Vafningsríma

Loks er varpað ljósi á
langa Vafningsfléttu.
Af sögu þeirri sjálfsagt fá
sumir hryllingsgrettu.

Sýna málsins sakargögn
að sagan, rétt ég vona,
er í stuttri endursögn
einhvernveginn svona:

Bræður tvennir bralla margt,
banka hyggjast kaupa.
Vilja gjarnan græða skart,
með gull í vösum raupa.

Saman eiga þessir Þátt,
þaðan mikinn vilja’ arð.
Morgan Stanleys góna’ á gátt
og grenja’ út tugamilljarð.

Kaupa’ í Glitni sjö prósent,
svífa’ á gróðavegi!
Óðar samt er lánið lent
á lokagreiðsludegi.

Uppgjör því til fjandans fer,
með félagssjóði blanka.
Til lausnar þrautalending er
lán frá keyptum banka!

Reglum samkvæmt meira má
Milestone ekki lána.
Forða Þáttur engan á,
útlit bjart að grána.

Til bjargar sjóða svikavef,
seint þó finnist vitni.
Annars tekin yrðu bréf
sem áttu þeir í Glitni!

Sveins- og Wernerssynirnir
sjá nú vonir dofna.
Leysa vandann, vinirnir,
Vafning nýjan stofna!

Skyldi lán til Vafnings veitt
en velt svo beint til Þáttar
svo milljarðana gætu greitt
og gleiðir lagst til náttar.

En Vafning þarf að veita fé
svo veð sé fyrir láni!
Lífsvon Sjóvar lét í té
lyfjakeðjubjáni.

Nú aðeins vantar undirskrift!
Er þá nokkur heima?
Ef enginn getur armi lyft
má öllu þessu gleyma!

Þó ekki verði öllu náð
sem enn mun talið hreinna.
Þeir hafa undir rifi ráð
og redda þessu seinna.

Til Milestone bara færa féð
úr fúnum Glitnis aski.
Þáttarskuldin þvegin með
þokkapiltabraski.

Lagaregluverkið var
með vilja þarna brotið
er lítilsigldir lúserar,
léku djarft og rotið?

Hið nýja félag fullgilt var
fjórum dögum síðar.
Með traustum Sjóvárbréfum bar
bankaskuldir fríðar.

Nú er loksins Vafnings veð
vottað, eftir baslið,
lánið hægt að möndla með
og millifæra draslið.

Hefst nú siðlaust sjónarspil,
samningurinn skráður,
(með falsi grófu færður til)
fjórum dögum áður!

Aðeins verður vandamál
ef vitnast þessi flétta:
Yrði drísildjöflum hál
dagsetningin rétta!

Fram þá stígur Bjarni Ben.
til bjargar, ættarsprotinn.
Pennann glaður grípur – en
gjörningurinn rotinn.

Skjalið virðist skíraglit,
skrautritað með „heading“!
Eðli þess með öðrum lit,
algjör skítaredding.

Bjarni nú sinn tíma tók
að tæma bankahólfin.
Veit að senn mun bankinn „broke“,
brostin hallargólfin.

Vafningsskuld að vonum greidd
með vænu láni’ í Glitni!!
Summan gegnum Svartháf reidd.
Sýnist púkinn fitni!

Greitt til baka bara smá
brot af lánsins virði:
Borgar þjóðin þaðan frá
þeirra skuldabyrði.

Útrás landið vefur vor
víkingsfrægðarljóma.
Í bankainnrás eðlisþor
æðstan veitir sóma.

Saga þessi aðeins er
almennt, lítið dæmi
um sigra þegar saman fer
snilld og íslenskt næmi.

Símaskráin og Narkissos

Nú berast af því fregnir að útgefendur símaskrárinnar hafi prentað límmiða, og bjóði hann hverjum sem er, til að hylja forsíðu nýjustu útgáfu þessa vinsælasta alþýðurits í sögu þjóðarinnar. Ég veit varla hvað mér á að finnast um þetta tiltæki – enda veit ég ekki hvaða mynd er á límmiðanum. Af fyrri reynslu af smekkleysi útgefandans ætla ég þó að leyfa mér að hafa allan varann á.

Ekki svo að skilja að þessi límmiði muni, eða gæti með nokkru móti prýtt forsíðu símaskrárinnar á mínu heimili. Því símaskráin okkar er forsíðulaus með öllu.

Þannig er nefnilega mál með vexti að þegar ég fór út á pósthús að sækja eitt eintak af þessu látlausa en nauðsynlega riti, eins og árvisst er að ég geri þegar sá tími rennur upp, blöskraði mér svo fullkomlega að um leið og ég kom inn úr dyrunum með óskapnaðinn reif ég forsíðuna af í einu handtaki og henti henni í ruslið – vel að merkja, í ruslið, ekki endurvinnslutunnuna.

Þegar sýndarmennskan og narcissisminn í þjóðfélaginu er kominn á það stig að símaskráin – segi og skrifa: SÍMASKRÁIN – er orðin vettvangur til að klæmast með sjálfsdýrkunarófögnuðinn og gerviútlitsdýrkunina sem öllu öðru tröllríður, þá er væntanlega síðasta vígið fallið.

Þegar ég sagði vinnufélögunum frá þessu voru þeir að vísu fljótir að finna skýringuna á þessu athæfi mínu: Ég þyldi bara ekki samkeppnina við forsíðumyndina um athygli eiginkonunnar. Og þegar ég hugsaði um það rifjaðist það upp fyrir mér að hún fyrtist nokkuð við þar sem hún horfði á mig tæta í spað glænýja símaskrá! En það var ekki nema örskotsstund sem tírði á glósum vinnufélaganna í huga mér, því mér er það löngu ljóst að hún er ekki, og hefur aldrei verið, ginnkeypt fyrir fábjánahætti af neinu tagi, síst af öllu þeim sem forsíða símaskrárinnar ber með sér.

Það er rétt að taka það fram að þessi gjörningur átti sér stað löngu fyrir tíma nauðganaákæra – og ekki var mér þá heldur kunnugt um hinn göfuga siðaboðskap fyrirmyndarinnar, sem nú hefur verið rifjaður upp ítrekað, um það hvernig eigi helst að koma fram við konur og kenna þeim að haga sér.

En ég bendi sem sagt fólki á það að símaskráin kemur að fullum notum án forsíðu og engin rök eru fyrir þvílíkum aukakostnaði og umhverfisspjöllum eins og prentun og dreifingu þessara límmiða – til að hylja skömmina sem útgefandinn óneitanlega situr uppi með.

 

One way ticket to the pole

Bessastaðabóndinn kvað vera á leið á Suðurpólinn, í boði helstu héraðshöfðingja westan hafs. Ekki sjá allir þá utanlandsför sömu augum:

Á Bessastöðum björt er sól,
þar á Brúnastaðaundrið skjól
því Ólaf vill á veldisstól.
Jóka draum um annan ól,
í orðum draum sinn þannig  fól:
„One way ticket to the pole“!

Í þykkum sveimi

Vigdís Hauksdóttir hefur oft glatt landsmenn með gjammi sínu. Nýjasta yfirlýsingin var um að daun legði af Samfylkingunni:

Vigdís í þykkum sveimi sést,
súrnar gamla brýnið.
Er finnur eigin fýlupest
hún fitjar upp á trýnið.

Viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðismanna við ráðningu Jóhanns Haukssonar í starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafa verið á þann veg að mætur maður sagði að halda mætti að þeir sjálfir væru „saklaus, krullhærð lömb“ að vori:

Íhald og Framsókn lömbin ljúf
sem leika frjáls um börðin.
Er saklaus dilla dindilstúf,
detta aldinspörðin.

Alþingistíðindi

Sigmundur Ernir var í útlöndum og varamaðurinn mættur um langan veg til að leysa hann af á meðan, í atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu á afturköllunartillögu Bjarna V. Benediktssonar:

Sætt er heimsins ljúfa líf
og lag að Ernir þetta kanni
á meðan Ásta stendur stíf
og stuggar burtu varamanni.

Fleiri voru í útlöndum. Össur flýtti sér heim til að greiða atkvæði, einhverjir (illar tungur?) segja að það hafi ekki eingöngu verið til að gæta Geirs, bróður síns:

Út í heimi styttir starf
því stefnu vill hann eyða.
Yfir gamlan, Össur þarf,
eigin skít að breiða.

Uppnám í grasrót VG vegna umpólunar Ögmundar, manns réttlætisins. Því er haldið fram að hann vilji íhaldið, já raunar allt, frekar en Steingrím:

Hí á Steingrím! Hefnt sín gat,
hugann litar sorti.
Orku fyrir endurmat
Ögmund hvergi skorti.

Mjög er innra eðlið hreint:
Yndið himnafeðra
ekki lengur getur greint
Grím frá þeim í neðra.

Einhverjir voru handvissir um að ákæra Geir Haarde á sínum tíma, en virðist nú hafa snúist hugur, m.a. sumir þeirra sem sátu í Atlanefndinni og lögðu ákæruna sjálfir til að lokinni ítarlegri skoðun málsins:

Áður höfðu ákært Geir
-einhver von á þingi-.
Núna settu niður þeir
Nonni, lambið, Ingi.

Nefndarformaðurinn sjálfur, fyrrum meintur „pólitískur galdrabrennuforingi“ er einn þeirra sem snúist hefur á sveif með fyrrum óvinum sínum og óvægnum gagnrýnendum á Morgunblaðinu og víðar:

Villiköttur vill í hark,
vissu fyrri selur.
Um það höfum órækt mark:
Atli þrisvar gelur.

Nú er svo komið að kjósendum er ómögulegt að átta sig á því hver er hvað á Alþingi og fyrir hvað þingmenn standa, ef þeir standa þá fyrir nokkuð?

Þingmenn frábær fyrirmynd,
fræg er þeirra kynngi!
Um sali, eins og sóttarkind,
snúast þeir í hringi.

 

Lifir í gömlum glæðum

Í „gullaldarbókmenntunum“ segir frá því skeiði í Íslandssögunni er hetjur riðu um héruð. Hetjur þessar voru þó næsta lítils virði í sjálfum sér – þær voru aðeins hluti af ættinni – en gátu þó vissulega varpað ljóma á hana með gjörðum sínum. Ættin var kjarni samfélagsins, upphaf og endir alls, en einstaklingurinn eins og hvert annað peð sem mátti missa sín. Sómi ættarinnar var það sem standa þurfti vörð um. Það var gert með oddi og eggju – blóðhefndin – og skipti þá engu hvar niður var borið: alsaklausir og friðsamir gátu til jafns við sökudólga búist við því að skálmareggin væri það síðasta sem ljós augna þeirra nam.

Þeir sem ekki skildu þetta, eða brutu gegn lögmálinu, voru útskúfaðir – útlagar, skógarmenn, vargar í véum – brottrækir úr mannlegu félagi og þurftu að bjarga sér sem villidýr á mörkinni. Til að tryggja eigin velferð var því vissara að halda sig á mottunni og vinna dyggilega að hagsmunum ættarinnar.

Til að víkka samtryggingarkerfið út fyrir mörk ættarinnar stofnuðu menn svo til fóstbræðralags. Óskyldir mynduðu hagsmunatengsl með því að blanda blóði, og hétu því að standa saman út yfir gröf og dauða. Einn fyrir alla og allir fyrir einn! Að þeim samningi gerðum var alveg sama hvaða vitleysu eða ódæði einn gerðist sekur um – þegar vel lá við höggi – aðrir sátu uppi með sameiginlega ábyrgð – og því eins gott að verja gjörninginn með öllum tiltækum meðulum.

Í nútímanum má enn sjá glögg merki þessara eldfornu félagslegu grunnstoða samfélagsins.

Allir Íslendingar þekkja þess dæmi að fremur sé farið eftir ættartengslum en hæfni við ráðningar, og er þá alveg sama hvort um er að ræða störf í einkageiranum eða embætti innan stjórnsýslunnar. Þessi hagsmunagæsla hefur á vorum tímum víkkað út í hóp vina og kunningja. Gamla ættarsamfélagið er nú „kunningjasamfélag“.

Og skýrustu dæmin um fóstbræðralag nútímans er að finna í stjórnmálaflokkum. Þar eru flestir á sömu forsendum og forfeðurnir í fóstbræðralagi – hafa látið múra sig þar inni fyrir lífstíð: Einn fyrir alla og allir fyrir einn! Hinir innmúruðu þjappa sér saman um sameiginlega hagsmuni hvað sem á dynur, og því þéttar sem vitleysan og spillingin er meiri.

Þessi árátta hefur dafnað og blómstrað á gjörvöllu skeiði helmingaskiptaflokkanna. Sú nafngift – helmingaskiptaflokkarnir – segir eiginlega allt sem segja þarf. Að „vel meinandi fólk“ skuli leggja nafn sitt og trúnað við slíkan félagsskap er með fullkomnum ólíkindum – og verður ekki skýrt nema með því að fólk gangi undir einhverskonar jarðarmen, í anda fóstbræðralagsins til forna.

Í skjóli helmingaskiptaflokkanna hefur þannig þróast hér á landi það sem einn hinna innmúruðu kallaði réttnefninu „ógeðslegt þjóðfélag“.

Margskonar spillingar- og hneykslismál sem komið hafa upp á yfirborðið undanfarið ættu því engum að koma á óvart. Nýleg dæmi: Einhver óþverri var látinn renna með frárennslinu út í Eyjafjörð frá verksmiðju einni á Akureyri. Þungmálmamengaður áburður seldur bændum í tonnavís. Sorpbrennslur látnar spúa eitri yfir heilu byggðarlögin. Iðnaðarsaltið. Brjóstapúðarnir. Fjármála- og bankahneykslið!

Þegar spillingin er dregin fram í dagsljósið eru svörin þau, að þetta hafi nú allt verið vitað, en ekki talið taka því að skrúfa fyrir kranann, því þetta hafi viðgengist svo lengi! – og menn verði nú að fá að koma út birgðunum sínum! Lofað svo að gera þetta ekki aftur. Og varla þarf, í þessu samhengi, að rifja upp einu sinni enn stjórnvisku þeirra pólitíkusa sem færðu bankana í hendur reynslulausum gapuxum, vængstýfðu allt eftirlit með banka- og fjármálakerfinu, og lögðu svo niður þær stofnanir sem voguðu sér að benda á hættumerki eða bresti í ríkisfjármálastjórn þessara stórsnillinga?

Borin von er að þetta gamla, rotna kerfi geti tekið á málum af myndugleik, ekki fyrr en eftir langan tíma. „Jón í eftirlitinu“ er líklegast tengdur „Pétri verksmiðjustjóra“ eða „Gunnari sölumanni“, þó ekki væri nema að hann sé frændi Guðmundar sem er giftur Guðrúnu, dótturdóttur Jóhannesar langömmubróður Dísu, sem átti heima á númar 7, beint á móti Pétri sjálfum þegar hann var að alast upp um miðja síðustu öld. Eða að báðir eru múraðir inni – í sama sauðahúsinu! Nema hvort tveggja sé.

Það jákvæða við stöðuna er að helmingaskiptaflokkarnir hafa verið svældir út úr stjórnarráðinu. Í kjölfarið hefur sem betur fer allt fyrrnefnt – og ýmislegt fleira – komið fram í dagsljósið, þangað sem verður að draga það.

Og fráleitt er að við höfum sopið allt kálið. Hver fréttin af þessum toga mun reka aðra í fjölmiðlunum næstu misserin og árin, áður en öll kurl verða komin til grafar – því lengi lifir í gömlum glæðum.

Meira af Framsókn!

Framsóknarmenn, með þingmanninn Gunnar Braga í fararbroddi, hafa kvartað hástöfum undanfarið yfir því að þeir séu sniðgengnir í fjölmiðlum – aðallega undan RÚV, skilst mér. Gunnar hafi t.d. bara ekkert verið kallaður í Kastljósið og aðrir sniðgengnir líka. Þetta er auðvitað bagalegt, ekki síst eins og fjölmiðlun mun vera háttað nú til dags – bara ein stöð með eina rás – og möguleikarnir því litlir að koma sér á framfæri.

Enginn sækir sennilega heldur lummufundina hjá flokknum á laugardögum, þrátt fyrir Klingenberg og fleira áhugavert. Spurning hvort flokkurinn ætti ekki frekar að bjóða upp á glímusýningu og fánahyllingu til að draga að fólk?

Ég verð í hreinskilni sagt að lýsa yfir stuðningi við þessar umkvartanir Framsóknarmanna. Ég held að það yrði mjög jákvætt fyrir land og þjóð ef Framsóknarmenn væru sem mest í fjölmiðlum, ríkisútvarpinu sem öðrum. Því meira sem þjóðin fær af svo góðu, því betra.

Og megi frábærum þáttum málfarsfulltrúa þingflokksins fjölga sem mest í fjölmiðlum. Ég legg til að RÚV endursýni þá í hverri viku á besta tíma, t.d. í staðinn fyrir Landann eða aðra slíka „ömurlega“ þætti.

Að vaða elginn

Ég þurfti heldur betur að vaða elginn seinnipartinn í dag. Fór eftir vinnu að líta á blessaða klárana mína (sem stilla sér upp á myndinni hér að ofan). Aðeins var farið að rökkva og ekki mjög víðsýnt fyrir bragðið, en þegar sá yfir beitarhólfið blasti við ófögur sjón: Allt á floti! Árfarvegurinn bakkafullur af snjó og í leysingunum flæddi áin um allt – eins og úthaf yfir að líta (þó ekki láti hún mikið yfir sér hér á myndinni)! Og þeir hímdu uppi á skurðsruðningi, blessaðir kallarnir. Ekki var annað að gera en bruna heim aftur og sækja beisli og brauðmola.

Og svo var að vaða elginn – stígvélin týnd frá því í Kjalferðinni í sumar. Freyr (sá jarptvístjörnótti)  kom á móti mér þegar ég var kominn yfir hafið og upp á ruðninginn, þáði bæði brauðmolann og mélin með þökkum. Ekki þurfti að beisla fleiri, því Þokki (sá moldótti) áttaði sig strax og fetaði sig af stað í áttina upp að hliði. Það var hálfgert torleiði, hált á ruðningunum og á milli þeirra bunaði vatnselgur upp á miðjan legg  – ofan á svelli. En Þokki hélt ótrauður áfram og hinir í humátt á eftir. Við Freyr rákum svo lestina. Allir komumst við svo votir í lappirnar upp að hliði, en þá var seinni hlutinn eftir, að komast upp á veg og yfir á þurrt land í hólfi handan vegar.

Ég beislaði alla fimm og teymdi af stað. Flughált á slóðanum upp að brú en þetta hafðist. Handan brúar fossaði vatnið yfir vegarslóðann á 10 metra breiðum kafla. Spurning hvort við gætum fótað okkur í straumnum, á þessari líka glæru? Fetaði mig út í og fann fljótlega að sem betur fer var ísinn aðeins farinn að digna undan vatnsflaumnum og því ekki eins hált og ætla mátti. Allt gekk því vel og fyrr en varði vorum við komnir upp á bílveginn. Hliðið að hólfinu þar rétt handan og öllum því borgið.

Mikið óskaplega skynjar maður það vel við aðstæður sem þessar hve yfirburðagáfuð og traust skepna þetta er, íslenski hesturinn. Og þakklætið skein úr hreinlyndum augunum þegar ég kvaddi þessa ferðafélaga mína og bestu vini.