Bjarni á Laugarvatni

„ótrauður baráttumaður fyrir hugsjónum sínum“
 
 
 
Gylfi Þorkelsson
(Skrifað sem lokaverkefni í námskeiðinu „Forystuhlutverk stjórnenda í opinberum rekstri“
við Háskóla Íslands, félagsvísindadeild – Opinber stjórnsýsla, MPA, vor 2010)
 

 

Inngangur                       

Um aldamótin 1900 fór bylgja framfarahugsjóna og bjartsýni um íslenskar byggðir. Sjálfstæðisbaráttan var í fullum gangi og ýmsar tækni- og atvinnuframfarir gáfu fyrirheit um betri tíð. Fólk sem var þá á hátindi ævi sinnar, eða ólst í blóma lífsins upp við þessar hugsjónir, er kallað einu nafni „aldamótakynslóðin“. Í þeim hópi var árið 1900 ellefu ára gamall strákur austan úr Landeyjum, Bjarni Bjarnason, síðar jafnan kenndur við Laugarvatn. Þrátt fyrir föðurmissi á unga aldri, flutninga og kröpp kjör í æsku, komst strákur til manns, sótti sér menntun og tók stóran þátt í baráttunni fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu, ekki síst bændafólks, með því að tryggja því aðgang, fyrst að almennri grunnmenntun, en síðar framhaldsmenntun.

Hér verður fjallað um leiðtogann Bjarna á Laugarvatni. Fyrst er gerð grein fyrir æsku hans og uppvexti, fjölskylduaðstæðum og fyrstu sporum innan skólakerfisins, menntun hans og rakinn sá hluti starfsævinnar sem lýtur að uppbyggingu skólasetursins á Laugarvatni. Það verður að gera allítarlega til að varpa skýru ljósi á forystuhæfileika hans. Síðan er fjallað um hugmyndir nokkurra fræðimanna um forystu, hlutverk leiðtogans við þróun og breytingar, og það sem mestu máli skiptir til að árangur náist við framþróun mikilvægra mála. Að lokum eru dregin saman einkenni leiðtogans Bjarna á Laugarvatni, í ljósi fræðikenninga.

Að mörgu leyti var Bjarni einstakur maður. Hann hafði til að bera flesta þá þætti sem fræðimenn telja mikilvægasta fyrir leiðtoga, ef þeir eiga að ná árangri til langs tíma litið. Enda ber skólasetrið á Laugarvatni þess vitni að áralöng barátta hans fyrir hugsjónum sínum, og aldamótakynslóðarinnar, hefur skilað sér ríkulega til þjóðarinnar.

Úr Landeyjum til Hafnarfjarðar                                                                 

Æska og uppvöxtur    

Bjarni Bjarnason var fæddur 23. október 1889 á Búðarhóli í Austur-Landeyjum, sonur hjónanna Bjarna Guðmundssonar, bónda og oddvita, og Vigdísar Bergsteinsdóttur, ljósmóður. Þau bjuggu á ýmsum bæjum þar í sveit, þar til Bjarni Guðmundsson lést, þegar sonur hans og nafni var 7 ára gamall árið 1896. Vidís giftist aftur þremur árum seinna, Þóroddi Sigurðssyni, og fluttu þau árið 1901 vestur í Árnessýslu, bjuggu að Skálmholtshrauni í Villingaholtshreppi. En ekki átti það fyrir Vigdísi að liggja að una í hjónabandi til langframa, Þóroddur lést árið 1904. Vigdís flutti þá til Guðríðar dóttur sinnar að Ólafsvöllum á Skeiðum og síðan að Auðsholti í Ölfusi. Þar lést Guðríður árið 1909, aðeins 23 ára gömul en Vigdís tók við búsforráðum hjá tengdasyni sínum, Guðmundi Jónssyni, og er í manntali 1910 skráð ráðskona hans þar, með tvo syni sína hjá sér, Bjarna, þá tvítugan og Bergstein, þremur árum yngri, báða skráða vinnumenn á bænum (Kristinn Kristmundsson. 2008. „Bjarni Bjarnason“. Andvari, bls. 16-17).

Bjarni fermdist í Ólafvallakirkju vorið 1903 og fékk góðan vitnisburð hjá presti. Þeir bræður, Bjarni og Bergsteinn, sóttu skóla til Hafnarfjarðar á Auðsholtsárunum. Báða veturna 1907-8 og 1908-9 voru þeir nemendur Flensborgarskóla en aðeins fram að vetrarvertíð; efnahagur leyfði ekki annað, og reri Bjarni þessar vertíðir á bát frá Þorlákshöfn og átti þess því ekki kost að ljúka neinum prófum. Hann taldi sjómennskuna hinsvegar hafa kennt sér ýmislegt gagnlegt; nákvæmni, samvinnu og nauðsyn á órofa samheldni heildarinnar þegar á reyndi (Kristinn Kristmundsson, bls. 18).

Nám og störf

Kennaraskólinn  var stofnaður 1908 og á fyrsta starfsári hans voru töluverð samskipti við Flensborgarskólann og gagnkvæmar heimsóknir. Þar kynntist Bjarni og hreifst af ýmsum mönnum, m.a. Jónasi frá Hriflu, sem hann hitti við þessi tækifæri í fyrsta skipti, en átti síðar eftir að eiga margt saman við að sælda. Bjarni hóf svo nám við kennaraskólann haustið 1909 og lauk kennaraprófi vorið 1912. Hann hefur verið viðloðandi í Auðsholti hjá móður sinni á skólaárunum en fluttist til Hafnarfjarðar að prófi loknu, þegar hann fékk kennarastöðu við Barnaskóla Hafnarfjarðar. Vigdís, móðir hans, var ljósmóðir í Ölfusi til 1914 er hún fluttist til Reykjavíkur og gerðist ráðskona á Kleppsspítala. Hún lést árið 1937 (Kristinn Kristmundsson, bls. 18-19).

Bjarni var keppnismaður og mjög áhugasamur um íþróttir, stundaði glímu, sund og leikfimi af kappi, synti í sjó á hverjum degi, var virkur í félagslífi og sótti alla stjórnmálafundi sem hann gat. Í samræmi við þennan áhuga, sem og framfara-, áræðni- og bjartsýnishugsjónir aldamótakynslóðarinnar, þar sem menntun og alþýðufræðsla lék lykilhlutverk, hélt Bjarni til Kaupmannahafnar veturinn 1913-14. Þar stundaði hann nám við Statens Gymnastik Institut og lauk íþróttakennaraprófi 1914. „Danmerkurferð hans til að afla sér kunnáttu og réttinda á þessu sviði er til vitnis um það sjálfstraust, kapp og áræði sem hann var gæddur og einkenndi svo mjög störf hans og framsækni síðar á ævinni“ (Kristinn Kristmundsson, bls. 20).

Eftir Danmerkurferðina varð Bjarni skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar 1915-1929. Auk skólastjórnarinnar rak hann fjár- og kúabú á jörð sinni, Straumi í Straumsvík, frá 1918-1930 og var til þess tekið hve búið var vel rekið og snyrtilegt. Orð fór af stjórnunarhæfileikum hans við barnaskólann. „Hann mun hafa þótt strangur en sett þær reglur einar sem óumdeildar voru og unnt að framfylgja, ekki síst varðandi hreinlæti og snyrtimennsku (Kristinn Kristmundsson, bls. 21), en var jafnframt leikfélagi barnanna í frímínútum og ávann sér traust þeirra og virðingu. Bjarni kenndi auk þessa íþróttir við Flensborgarskólann og hjá íþróttafélögum og heyjaði á sumrum með vistmönnum fyrir Kleppsspítalann, en þar var Jórunn systir hans yfirhjúkrunarkona og Vigdís móðir þeirra matráðskona.

Allt virðist hafa gengið Bjarna í hag í Hafnarfirði og 1928, tæplega fertugur að aldri, kvæntist hann Þorbjörgu Þorkelsdóttur, fyrri konu sinni, sem numið hafði nuddlækningar í Kaupmannahöfn. (Kristinn Kristmundsson, bls. 21-22). Þau eignuð-ust tvö börn; Þorkel, fæddan í Straumi 1929, og Védísi, fædda 1931. Þorbjörg lést fyrir aldur fram 1946 og Bjarni giftist seinni konu sinni, Önnu Jónsdóttur, árið 1950.

Að Laugarvatni

Eins og áður hefur komið fram, skildi aldamótakynslóðin það að menntun og fræðsla alþýðunnar var lykillinn að þeim framförum þjóðarinnar sem hana dreymdi um. Setning fræðslulaganna 1907 og stofnun kennaraskólans er skýrt dæmi um þetta. Annað, ekki síður mikilsvert, skref í þessa átt var stofnun héraðsskólanna. Á Suðurlandi hafði lengi verið rætt um stofnun sameiginlegs skóla fyrir Rangárvalla- og Árnessýslur, en átök um það hvar skólinn skyldi staðsettur töfðu málið. Árnes-ingar gátu heldur ekki, fyrir sína parta, komið sér saman um stað fyrir skólann, en meðal þeirra staða sem til greina þóttu koma var Laugarvatn. Eigendur og ábúendur á jörðinni voru tilbúnir að láta hana af hendi undir skólasetur. Það var Jónas frá Hriflu sem í raun hjó á hnútinn, tryggði liðveislu ríkisvaldsins við að skólinn yrði staðsettur þar og beitti sér ítrekað á sínum tíma til eflingar skólahalds á staðnum.

Bygging hins einstaka skólahúss Guðjóns Samúelssonar hófst um miðjan júní  1928 og skólinn tók til starfa þá um haustið, við vægast sagt frumstæðar aðstæður. Skólastjórinn, sr. Jakob Ó. Lárusson, hætti eftir fyrsta veturinn vegna heilsubrests og Jónas Jónsson, þáverandi og dóms- og kennslumálaráðherra, þurfti að finna annan í hans stað. Jónas hitti Bjarna, skólastjóra í Hafnarfirði, fyrir tilviljun á förnum vegi og taldi sig þar hafa fundið rétta manninn, reyndan og mikilsmetinn skólastjóra, íþróttakennara og íþróttamann, sem var líklegur til að fylgja þeirri skólastefnu sem Jónas aðhylltist og átti rætur að rekja til dönsku lýðháskólanna og bresku heimavistarskólanna.

Bjarni hafði komið sér vel fyrir í Hafnarfirði og Straumi, en gaf upp starf sitt og bú og flutti að Laugarvatni síðla sumars 1929. Hann tók við skólanum nýstofn-uðum og ófullburða, og afrek hans var ótrúlegt, að „efla hann til frægðar við frumstæðan aðbúnað í fyrstu og búa svo um hnútana að hann fæddi af sér eigi færri en þrjár sjálfstæðar skólastofnanir og fjórar þó ef fósturbarnið, barnaskóli innan sveitar, er með talinn“ (Kristinn Kristmundsson, bls. 22). Þessir skólar eru Húsmæðraskóli Suðurlands, Íþróttakennaraskóli Íslands, Menntaskólinn að Laugarvatni og Barnaskólinn á Laugarvatni.

Aðsókn að Héraðsskólanum varð strax mikil og miklu meiri en rúm var fyrir á heimavistinni fyrstu árin. Strákarnir sváfu í kennslustofum í flatsæng, og létu sér það lynda, í von um betri aðstæður síðar. Menn sættu sig við flest, til þess að geta menntað sig. Kennarar, nemendur og skólastjórinn í sameiningu byggðu sundlaug, reistu leikfimishús og innréttuðu nánast allt skólahúsið á næstu 4-5 árum og lögðu þannig fram ómælda vinnu til að koma málum í rétt horf. Það er augljóst að þetta hefði aldrei gengið nema vegna eldmóðs og afburða forystuhæfileika skólastjórans, sem var lífið og sálin í öllu saman. Honum tókst að skapa andrúmsloft sem ein-kenndist af félagsanda og stolti af skólanum. „Bjarni kunni þá list, að allra dómi sem til þekktu, að virkja krafta kennara sinna og sameina þá í störfum að heill og heiðri skólans; vissi sem var að engu mátti skeika í órofa samheldni, enginn mátti víkja hársbreidd frá ætlunarverki sínu ef farsæl lending átti að nást“ (Kristinn Kristmundsson, bls. 27). Vinsældir skólans sjást best á aðsókninni, fór úr 24 nemend-um 1928-29 í 139 veturinn 1933-34.

Hafa verður í huga að skólinn sleit barnsskónum í miðri heimskreppunni. Margar heimildir eru til um það að velvild og sveigjanleiki Bjarna Bjarnasonar skólastjóra réðu úrslitum um það að ungmenni frá sárafátækum heimilum gátu stundað nám við skólann, með loforði um að greiða fyrir skólagönguna síðar. Hann lagði á það áherslu að allir héldu reisn sinni og virðingu, burtséð frá efnalegri stöðu, hafði einstakan hæfileika til að setja sig í spor nemenda, og mótaði reglur skólans af raunsæi, með tilliti til þeirra aðstæðna sem þeir voru sprottnir úr (Kristinn Kristmundsson, bls. 27-31).

Á kafi í blússandi uppbyggingu skólasetursins á Laugarvatni, Héraðsskólinn varla kominn af barnsaldri, fór Bjarni í prófkjör fyrir Framsóknarflokkinn í Árnes-sýslu fyrir Alþingiskosningar 1934 og náði öðru sæti listans. Hann sat á Alþingi 1934-1942, síðast á sumarþingi 1942 fyrir Snæfellinga. En hvernig gat maðurinn bætt þessu á sig, með afar krefjandi skólastjórn og uppbyggingu á Laugarvatni? Eftir því sem hann sagði sjálfur hafði hann það í huga að á þingi gæti hann enn betur unnið skólanum gagn. Hann hélt starfi sínu sem skólastjóri, en meðan hann sat á þingi gegndu kennarar skólans til skiptis skólastjórastarfinu í fjarveru hans. Þetta lýsir vel þeim eiginleika Bjarna að treysta öðrum fyrir verkefnum, en telja sjálfan sig ekki ómissandi. Hann vildi að þeir fengju tækifæri til að sýna að þeir væru hæfir skóla-stjórar:

Mitt sjónarmið var reist á grundvelli bjartsýni, félagslegrar hyggju og metnaðar til að sýna, hversu vel skipið væri mannað […] Stjórn kennaranna á skólanum endurtók sig fleirum sinnum. Enginn skóli í þessu landi á svona samstarfssögu að segja, sennilega hvergi í veröldinni. Ef til vill hefir enginn veitt þessu athygli, en ég er hreykinn af þessum þætti í fortíð skólans. Eins og fyrr segir, leit ég á svona samstarf margra kennara hreint og beint sem hugsjón í samvinnu kennara. […] Eftir á finnst mér, að þessar vinnuaðferðir séu athyglisverðar og hafi gefið góða raun (Bjarni Bjarnason. 1958. Laugarvatnsskóli þrítugur, bls. 222-223).

Að auki kemst Bjarni svo að orði að hann hafi gaman af málefnalegri baráttu og ekki síst hafi störf sín á Alþingi kennt honum mikilvæg vinnubrögð, aukið kjark og víðsýni og komið honum í kynni við fjöldamarga menn, suma valdamikla. Allt þetta hafi komið sér vel í baráttunni fyrir framþróun á Laugarvatni, ekki síst í sambandi við stofnun menntaskólans (Bjarni Bjarnason. 1958, bls. 223-224). Á þingi beitti Bjarni sér mest í  menntamálum, samgöngumálum sveitanna, fyrir breytingum á fátækra-lögunum til meiri mannúðar og fyrir auknu jafnræði kynjanna, en þar var hann eins og víðar á undan sinni samtíð (Kristinn Kristmundsson, bls. 34).

Segja má að Bjarni Bjarnason hafi verið maður eigi einhamur. Hann kom héraðsskóla á legg við erfiðar aðstæður, sat á Alþingi, byggði upp framúrstefnulegt stórbú á Laugarvatni, sem átti að tryggja að skólinn væri sjálfum sér nógur um ódýra fæðu, og sinnti margvíslegum félagsstöfrum, sem hér verður ekki fjallað um. Þessi verkefni væru mörgum manninum ærið ævistarf. En Bjarni vildi hafa mörg járn í eldinum. Þannig naut hann sín best, að eigin sögn.

Og hugsjónaeldurinn logaði glatt, hugsjónin um menntun og framþróun sveitanna. Bjarni hafði frumkvæði og forystu að stofnun þriggja nýrra skóla á Laugarvatni, undir handarjaðri héraðsskólans. Þeir sem störfuðu nánast með honum, kennarar og starfsmenn á Laugarvatni, fullyrða að þetta hafi verið hans verk, fyrst og fremst. „Forystuhlutverk Bjarna í myndun svo ólíkra skóla helgaðist af hinni einbeittu framfarasókn sem einkenndi lífsstarf hans. Kyrrstaða var eitur í hans beinum. Og hann virðist hafa skynjað af næmleik sínum þau tækifæri sem ytri aðstæður sköpuðu og gripið þau á hentugasta tíma“ (Kristinn Kristmundsson, bls. 35-36).

Íþróttakennaraskólinn

Augljóst er að Bjarni var framsýnn og sá fyrir þá þróun sem í vændum var. Hann hafði sjálfur sótt sér íþróttakennaramenntun til Danmerkur en skynjaði að það hlyti að koma að því að slík menntun yrði veitt hér á landi, eins og önnur kennaramenntun. Hann byrjaði á því að ráða Björn Jakobsson, lærðasta og þekktasta fimleikakennara landsins, að Héraðsskólanum 1931. Síðan var „Alþingisskálinn“ sóttur til Reykjavíkur og endurreistur um veturinn á Laugarvatni sem fimleikahús. Þá studdi Bjarni Björn Jakobsson til stofnunar einkaskóla á Laugarvatni, vitandi það að Jónas frá Hriflu var með í undirbúningi lög um íþróttakennslu. Þegar lögin tóku gildi 1934 voru allar aðstæður fyrir hendi á Laugarvatni og því nánast sjálfgefið að íþróttakennaraskóli ríkisins yrði þar. Íþróttakennaraskóli Íslands var enda stofnaður á Laugarvatni 1942, á grunni einkaskóla Björns, og renndi styrkari stoðum undir skólasetrið á Laugarvatni (Kristinn Kristmundsson, bls. 36-37).

Húsmæðraskólinn

Á sama hátt var Bjarni farinn að undirbúa stofnun húsmæðraskóla á Laugarvatni löngu áður en lög um húsmæðrafræðslu kváðu á um það. Hann fylgdist með á öllum vígstöðvum og vissi að Samband sunnlenskra kvenna (SSK) hafði stofnun slíks skóla á stefnuskrá sinni. Hann setti af stað matreiðslunámskeið í Héraðsskólanum strax 1931 og þau voru kennd í skólanum á hverju ári þar til húsmæðraskóli hóf starfsemi í húsinu Lind á Laugarvatni, sem reist hafði verið við gróðrarstöðina á staðnum, niðri við vatnið. Bjarni var í sýslunefnd Árnesinga, sem lét sig húsmæðraskólamálið varða, sat í skólaráði sýslunefndar og SSK og var skipaður af hálfu ríkisins formaður skólanefndar þegar hún var sett á laggirnar 1941. Allan fjórða áratuginn höfðu verið skiptar skoðanir um staðarval fyrir húsmæðraskóla á Suðurlandi, en augljóst er að Bjarni vissi frá upphafi hvað hann vildi og með markvissum undirbúningi beindi hann málinu í þann farveg sem honum var að skapi. Eftir stofnun skólanefndar var það eitt af hans fyrstu verkum sem formaður að taka af allan vafa innan nefndarinnar um stuðning hennar við stofnun skólans á Laugarvatni. Nefndin var einróma fylgjandi því. Síðan lagði Bjarni til að kennsla hæfist undir verndarvæng Héraðsskólans, í Lindinni, frekar en að bíða eftir byggingu nýs skólahúss. Sú skipan mála varð ofan á, þar til skólinn komst undir lög um húsmæðrafræðslu í sveitum haustið 1944. Byggt var við Lindina og starfaði hinn nýi, sjálfstæði skóli á Laugarvatni, sá þriðji í röðinni, við fremur þröngar aðstæður til 1970, þegar tekið var í notkun nýtt, glæsilegt skólahús (Kristinn Kristmundsson, bls. 37-39).

Menntaskólinn

Aðdragandi stofnunar Menntaskólans að Laugarvatni er enn eitt dæmið um forystuhæfileika Bjarna Bjarnasonar, „ódrepandi þrautseigju hans og baráttuvilja þegar saman fór metnaður og bjartsýni á sigur góðs málstaðar. Hversu lokuð sem öll sund virtust bilaði aldrei trú hans á farsæla lendingu; hvað til hennar þurfti hafði hann lært í Þorlákshöfn forðum“ (Kristinn Kristmundsson, bls. 39). Árið 1946 voru samþykkt á Alþingi ný fræðslulög. Í þeim lögum varð til landsprófið, en einnig kveðið á um það að stofnaður skyldi menntaskóli í sveit þegar fé til þess fengist á fjárlögum (Kristinn Kristmundsson, bls. 39). Þessi lagaheimild var þó ekki virkjuð strax og reyndist æði torsótt að koma því í gegnum Alþingi, þrátt fyrir mikla baráttu næstu árin.

Fræðslulögin 1946 höfðu afgerandi áhrif á héraðsskólana. Aldur nemenda lækkaði verulega, skyldunám varð stærri hluti af námskrá og frelsi skólanna til að móta eigin stefnu minnkaði. Í héraðsskólana komu nú börn í stað ungmenna á ýmsum aldri (Kristinn Kristmundsson, bls. 40). Bjarni á Laugarvatni skynjaði þær breytingar sem í farvatninu voru. Þegar árið 1945 var bætt við bekkjardeild í Héraðsskólanum, m.a. til að greiða götu þeirra nemenda sem áhuga og tækifæri höfðu til að fara beint í lærdómsdeildir starfandi menntaskóla. Með þessari viðbót varð því til sá grundvöllur sem nauðsynlegur var til að hefja kennslu á menntaskólastigi á Laugarvatni, um leið og færi gæfist.

Einbeittur vilji Bjarna til að koma á fót menntaskóla á Laugarvatni birtist ekki síst í því að þrátt fyrir mikið áfall þegar burstir héraðsskólahússins brunnu árið 1947, hélt hann sínu striki og stofnaði svokallaða „Skálholtsdeild“ þá um haustið, sem í settust nemendur sem lokið höfðu fyrsta landsprófinu um vorið (Kristinn Kristmundsson, bls. 39-42). Þessi menntaskóladeild var að öllu leyti á vegum Héraðsskólans, undir stjórn Bjarna, og kennararnir þeir sömu, enda allir með háskólapróf og réttindi til kennslu á menntaskólastigi. Bjarni tryggði réttindi nemendanna enn frekar með því að semja við rektor MR að kennarar hans sendu sín próf innsigluð til Laugarvatns og tækju svo við þeim aftur, færu yfir þau og gæfu einkunnir.

Starfsemi þessari kom Bjarni á fót í kyrrþey „án leyfis“, þ.e. án sérstakrar opinberrar ákvörðunar, í þeim tilgangi að tryggja það að ekki yrði aftur snúið og sá „menntaskóli í sveit“ sem nefndur var í fræðslulögunum 1946 yrð staðsettur á Laugarvatni, og hvergi annars staðar. Segja má að Eysteinn Jónsson, menntamálaráðherra til 1950, hafi horft til Laugarvatns með „blinda auganu“. Úr Skálholtsdeildinni luku sex nemendur stúdentsprófi frá MR árið 1951 (Bjarni Bjarnason. 1969. „Ungmennaskólamálið“. Suðri I. Þættir úr framfarasögu Sunnlendinga frá Lómagnúp til Hellisheiðar, bls. 219. Kristinn Kristmundsson, bls. 41-42). Sama ár samþykkti Alþingi stofnun menntaskólans með 39 atkvæðum gegn 5, að viðhöfðu nafnakalli (Bjarni Bjarnason. 1969, bls. 219), en athyglisvert er að bæði þáverandi menntamálaráðherra, Björn Ólafsson, og Gylfi Þ. Gíslason, síðar menntamálaráðherra, voru meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn málinu  (Bjarni Bjarnason. 1969, bls. 222). En björninn var ekki þar með unninn: „Þrátt fyrir þessa  eindregnu samþykkt stofnaði menntamálaráðherra ekki skólann. Hófst nú tveggja ára orrahríð um að koma menntaskólamálinu fyrir kattarnef. Loks var skólinn stofnaður 12. apríl 1953“ (Bjarni Bjarnason 1969, bls. 222).

En hvers vegna kostaði það slíka baráttu að koma menntaskólamálinu í gegn? Fræðslulögin frá 1946 gerðu beinlínis ráð fyrir stofnun slíks skóla, utan þéttbýlisins. Í skrifum Bjarna Bjarnasonar, um ástæður þess að Laugvetningar töldu rétt að sækja fram í þessa átt, segir m.a.:

Það sjónarmið, að fjölgun stúdenta væri nógu ör og háskólagengið fólk nægilega margt, gat ekki staðizt, og krafa fólksins um jafna aðstöðu til náms, svo sem verða mætti, hlaut að vera á næsta leiti. Æskufólk er óráðið. Stúdentspróf hefir þann kost, að það veitir miklu rýmri möguleika til sérfræðináms og atvinnuvals (Bjarni Bjarnason 1969, bls. 223).

Þá er líklegt að þetta mál hafi snúist að miklu leyti um pólitík. Árið 1950 tók sjálfstæðismaðurinn Björn Ólafsson við menntamálaráðuneytinu af framsóknarmanninum Eysteini Jónssyni og hætt er við að Björn hafi verið tregur til að greiða götu Bjarna Bjarnasonar, vinar og samstarfsmanns Jónasar frá Hriflu. Björn benti m.a. á, með réttu, að Bjarni væri ekki með háskólapróf og því réttindalaus til að stýra menntaskóla. 

Aldamótakynslóðirnar voru mótaðar af sjálfstæðisbaráttunni, en hún var gegnsýrð af þjóðernislegum viðhorfum, sem þjónuðu beinlínis markmiðum baráttunnar. Stórt hlutverk í þróun sjálfstæðisbaráttunnar var stofnsetning ýmissa „menningarstofnana“ sem voru m.a. tákn fyrir menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar, sem var talið ekki síður mikilvægt en hið pólitíska og efnahagslega sjálfstæði. Þar má nefna Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðminjasafnið o.fl. stofnanir sem þegar voru komnar á koppinn um miðja 20. öld.

Lykilmaður í þessari þróun á árunum fyrir lýðveldisstofnun var Jónas Jónsson frá Hriflu sem rauf, í krafti embættis síns í ríkisstjórn, einokun embættismanna á háskólamenntun, með því að stofna Menntaskólann á Akureyri, héraðsskólana og styðja síðar við stofnun Menntaskólans að Laugarvatni, og einokun kaupmannastéttarinnar á verslun og þjónustu með því að setja á stofn samvinnuskóla (Gestur Guðmundsson. 2003. „Cultural Policy in Iceland“. The Nordic Cultural Model, bls. 117-119).

Alla vega er ljóst að menntaskólamálið mætti mikilli andstöðu. Bjarni Bjarnason beitti öllum tiltækum ráðum í þeirri baráttu, eins og hann hafði gert alla tíð til uppbyggingar skólasetursins á Laugarvatni. „Málefnabarátta var hans ær og kýr eins og stjórnmálasaga hans sýnir. Og hér fór saman baráttugleði og óbifandi trú á málstaðinn. Hvort tveggja skýrir hve óþreytandi hann var að herða sóknina þá mest þegar harðast blés á móti af hálfu yfirvalda 1951 og 1952“ (Kristinn Kristmundsson, bls. 43).

Forystukenningar

Forysta

Hvað er forysta? Og hverjir eru þess verðir að kallast leiðtogar? Mikið hefur verið skrifað um efnið frá því um miðja síðustu öld, og margar forystukenningar og forystuskólar komið fram. Fyrstu rannsóknirnar beindust aðallega að því að skilgreina einkenni árangursríks leiðtoga, bæði líkamleg og andleg einkenni. Þær rannsóknir enduðu í öngstræti og síðan hafa rannsóknir meira beinst að sambandi leiðtogans og umbjóðendanna, út frá margvíslegu sjónarhorni; t.d. hvort þeir væru verkefnamiðaðir eða samvinnumiðaðir, stjórnandi eða styðjandi, markmiðaleitandi, þátttökumiðaðir eða ábyrgðarmiðaðir, leggi áherslu á útkomu fremur en ferli, o.s.frv.

Á síðustu áratugum hefur áherslan færst meira yfir á tilfinningalega, andlega  og siðferðilega þætti, s.s. hvernig forystuhlutverkið getur lyft markmiðum og gildum umbjóðenda á „hærra plan“, t.d. með því að hrífa fólk með sér, dreifa valdi o.s.frv. Dregin eru skörp skil milli forystu (leadership) og stjórnunar (management). Það síðarnefnda snýst um að taka stjórn, ljúka verkefnum á árangursríkan hátt og almennt séð að „gera hlutina rétt“. Forysta snýst um að leiðbeina um stefnu og markmið eða að „gera réttu hlutina“ (Rainey, Hal G. 2009. Understanding and Managing Public Organizations, bls. 314-333. Gardner, John W. 1990. On Leadership, bls. 15).

Lykilatriði varðandi forystu virðast vera markmiðin. Með forystu eiga flestir við hæfni einhvers til að stýra og virkja fólk til að ná markmiðum (Rainey, bls. 315-316). Leiðin að markmiðunum getur verið grýtt eða þyrnum stráð, en í forystuhlutverkinu felst að sýna fordæmi og sannfæra ákveðinn hóp um að sækja að þeim (Gardner, bls. 1). Forysta skilgreinir því hvernig framtíðin ætti að vera, aðlagar fólk að þeirri sýn og hvetur það til að láta hana rætast, þrátt fyrir allar hindranir (Kotter, John P. 1996. Leading Change, bls. 25). Öll umbreyting krefst fórna, tileinkunar og sköpunargáfu, sem næst yfirleitt ekki með þvingun. Til frekari aðgreiningar frá stjórnun er það forysta sem ein getur breytt því sem máli skiptir og tryggt að þær breytingar vari og festist í sessi til frambúðar (Kotter, bls. 30). Forysta snýst því um að greina vandann nógu snemma, grípa til aðgerða áður en ógn eða neyð skapast og knýja fram þróun og breytingar sem tryggja velferð til framtíðar. Þetta krefst visku og framsýni, hæfileika til að rýna í og greina útlitið áður en óveðrið skellur á, þegar enn er tími til að bregðast við og laga sig að því sem koma skal (Williams, Dean. 2005. Real Leadership, bls. 92). Mikilvægt hlutverk forystu er einnig að skapa stöðugt umhverfi, og draga þannig úr óvissu og uppnámi sem oftast skapast við breytingar, og gera fólki um leið fært að takast á við nýjar aðstæður af nauðsynlegri yfirvegun. Þetta getur krafist hæfilegrar valdbeitingar, að setja ákveðin mörk svo allir viti hvar þeir standa (Williams, bls. 97).

Leiðtoginn

Leiðtogar eru samþættir forystuhlutverkinu, eru hluti af stærri heild og hlutverk þeirra innan heildarinnar er að gera það sem nauðsynlegt er til að markmið hennar náist (Gardner, bls. 1). Leiðtogar verða að geta haft áhrif á menningu skipulagsheildanna til að ná árangri (Rainey, bls. 315) og þeir aðgreina sig frá hefðbundunum stjórnendum á þann hátt að þeir hugsa lengra fram í tímann og í stærra samhengi, hafa áhrif út fyrir sitt skilgreinda yfirráðasvæði og eru tilbúnir til þess að teygja sig út yfir hefðbundin mörk. Leiðtogar leggja mikla áherslu á hugsjónir, gildi og hvatningu og skilja betur ómeðvitaða þætti í samskiptum milli einstaklinga og hópa, hafa pólitíska hæfileika til að takast á við andstæð sjónarmið ólíkra hagsmuna. Og svo eru þeir umfram allt nýjungagjarnir, ávallt tilbúnir að endurmeta hlutina í ljósi breyttra aðstæðna (Gardner, bls. 4).

Meiriháttar breytingar eru stöðugt ferli nýrra uppgötvana; þegar einu skrefi er náð hefst undirbúningur að því næsta, og tækifæri gefst jafnframt til að leiðrétta það sem miður fór. En fara þarf varlega og gefa fólki tíma til að melta og meðtaka breytingarnar. Um leið þarf leiðtoginn að halda á lofti markmiðunum, minna á vandann og þann ávinning sem getur náðst, ef allir eru samstíga (Williams, bls. 102), nota þann aukna trúverðugleika sem fæst við áfangasigur til að breyta öllum ferlum, skipulagi og stefnum sem falla ekki saman, og að framtíðarsýninni. Hér er leiðtogahæfni ómetanleg. Frábærir leiðtogar hugsa langt fram í tímann og eru drifnir áfram af ögrandi sýn, sem skiptir þá máli, persónulega (Kotter, bls. 144). Og til að ná betri árangri er skynsamlegt að gefa fólki sína hlutdeild í breytingunum. Menn vinna yfirleitt betur að þeim verkefnum sem þeir telja sig sjálfa eiga hlut í (Williams, bls. 110).

Góðir leiðtogar læra allt lífið. Þeir taka áhættu, þora að fara nýjar leiðir og kynna nýjar hugmyndir. Af því leiðir að sigrarnir verða stærri, en einnig mistökin, sem ekki má sópa undir teppið, heldur meta á jákvæðan hátt, af auðmýkt gagnvart eigin ábyrgð. Leiðtogar halda ekki að þeir einir hafi öll réttu svörin, heldur eru tilbúnir að læra af öðrum. Þeir hlusta af eftirtekt; ekki af því þeir búist alltaf við stórkostlegum hugmyndum, heldur af því að þannig fá þeir mikilvæga endurgjöf á eigin störf. Þeir eru opnir fyrir nýjum hugmyndum, hvaðan sem þær koma (Kotter, bls. 182-183).

Bestu leiðtogarnir gera miklar kröfur. Þeir setja háleit, mannúðleg markmið og hafa sterka siðferðilega sýn, einhverskonar köllun í lífinu sem drífur þá áfram. Þeir meta árangur sinn af auðmýkt í stærra samfélagslegu samhengi, sem hjálpar þeim að yfirstíga vonbrigði, sem gjarnan fylgja framförum, og forðar þeim líka frá því að hreiðra um sig í öryggi hefðarinnar (Kotter, bls. 184).

Menning, gildi og sýn

Menning vísar til hegðunarvenja og sameiginlegra gilda í ákveðnum hópi (Kotter, bls. 148) en allir félagshópar hafa sameiginlegar þarfir, trú, vonir og ótta. Þessi norm skapa félagslega reglu. Úr svona jarðvegi spretta leiðtogar; þar ræðst hvers kyns forysta verður til og hvers er vænst af leiðtoganum (Gardner, bls. 28-29).

Breytingar geta fallið um sjálfar sig, þrátt fyrir áralanga vinnu, ef þær eru ekki tryggilega fléttaðar inn í menningu hópsins (Kotter, bls. 148. Gardner, bls. 35) og leiðtogar geta heldur ekki haldið völdum nema umbjóðendur séu tilbúnir til að trúa á vald þeirra. Þeir verða að læra að starfa innan þess ramma sem menningin setur, þ.e. innan þeirra marka sem fólk getur sætt sig við, út frá gildum þess, trú og væntingum (Gardner, bls. 24). Leiðtogar þurfa því ekki bara að takast á við einstakar ákvarðanir, heldur einnig, að hluta ómeðvitaðan, falinn heim þarfa, vona, hugsjóna og tákna og þeir senda að auki stöðugt skilaboð með orðum sínum og gjörðum. Þeir verða að vita hvað fólk vill, hvað það hræðist, langar að verða og líkar í eigin fari (Gardner, bls. 29). Þegar hefðbundnar leiðir mæta ekki lengur þeim grunnþörfum sem fólk gerir kröfur um, er þörf á nýjum úrræðum til að tryggja viðunandi skilyrði og framþróun (Williams, bls. 90).

En að ráðskast með menningu getur verið eins og að smala köttum, svo vísað sé í þekkt ummæli stjórnmálaleiðtoga. Til að breyta menningu þarf fyrst að breyta hegðun fólks og sú hegðun að hafa skilað árangri um nokkurt skeið. Svo þarf fólk að átta sig á samhenginu milli árangurs og breyttrar hegðunar. Af því leiðir að því betur sem leiðtogi skilur gildandi menningu, því betur gengur allt breytingaferlið (Kotter, bls. 156).

Sýn vísar til þeirrar myndar sem dregin er upp af framtíðinni og hvers vegna ætti að mála þá mynd en ekki einhverja aðra. Sýn skýrir ástæður breytinga, hvetur fólk til að  fara í ákveðna átt og hjálpar til að samhæfa aðgerðir mismunandi aðila á þeirri vegferð. Hún veitir skilning á því að það getur verið rétt að gera eitthvað óþægilegt, sem ekki samrýmist hagsmunum til skamms tíma. Árangursrík sýn lýsir því hvernig framtíðin verður, höfðar til langtímahagsmuna, er raunsæ, skýr, nógu sveigjanleg til að leyfa frumkvæði og auðútskýranleg (Kotter, bls. 68-72).  Til að móta góða sýn þarf bæði hug og hjarta, það tekur tíma og leiðtoginn gerir það ekki einsamall (Kotter, bls. 79).

Persónutöfrar og traust

Persónutöfrar eru sérstakur eiginleiki sem einstaklingur hefur, greinir hann frá öðrum og vekur aðdáun (Gardner, bls. 34), eitthvert sambland líkamlegrar nærveru, lífskrafts, sjáfsöryggis og styrks (Gardner, bls. 40) og leikur stórt hlutverk í sambandi milli leiðtoga og umbjóðenda. Þetta er sérstakur hæfileiki til innblásturs og tilfinningaríkra samskipta; að hrífa fólk með sér (Gardner, bls. 35-6). Ekkert kemur í staðinn fyrir leiðtoga sem mætir á staðinn, hlustar og ræðir óformlega við fólk. Stíll, tímasetningar og táknrænar gjörðir leiðtogans fela í sér skilaboð. Það er tímafrekt og getur verið lýjandi að hitta alla, en það skilar árangri (Gardner, bls. 27). Það krefst oft djarfra ákvarðana að skapa skilning á nauðsyn breytinga, ákvarðana sem við tengjum oft við góða forystuhæfileika (Kotter, bls. 42-43). Leiðtogar sem ná árangri halda sig ekki við einn stjórnunarstíl; geta verið mjög hjálplegir þegar það á við, en valdsmannslegir og snöggir að taka ákvarðanir í annan tíma (Gardner, bls. 26). Til að sannfæra fólk og hrífa það með sér þarf staðreyndir og töluleg  gögn, en ekki síður er mikilvægt að auðga þau með dæmum, sögum og líkingum. Tölurnar einar og sér hafa ekki tilfinningaleg áhrif, en það hafa sögur og líflegt málfar (Conger, Jay A. 1998. „The Necessary Art of Persuasion“. Harvard Business Review, bls. 92). Þegar breytingar eða ný framtíðarsýn er kynnt verður að setja mál sitt fram á einfaldan hátt, nota fjölbreytilegar aðferðir og stöðuga endurtekningu. (Kotter, bls. 88-100). Ekki síst þarf leiðtoginn sjálfur að sýna tilfinningalega skuldbindingu við verkefnið, fólk má aldrei efast um að hann trúi í raun og veru á það sem hann segir (Conger, bls. 93).

Tilfinningaleg skuldbinding er gott veganesti til að skapa það traust sem er nauðsynlegt fyrir árangri af forystu. Þá er ekki síður gagnlegt að hafa sérþekkingu á því málefni sem um ræðir og hafa sýnt góða dómgreind. Sá sem er heiðarlegur og sanngjarn, stöðugur og áreiðanlegur, hefur forskot þegar kemur að því að sannfæra aðra. Að ekki sé talað um ef leiðtoginn tilheyrir hópnum, en er ekki utanaðkomandi aðili. Á slíka leiðtoga er fólk ávallt tilbúið hlusta og að hugleiða alvarlega það sem þeir hafa að segja. (Conger, bls. 88. Gardner, bls, 33). 

Sigrar og samvinna

Forysta fyrir breytingum er erfitt og tímafrekt verkefni og ekki síður að festa árangur af breytingum í sessi. Það krefst úthalds og ómældrar þolinmæði. Til að létta undir er því mikilvægt að skapa áfangasigra á leiðinni að lokamarkmiðinu. Þá gefst líka gott tækifæri til að endurmeta og fínstilla markmið og leiðir. Með áfangasigrum er hægt að halda öllum á tánum, þeir sýna og sanna að það hafi verið þess virði að færa fórnirnar, minnka vægi úrtöluradda og gera leiðtoganum hægara um vik að sannfæra efasemdarmenn. Krafa um áfangasigra setur að vísu meiri pressu á fólk, og það getur verið varasamt að hún verði of mikil, en áfangasigrar minna stöðugt á mark-miðin, sem stefnt er að, og viðhalda skilningi á nauðsyn breytinga (Kotter, bls. 122-127).

Við mjög breytilegar og flóknar aðstæður hentar ekki endilega best forysta eins leiðtoga. Með því að leggja höfuðáherslu á einstaklinginn glatast tækifæri til að nýta kraftinn í skipulagsheildum og þá möguleika sem samstarf og þátttaka geta skapað. Með því að ýta undir skapandi, sameiginlega nálgun að forystuhlutverkinu verður til sú forysta sem hæfir aðstæðum hverju sinni (Lawler, John. 2008. „Individualization and Public Sector Leadership“). Meiriháttar breytingar eru oft tengdar einum mjög áberandi einstaklingi; að sú forysta sem skipti sköpum hafi komið frá einu „ofurmenni“. Þetta er hættulegt viðhorf, því svo erfitt er að festa afgerandi breytingar í sessi að enginn einstaklingur getur það upp á eigin spýtur;  skapað sameiginlega sýn, átt samskipti við alla, útilokað hindranir, skipulagt áfangasigra, stjórnað mörgum verkefnum í einu og fest breytingarnar í sessi í menningunni. Í þetta þarf sterka liðsheild, rétt samsetta, trúverðuga og með sameiginleg markmið (Kotter, bls. 51-52. Gardner, bls. 10).

Liðsvinnu er hægt að skapa á margan hátt. En eitt atriði er skilyrði: traust (Kotter, bls. 61). Sambland trausts og sameiginlegra markmiða innan rétt samsetts hóps skilar árangri (Kotter, bls. 65). Til að tryggja nauðsynlega samvinnu verður að skapa skilning á nauðsyn breytinganna. Ef sá skilningur er ekki fyrir hendi er erfitt að setja saman nógu trúverðugan og kraftmikinn hóp til að stýra vinnunni (Kotter, bls. 36). Finna þarf réttu aðilana, trúverðuga einstaklinga sem hafa næga leiðtogahæfileika til að drífa breytingaferlið áfram (Kotter, bls. 57) og svo þarf að tryggja að allir þeir mikilvægustu séu með, þannig að sem flest mismunandi sjónarmið komi fram. 

Áhersla á samvinnu og dreifða forystu gerir ekki lítið úr þörf fyrir hágæða forystuhæfileika á toppnum. Sumir leiðtogar geta verið mjög góðir í því að leysa vandamálin sjálfir, en ef þeir innleiða ekki breytingarnar nægjanlega vel mun brotthvarf þeirra valda miklum vanda. Leiðtogar í efstu lögum verða áhrifaríkari að öllu leyti ef þeir tryggja aukin áhrif innan heildarinnar sem þeir eru yfir með valddreifingu (Gardner, bls. 9-10). Tilgangi hópsins er því best fullnægt ef leiðtoginn hjálpar undirmönnum sínum að þróa eigið frumkvæði, styrkir þá til að nota eigin dómgreind, gerir þeim kleift að þroskast og að skila betra framlagi. Leiðtogi sem styrkir fólkið sitt með þessum hætti gæti skapað goðsögn sem endist í mjög langan tíma (Gardner, bls. 36. Kotter, bls. 101-102).

Samantekt og niðurstöður

Af sögu Bjarna Bjarnasonar á Laugarvatni má glöggt sjá að þar fór mikilhæfur leiðtogi. Hann hafði skýr markmið og tókst að virkja stóran hóp fólks með sér í áralanga baráttu fyrir markmiðum sínum, framan af við nánast óyfirstíganlegar aðstæður. Hann var gæddur nægri visku til að skynja kall tímans og framsýni til að þaulhugsa og undirbúa tímanlega þær aðgerðir sem nauðsynlegar voru til að markmiðin næðust (Þorsteinn Sigurðsson. 1975. „Bjarni Bjarnason, Laugarvatni“. Suðri III. Þættir úr framfarasögu Sunnlendinga frá Lómagnúpi til Hellisheiðar, bls. 16). Hann hélt vel utan um umbjóðendur sína, bæði nemendur og kennara, og stofnunina sem hann stýrði, og skapaði það öryggi og stöðugleika sem ekki hefði verið hægt að komast af án, í stöðugri umbyltingu og átökum landnáms skólanna á Laugarvatni. „Ókunnugir kynnu að halda, að það hafi verið bægslagangur á hinum stórbrotna héraðshöfðingja […]. En það var öðru nær. Starf þeirra allra hófst í kyrrð og ró innan vébanda Laugarvatnsskólans undir styrkri og góðviljaðri handleiðslu Bjarna Bjarnasonar“ (Ólafur Briem. 1975. „Mín mynd af Bjarna Bjarnasyni“. Suðri III. Þættir úr framfarasögu Sunnlendinga frá Lómagnúpi til Hellisheiðar, bls. 18).

Bjarni var sannur aldamótamaður, uppfullur af háleitri, mannúðlegri sýn um framfarir þjóðarinnar og lykilhlutverki menntunar í því ferli. Þetta var hans köllun í lífinu. Ekki síst skynjaði hann þörf sveitanna, enda uppalinn í sunnlenskri sveit. „Þeirra áhrifa gætti í lífi hans og starfi alla ævi“ (Þorsteinn Sigurðsson, bls. 14), úr því umhverfi var hann sprottinn og þess vegna átti hann auðvelt með að setja sig í spor og skilja hugunarhátt, þarfir og vonir ungra bændasona og -dætra og þess vegna báru nemendur og foreldrar þeirra traust til hans, enda tóku umsóknir um skólavist „fljótlega að berast hvaðanæva af landinu. Foreldrar vildu fela honum forsjá barna sinna. Laugarvatnsskólinn varð fyrr en varði landsskóli“ (Þorsteinn Sigurðsson, bls. 13). Brennandi hugsjónir, umhyggja og næmur skilningur Bjarna á íslenskri sveita-menningu, urðu þess valdandi að honum tókst að hefja sig yfir stundarþras, horfa ávallt á langtímahagsmuni umbjóðenda sinna og yfirstíga fyrir vikið allar hindranir (Ólafur Briem, bls. 20-21).

Allar heimildir bera þess vitni að Bjarni Bjarnason hafi verið gæddur óvenjulegum persónutöfrum. Hann vakti ungur athygli fyrir framgöngu sína í glímu og öðrum íþróttum: „Hann var hár og íturvaxinn, burstaklipptur, sem var þá óvenjulegt og geislaði af honum glæsileikinn. Glettinn strákaglampi í svipnum, eins og hann vildi segja: Komdu, ef þú þorir, enda ódeigur til átaka við hvern sem var. Og átakamaður var hann alla ævi, óttalaus og áræðinn“ (Þorsteinn Sigurðsson, bls. 11). „Hann var glæsileg persóna, gæddur farsælum gáfum, eldlegum áhuga og óbilandi starfsþreki. Samt er sá kostur enn ótalinn, sem ég tel, að hafi verið honum mestur styrkur í skólastarfinu. Það er, að honum þótti vænt um fólkið, sem honum var trúað fyrir“ (Ólafur Briem, bls. 19).

Á Alþingishátíðinni árið 1930 var Bjarni fenginn til þess að stjórna fjölmennu lögregluliði. Þar voru m.a. til skemmtunar haldnar kappreiðar, í Bolabás innan við Skógarhóla. Mannþröngin var komin svo nálægt brautinni að hætta stafaði af. Helgi Geirsson, lengi kennari á Laugarvatni, var viðstaddur og lýsti atburðinum svo: „Sá ég þá hvar hár, einbeittur, vörpulegur maður með gráan rykfrakka á handleggnum gekk með fram röðunum, bægði mannfjöldanum svo sem tvo–þrjá metra til baka. Og nú brá svo við, að allir stóðu kyrrir, þar sem þessi óeinkennisklæddi maður bauð. Hvað olli? Einhver sérstæð festa í fasi og framkomu hafði þau áhrif, að engum kom andstaða í hug“ (Helgi Geirsson. 1975. Án titils. Suðri III. Þættir úr framfarasögu Sunnlendinga frá Lómagnúpi til Hellisheiðar, bls. 22). Helgi, sem hafði einsett sér að verða bóndi á föðurleifð sinni, heillaðist af manninum og aðdáun hans á Bjarna skín í gegn þegar hann segir: „Þessi sérkennilegi traustvekjandi maður við fyrstu sýn – höfðu heillað mig þann veg, að innan fimm mínútna var fyrri ásetningi hafnað, og umsókn um skólavist ákveðin“ og þegar hann kom um haustið í skólann, í fylgd fleiri sveitunga sinna, tók skólastjórinn á móti þeim og „heilsaði með þessu innilega trausta, þétta, sérstæða og ógleymanlega handtaki. […] [H]efi ég notið þeirrar lánsældar að eiga Bjarna Bjarnason að ráðgjafa og vini, traustastan, skilningsríkastan og innilegastan, þegar þörfin var mest“ (Helgi Geirsson, bls. 22-23).

Þó tilvitnuð orð séu skrifuð til minningar um Bjarna að honum látnum, og þess vegna full ástæða til að setja fyrirvara við lofið, er ljóst að hann hafði sterka líkamlega nærveru, þann styrk og sjálfstraust sem nauðsynlegt er til að hrífa fólk með sér. Hann var í góðu sambandi og ræddi persónulega við alla nemendur og kennara, fjölda áhrifamanna í gegnum ýmis félagsstörf og setu sína á Alþingi. Hann var bæði umburðarlyndur og skilningsríkur og um mannkærleik hans vitnar best sveigjanleiki hans gagnvart fátækum nemendum við greiðslu skólagjalda, en þess ber jafnframt að geta að skólinn bjó á sama tíma við mjög þröngan fjárhag og mikla erfiðleika af þeim sökum, sérstaklega á upphafsárunum í miðri heimskreppunni.

Bjarni gekk til allra verka með nemendum og kennurum og enginn efaðist um trú hans á verkefnið. Það átti hug hans og hjarta, maðurinn hafði staðið upp úr góðri stöðu í Hafnarfirði, yfirgefið jörð og blómlegt bú í Straumi, til að berjast við þröngan kost fyrir hugsjóninni um menntun íslensks sveitalýðs. Hann hafði aflað sér menntunar erlendis og þegar náð góðum árangri við skólastjórnun áður en hann hóf störf á Laugarvatni. Allt þetta átti þátt í því að byggja upp trúverðugleika og það óbilandi traust sem umbjóðendur hans báru til hans.

Saga skólasetursins á Laugarvatni er saga áfangasigra. Fyrst var að koma Héraðsskólanum á lappirnar. Þegar það var komið vel af stað hófst undirbúningur að stofnun íþróttakennaraskólans. Áður en því verki var formlega lokið var undirbúningur að húsmæðraskóla kominn í réttan farveg. Og þegar sýnt var að það mál fengi farsælan endi hafði menntaskólamálið tekið hug leiðtogans allan.

Enginn vafi er á því að margir efuðustu um „draumóra“ Bjarna Bjarnasonar, ekki bara Ólafur Briem:

 Ég man enn, hvað mér fannst það mikil fjarstæða, þegar hann minntist á það við mig í fyrsta sinn, að við ættum að kenna þeim nemendum okkar, sem þess óskuðu, áfram til stúdents-prófs. Sumarið eftir varð Laugarvatnsskólinn fyrir því mikla áfalli, að verulegur hluti skólahússins brann. Þá datt mér ekki annað í hug en þessir draumórar hans Bjarna væru endanlega úr sögunni. En rúmum mánuði síðar hófst kennsla í fyrsta menntaskólabekknum á Laugarvatni (Ólafur Briem, bls. 18-19).

Áfangasigrarnir hafa vafalaust hjálpað Bjarna við að sannfæra menn um að halda skyldi áfram. Úthald hans og þolinmæði, einbeittur vilji og framfarasókn hjálpuðu til. En Bjarni hafði, eins og fram hefur komið, mörg járn í eldinum. Hann hefði ekki náð markmiðum sínum án órofa samstöðu meðal samstarfsmanna sinna á staðnum. Eins og fram hefur komið var Bjarni óhræddur við að dreifa valdi og fela öðrum ábyrgð. Hann leit á það sem hugsjón í samstarfi kennara að þeir fengju að spreyta sig á skólastjórn. Fyrir vikið gerði hann þeim kleift að þroska eigin hæfileika og frumkvæði, og styrkti um leið trúnað lykilstarfsmanna sinna við hugsjónirnar, og sjálfan sig.

En þó Bjarni væri fjarverandi vegna þingmennskunnar, var hann sífellt nálægur og fylgdist gjörla með þróun mála. „Allir sannir framtaksmenn og foringjar, kunna að velja sér góða samstarfsmenn. Í kennaraliði Laugarvatnsskólans var valinn maður í hverju sæti. Skólastarfið gekk því eins og í sögu, þótt hann væri langdvölum að heiman. Auk þess sá hann í gegnum holt og hæðir. Þannig eiga foringjar að vera“ (Þorsteinn Sigurðsson, bls. 15). Þegar upp komu agavandamál eða deilur í skólanum, sem auðvitað hlaut að gerast öðru hverju, tók hann ævinlega ábyrgðina á sig, stóð fast á sínu og gaf ekkert eftir. Hann var fyrir vikið umdeildur, en „ótrauður baráttumaður fyrir sínum hugsjónum og mætti stundum harðri andstöðu, einkum á þjóðmálasviðinu“ (Ólafur Briem, bls. 21).

Lokaorð

Höfundur þessara lína hefur í gegnum tíðina margsinnis notið orðspors afa síns, Bjarna Bjarnasonar á Laugarvatni. Þó nú séu fjörutíu ár liðin frá andláti Bjarna, minnast menn hans enn með virðingu og aðdáun og greiða götu mína á allan hátt, ef því er að skipta. Hann lyfti grettistaki í alþýðumenntun á Íslandi, gaf fólki sem enga möguleika átti áður, vegna efnahags eða annarra örðugleika, tækifæri til menntunar og þar með nýja framtíð fyrir sig og fjölskyldur sínar. Hann lifði samkvæmt æðri köllun, og úr faðmi hans og handtaki streymdi umhyggja og hlýja; og óskorað traust. Bjarni hefur með ævistarfi sínu skapað goðsögn sem lifa mun um langan aldur.

 

Heimildir

Bjarni Bjarnason. 1958. „Þróun kennslunnar“. Laugarvatnsskóli þrítugur. Bjarni
Bjarnason tók saman. Héraðsskólinn á Laugarvatni gaf út.
 
Bjarni Bjarnason. 1969. „Ungmennaskólamálið“. Suðri I. Þættir úr framfarasögu
Sunnlendinga frá Lómagnúp til Hellisheiðar, bls. 162-226. Bjarni Bjarnason safnaði
og gaf út.
 
Conger, Jay A. 1998. „The Necessary Art of Persuasion“. Harvard Business Review.
May-June. Harvard College, USA.
 
Gardner, John W. 1990. On Leadership. The Free Press, New York, USA.
 
Gestur Guðmundsson. 2003. „Cultural Policy in Iceland“. The Nordic Cultural Model,
bls. 113-145. Peter Duelund (ritstjóri). Nordic Cultural Institute, Khöfn.
 
Helgi Geirsson. 1975. Án titils. Suðri III. Þættir úr framfarasögu Sunnlendinga frá
Lómagnúpi til Hellisheiðar, bls. 22-24. Bjarni Bjarnason safnaði. Þorkell
Bjarnason gaf út.

Kotter, John P. 1996. Leading Change. Harvard Business School Press, Boston, USA.

Kristinn Kristmundsson. 2008. „Bjarni Bjarnason“. Andvari. Nýr flokkur L, 133. ár,
bls. 13-67. Hið íslenska þjóðvinafélag.
 
Lawler, John. 2008. „Individualization and Public Sector Leadership“.
Public Administration, 86.árg., 1. tbl. bls. 21-34.
 
Ólafur Briem. 1975. „Mín mynd af Bjarna Bjarnasyni“. Suðri III. Þættir úr
framfarasögu Sunnlendinga frá Lómagnúpi til Hellisheiðar, bls. 18-21. Bjarni Bjarnason safnaði. Þorkell Bjarnason gaf út.
 
Rainey, Hal G. 2009. Understanding and Managing Public Organizations. Fourth Edition.
Jossey-Bass, San Francisco, USA.
 
Þorsteinn Sigurðsson. 1975. „Bjarni Bjarnason, Laugarvatni“. Suðri III. Þættir úr
framfarasögu Sunnlendinga frá Lómagnúpi til Hellisheiðar, bls. 11-17. Bjarni Bjarnason safnaði. Þorkell Bjarnason gaf út.
 
Williams, Dean. 2005. Real Leadership. Berrett-Koehler Publishers, Inc. San Francisco,
USA.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *