Málefni Vísindasjóðs FF/FS

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara föstudaginn 12. apríl sl. gerðu fulltrúar FF í stjórn Vísindasjóðs FF/FS grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins. Endurskoðandi sjóðsins kynnti ársreikning 2012. Fram kom að þrátt fyrir töluverðan lögfræðikostnað á árinu og ýmsan stofnkostnað vegna flutnings sjóðsins út úr Kennarahúsi, er rekstrarkostnaðurinn síst hærri en þegar sjóðurinn var rekinn í samstarfi með öðrum sjóðum og skrifstofu KÍ. Það liggur því fyrir að Vísindasjóður mun spara fé með því að starfa og leigja eigin aðstöðu utan Kennarahúss.

Eins og fram hefur komið er ekki hægt að ganga frá ársreikningi Vísindasjóðs 2011, án fyrirvara og athugasemda endurskoðanda, vegna þess að nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir; sjóðurinn hefur ekki fengið þau afhent hjá skrifstofu KÍ, þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni.

Að lokinni kynningu endurskoðanda á reikningum gerði lögmaður Vísindasjóðs grein fyrir niðurstöðu héraðsdóms vegna innsetningarkröfu sjóðsins út af þessu máli. Niðurstaða héraðsdóms var að hafna kröfu Vísindasjóðs.

Formaður sjóðsstjórnar, Þórey Hilmarsdóttir, reifaði málið lauslega og vitnaði í útsend bréf og skýrslur sjóðsstjórnar, sem hafa reglulega verið verið send öllum sjóðfélögum til upplýsingar um framvindu mála. Þórey svaraði og nokkrum fyrirspurnum frá fundarmönnum um einstök atriði í ársreikningi.

Skrifstofustjóri KÍ tók til máls og ræddi samskipti skrifstofu KÍ við sjóðsstjórnina. Hann kom nokkuð inn á það hver hefði óskað eftir fundi með hverjum, og hvenær, og bar af sér sakir um óheilindi eða að verið væri að fela eitthvað í reikningunum. Undir slíkum ásökunum hefði verið erfiðast að sitja. Hann sagði að umræddur BIK-reikningur KÍ, sem m.a. fjármunir Vísindasjóðs hefðu verið færðir á, væri í varðveislu Íslandsbanka og stjórn Vísindasjóðs fengi ekki aðgang að honum þar, vegna trúnaðarskyldu bankans. Meira að segja fengi starfsfólk á skrifstofu KÍ ekki aðgang að þessum reikningi.

Skrifstofustjórinn sagði einnig að ef hann væri að hefja þetta ferli (samskiptin við Vísindasjóð vegna krafna sjóðsins um aðgang að bókhaldsgögnum) nú upp á nýtt myndi hann vissulega gera margt öðruvísi en hann hefði gert. Ekki kom nánar fram í máli hans hvað hann hefði gert öðruvísi, né hvers vegna. Undirritaður gat þó ekki skilið þetta öðruvísi en svo að um væri að ræða viðurkenningu á því að framkoma skrifstofu KÍ gagnvart stjórn Vísindasjóðs hefði ekki verið eins og hún helst hefði átt að vera. Dýpri skilning var ekki hægt að leggja í orð hans, ekki var t.d. um að ræða ótvíræða afsökunarbeiðni, eða viðurkenningu á ámælisverðri framkomu.

Það athyglisverðasta í máli skrifstofustjórans, að mati undirritaðs, var tvímælalaust yfirlýsing þess efnis að hann hefði aldrei fyrr, í öllum samskiptum sínum við stjórnir allra þeirra sjóða sem starfa undir hatti KÍ, kynnst neinni kjörinni stjórn sem væri jafn áhugasöm og nákvæm í störfum sínum. Jafnan hefðu sjóðsstjórnir sýnt takmarkaðan áhuga á umsýslu eða málefnum sjóðanna og því hefði sú venja skapast að hann sæi sjálfur um málin, tæki ákvarðanir og hefði rekstur þeirra einn á sinni könnu.

Undirritaður skilur þetta svo að þegar allt í einu var komin stjórn í Vísindasjóði sem vann vinnuna sína og var ljós eigin ábyrgð, fór að spyrja spurninga og krefjast svara, þá brást skrifstofustjórinn stirðlega við, enda miklu þægilegra fyrir hann að gera þetta sjálfur að gömlum vana, heldur en að vera að tína til gögn og svara einhverjum spurningum „þriggja móðgaðra kvenna“, eins og einum sjóðfélaga finnst hæfa að kalla sjóðsstjórnina.

Linda Rós Michaelsdóttir, einn þriggja stjórnarmanna í Vísindasjóði, tók til máls og lýsti upplifun sinni af því að þurfa að sitja undir vantraustsbókun stjórnar KÍ á störf sín og stjórnar Vísindasjóðs. Hún hefði aldrei lent í því, hvorki fyrr né síðar að efast væri um heilindi sín. Formaður FF stóð upp og sagði að hún hefði hringt í þær allar í stjórn Vísindasjóðs og beðist afsökunar á því að hafa samþykkt vantraustsbókunina, sem hún hefði gert „undir gríðarlegum þýstingi“. Ekki kom fram í máli formanns FF frá hverjum sá þrýstingur kom eða nákvæmlega hvers eðlis hann var. Linda sagði að eðlilegt hefði verið að sú afsökunarbeiðni hefði birst á sama stað og vantraustið, á heimasíðu KÍ.

Þá upplýsti Linda Rós fundarmenn um það að þegar stjórn Vísindasjóðs fór að spyrja hvers vegna KÍ tæki sér það vald að millifæra fjármuni sjóðsins fram og til baka hefðu þau svör verið gefin að um það væri samningur milli aðila. Stjórn Vísindasjóðs óskaði í kjölfarið eftir því að fá að sjá þann samning. Ekki var orðið við því, enda enginn slíkur samningur til, heldur því svarað að gerður hefði verið munnlegur samningur. Linda kvaðst hafa haft samband við forvera sína og spurt þá hvort þeir hefðu gert slíkan munnlegan samning við KÍ. Viðkomandi brugðust ókvæða við spurningunni, að sögn Lindu, og spurðu á móti hvað hún héldi að þeir væru? Hvort henni dytti í hug að heiðvirt fólk gerði munnlegan samning um annað eins?

Þá stendur eftir að

    • enginn löglegur samningur er til um það að KÍ hafi haft heimild til að forfæra innistæður Vísindasjóðs út af reikningum sjóðsins og inn á reikninga KÍ, og hirða þar með vaxtatekjur sem sjóðurinn á. Er það ásættanlegt?
    • stjórn Vísindasjóðs ber ein ábyrgð á fjárreiðum sjóðsins og fær reikninga hans ekki endurskoðaða nema með fyrirvara meðan bókhaldsgögn vantar. Er það ásættanlegt?
    • skrifstofustjóri KÍ viðurkennir að hann hefði, í ljósi reynslunnar, gert margt öðruvísi en hann gerði, ef þetta mál væri að koma upp nú. Enn er tækifæri til að biðjast afsökunar.
    • skrifstofustjóri KÍ hefur aldrei á sínum starfsferli hjá sambandinu kynnst jafn áhugasamri, ábyrgri og nákvæmri stjórn í nokkrum sjóði innan vébanda KÍ eins og núverandi stjórn Vísindasjóðs FF/FS. Starfsmenn KÍ: Takið sjóðsstjórnina til fyrirmyndar.
    • stjórn KÍ, þar með talinn formaður FF, bókaði opinberlega vantraust á þessa áhugasömu, ábyrgu og nákvæmu stjórn Vísindasjóðs á fundi 25. mars 2011. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ „harmar þá gagnrýni á vinnubrögð stjórnar Vísindasjóðs“ á fundi 14. október 2011 og biður „velvirðingar á henni“ en hefur hvorki beðist afsökunar á frumhlaupi sínu, né dregið vantraustsbókun sína formlega til baka. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ hefur ekki gefið neinar skýringar á því hvað við vinnubrögð sjóðsstjórnar hún taldi svo ámælisvert að verðskuldaði opinbert vantraust, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Er það ásættanlegt?
    • formaður FF segist hafa í einkasamtölum beðið stjórn Vísindasjóðs afsökunar á þætti sínum í málinu, en hefur ekki gert það með formlegum hætti opinberlega. Er það ásættanlegt?
    • rekstrarkostnaður Vísindasjóðs er lægri á eigin skrifstofu úti í bæ heldur en í samrekstri og samnýtingu starfsfólks í Kennarahúsinu. Er það ásættanleg niðurstaða fyrir skrifstofu KÍ?
    • stjórn Vísindasjóðs hefur sjálf unnið ómælda, í raun ótrúlega vinnu, við að halda sjóðnum gangandi og tryggja sjóðfélögum réttindi sín og óheftar greiðslur. Takk fyrir það.
    • þau vandkvæði sem upp hafa komið skýrast af ófullkomnu tölvukerfi, sem ræður ekki við það sem það á að gera. Unnið er að lagfæringum á kerfinu, en fyrir vikið hefur stjórn sjóðsins þurft að handvinna úr styrkumsóknum félagsmanna. Takk fyrir það.

Í þessu ljósi er það bæði ljúft og skylt, nú sem fyrr, að lýsa yfir óskoruðu trausti á stjórn Vísindasjóðs FF/FS og fullum stuðningi við hana í þessu máli til loka.

Selfossi, síðasta vetrardag 2013.
Gylfi Þorkelsson,
formaður Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands

Af „sanngjörnum ábataskiptum“

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara, sem haldinn var föstudaginn 12. apríl síðastliðinn, héldu erindi, undir liðnum Kjaramál, samningar og staða framhaldsskólans, þau Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari Kvennaskólans, Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ og Guðmundur H. Guðmundsson, frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þetta fólk flutti okkur, óbreyttum „fulltrúunum“, tíðindin af stöðu mála í íslenska framhaldsskólakerfinu og launakjörum framhaldsskólakennara. Ekki verður sagt að neitt nýtt hafi komið fram, sem við vissum ekki fyrir, fremur tölfræðilegar staðfestingar á þeim nöturlega veruleika sem blasir við nemendum og starfsfólki í skólunum á hverjum degi. Meginniðurstaðan er sú að skólakerfið, alveg eins og heilbrigðiskerfið, verður rústir einar innan skamms ef ekki verður rækilega spyrnt við fótum.

Í máli Ingibjargar kom fram að dagvinnulaun í framhaldsskólunum hafa að meðaltali dregist saman um tæp 2% frá 2007, yfirvinna um 36,6% og ýmsar aukagreiðslur um 48%. Þrátt fyrir þennan gríðarlega sparnað í launakostnaði hafa launatengd gjöld hækkað um 7,6% á sama tíma! Rekstrarkostnaður skólanna (annar en laun) hefur verið skrúfaður niður um 64%.

Á meðan á þessu hefur gengið hefur ársnemendum fjölgað mikið, skólarnir þjóna nú 3982 fleiri nemendum en þeir gerðu árið 2007, en fjölgunin ein kostar 3,2 milljarða. Meðal annars hafa skólarnir tekið þátt í því átaki með stjórnvöldum að hvetja atvinnuleitendur til að drífa sig í skóla í atvinnuleysinu og bæta þannig stöðu sína. Til að tryggja þessum tæplega 4000 fleiri nemendum „besta atlæti“ hefur starfsfólki skólanna verið fækkað á sama tíma um 3,4% og heildarlaunakostnaður á hvert stöðugildi dreginn saman um 11%. Við allan þennan niðurskurð hefur rekstrarkostnaður hvers ársnemanda í framhaldsskólakerfinu lækkað um meira en 100 þúsund krónur, fjárheimildirnar úr 813 þúsund og niður fyrir 695 þúsund.

Samtals er sparnaðurinn 10,5 milljarðar í ríkisskólunum á fimm árum og með „einkaskólunum“ bætist við tæpur einn og hálfur milljarður: samtals 12 milljarða niðurskurður í framhaldsskólakerfinu. Til að bæta gráu ofan á svart verður að geta þess að inni í þessum tölum eru aðeins nemendur sem hafa skilað sér til prófs, ekki allir nemendurnir sem skólarnir hafa „þurft að kosta upp á“.

Til að ná þessum „árangri“ hefur þurft að „auka afköstin“ hjá hverjum kennara með því að stækka námshópana og skera grimmilega niður fámenna valáfanga, helst að bjóða upp á sem fæst annað en almenna kjarnaáfanga, þar sem hægt er að stappa inn sem næst 30 nemendum, helst fleiri.

Formúlan er þessi: Fleiri nemendur » færri störf » stærri hópar. Þá er bara spurningin hvort niðurstaðan sé betri námsárangur? En kannski er það ekki markmiðið með rekstri skólakerfis á landinu bláa? Kannski er einmitt meginmarkmiðið að minnka kostnaðinn, hvað sem það kostar?

Auðvitað vitum við kennarar allt um þetta, þ.e.a.s. hver áhrifin eru á daglegt starf í skólunum. Þar ríkir víða hörmungarástand og margir kennarar að bugast undan ómanneskjulegu álagi. Að ekki sé talað um nemendurna sem njóta ekki þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á, lögum samkvæmt.

Niðurskurður í skólakerfinu er heldur engin nýlunda, eða fylgifiskur efnahagshrunsins. Jafnvel á árunum fyrir hrun, þegar tekjur ríkissjóðs voru í sögulegu hámarki, var markviss og grímulaus niðurskurður hafinn, jafnvel þegar á fyrstu árum 21. aldar. Að þessu leyti eru heilbrigðiskerfið og skólakerfið saman á báti.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins ræddi á fundinum m.a. tilgang og markmið þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið Nýskipun í ríkisrekstri, eða New public management á erlendum tungum, og á rætur sínar í nýfrjálshyggju 10. áratugar 20. aldar. Ekki verður farið náið út í þá sálma hér, en þó hent á lofti orð hans um einn megintilgang svokallaðra „stofnanasamninga“ sem voru mikilvægur liður fyrrnefndar stefnu, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð einstakra stofnana. Grundvallarhugsunin var sú að ef stjórnendur næðu fram hagræðingu í rekstri átti stofnunin sjálf að njóta hluta ábatans. Þannig átti t.d. skólameistari að geta umbunað starfsmönnum sínum með auknum fríðindum eða hærri launum ef þeim tókst í sameiningu að lækka rekstrarkostnaðinn. Kennari væri þá (vonandi) tilbúinn til að leggja meira á sig í þeirri vissu að honum yrði umbunað með sanngjörnum hætti fyrir aukið álag. Þetta kallaði Guðmundur „sanngjörn ábataskipti“ og sagði vera eina af grunnforsendum stofnanasamninga.

Í praktíkinni hefur kennarinn aftur á móti ekki orðið var við nein ábataskipti, hvorki sanngjörn né ósanngjörn. Engum ábata hefur nefnilega verið skipt. Öll þau „vötn“ sem undin hafa verið af sífellt meira afli út úr hverjum kennara hafa fallið í eina átt – til Ríkisfjarðar. Þessa praktík, sem iðkuð hefur verið nánast alla tíð frá upphafi stofnanasamninga, kallaði fulltrúi fjármálaráðuneytisins réttilega forsendubrest, með vísan í tískuyrði samtímans. Hvaða stjórnmálaflokkar ætli hafi leiðréttingu vegna þessa forsendubrests á stefnuskrá sinni fyrir komandi kosningar?

Hagfræðingur KÍ gerði að umtalsefni misjafna „virðingu“ þjóða fyrir kennarastarfinu. Hann setti dæmið þannig upp að af vergri landsframleiðslu á mann fengi íslenskur meðalkennari aðeins 0,85%. Þetta þýðir að ef vergri landsframleiðslu væri skipt í jafnar kökusneiðar eftir íbúafjölda, miðað við að allir fengju eina sneið, þá duga kennaralaunin ekki fyrir einni meðalsneið, heldur aðeins 85%-um af henni. Það er því óhætt að segja að skorið sé við nögl handa kennurum og þeir séu í þessu tilliti undirmálsstétt í íslensku samfélagi. Til samanburðar fá kennarar í OECD-ríkjum eina heila sneið og 1/3 af annarri, í Danmörku eina heila sneið og næstum 2/3 af annarri, sem er hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum, og í Tyrklandi munu kennarar metnir ríflega tvígildir (2,03 sneiðar), sem dugar víst fyrir svipuðum launum og kennarar fá á Íslandi. Þetta var býsna forvitnilegt sjónarhorn, þótti mér.

En þetta vitum við kennarar allt saman ósköp vel. Við höfum reynt það á eigin skinni.

Skólameistari Kvennaskólans lét svo um mælt að ekki yrði gengið lengra eftir braut afkastaaukningar með stækkun námshópa. Eitthvað annað yrði undan að láta.

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Árum saman hefur dunið á kennurum og þjóðinni allri að engin þróun sé möguleg í skólakerfinu, þar standi allt fast og þversum – vegna vinnutímaskilgreininga í kjarasamningum kennara. Í þeim söng hafa sveitarfélögin sungið hæstu raddirnar, með Samband íslenskra sveitarfélaga sem forsöngvara, eftir að sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ríkisvaldið, bæði ýmsir ráðherrar og alþingsmenn, hafa svo tekið hraustlega undir í dramatískum aríum.

En um hvað snýst þessi söngur? Hann snýst um það að í kjarasamningum er skilgreint hve margar kennslustundir kennari í fullu starfi skuli kenna í viku hverri. Þetta er kallað kennsluskylda. Með þessu fyrirkomulagi er það viðurkennt að kennarastarfið sé viðameira en bara að standa (eða sitja eftir atvikum) yfir nemendum inni í kennslustofu. Það að fjöldi stunda í kennsluskyldu sé ekki jafn og vikulegur vinnustundafjöldi flestra annarra stétta er viðurkenning á því að til þess að geta „kennt“ sómasamlega þurfi kennarinn bæði að undirbúa sig fyrir samveruna með nemendum og líka að „ganga frá“ á eftir (námsmat o.fl.).

Þetta virðist bæði eðlilegt og sjálfsagt fyrirkomulag. Allir hljóta að sjá það að kennari getur ekki „kennt“ látlaust frá átta til fjögur, fimm daga vikunnar. Fyrir utan að slíkt fyrirkomulag myndi bitna hvað harðast á nemendunum, þá myndi það fljótt gera út af við kennarana, því starfinu fylgir fyrst og fremst mikið andlegt álag, og framleiðsla á nýjum kennurum er ekki slík hér á landi að dygði til að fylla í skörðin. Fyrir nú utan það að geðheilbrigðisþjónustan réði alls ekki við vandann, eins og henni er ástatt.

Nýverið var vinnutímaboltinn enn hentur á lofti. Tilefnið var vinnudeila danskra kennara og sveitarfélaga. Í fréttum RÚV var vitnað í einhver danskan sem fullyrti að vinnutímaskilgreiningar kennara þar í landi væri hinn mesti dragbítur á allt skólastarf. Og í kjölfarið var bæjarstjórinn í Hveragerði dubbaður upp til að taka undir þennan söng fyrir hönd íslenskra skólarekenda. Boðskapur bæjarstjórans var ekki uppbyggilegur: í íslenskum skólum væri öll þróun í kaldakoli vegna þess að vinnutími kennara væri rígbundinn í kjarasamningum. Skilja mátti að ef tækist að leysa þá hörðu hnúta myndi allt horfa til betri vegar. Framþróun hæfist loks. Og bæjarstjórinn klykkti út með því í viðtalinu að auðvitað ætti að nýta starfskrafta kennara í það sem þeir gera best: að kenna!

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að því meira sem kennarar kenni, því betra verði skólastarf. Því þeir eru bestir í kennslu. Og best verður skólastarfið auðvitað með því að láta kennarana gera sem mest af því sem þeir eru bestir í.

Vonandi sjá allir heilvita menn rökleysurnar og öfugmælin í þessu viðhorfi. Hvernig þrælpíning kennara leiðir til betra skólastarfs er nefnilega vandséð.

Bæjarstjórinn gat þess ekkert í viðtalinu að með því að láta kennarana gera meira af því sem þeir eru bestir í, kenna meira – fleiri tíma á viku, þá geta sveitarfélögin, og ríkið í sínum hluta skólakerfisins, fækkað kennurum umtalsvert og sparað stórar fjárhæðir.

Ætli refirnir séu ekki til þess skornir?

Hér er sem sagt kominn nýr afleggjari af þeim vegi sem skólameistari Kvennaskólans fullyrti að væri til enda genginn. Það er ekki hægt að stækka bekkina meira. En það er einlæg ósk og ásetningur íslenskra skólayfirvalda að láta kennarana kenna meira innan dagvinnumarka. Miklu meira. Til þess þarf að brjóta niður vinnutímaskilgreiningarnar í kjarasamningum þeirra.

Og svo þarf líka að stytta nám til stúdentsprófs. Skera burt dálítið af stærðfræði, tungumálum og öðrum óþarfa. Já, alveg rétt. Styttingin á m.a. að vinna bug á hinu mikla og eilífa brottfalli, sem er helsti höfuðverkur íslenskra stjórnmálamanna. Stundum virðist hlutfallstala brottfallinna í samanburði við „viðmiðunarlöndin“ vera það eina sem þeim hefur tekist að festa hönd á í umræðu um íslenska skólakerfið. Flóknari breytur í þeim samanburði virðast þeim oftast huldar þokumóðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það eru ekki vinnutímaskilgreiningar kennara sem standa í vegi fyrir þróun skólakerfisins. Í fyrsta lagi er stöðug og öflug þróun víða í skólakerfinu, þökk sé hugsjónaeldi kennara, og það er orðið fjári þreytandi að hlusta á stjórnmálamenn ómerkja það starf allt með stöðugu tali sínu um annað. Í öðru lagi er nægur sveigjanleiki í kjarasamningum kennara til að kaupa meiri vinnu af þeim sem kæra sig um að vinna meira.

Það sem skortir hins vegar er aukið fjármagn inn í skólakerfið. „Það vantar fóður í stofnanasamningana“, sagði skólameistari Kvennó. Skólameistarar fá ekki fé til að reka skólana. Fjármagnið sem þeir fá til að greiða kennurum laun er 16% lægra en meðalkennaralaunin sannanlega eru, þó lág séu! Alþingi hefur verið duglegt undanfarin 40 ár að setja ný lög, á öllum skólastigum. Alþingi hefur hins vegar ALDREI látið nýjum lögum fylgja þær fjárveitingar sem það sjálft hefur þó látið reikna út að innleiðing nýrra laga kosti. Þarna liggur meginvandi íslenska skólakerfisins. Og sveitarfélögin eru ekkert skárri en ríkið þegar kemur að rekstri skóla, nema síður sé.

Á undanförnum fimm árum hefur verið skorið niður í framhaldsskólunum um 12 milljarða. Þegar búið er að skila þeim til baka, og bæta svo einhverjum milljörðum við, þá skulum við fara að tala saman.

Það er mörg skýrslan

Nú hefur enn einn starfshópurinn um menntamál skilað niðurstöðum. Að þessu sinni starfshópur um samþættingu menntunar og atvinnu. Það getur vel verið að ég taki mig til og leggist yfir þessa skýrslu og skrifi svo eitthvað um hana. Þó veit ég ekki hvort ég nenni því. Ég er búinn að skrifa margar greinar um mennta- og skólamál hér á síðuna og er eiginlega alveg viss um að í þeim skrifum hefur komið fram allt það sem ég hef að segja um þessa nýjustu skýrslu. Því þess er ekki að vænta að þar séu nein nýmæli.

Miðað við greiningu Elnu Katrínar Jónsdóttur á visir.is í dag, er skýrslan hrein sóun, enn eitt lagið ofan á gamla góða pappírsstaflann.

Hefur ekki stöðugt verið unnið að auknum tengslum skóla og atvinnulífs frá því um 1970, undanfarin rúm 40 ár? Hvers vegna ætli gangi svo illa að ná þessu, og öðrum göfugum markmiðum í skólakerfinu?

Ætli það sé vegna skorts á lagasetningu þar um? Ætli það sé vegna skorts á starfshópum? Ætli það sé vegna skorts á hugmyndum? Ætli það sé vegna skorts á samstarfsvilja? Ætli það sé vegna skorts á niðurstöðum og skýrslum frá starfshópunum? Ætli það sé vegna skorts á málþingum og kjaftablaðri?

Nei, ætli ástæðan sé ekki einfaldari. Ætli ástæðan sé ekki bara skortur á fjármagni til að hrinda í framkvæmd öllum tillögum skýrslanna og niðurstöðum vinnuhópanna og öllum lagatextunum sem hið háttvirta Alþingi hefur samþykkt?

Ætli það sé ekki bara málið?

Auðvitað þurfa alþingismenn að hafa eitthvað fyrir stafni, einhverjar nefndir og vinnuhópa til að drýgja þingfararkaupið, það er vel skiljanlegt. En dettur ykkur það aldrei í hug, hæstvirtir alþingsmenn, að það breyti engu hvað þið skreytið ykkur oft með þessu sama gamla víni, þó á nýjum belg sé, það muni ekkert breytast fyrr en þið farið að borga kostnaðinn við margtuggnar breytingatillögurnar á skólakerfinu? Dettur ykkur það virkilega aldrei í hug?

Á sama tíma, sem sagt, og eytt er fjármagni í enn einn starfshópinn og enn eina skýrsluna, er ekki hægt að innleiða „nýju“ framhaldsskólalögin, sem alþingi samþykkti með vinstri hendi, vegna þess að þegar hægri höndin samþykkir fjárlögin virðist hún ekkert vita hvað sú vinstri hafði verið að gera.

Nú er sem sagt nóg komið af kjaftæði og tími kominn til að fjármagna allt það tillöguflóð sem þegar liggur í þykkum bunkum á alþingi, í ráðuneytum og skólastofnunum um allt land, flest áratugagamalt. Þar er að finna margt gúmelaði um aukið samstarf við atvinnulífið. Gúmelaði um aukinn sveigjanleika. Gúmelaði um þarfir, getu og áhugasvið nemenda. Gúmelaði um grunnþætti. Gúmelaði um aukna sérfræðiþjónustu.

Ef alþingi hefur hins vegar ekki efni á eigin gúmelaðiframleiðslu -að koma skólakerfinu í það horf sem lög og skýrslur kveða á um að æskilegt sé- þá þarf að viðurkenna það og hætta þessum látalátum. Þar til betur árar. Ef svo ólíklega vildi til að einhverntíma í draumalandi framtíðarinnar muni ára þannig að á alþingi sitji fólk sem forgangsraðar menntakerfinu framar í fjárlagafrumvarpinu en hingað til hefur verið skilningur á.

En í guðanna bænum: Ekki fleiri starfshópa og skýrslur um skólakerfið. Það er nóg til af þeim. Það vantar hinsvegar peninga.

 

 

 

Nú er nóg komið

Nú liggur fyrir niðurstaða í atkvæðagreiðslu um samkomulag SNR og samninganefndar FF/FS. Framhaldsskólakennarar kolfelldu samkomulagið, eins og við mátti búast, með 3/4 hluta atkvæða og hafa nú sent bæði ríkisvaldinu og eigin samninganefnd skýr skilaboð: „Reynið ekki aftur að bjóða okkur upp á annað eins“.

Áður hefur verið fjallað ítarlega um samkomulagið hér á síðunni og ekki ástæða til að rekja enn og aftur hvað í því felst. Framhaldsskólakennarar hafa verið teygðir að þolmörkum undanfarin ár. Niðurskurður í menntakerfinu og sparnaðaraðgerðir innan skólanna hafa beinst að stórum hluta að kennurum. Stóraukinni vinnu hefur verið hlaðið á herðar þeirra,  vinnuumhverfið ómanneskjulegt og í raun fjandsamlegt öllum faglegum viðmiðum.

Það er ekki vinnutímaskilgreining kennara sem stendur í veginum fyrir faglegri þróun og það eru ekki kennarar sem vinna gegn umbótum í skólastarfi, með því að hafna þessu samkomulagi sem niðurstaða liggur nú fyrir um, heldur er það á ábyrgð menntamálayfirvalda, fjárveitingavaldsins og skólastjórnenda í hverjum skóla.

Það eru yfirvöld og stjórnendur skólanna sem hafa boðið kennurum og nemendum upp á óviðunandi starfsaðstæður. Það hafa kennarar látið yfir sig ganga, með fullum skilningi á því að hér hefur verið kreppa og nauðsyn á niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Kennarar hafa tekið þátt í þessum aðgerðum af fullri einurð og ábyrgð. Þeir hafa undanfarin ár hvergi vikist undan heldur lagst á árarnar í þeim lífróðri sem staðið hefur – og stendur enn.

En þeir ætla ekki að halda því áfram, bótalaust. Þeir ætla ekki að láta hlekkja sig við þófturnar. Nú er nóg komið.

Snúum vörn í sókn – fellum samkomulagið

Mennta- og menningarmálaráðherra skrifar í Fréttablaðið í gær, 9. nóvember, þar sem hún reynir að sýna fram á að „nú liggi leiðin upp á við“ í menntakerfi landsins og tiltekur sérstaklega framhaldsskólana. Hún segir að eftir niðurskurðar„átak síðustu ára verður mögulegt að snúa vörn í sókn“ og þess sjái „þegar stað í frumvarpi til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir aukafjárveitingu til framhaldsskóla“ og að auki sé „gert ráð fyrir viðbótarfjármagni til framhaldsskóla fyrir aðra umræðu fjárlagafrumvarps.“

Þarna vísar ráðherra væntanlega til þeirra 216 milljóna sem lofað er, í samkomulagi samninganefndar ríkisins og KÍ f.h. FF, til vinnukaupa af kennurum við námskrárgerð, til eflingar náms- og starfsráðgjafar og til stuðnings nýliða í kennslu, auk 3ja% hækkunar á launataxta framhaldsskólakennara á næstu 13 mánuðum.

Ráðherra ítrekar í grein sinni að aukin vinnukaup af kennurum, eða „aukin fagleg forysta kennara og þróunarvinna“ eins og hún orðar það sjálf, eru lykilatriði til þess að innleiðing nýrra námskráa gangi eftir.

Í grein sinni veitir Katrín Jakobsdóttir ágæta innsýn í það hve álag á kennara og annað starfsfólk framhaldsskólanna hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Niðurskurðurinn hefur í fyrsta lagi leitt til stórfjölgunar nemenda í námshópum, raunar út yfir öll velsæmismörk með tilliti til vinnusiðferðis, að ekki sé talað um þá forsmán á faglegri sýn á gæði skólastarfs sem í þessu felst.

Í öðru lagi hafa framhaldsskólarnir á sama tíma „tekið við fleiri nemendum en nokkru sinni fyrr undir merkjum átaksins Nám er vinnandi vegur“ og í þriðja lagi hafa framhaldsskólakennarar unnið mikla þróunarvinnu við samningu og innleiðingu námskráa vegna nýjustu framhaldsskólalaganna.

Í öllum niðurskurðinum hafa kennarar framhaldsskólanna sem sagt þurft að þola stóraukið álag í starfi sínu og bæta þar fyrir utan á sig meiri vinnu og fleiri verkefnum, án þess að þess sjái nokkurn stað í launum þeirra.

„Þegar kjör íslenskra kennara“, segir menntamálaráðherra, „eru borin saman við kjör starfssystkina þeirra í nágrannalöndum okkar komum við Íslendingar því miður ekki nægilega vel út.“ Þetta vitum við og svo hefur verið lengi. Raunar eru fá teikn á lofti um að kjör íslenskra kennara verði nokkurn tíma tengd við launakjör kennara í nágrannalöndunum. Slíkar hugmyndir eru víst aðeins fyrir skýjaglópa, því illa gengur að standa við umsamin viðmið innanlands.

Áður en ráðherra fer að velta upp slíkum skýjaborgum væri nær að hún beitti sér af hörku fyrir því að staðið yrði við bókanir sem gerðar voru með síðasta kjarasamningi um að leiðrétta skyldi jafn óðum, ef í ljós kæmi launamunur milli félagsmanna í FF og FS annars vegar og viðmiðunarstétta innan BMH hinsvegar. Nú er þessi launamunur um 60 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Ráðherra endar grein sína á frómum óskum um að kennarar samþykki fyrirliggjandi samkomulag og „það verði einn liður í að bæta kjör kennara og efla stöðu þeirra“.

Því miður er ekkert í þessu nýja samkomulagi sem vísar þann veg. Sexþúsund króna launahækkun á næstu 13 mánuðum segir lítið upp í 60 þúsund króna gap. Og kennarar líta ekki heldur á það sem sérstakan virðingarvott eða mikla eflingu á stöðu sinni að gert sé skriflegt samkomulag um það að ríkisvaldið ætli loksins að fara að greiða þeim yfirvinnu samkvæmt taxta kjarasamnings fyrir örfáa tíma við innleiðingarvinnu, í staðinn fyrir þær ólöglegu „sjóræningjagreiðslur“ fyrir þessi störf sem viðhafðar hafa verið undanfarin ár, skv. orðum forsvarsmanna samninganefndar framhaldsskólakennara.

Kennarar ættu því alls ekki að samþykkja þetta samkomulag. Engin rök hníga til þess. Þeir hafa núna gullið tækifæri til að snúa vörn í sókn með því að fella samkomulagið og hefja raunverulega baráttu fyrir kjörum sínum og starfsheiðri – og um leið bættu skólastarfi.

Betra menntakerfi verður ekki reist á þrautpíndum og útjöskuðum kennurum á lágmarkslaunum.

Samkomulag um ekkert – og út í bláinn

Það er athyglisvert að enginn, ENGINN, sem tjáð hefur sig um samkomulag milli samninganefnda framhaldsskólakennara og ríkisins telur að um sé að ræða gott samkomulag. Meira að segja þeir sem mæla heldur fyrir því, forysta Félags framhaldsskólakennara og samninganefndarfólk, viðurkenna svikalaust að þetta er lélegt samkomulag hvað varðar launakjör kennara. Enda er samkomulagið SVO AUMT hvað þetta varðar að útilokað er annað en að viðurkenna það.

Hvað er það þá í samkomulaginu, sem samninganefndin okkar telur svo mikilvægt framfaraskref, að það geri meira en að bæta úr algerri katastrófu á þeim lið kjarasamninga sem öllu máli skiptir fyrir flesta?

Það er tvennt.

Í fyrsta lagi gerir ríkisvaldið um það samkomulag við kennarastéttina að það ætli á næstunni að leggja fram örlítið brot af þeim fjármunum sem það kostar að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, til að kaupa fáeina vinnutíma af kennurum í því skyni.

Í öðru lagi ætlar ríkisvaldið að skipa fulltrúa af sinni hálfu í nefnd með kennurum, til að endurskoða vinnutíma þeirra, svo hægara verði, að sögn, að koma almennilega í framkvæmd lögum sem ríkið hefur samþykkt á Alþingi. Nefndinni er ætlað að skila tillögum um breytingar á vinnutíma kennara áður en næsta kjarasamningalota hefst, væntanlega í upphafi árs 2014.

Þetta er nú allt og sumt. Hvers vegna ættu kennarar að leggja í kostnað við allsherjaratkvæðagreiðslu út af þessu?

Allt það sem í samkomulaginu felst, og samninganefndin okkar telur svo mikilvægt að það yfirskyggi launaliðinn, má gera án þessa viðauka við gildandi kjarasamning kennara: Ríkisvaldið sendir bara eins mikla peninga út í skólana, í innleiðingu og námskrárgerð, eins og það treystir sér til á hverjum tíma. Svo einfalt er það. Það mun vera á ábyrgð ríkisins að framfylgja lögum, og standa undir kostnaði við þau, en ekki stéttarfélaga.

Þannig að ég segi glaður við fulltrúa fjárveitingavaldsins: Komið bara með peningana, ef þið viljið fullkomna lögin ykkar. Það verða örugglega margir kennarar fegnir að fá nokkra tíma í yfirvinnu fyrir jólin.

Og ríkisvaldið getur hæglega óskað eftir því við forsvarsmenn kennarastéttarinnar að stofnuð verði nefnd þessara aðila til að ræða vinnutímaskilgreiningar stéttarinnar. Til þess þarf ekki þennan ónýta klíning utan á kjarasamninginn. Ef ríkið er sannfært um að þetta séu góð lög sem mikilvægt er að koma í fulla framkvæmd sem fyrst, og vinnutími kennara sé hindrun á þeirri vegferð, hlýtur þá ekki samninganefnd þess að mæta á fundi samviskusamlega? Ekki mun standa á fulltrúum kennara að mæta.

Ef þetta tvennt, innleiðingarpeningarnir og vinnutímanefndin, er tekið út fyrir sviga, því ástæðulaust með öllu er að tengja það samningum um launakjör, hvað er þá eftir?

Þá er aðeins eftir niðurlægjandi „launahækkun“ upp á svona 4 þúsundkalla á mánuði núna og 2 þúsundkalla til viðbótar eftir 13 mánuði. Á sama tíma og fyrir liggur að umsamin viðmiðunarlaun eru orðin 60 þúsundköllum hærri á mánuði en framhaldsskólakennaralaun.

Þar með er samkomulag þetta sjálffellt. Og ekki orð um það meir.

Herfileg mistök

„Ríkisvaldinu mistókst herfilega að tryggja fé á fjárlögum til innleiðingar framhaldsskólalaganna“. Svo komst fulltrúi framhaldsskólakennara í samninganefnd að orði á fundi með trúnaðarmönnum kennara og formönnum félagsdeilda innan FF sl. mánudag, þegar nýundirritað samkomulag við Samninganefnd ríkisins var til kynningar.

Óhætt er að taka undir þessi orð. Þessi herfilegu mistök ríkisstjórnarinnar lýsa sér í því að á fjárlögum eru engir peningar í þetta verkefni. Í ljósi þess að ríkisvaldið sjálft mat það svo á sínum tíma að innleiðing „nýju laganna“ kostaði a.m.k. 2 milljarða, hljómar orðalagið „herfileg mistök“ eins og sakleysisleg kaldhæðni.

Þrátt fyrir að ljóst hafi verið í september af fjárlagafrumvarpinu að engu átti að kosta til á næsta fjárlagaári að koma lögunum í framkvæmd, skrifaði samninganefnd framhaldsskólakennara undir samkomulag þar sem helstu tíðindin eru 3ja%a launahækkun og stofnun svokallaðs „Vinnumatsráðs“.

Vinnumatsráðið á að leggja fram tillögu að nýrri vinnutímaskilgreiningu kennarastarfsins fyrir árslok 2013, svo það atriði þvælist ekki fyrir í viðræðum um nýjan kjarasamning í aðdraganda þess að núverandi samningur rennur út í marslok 2014.

Þá er einnig til tíðinda í samkomulaginu að SNR hefur „fundið“ peninga, í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að því er virðist, til að kaupa af kennurum ofurlitla vinnu við innleiðingu og námskrársamningu – á yfirvinnutaxta samkvæmt kjarasamningum. En það þykir sérstaklega í frásögur færandi nú um stundir að kennurum sé greitt fyrir vinnu af þessu tagi samkvæmt gildandi kjarasamningum. Hinsvegar hafa verið tíðkaðar „sjóræningagreiðslur“ af ýmsu tagi, utan við kjarasamninga, samkvæmt hentugleikum á hverjum stað, og þarf ekki að fjölyrða um það hvoru megin við löglegan samning þær greiðslur liggja.

Það er öllum ljóst, líka samninganefndunum báðum, að þessir fjármunir sem fundust í ráðuneytinu eru ekki upp í nös á ketti í því risavaxna verkefni sem framundan er. Þeir duga aðeins fyrir um 11 tíma vinnu á hvert stöðugildi framhaldsskólakennara, miðað við meðallaun stéttarinnar. Af þessu er því morgunljóst að alls ekki á að vinna af neinni alvöru að innleiðingu laganna né samningu námskráa. Samt á innleiðingunni að vera að fullu lokið árið 2015, skv. nýjustu áætlunum.

Framhaldsskólakennarar eiga nú að samþykkja að kasta núgildandi vinnutímaskilgreiningum fyrir róða, án þess að hafa neina tryggingu fyrir því hvað þeir fá í staðinn. Því hefur verið haldið mjög á lofti að vinnutímaskilgreiningar kennara séu helsti dragbíturinn á skólastarf og skólaþróun á Íslandi. Til upplýsingar er kennslustundin grunnviðmið í vinnutímaútreikningnum. Í núverandi kerfi er full heimild til þess, m.a. í stofnanasamningum, að semja við kennara um að taka að sér önnur störf en kennslu innan skólanna – gegn kennsluafslætti á móti. Þetta hefur verið gert, svo sveigjanleikinn er fyrir hendi ef menn vilja nýta sér hann.

Hinsvegar er það auðvitað mun hagstæðara fyrir skólameistara, sem berjast í miklum niðurskurði að halda rekstrinum ekki mjög langt neðan við núllið, að kennarar vinni sína fullu kennslu og sinni innleiðingu og námskrárvinnu, ásamt fjölmörgum öðrum störfum sem vinna þarf í skólunum, í töflugötum og á fundum á dagvinnutíma. Þeir geti svo bara sinnt undirbúningi, samráði og yfirferð verkefna á kvöldin og um helgar, í sjálfboðavinnu í frítíma sínum.

Á sama tíma og þetta samkomulag er lagt fyrir kennara til samþykktar eða synjunar í atkvæðagreiðslu liggur það fyrir að þeir hafa dregist í launum langt aftur úr „viðmiðunarstéttum“ innan BHM. Skv. bókun með kjarasamningi á að reikna út og bera saman launaskriðið, og leiðrétta muninn jafnóðum. Munurinn hefur verið reiknaður út og hann nemur nú að meðaltali 60 þúsund krónum á mánuði, kennurum í óhag. Ekkert hefur hins vegar verið gert í því að leiðrétta muninn. Þessi 3ja%a launahækkun sem í boði er, og nást mun 1. desember eftir rúmt ár, segir lítið upp í það ginnungagap. Fjármunir til að kaupa meiri vinnu af kennurum er ekki launahækkun, jafnvel þó það nýmæli eigi að taka upp að borga aukavinnuna samkvæmt kjarasamningi!

Ef vinnumatsráðið á að endurskilgreina vinnutímaviðmið kennarastarfsins og breyta því, án þess að til komi auknir fjármunir til verkefnisins á fjárlögum, þýðir það einungis að ef einn hluti vinnunnar fær aukið vægi (t.d. vegna álags af undirbúningi, nemendafjölda, samsetningu nemendahópsins, eðli kennslunnar (s.s. munar á verknámi og bóknámi)) þá mun annar þurfa að lækka á móti. Sem sagt: Ef kakan er jafn lítil og fyrr, er ekki hægt að stækka eina sneið án þess að minnka aðra. Allir, sem eitthvað vit hafa á kennslu og skólastarfi, sjá hvaða hættu þetta hefur í för með sér.

Undanfarið hefur niðurskurður í skólastarfi bitnað fyrst og fremst á kennurum og nemendum. Þrengt hefur verið stórkostlega að möguleikum margra kennara á að vinna yfirvinnu, t.d. með því að stórfjölga í nemendahópum. Algengt er nú að kennarar kenni sama nemendafjölda í tveimur hópum sem þeir kenndu í þremur hópum áður. Álag á kennara er nú ómanneskjulegt í mörgum skólum. Og ýmsir valáfangar, sem ekki ná háum nemendafjöldatölum, er skornir niður við trog.

Burtséð frá kennurunum, sjá allir að þessi stefna bitnar ekki síst á nemendum. Fá þeir þá faglegu þjónustu, sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt, þegar þeim er hrúgað 30 eða fleiri í bekkina? Er það í anda sveigjanleika og fjölbreytni að fella niður kennslu í fjölmörgum valáföngum, vegna þess að stofurnar eru ekki kjaftfullar út úr dyrum? Er þetta í anda laga sem kveða á um að koma til móts við þarfir, getu og áhugasvið nemenda?

Er þetta faglegt skólastarf?

Allir sjá að svo er ekki. Samt er þessi stefna rekin ár eftir ár. Og svo eiga kennarar að gleypa við því að vinnutímaskilgreiningarnar í starfinu þeirra sé helsti dragbíturinn í íslensku menntakerfi. Þeir eiga að horfa brosandi á algert aðgerðaleysi gagnvart einhliða launaskriði viðmiðunarstétta, sem þó er bókað um í kjarasamningi að eigi að leiðrétta jafnóðum. Þeir eiga að samþykkja að falla frá vinnutímaskilgreiningunum sem þeir hafa og þekkja, í staðinn fyrir fullkomlega þokukenndar hugmyndir um eitthvað nýtt og betra. Þeir eiga að vera svaka kátir yfir því að nú eigi að fara að borga þeim yfirvinnukaup samkvæmt kjarasamningi, fyrir aukavinnu við innleiðingu laga og samningu námskráa. Og þeir eiga að falla á kné af föguði yfir 3ja%a viðbótarlaunahækkun á samningstímanum.

Ég segi nei við því samkomulagi sem skrifað hefur verið undir, og vona að allir aðrir framhaldsskólakennarar segi líka nei í atkvæðagreiðslunni 5. – 12. nóvember nk.

Þetta samkomulag er sannarlega herfileg mistök.

Kennarar

Alþjóðadagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni fylgir Fréttabréf Kennarasambands Íslands með Fréttablaðinu, fjórblöðungur með greinum, viðtölum og stuttum innslögum. Margt er þar sagt fallegt um kennara. Og kennarar eiga það sannarlega skilið að um þá og starf þeirra sé talað fallega og af virðingu.

Þó misjafn sé sauður í mörgu fé, og sumt fólk eigi um sárt að binda eftir viðskipti sín við hina svörtu sauði í kennarastétt, þá er þessi dagur ekki dagurinn til að fjalla um það. Því lang-, langflestir kennarar eru til fyrirmyndar. Og þeir eru hvorki meira né minna en „þungamiðjan í skólakerfinu – þeir eru vélin sem lætur allt ganga áfram og eru lykill að allri framþróun í skólamálum“ og samvinna við þá er forsendan fyrir því „að skólinn geti verið það hreyfiafl í samfélaginu sem hann þarf að vera til að hér byggist framsækið samfélag“, segir menntamálaráðherrann okkar í fréttabréfinu.

Og skólarnir unnu hvorki meira né minna en kraftaverk í og eftir hrunið. „Kennurum tókst að vernda vinnustað barnanna okkar fyrir streitunni í samfélaginu […]. Þeim verður seint fullþakkað“, segir alþingismaðurinn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, og bætir við: „Sem stjórnmálamaður stend ég með því að kennarar fái góða menntun, skapandi starfsumhverfi og laun í samræmi við ábyrgð.“

Landssamtökum foreldra „er umhugað um velferð skólabarna“ og samtökin vita „að kennarinn skiptir þar sköpum“, segir Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla. „Eitt helsta mótunarafl í lífi barna okkar fyrir utan okkur foreldra er skólinn. Þar gegna kennarar lykilhlutverki“, segir Margrét Valgerður Helgadóttir, formaður SAMFOK.

Og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, vill „standa með kennurum í því að auka starfsánægju og bæta vinnuaðstæður þeirra“.

Já, mikil er ábyrgð kennara. Og seint verður þeim fullþakkað fyrir að tryggja velferð og leika lykilhlutverk, bæði við mótun barnanna og framþróun alls samfélagsins. Ætli önnur starfsstétt beri öllu meiri og augljósari ábyrgð, til lengri tíma litið?

En hvernig eru þær starfsaðstæður sem þessu kraftaverkafólki, íslenskum kennurum, er boðið upp á? Þær hljóta náttúrulega að vera til fyrirmyndar? Enginn getur verið svo glámskyggn að vilja draga úr starfsárangri stéttar sem ber ábyrgð á velferð og mótun barnanna, já framþróun samfélagsins alls, með því að bjóða henni upp á eitthvað annað en bestu hugsanlegar aðstæður? Eða hvað?

Allir vita auðvitað að raunveruleikinn er ekki svona. Síðastliðinn miðvikudag var haldinn aðalfundur Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fundurinn samþykkti einróma ályktun þar sem lýst var yfir

miklum áhyggjum vegna viðvarandi aukins álags á félagsmenn í starfi. Undanfarin ár hafa kennarar í F.Su. sýnt einhug og samstöðu með stjórnendum stofnunarinnar í sparnaðaraðgerðum vegna niðurskurðar á fjárframlögum frá ríkisvaldinu. Mikil fjölgun nemenda í námshópum og sífellt fleiri og flóknari verkefni, utan hefðbundinnar kennslu, auka streitu og koma niður á gæðum kennslunnar. Það er mat fundarins að nú sé komið að þolmörkum. Hópar með 30 eða fleiri nemendum, önn eftir önn, og dæmi um námshópa í undirbúningsnámi sem telja 27 nemendur, eru langt utan skynsamlegra marka. Fundurinn telur að við núverandi aðstæður sé brotið á faglegum starfsheiðri kennara sem og lögbundnum rétti nemenda til einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja fjárhagslegan grundvöll faglegs skólastarfs og stjórnendur skólans að koma starfsaðstæðum í viðunandi horf við upphaf vorannar 2013.

Auk þessa taldi fundurinn „augljósa þörf á aukinni sérfræðiþjónustu innan skólans, til að sinna hluta þeirra starfa sem nú eru í höndum almennra kennara og náms- og starfsráðgjafa.

Þessar ályktanir lýsa vel starfsaðstæðum kennara almennt, og um leið grundvallarvanda skólakerfisins.

Og allir vita auðvitað líka að yfirlýsingar eins og þær sem Katrín menntamálaráðherra og þingmaðurinn Sigríður Ingibjörg gefa í Fréttabréfi KÍ á Alþjóðadegi kennara eru varla annað en marklaus belgingur á hátíðisdegi, þó sjálfsagt meini þær vel, og ég fyrir mína parta treysti þeim báðum betur til góðra verka en flestum öðrum þingmönnum. Þetta eru bara svo gamalkunnug stef á Íslandi.

Því eins og formaður Skólameistarafélags Íslands segir þá hafa kennarar áratugum saman „staðið vaktina fyrir alltof lág laun og unnið að menntun og uppeldi ungs fólks af eldmóði og hugsjón. Þeir hafa skilað þessu unga fólki út í samfélagið færu til að takast á við margháttað nám og störf“ á skítakaupi við sífellt erfiðari aðstæður, sífellt meiri kröfur um einstaklingsmiðaða þjónustu, sífellt fjölbreytilegri nemendahóp, sífellt flóknari persónuleg úrlausnarefni, án þess þeim sé um leið gert kleift að veita þá lögbundnu þjónustu með því t.d. að fækka nemendum í bekkjunum og auka sérfræðiþekkingu innan skólanna.

„Þjóð sem metur ekki vinnu kennara hverfur aftur til miðalda. Það eru kennararnir sem eiga að fræða börnin um heiminn, og til að geta það þurfa þeir að fá góð laun og búa við aðstæður sem gera þeim kleift að bæta sífellt kunnáttu sína og þekkingu“, segir Kristín Marja Baldursdóttir, rithöfundur, af sínu skynsamlega viti.

Slitastjórnalögfræðingar raka til sín stjarnfræðilegum fjárhæðum með sjálftöku og helstu ábyrgðarmennirnir fyrir bankahruninu gera sér ekki að góðu tugi milljóna, heldur heimta hundruð milljóna í einhverskonar skaðabætur eða vangreidd laun, í skjóli meintrar „gríðarlegrar ábyrgðar“ sinnar. Þetta eru mennirnir sem hafa haft af kennurum og öðrum þegnum landsins eigur og ævisparnað. Á sama tíma lepja kennarar dauðann úr skel við hörmulegar starfsaðstæður. Er þetta, án gríns, að meta ábyrgð til launa? Sigríður Ingibjörg?

Það er líka forvitnilegt að lesa hvernig formaður sambands sveitarfélaga vill standa með kennurum og bæta starfsánægju og vinnuaðstæður þeirra. Hann vill „taka upp nýtt vinnutímafyrirkomulag“ og „sveigjanlegri kennsluskyldu“. Hvað á hann við með því? Jú, það sem býr að baki er að skólastjórnendur geti hundnýtt kennara, í hvaða störf sem er, þær stundir vinnudagsins sem þeir eru ekki með nemendum inni í skólastofu. Þetta hefur lengi verið baráttumál sveitarfélaganna, eftir að þau tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ætli það bæti starfsánægju kennara?

Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Ingibjörg og Halldór Halldórsson. Hækkið þið fyrst laun kennara svo sómi sé að. Aukið næst fjárframlög til skólanna, svo hægt sé að fækka nemendum í námshópum og fjölga starfsfólki með fjölbreytta sérfræðimenntun. Þá munu kennarar fyrst eiga möguleika á því að sinna hverjum og einum nemanda á hans forsendum, eins og lög kveða á um. Þá munu þeir líka glaðir taka með ykkur á „úreltum, miðstýrðum vinnutímaskilgreiningum“ og öðrum vanda skólakerfisins. Og ef eitthvað er að marka fagurgalann munu skólabörnin njóta góðs af og þjóðin svo blómstra í framtíðinni.

Hætt er samt við því að lítið þokist í rétta þátt. Því ef þetta ágæta fólk myndi láta athafnir fylgja orðum sínum um kennara og kennarastarfið, skapa þeim viðunandi aðstæður og borga laun í samræmi við ábyrgð, þá yrði allt sjóðvitlaust í þjóðfélaginu.

Fremstir í fordæmingunni færu forkólfar verkalýðsfélaga, eins öfugsnúið og það nú er. Fast á hæla þeim kæmu forkólfar atvinnrekenda. Og í kjölfarið allir hinir niðurrifsbesserwisserarnir, sem á hátíðisdögum setja þó á fagurgala um nánast ómannlega ábyrgð kennara og mikilvægi kennarastarfsins.

 

 

 

Skóli án aðgreiningar?

„Fjórðungur íslenskra gurnnskólakennara hefur ekki trú á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar, en aðeins 42 prósent eru jákvæð gagnvart henni samkvæmt nýrri könnun meðal kennara. Þá telja 77 prósent kennara að álag í kennslu hafi aukist mjög mikið á undanförnum fimm árum.“ Könnunin sem vísað er í var á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara. Þetta kemur fram í frétt á  visir.is laugardaginn 1. september sl.

Varla þarf að taka fram að laun kennara hafa ekki hækkað í samræmi við aukið álag.

„Skóli án aðgreiningar“ er sú stefna kölluð að öll börn í hverjum árgangi skólahverfis, hvort sem þau eru með svokallaðar „sérþarfir“ eða ekki, sæki sama skóla og sitji saman í bekk. „Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar er í raun ávöxtur kenninga um félagslegt réttlæti. Og á að búa einstaklinga með sérþarfir betur undir frekari menntun og þátttöku í samfélaginu, fremur en þeir séu eingöngu að umgangast aðra sem glíma við sömu vandamál“, segir í fréttinni.

En er það furða að kennarar hafi ekki meiri trú á þessu en raun ber vitni? Og hvernig stendur á því?

Raunveruleikinn sem blasir daglega við kennurum, þrátt fyrir fallega hugmyndafræði af ýmsum toga, er að nemendum er hrúgað allt of mörgum inn í bekkina. Er ekki skóli án aðgreiningar óraunhæfur, bara útópía, meðan boðið er upp á þessar aðstæður?

Grunnskólakennari sem horfir framan í fjölmennan bekkinn sinn og á að mæta hverjum og einum nemanda á hans grunni og taka tillit til þarfa hans, langana og áhuga – einstaklingsmiðað nám fyrir fluglæsa og torlæsa, ofvirka og ofurfeimna, fullfríska og fatlaða, fljótfæra og seinfæra, og allt þar á milli, honum ættu í raun að fallast hendur.

Hafa verður líka í huga að almennir grunnskólakennarar eru ekki sérfræðingar í meðhöndlun á sérhverri „greiningu“, þó þeir viti reyndar og geti ótrúlegustu hluti.

Sennilega styttist í að grunnskólakerfið fari að þróast eins og framhaldsskólakerfið, þar sem opinbera stefnan er „Framhaldsskóli fyrir alla“, en aðgreiningin er illa dulin með þeim hætti að hluti skólanna tekur bara inn nemendur með úrvals námsárangur á meðan aðrir skólar sinna skyldum sínum og taka við öllum nemendum. Í litróf hinna síðarnefndu vantar þó stóran hluta af hverjum árgangi – nefnilega marga af þeim nemendum sem reynist auðvelt að læra og hafa áhuga á því.

Hvenær eigum við von á „elítuskólum“ á grunnskólastigi?

Íslenskir kennarar lyfta grettistaki á hverjum degi, við erfiðar aðstæður. En engan skal undra að þeir hafi ekki tröllatrú á „skóla án aðgreiningar“ við þær aðstæður sem þeir þurfa að sætta sig við. Þeir eru væntanlega búnir að glata trúnni á að aðstæðunum verði breytt, t.d. að fækkað verði í bekkjum og ráðnir fleiri menntaðir sérfræðingar til að aðstoða nemendur með sérþarfir og ótöluáfestandi fjölda mismunandi greininga.

Nú er mikilvægur þáttur enn undanskilinn, sá mikilvægasti af þeim öllum: Nemendurnir eiga rétt, já heimtingu, á því að fá þjónustu við hæfi, hvort sem þeir hafa verið greindir með sérþarfir eður ei.

Við núverandi aðstæður er það einfaldlega útilokað. Spurningin er hvort nemendur, foreldrar, kennarar og skólamálayfirvöld sætta sig bara við það?

 

Læsi – undursamlegust allrar tækni

Tölur um bágt læsi íslenskra unglingspilta komust á dögunum í gegnum þéttriðið net fjölmiðlavaðalsins og vöktu athygli í samfélaginu. Sýndar voru í fréttum myndir úr einhverjum grunnskóla þar sem nemendurnir lásu bækurnar af spjaldtölvum, og voru ánægðir með það. Þar með var málinu lokið og önnur „mikilvægari“ tóku við í fréttatímunum. Því miður er skólamálaumræða fjölmiðlanna oftast bæði grunnhyggin og geld. Gjarnan nær hún ekki lengra en að samanburði á einstökum skólum út frá meðaleinkunnum á lokaprófi, oftast grunnskólaprófi eða stúdentsprófi. Og látið er við þann mælikvarða sitja, eins og málið sé þar með afgreitt fyrir fullt og allt: Sumir skólar eru góðir, aðrir slæmir.

Það er haft á orði að eitt sterkasta einkennið á Íslendingum birtist í frasanum: „Þetta reddast“! Í skjóli hans forsmái þjóðin langtímastefnumótun á flestum sviðum, en taki bara á hverjum vanda þegar hún fær hann í fangið – með átaki. „Þjóðarátak“ gegn þessu eða hinu. Hefur einhver heyrt það? Og Íslendingar virðast líka trúa því að „þetta reddist“ best með nýjustu græjum. Að þeim fengnum þurfi engar áhyggjur að hafa, alveg þar til tæknin færir okkur nýrri græjur. Þetta litar allt samfélagið, líka menntamálin og skólamálaumræðuna.

Hin aldagamla hefð og „bylting spjaldtölvunnar“

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis og fyrrum skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, telur að kennsla hafi lítið breyst síðustu aldir, í raun frá tímum Forn-Grikkja „þar sem hinn fróði stóð uppi á kassa og predikaði yfir hinum fáfróðu“ (Hjálmar Árnason, „Um spjaldtölvur og byltingar“, 16). Þessi aðferðafræði rímar illa, segir Hjálmar í grein sinni, við alla kennslufræði, lög og reglugerðir sem kveða á um að bjóða skuli nemendum einstaklingsmiðað nám.

En nú munu betri tímar í vændum. „Veldur þar mestu um ný tækni, netið í allri sinni dýrð, spjaldtölvur…“ (Hjálmar Árnason) og fleiri græjur og samskiptaleiðir sem gera það að verkum að hver og einn getur farið þá leið sem honum hentar að markmiðum námsins og nemendur eru „virkjaðir til að leita sér áhugaverðra leiða“ og gert kleift að „virkja hina skapandi hugsun til lærdómsins“. Þessi tækni „opnar stóra gátt að námsmarkmiðunum og leggur grunn að fjölbreytilegum leiðum hinna lærdómsfúsu“. Með því að nýta hana er hægt að virkja „kraft og áræði fróðleiksfúsra til að finna hver um sig þær keldur sem svala“ (Hjálmar Árnason). Hjálmar rekur svo nokkur dæmi um krarftaverk tækninnar í útlöndum: „Í öðrum skóla náðu rúm 90% nemenda sem notuðu spjaldtölvur en aðeins um 65% þeirra sem voru látin hanga í gömlu aðferðunum“. Og niðurstaða þessa reynslumikla skólamanns er einföld og skýr: „Þetta er einfaldlega svarið við hinni almennt viðurkenndu leið allra fræðikenninga og laga um lærdóm: að sérhverjum einstaklingi skuli sinna við hæfi hvers og eins“ (Hjálmar Árnason).

Rétt er að taka undir hvert orð Hjálmars um einstaklingsmiðað nám, fjölbreytni námsefnis og kennsluhátta, mikilvægi áhugaverðra leiða og skapandi hugsunar. En þegar kemur að trú míns gamla meistara á að ný tækni muni leysa allan vanda innan skólakerfisins, þá viðurkenni ég að renni á mig tvær grímur. Reyndar er rétt ég í upphafi dragi fram og undirstriki hér tvö lykilorð í grein hans: lærdómsfúsir og fróðleiksfúsir. Hinir lærdóms- og fróðleiksfúsu munu nefnilega hér eftir sem hingað til halda ótrauðir áfram að markmiðum sínum, þrátt fyrir skólakerfið sem þeir búa við. Ný tækni mun vissulega veita þeim aukin og fjölbreyttari tækifæri, auðga nám þeirra og líf. Hinum, sem hvorki myndu teljast fróðleiks- né lærdómsfúsir, mun ný tækni ein og sér ekki bjarga. Ný tækni mun hinsvegar auka bilið milli þeirra sjálfviljugu og hinna bágræku og, í fyllingu tímans, auka stéttaskiptingu í samfélaginu – ef ekki er tekið á rót vandans.

Allan minn starfsaldur í skólakerfinu, nánast óslitið síðan 1983, hefur megináhersla löggjafans verið á það að auka fjölbreytni í námsframboði og kennsluháttum til að koma til móts við mismunandi þarfir, áhuga og getu nemenda. Þetta hefur auðvitað, eins og Hjálmar bendir réttilega á, ekkert gengið snuðrulaust fyrir sig því „hin aldagamla hefð gegnsýrir allt kerfið. Hinn fróði predikar yfir hinum vankunnandi.“

En staðreyndin er sú að byltingin sem Hjálmar Árnason telur nú að verði „í kennsluheiminum“ með spjaldtölvum er í raun og veru gengin yfir. Á árunum fyrir og um síðustu aldamót var þessi „bylting“ gerð. Hún hét tölvuvæðing. Framhaldsskólar voru tölvuvæddir. Internet og innra net. Nemendur fengu fartölvur í hendurnar. Markmiðið með því var þá nákvæmlega það sama, og trúin á undur tækninnar jafn heit og trú Hjálmars nú á undur spjaldtölvunnar. Nemendur myndu glaðir og frjálsir, bæði lærdóms- og fróðleiksfúsir, sökkva sér í og teyga þekkingu og þroska úr lindum alheimsins á Netinu, hver auðvitað á eigin forsendum og hraða, eftir þeim leiðum sem honum best hentaði í áttina að göfugu markmiði um minna brottfall, gæfuríka menntun, innihaldsríkara líf, upplýstara lýðræði – betra samfélag.

Þessi draumsýn hefur ekki ræst og mun ekki heldur rætast með því að spjaldtölvuvæða skólakerfið. Málið er ekki svo einfalt.

Undursamlegust allrar tækni

Til þess að draumsýnin hér að ofan geti ræst kemur ákveðin tækni vissulega við sögu. Sú tækni hefur ekkert með „græjur“, eins og fartölvur eða spjaldtölvur, að gera. Hvort sem nemandi, sem ætlar að læra eitthvað, hefur í höndum hefðbundna bók eða tölvu með aðgangi að svokölluðum upplýsingaveitum á rafrænu formi, á Netinu, þarf hann að vera læs. Læsi er grundvallaratriðið, ekki tækið (bók, tölva, …) sem veitir aðgang að upplýsingunum.

Nemendur mínir, sem eru fluglæsir og lærdómsfúsir, drekka í sig eins og ekkert sé hverja gamaldags kennslubókina á fætur annarri. Löng saga, eins og t.d. Njála, er þeim hreinasti svaladrykkur. Þessir nemendur mennta sig, í besta skilningi orðsins, án minnstu vandræða með eingöngu pappírinn og prentsvertuna að vopni. Nemendum í sama námshópi, sem eru illa eða ólæsir, dugar hvorki að hafa fartölvur eða spjaldtölvur né nýjustu útgáfur af öllum forritum, til að halda í við hina. Fartölvurnar, spjaldtölvurnar og öflugustu forritin duga heldur hvergi til þess að kveikja lærdómsfýsn, sé hún ekki til staðar. Því miður. Skiptir þá engu hvort viðkomandi er læs eða ólæs. Þar eru einhverjir aðrir kraftar að verki en skortur á tækninýjungum.

Því miður lýkur of stór hópur nemenda 10 ára grunnskólanámi án þess að geta talist læs. Eigum við, samfélagið, að sætta okkur við það? Hvað blasir við honum í framhaldsskólunum, þar sem ætlunin hlýtur að vera að stefna frekar upp á við, kenna eitthvað nýtt, fara dýpra í efnið, auka þroska, bæta við þekkingu – klífa fjall fremur en að lötra um flatlendið? Eru allir – foreldrar, skólafólk, sérfræðingar, stjórnmálamenn – örugglega meðvitaðir um það hve stór hluti af veröldinni er tekinn frá ólæsum nemanda? Ef svo er, hvers vegna hefur ólæsi við lok grunnskóla ekki verið upprætt?

Vissulega munu „læsir“ nýta sér hverja tækninýjung sér til framdráttar, en er það forgangsverkefni að henda einu sinni enn í nemendur nýjustu græjum, með tilheyrandi gríðarlegum kostnaði? Getur verið að það sé mikilvægara að nýta fjármunina, sem munu vera takmarkaðir, til að reyna að tryggja með öllum ráðum að enginn nemandi ljúki grunnskóla án þess að hafa náð að minnsta kosti góðum tökum á lestrartækninni?

Læsið í öndvegi – „…ekki verður undan því vikist…“

Í nýjustu menntastefnu stjórnvalda, bæði lögum og aðalnámskrám, er læsi sett í öndvegi, ásamt þessum lykilhugtökum: jafnrétti, lýðræði, menntun til sjálfbærni og skapandi starfi. Félagsvísindastofnun HÍ tók út lestrarkennslu í 10 grunnskólum skólaárið 2008-9 fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þar kom meðal annars fram að markvissri lestrarkennslu er hætt allt of snemma í grunnskólum, og það bitnar auðvitað harðast á þeim sem síst skyldi – nemendum sem eiga í erfiðleikum í upphafi lestrarnáms (Katrín Jakobsdóttir, 2010, „Læsi sett í öndvegi í nýrri menntastefnu“, 7). Skipulögð lestrarkennsla virðist, skv. úttektinni, gufa upp að mestu eftir 3. bekk grunnskólans, þegar börnin eru að verða 10 ára gömul! Í kjölfarið skipaði ráðuneytið starfshóp til að „fylgja úttektinni eftir og einnig að skilgreina lestur í víðum skilningi og læsi sem eina af grunnstoðum í menntakerfinu“ (Katrín Jakobsdóttir, 7). En læsi er fleira en að kveða að. Fyrrnefndur starfshópur skilgreinir það svona: „„Í læsi felst að búa yfir þekkingu og leikni til að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla texta til að mæta kröfum samfélagsins og einstaklingsins. Með texta er átt við ritmál, myndmál, talmál og önnur kerfi tákna““ (Katrín Jakobsdóttir, 7). Allir sjá að langur vegur er frá því læsi að stauta sig í gegnum Gagn og gaman og að þessari „djúpu“ skilgreiningu ráðuneytishópsins.

Þó lesskilningur íslenskra nemenda komi betur út í PISA könnun 2009 en sambærilegum könnunum fram að því (Katrín Jakobsdóttir, 6) er ljóst að betur má ef duga skal. Og spjaldtölvur munu ekki ríða þann baggamun. Lestrarnámið mun hér eftir sem hingað til „vera grundvallarforsenda í öllu skólanámi“ (Katrín Jakobsdóttir, 7) og læsið „er svo mikilvægur þáttur í lífi einstaklings að ekki verður undan því vikist að vinna eins vel og unnt er að því að efla það og bæta“ (Guðmundur B. Kristmundsson, „Molar um læsi“, 9).

Mikilvægt er að allir átti sig á því að hér er um að ræða alvarlegt mál. Það varðar ekki aðeins líf, heill og hamingju hvers einstaklings heldur grundvöll mannlegs samfélags. Ef hluti samfélagsins er ólæs, hvort sem er í hinni þrengstu skilgreiningu hugtaksins eða þeirri sem starfshópur ráðuneytisins setti fram, er tómt mál að tala um „opið og gagnsætt samfélag“, hvað þá raunverulegt „lýðræðissamfélag“. Því „verður ekki undan því vikist“ að kenna öllum að lesa og gera hverjum og einum grein fyrir því „að læsi er eitthvað sem hann getur þroskað og eflt og það er hans eign sem ekki verður með nokkru móti af honum tekin“ (Guðmundur B. Kristmundsson, 10).

Skyndilausnir og græjur?

Skyndilausnir eins og fyrrnefndar tækninýjungar, og oftrú á að þær leysi af sjáfum sér einhvern vanda, eru skaðlegar. Til þess að tæknin nýtist öllum, helst sem jafnast, á leið sinni til þroska verður að byggja traustan grunn. Sá grunnur er læsi. Nú eru of margir nemendur illa eða ólæsir í skólakerfinu, hvort sem er grunnskólum eða framhaldsskólum. Það er óviðunandi. Illa eða ólæsum nemendum gagnast ekki aukin fjölbreytni í kennsluaðferðum eða námsframboði. Fleiri og fleiri námsleiðir geta á hinn bóginn sett strik í reikninginn og leitt athyglina frá því eina sem máli skiptir fyrir nemendur í þessari stöðu: að þeim sé kennt að lesa.

Aukinn aðgangur að upplýsingum, og sífellt fjölskrúðugri og öflugri tækni, gerir líka auknar kröfur til skólakerfisins. Það er ekki nóg að kunna að lesa gullaldarbókmenntir sem valdar eru fyrir nemendur, og að þeim réttar við fyrirfram ákveðin tækifæri. Krafan um að nemendur séu færir um „að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla“ margfaldast, því margt býr í netþokunni.

Þessar vangaveltur má enginn skilja sem svo að tækni sé einhver djöfull sem beri að forðast eins og heitan eldinn. Aðeins varúðarorð gegn því að okkar ágæta skyndilausna- og græjuóða þjóð fari á hvolf yfir því að komnar séu á markað spjaldtölvur, og gleymi kjarna málsins í gleðinni.

Bókin blífur

Bækur hafa í gegnum tíðina verið grundvöllur menntunar. Þeir sem hafa haft aðgang að bókum, og getað lesið þær, hafa fengið í kaupbæti forskot að sælunni. Og bókin blífur, ekki bara þessi úr pappír og prentsvertu heldur er „rafbókin“ nú komin til að vera. „Helsti kostur rafbóka fram yfir prentuðu bókina er að lesandinn stjórnar lestrarupplifuninni. Lesandinn getur aðlagað rafbókina að sínum þörfum með því að stjórna stærð texta, leturgerð, lit texta og bakgrunns og getur stækkað og minnkað myndir. Þetta eru dýrmætir möguleikar sem veita ýmsum hópum svo sem lesblindum, sjóndöprum og blindum aukið aðgengi að bókum“ (Óskar Þór Þráinsson, „Rafbækur í skólastarfi“).

Rafbækur er hægt að lesa nánast í hvaða tæki sem er. Það þarf ekki að kaupa sér nýja spjaldtölvu eða i-Pad eða sérhönnuð lestæki, eða hvað allar græjurnar nú heita. Gamla fartölvan í skólatöskunni og borðtölvan heima eða á bókasafninu duga í flestum tilvikum (Óskar Þór Þráinsson).

Tækniframfarir gagnast lítið ólæsum

„Það er næsta víst“ að þessir fyrrnefndu eiginleikar rafbóka koma til með að hjálpa til við lestrarkennslu og þær munu auka aðgengi að hverskyns lesmáli. Fátt „gefur manni meira en að lesa góðan texta sér til ánægju og fróðleiks. Í heimi bókmenntanna er falin mikil viska og fegurð“ (Katrín Jakobsdóttir, 7) en þeirri fegurð og visku verða illa og ólæsir af. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að senda börnin ólæs upp í framhaldsskólana og svipta þau þannig stórkostlegum lífsgæðum – taka frá þeim hálfan heiminn, ef ekki meira. „Gott og traust læsi þjóðar er auður sem ekki verður metinn til fjár en Ísland verður metið í samfélagi þjóðanna meðal annars út frá stöðu þess“ (Guðmundur B. Kristmundsson, 11).

Græjur og tækni eru vissulega til síns brúks en gleymum því aldrei að aukið aðgengi að upplýsingum og lesmáli (í hvaða mynd sem er) gagnast aðeins læsum.

 

Heimildir

Guðmundur B. Kristmundsson. 2010. „Molar um læsi“. Skíma. Málgagn móðurmálskennara, 33, 2: 8-11. Ritstjóri Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Samtök móðurmálskennara, Reykjavík.

Hjálmar Árnason. 2012. „Um spjaldtölvur og byltingar“. Fréttablaðið, 2. apríl, bls. 16.

Katrín Jakobsdóttir. 2010. „Læsi sett í öndvegi í nýrri menntastefnu“. Skíma. Málgagn
móðurmálskennara, 33, 2: 6-7. Ritstjóri Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Samtök
móðurmálskennara, Reykjavík.

Óskar Þór Þráinsson. 2012. „Rafbækur í skólastarfi“. Fréttablaðið, 3. apríl, bls. 24.