Eins og þeir vita sem lesið hafa er Bændablaðið einhver frjóasti og öflugasti vettvangur frjálsra, opinna skoðanaskipta á íslenskum fjölmiðlamarkaði: þar eiga allar skoðanir skjól og vísan aðgang – enda skilja útgefendurnir að engin önnur fær leið er að heilbrigðum rökræðum um landsins gagn og nauðsynjar og upplýstri skoðanamyndun.
Og Bændablaðið sinnir einnig öllum þörfum hins venjulega Íslendings um skemmtun, enda verður að fylgja allri alvöru nokkurt gaman.
Það er í smáauglýsingunum í blaðinu sem húmorinn blómstrar, enda nánast jafngamalt erfðasyndinni það skemmtiatriði á þorrablótum að lesa upp smáauglýsingar. Þegar ég komst í síðasta tölublað fletti ég því beint á bls. 39, þar sem lítillætið skín úr hverju orði:
Einn „…vill kaupa útrunnin hlutabréf og víxla…“
Annar óskar eftir „að kaupa kartöflukálstætara…Má vera illa farinn.“
Sá þriðji óskar „eftir brunndælu eða skádælu. Má vera biluð og léleg“.
Einhverjir eru að „leita að vörubíl…Má vera ógangfær“ og aðrir vilja „kaupa dráttarvél“ sem má „þarfnast viðgerðar“.
Svo vantar líka „bilaðan bíl af sömu sort“.
Það hefur aldrei verið talin dyggð til sveita á Íslandi að setja sig á háan hest: Hátt hreykir heimskur sér, segja menn og gera bara sínar hógværu kröfur við innkaupin.