Af pólitískum væringum

Vangaveltur hafa verið í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir t.d.: „Katrín í stað Oddnýjar-Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,
broddur stingur svoddan.
Kötu skiptir inná, en
Odda leggst á koddann.

Þá var Guðmundur Rúnar Árnason ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV segist hafa heimildir fyrir því að Össur utanríksiráðherra hafi verið með puttana í málinu og Smugan slær því upp að ráðinn hafi verið „hæfasti Samfylkingarmaðurinn“. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur í DV fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlægt farið málið með,
matið faglegt hljómar þanninn:
Össur, jafnan röskur, réð
rétta Samfylkingarmanninn!

Kærleiksheimilið

Ef ég man rétt sagði vitur maður (HKL) eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forsetinn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „posh-ið“ landið.

Fanna skautar faldi háum

Gönguferð Abbalabba (gönguhóps starfsfólks F.Su.) frá Skálpanesi, um Jarlhettur, að Einifelli, Hlöðuvöllum, á Skjaldbreið, að Kerlingu, um Klukkuskarð og Skillandsdal að Laugarvatni, lauk sl. föstudag. Skemmtileg ferð í stórbrotinni náttúru með stórbrotnum félögum. Ort á toppi Skjaldbreiðs:

Á toppi Skjaldbreiðs: „Fanna skautar faldi háum…“

Geng á háan Skjaldbreið, skoða
skíragullin fjallaranns.
Sköpun elds og ísa goða
ætíð greipt í huga manns.

Á göngu frá Kerlingu að Klukkuskarði varð til þessi vísnagáta. Um að gera að ráða hana og setja lausnina, sem er stakt orð, íslenskt nafn, í athugasemdakerfið:

Þessi einhver styðst við staf.
Stríðinn Óðinn svörin gaf.
Skjaldborg nafni í sælu svaf.
Sést á Neti vísnaskraf.

Og efst í Klukkuskarði, þegar hver á fætur öðrum brölti upp síðustu brekkuna, með einlægt bros á vör:

Síst á Abbalöbbu lát,
lokabrattann marði.
Upp sig glennti ofsakát
efst í Klukkuskarði.

Góður er volgur sopinn

Nú er sá tími þegar ungviðið skilar sér í heiminn. Sauðburður víðast langt kominn og hryssur margar kastaðar. Þó hér sunnan heiða hafi ekki gert áhlaupaveður með stórhríð hafa ekki verið nein hlýindi og gróður í biðstöðu, úthagi víðast sinugrár, enda hörku næturfrost undanfarna viku eða svo og himinn kuldablár. Hætt er við því að „fegurð himinsins“ megi sín lítils í lífi nýfædds folalds gagnvart napurri norðangjólunni. En alltaf má leita huggunar í volgan sopann!

Nýfædd Þóroddsdóttir. Móðirin Spurning u. Loga frá Skarði og Kotru, dóttur Galdurs og Eirar frá Laugarvatni

Himinn blár, en horfinn snjár,
hagans grár er feldur.
Nóttin ári nú er sár,
Norðan-Kári veldur.

Allar heimsins mæður

Mæðradagurinn er í dag. Fæstir eiga öðrum en mæðrum sínum meira að þakka og óbreyttir jafnt sem andans jöfrar hafa hyllt þær í verkum og orðum, sumir ódauðlega. Ég legg þetta í púkkið og læt fylgja með mynd af móður minni, sem ég á allt að þakka.

Mamma

Aldrei gleymist ástarþel,
æsku- dreymir glæður.
Innri geyma eldinn vel
allar heimsins mæður.

Vorið (góða grænt og) hlýtt?

Mikið er nú fagurt út að líta þessa dagana. Alla vega hérna sunnanlands. Og stúdentar úttöluðu sig í gær, í sjónvarpi allra landsmanna, um prófabölið við þessar aðstæður. Þetta er víst eilífðarmál?

Sólin skín af himni heiðum,
hengir lín á gylltan baug.
Faðminn sýnir foldarbreiðum,
fangar mína innstu taug.

Það er samt ólíklegt að blessaðir stúdentarnir endist lengi úti við:

Værðarfullur vindur ber
um vorið bull og skvaldur.
Gamla rullan, ennþá er
alveg drullukaldur.

Samræður bannaðar

Þórólfur Matthíasson vogaði sér að leggja fram opinberlega nokkrar spurningar, eftir að hafa kynnt sér ársreikninga Bændasamtaka Íslands. Þetta sýndust vera nokkuð kurteislegar spurningar og ekki óeðlilegar – jafnvel hægt að færa að því rök að þær, og svörin ef einhver bærust, skiptu máli.

En ekki mátti þetta. Upphófust nú draugar ýmsir með venjubundar svívirðingar á hendur hagfræðingnum, sem mun ekki hafa „æskilegar skoðanir“ fyrir starfsmann Háskóla íslands og ef marka má  orð t.d. helstu hugmyndafræðinga Framsóknarflokksins má búast við því að Þórólfur verði rekinn úr starfi sínu ef flokkurinn kemst aftur til valda. Nú er sökin sem sagt ekki óæskileg, úrkynjuð og óþjóðleg list heldur skoðanir. Líkur eru á því að þá fái fleiri að fjúka.

En lykilatriðið er þetta: Ekki spyrja Bændasamtökin um neitt, nema þau semji sjálf spurningarnar. Engar umræður, takk, um það hvernig Bændasamtökin fara með þá fjármuni sem skattgreiðendur láta þeim í té.

Þetta viðhorf er uppi víðar – of langt mál væri að telja það allt. Alls ekki má ræða við Evrópusambandið, alls ekki heldur um breytingar á stjórnarskránni og kvótakerfinu, svo nokkur af hinum stærri málum séu nefnd.

Og stjórnarandstaðan niðri á þingi kappkostar að koma í veg fyrir allar samræður. Þingmenn úr því liði eyða klukkustund eftir klukkustund, heilu sólarhringunum, í það að fjasa sín í milli um það að alls ekki sé nægur tími gefinn til að ræða þetta eða hitt málið, í stað þess að nýta tímann til að ræða þau skipulega og markvisst með rökum.

Getur verið að við eigum það skilið að sitja undir þessu?

Ekki spyrja um það má,
einn skal kyrja sönginn,
sannleik yrja; senn mun þá
sálar byrja þröngin.

Fagurt er á fjöllum

Mynd

Efst á Hellisheiði,Á Hellisheiði10.0811
við heillandi sólarglit,
sit ég glaður á Seiði
með svolítinn kinnalit!

Trausti vinurinn teygar,
taktfast við lækjarhjal,
dýrustu veraldarveigar
-vatnið í fjallasal.

Fagurt er jafnan á fjöllum,
finn þar hinn tæra hljóm.
Anda, með vitunum öllum,
að mér þeim helgidóm.

Mér best á öræfum uni,
andinn mig þangað ber.
Finnst þar eins og að funi
frelsið innan í mér.

 

Sproti

Meðfylgjandi mynd sendi Hreinn bróðir af Sprota sínum, syni Spátu (dóttur Galdurs og Spár) og Þórodds. Þarna er folinn á frumstigi tamningar og leynir sér ekki mýktin í spori og glæsileikinn í framgöngu. Sendi honum eina vísu:

Prúður gengur folinn frjáls
fögrum litnum skartar.
Með vind í faxi vefur háls,
vonir kveikir bjartar.

Í krapasulli

Magnús Halldórsson, hestamaður og hagyrðingur á Hvolsvelli, sendi mér meðfylgjandi mynd af sér á Stuðli sínum með fyrirsöginni: Gamall maður á ágætum hesti. Sagðist hafa verið á útreiðum í krapasulli, sem þó væri óvanaleg færð á þeim slóðum.Magnús og Stuðull í flugtaki

Ég sendi honum þessa vísu til baka:

Í krapasulli karlinn gamli
keyrir ljóðastaf.
Flugtak nálgast, helst að hamli
að hettan fýkur af.

Magnús svaraði um hæl:

Hæðum andans helst ég næ,
huga minn þá næri.
Ef ljóðstafina letrað fæ,
á listilegu færi.