Vafningsríma

Loks er varpað ljósi á
langa Vafningsfléttu.
Af sögu þeirri sjálfsagt fá
sumir hryllingsgrettu.

Sýna málsins sakargögn
að sagan, rétt ég vona,
er í stuttri endursögn
einhvernveginn svona:

Bræður tvennir bralla margt,
banka hyggjast kaupa.
Vilja gjarnan græða skart,
með gull í vösum raupa.

Saman eiga þessir Þátt,
þaðan mikinn vilja’ arð.
Morgan Stanleys góna’ á gátt
og grenja’ út tugamilljarð.

Kaupa’ í Glitni sjö prósent,
svífa’ á gróðavegi!
Óðar samt er lánið lent
á lokagreiðsludegi.

Uppgjör því til fjandans fer,
með félagssjóði blanka.
Til lausnar þrautalending er
lán frá keyptum banka!

Reglum samkvæmt meira má
Milestone ekki lána.
Forða Þáttur engan á,
útlit bjart að grána.

Til bjargar sjóða svikavef,
seint þó finnist vitni.
Annars tekin yrðu bréf
sem áttu þeir í Glitni!

Sveins- og Wernerssynirnir
sjá nú vonir dofna.
Leysa vandann, vinirnir,
Vafning nýjan stofna!

Skyldi lán til Vafnings veitt
en velt svo beint til Þáttar
svo milljarðana gætu greitt
og gleiðir lagst til náttar.

En Vafning þarf að veita fé
svo veð sé fyrir láni!
Lífsvon Sjóvar lét í té
lyfjakeðjubjáni.

Nú aðeins vantar undirskrift!
Er þá nokkur heima?
Ef enginn getur armi lyft
má öllu þessu gleyma!

Þó ekki verði öllu náð
sem enn mun talið hreinna.
Þeir hafa undir rifi ráð
og redda þessu seinna.

Til Milestone bara færa féð
úr fúnum Glitnis aski.
Þáttarskuldin þvegin með
þokkapiltabraski.

Lagaregluverkið var
með vilja þarna brotið
er lítilsigldir lúserar,
léku djarft og rotið?

Hið nýja félag fullgilt var
fjórum dögum síðar.
Með traustum Sjóvárbréfum bar
bankaskuldir fríðar.

Nú er loksins Vafnings veð
vottað, eftir baslið,
lánið hægt að möndla með
og millifæra draslið.

Hefst nú siðlaust sjónarspil,
samningurinn skráður,
(með falsi grófu færður til)
fjórum dögum áður!

Aðeins verður vandamál
ef vitnast þessi flétta:
Yrði drísildjöflum hál
dagsetningin rétta!

Fram þá stígur Bjarni Ben.
til bjargar, ættarsprotinn.
Pennann glaður grípur – en
gjörningurinn rotinn.

Skjalið virðist skíraglit,
skrautritað með „heading“!
Eðli þess með öðrum lit,
algjör skítaredding.

Bjarni nú sinn tíma tók
að tæma bankahólfin.
Veit að senn mun bankinn „broke“,
brostin hallargólfin.

Vafningsskuld að vonum greidd
með vænu láni’ í Glitni!!
Summan gegnum Svartháf reidd.
Sýnist púkinn fitni!

Greitt til baka bara smá
brot af lánsins virði:
Borgar þjóðin þaðan frá
þeirra skuldabyrði.

Útrás landið vefur vor
víkingsfrægðarljóma.
Í bankainnrás eðlisþor
æðstan veitir sóma.

Saga þessi aðeins er
almennt, lítið dæmi
um sigra þegar saman fer
snilld og íslenskt næmi.

One way ticket to the pole

Bessastaðabóndinn kvað vera á leið á Suðurpólinn, í boði helstu héraðshöfðingja westan hafs. Ekki sjá allir þá utanlandsför sömu augum:

Á Bessastöðum björt er sól,
þar á Brúnastaðaundrið skjól
því Ólaf vill á veldisstól.
Jóka draum um annan ól,
í orðum draum sinn þannig  fól:
„One way ticket to the pole“!

Í þykkum sveimi

Vigdís Hauksdóttir hefur oft glatt landsmenn með gjammi sínu. Nýjasta yfirlýsingin var um að daun legði af Samfylkingunni:

Vigdís í þykkum sveimi sést,
súrnar gamla brýnið.
Er finnur eigin fýlupest
hún fitjar upp á trýnið.

Viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðismanna við ráðningu Jóhanns Haukssonar í starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafa verið á þann veg að mætur maður sagði að halda mætti að þeir sjálfir væru „saklaus, krullhærð lömb“ að vori:

Íhald og Framsókn lömbin ljúf
sem leika frjáls um börðin.
Er saklaus dilla dindilstúf,
detta aldinspörðin.

Alþingistíðindi

Sigmundur Ernir var í útlöndum og varamaðurinn mættur um langan veg til að leysa hann af á meðan, í atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu á afturköllunartillögu Bjarna V. Benediktssonar:

Sætt er heimsins ljúfa líf
og lag að Ernir þetta kanni
á meðan Ásta stendur stíf
og stuggar burtu varamanni.

Fleiri voru í útlöndum. Össur flýtti sér heim til að greiða atkvæði, einhverjir (illar tungur?) segja að það hafi ekki eingöngu verið til að gæta Geirs, bróður síns:

Út í heimi styttir starf
því stefnu vill hann eyða.
Yfir gamlan, Össur þarf,
eigin skít að breiða.

Uppnám í grasrót VG vegna umpólunar Ögmundar, manns réttlætisins. Því er haldið fram að hann vilji íhaldið, já raunar allt, frekar en Steingrím:

Hí á Steingrím! Hefnt sín gat,
hugann litar sorti.
Orku fyrir endurmat
Ögmund hvergi skorti.

Mjög er innra eðlið hreint:
Yndið himnafeðra
ekki lengur getur greint
Grím frá þeim í neðra.

Einhverjir voru handvissir um að ákæra Geir Haarde á sínum tíma, en virðist nú hafa snúist hugur, m.a. sumir þeirra sem sátu í Atlanefndinni og lögðu ákæruna sjálfir til að lokinni ítarlegri skoðun málsins:

Áður höfðu ákært Geir
-einhver von á þingi-.
Núna settu niður þeir
Nonni, lambið, Ingi.

Nefndarformaðurinn sjálfur, fyrrum meintur „pólitískur galdrabrennuforingi“ er einn þeirra sem snúist hefur á sveif með fyrrum óvinum sínum og óvægnum gagnrýnendum á Morgunblaðinu og víðar:

Villiköttur vill í hark,
vissu fyrri selur.
Um það höfum órækt mark:
Atli þrisvar gelur.

Nú er svo komið að kjósendum er ómögulegt að átta sig á því hver er hvað á Alþingi og fyrir hvað þingmenn standa, ef þeir standa þá fyrir nokkuð?

Þingmenn frábær fyrirmynd,
fræg er þeirra kynngi!
Um sali, eins og sóttarkind,
snúast þeir í hringi.

 

Örríma við áramót

1. Hringhent

Líður senn að lokum árs,
lífs þá enn hefst gangur.
Yfir fennir tildrög társ,
tíminn kennir strangur.

Mannakyn sér gefi grið,
gæfu skynji ríka.
Gleðjist vinir! Fróðafrið
finni hinir líka.

Hagur flestra stóð í stað,
strembin mesta törnin.
Sinnið nestum, sýnum að
sókn er besta vörnin.

2. Ferskeytt

Innsta kjarna eigin lífs
ákaft margir leita.
Bitur eggin, bakki hnífs,
biðlund eða streita?

Hvað mig vantar, hvað ég þarf,
um hvað mér ekki neita?
Það sem elti þigg í arf
og það mun öðrum veita.

Ósk um nýárs brotið blað
og birtu eftir stritið.
Kveðjum hrun, en þekkjum það
þegar við er litið.

3. Braghent

Hamingjan í hagvextinum hímir ekki.
Nægjusemi, það ég þekki,
þykka brýtur græðgishlekki.

Aukum jöfnuð, elskum friðinn, alla seðjum
og á glæstar vonir veðjum;
verndum, huggum, styrkjum, gleðjum.

Kveðjum árið! Keyrðum það á kanti hálum?
Mót nýju gakk með gamanmálum!
Glösum lyftum! Syngjum! Skálum!

Jólagleði

Hafi vinur keyrt í kaf
af kreppuþján og streði,
honum gefðu ómælt af
ást og jólagleði.

Veistu þann er styðst við staf,
stirðan mjög í geði?
Þessum veittu ómælt af
ást og jólagleði.

Sigli einn um úfið haf
og allt hans líf að veði,
í bæn þeim sendu ómælt af
ást og jólagleði.

Manstu einn sem eftir gaf
við óhapp, sem að skeði?
Færðu honum ómælt af
ást og jólagleði.

Enn af þeim er aleinn svaf
oft á sjúkrabeði.
Kveðju sendu, og ómælt af
ást og jólagleði.