Vísindin efla alla dáð

„Þetta eru gömul vísindi“, eða: „Þetta eru nú einhver ný vísindi“, segja menn við réttu tækifærin, gjarnan þegar þeim blöskra einhverjar fullyrðingar samborgara sinna, sem þeir eru ósammála. Og öll vitum við að „vísindin efla alla dáð“, eða er það ekki, annars?

Lengi hefur tíðkast að nota „blessuð vísindin“ sér í hag í rökræðum eða í auglýsingaskyni. Frasinn „vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að…“ er alþekktur. Því miður er það undir hælinn lagt hvort að baki slíkum fullyrðingum eru nokkur vísindi yfirleitt – en tilgangurinn er að varan, eða rökin, fái á sig gæðastimpil. Og óþarflega oft virðist tilgangurinn helga meðalið.

Í þjóðmálaumræðunni, ekki síst stórpólitískum dægurmálaþrætum, er vísindunum slegið milli póla eins og borðtenniskúlu. Annað hvort eru „engar eða ónógar vísindarannsóknir að baki“ eða þær eru dregnar stórlega í efa, séu þær til staðar, og vísindamennirnir sakaðir um að vera málaliðar (og þar með engir vísindamenn) í pólitískum hráskinnsleik.

Þetta kannast allir við í umræðunni um náttúrvernd og virkjanir. Sú undarlega lenska hefur t.d. verið viðhöfð hér á landi að láta framkvæmdaaðilana sjálfa sjá um umhverfismat, eins fjarstæðukennt og það nú er, þegar málið er hugsað. Megin stefin í þessari umræðu undanfarna áratugi hafa verið þau að náttúrverndarsinnar hafa kvartað yfir skorti á vísindum að baki ákvörðunum en virkjana- og stóriðjusinnar hafa heldur amast við vísindum, talið þau óþarfa vesen sem tefji bara framgang „nauðsynlegra framfara“.

Gott ef Samtök atvinnulífsins hafa ekki verið á þeirri skoðun að Umhverfisráðuneytið sé óþarft með öllu, m.a. af þessum sökum. Það gæti nefnilega farið fram á að lagst yrði í dýrar og tafsamar rannsóknir, sem skipta ekki máli þegar upp er staðið, því það átti nefnilega að virkja hvort sem er.

Ásmundur Einar Daðason hefur nú um stundir mestar áhyggjur af því hvort friðun fuglategunda hér við land tengist umsókn um inngöngu í Evrópusambandið, en hefur litlar áhyggjur af því hvort viðkomandi tegundir eru raunverulega í hættu, með eða án ESB-tilskipunar, á meðan umhverfisráðherra segir að „mælingar sýni að fækkað hafi í stofnunum“ (væntanlega vísindalegar mælingar?). Ásmundur Einar hefur nefnilega þá lífssýn að fuglategundir eigi að deyja út samkvæmt alíslenskri reglugerð, fyrr en að þær bjargist fyrir tilstilli reglugerða frá ESB.

Og náttúruverndarmenn eiga það líka á hættu að taka „vísindin“ í sína þjónustu, án þess að séð verði að óyggjandi rannsóknir liggi þar að baki. Þannig telur t.d. Orri Vigfússon að 80-90% villta laxagöngustofnsins í Þjórsá gæti verið í hættu ef áin yrði virkjuð hér niðri í byggð. Hvaðan fær hann þær tölur?

Fiskifræðingar halda því fram, með ágætum rökum að því er séð verður með leikmannsaugum, að virkjun í Ölfusá við Selfoss muni valda umtalsverðu tjóni á laxastofni Ölfusár-Hvítár ef mótvægisaðgerðir virka ekki eins og til er ætlast. Virkjunarsinnum er hinsvegar hætt við því að miða málflutning sinn við það að mótvægisaðgerðir virki 100%, og vitna svo í verkfræðileg vísindi því til staðfestingar.

Í sjávarútveginum er stöðugt deilt um vísindin. Hafrannsóknarstofnun leggur fram tillögur um veiðiheimildir, byggðar á vísindarannsóknum sínum á stofnstærðum. Í hvert sinn má ganga að því vísu að útgerðarmenn, skipstjórar eða trillukarlar rífi í sundur á sér andlitið, inni í stofum landsmanna, í heilagri vandlætingu yfir „þessum fávitum með prófgráðurnar“ sem ekkert viti í sinn haus, það sé allur sjór morandi í fiski, það sjái allir vitibornir menn með barnaskólapróf!

Náttúran og vísindin hafa lengst af mátt sín lítils fyrir sérhagsmunum. LÍÚ hefur að mestu ráðið því sem það hefur viljað ráða í sjávarútvegsráðuneytinu, og því er von að sambandinu finnist slitið úr sér hjartað þegar minnst er á að færa auðlindanýtinguna yfir í umhverfisráðuneytið – ráðuneyti sem því finnst helst að leggja ætti af, enda samgöngur víst ekki jafn greiðar þangað inn. Það sama gildir um Samtök iðnaðarins og Bændasamtökin varðandi þeirra málaflokka. Á tímum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins (sem sagt nánast allan lýðveldistímann) voru svo ljómandi greiðar leiðir fyrir þessi hagsmunasamtök inn í „sín ráðuneyti“.

Með nýjum stjórnvöldum fer þetta þó vonandi að breytast.

Því er þó ekki alveg að treysta, eins og Pawel Bartoszek bendir á í frábærri grein í Fréttablaðinu í dag, um afleitan ráðherraferil Jóns Bjarnasonar.

Örríma við áramót

1. Hringhent

Líður senn að lokum árs,
lífs þá enn hefst gangur.
Yfir fennir tildrög társ,
tíminn kennir strangur.

Mannakyn sér gefi grið,
gæfu skynji ríka.
Gleðjist vinir! Fróðafrið
finni hinir líka.

Hagur flestra stóð í stað,
strembin mesta törnin.
Sinnið nestum, sýnum að
sókn er besta vörnin.

2. Ferskeytt

Innsta kjarna eigin lífs
ákaft margir leita.
Bitur eggin, bakki hnífs,
biðlund eða streita?

Hvað mig vantar, hvað ég þarf,
um hvað mér ekki neita?
Það sem elti þigg í arf
og það mun öðrum veita.

Ósk um nýárs brotið blað
og birtu eftir stritið.
Kveðjum hrun, en þekkjum það
þegar við er litið.

3. Braghent

Hamingjan í hagvextinum hímir ekki.
Nægjusemi, það ég þekki,
þykka brýtur græðgishlekki.

Aukum jöfnuð, elskum friðinn, alla seðjum
og á glæstar vonir veðjum;
verndum, huggum, styrkjum, gleðjum.

Kveðjum árið! Keyrðum það á kanti hálum?
Mót nýju gakk með gamanmálum!
Glösum lyftum! Syngjum! Skálum!

Öll vötn falla til dýra fjarðar

Skúli Helgason skrifar í dag grein á dv.is þar sem hann fer yfir horfurnar, helstu verkefnin á næstu misserum sem breytt ríkisstjórn muni taka á. „Hinar bráðu björgunaraðgerðir vegna bankahrunsins eru komnar vel á veg, tekist hefur að lækka fjárlagahallann um 170 milljarða frá hruni, spara með því 17 milljarða í vaxtakostnað, hagvöxtur er hafinn á ný og meiri en víðast hvar í Evrópu og almenningur sér nú fram á betri tíð með auknum kaupmætti, lægri skattbyrði og verðbólgu sem stefnir í að verða nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%) á síðari hluta ársins“, segir Skúli, nokkuð kokhraustur.

Í ljósi þessa telur Skúli að komið sé að vatnaskilum í starfi ríkisstjórnarinnar, sem geti nú farið að líta upp úr mokstrinum, á nánasta umhverfi í kringum sig. Hann segir „mesta þjóðþrifaverkefnið að tryggja nýja skipan auðlindamála“ þar sem allt er „undir, fiskur, orka og land auk þeirra auðlinda sem kunna að verða nýttar í framtíðinni“.

Ekki er ég jafn sannfærður og Skúli, um sýn almennings á betri tíð með auknum kaupmætti og lægri skattbyrði. Ég held einmitt að „almenningur“ sjái alls ekki fram á betri tíð og allra síst lægri skattbyrði. Það hefur stjórninni tekist á eigin spýtur með gjörðum sínum og þar að auki hefur valdaklíku landsins, stjórnarandstöðunni og „aðilum vinnumarkaðarins“ alveg tekist að kaffæra Skúla og félaga í umræðunni. Nánast daglega dynja á fólki fréttir af auknum álögum og núna um áramótin hellast þær enn yfir – sem aldrei fyrr.

Ég er hræddur um að fréttir af reikningnum sem fólk mun fá sendan ef það bruðlast við að „panta sjúkrabílinn“, og aðrar fréttir í sama stíl, veki meiri athygli hjá almenningi en einhver þokukennd loforð um betri tíð með blóm í haga.

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á þingi verða í sameiningu að átta sig á því, þrátt fyrir mikið langlundargeð margra kjósenda og skilning á þeim aðstæðum sem við er að glíma, að öllu siðlegu fólki svíður það óréttlæti sem við blasir varðandi skuldastöðuna -já alveg inn að kviku. Mér kemur á óvart ef fólk sættir sig við að sitja uppi með stökkbreyttar skuldir til eilífðarnóns. Við erum mörg tilbúin að bíða meðan verstu skítverkin eru unnin, en fyrst nú er komið að vatnaskilum, er þá ekki eimitt kominn tími á eitthvert lágmarks réttlæti?

Skúli hittir alveg í liðinn þegar hann segir: „Það er algjört forgangsverkefni á árinu 2012 að tryggja samræmda auðlindastefnu […] sem tryggi þjóðarbúinu eðlilegar tekjur af allri nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar“. Því miður finnst manni horfurnar hvað þetta varðar ekki vera björgulegar. Ekkert annað blasir við almenningi en að hver höndin sé uppi á móti annarri í stjórnarflokkunum, ekkert samkomulag um breytingar á kvótakerfinu muni nást, og útgerðarauðvaldið fari með fullkominn sigur af hólmi – hlakki yfir bráð sinni eins og sá ránfugl sem það er. En ef stjórnarliðið heykist á þessu, þá verður það grafskriftin þess.

Nú stendur upp á Skúla, því ég hef þrátt fyrir allt nokkra trú á honum, að sigla þessu máli í höfn.

Við lestur fyrirsagnarinnar á tilvitnaðri grein detta manni strax í hug hin fleygu orð Vésteins, úr Gísla sögu Súrssonar: „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“.

Öll vötn íslensks almennings falla nú til dýra fjarðar. Ef komið er að vatnaskilum, hvert munu þau falla héðan í frá?

Hálfguðaundrin

Nú stendur íslenska valdaklíkan fyrir harðvítugu áróðursstríði og stöðugum skæruhernaði til að fegra eigin hlut – og endurrita söguna sér í hag. Til þess hefur hún heilt dagblað og fleiri smámiðla, bæði net-, prent- og ljósvakamiðla. Þórður Snær Júlíusson fer ágætlega, í grein í Fréttablaðinu í dag, yfir áróðurstækni lögmanna „hinna miklu íslensku efnahagsundra“ sem eru til rannsóknar vegna ætlaðra efnahagsbrota og segir meðal annars: „Flestir þeirra hafa stórar hugmyndir um eigið ágæti, sumir virðast beinleiðis upplifa sig sem einhvers konar hálfguði, og sjálfsmynd þeirra er beintengd við það sem þeir gerðu á hinum fölsku uppgangstímum“. Þetta sama var tekið til umfjöllunar í pistli hér á síðunni á Þorláksmessu.

En þessar lýsingar eiga ekki aðeins við efnahagsundrin. Þær passa nákvæmlega við á öllum sviðum. Skýrast kemur þetta fram, annars vegar þar sem LÍÚ hamast við að verja hagsmuni stórútgerðarmanna og reynir að telja fólki trú um að allt fari á hausinn ef útgerðin greiddi sanngjarna rentu fyrir aðgang að fiskimiðunum, þyrfti að greiða fyrir hráefnið eins og aðrir atvinnurekendur. Hinsvegar í stjórnmálunum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hamast í fullkomnu æðiskasti við að breiða yfir eigin skít og velta eigin ábyrgð yfir á aðra.

Þetta er aðferðafræði sem flokkurinn hefur notað árum og áratugum saman. Ef þeir lenda í minnihluta einhvers staðar, á þingi, í sveitarstjórnum eða hvar sem er, haga fulltrúar hans sér eins og þeir einir séu réttbornir til valda. Þar er lifandi komin „hálfguðahugmyndin“ sem Þórður nefnir og eftirfarandi lýsing Þórðar á fullkomlega við atferli sjálfstæðismanna þegar þeir lenda í aftursætinu: „Oftast eyða þeir reyndar mestu púðri í að upplýsa hversu léleg rannsóknarskýrslan sé, hversu illa gefnir rannsakendur þeirra séu og hversu illa gefinn fréttamaðurinn sé…“. Ef skipt er út úr tilvitnuninni rannsóknarskýrslunni, rannsakendum og fréttamanninum fyrir það sem á við á hverjum stað og tíma, þá er þetta mynstrið.

Svona er haldið áfram og áfram og áfram endalaust. Allt þar til flokkurinn kemst aftur til valda. Þá er farið að tala fjálglega um siðareglur, heiðarlega umræðu, samstarf og samvinnu. Og hneykslast ógurlega á allri gagnrýni: íbúarnir eigi annað og betra skilið!

Það er alveg gargandi snilld að fylgjast með þessu kjaftæði.

 

 

 

 

Jólagleði

Hafi vinur keyrt í kaf
af kreppuþján og streði,
honum gefðu ómælt af
ást og jólagleði.

Veistu þann er styðst við staf,
stirðan mjög í geði?
Þessum veittu ómælt af
ást og jólagleði.

Sigli einn um úfið haf
og allt hans líf að veði,
í bæn þeim sendu ómælt af
ást og jólagleði.

Manstu einn sem eftir gaf
við óhapp, sem að skeði?
Færðu honum ómælt af
ást og jólagleði.

Enn af þeim er aleinn svaf
oft á sjúkrabeði.
Kveðju sendu, og ómælt af
ást og jólagleði.

Strákarnir okkar

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðunetyinu, var í apríl sl. dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik. Nú er mál hans til meðferðar í hæstarétti. Lögmaður Baldurs hefur sett fram þær kröfur, til vara, að fjölmiðlaumfjöllun um málið komi til refsilækkunar, verði sakfellingin staðfest í hæstarétti, enda geti engin refsing staðist samanburð við vítisloga íslenskrar fjölmiðlaumfjöllunar. Gekk umfjöllunin víst svo langt að hinn dæmdi ráðuneytisstjóri missti vinnuna!

Þetta ætti sérstakur saksóknari að láta sér að kenningu verða í sínum störfum. Það gengur náttúrulega ekki að menn sem kunna að verða dæmdir fyrir að leiðast óvart út í innherjasvik, vafningafléttur eða stórfelld bankarán ef út í það er farið, missi að auki vinnuna. Þetta var nú einu sinni það sem allir „okkar bestu menn“ voru að gera og, drifnir áfram af forseta vorum, nýttu snilli sína á þessum sviðum til að bera „hróður“ fósturjarðarinnar út um heiminn.

Þó það hafi auðvitað verið sjálfsagt að fjölmiðlarnir segðu frá hinum miklu sigrum víkingaferðanna, og flytu með í einkaþotunum til að spara tíma og aukaferðir, er engin ástæða fyrir þá að vera endalaust að horfa um öxl og velta sér upp úr einhverjum hlutum sem gætu hafa farið úrskeiðis í fortíðinni – enda það allt saman náttúrulega aðstæðum á erlendum mörkuðum að kenna en ekki „strákunum okkar“.

„Strákarnir okkar“ eiga nefnilega heiður skilinn fyrir að koma okkur hér á þessum útnára rækilega á heimskortið og í stað þess að láta fjölmiðla komast upp með að hrekja þá úr vinnunni með ósanngjarnri umfjöllun væri nær að forsetinn hóaði þeim saman á Bessastaði milli jóla og nýárs og hengdi í þá fálkaorðuna.

Allir muna hvað það var gaman á Bessastöðum, hjá forsetanum og silfurstrákunum, eftir ÓL í Peking. Nú er lag að heiðra „gullstrákana“ líka, Baldur og þá hina.

 

 

Stórslys í Ölfusá?

Undarlega hljótt hefur lengst af verið um áform bæjarstjórnarmeirihlutans í Árborg að stífla Ölfusá við túngarðinn ofan við byggðina á Selfossi og veita henni úr farvegi sínum, í jarðgöngum eða skurði, nánast í gegnum byggðina „utan ár“. Upplýsingar um þennan gjörning eru bæði loðnar og af skornum skammti, ekki síst í því ljósi að hér hafa ekki fyrr verið settar fram hugmyndir sem gætu haft jafn öfgafull, skaðleg áhrif á bæði lífríki og efnahag á svæðinu.

Náttúruvættið

Ölfusá, þar sem hún beljar í gegnum Selfoss, um gjána, Básinn og áfram niður flúðirnar norðan gömlu Selfossbæjanna, er hjartsláttur þessa byggðarlags. Fram kemur í grein eftir fiskifræðingana Sigurð Guðjónsson og Magnús Jóhannsson í héraðsblaðinu Dagskránni í gær að meðalrennsli Ölfusár, þessa vatnsmesta fljóts á Íslandi, sé 400m3 á sekúndu en ef af virkjanaáformum yrði myndu seitla undir brúna 15m3/s (eitthvað meira í vatnavöxtum). Ef áin yrði aflífuð með svo brútal hætti sem núverandi bæjarstjórnarmeirihluti áformar er þar með grundvellinum kippt undan sjálfsmynd þeirra sem lifað hafa og hrærst í félagi við hana um aldir. Kynslóðir sem yxu upp þaðan í frá, við hjal í svo hlægilegri sprænu, yrðu eitthvert allt annað fólk en það sem alið hefur manninn á bökkum þessa eins merkasta náttúruvættis landsins fram undir þetta.

Áhrif á lífríkið

Í grein þeirra Magnúsar og Sigurðar kemur fram að á vatnasvæði Ölfusár-Hvítár „lifa allar þær fiskitegundir sem finnast í fersku vatni á Íslandi“. Af þessum fiskstofnum eru umtalsverðar nytjar og er veiðistofn laxa í ám á vatnasvæðinu einn sá stærsti á landinu. Veiðin er umtalsverð, bæði í net og á stöng og geta stangardagar í laxveiði orðið á bilinu 8000 til 9.500 á ári en í silungsveiði yfir 18.000. „Laxastofnar Ölfusár-Hvítár hafa umtalsverða þýðingu á landsvísu en á árinu 2010 var laxveiðin þar um 18% af allri veiði í ám með náttúrulegum laxi á landinu og er jafnframt umtalsverður hluti af fjölda laxa í afla við Norður-Atlantshaf“, segja fiskifræðingarnir, og ennfremur að virkjunin muni valda „umtalsverðu tjóni ef mótvægisaðgerðir eru ekki gerðar eða ef þær virka ekki eins og til er ætlast“. Það muni þýða „endalok þeirra göngufiskstofna sem eru ofan [fyrirhugaðrar] stíflu“, hvorki meira né minna. Hver vill taka þá áhættu – og ábyrgð á slíku hryðjuverki?

Tilfinningasemi, efnahagsleg afkoma og náttúruvá

Allir sem vilja, sjá að hér er ekki aðeins um að tefla „einhverja fiska“ eða tilfinningasemi íbúa í nágrenni virkjunar, heldur einnig stórkostlega efnahagslega hagsmuni, bæði vegna sölu veiðileyfa og ekki síður afleiddra áhrifa á ferðaþjónustu og afkomu íbúa meira og minna upp um alla Árnessýslu. Hér er líka um að tefla Sogið, Stóru-Laxá, Tungufljót og Brúará, svo aðeins nokkrar stærri árnar séu nefndar, og að auki veiðivötnin Hestvatn, Apavatn og Laugarvatn.

Fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt þarf að hafa í huga að Ölfusá og Hvítá eru „mestu flóðaár landsins“ og í þeim „urðu hlaup árin 1929, 1939, 1975, 1980 og 1999“ ef aðeins er litið til síðustu aldar. Enginn veit hver áhrif stíflu við Efri-Laugardælaeyju yrðu á marflatan Flóann í hamfara- eða krapaflóði. Erfitt er að meta hættuna þar sem allar hugmyndir bæjarstjórnarmeirihlutans um framkvæmdina eru þokukenndar og óljósar, það skal bara virkja! Helst virðist eiga að reiða sig á, til að bjarga fiskstofnum, „fiskivænar túrbínur“, sem hafa verið kjaftaðar upp í blöðum, en virðast reyndar ekki vera til nema sem líkön á teikniborðum tilraunastofa einhversstaðar úti í hinum stóra heimi.

Ekki einkamál meirihlutans

Til að réttlæta náttúruspjöllin hefur bæjarstjórnarmeirihlutanum tekist að reikna sig upp í hundruð milljóna hagnað og hundruð starfa. En þrátt fyrir öll reiknilíkön eru þessi ósköp ekki einkamál fimm meirihlutafulltrúa í bæjarstjórn Árborgar. Þetta var ekki stefnumál neins flokks fyrir síðustu kosningar í sveitarfélaginu og því hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins um þetta ekkert umboð frá kjósendum sínum, né öðrum íbúum. Að ekki sé talað um aðra Árnesinga, sem málið varðar ekki síður en Selfyssinga. Hér eru nefnilega líka í hættu hundruð milljóna og hundruð starfa ef fiskistofnar hrynja.

Fordæmi Hvergerðinga

Bæjarstjórn Hveragerðis setti eftirtektarvert fordæmi með því að berjast samhent og einhuga gegn virkjunum í sínum bakgarði, og kom þannig í veg fyrir eyðileggingu ómetanlegra náttúruperla. Hvergerðingar mátu dýrgripi sína meira en allt það gull sem reiknimeistarar töldu sig geta borað upp úr iðrum jarðar. Hafi þeir þökk fyrir.

Geta ekki Ölfusá og Hvítá bara fengið að vera í friði fyrir virkjunum, eins og hinir fögru „reykja“dalir ofan Hveragerðis? Má ekki friða þetta vatnasvæði og einbeita sér að enn öflugri uppbyggingu veiðistofnanna, sem gætu skilað mun meiri arði en þeir nú gera, í stað þess að stefna þeim í voða?

Fordæmi Hvergerðinga hrópar á meirihlutafulltrúa í bæjarstjórn Árborgar, sem eru einangraðir í afstöðu sinni til málsins: „Hættið þessari vitleysu strax“.

(Pistillinn er að stofni til grein eftir undirritaðan sem birtist í Dagskránni – Fréttablaði Suðurlands 17. mars 2011).

Sorpmafían

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Árborg hefur ákveðið að framlengja samning við Íslenska gámafélagið um sorphirðu í sveitarfélaginu. Eftir japl, jaml og fuður mánuðum saman var sorphirðan loks boðin út fyrr á árinu, enda gildandi samningur löngu útrunninn. Liðið er nú heilt ár síðan bæjarstjórn samþykkti útboðið og kemur á óvart að Sjálfstæðismenn í Árborg, sem kvörtuðu hástöfum á síðasta kjörtímabili yfir hægagangi í stjórnsýslunni, skuli vera svo verkkvíðnir og svifaseinir í jafn mikilvægu máli, sem hefði getað sparað sveitarfélaginu mikið fé, ef eðlilega hefði verið á málum haldið.

Eftir að tilboð voru opnuð, og fyrir lá að Gámaþjónustan átti lægsta tilboðið, varð enn „óskiljanlegur“ dráttur á framgangi málsins, nú á því að það væri tekið til afgreiðslu í bæjarráði. Það var loksins gert á fundi í morgun, 15. desember, og ákvað íhaldsmeirihlutinn þar að ógilda útboðið, framlengja sem sagt samninginn við vildarvini sína og fjölskyldufyrirtækið Íslenska gámafélagið til 15. júlí 2012, og fela tækni- og veitustjóra sveitarfélagsins „að vinna að nýju útboði“.

Sjálfstæðismenn hafa auðvitað nýtt biðtímann til að reyna að klastara saman rökum fyrir gjörningi sínum og segja m.a. í bókun með afgreiðslu sinni „að færa megi rök fyrir því að gallar kunni að vera á framkvæmd útboðsins“ og velta vöngum um það að hugsanlega kunni sorpmagn að aukast á samnigstímanum. Já, rýrt er það í roðinu.

Í bókun minnihlutafulltrúanna með tillögu sinni á fundinum um að ganga til samninga við lægstbjóðanda segir m.a.:

Tilboð Gámaþjónustunnar reyndist mun hagstæðara fyrir sveitarfélagið. Ef miðað er við kostnað undanfarinna ára er tilboð Gámaþjónustunnar mjög hagkvæmt fyrir sveitarfélagið og þýðir í raun sparnað sem nemur um það bil 25 milljónum kr. á samningstímanum. Fyrir liggur einkunnargjöf unnin af fagaðilum vegna tilboðanna og skorar lægstbjóðandi hærra í þeirri einkunnargjöf.“

Því miður koma þessi vinnubrögð Arnalds og co engum á óvart.

Veisla fyrir miðjum firði

Rétt um daginn las ég „í einum spreng“ tvær bækur eftir Jón Hjartarson. Önnur þeirra, Fyrir miðjum firði, kom reyndar út fyrir ári síðan en hin, Veislan í norðri, er nýútkomin. Skemmst er frá því að segja að hér er í báðum tilvikum um sannkallaðan yndislestur að ræða.

Fyrir miðjum firði segir frá uppvexti Jóns í Kollafirði á Ströndum um miðja síðustu öld, á nýbýlinu Undralandi, milli tveggja Fjarðarhorna, þess stóra og litla. Bókin bregður upp skýrum svipmyndum af lífi íslensks alþýðufólks, harðri lífsbaráttu þess við erfiðar aðstæður, en einnig leikjum og hugmyndaheimi barnsins, þar sem náttúran, jafnt harðneskjuleg sem undurblíð, er í aðalhlutverki.

Veislan í norðri segir frá þátttöku Jóns í síldarævintýrinu mikla á 7. áratug liðinnar aldar en hann vann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Raufarhöfn í sex sumur á þroska- og námsárum sínum, frá 1961 til 1966. Frásagnaraðferðin í þessari bók er svipuð og í hinni fyrrnefndu, brugðið er upp svipmyndum af lífinu „í síldinni“, bæði af fólki, starfs- og staðháttum á síldarplönum og í verksmiðjunni, og þorpsbragnum.

Saman eru þessar bækur þroskasaga höfundarins og sýna með skýrum hætti þann grunn sem lífsskoðun og viðhorf hans byggir á æ síðan.

Jón Hjartarson er ritfær í besta lagi. Texti hans er á fallegu íslensku máli, skýr og skorinorður og laus við allt prjál og málalengingar, svolítið í anda Íslendingasagnanna sem hann drakk í sig í æsku. Textinn líður þó vel fram og er afar læsilegur – þetta eru engar skýrslufærslur – lifandi og skemmtilegur stíll sem fellur einstaklega vel að efninu svo lesandinn er alltaf með á nótunum. Ekki er farið í grafgötur með neitt, og lýsingarnar svo myndrænar að efnið stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

Stíllinn er líka afar einlægur, manni fer ósjálfrátt að þykja vænt um þennan pilt. Því veldur ekki síst það að sá sem heldur um penna er mannvinur – allar lýsingar á fólki eru umvafðar virðingu og skilningi á aðstæðum þess og mannlegum breyskleika, höfundurinn fylgir samferðamönnum sínum við hverjar aðstæður í blíðu og stríðu, og fellur aldrei í þá algengu gryfju að setjast í dómarasæti yfir þeim sem kanna að hafa orðið hált á lífssvellinu.

Eitt megineinkennið á báðum þessum bókum er sterk félagsleg vitund höfundarins. Hann horfir til baka, fullorðinn maður, metur þaðan stöðu fólks og samfélags á barns- og unglingsárum sínum og rýnir í atburði frá félagslegum sjónarhóli. Að því leyti eru bækurnar báðar greinandi og í sjálfu sér hápólitískar. En það kemur síður en svo að sök, hvergi örlar á innrætingu eða pólitískri rétthugsun: þetta eru ekki pólitísk boðunarrit, heldur svipmyndir úr þroskasögu, annars vegar einstaklings og hinsvegar lýðveldis, sem bæði eru að stíga sín fyrstu skref á langri vegferð.

Þetta eru höfuðkostir beggja bókanna; hin skarpa, öfgalausa samfélagsgreining, lifandi og myndrænn stíll og síðast en ekki síst mannúðin og virðingin sem skín úr hverju orði.

Okkur sem þekkjum Jón Hjartarson kemur það ekki á óvart.

Með haustskipi á fjárhagslegan Brimarhólm

Það var rétt fyrstu áratugina eftir að goðaveldinu hafði verið komið á fót á Íslandi sem hægt var að tala um einhverskonar valdajafnvægi í landinu. Fljótlega fóru menn að sölsa undir sig goðorð hægri vinstri og smám saman heilu og hálfu landshlutana. Fyrstu áratugina drápu menn hverjir aðra sem sagt í „friði og spekt“ hér á landi, alveg í anda þeirra félagslegu norma sem þá voru í gildi.

En þegar komið var fram á 12. öld, að ekki sé talað um þá 13. – sjálfa Sturlungaöldina – var valdastéttin, höfðingjarnir, farin að drösla fátækum bændum og friðsömum hundruðum saman með sér yfir fjöll og firnindi út í dauða eða örkuml, frá búum sínum og lífsbjörg, til að fyrirkoma með grjótkasti, ryðjárni eða eldi einhverju fólki í öðrum landshlutum, langflestu alsaklausu, í stjórnlausri valdagræðgi sinni. Skipti þá engu hver fyrir varð.

Þetta voru athafnamenn þeirra tíma og sýnist eðli þeirra og innræti lítið hafa breyst – eiginleg mannvíg hafa að vísu lagst af að mestu með „nútímalegri“ siðferðisgildum og félagslegum normum, en óeiginleg aukist að sama skapi.

Eins og öllum er kunnugt leiddi græðgi íslenskra athafnamanna til valdatöku Noregskonungs á Íslandi á síðari hluta 13. aldar, enda kunnu Íslendingar ekki fótum sínum forráð, þeir sáust ekki fyrir og voru ófærir um að búa hjálparlausir í eigin landi. Valdastéttin var þá, eins og nú, algerlega stjórnlaus í græðgi sinni og siðblindu. Er það nokkuð kunnuglegt nútímamönnum?

Næst dregur til tíðinda hér á landi við siðaskiptin um miðja 16. öld. Þá hefur Danakóngur tekið við af þeim norska og sér leik á borði, eins og konungsvaldið víðast um norðan- og vestanverða Evrópu, að efla völd sín með því að yfirtaka eignir og auð kirkjunnar.

Þeirri söguskoðun hefur verið haldið á lofti æ síðan að Danir hafi verið hinir verstu óþokkar, hafi kúgað Íslendinga öldum saman og nánast murkað úr þjóðinni lífið á tímabili. Auðvitað má tilfæra dæmi um skepnuskap einhverra danskra kaupmanna gagnvart „viðskiptavinum“ sínum úr hópi íslenskra alþýðumanna – og engin ástæða til að fegra þá sögu.

Hins vegar vita það líka allir sem vita vilja að umfangsmikilli og skipulegri sögufölsun hefur verið beitt allar götur síðan þegar fjallað er um nýlendutímann. Staðreyndin er sú að a.m.k. tvennt annað hafði afdrifaríkari afleiðingar fyrir örlög íslensku þjóðarinnar en dönsk nýlendukúgun.

Í fyrsta lagi náttúruleg óáran. Á 17. og 18. öld snarkólnaði nefnilega í veðri svo allar aðstæður til þess sjálfsþurftarbúskapar til lands og sjávar sem hér var stundaður versnuðu mjög, urðu næstum óbærilegar. Á sama tíma, í kjölfar hungurs og vosbúðar, riðu yfir farsóttir, t.d. stóra-bóla í upphafi 18. aldar sem lagði heilu sveitirnar í gröfina, aðallega yngra, vinnufært fólk en hlífði frekar örvasa gamalmennum. Ofan á þetta bættust náttúruhamfarir, stórkostlegustu náttúruhamfarir á sögulegum tíma, sem eru Skaftáreldar og meðfylgjandi móðuharðindi. Að öllu þessu yfirgengnu tírði varla nokkur logi á örmjóu og veikburða þjóðarskarinu – og minnstu mátti muna að tíran slokknaði fyrir fullt og fast.

Í öðru lagi reyndist íslenska valdastéttin landslýð mun skeinuhættari en danskir yfirboðarar. Heimilislausum örvæntingarlýð var fyrir litlar eða engar sakir smalað, eins og sauðfé til slátrunar, ýmist til brennslu, drekkingar, hýðingar, afhausunar eða um borð í haustskip á Brimarhólm – hvaðan enginn sem inn fór kom út aftur öðruvísi en í láréttri stöðu. Svívirðileg og grimmúðleg meðferð þessarar fámennu íslensku valdaklíku á sárafátækum og bjargarlausum löndum sínum hefur markvisst verið þögguð í gegnum aldirnar – en Dönum kennt um allt saman.

Í stuttu máli hefur ekkert breyst á Íslandi síðan. Tiltölulega fámenn valdaklíka ræður enn og gín hér yfir öllu, og eftir að hafa tryggt einkaafnot sín af helstu auðlindum og gæðum landsins með aðstoð stjórnmálaflokka og valdamikilla stjórnmálamanna sem hún hefur á sínum snærum, virðist henni líka ætla að takast að koma í veg fyrir það með yfirgangi og fjölmiðlaofbeldi að réttkjörin stjórnvöld þori að gera alvöru úr þeim loforðum sínum, sem þau voru kosin út á, að tryggja þjóðinni, eigendum ríkissjóðs, yfirráð og arðinn af eigin auðlindum sem ætti með réttu að leggja grunninn að því velferðarsamfélagi sem við flest viljum búa í.

Íslensku valdaklíkunni hefur tekist að senda lungann úr eigin þjóð, með haustskipi árið 2008, á fjárhagslegan Brimarhólm, í ævilangt skuldafangelsi, og eru helst áhöld um það hvort einhverjum tekst að bjarga börnum sínum og afkomendum frá því að taka við byrðunum þegar þrælavistinni hérna megin grafar lýkur. „Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti“.

Það kemur engum á óvart að fulltrúar valdaklíkunnar skuli berjast fyrir eigin völdum, og beita til þess öllum meðulum. En það er sorglegt að enn skuli finnast fólk – jafnvel ungt, menntað fólk – sem finnst sér það skyldast að taka upp hanskann fyrir þennan ömurlega málstað, heldur jafnvel bláeygt að með því sé það að verja „frelsi einstaklingsins“, eins mikil öfugmæli og það nú eru. Frelsi einstaklingsins er að finna einhvers staðar allt annars staðar en í stjórnmálaflokkum sem eru fyrst og fremst hagsmunasamtök íslenskrar valdaklíku. Það væri t.d. miklu nær að leita að því í eigin huga.

Og enn sorglegra er að þeir sem sjálfir telja sig jafnaðarmenn skuli ætla að láta kúga sig til að gefast upp á verkefni sínu, að skapa hér réttlátara samfélag, og hreyfa hvorki legg né lið til að aflétta drápsklyfjunum af fólki.

Að ekki sé talað um þá sem engin leið er að hafa neitt samstarf við, en þykjast standa lengst til vinstri í stjórnmálum, og uppblásnir af gamalli, misskilinni hugsjónabaráttu syngja Internationalinn, „Alþjóðasöng verkalýðsins“, sem mun, samkvæmt textanum, „tengja strönd við strönd“. Ekkert er fjær þessum íslensku vinstrimönnum, þó þeir syngi það fullum hálsi á tyllidögum, en að tengja strönd við strönd. Þeir munu halda áfram að „sá í akur óvinar síns“ um ókomna tíð, þar til gamla valdaklíkan er aftur komin á „sinn stað“, og una svo til eilífðar undir hennar kúgun, í fullkominni einangrun frá öðrum ströndum.

„Guð blessi Ísland“.