Hrossanöfn í mótsskrá LM 2018

Sitjandi í brekkunni við kynbótavöllinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2018, blaðandi í mótsskránni og hlustandi á þulina þylja upp nöfn hrossanna sem fyrir augu bar, feðra þeirra, mæðra og stundum móðurforeldranna líka, kom stundum fyrir að mér væri sem strokið andhæris um málvitundina. Þessi tilfinning varðaði stafsetningu, beygingar og nafnaval. Ég ákvað því að skoða nánar nafngiftir hrossanna í mótsskránni og velta fyrir mér „frávikum“ m.v. eigin máltilfinningu. Ekki eru þessar vangaveltur á neinn hátt vísindalegar, til þess skortir mig dýpri málfræðiþekkingu og væri gaman ef vísindamenn á því sviði leiðréttu það sem missagt kann að vera.

Halda áfram að lesa

Fjölskyldutengsl í óreiðu

Ég var að enda við að lesa Karitas án titils. Loksins. Kona mín hefur höfundinn, Kristínu Maríu Baldursdóttur, í uppáhaldi, les allt eftir hana og hvetur mig eindregið til þess sama. Ég hef auðvitað lesið ýmislegt eftir þessa frænku mína, en ekki allt, þó þessar bækur séu flestar til á heimilinu. En svona er nú það. Ekki hægt að lesa allt í einu og stundum þarf að nýta tíma sem gefst frá daglegum önnum til að yrkja.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að geta þess að móðurafi Kristínar, Gestur, kallaður Hrefnu-Gestur á Ísafirði, og móðuramma mín, Elínbjörg, voru systkin, bæði í yngri hlutanum úr 14 barna hópi Sigríðar Jónsdóttur frá Kaldbak í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu og Sigurðar Stefánssonar frá Reykjarvík í sömu sveit. Langafi og langamma okkar Kristínar Maríu bjuggu á Brúará í Bjarnarfirði frá 1906, en þess má geta að Sigurður var 15 árum eldri en eiginkonan, fæddur 1857, en hún 1872 og lifði bónda sinn í 22 ár áður en hún safnaðist til feðra sinna á Blönduósi árið 1956, 5 árum fyrr en ég sá ljós heimsins í fyrsta sinn.

Systkinin frá Brúará voru þessi: Róselía Guðrún, fóstra móður minnar (1890), Halldór Jón (1891), Guðríður (1894), Sigríður (1896), Elías Guðmundur (1898), Benedikt (1899), Stefán Björn (1902), drengur (1903), Gestur (1904), Ingi Einar (1905), Guðbjörn (1907), Elínbjörg (1908), Kristbjörg Róselía (1911) og Sigurbjörn (1912).

Amma eignaðist tvö börn, Ragnheiði Ester Guðmundsdóttur, mömmu mína, 1927 og Inga Karl Jóhannesson 1928, þekktan þýðanda og þul hjá sjónvarpinu á árum áður. Ingi Karl er látinn. Gaman er að segja frá því að Jóhannes, faðir móðurbróður míns, Jónsson er fæddur á Svanshóli í Bjarnarfirði 1906, þannig að saga fjölskyldunnar fléttast sterkum böndum inn í Njálu, bók allra bóka, en eins og allir vita bjó þar Svanur, móðurbróðir Hallgerðar langbrókar, Þorleiks, föður Bolla sem frægur er úr Laxdælu, og Bárðar. Ólafur pá, faðir Kjartans, var hinsvegar í engu skyldur fólkinu frá Svanshóli, enda ambáttarson af Írlandi, þaðan sem smjörið kemur nú í kálfana.

Hrefnu-Gestur, afi Kristínar frænku minnar og rithöfundar par exellance, var afkastameiri en amma í barneignum. Hann eignaðist 10 börn og er Hulda Elsa, móðir Kristínar, þriðja í röðinni, fædd 1930. 

Einhvern veginn hafa mál æxlast með þeim hætti að ég þekki allt of fátt af þessu frændfólki mínu, afkomendum systkina ömmu minnar af Ströndunum. Maður getur kynnt sér ættlegginn, nöfn á pappír, og sumt af myndum, í ritinu Pálsætt á Ströndum. Það er forvitnilegt í meira lagi.

En þessi pistill átti ekki að vera ættfræði, heldur bókrýni. Í stuttu máli er ég stórhrifinn af bók frænku minnar, Karitas án titils. Þetta er mögnuð ættar- og örlagasaga, sérstaklega eru mannlýsingarnar stórbrotnar. Sagan er líka vel stíluð, textinn rennur ljúflega fram og allar u.þ.b. 450 síðurnar eru áhugaverðar. 

En þetta veit náttúrulega allt viðræðuhæft fólk – sem dregur það ekki í heilan áratug að lesa helstu fagurbókmenntir.

 

Fiskarnir hafa fengið vængi

Tilvitnun

Loksins komst ég í það sem staðið hefur til allt árið: Að lesa nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Fiskarnir hafa enga fætur. Í sem stystu máli þá fann ég minn Kalman aftur.

Jón Kalman er fyrir minn smekk. Einn af örfáum nútíma skáldsagnahöfundum íslenskum sem náð hafa að heilla mig með skrifum sínum. En ég var samt farinn að efast. Þegar ég var farinn að fletta áfram til að kanna hvort snjóbylnum ætlaði virkilega aldrei að linna?

Í fótalausu fiskunum er Jón upp á sitt allra besta. Textinn er afbragð, ljóðrænn og þykkur eins og feitt smjör sem drýpur af hverri síðu. Það er auðvelt að fara yfir strikið í notkun líkinga. Hér eru líkingar nánast í hverri málsgrein en þær hitta í mark – frumlegar og skemmtilegar. Og djúpar. Það er eins og hver þeirra beri æðri boð, heimspekilegar spurningar um lífið, samfélagið, veröldina.

Sagan er marglaga. Hún er ástarsaga, þroskasaga, ættarsaga. Höfundurinn kafar inn á við, inn í innsta kjarna mannsins. Hún fjallar um tilgang manneskjunnar í heiminum:

„ … ástin, segir hann, það er sú vetrarbraut sem skærast skín og aldrei eyðist! En sárast hlýtur að vera að hafa aldrei elskað nógsamlega, ég er ekki viss um að það sé hægt að fyrirgefa það.“

 

Hún er samfélagsádeila, enginn öskrandi áróður heldur heimspekilega yfirveguð og beittari fyrir vikið:

„Vesalings Jón Sigurðsson sem þarf að horfa dag og nótt á Alþingi Íslendinga, við förum illa með sjálfstæðishetju okkar, hann er líka þungbúinn á svip og hefur lagt hendurnar á jakkaboðunginn, eins og hann sé reiðubúinn að seilast í innri vasann eftir eggi til að kasta í Alþingsihúsið; reiðubúinn að grípa egg upp úr vasa ef forseti landsins ætti leið hjá. Hvað er hægt að gera við þessa þjóð sem á örskömmum tíma varð að fyrirmynd, að hetjum Evrópu, en reyndist síðan, eins og oft áður, meistari í spretthlaupi, ónýt í langhlaupi?“

 

Hún er heimsádeila, ádeila sem á rætur sínar innan í manneskjunni: tilgangurinn lifir innra með manninum, maðurinn lifir í samfélagi og samfélagið er meðal samfélaga.

„ …það er fátt jafn dýrmætt í þessari veröld, jafn mikilsvert, og brosið. Samt voru þeir Brésnev og Jimmy Carter ekki með það á viðræðulista sínum veturinn 1980, […], og þó stóðu allir í þeirri vissu að þeir myndu ræða mikilvægustu málefni jarðarbúa.“

 

Svona eiga skáldsögur að vera. Þær eiga að hreyfa við manni og fá manni sífelld ný viðfangsefni að glíma við. Fiskarnir hafa enga fætur er hreint afbragð.

 

Að lesa og hugsa í senn

Ekki hef ég lesið mikið eftir Guðrúnu frá Lundi. En nýútgefna bókina Afdalabarn þrælaðist ég í gegnum. Það er ekki góður skáldskapur; fyrirsjáanlegur söguþráður, einfeldningsleg persónusköpun, langdreginn og ófrumlegur stíll. Að hampa sögunni sem einhverri ritsnilld, eins og gert hefur verið, er of langt gengið. Aukapersónurnar, sem lofaðar hafa verið, eru í besta falli slappar eftirlíkingar á frægum persónum úr Pilti og stúlku (t.d. Gróu á Leiti).

Með þessu er þó ekki sagt að sagan sé verri en margar sögur frá 19. öld, á bernskudögum skáldsögunnar. Afdalabarn er einmitt þetta: frumbernsk saga. Og maður fær þá tilfinningu að hún sé skrifuð um miðja 19. öld; að rætur höfundarins liggi þangað aftur fremur en á 20. öld. En eiga lesendur að hunsa það að Afdalabarn kom út hundrað árum seinna en Piltur og stúlka, þegar þeir leggja mat á bókmenntalegt gildi sögunnar?

Sagan er einföld, auðlesin og aðgengileg. Boðskapurinn liggur fyrir allra fótum á yfirborðinu og enginn þarf að tefja sig á leit að dýpri tilgangi. Að þessu leyti má segja að sagan henti byrjendum. Þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir því byrjendum sé það ofviða að bæði lesa og hugsa í senn.

Ferðast um landið – í huganum

Í sumar hef ég óvenjulítið ferðast um landið, í hefðbundnum skilningi, hvort sem er vanabundnar ferðir um óbyggðir og öræfi á hestum eða á bíl milli landshluta eftir hinu nútildags kunnugra vegakerfi. Þó átti ég þess kost að ríða með syni mínum og frændfólki um nálægar slóðir hér sunnanlands: frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi, um Laugarvatn, Laugarvatnsvelli, Kringlumýri, Gjábakka, Skógarkots- og Hrauntúnsstíga í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Svartagil, Mosfellsheiði, Jórukleif, Grafning, Kaldárhöfða, Búrfellsdal, Klausturhóla, Björk – og aftur heim að Þóroddsstöðum. Óvíða gefast jafn góðar reiðgötur í jafn fögru umhverfi – og í afburðafélagsskap tekur fátt slíku ferðalagi fram.

En því minna sem orðið hefur úr ferðalögum í almennum skilningi þess orðs, því meira hef ég ferðast landshorna á milli heima í stofu, uppi í rúmi – eða jafnvel í sólbaði suður í Miðjarðarhafi.

Þetta hefur mér auðnast fyrir tilstilli Árbóka Ferðafélags Íslands, sem flestir munu víst nýta sem uppflettirit, en ekki mögnuð fræðirit, spennandi og gefandi bókmenntaverk, allt í senn. En þannig les ég Árbækurnar. Drekk þær í mig eins og flest fólk kriminala og afþreyingarbækur af ýmsu tagi.

Ég byrjaði þegar árbókin 2014 kom inn um lúguna: Skagafjörður austan Vatna, fyrra bindi, frá jökli að Furðuströndum, eftir Pál Sigurðsson. Þetta var tímabær framhaldslestur, því um Skagafjörð vestan Vatna fjallaði bókin 2012. Seinna bindis Austanvatnabókarinnar bíð ég nú þegar með óþreyju. Þessar tvær lesnu Skagafjarðarbækur fjalla um svæði sem ég er allkunnugur af fjölmörgum hestaferðum um Kjöl og niður í Skagafjörð – fjöll, vötn, klungur og dali sem ég hef margoft haft fyrir augunum í allskyns veðri. Því er auðvelt að ferðast um þetta land ljóslifandi í huganum við lesturinn – og veitir mikla fullnægju.

Þegar Skagafjörður var afgreiddur í bili fór ég upp í hillu og sótti Norðausturland Hjörleifs Guttormssonar frá fyrra sumri, sem mér hafði þá ekki gefist kostur að ljúka við vegna anna í hinum áþreifanlegri ferðalögum. Umfjöllunarefni bókarinnar er land sem mér er ókunnugt að mestu leyti, nema í gegn um bílrúðu, og rís skiljanlega ekki jafn lifandi upp af blaðsíðunum. Fjölmargar myndir og kort bæta þó miklu við textann, sem er með hóflegum og fræðilegum blæ höfundarins. 

Nú varð ekki hjá því komist að skella sér í bók Árna Björnssonar frá 2011, Í Dali vestur, sem ég hafði aðeins byrjað að glugga í útgáfuárið, en ekki haft tíma til að sökkva mér í. Það gildir um Dalina eins og Norðausturland að þar um hef ég aldrei riðið og á raunar enn eftir að aka um stóran hluta svæðisins, Fellsströnd og Saurbæinn, aðeins brunað í gegn eftir þjóðveginum, gegnum Búðardal og vestur á Firði. Árni skrifar skemmtilegan stíl og eftir lesturinn hlakka ég til að ráða bót á þessu sem fyrst. 

Húnaþing eystra, frá jöklum til ystu stranda hafði ég alltaf geymt mér, vildi alls ekki hlaupa í þessa bók á hundavaði. Tvær meginástæður eru fyrir því. Annars vegar hef ég riðið þarna um margoft, um Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar, Blöndudal og Vatnsdal. Hins vegar er móðir mín alin upp í sýslunni, á Þröm í Blöndudal og í Litladal í Sléttárdal. Og nú fór að verða gaman. Bæði var að um hluta landsins hef ég „þvingað slyngan hófahund“ og myndirnar hrönnuðust sjálfkrafa upp við lesturinn og að Jón Torfason, fyrrum kennari minn í Árnagarði, lýsir heimasveitum sínum með persónulegum hætti og af tilfinningu og hikar ekki við að stíga fram og lýsa skoðunum sínum á ýmsu er varðar mannleg inngrip í náttúruna, t.d. af vali vegarstæða, svo eitthvað sé nefnt. Ómögulegt er annað en að hrífast með – sjálfsagt ekki síst af því að ég er innilega sammála skoðunum Jóns í þessu efni.

Nú voru hátt í 1000 blaðsíður af landslags-, landshátta-, menningar-, byggðaþróunar- og búskaparháttalýsingum komnar í hinn andlega sarp – og þykir sjálfsagt flestum nóg um. Handan við hornið var ferðalag suður til Krítar. Kona mín var alltaf að spyrja mig hvaða bók ég ætlaði að taka með til að lesa undir sólhlífinni, og þegar engin svör bárust, hvort ég ætlaði EKKI AÐ TAKA NEINA BÓK með?

Á endanum, daginn fyrir brottför sótti ég Fjallajarðir og Framafrétt Biskupstungna eftir Gísla Sigurðsson frá Úthlíð, og stakk henni niður í tösku. Það reyndist mikið happ, því bókin er gull. Jón Torfason er persónulegur en Gísli tekur honum fram hvað það varðar. Hann er svo nákunnugur öllu svæðinu sem um er fjallað að hann þekkir hverja hundaþúfu, hefur troðið það fótum frá barnæsku, ýmist fótgangandi eða á hesti, í smalamennskum og öðrum bústörfum eða í skemmti- og náttúruupplifunarferðum – auk þess að hafa málað fjölmargar myndir af náttúruperlum svæðisins. Náttúra, menning og saga heimahaganna eru höfundinum svo hjartfólgin að kærleikurinn beinlínis vermir upp bókstafina – og hjarta lesandans. Hann setur hófsamlega ofaní við menn, t.d  fyrir að planta öspum eða sígrænum trjám í náttúrulegt birkikjarrið, rækta skóg í reglustrikureitum og hafa ekki rænu á að varðveita konungsveginn sem bæri. Og svo lofsamar hann af innileik það sem vel hefur verið gert, t.d. við uppgræðslu á þessu viðkvæma svæði. Þó ég hafi farið um mestallt þetta svæði oft og mörgum sinnum eru þar líka staðir mér ó- eða lítt kunnir, t.d. í kringum Hagavatn og hluti Haukadalsheiðar, Fljótsbotnar og stærsti hluti Úthlíðarhrauns, sem gaman var að kynnst svo rækilega í gegnum frásögn Gísla heitins.

Í hitamollunni á Krít, þar sem mistrið byrgði oft verulega sýn til fjalla, fann maður foksandinn úr lýsingum Gísla milli tannanna.

 

 

 

Metnaðarfullt menningarverkefni

Þrátt fyrir ungan aldur er Karlakór Hreppamanna fjölmennur og öflugur og óhætt að fullyrða að hann hafi afrekað margt. Eftirminnilegir eru tónleikar til heiðurs Sigurði Ágústssyni á aldarafmæli hans og annar hápunktur í starfi kórsins er tvímælalaust mögnuð tónleikaröð til heiðurs Franz Liszt á 200 ára afmæli snillingsins haustið 2011.

Menningarráð Suðurlands hefur nú í þriðja sinn ákveðið að veita kórnum menningarstyrk, sem sýnir best hve metnaðarfullt starf hans er. Styrkurinn í ár er veittur kórnum til að takast á við óperutónlist, með tónskáldin Verdi og Wagner í forgrunni, en árið 2013 eru 200 ár frá fæðingu beggja þessara meistara. Æft verður af krafti í vetur og síðan eru fyrirhugaðir fernir tónleikar næsta vor, tvennir á Suðurlandi og tvennir á höfuðborgarsvæðinu.

Kórinn hefur í þessu verkefni fengið til liðs við sig tvo þekkta einsöngvara til að túlka allt litróf óperutónlistarinnar. Það eru þau Gissur Páll Gissurarson og Elsa Waage sem slegið hafa í gegn undanfarið, Elsa nú síðast á sviði Hörpu í magnaðri uppfærslu á óperu Verdis, Il Trovatore, sem hópur kórfélagar sá saman fyrr í haust.

Auk tónleika hér á landi mun kórinn halda til Ítalíu næsta haust og syngja á tónleikum á vegum FENIARCO (Federazione Nazionale Italiana Associazioni Corali Regionali), sem eru kórasamtök þar í landi. Því er ekki að leyna að töluverður spenningur er innan kórsins fyrir því verkefni að syngja í föðurlandi óperunnar og anda að sér tónlistarmenningunni með ítölskum söngbræðrum og systrum.

Það er von okkar í Karlakór Hreppamanna að Sunnlendingar, og landsmenn allir ef út í það er farið, taki þessu menningarbrölti öllu saman vel. Það er ekki sjálfgefið að kór af þessu tagi, skipaður áhugamönnum, flestum alls ómenntuðum í söng og tónlistarfræðum, ráðist í slík stórvirki.

Heiðurinn að listrænum metnaði kórsins á stjórnandinn, Edit Molnár, sem hefur árum saman unnið ötullega að því markmiði að færa Sunnlendingum helstu tónlistarperlur heimsins og víkka um leið listrænan sjónhring þeirra. Heimslistin er nefnilega ekki bara fyrir einhverja elítu „fyrir sunnan“. Henni til fulltingis í starfi sínu er svo afburða píanóleikari, Miklós Dalmay, sem setur sterkan svip á kórstarfið með sinni leiftrandi glettni, fyrir utan að taka sjálfum sér sífellt fram með snilldarleik á flygilinn.

Þann 21. nóvember sl. var Karlakór Hreppamanna í útvarpi allra landsmanna. Á Rás 1 er þátturinn Raddir, sem þennan dag var helgaður kórnum. Þáttinn, með söng kórsins og viðtölum við stjórnanda hans og nokkra kórfélaga, er hægt að hlusta á með því að smella á þennan tengil.

 

Óður verkamannsins

Í dag er 1. maí – dagur verkalýðsins. Dagur verkalýðsbaráttunnar. Eitthvað hefur nú verkalýðsbaráttan breyst í gegnum tíðina, enda „verkalýðurinn“ nú til dags eitthvað allt annað en hann var áður fyrr. „Verkalýðshreyfingin“ sýnist, svona utanfrá séð, vera fátt annað en nokkrir moldríkir kallar (sjálfsagt líka nokkrar konur), svokallaðir verkalýðsleiðtogar, sitjandi á bólgnum sjóðum sem vinnandi hendur hafa lagt til smám saman – hluta launa sinna fyrir hið daglega strit. Ekki verður séð að þær hendur hafi mikið að segja um það hvert öllum þeim milljörðum er ráðstafað – ekki fremur en launamenn um lífeyrissjóðina sem þeir greiða í.

En einu sinni var verkalýðsbaráttan með öðrum blæ. Eftirfarandi kvæði, sem mér finnst 1. maí vera ágætt tilefni til að birta, er frá öðrum tíma og lýsir öðru andrúmslofti – blæ „karlmennsku“ og hreysti, fórnfýsi, þjóðerniskenndar, trúar og samtakamáttar: „Sameinaðir stöndum vér. Sundraðir föllum vér“.

Annars er rétt að geta tilefnis. Kvæðið er þýðing, ein af mörgum sem ég gerði fyrir Karlakór Hreppamanna að beiðni stjórnanda kórsins, til að undirbúa söngdagskrá vegna 200 ára afmælis ungverska tónskáldsins og píanósnillingsins Franz Liszt síðastliðið haust. Ekki komst stjórnandinn, Edit Molnár, þó svo langt með kórinn að æfa þetta lag til flutnings. Kannski það bíði bara betri tíma?

Óður verkamannsins

(„Arbeiter-Chor“: Rossa Ernö / Franz Liszt)
Þýðing: Gylfi Þorkelsson

Stíg fram! með haka, fork og pál.
Stíg fram! Á eggjað blikar stál.
Stíg fram! ef þor og iðni átt,
hér allt er metið, stórt og smátt.

Um enni þvölum svita slær
er sindrar líkt og perla skær.
Með þandar taugar, þor og dug
nú þjóðar vorrar sýnum hug.

Af gleði erfið vinnum verk
því von og hjartans trú er sterk.
Ef saman beitum hug og hönd
þá halda munu engin bönd.

Ef saman göngum sorgum mót,
ef saman brúum óreið fljót,
ef saman réttan syngjum tón,
ef saman bætum annars tjón.

Vort föðurland með frjóa jörð,
af fúsum vinnuhöndum gjörð,
sem efla vilja hennar hag
og heiður verja, nótt sem dag.

Um frelsið syng við hamarshögg,
þá höndin tekur á sig rögg.
Á steðjann hamra styrkur vil
og stoltur vinna morguns til.

Og hvert eitt verk af guði glætt,
af gæðum hans er efnið bætt,
en allt sem geri blessun ber
og byggt á traustum grunni er.

Nú leggi allir hönd við hönd
og hnýti eilíf tryggðabönd,
og rækti sérhvern Drottinsdag
vort dýra, kæra bræðralag.

Já, tengjum saman strönd við strönd
og styrka bjóðum vinar hönd,
treystum okkar tryggðabönd
og ræktum sérhvern Drottinsdag
vort dýra, kæra bræðralag.

Veisla fyrir miðjum firði

Rétt um daginn las ég „í einum spreng“ tvær bækur eftir Jón Hjartarson. Önnur þeirra, Fyrir miðjum firði, kom reyndar út fyrir ári síðan en hin, Veislan í norðri, er nýútkomin. Skemmst er frá því að segja að hér er í báðum tilvikum um sannkallaðan yndislestur að ræða.

Fyrir miðjum firði segir frá uppvexti Jóns í Kollafirði á Ströndum um miðja síðustu öld, á nýbýlinu Undralandi, milli tveggja Fjarðarhorna, þess stóra og litla. Bókin bregður upp skýrum svipmyndum af lífi íslensks alþýðufólks, harðri lífsbaráttu þess við erfiðar aðstæður, en einnig leikjum og hugmyndaheimi barnsins, þar sem náttúran, jafnt harðneskjuleg sem undurblíð, er í aðalhlutverki.

Veislan í norðri segir frá þátttöku Jóns í síldarævintýrinu mikla á 7. áratug liðinnar aldar en hann vann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Raufarhöfn í sex sumur á þroska- og námsárum sínum, frá 1961 til 1966. Frásagnaraðferðin í þessari bók er svipuð og í hinni fyrrnefndu, brugðið er upp svipmyndum af lífinu „í síldinni“, bæði af fólki, starfs- og staðháttum á síldarplönum og í verksmiðjunni, og þorpsbragnum.

Saman eru þessar bækur þroskasaga höfundarins og sýna með skýrum hætti þann grunn sem lífsskoðun og viðhorf hans byggir á æ síðan.

Jón Hjartarson er ritfær í besta lagi. Texti hans er á fallegu íslensku máli, skýr og skorinorður og laus við allt prjál og málalengingar, svolítið í anda Íslendingasagnanna sem hann drakk í sig í æsku. Textinn líður þó vel fram og er afar læsilegur – þetta eru engar skýrslufærslur – lifandi og skemmtilegur stíll sem fellur einstaklega vel að efninu svo lesandinn er alltaf með á nótunum. Ekki er farið í grafgötur með neitt, og lýsingarnar svo myndrænar að efnið stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

Stíllinn er líka afar einlægur, manni fer ósjálfrátt að þykja vænt um þennan pilt. Því veldur ekki síst það að sá sem heldur um penna er mannvinur – allar lýsingar á fólki eru umvafðar virðingu og skilningi á aðstæðum þess og mannlegum breyskleika, höfundurinn fylgir samferðamönnum sínum við hverjar aðstæður í blíðu og stríðu, og fellur aldrei í þá algengu gryfju að setjast í dómarasæti yfir þeim sem kanna að hafa orðið hált á lífssvellinu.

Eitt megineinkennið á báðum þessum bókum er sterk félagsleg vitund höfundarins. Hann horfir til baka, fullorðinn maður, metur þaðan stöðu fólks og samfélags á barns- og unglingsárum sínum og rýnir í atburði frá félagslegum sjónarhóli. Að því leyti eru bækurnar báðar greinandi og í sjálfu sér hápólitískar. En það kemur síður en svo að sök, hvergi örlar á innrætingu eða pólitískri rétthugsun: þetta eru ekki pólitísk boðunarrit, heldur svipmyndir úr þroskasögu, annars vegar einstaklings og hinsvegar lýðveldis, sem bæði eru að stíga sín fyrstu skref á langri vegferð.

Þetta eru höfuðkostir beggja bókanna; hin skarpa, öfgalausa samfélagsgreining, lifandi og myndrænn stíll og síðast en ekki síst mannúðin og virðingin sem skín úr hverju orði.

Okkur sem þekkjum Jón Hjartarson kemur það ekki á óvart.

Það sem er bannað

Sigríður Jónsdóttir. Kanill – ævintýri og örfá ljóð um kynlíf. Sæmundur, 2011.

Skáldið í Arnarholti, Sigríður Jónsdóttir, hefur gefið út nýja bók. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna fetar höfundurinn fáfarnar slóðir, sem hafa lengst af legið um bannsvæði – að heimkynnum klámvísna og grótesks gamans.

Ljóðmælandi er kona, skáldið sjálft, sem talar við lesanda í fyrstu persónu og af hjartans einlægni, hefur gott vald á móðurmálinu og næmt auga fyrir frumlegu og skemmtilegu myndmáli. Sjónarhornið er oft af bæjarhólnum í sveitinni heima, þar sem við blasa kýr og kindur, eða „hryssan rauða“. Meginstefin í þessari persónulegu bók Sigríðar speglast í tilvitnuðum inngangsorðum:

Samviskuna
beislaði ég
lagði á girndina
þunga hlekki

Skilaboð til stúlkna eru þau, segir skáldið, að karlmenn vilji hreinar meyjar, hlédrægar og feimnar. Hún sjálf tamdist hinsvegar illa, varð því bæði kjaftsár af beisli og haftsár af hlekkjum, sem eru „fordómar og heimska“. Þó fjötrarnir væru „sniðnir af umhyggju og saumaðir af ást“, pössuðu þeir illa, enda sniðið „tekið eftir klæðum góðu stúlkunnar“. Og „skírlífisbrækurnar runnu niður lærin“ því konan er bæði „kjaftfor og framhleypin“ og hana „langar að sofa hjá“.

Það er sterkur broddur í ljóðum Sigríðar. Börn eru alin á kvenfyrirlitningu, blandaðri jafnt móðurmjólkinni sem út á skyrið, og ef „annað vex þar / sem óhætt er að skammast sín fyrir / ert þú örugglega stelpa“ sem síðar meir þarf að lifa við það viðhorf að „fyrirlitlegri snift er ekki til / en sú sem gerir hitt, sjálfri sér til skemmtunar“.

Segja má að aðallega sé barist á tvennum vígstöðvum í bókinni. Annars vegar ráðist gegn bókhefðum fyrri tíðar; fyrst eru leidd fram á sviðið pörin Indriði á Hóli og Sigríður í Tungu, og Dimmalimm og (svanurinn) Pétur, sem öll fjögur eru alveg vita náttúrulaus. Skáldið sviptir síðan hulunni af raunveruleikanum, því sem leynist að baki orðunum en bannað er segja frá, í ævintýrinu um Þorstein karlsson og Ingibjörgu kóngsdóttur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er það flokkað með „kímilegum ævintýrum“. Höfundur spinnur áfram, þar sem texta ævintýrisins sleppir, og lýsir girndinni sem ólgar undir þungum hlekkjum hefðarinnar: Þegar kóngur sleikir rassinn á Þorsteini vaknar með honum á ný „svipaður skjálfti og þegar hann áður fyrr fylgdist með stráknum úr kotinu hlaupa og ærslast með Imbu í garðinum heima“. Drottningin reynist líka, þegar til kemur, hafa eðlilega kynhvöt og nýtur þess til fullnustu þegar Þorsteinn „renndi sér inn í hana“ og það sama gildir um Ingibjörgu: „Þegar til kom hafði hún rúm fyrir hann allan og hún naut hans og hann naut hennar…“.

Hinsvegar leggur Sigríður til atlögu við helgi hjónaherbergisins, og eigin fordóma, og lætur eins og hún viti ekki „hvað það er bannað“ að lýsa á bók sjálfsfróun, en játar að fyrir framan spegil yrði hún meira að segja svo „klúr“ að hún gæti ekki horft framan í sjálfa sig, „aðeins á allt hitt“. Skáldið hikar heldur ekki við, fyrir framan lesandann, að fara „rennvotum fingrum um pjásuna“ og skoða í speglinum á sér klofið. Til að leggja í þetta þarf hún þó að fara í huganum á hótel í útlöndum. Blygðunarlaus lætur hún líka lesanda fylgjast með því hvernig elskugi hennar smyr kremi „á kónginn á sér“ og penslar skaut hennar „með limkollinum“.

Yrkisefnið, og ekki síst orðavalið, veldur því að varla verður lesið upp úr Kanil Sigríðar Jónsdóttur í komandi jólaboðum eða fínni fermingarveislum þegar líður fram á vorið. Líklegra er að hvíslað verði um efnið í fatahengjum eða bak við luktar dyr. Svo lítið hefur í raun breyst frá tímum Jóns Thoroddsens, og þegar allt kemur til alls er höfundurinn sjálfur ekki jafn óþekkur og gefið er í skyn – í bókinni stígur fram góða stúlkan, eins manns kona, sem nýtur kynlífs aðeins með elskhuga sínum, sem hún treystir af því hún þekkir hann út og inn og hann þekkir hana „betur en sig“. Að því leyti er hin framhleypna, „fyrirlitlega snift“ víðsfjarri í þessari bók.

(Umsögnin birtist í Sunnlenska fréttablaðinu 24. nóvember 2011).