Ég þóttist vita af langri reynslu að ekki liði á löngu frá verkfallsboðun KÍ þar til einhver ofvitinn kæmi fram í fjölmiðlum með speki sína um kennara. Það má segja að gáfumannatalið hafi komið úr viðeigandi stað, beint upp úr strjúpanum á borgarstjóranum, næstæðstu fígúru Framsóknarflokksins og yfirmanns fjölmennustu sveitar kennara, við dynjandi lófaklapp og húrrahróp sveitarstjórnarfólks og starfsfólks sveitarfélaganna í landinu. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: Sveitarstjórnamál
Er Reykjavík verst rekna sveitarfélagið?
Af miðbæjarmálum Selfyssinga
Jóhann Páll Helgason skrifaði ágætan pistil á Fjasbókarsíðuna „Miðbærinn á Selfossi“. Takk fyrir þinn góða pistil, Jóhann. Pistill Jóhanns Páls sómir sér vel meðal ýmissa annarra málefnalegra skrifa um efnið. Mest hefur nefnilega verið með því móti, nauðsynlegar spurningar, vangaveltur og skoðanir hafa verið settar fram á báðar hliðar. Gagnrýni og krefjandi spurningar eru nauðsynlegar og velta þarf við hverjum steini varðandi þetta risastóra verkefni.
Hernaðurinn gegn kennarastéttinni
Anna Lára Pálsdóttir fór vel yfir það í pistli á visir.is hvernig veist hefur verið að kennarastéttinni frá því rekstur grunnskólanna var færður yfir til sveitarfélaganna. Nánast allt sem hún tínir til á við um framhaldsskólana líka, en þeir eru á ábyrgð ríkisins eins og flestir munu vita og því sama hvorum megin hryggjar kennarstéttin liggur hvað yfirstjórn varðar. Halda áfram að lesa
Hálfsannleikur oftast er…
Tilvitnun
Þorlákur Helgason skrifaði fyrir svona hálfum mánuði í blað sitt, Selfoss – Suðurland, fréttaskýringu um stöðu Árborgar. Þar leitaðist hann við að skýra sveiflur í fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Hann benti á þær staðreyndir að á árunum 2002 til 2010 hafi skuldir vissulega aukist, en að augljósar skýringar á því væri að finna í gríðarlegum framkvæmdum og uppbyggingu. Að sama skapi væri núna hægt að lækka skuldir með auknum tekjum og samdrætti í framkvæmdum og uppbyggingu. Formúlan væri svona:
Miklar framkvæmdir og uppbygging = Auknar skuldir.
Takmarkaðar framkvæmdir og uppbygging = Möguleg skuldalækkun
Ástæðna fyrir þessari umfjöllun Þorláks er einkum að leita í framhlaupi tímans: Nú líður að sveitarstjórnarkosningum og nauðsynlegt er, að mati hans, að leiðrétta þá einhliða framsetningu á fjárhag og rekstri sveitarfélagsins sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur stundað.
Höfuðpaur núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks hefur skýrt sveiflur í fjárhagsstöðunni þannig að bæjarstjórnir áranna 2002-2010 hafi safnað skuldum en undir stjórn hans sjálfs hafi skuldir lækkað. Og þessa framsetningu hefur hann komist upp með, gagnrýnislítið. Formúla höfuðpaursins er svohljóðandi:
Bæjarstjórnarmeirihlutar 2002-2010 = Skuldaaukning
Bæjarstjórnarmeirihluti 2010-2014 = Skuldalækkun.
Fyrir sitt leyti er það rétt að skuldir fóru vaxandi 2002-2010 en hafa lækkað nokkuð frá 2010. En framsetning af þessu tagi er ekkert annað en blekkingarleikur. Nýjasta dæmið má lesa í Selfoss – Suðurlandi í dag.
Það sem máli skiptir er einmitt það sem Þorlákur Helgason reyndi að benda á í fyrra tölublaði (hann heldur svo áfram að klappa þann stein í því nýja) að skuldaaukning áranna 2002-2010 er ekki afleiðing þess að tekin hafi verið lán og peningunum hent út um gluggann. Peningunum sem teknir voru að láni var vel varið. Þeim var varið til uppbyggingar á skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum, fráveitumannvirkjum, vatnsveitumannvirkjum og almenningssamgöngum, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ekki glatað fé, heldur liggja sameiginlegir fjármunir íbúa sveitarfélagsins í varanlegum eignum, í þeim grunnstoðum sem nauðsynlegar eru til að þrifist geti gott samfélag.
Og sveitarfélagið tók algerum stakkaskiptum á árunum 2002-2010. Hér er nú nánast allt til alls. Þannig var það ekki vorið 2002. Íbúarnir munu njóta þess til framtíðar að hér var öllum aðstæðum fjölskyldna umbylt til að þær mættu blómstra. Þetta átak kostaði verulega skuldasöfnun en núverandi bæjarstjórn nýtur góðs af uppbyggingunni og getur sem betur fer slakað mikið á framkvæmdahraðanum, horft á síauknar skatttekjurnar renna í kassann og notað þær til þess að greiða niður skuldirnar, í stað þess að velta vöngum yfir því t.d. hversu hratt mögulegt væri með nokkru móti að auka framboð á leik- og grunnskólaplássum til að fylgja íbúafjölguninni.
Á tímum sem nú, þegar íbúafjöldinn stendur nánast í stað og nauðsynleg þjónustumannvirki sinna þörfinni í stórum dráttum, væri ábyrgðarleysi að greiða ekki niður skuldir, það er í raun sjálfgefin ráðstöfun. Á uppgangstímunum 2002-2008, þegar íbúafjölgunin var um 30% og nauðsynleg þjónustumannvriki önnuðu ekki eftirspurninni nándar nærri, hefði verið ábyrgðarleysi að leysa ekki úr vandanum og fara í þá stórkostlegu uppbyggingu sem við blasir nú. Það kostaði tímabundna skuldaaukningu (jafnvel þó ekki hefði að auki komið til efnahagshrun og margfrægur „forsendubrestur“). Vonandi næst að lækka verulega skuldastabbann áður en næsta íbúafjölgunarhrina skellur á.
En það sem eftir stendur er að útskýringar höfuðpaurs Sjálfstæðismanna í Árborg á sveiflum í fjárhag sveitarfélagsins eru ekki nema hálf sagan, og tæplega það. Og allir vita það víst að…
„hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.“
Kennarar
Alþjóðadagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni fylgir Fréttabréf Kennarasambands Íslands með Fréttablaðinu, fjórblöðungur með greinum, viðtölum og stuttum innslögum. Margt er þar sagt fallegt um kennara. Og kennarar eiga það sannarlega skilið að um þá og starf þeirra sé talað fallega og af virðingu.
Þó misjafn sé sauður í mörgu fé, og sumt fólk eigi um sárt að binda eftir viðskipti sín við hina svörtu sauði í kennarastétt, þá er þessi dagur ekki dagurinn til að fjalla um það. Því lang-, langflestir kennarar eru til fyrirmyndar. Og þeir eru hvorki meira né minna en „þungamiðjan í skólakerfinu – þeir eru vélin sem lætur allt ganga áfram og eru lykill að allri framþróun í skólamálum“ og samvinna við þá er forsendan fyrir því „að skólinn geti verið það hreyfiafl í samfélaginu sem hann þarf að vera til að hér byggist framsækið samfélag“, segir menntamálaráðherrann okkar í fréttabréfinu.
Og skólarnir unnu hvorki meira né minna en kraftaverk í og eftir hrunið. „Kennurum tókst að vernda vinnustað barnanna okkar fyrir streitunni í samfélaginu […]. Þeim verður seint fullþakkað“, segir alþingismaðurinn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, og bætir við: „Sem stjórnmálamaður stend ég með því að kennarar fái góða menntun, skapandi starfsumhverfi og laun í samræmi við ábyrgð.“
Landssamtökum foreldra „er umhugað um velferð skólabarna“ og samtökin vita „að kennarinn skiptir þar sköpum“, segir Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla. „Eitt helsta mótunarafl í lífi barna okkar fyrir utan okkur foreldra er skólinn. Þar gegna kennarar lykilhlutverki“, segir Margrét Valgerður Helgadóttir, formaður SAMFOK.
Og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, vill „standa með kennurum í því að auka starfsánægju og bæta vinnuaðstæður þeirra“.
Já, mikil er ábyrgð kennara. Og seint verður þeim fullþakkað fyrir að tryggja velferð og leika lykilhlutverk, bæði við mótun barnanna og framþróun alls samfélagsins. Ætli önnur starfsstétt beri öllu meiri og augljósari ábyrgð, til lengri tíma litið?
En hvernig eru þær starfsaðstæður sem þessu kraftaverkafólki, íslenskum kennurum, er boðið upp á? Þær hljóta náttúrulega að vera til fyrirmyndar? Enginn getur verið svo glámskyggn að vilja draga úr starfsárangri stéttar sem ber ábyrgð á velferð og mótun barnanna, já framþróun samfélagsins alls, með því að bjóða henni upp á eitthvað annað en bestu hugsanlegar aðstæður? Eða hvað?
Allir vita auðvitað að raunveruleikinn er ekki svona. Síðastliðinn miðvikudag var haldinn aðalfundur Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fundurinn samþykkti einróma ályktun þar sem lýst var yfir
miklum áhyggjum vegna viðvarandi aukins álags á félagsmenn í starfi. Undanfarin ár hafa kennarar í F.Su. sýnt einhug og samstöðu með stjórnendum stofnunarinnar í sparnaðaraðgerðum vegna niðurskurðar á fjárframlögum frá ríkisvaldinu. Mikil fjölgun nemenda í námshópum og sífellt fleiri og flóknari verkefni, utan hefðbundinnar kennslu, auka streitu og koma niður á gæðum kennslunnar. Það er mat fundarins að nú sé komið að þolmörkum. Hópar með 30 eða fleiri nemendum, önn eftir önn, og dæmi um námshópa í undirbúningsnámi sem telja 27 nemendur, eru langt utan skynsamlegra marka. Fundurinn telur að við núverandi aðstæður sé brotið á faglegum starfsheiðri kennara sem og lögbundnum rétti nemenda til einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja fjárhagslegan grundvöll faglegs skólastarfs og stjórnendur skólans að koma starfsaðstæðum í viðunandi horf við upphaf vorannar 2013.
Auk þessa taldi fundurinn „augljósa þörf á aukinni sérfræðiþjónustu innan skólans, til að sinna hluta þeirra starfa sem nú eru í höndum almennra kennara og náms- og starfsráðgjafa“.
Þessar ályktanir lýsa vel starfsaðstæðum kennara almennt, og um leið grundvallarvanda skólakerfisins.
Og allir vita auðvitað líka að yfirlýsingar eins og þær sem Katrín menntamálaráðherra og þingmaðurinn Sigríður Ingibjörg gefa í Fréttabréfi KÍ á Alþjóðadegi kennara eru varla annað en marklaus belgingur á hátíðisdegi, þó sjálfsagt meini þær vel, og ég fyrir mína parta treysti þeim báðum betur til góðra verka en flestum öðrum þingmönnum. Þetta eru bara svo gamalkunnug stef á Íslandi.
Því eins og formaður Skólameistarafélags Íslands segir þá hafa kennarar áratugum saman „staðið vaktina fyrir alltof lág laun og unnið að menntun og uppeldi ungs fólks af eldmóði og hugsjón. Þeir hafa skilað þessu unga fólki út í samfélagið færu til að takast á við margháttað nám og störf“ á skítakaupi við sífellt erfiðari aðstæður, sífellt meiri kröfur um einstaklingsmiðaða þjónustu, sífellt fjölbreytilegri nemendahóp, sífellt flóknari persónuleg úrlausnarefni, án þess þeim sé um leið gert kleift að veita þá lögbundnu þjónustu með því t.d. að fækka nemendum í bekkjunum og auka sérfræðiþekkingu innan skólanna.
„Þjóð sem metur ekki vinnu kennara hverfur aftur til miðalda. Það eru kennararnir sem eiga að fræða börnin um heiminn, og til að geta það þurfa þeir að fá góð laun og búa við aðstæður sem gera þeim kleift að bæta sífellt kunnáttu sína og þekkingu“, segir Kristín Marja Baldursdóttir, rithöfundur, af sínu skynsamlega viti.
Slitastjórnalögfræðingar raka til sín stjarnfræðilegum fjárhæðum með sjálftöku og helstu ábyrgðarmennirnir fyrir bankahruninu gera sér ekki að góðu tugi milljóna, heldur heimta hundruð milljóna í einhverskonar skaðabætur eða vangreidd laun, í skjóli meintrar „gríðarlegrar ábyrgðar“ sinnar. Þetta eru mennirnir sem hafa haft af kennurum og öðrum þegnum landsins eigur og ævisparnað. Á sama tíma lepja kennarar dauðann úr skel við hörmulegar starfsaðstæður. Er þetta, án gríns, að meta ábyrgð til launa? Sigríður Ingibjörg?
Það er líka forvitnilegt að lesa hvernig formaður sambands sveitarfélaga vill standa með kennurum og bæta starfsánægju og vinnuaðstæður þeirra. Hann vill „taka upp nýtt vinnutímafyrirkomulag“ og „sveigjanlegri kennsluskyldu“. Hvað á hann við með því? Jú, það sem býr að baki er að skólastjórnendur geti hundnýtt kennara, í hvaða störf sem er, þær stundir vinnudagsins sem þeir eru ekki með nemendum inni í skólastofu. Þetta hefur lengi verið baráttumál sveitarfélaganna, eftir að þau tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ætli það bæti starfsánægju kennara?
Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Ingibjörg og Halldór Halldórsson. Hækkið þið fyrst laun kennara svo sómi sé að. Aukið næst fjárframlög til skólanna, svo hægt sé að fækka nemendum í námshópum og fjölga starfsfólki með fjölbreytta sérfræðimenntun. Þá munu kennarar fyrst eiga möguleika á því að sinna hverjum og einum nemanda á hans forsendum, eins og lög kveða á um. Þá munu þeir líka glaðir taka með ykkur á „úreltum, miðstýrðum vinnutímaskilgreiningum“ og öðrum vanda skólakerfisins. Og ef eitthvað er að marka fagurgalann munu skólabörnin njóta góðs af og þjóðin svo blómstra í framtíðinni.
Hætt er samt við því að lítið þokist í rétta þátt. Því ef þetta ágæta fólk myndi láta athafnir fylgja orðum sínum um kennara og kennarastarfið, skapa þeim viðunandi aðstæður og borga laun í samræmi við ábyrgð, þá yrði allt sjóðvitlaust í þjóðfélaginu.
Fremstir í fordæmingunni færu forkólfar verkalýðsfélaga, eins öfugsnúið og það nú er. Fast á hæla þeim kæmu forkólfar atvinnrekenda. Og í kjölfarið allir hinir niðurrifsbesserwisserarnir, sem á hátíðisdögum setja þó á fagurgala um nánast ómannlega ábyrgð kennara og mikilvægi kennarastarfsins.
Ný Ölfusárbrú: Suður eða norður – eða niður?
Í Selfossi-Suðurlandi þann 6. september sl. var fréttaskýring um fyrirhugað nýtt brúarstæði á Ölfuá. Fréttaskýringin var því ánægjulegri að hún er fásén, hálfgert nývirki í fréttamiðlunum í héraðinu. Þar kemur fram að brúarstæði og aðliggjandi vegur um Efri-Laugardælaeyju hafi verið á aðalskipulagi frá því árið 1970, eða í meira en 40 ár. Gera má ráð fyrir að sveitarstjórn á þeim tíma hafi samþykkt aðalskipulagið að loknum ítarlegum umræðum um álitsgerðir sérfróðra á ýmsum sviðum, kosti þeirra og galla.
Nýtt aðalskipulag byggt á íbúaþingum
Á kjörtímabili Bæjarstjórnar Árborgar 2002-2006 var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, fjóra þá nýlega sameinaða hreppa. Með þessu hinu fyrsta aðalskipulagi Sveitarfélagsins Árborgar, var brotið blað á ýmsan hátt. Allt skipulagið var grundvallað á fjórum íbúaþingum, einu í hverri hinni aflögðu „stjórnsýslueiningu“. Lögð var áhersla á frjálsa aðkomu og frumkvæði íbúanna við mótun aðalskipulagsins og að auki leitað álits sérfræðinga á fjölmörgum sviðum. Um var að ræða algera nýlundu í sk. „lýðræðislegum vinnubrögðum“ hér um slóðir en jafnframt varð vinnan mikil og öll greining ítarleg, því kappkostað var að taka tillit til sem flestra sjónarmiða.
Ferjustaður eða Efri-Laugardælaeyja: Hagfræði Vegagerðarinnar
Eitt af því sem mikið var rætt við gerð þessa aðalskipulags var ný veglína og brú yfir Ölfusá. Niðurstaða þeirrar umræðu var að halda sig við veglínuna um Efri-Laugardælaeyju. Á næstu árum hélt umræða um þetta mál áfram af fullum krafti. Vegagerðin hélt á lofti hugmyndum um að brúa við gamla ferjustaðinn yfir ána, nokkru norðar en gert er ráð fyrir að brúa skv. skipulagi, og beitti þeim rökum helst að sá kostur væri bæði ódýrari og veglínan styst. Meginrök Vegagerðarinnar voru og eru „hagfræðilegs eðlis“. Tillaga Vegagerðarinnar styttir hringveginn, útheimtir minna slit á bílum, minna slit á vegum, styttir ferðatímann, minnkar útblástur og aðra mengun til viðbótar við það að framkvæmdirnar sjálfar kosta minna.
Það var m.a. af „umhverfisástæðum“ sem bæjarstjórnirnar 2002-2010 lögðust gegn hugmyndum Vegagerðarinnar um að brúa á gamla ferjustaðnum. Þó það væri trúlega ódýrari og „hagkvæmari“ kostur hafði hann í för með sér ókosti sem að margra mati vógu upp beinhörð peningasjónarmið.
Í fyrsta lagi mun vegur austanmegin að þeirri brú gjöreyðileggja golfvöllinn, sneiða hann í tvennt í miðju, með þeim afleiðingum að GOS þyrfti að byrja á núllpunkti, einu sinni enn, og byggja nýjan golfvöll á öðrum stað. Það var þó samviskusamlega rætt aftur á bak og áfram og m.a. var jörðin Borg, milli Stokkseyrar og Eyrarbakka og í eigu sveitarfélagsins, í umræðunni í þessu samhengi.
Í öðru lagi mun veglína vestanmegin að ferjustaðnum rústa ræktunarstarfi Skógræktarfélagsins. Það ágæta félag hefur nefnilega áratugum saman miðað ræktunarstarf sitt við það að brúin komi á Efri-Laugardælaeyju og skilið þar eftir breitt skarð í skógræktina fyrir veginn. Engum dettur í hug að halda því fram að sá vegur sem nú er á skipulaginu sé yfir gagnrýni hafinn eða hafi engin neikvæð áhrif. Hann er hins vegar skárri kostur, sker t.d. ef ég man rétt aðeins eina holu af golfvellinum, sem mun vera hægt að bæta með annarri norðar með ánni. Og þó vegurinn gegnum skógræktina verði síður en svo staðarprýði, þá kallar núverandi veglína allavega ekki jarðýtur yfir áratugagamalt, ómetanlegt ræktunarstarf.
Í þriðja lagi liggur óskaveglína Vegagerðarinnar töluvert fjær Selfossi en sú veglína sem bæjaryfirvöldum hefur hugnast best, en aukin fjarlægð er talin minnka líkurnar á því, sem sumir telja mestu varða, að vegfarendur komi við í bænum.
„Suðurleiðin“
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 talaði Vinstrihreyfingin grænt framboð, eitt framboða í Árborg, fyrir veglínu og brú sunnan Selfoss. Samkvæmt fyrrnefndri fréttaskýringu Selfossblaðsins hefur Vg bæst liðsauki í núverandi forystumanni Samfylkingarinnar í bæjarstjórn. Sá telur „fráleitt“ að brúa við Efri-Laugardælaeyju. Helstu rök hans eru þau að „dýrmætu útivistarsvæði verði fórnað“ og „glæsilegur golfvöllur skorinn í sundur“. Hann trúir því að vegur fyrir sunnan Selfossbæ „muni ekki hafa mikil áhrif á þá verslunar- og þjónustuaðila sem hafa haft áhyggjur af þróun mála“. Allt þetta hefur verið rætt í þaula, aftur á bak og áfram. Meira að segja voru líka ræddir og kannaðir kostir jarðganga undir Ölfusá, en þótti ekki vænlegur kostur vegna óhagstæðra jarðlaga – fyrir utan kostnaðinn
Þessi veglína er í fyrsta lagi lengsta mögulega leiðin framhjá Selfossi. Fáum dettur í hug, þegar ráðist er í nýframkvæmdir í vegagerð, að lengja samgönguleiðirnar eins og þessi tillaga gerir, með tilheyrandi aukinni eldsneytisbrennslu og mengun, lengri ferðatíma o.s.frv. Hætt er við að einhver hluti gegnumstreymisins muni þá stytta sér leið um „gömlu brúna“, renna Austurveginn í gegnum Selfoss, og spara sér í leiðinni nokkra bensíndropa. Og hvert fer hækkaður flutningskostnaður vöruflutningafyrirtækjanna vegna lengingar hringvegarins?
Í öðru lagi eru vestan og sunnan Selfoss, bæði í Ölfusi og Árborg, býli þar sem bændur stunda blómlegan landbúnað af ýmsu tagi. Er réttlætanlegt að fórna allri þeirri atvinnustarfsemi, fjölmörgum hestabúgörðum og kúabúm, fyrir hraðbrautina? Hvað með Sölvholt, Dísarstaði, Smjördali, Ljónsstaði, Austurkot, Votmúla, Byggðarhorn, Eyði-Sandvík og Geirakot, auk búgarðabyggðar og margra smábýla við „Votmúlaveginn“? Eða Hvol, Sunnuhvol, Kirkjuferjubæina, Kjarr og Þórustaði í Ölfusinu? Mega þessar jarðir og starfsemin þar sín einskis í samanburði við hin „dýrmætu útivistarvæði“ og „glæsilegan golfvöll“ norðan byggðar? Er þetta svæði hvorki dýrmætt né glæsilegt á neinn hátt?
Í þriðja lagi liggur stærstur hluti framtíðarbyggingarlands á Selfossi vestan og sunnan bæjarins. Af framsýni keypti bæjarstjórnin 2002-2006 jörðina Björk til þessara nota. Á að setja hraðbrautina þvert í gegnum eða alveg í jaðrinum á íbúðahverfum framtíðarinnar?
Í fjórða lagi er um að tefla heilan flugvöll. Hvers virði er hann? Að því leyti er hann þó sambærilegur golfvellinum að þar stundar hópur manna áhugamál sitt. Og ef mig misminnir ekki er völlurinn líka talinn mikilvægur út frá öryggissjónarmiðum.
Það er ekkert nýtt í umræðunum um nýtt brúarstæði á Ölfusá. Samtök verslunar- og þjónustuaðila hafa alla tíð lýst áhyggjum sínum af því að missa umferð út úr bænum. Enginn meiri þungi er í þeirri umræðu nú en verið hefur, nema síður sé. Samkvæmt könnun, sem vísað er til í fyrrnefndri fréttaskýringu Þorláks Helgasonar í Selfossblaðinu, áttu um 86% ökumanna á leið um Selfoss, eða 6 af hverjum 7, erindi þangað. Gegnumstreymið var því einungis 14%. Þetta bendir ekki til þess að sérstök ástæða sé fyrir hagsmunaaðila að óttast hjáleiðina. Sjálfsagt er þó að rannsaka það betur.
Þó Samfylkingin hafi tekið pólitíska u-beygju virðist forystumaður Sjálfstæðisflokksins standa í lappirnar í brúarmálinu. Hann lýsir þeirri skynsamlegu stefnu að halda sig við veglínuna í núgildandi aðalskipulagi en vinna jafnframt að „mótvægisaðgerðum“, til að forðast hættuna á því að ferðalangar fari beinustu leið framhjá og fyrirtæki og þjónustustofnanir í bænum missi þar með spón úr aski sínum.
Að endurskrifa söguna: Einbeittur brotavilji
Í lýsingum sínum á mótvægisaðgerðunum fer leiðtoginn þó stundum utan vegar eða móti umferð á sannleiksbrautinni. Hann segir að stór slík skref hafi verið „stigin á síðustu tveimur árum“, og gerir tilraunir til að endurskrifa söguna með því að nefna í því samhengi uppbyggingu við Larsenstræti, stefnubreytingu í uppbyggingu íþróttasvæða á Selfossi og hugmyndir um „Ölfusársetur“.
Lóðunum við Larsenstræti var sannarlega búið að úthluta löngu fyrr, þó uppbygging á þeim hafi tafist. En látum það nú vera. Um stefnubreytingu í uppbyggingu íþróttamannvirkja gildir öðru máli. Reyndar voru bæði nýr knattspyrnuvöllur (ásamt stúku) og flottur frjálsíþróttavöllur þegar til staðar og búið að ákveða viðbyggingu við Sundhöll Selfoss (að ónefndum nýjum útiklefum) áður en leiðtogi Sjálfstæðismanna tók við lyklavöldum í Ráðhúsinu vorið 2010. Má teljast undarlegt að honum hafi yfirsést þessi glæsilegu mannvirki á íþróttavallarsvæðinu, sem segja má að núverandi bæjarstjórn hafi fengið upp í hendurnar.
Gaman væri að heyra af því hvaða stefnubreyting hefur orðið á uppbyggingu íþróttamannvirkja á síðustu tveimur árum. Hyggst núverandi bæjarstjórnarmeirihluti kannski rífa þau nýju mannvirki sem risin eru og gera eitthvað annað?
Núverandi bæjarstjórn er þó skylt að hrósa fyrir að hafa tekist að kaupa miðbæjarreitinn á Selfossi, sem fyrri meirihluta tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, og að fyrir liggi ákvörðun um viðbyggingu við sundhöllina. Sú framkvæmd er þó enn aðeins í fjárhagsáætlunum, þar sem hún hefur verið um alllanga hríð.
Sömuleiðis eru „Mjólkursafn“ og „Fischersafn“ mikilvæg skref, sem núverandi bæjarstjórn á heiður skilinn fyrir að styðja við – og enginn gleðst jafn einlæglega og undirritaður að lesa það að tillögum hans um Ölfusársetur virðist ekki hafa verið stungið í pappírstætarann. Nógu hart var barist fyrir þeim, þó ekki hafi náðst samkomulag í þáverandi meirihluta um framganginn, og enginn stuðningur fengist frá minnihlutanum.
En að stefnubreyting um uppbyggingu íþróttamannvirkja og hugmyndir um „Ölfusársetur“ séu meðal þeirra skrefa sem stigin hafa verið á síðustu tveimur árum – er það ekki einum of langt gengið?
Burtséð frá einbeittum brotavilja Eyþórs Arnalds á sannleikanum, er óskandi að allar þær „mótvægisaðgerðir“ sem hann nefnir, þ.e.a.s. þær sem ekki eru þegar komnar í framkvæmd, verði að veruleika í allra nánustu framtíð.
Og valkvíðinn við næstu sveitarstjórnarkosningar snarminnkar líka, ef þessi nýja stefna Samfylkingarinnar verður þá enn ofan á.
Óhreinn meirihluti
Nú eru liðin tvö ár af yfirstandandi kjörtímabili sveitarstjórna. „Hreinn meirihluti“ Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg hefur á þeim tíma staðið undir öllum þeim „væntingum“ sem til hans var hægt að gera, og virðist ljóst að á seinni hluta kjörtímabilsins muni meirihlutinn ekki heldur valda neinum manni vonbrigðum. Hér hjá okkur er sem sagt allt með hreinum endemum. Og endemin eru víst það eina sem hægt er að kalla „hreint“ í þessu samhengi.
Nú síðast fór í gang tragí-kómískur farsi í kjölfar þeirrar samþykktar fræðslunefndar að Árborg skyldi segja sig úr samstarfi við önnur sveitarfélög á starfssvæði SASS um rekstur Skólaskrifstofu Suðurlands. Elfa Dögg Þórðardóttir grét í fjölmiðlum yfir þeirri hjartaskerandi stöðu sem hún væri sett í: Hún væri formaður í SASS en félagar hennar í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins væru einhuga um að segja skilið við samstarf sveitarfélaganna um skólaþjónustu. Orð Elfu var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að formennskan í SASS væri vandamálið sem setti hana í klípu, ekki úrsögnin úr skólaskrifstofunni.
Og úrsögnin var afráðin í bæjarráði, með steinþegjandi samþykki Eggerts Vals Guðmundssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar. Arna Ír Gunnarsdóttir náði þó að koma málinu í nefnd, með tillögu þar um á næsta bæjarstjórnarfundi, og varð tillaga Örnu að hjartahnoði fyrir dauðan meirihlutann.
Nú fóru mýsnar á kreik, enda enginn köttur á svæðinu. Elfa Dögg kvaðst ekki njóta trausts félaga sinna og því væri samstarfi þeirra við hana sjálfhætt – og bæjarstjórnarmeirihlutinn þar með fallinn. Elfa vatt sér í viðræður við S, B og V lista um myndun nýs meirihluta. Það er reyndar árviss viðburður hjá henni.
En bragðarefurinn Eyþór Arnalds lét ekki snúa svo einfaldlega á sig. Hann kallaði með sér þá þrjá bæjarfulltrúa sem fylgja honum blindandi að málum og bankaði upp á hjá framsóknarmanninum Helga Haraldssyni, sem enn var funheitur eftir nýafstaðinn fund með Elfu Dögg. Helgi og Eyþór náðu svona skínandi vel saman og var strax í gadda slegið að mynda meirihluta hluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta gekk hratt fyrir sig hjá þeim félögum, enda Framsóknarflokkurinn með tiltölulega nýfengna og ánægjulega reynslu í bæjarstjórn af samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn undir stjórn Eyþórs Arnalds, og nánast hægt að taka orðrétt blessunar- og vinarkveðjurnar úr því samstarfi frá haustdögum 2006, inn í nýjan sáttmála milli flokkanna.
Þegar hinn mikli leiðtogi, Eyþór Arnalds, mætti hinsvegar á fund í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins með tíðindin, eftir kvöldkaffið hjá Helga, kom í ljós að hann réði í raun og veru engu um það hvaða meirihluta hann myndaði. Og það tók fulltrúaráðið aðeins fjóra klukkutíma að siða bæði Eyþór litla og Elfu Dögg til, og kenna þeim að „ganga í takt“. Með fylgdu yfirlýsingar um að nýjar samskiptaaðferðir yrðu teknar upp. Það þýðir í reyndinni að samskipti yrðu tekin upp innan bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Og Eyþór klykkti svo út með því að hann kærði sig ekki lengur um að leika við Helga.
Af þessu öllu má ráða að Helgi Haraldsson treystir Eyþóri Arnalds mun betur en samanlögðum bæjarfulltrúum VG, Samfylkingar og Elfu Dögg. Það eru tíðindi í sjálfu sér. Helgi grípur óhikað það tækifærið sem opið er hverju sinni. Og hann veit auðvitað líka að Elfa Dögg mætti á fundi, til að kanna jarðveginn fyrir eigin framgang, hjá bæði Framsóknarflokknum og Samfylkingunni þegar dró að kosningaundirbúningi og listauppstillingum vorið 2006, áður en hún ákvað að fara í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum – þar sem hún hreppti 4. sætið – vegna þess sem rógtungur höfðu á hraðbergi um fulltrúa hinna flokkanna. Það er því ekki hægt að álasa Helga fyrir að efast um langlífi meirihluta þriggja flokka, sem þyrftu alfarið að treysta á staðfestu hennar.
Það hefur því í bili, að því er virðist, verið myndaður nýr meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Árborg. En að kalla meirihlutann „hreinan“, hvort sem er þann nýja eða hinn gamla, er beinlínis afskræming á því orði.
Sorpmafían
Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Árborg hefur ákveðið að framlengja samning við Íslenska gámafélagið um sorphirðu í sveitarfélaginu. Eftir japl, jaml og fuður mánuðum saman var sorphirðan loks boðin út fyrr á árinu, enda gildandi samningur löngu útrunninn. Liðið er nú heilt ár síðan bæjarstjórn samþykkti útboðið og kemur á óvart að Sjálfstæðismenn í Árborg, sem kvörtuðu hástöfum á síðasta kjörtímabili yfir hægagangi í stjórnsýslunni, skuli vera svo verkkvíðnir og svifaseinir í jafn mikilvægu máli, sem hefði getað sparað sveitarfélaginu mikið fé, ef eðlilega hefði verið á málum haldið.
Eftir að tilboð voru opnuð, og fyrir lá að Gámaþjónustan átti lægsta tilboðið, varð enn „óskiljanlegur“ dráttur á framgangi málsins, nú á því að það væri tekið til afgreiðslu í bæjarráði. Það var loksins gert á fundi í morgun, 15. desember, og ákvað íhaldsmeirihlutinn þar að ógilda útboðið, framlengja sem sagt samninginn við vildarvini sína og fjölskyldufyrirtækið Íslenska gámafélagið til 15. júlí 2012, og fela tækni- og veitustjóra sveitarfélagsins „að vinna að nýju útboði“.
Sjálfstæðismenn hafa auðvitað nýtt biðtímann til að reyna að klastara saman rökum fyrir gjörningi sínum og segja m.a. í bókun með afgreiðslu sinni „að færa megi rök fyrir því að gallar kunni að vera á framkvæmd útboðsins“ og velta vöngum um það að hugsanlega kunni sorpmagn að aukast á samnigstímanum. Já, rýrt er það í roðinu.
Í bókun minnihlutafulltrúanna með tillögu sinni á fundinum um að ganga til samninga við lægstbjóðanda segir m.a.:
„Tilboð Gámaþjónustunnar reyndist mun hagstæðara fyrir sveitarfélagið. Ef miðað er við kostnað undanfarinna ára er tilboð Gámaþjónustunnar mjög hagkvæmt fyrir sveitarfélagið og þýðir í raun sparnað sem nemur um það bil 25 milljónum kr. á samningstímanum. Fyrir liggur einkunnargjöf unnin af fagaðilum vegna tilboðanna og skorar lægstbjóðandi hærra í þeirri einkunnargjöf.“
Því miður koma þessi vinnubrögð Arnalds og co engum á óvart.