóðir tendrar góðhestur,

gleði sendir strauma.

Bálar kenndir bóklestur,

birtir lendur drauma.

 

22.06.12

Miami Heat vann í nótt NBA titilinn. Það var langþráður titill fyrir suma:

Loksins vann þá dollu, James,

dýrðar má því njóta.

Allra sterkust hetja heims

til handa jafnt sem fóta.

 

Það er víst bara eitt sem hægt er að ganga að vísu:

Sé ég undan sunnan þey
sigla gullinn flota.
Að lokum þessi fögru fley
fáum öll að nota.

 

Sólin braust fram þegar við komum í Skagafjörðinn“ var myndtexti úr kosningaferð Þóru Arnórsdóttur. Mér sýndist myndin bera annað með sér:

Dökkur skýjabakkinn ber

brosin ofurliði.

Horfin sól af himni er,

hvíla mun í friði.

 

Sigmundur Davíð heimtaði undirritað samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um þinglok, vegna þess að ekkert traust væri milli aðila. Svo lét hann sig hverfa tímunum saman, skv. fjölmiðlum, „eins og krakki“, til að tefja tímann enn meira:

Er á þingi ekkert traust,

allt til stáls lét sverfa,

eins og krakki“ endalaust

aftur lét sig hverfa.

 

06.07.12

Gönguferð Abbalabba frá Skálpanesi, um Jarlhettur, Einifell, Hlöðuvelli, á Skjaldbreið, Kerlingu, Klukkuskarð, Skillandsdal að Laugarvatni. Ort á toppi Skjaldbreiðs:

Geng á háan Skjaldbreið, skoða

skíragullin fjallaranns.

Sköpun elds- og ísa goða

ætíð greipt í huga manns.

 

Á göngu frá Kerlingu að Klukkuskarði varð til þessi vísnagáta. Um að gera að ráða hana. Lausnin er stakt orð, íslenskt nafn:

Þessi einhver styðst við staf.

Stríðinn Óðinn svörin gaf.

Skjaldborg nafni í sælu svaf.

Sést á Neti vísnaskraf.

 

Og efst í Klukkuskarði:

Síst á Abbalöbbu lát,

lokabrattann marði.

Upp sig glennti ofsakát

efst í Klukkuskarði.

 

21.07.12

Skrifað á servíettu í brúðkaupi Dóra og Eddu:

Ástin blómstrar ykkur hjá,

ævin hjartnæm saga:

Ísabella og Thelma tjá

traustið alla daga.

 

30.07.12

Við Ari komum heim af Kili í gær, eftir vel heppnaða hestaleiguferð:

Fannst mér kært að koma heim

og kyssa aftur frúna.

Í huga fagran fjallageim

ferðast get ég núna.

 

11.08.12

Í Sunnlenska fréttablaðinu, var notað enn og aftur (í nýlegu blaði) ónefnið „Laugardalsvellir“, þegar augljóslega, af samhenginu að ráða, er átt við Laugarvatnsvelli. Ég varð að kvarta yfir því. Því grátlegra er þetta að viðkomandi blaðamaður gekk í skóla á Laugarvatni. Það er sjálfsagt líka orðið vonlaust að kveða niður falsið um „veginn yfir Lyngdalsheiði“?

Tindar yfir gólfi grass,

glæst í kvæði efni.

Laugar- heita vellir -vatns

virðum það örnefni.

 

Ferðalangar fá á ný

í fréttum blandað seyði

svo þeir villur ani í

upp á Lyngdalsheiði.

 

14.08.12

Anna María, þessi elska, á afmæli í dag:

Augun brosa, augun þrá,

augun gráta líka.

Augun hreinu, augun blá,

augun himnaríkja.

 

15.08.12

Eftir miklar rigningar undanfarið er að mestu stytt upp. En grasið í garðinum hefur heldur betur tekið kipp og tími kominn á að draga í gang sláttuvélina! En…

Döggin sindrar sverði á,

sólar lokuð gáttin.

Langt í burtu bjart að sjá,

bíð því enn með sláttinn.

 

18.08.12

Við Ari tókum okkur til og ferjuðum fjögur hross að Þóroddsstöðum á föstudaginn til að ríða á Vallamótið – með ýmsum úr stórfjölskyldunni. Það var magnaður túr. Þegar við vorum að tygja okkur af stað heimleiðis á laugardeginum leit út fyrir að einhverjir ætluðu að fara að brýna raustina:

Velja snjallir Vallamót,
varla kallast svikið.
Belja karlar, bjallar snót
bralla allir mikið.

 

Reiðtúrinn heim heiði sveik svo ekki, fremur en vant er, hrossin í feiknastuði:

Af mélum freiðir, augu ör,
andann seiðir þorið.
Dunar heiðin, funar fjör,
fákar greiða sporið.

 

19.08.12

Nú er farið að skyggja á kvöldin! Sumarið má þó ekki sleppa öllum tökum strax:


Sumri hallar, húmar að,
haustið kallar núna.
Í mæðu falla má ei það
og missa alla trúna.

 

19.08.12

Lítið heilræði:

Ef ranga starir lífs á leið,

litlu þar vilt sinna

er best að fara röska reið

og rétta svarið finna.

 

19.08.12

HKL sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér í kvöldfréttum að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forset-inn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „bosh-ið“ landið.

 

22.08.12

Grúskið bætir geðslagið,

gleði stakan veitir,

og hrossin ferðir ven ég við

víða hér um sveitir.

 

22.08.12

Systurnar, og stórfrænkur mínar, Anna Lína og Obba Vill. „lækuðu“ vísuna hér að ofan á Facebook:

Systur „læka“ frændans fitl

við ferskeytluna

sem þó er aðeins þarflaust kitl

sem þarf að una.

 

22.08.12

Vangaveltur í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir: „Katrín í stað Oddnýjar – Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,

broddur stingur svoddan.

Kötu skiptir inná, en

Odda leggst á koddann.

 

22.08.12

Guðmundur Rúnar Árnason var ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV hafði heimildir fyrir því að Össur hafi verið með puttana í málinu en framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlaust farið málið með,

matið faglegt hljómar þanninn:

Össur, jafnan röskur, réð

rétta Samfylkingarmanninn!

 

23.08.12

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október. Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði… Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína… :

Hagfræðingur, hörð í skapi,

helsta vonin innan þings.

Með fagþekkingu í fylgistapi

og forðast hylli almennings.

 

23.08.12

Fyrirsögn á dv.is: „Dreymir um að gera það undir borði í teboði hjá ömmu“:

Boðum neitað, með þökkum, þvert

þar til fyrir skömmu.

En trekkja núna töluvert

teboðin hjá ömmu.

 

25.08.12

Himin ætir harmageð,

úr hófi grætur núna.

Gráma mæti glaður, með

gúmmí- fætur -búna.

 

25.08.12

Mogginn slær upp af bloggi Bjarna Harðarsonar að í ræðu Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi Vg, sem haldinn var að Hólum í Hjaltadal, hafi verið „subbulegar alhæfingar“:

Ennþá veinað, allt í kross,

innanmeinin skaða.

Meitlar steininn Moggahoss,

munið Einar Daða.

 

26.08.12

Að kveldi sunnudags:

Framá settist, mig fetti, þvó,

át frókost (hmm…lýsið skorti!).

Blaði fletti, blettinn sló,

bók las, vísu orti.

 

27.08.12

Í kjölfar undanfarandi vísu, sem ég birti á Fjasbók, gerði Gummi Kalli þá athugasemd að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það eftir honum og orti þressi refhverfu sléttubönd:

Þjónar, stritar, sjaldan sér

sjálfum hampar maður.

Bónar, skúrar, ekki er

argur, leiður, staður.

Staður, leiður, argur er,

ekki skúrar, bónar.

Maður hampar sjálfum sér,

sjaldan stritar, þjónar.

 

Eiginkonan hélt í 10 daga ferð til Noregs í morgun, að heimsækja syni og barnabörn. Hún var óþarflega kát þegar hún kvaddi:

Upp er kominn efi stór,

allur dofinn kraftur.

Svo kát til Noregs konan fór,

-kemur hún til mín aftur?

 

Og svo meiri refhverf sléttubönd, fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver

þrekið, veldur sjálfur.

Stjórnar drykkju, fráleitt fer

fullur eða hálfur.

 

Hálfur eða fullur fer,

fráleitt drykkju stjórnar.

Sjálfur veldur, þrekið þver,

þeigi sopa fórnar.

 

Svandís bekkjarsystir mín úr ML birti mynd af sér á Netinu þar sem hún er skælbrosandi á útreiðum á góðum hesti:

Svandís er með sælubros,

sálin þaninn strengur.

Frá vegi nokkurt virðist los,

varla snertir lengur.

 

1.09.12

Heimssýn er í auglýsingaherferð gegn ESB samningaferlinu og voru samtökin sökuð um að fara þar með ósannindi. Atli Gíslason taldi lýðræðishallann í ESB svo mikinn að Ísland yrði eins og fluga í fílahjörð:

Heimssýn stöðugt stendur vörð,

í stríði allt má gera.

Eins og flugu í fílahjörð

finnst hún sterkust vera.

 

Bjarna frænda og Freyju fæddist í dag drengur:

Freyja og Bjarni fagran tel

flétti ættarstrenginn.

Heilsist ætíð honum vel:

til hamingju með drenginn.

 

Ögmundur var dæmdur fyrir að brjóta jafnréttislög, sjálfur yfirmaður laga og réttar. Hann skammaðist sín ekkert og vísaði í samvisku sína. Þá var rifjað upp hvað hann sagði átta árum áður, þegar Björn Bjarnason braut sömu lög við ráðningu Ólafs Barkar: „Ráðherrar fari á skólabekk til að læra jafnréttislög“, sagði Ögmundur þá:

En það var fyrir átta árum

og aðeins minna’ af gráum hárum.

Samviskuna mikils metur

og miklu hærra lögum setur.

Þarf að fara’ að þusa’ um hrekkinn?

-þetta grín með skólabekkinn?

 

04.11.12

Mikið hefur gengið á undanfarna daga. Stormur og ofsaveður í hviðunum, en á sunnudagsmorguninn rennur upp bjartur, rór og fagur:

Hósta fékk ‘ann Kári kast,
kvaldist upp og niður.
Hinn sjúki núna sefur fast;
sólskin, ró og friður.

 

15.11.12

Svar til Péturs:

Ekki Pétur þegja þarf,

þjóðin metur kvæðin.

Ofar setur stefjastarf,

standa betur gæðin.

 

16.11.12.

Í tilefni af degi íslenskrar tungu:

Lifðu glaður, laus við blaður,

leggðu þvaður af.

Orðastaður! Ydda, maður,

Íslands fjaðurstaf.

 

Í kvöld var haldið Karlakvöld Karlakórs Hreppamanna. Meðal atriða þar var uppboð. „Vinningarnir voru kynntir svona:

1. Pappakassi (falin í koníaksflaska):

Halló! Lítið augum á!

Ekki má nú trassa

að bjóða mikið, og flottan fá

feng úr pappakassa!

 

2. Málverk:

Lítið hingað! Listaverk,

litum undurfögrum málað.

Hátt skal bjóða! Myndin merk.

Á morgun heima verður skálað!

 

3. Hryssa, tamin og vekringur:

Ágætlega tamda tel,

töluvert í hana spunnið.

Gæða hryssa, vökur vel,

verðlaun hefur líka unnið!

 

4. Folatollur, við Hauki frá Haukholtum, á þriðja vetri:

Happatoll nú herrum býð.

Haukur nefnist fákur.

Móðir Elding, fim og fríð,

faðirinn er Krákur.

 

5. Gjafabréf í kassa (spænir frá Límtré, 5 pokar).

Hækkið boðin, hestamenn,

hógværð dugar ekki.

Víkingsdirfskan ólgar enn

ef ég bændur þekki!

 

2.12.12

Spenntur ég stekk upp úr stólnum!

Það er stórsýning úti á hólnum!

Á sviðið er díva,

hún Hundslappa-Drífa,

komin í mjallhvíta kjólnum.

 

20.12.12

Pétur Blöndal kom í Sunnlenska bókakaffið að lesa upp úr Limrubók sinni. Kvöldið áður hafði Kilju-Egill Helgason heimsótt hann heim til sín á Seltjarnarnes. Kvaddi Pétur í bókakaffinu með limru:

Pétur hann les og hann les,

limrurnar víst eru spes.

Hér stendur ‘ann hátt.

Stefnir þó lágt,

já, suður á Seltjarnarnes.

 

23.12.12

Jólakveðjan í ár:

Er skuggarnir skríða’ uppá hól

í skammdegi, norður við pól,

á ljósið má benda,

og með logunum senda

gæfu og gleðileg jól.

 

Enn sækja að freistingafól

með falsið og innantómt gól.

En lausnin er kær:

Líttu þér nær

um gæfu og gleðileg jól.

 

Hve Siggi er sætur í kjól

og Solla með hangandi „tól“.

Ef straumi mót syndið

veitir umburðarlyndið

gæfu og gleðileg jól.

 

Í fjölskyldufaðmi er skjól.

Hann er friðar- og kærleikans ból.

Þar ávallt þú veist

að geturðu treyst

á gæfu og gleðileg jól.