„Þetta er baráttan um Ísland“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir í stórfróðlegri heimildamynd í sjónvarpinu um daginn. Það var við hæfi að þessi setning hljómaði einmitt nú, þegar verið er að leggja lokahönd á enn eina sölu landsins í hendur spilltra auðkýfinga. Og í fréttunum „mátti heyra jódyn“ [… ] og sjá „mann og konu ríða með margt hesta ásamt sveinum moldargötuna inn vellina í átt til Kaldadals […]. Þau voru bæði dökkklædd og hestar þeirra svartir.“
Áður hafði þessi svartríðandi kolrassa verið kennd við ljós og sól.
Og fleiri ótímabundin sannmæli og gullkorn úr Eldi í Kaupinhafn rifjast upp:
„En sem sagt […] maður verður að borga fyrir sínar skemmtanir […] standa straum af grímuböllunum, en þeim fer ekki alleinasta hraðfjölgandi, heldur gerast með hverju ári íburðarmeiri. […] En hvað um gildir, böllin verða að kontinúerast, það verður að byggja fleiri slot, […] mínar náðugu prinsessur þurfa krókódíl.“ […]
„Leiðin til æðstu metorða […] hefur jafnan legið í gegnum íslandsverslunina. Sú fjölskylda er varla til í þessum stað, að ekki hafi einhver meðlimur hennar brauð sitt frá compagniet. […] Ísland er gott land. Ekkert land stendur undir jafnmörgum auðkýfíngum og Ísland.“ […]
„Mín skoðun er sú að það sem okkur hafi altaf vantað á Íslandi sé vellukkað harðræði til þess að sá óvandaði flökkulýður sem fer um landið hverfi í eitt skipti fyrir öll og þeir fáu menn sem einhver dugur er í geti ótruflaður af þjófum og betlurum dregið þann fisk sem compagniet þarfnast þá og þá“. […]
„Ein er orsök þess að mér er óhægt að gánga yðar erindi á Íslandi, sú að hann sem býður að selja landið er ekki eigandi þess. Satt er það, ég hef að vísu þegið embætti, […]; en þá væri seinni villan argari þeirri fyrri ef ég gerðist nú trúnaðarmaður þeirra sem hann með rángindum vill selja þetta land.“ […]
„Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.
Ef varnarlaus smáþjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni einsog því dýri sem ég tók dæmi af. Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún verða gleypt í einum munnbita. […] Þeir íslensku munu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar […]. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.“