Blasa við hörmungar heiminum í.
Hvenær gefum við illskunni frí?
Hvað er fallegra’ en friður á jörð?
Hví forðast mannkynið sáttagjörð?
Þurfum við þrautum að valda?
Um kúgun og ójöfnuð vitum við vel,
um vonleysi, fátæktar lokuðu skel.
Þó þrotlaust um ævi sé stritað við starf,
stöðugt allsnöktum keisurum þarf
blóðug gjöldin að gjalda.
„Meðaltalskaupmáttur mikill“, er sagt,
og í moðsuðu’ um jöfnuð útaf því lagt
en lítið það dugar um mánaðamót
ef matbjörg er þrotin, engin sést bót,
og herðir að krumlan hin kalda.
Sá aðeins telst maður sem ætíð er hress
á yfirsnúningi, dæmdur til þess
að fljóta viljalaus meginstraumi’ með,
á móti að róa er ekki vel séð,
í móinn ei vinsælt að malda.
Að berjast í nauðum við heiminn er hart,
því hamingju kjósum, að útlit sé bjart.
Á mennina kökunni misjafnt er skipt
og mörg þykka sneiðin með rjóma er typpt,
en enginn þarf á því að halda!
Þó „allt sé í heiminum hverfult“ og valt
við hér saman dveljum, þrátt fyrir allt,
svo kynþátta milli byggjum nú brú
og biðjum að kærleikur, von og trú
lifi um aldir alda.
Þó láti glatt, um greiðan veg í skjól,
þín gengin spor
er ferðalagið engum aðeins sól
og eilíft vor
en mörgum tamt að tefja lítið við,
að týna sér í fjöldans raddaklið.
Er unum sæl við stundarglys og glaum
við gleymum því
að ljósi, sem þarf að eins lágan straum,
ei lifir í;
því heimsins gæðum gjarnan rangt er skipt
svo gleði, von og lífi fólk er svipt.
Ég finn í hjarta sorg og sinnuskort,
já, sáran sting,
þó gæfan hafi margan óðinn ort
mig allt um kring.
Er borin von að trúin flytji fjöll,
að flærð sé eytt, í kærleik lifum öll?
(Lag: Lýs, milda ljós: Charles Henry Purday / Matthías Jochumsson)
Áramótakveðja 2022-2023
Nú er liðið enn eitt ár,
alltaf fortíð lengist.
Lífið að mér dregur dár,
að draumum stöðugt þrengist,
þó mínar helstu heillaþrár
hafi eftir gengist.
Brestir, dáðir, bros og tár
í brjósti og huga tengist
svo að verði sálin klár
er svarið yfir dengist.
Að þægindunum þýfð er slóð,
þröngt að gæðum hliðið.
Klærnar sýnir klíkustóð
í kvótavafning riðið.
Frá mér áfram heyrist hljóð
úr horni, er lít um sviðið.
Óska að verði ártíð góð,
ærlegt stefnumiðið
og vakni af blundi þessi þjóð.
Ég þakka fyrir liðið.