Fátæk þjóð

Fátæk þjóð 1944 – og 2024

Hér að neðan eru birtir bútar úr grein sem Halldór Kiljan laxness skrifaði árið 1944, „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Fátt virðist hafa breyst síðan. Greinin talar beint inn í samtíma okkar árið 2024: þrugl afturhaldsins um listamannalaun, um „ræningjalýðinn“, sem nú er að vísu innlend elíta en ekki útlendingar fyrr á tímum, „sem áttu hlut að Íslandsversluninni“, og í staðinn fyrir þáverandi skort á  nauðsynlegum innviðum; snæri til að hengja sig, spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, er nú langt komið með að eyðileggja velferðarkerfið sem alþýða þessa lands byggði upp á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir einarða andstöðu auðvaldsins. Halda áfram að lesa

Spillingarsaga V – Landssímasukkið hið síðara

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023: bls. 299-307).

Elítan í Sjálfstæðisflokknum gjörnýtti sannarlega ríkisfyrirtækið Landssímann til óhæfuverka á markaði. Segja má að frjálshyggjupostularnir hafi ríkisvætt hátæknigeirann og sukkað gróflega með opinbert fé til að koma einkafyrirtæki fyrir kattarnef og hindra samkeppni. Fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar var samið og lagt fram til að drepa Norðurljós og Stöð 2, enda í „óæskilegri eigu“. Þegar sú vegferð (sem væri fullt tilefni til að rekja hér, en einhvers staðar verður að setja mörkin) fór út um þúfur þurfti Davíð að beita öðrum meðulum en löggjafarvaldinu til að drepa samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Elítan hafði fulla stjórn á ríkismiðlunum og nú var Landssímanum beitt eins og hverju öðru stríðstóli gegn hinu voðalega fyrirbæri: „Frjálsri samkeppni“. Halda áfram að lesa

Spillingarsaga IV – Landssíminn  spillingarvæddur

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Landssími Íslands, síðar Landssíminn, réði um miðjan 10. áratug 20. aldar yfir miklum auði og þekkingu í skjóli einokunar á símaþjónustu, m.a. ljósleiðaranetinu. Að honum sneri Eimreiðarelítan græðgisglyrnum sínum, eftir stöðugar ófarir við að koma á fót einkarekinni sjónvarpsstöð (Stöð 3), í valdafíkn sinni yfir fjölmiðlun í landinu. Halda áfram að lesa

Spillingarsaga III – BÚR í Hvalskjaft

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Áður en kemur að Landssíma Íslands, einhverju hroðalegasta dæminu um einkavæðingarspillingu í Íslandssögunni, er gott að skoða upphaf spillvæðingarinnar.

Eitt fyrsta verk Davíðs Oddssonar, eftir að hann tók við embætti Borgarstjóra í Reykjavík 1983, var að hefja einkavæðingarferli Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ferlið hófst með því að Davíð „rak umsvifalaust tvo framkvæmdastjóra BÚR og réð stórvin sinn og félaga úr Eimreiðarhópnum, Brynjólf Bjarnason, sem framkvæmdastjóra, án auglýsingar. Mann sem aldrei hafði stýrt útgerð en hafði góða reynslu af bókaútgáfu Sjálfstæðisflokksins í Almenna bókafélaginu“ (bls. 103). Halda áfram að lesa

Spillingarsaga II – að „fara vel með annarra manna fé“

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Í síðasta pistli var rakin árásin á Ríkisútvarpið. Það er fróðlegt að skoða þá umfjöllun í samhengi við viðtal við Auðun Georg Ólafsson í Heimildinni #26 (26. tbl., 1. árg. 20.-26. okt. 2023, bls. 24-28). Þar kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði, auðvitað í samkrulli með Framsóknarflokknum í helmingaskiptaspillingunni, að munstra í fréttastjórastólinn hjá fréttastofu sjónvarpsins einstakling sem ekki var metinn faglega hæfastur, en klíkan taldi að yrði sér leiðitamari en aðrir umsækjendur. Ráðningunni var harðlega mótmælt. Halda áfram að lesa

Spillingarsaga I – Glæpur skekur ríkisútvarpið (skrifað 15.10.2023)

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar: Eimreiðarelítan – Spillingarsaga  (Steinason ehf. Reykjavík, 2023, bls. 111-116).

Hinn víðfemi forarpyttur Kolkrabbans sem hefur seitlað úr um allt þjóðfélagið, a.m.k. allan lýðveldistímann fram á okkar daga, er illþefjandi. Eimreiðarelítan komst til valda í borginni, og Sjálfstæðisflokknum með kjöri Davíðs Oddssonar upp úr 1980, og hóf þegar gegndarlausa valdasókn á öllum sviðum samfélagsins. En löngu fyrr var hafið „menningarstríð“, með stofnun Almenna bókafélagsins 1955. Halda áfram að lesa

Er Reykjavík verst rekna sveitarfélagið?

Mikið hefur verið rætt og ritað um slaka fjárhagsstöðu sveitarfélaganna undanfarið – og sú umræða hefur svo sem verið viðvarandi í áratugi, a.m.k. allar götur sína ég hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum fyrir kosningarnar 2002. Nýlega var t.d. staða Árborgar í fréttum, og í kjölfarið uppsagnir hátt í 60 manns, auðvitað mest láglaunafólks sem síður má við skakkaföllum skv. yfirlýsingum stéttarfélaga á svæðinu.
 
 
En hvað mest áberandi hefur verið stöðugur „fréttaflutningur“ (set þetta orð innan gæsalappa, því „söguburður“ væri meira viðeigandi í ljósi þess sem síðar kemur fram) af stöðu Reykjavíkurborgar, sem skv. „bestu og traustustu miðlum“ (set þetta innan gæsalappa því vísað er í Morgunblaðið og miðla þess) er að þrotum komin og að því er virðist af sögunum eina sveitarfélagið sem á í vanda.
Því var það upplýsandi að lesa samantekt í Heimild dagsins um stöðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur skýrt fram að Reykjavíkurborg stendur fjárhagslega hvað best allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og MUN BETUR en flest nágrannasveitarfélögin sem samt verja hlutfallslega MUN MINNA fé af skatttekjum til félagslegra úrræða. Þetta hafði Þorvarður Hjaltason líka bent á fyrir ekki löngu síðan í ágætri úttekt á Facebook, með því að rýna í tölur í Árbók sveitarfélaganna, ef ég man rétt.
 
Skuldahlutfall A-hluta reksturs Reykjavíkur, þess hluta sem fjármagnaður er með skatttekjum, var 112% um síðustu áramót, sem vissulega er neikvæð staða, skuldir eru meiri en tekjur. Kópavogsbær er á pari við Rvk. með 111% en Hafnarfjörður 136%, Mosfellsbær 133% og einka- og erfðasvæði Sjálfstæðisflokksins, Garðabær (125%) og Seltjarnarnes (130%) skulda bæði mun meira umfram tekjur en Reykjavík, þrátt fyrir að nota miklu minna af skatttekjum til félagslegra úrræða. Hvers lags fjármálaóreiða og óstjórn er þar á ferðinni?
 
Ef litið er til skulda á hvern íbúa þá er staða Reykvíkinga líka mun betri en annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hver Reykvíkingur þyrfti að reiða fram kr. 1.247.000,- ef gera ætti upp skuldirnar, Hafnfirðingurinn 1.695.000, Mosfellingurinn 1.502.000, Garðbæingurinn 1.530.000 og Seltirningurinn 1.455.000. Aðeins Kópavogsbúinn slyppi með lægri greiðslu en Reykvíkingurinn, eða 1.209.000.
 
Þriðja atriðið er sk. veltufjárhlutfall, sem segir til um peningalega stöðu um áramót, lausafjárstöðu sveitarsjóðs, og hvort sveitarfélagið eigi fyrir launagreiðslum, afborgunum og öðrum útgjöldum á komandin ári. Ef veltufjárhlutfallið er 1,0 eða hærra sleppur það til en ef það er undir 1,0 þarf að taka lán fyrir nauðsynlegum útgjöldum, spara með því t.d. að segja upp fólki, selja eignir eða grípa til viðlíka aðgerða.
 
Þó undarlegt megi virðast miðað við Moggann, þá er veltufjárhlutfall Reykjavíkur betra en allra nágrannasveitarfélaganna, eða 1,1. Hafnfirðingar áttu líka lausafé fyrir útgjöldum með hlutfallið 1,0 en öll hin voru í mínus: Kópavogur 0,4, Garðabær 0,6, Mosfellsbær 0,6 og Seltjarnarnes 0,4.
Ofan á þetta bætist að rekstur Reykjavíkur er þyngri en allra hinna sveitarfélaganna vegna yfirburða höfuðborgarinnar þegar kemur að félagslegri þjónustu við íbúana, skv. tölum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2021.
 
-74% allra félagslegra íbúða á þessu svæði eru í Reykjavík.
-Hver íbúi í Rvk. greiddi 269.877 kr vegna veittrar félagsþjónustu, hver Kópavogsbúi 142.701, hver Garðbæingur 145.349, hver Seltirningur 155.326.
-30% af skatttekjum Reykvíkinga fóru í félagsþjónustu en 16% í Garðabæ og 18% á Seltjarnarnesi.
-Reykvíkingar greiða líka mest allra per íbúa í fjárhagsaðstoð og þjónustu við aldraða.
 
Í B-hluta rekstrar sveitarfélaga eru fyrirtæki í fullri eða hlutaeigu þeirra, t.d. Orkuveitan og Félagsbústaðir í Rvk. en einnig fyrirtæki sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga og reka sameiginlega. Þessi fyrirtæki geta skuldað háar upphæðir og því er freistnivandi að bæta þeim skuldum inn í heildarskuldastöðuna til að dæmið líti verr út, jafnvel þó fyrirtækin skili miklum arði og séu fullfær um að borga skuldir sínar án þess þurfi að nota beinar skatttekjur til þess.
 
Af þessu má ráða að umræðan um skuldavanda og óstjórn við rekstur Reykjavíkurborgar er ekki aðeins byggð á sandi, heldur er um beinar blekkingar að ræða og pólitískan áróður, því það er náttúrulega óþolandi að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni ekki borginni, og mun vænlegra að koma henni í flokk með þeim nágrannasveitarfélögunum sem Flokkurinn stjórnar, sveitarfélögum sem skulda meira per íbúa og hafa bæði verra skuldahlutfall og veltufjárhlutfall en höfuðborgin, undir stjórn hins voðalega Dags B. Eggertssonar og félaga hans.
 
Þegar allt kemur til alls eru sveitarfélögin í rekstrarvanda. Ríkisvaldið hefur velt yfir á þau hverju vanfjármagnaða verkefninu af öðru undanfarna áratugi, grunnskólunum, öldrunarþjónustu, málefnum fatlaðra o.s.frv.
 
Upphrópanir íhaldsins í Reykjavík og áróðurssnepils þess og auðstéttarinnar í landinu um óstjórn Reykjavíkurborgar, en æpandi þögn um VERRI STÖÐU nágrannasveitarfélaganna sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar og hefur gert lengur en elstu menn muna, standast enga skoðun.
Það ættu þeir sem bergmála áróðurinn að hafa í huga.
 
Gæti verið mynd af texti
 

Halda áfram að lesa

Breytingar á skipulagsheildum

Skipulagsheild er hugtak úr stjórnsýslufræðum og vísar í grófum dráttum til hóps/samfélags fólks sem vinnur saman að markmiði/markmiðum. Skipulagsheildir eru t.d. lítil og stór fyrirtæki, íþróttafélög, verkalýðsfélög, stjórnmálaflokkar, sveitarfélög, Alþingi o.s.frv.

Í skipulagsheildum er hannað einhverskonar hírarkí, stjórnkerfi, sem getur verið mismunandi „flatt“ eða „lóðrétt“. Lýðræðislegar skipulagsheildir kjósa sér forystu, stjórn og leiðtoga í almennum kosningum meðal félagsmanna.

Skipulagsheildir með flatan strúktúr geta verið óskilvirkari, þar koma fleiri að ákvörðunum, sem er oft tímafrekara, enda er það þekktur frasi að „lýðræðið þvælist fyrir“.

Lóðrétt skipulag reiðir sig á fámennari yfirstjórn, ýktasta dæmið er einræði, þar sem allar ákvarðanir leka niður skipuritið frá einum einstaklingi á toppnum.

Skipulagsheildir eru ekki eyland. Þær starfa í síbreytilegu samfélagi. Þess vegna þurfa þær að vera „lifandi“. Skipulagsheild sem höggvin er í stein er „dæmd til að deyja“. Því geta verið fullkomlega málefnalegar og eðlilegar ástæður fyrir því að breyta skipulagsheildum. Það væri í raun ómálefnalegt að skoða ekki reglulega hvort ástæða sé til að breyta markmiðum og stjórnkerfi skipulagsheilda. Skipulagsheildum sem ekki þjóna á sem bestan hátt umbjóðendum sínum er nauðsynlegt að breyta.

Breytingar á skipulagsheildum geta, því miður, líka verið fullkomlega ómálefnalegar og gegn hagsmunum umbjóðendanna, gerðar eingöngu til að þjóna hagsmunum yfirstjórnar og/eða leiðtoga, eða öðrum annarlegum hagsmunum.

Sem dæmi um nýlegar og umdeildar breytingar á skipulagsheildum er uppstokkun á stjórnarráðinu, fjölgun ráðuneyta og tilfærsla verkefna milli þeirra. Þessar breytingar eru alfarið „lóðbeint niður á við“, þ.e.a.s. það eru forystumenn stjórnmálaflokka í ríkisstjórn sem ákveða þær einhliða. Hvorki starfsfólk stjórnarráðsins né umbjóðendur stjórnmálaleiðtoganna, kjósendur, voru spurðir álits. Umdeilt hefur verið hvort þessar breytingar þjóni fyrst og fremst umbjóðendunum, bæti þjónustu við almenning, eða metnaði stjórnmálamanna til að þjóna eigin lund og útdeila bitlingum til síns fólks. Þær kosta mörg hundruð milljónir og það eru ekki þeir sem tóku ákvörðunina sem borga brúsann, heldur almenningur, sem hafði ekkert um málið að segja.

Fleiri slíkar umdeildar breytingar á skipulagsheildum má nefna; færsla höfuðstöðva Fiskistofu til Sauðárkróks, færsla Landmælinga Íslands til Akraness. Þessar breytingar höfðu gríðarleg áhrif á fólkið sem þar vann, jafngilti uppsögn stórs hóps sérfræðinga og skrifstofufólks: Annað hvort flytur þú að heiman eða leitar þér að annarri vinnu. Ákvörðunin var tekin efst í hírarkíinu og þeir sem undirskipaðir voru skyldu hlýða. Málefnalegu rökin fyrir þessum breytingum voru „að færa opinber störf út á land“ en ekkert raunverulegt samráð við starfsfólkið viðhaft, enda vandséð hverju það hefði skilað: „take it or leave it“. „Samráðið“ snerist því í rauninni aðeins um það hvort starfsmenn vildu flytja með stofnuninni eða ekki.

Endalaust væri hægt að tína til dæmi um breytingar á skipulagsheildum, bæði vel heppnaðar og misheppnaðar.

Nú hefur nýlega lýðkjörinn meirihluti stjórnar verkalýðsfélgs ákveðið að breyta skipulagi á skrifstofu félagsins. Málefnalegu rökin fyrir breytingunum, sem boðaðar voru fyrir stjórnarkosningar eru, skv. því sem fram hefur komið í fjölmiðlum, m.a. aukið gagnsæi í launakjörum, t.d. afnám ógagnsærra fríðinda einstakra starfsmanna, jöfnun launabils milli hæstu og lægstu launa, breytingar á starfslýsingum og verkefnum starfa til að bæta þjónustu við félagsmenn. Hinn nýkjörni meirihluti stjórnar boðar aðrar áherslur en viðhafðar hafa verið um langt árabil og til þess að ná þeim markmiðum þurfi að breyta skipulaginu.

Það er í sjálfu sér málefnalegt sjónarmið. Starfsfólk er kjarasamningsbundið og breytingar á störfum og kjörum eru óheimilar, nema samkomulag náist um þær við viðkomandi starfsmann. Vinnustaðurinn er fjölmennur og af fyrri reynslu virðist útséð um að slíkt samkomulag náist, a.m.k. við hluta starfsmannanna, og einnig ljóst að sú leið myndi taka langan tíma. Því var gripið til þess ráðs að segja upp öllu starfsfólki og auglýsa endurskilgreind störf laus til umsóknar. Með þessu átti einnig að tryggja jafnræði, að allir sætu við sama borð.

Þetta er auðvitað umdeilt.

Vegna þess að það er algengara en ekki í íslensku spillingarsamfélagi að grípa til aðgerða af þessu tagi, að boða skipulagsbreytingar, segja upp starfsfólki eða að leggja niður störf, jafnvel að loka heilu stofnununum, til að losna við „óþægindi“ fyrir stjórnendur og pólitíkusa við gæslu sérhagsmuna, sjá margir engan annan tilgang stjórnar Eflingar með hópuppsögn á skrifstofu félagsins en að losa sig við óþægilega starfsmenn og ráða aðra þægilegri í staðinn. Þetta er það landslag sem helmingaskiptaflokkarnir hafa mótað allan lýðveldistímann, og lengur, og því er mörgu fólki vorkunn að líta svo á; það hvorki þekkir né skilur annan tilgang. Þess vegna grípur það til fordæminga og gífuryrða, jafnvel svo grófra að líkja formanni félagsins við einn mesta morðhund mannkynssögunnar.

Spyrja má: Á hluti starfsfólks á vinnustaðnum að hafa það vald að koma í veg fyrir að lýðræðislega kjörin stjórn nái markmiðum sínum um breytingar á skipulagi til að bæta þjónustu við félagsmenn?

Það mun ekki koma í ljós fyrr en breytingarnar eru um garð gengnar, stjórnsýslan farin að virka nokkurn veginn snuðrulaust, og allir búnir að gleyma málinu, hvort ákvörðun þriggja einstaklinga efst í hírarkíinu um 700 milljóna króna álögur á herðar almennings til að umbylta stjórnarráðinu sé málefnaleg; hvort hún leiði til betri og skilvirkari þjónustu við almenning, eða hvort hún var einungis til að þjóna lund formanns Framsóknarflokksins, við samsuðu stjórnarsáttmálans, um fleiri ráðherrastóla og bitlinga fyrir sitt fólk, í skiptum fyrir eitthvað annað fyrir hina formennina.

Á sama hátt verður ekki úr því skorið hvort skipulagsbreytingar á skrifstofu Eflingar eru málefnalegar og leiði til aukins gagnsæis og skilvirkni, og betri þjónustu við félagsmenn, eða einungis til þess fallnar að losa formann og meirihluta stjórnar við óþægilega starfsmenn, fyrr en breytingarnar eru um garð gengnar og reynsla komin á nýja skipulagið.

Það er augljóst að Sólveig Anna Jónsdóttir hefur verið ódeig baráttukona fyrir réttindum fátæks og jaðarsetts láglaunafólks og náð miklu betri árangri í kjarasamningum fyrir sitt fólk en aðrir verkalýðsleiðtogar hafa gert um langa hríð. Það er líka augljóst að hún leggur meiri áherslu á í starfi sínu að berjast fyrir bættum kjörum félagsfólks en að strjúka starfsfólki á skrifstofunni um kviðinn.

Sú stefna er umdeild og mörgum liði mikið betur ef þessu væri öfugt farið; að formaðurinn legði meiri áhersla á að loftræstingin á skrifstofunni væri færð til betri vegar og stofuhiti þar ávallt notalegur, en skipti sér minna af því að „kellingarnar í umönnunarstörfunum“ þurfi að hlaupa stöðugt hraðar til að bjarga næstu máltíð fyrir börnin sín, eins og þær hafa gert afskiptalitlar um aldir.

Vegna einbeittrar og árangursríkrar baráttu Sólveigar Önnu og hennar fólks við auðvaldið fyrir bættum kjörum láglaunafólks ætla ég að láta hana njóta vafans um tilgang skipulagsbreytinga á skrifstofu Eflingar. Þar til annað kemur í ljós.

Árið 2021

Árið 2021 er að renna sitt skeið á enda. Eins og hjá öðrum landsmönnum skiptust á skin og skúrir hjá okkur. Við hefðum t.d. gjarnan viljað vera meira á ferðinni, en þegar á allt er litið höfum við undan engu að kvarta. Við komumust þó til Stokkhólms í haustfríinu til að heimsækja litlu fjölskylduna okkar þar, en tengdadóttirin Bryndís Dagmar hóf sérnám sitt í endurhæfingalækningum síðsumars.This image has an empty alt attribute; its file name is Sif-2.jpg Það hefur verið svo að þegar ein fjölskyldan flytur heim, þá fer önnur af landi brott. Myndsímtöl eru svo alveg dásamleg tækni sem bjargar miklu þegar söknuðurinn knýr á.

Þó heilsan hefði mátt vera betri á köflum er næsta víst að aðrir höfðu það verra, minna milli handa og meiri erfiðleika við að stríða. Við hjónin eigum líka því láni að fagna að geta unað hvort við annað heima hjá okkur, að mestu án stríðsátaka, höfum lafað saman í tæp 39 ár og því orðin ágætlega sjóuð hvort í öðru. Við gefum lítið fyrir þá bábilju að það sé einhverskonar frelsisskerðing að njóta friðar á eigin heimili í sóttvarnaskyni, sjálfum okkur og öðrum til heilla.

Það sem stendur upp úr á árinu er að gæfan hefur gengið okkur við hlið og afkomenda okkar, allri fjölskyldunni. Þó ekki hafi allir lokið einhverjum „stóráföngum“ er okkur löngu orðið ljóst aðThis image has an empty alt attribute; its file name is Margrét-3.jpg mesta vegtyllan, alla vega hérna megin grafar, er heilsa og hamingja. Hvor tveggja hafa þær sannarlega verið með okkur öllum í liði.

Nokkra „hápunkta“ má þó nefna hér. Nýtt barnabarn bættist í hópinn, og fékk nafnið Sif, dóttir Ara og Rebekku Rutar. Hún er alveg jafn dásamleg og öll hin 9 barnabörnin okkar. Sveir mér ef hún er ekki fegursta barn sem fæddist á árinu, og ekkert bara „norðan Alpafjalla“. 

Þá bættust tvær stórglæsilegar stúdínur í hópinn, þegar Margrét útskrifaðist frá VÍ í maí og JasmínThis image has an empty alt attribute; its file name is Soffía.jpg frá FÁ núna í desember. Þessar ungu konur eru báðar á grænni grein og amma og afiThis image has an empty alt attribute; its file name is Raggi-2.jpg auðvitað alveg gríðarlega stolt af stóru stelpunum sínum. Þriðja glæsistúlkan í hópi barnabarna, hún Soffía Sif, kláraði grunnskólann og hóf nám í Borgó í haust. Og að lokum lauk Raggi tengdasonur námi í meistaraskólanum og ber nú titilinn Trésmíða- og byggingameistari.

Á næsta ári er von á þriðju stúdínunni, fermingu, og gott ef ekki stórafmæli! Já, já, já. Það er víst ekkert lát á þeim, sem minnir á að sá sem hér ritar náði þeim áfanga að verða sextugur og átti því láni að fagna að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Um meira verður ekki beðið. 

Það sem hefur miður farið á árinu er að mestu takmarkað við hið pólitíska svið. „Æi, er ekki bara best að gera ekki neitt af viti“ lýsir því best. Engar hugsjónir, ekkert frumkvæði, engar umbætur eða nýjungar. Bara haldið áfram á sjálfstýringu á sömu, gömlu spillingarateinunum. Vonarstjarnan Kartín Jakobsdóttir, sem gekk í björg fyrir fjórum árum, lokaði í haust á eftir sér og dansar í myrkrinu með tröllunum – á ekki afturkvæmt að séð verður, því miður. Ekki meira um þá hörmungarsögu alla, nóg að vísa í upplýsandi umfjöllun HÉR og HÉR.

Eins og lofthjúpurinn og náttúran einkennist mannlífið af síauknum öfgum og firringu. Það fyrra auðvitað afleiðing af því síðartalda. Það eru hamfaratímar með gróðureldum, skýstrókum, flóðum, hitabylgjum, drepsóttum, stöðugum stríðsátökum, ofbeldi, einelti og „útilokunarmenningu“. Samfélagsumræðan fer um eins og skýstrókur og skilur eftir sig auðn og eyðileggingu. Hvert fárið af öðru skellur á. Hvað ætli taki við af „blóðmerafárinu“? Það er tímanna tákn að hópur sem berst að eigin sögn gegn ofbeldi og fyrir jafnrétti skuli velja sér nafnið „Öfgar“. Stöðva öfgar ofbeldi? Leiða þær til jafnræðis? 

Nei, fetum aðra slóð. Blásum í glæður hugsjónar um frið, jöfnuð, og manngildi. Höfum hugrekki til að breyta samfélaginu til batnaðar en stöndum ekki kyr með hendur í vösum meðan forréttindalestin brunar hjá.

Megi þjóðin upp af vanans ánauð 

og óráðssvefni vakna.

Hún vaxi upp úr firringu og finni

úr fllækjum sálar rakna.

Árið gefi hamingju og heilsu

og huggi þá er sakna.

 

 

Sextíu síður af kjaftæði

Ég lagðist í þá pílagrímsför að lesa stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mestmegnis vegna þess að þó ég þættist þess fullviss að hann væri jafn innihaldsrýr og fram hefur komið í fjölmiðlum að hann er, þá er alltaf betra að skoða hlutina sjáfur en að láta aðra segja sér hvernig þeir eru.

Við fyrstu sýn

Við fyrstu sýn vekur athygli að mikið er lagt upp úr hönnun og útliti skjalsins. Ekkert til sparað í myndum og undir útdrætti tilvitnaðra meginfrasa eru lagðar heilu síðurnar. Hér hefur einhver hönnunarstofan fengið vel fyrir sinn snúð. Á fyrstu 21 síðunni, sem er almenn lýsing á markmiðum í samfelldu máli, er einhver texti á 11 síðum. Seinni hlutinn, síður 24-60, er kaflaskiptur eftir „málaflokkum“ og markmiðin sem áður var búið að segja frá í samfelldu máli listuð upp í afmarkaða punkta, og ekki nema 9 auðar síður, þó lítið sé á mörgum, eins og mikilvægt er í kennslubókum fyrir byrjendur.

Stíll og framsetning

Helsta einkenni textans er hástemmdur helgisagnastíll, og greinilegt að kunnáttumaður í trúarlegri upphafningu hefur farið fingrum um lyklaborð. Lykilfrasar í textanum eru: horft verður til – stuðlað að – unnið að – að styðja við – lögð áhersla á – með það að markmiði að – hugað að því að – o.s.frv. Rætt er við lesendur í móðurlegum, hlýlegum og alþýðlegum tón, í fyrstu persónu, „við viljum“ þetta og hitt. Allt mjög kunnáttusamlega gert til að skapa rétta stemmningu og viðmót; það er hinn mildi og réttláti jesúbróðirbesti sem talar við lærisveina sína, en ekki hinn refsingasami drottinn allsherjar að messa yfir söfnuðinum.

Innihaldið

Innihaldið er í stórum dráttum merkingarlaus froða, sem lítt er hönd á festandi. Manni dettur ósjálfrátt í hug Jón Gnarr og Besti flokkurinn sem gerði einmitt stólpagrín að svonalöguðu með því að segjast ætla að gera „allskonar fyrir aumingja“, ef ég man rétt. Hér er markmiðið augljóslega að enginn geti efast um góðvild og umhyggju þríeykisins sem stendur að sáttmálanum. Hins vegar er lítið að frétta af því hvernig eigi að borga fyrir alla pakkana og hvernig eigi að koma þeim öllum fyrir undir trénu.

Strax í inngangi grípa augað nokkrir frasar sem vekja bros: „Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði“ – „skapa sátt um nýtingu auðlinda“ og svo þessi óborganlegi brandari: „Markmið síðasta kjörtímabils var að byggja upp traust í samfélaginu …“

Allir vita örlög síðast talda markmiðsins og sú vitneskja er ekki til þess fallin að „byggja upp traust“ á fagurgalanum sem á eftir fer.

Nokkur efnisatriði

Nokkur efnisatriði er rétt að tína út.

Fyrst má frægan nefna hálendisþjóðgarðinn, helsta flagg Vg í síðasta stjórnarsáttmála, sem troðið var eins og blautum sokk ofan í flokkinn á nýliðnu kjörtómabili, og hann nú dreginn sundur og saman í háði: Þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum á efstu fjallstindum og jökulhvelum!

Næst má nefna einbeittan vilja flokkanna að selja banka og fjármálastofnanir til sinna manna svo þeir geti leikið sér með meiri peninga. Þetta heitir að „halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfnu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða“ (bls. 5). Allir vita af langri reynslu að einsskiptisábati af sölu ríkiseigna verður ekki nýttur til uppbyggingar innviða – og að árlegur arður af t.d. Landsbankanum er fljótur að borga upp kaupverðið og gæti nýst mun betur til lengri tíma litið til hagsbóta fyrir almenning á margvíslegan hátt.

Í þriðja lagi er stórhættulegt ákvæði, eins og bent hefur verið á, um inngrip í vinnumarkaðsmál: „Til að stuðla að auknum fyrirsjáanleika og bæta verklag verður embætti Ríkissáttasemjara eflt, til dæmis með því að koma á fót standandi gerðardómi. Leikreglur vinnumarkaðar verða skýrðar með nýjum starfskjaralögum …“ (bls. 5). Hvað þýðir það að skýra leikreglur vinnumarkaðar? Hér er, eins og annars staðar í plagginu, enginn grunnur að standa á. Til hagsbóta fyrir hvern eiga ný starfskjaralög að vera? Launafólk? Atvinnurekendur? Hvaða hagsmunir eru þarna að baki? Hér vantar allt kjöt á beinin, og tilgangurinn með því að hafa þetta svo almennt orðað er augljóslega sá að fela hið raunverulega markmið, sem er að koma böndum á verkalýðshreyfinguna, kjarasamninga og vinnudeilur.

Í fjórða lagi eru fyrirheit um aukna einkavæðingu samgöngumannvirkja („á minni vakt“). Þetta er orðað svo í plagginu: „Tilteknum þjóðhagslega arðsömum framkvæmdum, sem bæta munu lífsgæði fólks og stækka atvinnu og þjónustusvæði, verður flýtt á grundvelli fölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila“ (bls. 18). Hér er þó ekkert verið að fela neinn tilgang í orðskrúði, og ber að þakka fyrir það. En ekki samrýmist það áætlunum um að „takast á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði“, sem vitnað var til hér í upphafi, því kostnaður almennings við einkaframkvæmd í samgöngukerfinu er margfaldur á við opinbera framkvæmd.

Í fimmta lagi á að halda áfram að leggja niður og sameina stofnanir. Nú hringja varúðarbjöllur, því reynslan sýnir að hið raunverulega markmið með slíkum aðgerðum er að gelda eftirlit á völdum sviðum. Hér heitir það að „efla og styrkja“: „Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða gerðar breytingar á fyrirkomulagi samkeppnismála og samkeppniseftirlits og það eflt með sameiningu stofnana, lagabreytingum og styrkingu samtaka neytenda“ (7). Á grundvelli þessa „markmiðs“ er hægt að gera nánst allt sem mönnum dettur í hug, og það er ekki beint traustvekjandi, verður að segja.

Í sjötta lagi má benda á virkjanastefnu stjórnarinnar:

„Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis …“ (9). Þessi klausa er í fullkomnu samræmi við langflest annað í „sátt“málanum: troðið er saman í eina efnisgrein alveg andstæðri sýn, hér annars vegar „grænni“ sýn á náttúruna og hins vegar „nýtingarsýn“. Og það er ljóst að taktur nýtingarstefnu verður genginn, þó textinn sé flúraður með „viðkvæmri náttúru“ og „sátt um nýjar virkjanir“. Hver ætli eigi að vera sáttur? Landvernd eða Landsvirkjun? Sjálfstæðisflokkurinn eða almenningur í þessu landi? Íbúar viðkomandi svæða eða jarðýtukallar? „Viðkvæm náttúra“, mæ ass!

Þá er það lögreglurikið: „Lögreglan og önnur lögregluyfrvöld þurfa að vera í stakk búin til að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiða af skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og farskipta- og nettengingum“ (14). Hvað á þetta eiginlega að þýða? Á að fjölga í lögregluliðinu og veita því aukið fjármagn til að sinna störfum sínum? Eða á að veita lögreglunni auknar valdbeitingarheimildir? Aukinn búnað? – kannski heimildir til vopnaburðar? Hver veit það? Og hvernig er líklegt að nýr dómsmálaráðherra túlki þessa innihaldslausu frasa?

Jöfnuðurinn

Jafnræði og „jafnt aðgengi“ kemur hér vissulega við sögu, mest í tengslum við heilbrigðis- og menntamál. Eftirfarandi tilvitnanir gefa það til kynna að byggja eigi aftur upp heilbrigðis- og menntastofnanir út um allt land, þannig að íbúar njóti allir sömu þjónustu, hvar sem þeir búa:

„Jafnframt viljum við tryggja að jafnræði ríki í aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntunartækifærum …“ (18). Haldið verður áfram að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi“ (21). „Heilbrigðisstofnanir verða styrktar til að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og aðgengi jafnað um land allt“ (21).

Allir gera sér hins vegar grein fyrir því að undanfarna áratugi hafa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni markvisst verið skornar niður við trog, þannig að hluti þjóðarinnar býr við mjög skerta þjónustu, einmitt íbúar í hinum dreifðari byggðum. Allir vita líka að sjúkrahús, heilsugæslur og öldrunarstofnanir vítt og breitt um landið munu ekki fá það fjármagn sem nauðsynlegt er til að veita þá þjónustu sem íbúarnir eiga skilið og þær gjarnan vilja. Ekki þarf annað en að hugsa til framkomu ríkisvaldsins gagnvart sveitarfélögum í yfirfærslu verkefna milli stjórnsýslustiganna, og sveltistefnu við fjármögnun hjúkrunarheimila, til að átta sig á því að fjas ríkisstjórnarforingjanna um jöfnuð og jöfn tækifæri er hjóm eitt og fals. Þeir eru bara öngvir jafnaðarmenn, heldur eitthvað allt annað.

Stjórnarskráin og lýðræðið

Loka„kaflinn“ í stjórnarsáttmálanum, síðustu andvörpin, fjalla um stjórnarskrá og kosningalög. Þar eru settir fram tveir punktar, textinn teygir sig alveg í tæpar 7 línur með því að spássían taki nánast hálft blaðið. Þvílíkur metnaður, verð ég að segja!

Um þetta hefur nokkuð verið fjallað í fjölmiðlum, en í ljós kemur að lýðræðisást formanna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vg takmarkast við framkvæmdavaldsræði og sérfræðingaræði. Setja á „af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði […] og efna „til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar“ (57). Hér sker yfirlætið gagnvart almennum kjósendum í augu. Almenningi kemur þetta mál bara ekkert við. Það eru sérfræðingar fræðasamfélagsins sem eiga að segja okkur hvernig grundvallarsáttmáli þjóðarinnar hljómi. Hér skal ríkja sáttmáli fræðasamfélagsins og ríkisstjórnarinnar um lýðveldið Ísland. Takk fyrir túkall!

Löngu er vitað að þessir aðilar ætla sér ekki að taka mark á lýðræðislegri niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ástæðan fyrir því er tvennskonar í einfaldleika sínum:

Annars vegar er að sú tillaga sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá felur í sér töluverðrar lýðræðisumbætur, ákvæði um aukinn rétt almennings og þings til að krefjast bindandi þjóðaratkvæðagreiðslna um mikilvæg mál, og ákvæði um jöfnun vægis atkvæða í kosningum til Alþingis. Hins vegar vegna auðlindaákvæðisins, sem er grundvöllur að raunverulegum og óskoruðum yfirráðum þjóðarinnar yfir fiskimiðunum.

Þetta geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki samþykkt því ójöfnuður atkvæða er þeim í hag, jafnvel sem nemur nokkrum þingmönnum, sem og það meirihluta- og framkvæmdavaldsræði sem hér viðgengst í stað lýðræðis. Og hinir raunverulegu eigendur flokkanna sætta sig ekki við yfirráð þjóðarinnar yfir fiskimiðunum.

Lengi væri hægt að halda áfram en það myndi ekki breyta neinu um niðurstöðuna: 60 síður af kjaftæði – þar af um þriðjungur auður.