Skipulagsheild er hugtak úr stjórnsýslufræðum og vísar í grófum dráttum til hóps/samfélags fólks sem vinnur saman að markmiði/markmiðum. Skipulagsheildir eru t.d. lítil og stór fyrirtæki, íþróttafélög, verkalýðsfélög, stjórnmálaflokkar, sveitarfélög, Alþingi o.s.frv.
Í skipulagsheildum er hannað einhverskonar hírarkí, stjórnkerfi, sem getur verið mismunandi „flatt“ eða „lóðrétt“. Lýðræðislegar skipulagsheildir kjósa sér forystu, stjórn og leiðtoga í almennum kosningum meðal félagsmanna.
Skipulagsheildir með flatan strúktúr geta verið óskilvirkari, þar koma fleiri að ákvörðunum, sem er oft tímafrekara, enda er það þekktur frasi að „lýðræðið þvælist fyrir“.
Lóðrétt skipulag reiðir sig á fámennari yfirstjórn, ýktasta dæmið er einræði, þar sem allar ákvarðanir leka niður skipuritið frá einum einstaklingi á toppnum.
Skipulagsheildir eru ekki eyland. Þær starfa í síbreytilegu samfélagi. Þess vegna þurfa þær að vera „lifandi“. Skipulagsheild sem höggvin er í stein er „dæmd til að deyja“. Því geta verið fullkomlega málefnalegar og eðlilegar ástæður fyrir því að breyta skipulagsheildum. Það væri í raun ómálefnalegt að skoða ekki reglulega hvort ástæða sé til að breyta markmiðum og stjórnkerfi skipulagsheilda. Skipulagsheildum sem ekki þjóna á sem bestan hátt umbjóðendum sínum er nauðsynlegt að breyta.
Breytingar á skipulagsheildum geta, því miður, líka verið fullkomlega ómálefnalegar og gegn hagsmunum umbjóðendanna, gerðar eingöngu til að þjóna hagsmunum yfirstjórnar og/eða leiðtoga, eða öðrum annarlegum hagsmunum.
Sem dæmi um nýlegar og umdeildar breytingar á skipulagsheildum er uppstokkun á stjórnarráðinu, fjölgun ráðuneyta og tilfærsla verkefna milli þeirra. Þessar breytingar eru alfarið „lóðbeint niður á við“, þ.e.a.s. það eru forystumenn stjórnmálaflokka í ríkisstjórn sem ákveða þær einhliða. Hvorki starfsfólk stjórnarráðsins né umbjóðendur stjórnmálaleiðtoganna, kjósendur, voru spurðir álits. Umdeilt hefur verið hvort þessar breytingar þjóni fyrst og fremst umbjóðendunum, bæti þjónustu við almenning, eða metnaði stjórnmálamanna til að þjóna eigin lund og útdeila bitlingum til síns fólks. Þær kosta mörg hundruð milljónir og það eru ekki þeir sem tóku ákvörðunina sem borga brúsann, heldur almenningur, sem hafði ekkert um málið að segja.
Fleiri slíkar umdeildar breytingar á skipulagsheildum má nefna; færsla höfuðstöðva Fiskistofu til Sauðárkróks, færsla Landmælinga Íslands til Akraness. Þessar breytingar höfðu gríðarleg áhrif á fólkið sem þar vann, jafngilti uppsögn stórs hóps sérfræðinga og skrifstofufólks: Annað hvort flytur þú að heiman eða leitar þér að annarri vinnu. Ákvörðunin var tekin efst í hírarkíinu og þeir sem undirskipaðir voru skyldu hlýða. Málefnalegu rökin fyrir þessum breytingum voru „að færa opinber störf út á land“ en ekkert raunverulegt samráð við starfsfólkið viðhaft, enda vandséð hverju það hefði skilað: „take it or leave it“. „Samráðið“ snerist því í rauninni aðeins um það hvort starfsmenn vildu flytja með stofnuninni eða ekki.
Endalaust væri hægt að tína til dæmi um breytingar á skipulagsheildum, bæði vel heppnaðar og misheppnaðar.
Nú hefur nýlega lýðkjörinn meirihluti stjórnar verkalýðsfélgs ákveðið að breyta skipulagi á skrifstofu félagsins. Málefnalegu rökin fyrir breytingunum, sem boðaðar voru fyrir stjórnarkosningar eru, skv. því sem fram hefur komið í fjölmiðlum, m.a. aukið gagnsæi í launakjörum, t.d. afnám ógagnsærra fríðinda einstakra starfsmanna, jöfnun launabils milli hæstu og lægstu launa, breytingar á starfslýsingum og verkefnum starfa til að bæta þjónustu við félagsmenn. Hinn nýkjörni meirihluti stjórnar boðar aðrar áherslur en viðhafðar hafa verið um langt árabil og til þess að ná þeim markmiðum þurfi að breyta skipulaginu.
Það er í sjálfu sér málefnalegt sjónarmið. Starfsfólk er kjarasamningsbundið og breytingar á störfum og kjörum eru óheimilar, nema samkomulag náist um þær við viðkomandi starfsmann. Vinnustaðurinn er fjölmennur og af fyrri reynslu virðist útséð um að slíkt samkomulag náist, a.m.k. við hluta starfsmannanna, og einnig ljóst að sú leið myndi taka langan tíma. Því var gripið til þess ráðs að segja upp öllu starfsfólki og auglýsa endurskilgreind störf laus til umsóknar. Með þessu átti einnig að tryggja jafnræði, að allir sætu við sama borð.
Þetta er auðvitað umdeilt.
Vegna þess að það er algengara en ekki í íslensku spillingarsamfélagi að grípa til aðgerða af þessu tagi, að boða skipulagsbreytingar, segja upp starfsfólki eða að leggja niður störf, jafnvel að loka heilu stofnununum, til að losna við „óþægindi“ fyrir stjórnendur og pólitíkusa við gæslu sérhagsmuna, sjá margir engan annan tilgang stjórnar Eflingar með hópuppsögn á skrifstofu félagsins en að losa sig við óþægilega starfsmenn og ráða aðra þægilegri í staðinn. Þetta er það landslag sem helmingaskiptaflokkarnir hafa mótað allan lýðveldistímann, og lengur, og því er mörgu fólki vorkunn að líta svo á; það hvorki þekkir né skilur annan tilgang. Þess vegna grípur það til fordæminga og gífuryrða, jafnvel svo grófra að líkja formanni félagsins við einn mesta morðhund mannkynssögunnar.
Spyrja má: Á hluti starfsfólks á vinnustaðnum að hafa það vald að koma í veg fyrir að lýðræðislega kjörin stjórn nái markmiðum sínum um breytingar á skipulagi til að bæta þjónustu við félagsmenn?
Það mun ekki koma í ljós fyrr en breytingarnar eru um garð gengnar, stjórnsýslan farin að virka nokkurn veginn snuðrulaust, og allir búnir að gleyma málinu, hvort ákvörðun þriggja einstaklinga efst í hírarkíinu um 700 milljóna króna álögur á herðar almennings til að umbylta stjórnarráðinu sé málefnaleg; hvort hún leiði til betri og skilvirkari þjónustu við almenning, eða hvort hún var einungis til að þjóna lund formanns Framsóknarflokksins, við samsuðu stjórnarsáttmálans, um fleiri ráðherrastóla og bitlinga fyrir sitt fólk, í skiptum fyrir eitthvað annað fyrir hina formennina.
Á sama hátt verður ekki úr því skorið hvort skipulagsbreytingar á skrifstofu Eflingar eru málefnalegar og leiði til aukins gagnsæis og skilvirkni, og betri þjónustu við félagsmenn, eða einungis til þess fallnar að losa formann og meirihluta stjórnar við óþægilega starfsmenn, fyrr en breytingarnar eru um garð gengnar og reynsla komin á nýja skipulagið.
Það er augljóst að Sólveig Anna Jónsdóttir hefur verið ódeig baráttukona fyrir réttindum fátæks og jaðarsetts láglaunafólks og náð miklu betri árangri í kjarasamningum fyrir sitt fólk en aðrir verkalýðsleiðtogar hafa gert um langa hríð. Það er líka augljóst að hún leggur meiri áherslu á í starfi sínu að berjast fyrir bættum kjörum félagsfólks en að strjúka starfsfólki á skrifstofunni um kviðinn.
Sú stefna er umdeild og mörgum liði mikið betur ef þessu væri öfugt farið; að formaðurinn legði meiri áhersla á að loftræstingin á skrifstofunni væri færð til betri vegar og stofuhiti þar ávallt notalegur, en skipti sér minna af því að „kellingarnar í umönnunarstörfunum“ þurfi að hlaupa stöðugt hraðar til að bjarga næstu máltíð fyrir börnin sín, eins og þær hafa gert afskiptalitlar um aldir.
Vegna einbeittrar og árangursríkrar baráttu Sólveigar Önnu og hennar fólks við auðvaldið fyrir bættum kjörum láglaunafólks ætla ég að láta hana njóta vafans um tilgang skipulagsbreytinga á skrifstofu Eflingar. Þar til annað kemur í ljós.