Fagurt er á fjöllum

Mynd

Efst á Hellisheiði,Á Hellisheiði10.0811
við heillandi sólarglit,
sit ég glaður á Seiði
með svolítinn kinnalit!

Trausti vinurinn teygar,
taktfast við lækjarhjal,
dýrustu veraldarveigar
-vatnið í fjallasal.

Fagurt er jafnan á fjöllum,
finn þar hinn tæra hljóm.
Anda, með vitunum öllum,
að mér þeim helgidóm.

Mér best á öræfum uni,
andinn mig þangað ber.
Finnst þar eins og að funi
frelsið innan í mér.

 

Gamlar hestavísur

Rakst á gamlar vísur sem ég orti um strákana mína og hestana þeirra. Myndirnar sem fylgja eru teknar á Landsmóti hestamanna í Reykjavík árið 2000, af Ragnari á Létti, í B-úrslitum í unglingaflokki, og af Ara á Þokka, fimm vetra gömlum, í keppni í barnaflokki. Léttir var glæsihestur, undan Gjálp, hinni landsfrægu kappreiðameri sem vann marga glæsta sigra á sínum tíma, og Galdri frá Laugarvatni. Hann  fór til Svíþjóðar og er þar með úr sögunni, blessaður. Þokki er undan Hlé frá Þóroddsstöðum, reiðhesti Margrétar hrossabónda þar, og Iðu frá Þorbergsstöðum, mikill uppáhaldshestur og snillingur sem þjónar enn heimilisfólki með miklum sóma, orðinn 17 vetra.

Ragnar og Léttir

Ragnar og Léttir

Töltið settur tifar nett,
taktur réttur undir.
Ragnar Létti langan sprett
leggur sléttar grundir.

 

 

Ari og Þokki

Á tölti hrokkinn liðar lokk,Ari.Þokki
léttast stokkið hefur.
Ara Þokki, fremst í flokk,
flugabrokkið gefur.

Læsi – undursamlegust allrar tækni

Tölur um bágt læsi íslenskra unglingspilta komust á dögunum í gegnum þéttriðið net fjölmiðlavaðalsins og vöktu athygli í samfélaginu. Sýndar voru í fréttum myndir úr einhverjum grunnskóla þar sem nemendurnir lásu bækurnar af spjaldtölvum, og voru ánægðir með það. Þar með var málinu lokið og önnur „mikilvægari“ tóku við í fréttatímunum. Því miður er skólamálaumræða fjölmiðlanna oftast bæði grunnhyggin og geld. Gjarnan nær hún ekki lengra en að samanburði á einstökum skólum út frá meðaleinkunnum á lokaprófi, oftast grunnskólaprófi eða stúdentsprófi. Og látið er við þann mælikvarða sitja, eins og málið sé þar með afgreitt fyrir fullt og allt: Sumir skólar eru góðir, aðrir slæmir.

Það er haft á orði að eitt sterkasta einkennið á Íslendingum birtist í frasanum: „Þetta reddast“! Í skjóli hans forsmái þjóðin langtímastefnumótun á flestum sviðum, en taki bara á hverjum vanda þegar hún fær hann í fangið – með átaki. „Þjóðarátak“ gegn þessu eða hinu. Hefur einhver heyrt það? Og Íslendingar virðast líka trúa því að „þetta reddist“ best með nýjustu græjum. Að þeim fengnum þurfi engar áhyggjur að hafa, alveg þar til tæknin færir okkur nýrri græjur. Þetta litar allt samfélagið, líka menntamálin og skólamálaumræðuna.

Hin aldagamla hefð og „bylting spjaldtölvunnar“

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis og fyrrum skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, telur að kennsla hafi lítið breyst síðustu aldir, í raun frá tímum Forn-Grikkja „þar sem hinn fróði stóð uppi á kassa og predikaði yfir hinum fáfróðu“ (Hjálmar Árnason, „Um spjaldtölvur og byltingar“, 16). Þessi aðferðafræði rímar illa, segir Hjálmar í grein sinni, við alla kennslufræði, lög og reglugerðir sem kveða á um að bjóða skuli nemendum einstaklingsmiðað nám.

En nú munu betri tímar í vændum. „Veldur þar mestu um ný tækni, netið í allri sinni dýrð, spjaldtölvur…“ (Hjálmar Árnason) og fleiri græjur og samskiptaleiðir sem gera það að verkum að hver og einn getur farið þá leið sem honum hentar að markmiðum námsins og nemendur eru „virkjaðir til að leita sér áhugaverðra leiða“ og gert kleift að „virkja hina skapandi hugsun til lærdómsins“. Þessi tækni „opnar stóra gátt að námsmarkmiðunum og leggur grunn að fjölbreytilegum leiðum hinna lærdómsfúsu“. Með því að nýta hana er hægt að virkja „kraft og áræði fróðleiksfúsra til að finna hver um sig þær keldur sem svala“ (Hjálmar Árnason). Hjálmar rekur svo nokkur dæmi um krarftaverk tækninnar í útlöndum: „Í öðrum skóla náðu rúm 90% nemenda sem notuðu spjaldtölvur en aðeins um 65% þeirra sem voru látin hanga í gömlu aðferðunum“. Og niðurstaða þessa reynslumikla skólamanns er einföld og skýr: „Þetta er einfaldlega svarið við hinni almennt viðurkenndu leið allra fræðikenninga og laga um lærdóm: að sérhverjum einstaklingi skuli sinna við hæfi hvers og eins“ (Hjálmar Árnason).

Rétt er að taka undir hvert orð Hjálmars um einstaklingsmiðað nám, fjölbreytni námsefnis og kennsluhátta, mikilvægi áhugaverðra leiða og skapandi hugsunar. En þegar kemur að trú míns gamla meistara á að ný tækni muni leysa allan vanda innan skólakerfisins, þá viðurkenni ég að renni á mig tvær grímur. Reyndar er rétt ég í upphafi dragi fram og undirstriki hér tvö lykilorð í grein hans: lærdómsfúsir og fróðleiksfúsir. Hinir lærdóms- og fróðleiksfúsu munu nefnilega hér eftir sem hingað til halda ótrauðir áfram að markmiðum sínum, þrátt fyrir skólakerfið sem þeir búa við. Ný tækni mun vissulega veita þeim aukin og fjölbreyttari tækifæri, auðga nám þeirra og líf. Hinum, sem hvorki myndu teljast fróðleiks- né lærdómsfúsir, mun ný tækni ein og sér ekki bjarga. Ný tækni mun hinsvegar auka bilið milli þeirra sjálfviljugu og hinna bágræku og, í fyllingu tímans, auka stéttaskiptingu í samfélaginu – ef ekki er tekið á rót vandans.

Allan minn starfsaldur í skólakerfinu, nánast óslitið síðan 1983, hefur megináhersla löggjafans verið á það að auka fjölbreytni í námsframboði og kennsluháttum til að koma til móts við mismunandi þarfir, áhuga og getu nemenda. Þetta hefur auðvitað, eins og Hjálmar bendir réttilega á, ekkert gengið snuðrulaust fyrir sig því „hin aldagamla hefð gegnsýrir allt kerfið. Hinn fróði predikar yfir hinum vankunnandi.“

En staðreyndin er sú að byltingin sem Hjálmar Árnason telur nú að verði „í kennsluheiminum“ með spjaldtölvum er í raun og veru gengin yfir. Á árunum fyrir og um síðustu aldamót var þessi „bylting“ gerð. Hún hét tölvuvæðing. Framhaldsskólar voru tölvuvæddir. Internet og innra net. Nemendur fengu fartölvur í hendurnar. Markmiðið með því var þá nákvæmlega það sama, og trúin á undur tækninnar jafn heit og trú Hjálmars nú á undur spjaldtölvunnar. Nemendur myndu glaðir og frjálsir, bæði lærdóms- og fróðleiksfúsir, sökkva sér í og teyga þekkingu og þroska úr lindum alheimsins á Netinu, hver auðvitað á eigin forsendum og hraða, eftir þeim leiðum sem honum best hentaði í áttina að göfugu markmiði um minna brottfall, gæfuríka menntun, innihaldsríkara líf, upplýstara lýðræði – betra samfélag.

Þessi draumsýn hefur ekki ræst og mun ekki heldur rætast með því að spjaldtölvuvæða skólakerfið. Málið er ekki svo einfalt.

Undursamlegust allrar tækni

Til þess að draumsýnin hér að ofan geti ræst kemur ákveðin tækni vissulega við sögu. Sú tækni hefur ekkert með „græjur“, eins og fartölvur eða spjaldtölvur, að gera. Hvort sem nemandi, sem ætlar að læra eitthvað, hefur í höndum hefðbundna bók eða tölvu með aðgangi að svokölluðum upplýsingaveitum á rafrænu formi, á Netinu, þarf hann að vera læs. Læsi er grundvallaratriðið, ekki tækið (bók, tölva, …) sem veitir aðgang að upplýsingunum.

Nemendur mínir, sem eru fluglæsir og lærdómsfúsir, drekka í sig eins og ekkert sé hverja gamaldags kennslubókina á fætur annarri. Löng saga, eins og t.d. Njála, er þeim hreinasti svaladrykkur. Þessir nemendur mennta sig, í besta skilningi orðsins, án minnstu vandræða með eingöngu pappírinn og prentsvertuna að vopni. Nemendum í sama námshópi, sem eru illa eða ólæsir, dugar hvorki að hafa fartölvur eða spjaldtölvur né nýjustu útgáfur af öllum forritum, til að halda í við hina. Fartölvurnar, spjaldtölvurnar og öflugustu forritin duga heldur hvergi til þess að kveikja lærdómsfýsn, sé hún ekki til staðar. Því miður. Skiptir þá engu hvort viðkomandi er læs eða ólæs. Þar eru einhverjir aðrir kraftar að verki en skortur á tækninýjungum.

Því miður lýkur of stór hópur nemenda 10 ára grunnskólanámi án þess að geta talist læs. Eigum við, samfélagið, að sætta okkur við það? Hvað blasir við honum í framhaldsskólunum, þar sem ætlunin hlýtur að vera að stefna frekar upp á við, kenna eitthvað nýtt, fara dýpra í efnið, auka þroska, bæta við þekkingu – klífa fjall fremur en að lötra um flatlendið? Eru allir – foreldrar, skólafólk, sérfræðingar, stjórnmálamenn – örugglega meðvitaðir um það hve stór hluti af veröldinni er tekinn frá ólæsum nemanda? Ef svo er, hvers vegna hefur ólæsi við lok grunnskóla ekki verið upprætt?

Vissulega munu „læsir“ nýta sér hverja tækninýjung sér til framdráttar, en er það forgangsverkefni að henda einu sinni enn í nemendur nýjustu græjum, með tilheyrandi gríðarlegum kostnaði? Getur verið að það sé mikilvægara að nýta fjármunina, sem munu vera takmarkaðir, til að reyna að tryggja með öllum ráðum að enginn nemandi ljúki grunnskóla án þess að hafa náð að minnsta kosti góðum tökum á lestrartækninni?

Læsið í öndvegi – „…ekki verður undan því vikist…“

Í nýjustu menntastefnu stjórnvalda, bæði lögum og aðalnámskrám, er læsi sett í öndvegi, ásamt þessum lykilhugtökum: jafnrétti, lýðræði, menntun til sjálfbærni og skapandi starfi. Félagsvísindastofnun HÍ tók út lestrarkennslu í 10 grunnskólum skólaárið 2008-9 fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þar kom meðal annars fram að markvissri lestrarkennslu er hætt allt of snemma í grunnskólum, og það bitnar auðvitað harðast á þeim sem síst skyldi – nemendum sem eiga í erfiðleikum í upphafi lestrarnáms (Katrín Jakobsdóttir, 2010, „Læsi sett í öndvegi í nýrri menntastefnu“, 7). Skipulögð lestrarkennsla virðist, skv. úttektinni, gufa upp að mestu eftir 3. bekk grunnskólans, þegar börnin eru að verða 10 ára gömul! Í kjölfarið skipaði ráðuneytið starfshóp til að „fylgja úttektinni eftir og einnig að skilgreina lestur í víðum skilningi og læsi sem eina af grunnstoðum í menntakerfinu“ (Katrín Jakobsdóttir, 7). En læsi er fleira en að kveða að. Fyrrnefndur starfshópur skilgreinir það svona: „„Í læsi felst að búa yfir þekkingu og leikni til að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla texta til að mæta kröfum samfélagsins og einstaklingsins. Með texta er átt við ritmál, myndmál, talmál og önnur kerfi tákna““ (Katrín Jakobsdóttir, 7). Allir sjá að langur vegur er frá því læsi að stauta sig í gegnum Gagn og gaman og að þessari „djúpu“ skilgreiningu ráðuneytishópsins.

Þó lesskilningur íslenskra nemenda komi betur út í PISA könnun 2009 en sambærilegum könnunum fram að því (Katrín Jakobsdóttir, 6) er ljóst að betur má ef duga skal. Og spjaldtölvur munu ekki ríða þann baggamun. Lestrarnámið mun hér eftir sem hingað til „vera grundvallarforsenda í öllu skólanámi“ (Katrín Jakobsdóttir, 7) og læsið „er svo mikilvægur þáttur í lífi einstaklings að ekki verður undan því vikist að vinna eins vel og unnt er að því að efla það og bæta“ (Guðmundur B. Kristmundsson, „Molar um læsi“, 9).

Mikilvægt er að allir átti sig á því að hér er um að ræða alvarlegt mál. Það varðar ekki aðeins líf, heill og hamingju hvers einstaklings heldur grundvöll mannlegs samfélags. Ef hluti samfélagsins er ólæs, hvort sem er í hinni þrengstu skilgreiningu hugtaksins eða þeirri sem starfshópur ráðuneytisins setti fram, er tómt mál að tala um „opið og gagnsætt samfélag“, hvað þá raunverulegt „lýðræðissamfélag“. Því „verður ekki undan því vikist“ að kenna öllum að lesa og gera hverjum og einum grein fyrir því „að læsi er eitthvað sem hann getur þroskað og eflt og það er hans eign sem ekki verður með nokkru móti af honum tekin“ (Guðmundur B. Kristmundsson, 10).

Skyndilausnir og græjur?

Skyndilausnir eins og fyrrnefndar tækninýjungar, og oftrú á að þær leysi af sjáfum sér einhvern vanda, eru skaðlegar. Til þess að tæknin nýtist öllum, helst sem jafnast, á leið sinni til þroska verður að byggja traustan grunn. Sá grunnur er læsi. Nú eru of margir nemendur illa eða ólæsir í skólakerfinu, hvort sem er grunnskólum eða framhaldsskólum. Það er óviðunandi. Illa eða ólæsum nemendum gagnast ekki aukin fjölbreytni í kennsluaðferðum eða námsframboði. Fleiri og fleiri námsleiðir geta á hinn bóginn sett strik í reikninginn og leitt athyglina frá því eina sem máli skiptir fyrir nemendur í þessari stöðu: að þeim sé kennt að lesa.

Aukinn aðgangur að upplýsingum, og sífellt fjölskrúðugri og öflugri tækni, gerir líka auknar kröfur til skólakerfisins. Það er ekki nóg að kunna að lesa gullaldarbókmenntir sem valdar eru fyrir nemendur, og að þeim réttar við fyrirfram ákveðin tækifæri. Krafan um að nemendur séu færir um „að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla“ margfaldast, því margt býr í netþokunni.

Þessar vangaveltur má enginn skilja sem svo að tækni sé einhver djöfull sem beri að forðast eins og heitan eldinn. Aðeins varúðarorð gegn því að okkar ágæta skyndilausna- og græjuóða þjóð fari á hvolf yfir því að komnar séu á markað spjaldtölvur, og gleymi kjarna málsins í gleðinni.

Bókin blífur

Bækur hafa í gegnum tíðina verið grundvöllur menntunar. Þeir sem hafa haft aðgang að bókum, og getað lesið þær, hafa fengið í kaupbæti forskot að sælunni. Og bókin blífur, ekki bara þessi úr pappír og prentsvertu heldur er „rafbókin“ nú komin til að vera. „Helsti kostur rafbóka fram yfir prentuðu bókina er að lesandinn stjórnar lestrarupplifuninni. Lesandinn getur aðlagað rafbókina að sínum þörfum með því að stjórna stærð texta, leturgerð, lit texta og bakgrunns og getur stækkað og minnkað myndir. Þetta eru dýrmætir möguleikar sem veita ýmsum hópum svo sem lesblindum, sjóndöprum og blindum aukið aðgengi að bókum“ (Óskar Þór Þráinsson, „Rafbækur í skólastarfi“).

Rafbækur er hægt að lesa nánast í hvaða tæki sem er. Það þarf ekki að kaupa sér nýja spjaldtölvu eða i-Pad eða sérhönnuð lestæki, eða hvað allar græjurnar nú heita. Gamla fartölvan í skólatöskunni og borðtölvan heima eða á bókasafninu duga í flestum tilvikum (Óskar Þór Þráinsson).

Tækniframfarir gagnast lítið ólæsum

„Það er næsta víst“ að þessir fyrrnefndu eiginleikar rafbóka koma til með að hjálpa til við lestrarkennslu og þær munu auka aðgengi að hverskyns lesmáli. Fátt „gefur manni meira en að lesa góðan texta sér til ánægju og fróðleiks. Í heimi bókmenntanna er falin mikil viska og fegurð“ (Katrín Jakobsdóttir, 7) en þeirri fegurð og visku verða illa og ólæsir af. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að senda börnin ólæs upp í framhaldsskólana og svipta þau þannig stórkostlegum lífsgæðum – taka frá þeim hálfan heiminn, ef ekki meira. „Gott og traust læsi þjóðar er auður sem ekki verður metinn til fjár en Ísland verður metið í samfélagi þjóðanna meðal annars út frá stöðu þess“ (Guðmundur B. Kristmundsson, 11).

Græjur og tækni eru vissulega til síns brúks en gleymum því aldrei að aukið aðgengi að upplýsingum og lesmáli (í hvaða mynd sem er) gagnast aðeins læsum.

 

Heimildir

Guðmundur B. Kristmundsson. 2010. „Molar um læsi“. Skíma. Málgagn móðurmálskennara, 33, 2: 8-11. Ritstjóri Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Samtök móðurmálskennara, Reykjavík.

Hjálmar Árnason. 2012. „Um spjaldtölvur og byltingar“. Fréttablaðið, 2. apríl, bls. 16.

Katrín Jakobsdóttir. 2010. „Læsi sett í öndvegi í nýrri menntastefnu“. Skíma. Málgagn
móðurmálskennara, 33, 2: 6-7. Ritstjóri Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Samtök
móðurmálskennara, Reykjavík.

Óskar Þór Þráinsson. 2012. „Rafbækur í skólastarfi“. Fréttablaðið, 3. apríl, bls. 24.

Sproti

Meðfylgjandi mynd sendi Hreinn bróðir af Sprota sínum, syni Spátu (dóttur Galdurs og Spár) og Þórodds. Þarna er folinn á frumstigi tamningar og leynir sér ekki mýktin í spori og glæsileikinn í framgöngu. Sendi honum eina vísu:

Prúður gengur folinn frjáls
fögrum litnum skartar.
Með vind í faxi vefur háls,
vonir kveikir bjartar.

Í krapasulli

Magnús Halldórsson, hestamaður og hagyrðingur á Hvolsvelli, sendi mér meðfylgjandi mynd af sér á Stuðli sínum með fyrirsöginni: Gamall maður á ágætum hesti. Sagðist hafa verið á útreiðum í krapasulli, sem þó væri óvanaleg færð á þeim slóðum.Magnús og Stuðull í flugtaki

Ég sendi honum þessa vísu til baka:

Í krapasulli karlinn gamli
keyrir ljóðastaf.
Flugtak nálgast, helst að hamli
að hettan fýkur af.

Magnús svaraði um hæl:

Hæðum andans helst ég næ,
huga minn þá næri.
Ef ljóðstafina letrað fæ,
á listilegu færi.

Félagshegðun í dýraríkinu

Ég gerði mér ferð á laugardaginn í hrossarag. Ætlunin var að taka á hús eitt hross, leirljósa meri stjörnótta, ágætt hross á besta aldri, sem er geld þetta árið. Einnig stefndi ég að því að taka elstu klárana mína þrjá og færa þá á betri haga. Með mér í för var Jasmín, dótturdóttir á 13. ári sem er útsett fyrir hestabakteríunni – og dvaldi hjá ömmu og afa á Selfossi yfir helgina. Og hundtíkin Þula var aftur í skotti, gríðarlega spennt.

Við komum á staðinn og köllum í klárana, sem koma „med det samme“, þiggja brauðbita og múl, og elta viljugir upp á kerru. Þeir eru allir í gullfallegu standi. Þá er að færa sig í næsta hólf, þar sem eru nokkur hross í heyi, m.a. sú leirljósa og fylfull hryssa jarpnösótt, við Þóroddi, hvorki meira né minna. Einnig eru þar tveir klárar sem ég hef nýlega tekið á gjöf og ein þrjú hross önnur, í annarra eigu.

Við Jasmín veifum brauðpokanum og allt hópast í kringum okkur. Ljósbrá, sú leirljósa, lætur leggja við sig án vandræða og teyma upp á kerru viðstöðulaust. Allt er þetta nú alveg yndislegt!

En Galdurssynirnir og albræðurnir Freyr og Þeyr, tiltölulega nýkomnir í hópinn, halda sig í óeðlilegri fjarlægð. Af hverju koma þeir ekki í brauðið? Við röltum af stað til þeirra með plastpokann á lofti og þeir átta sig strax, reisa háls og sperra eyru. En koma ekki á móti okkur. Þegar við erum komin vel hálfa leið til þeirra, gerist það óvænta að þeir hörfa á brott, sveiflandi tagli. Ég botna ekkert í þessu!

En svo átta ég mig. Kemur ekki kvikindi brúnt á fullum spretti fram úr okkur, með hausinn teygðan fram og eyrun límd aftur og hjólar í blessaða klárana mína! Það er alveg eins og þetta illfygli hafi nýlega verið hrakið úr Seðlabankanum, svo illskeytt er það. Hefur auðvitað varið, bæði með kjafti og hófum, helstu gæðin – heyrúlluna – til einkanota fyrir sína nánustu klíku, og lagt á sig langa spretti til að bíta aðra og berja frá, halda þeim tryggilega „utangarðs“.

Ég sé að engra annarra kosta er völ en að forða reiðhestunum mínum úr þessu mötuneyti, en þarf fyrst að fara eina ferð með fulla kerruna. Þegar við Jasmín komum aftur þarf að hrekja þann brúna í örugga fjarlægð áður en klárarnir stillast, svo hægt sé að leggja við þá. Þar sem ég teymi þá í áttina að kerrunni, kemur þá ekki meinhornið einn ganginn enn á fullum spretti! Hvílík heift og langrækni!

Og ég ákveð að forða þeirri fylfullu burtu líka. Þó hún sé í náðinni í augnablikinu er aldrei að vita hvað gerist þegar hún kastar og ég kæri mig ekki um að eiga það á hættu að láta slasa eða drepa fyrir mér folaldið, þegar þar að kemur.

Ólafur Ragnar kippir í liðinn

Ekki varð ég jafn sannspár um stórlyndi forsetans og ég hefði kosið. Þegar til kom var þetta allt saman ein leikflétta og farsi – sjónarspil af verstu gerð, eins og fjölmargir höfðu bent á, og maður vissi svo sem undir niðri, þó vonin um eitthvað stórmannlegra hefði vissulega blundað þar líka. Og nú vonar Ólafur Ragnar að…

„þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda“.

Úrslitin eru sem sagt ráðin. Það er búið að kjósa manninn einu sinni enn. Þá þarf heldur ekkert að vera að henda peningum í rándýrar kosningar, sem er óneitanlega jákvætt á þessum síðustu og verstu tímum.

En það er önnur saga. Áhugaverðari sögu má lesa út úr tilvitnuninni hér að ofan:

1) Stjórnskipan landsins verður óstöðug ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og hættir svo. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

2) Stjórnarfar á Íslandi verður óstöðugt áfram ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og stígur svo til hliðar. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

3) Staða Íslands í samfélagi þjóðanna verður óviss og óskýr ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn á næstu 2-3 árum en snýr sér svo að því að bjarga öðrum brýnum vandamálum heimsbyggðarinnar. Af nógu er víst að taka.

Svona lítur Ólafur Ragnar Grímsson á málin. Hroki? Nei, nei. Þetta sjá nú allir, ekki satt?

Ólafur Ragnar er búinn að sitja í embætti forseta Íslands í tæp 16 ár. Á þeim tíma hefur honum verið einkar lagið að skapa sundrung og óvissu um stjórnskipan og stjórnarfar og staða Íslands hefur sennilega aldrei verið óskýrari í samfélagi þjóðanna, eða meira efast um íslenskt þjóðfélag frá stofnun lýðveldisins en einmitt um þessar mundir. Nú ætlar hann að kippa þessu í liðinn á hálfu kjörtímabili eða svo. Þá er óhætt að boða til forsetakosninga á ný og hleypa að einhverju meðalmenninu, enda allur vandi leystur og engin verkefni eftir til að sinna, nema helst að veifa lýðnum af svölunum. Þetta ætlar hann að leggja á sig, bara fyrir okkur – af því við höfum grátbeðið hann um það, með bænaskjölum þegar ekki vildi betur til.

En af hverju var hann ekki löngu búinn að þessu öllu saman? Það á ég bágt með að skilja.

Aumingja forsetinn

Nú hefur kaleik verið troðið upp í andlitið á forseta vorum – kaleik sem hann kærir sig ekkert um að súpa af. Flokkur manna, með Guðna Ágústsson í broddi fylkingar, hefur safnað undirskriftum 30.000 kjósenda til að hvetja Ólaf Ragnar til að bjóða sig fram enn einn ganginn – í fimmta sinn.

Þrátt fyrir mjög afdráttarlausar yfirlýsingar í nýársræðu sinni um að hann ætlaði að láta staðar numið í þessu embætti, sér flokkur manna sér leik á borði að hvetja Ólaf til dáða – eingöngu til að þjóna þröngum pólitískum hagsmunum, þ.e.a.s. andstöðu gegn inngöngu í Evrópusambandið. Með þessu athæfi er forsetaembættið dregið fram á hið pólitíska svið sem aldrei fyrr – og fannst sumum þó orðið nóg komið af svo góðu.

Óskiljanlegur fjölmiðlafarsi hefur gengið fyrir fullu húsi sl. tvo mánuði um það hvort forsetinn hafi sagt í nýársávarpinu hvort hann hygðist hætta eða halda áfram í embætti – eða hvort hann hafi sagt þetta nógu skýrt – eða að hann hafi „skilið eftir glufu“ fyrir einn eða annan skilning á því hvað hann sagði.

Ræða forsetans um þetta efni var þegar allt kemur til alls alveg kýrskýr. Hann sagðist ætla að hætta.

Ég var sjálfur á tímabili ekki viss um það hvort Ólafur ætlaði að hætta eða halda áfram. Það var bara ein ástæða fyrir þessari óvissu minni: Ég nennti ekki að hlusta á nýársræðuna. Fjölmiðlafarsann komst ég ekki hjá því að heyra og sjá. En þegar betur var að gáð var engin leið að vera í nokkrum vafa um þetta.

Þeir sem fram á þennan dag hafa haldið því fram að vafi léki á fyrirætlunum forsetans hafa, eins og ég, greinilega ekkert hlustað á ræðuna, og gera honum því í skjóli fáfræði, misskilnings og pólitískra flokkadrátta þennan ógurlega óleik sem við blasti á Bessastöðum í dag. Ólafur Ragnar kunni ekki við það að gera allan þennan sjálfumglaða flokk afturreka fyrir framan myndavélarnar, af eintómri kurteisi og tillitssemi, enda þarna á ferðinni margir þungavigtarmenn.

Hann mun svo endurtaka fyrri yfirlýsingar sínar seinna í þessari viku, eða þeirri næstu, því fjölskyldan hefur þegar gert margskonar ráðstafanir og hafið undirbúning að nýju lífi.

Og þá verður Guðni Ágústsson bara að berjast gegn inngöngu í ESB með eigin verðleika að vopni, þó hann hafi ekki treyst þeim hingað til.

Normalísering siðblindunnar

Einhvern veginn stend ég í þeirri trú að í íslenskum lögum (jafnvel í stjórnarskránni, eða hvað?) séu greinar um jafnrétti: jafnrétti allra þegna þjóðfélagsins burtséð frá kyni, húðlit, kynhneigð, trú, heilsufari, skoðunum eða stöðu að öðru leyti. Ef þetta er misskilningur hjá mér ættu þar alla vega að vera slík ákvæði.

Í þessum pappírum trúi ég líka séu ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi: að allir þegnar séu frjálsir að skoðunum sínum og að tjá sig um þær.

En jafnréttisákvæðin fela í sér fleira en bara það að þegnarnir hafi jafnan rétt til að vera karlar og konur, eða að vera svartir, gulir, hvítir, rauðir, bláir eða grænir á hörund, sam-, gagn- eða tvíkynhneigðir, haltir eða óhaltir, blindir eða sjáandi, heyrnarlausir eða heyrandi, sjúkir eða heilsuhraustir, kristnir, múslimar, ásatrúar, búddistar eða trúlausir, kommar, kratar, þjóðrembingar eða íhald, frjálslyndir eða afturhald, að þeir megi vera litlir eða stórir, feitir eða mjóir, ríkir eða fátækir, hærðir eða sköllóttir, dökkhærðir, rauðhærðir eða ljóshærðir.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér fyrst og fremst að fólk geti fengið að vera allt þetta, eins og það er skapað, í friði og spekt, geti lifað hamingjusömu lífi í sjálfu sér, hvernig svo sem það er saman sett af ofangreindum eiginleikum, eða óteljandi öðrum eiginleikum og einkennum hér ónefndum.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér að árásir og svívirðingar, meiðandi yfirlýsingar um fólk vegna einhverra eiginleika þess, eru lögbrot – og það sem verra er: siðrof.

Þeir sem ráðast að fólki með svívirðingum vegna húðlitar þess eða kynhneigðar, svo dæmi séu tekin, brjóta með hegðun sinni ekki bara lög, heldur þann siðferðisgrundvöll sem við hér (og víða annarsstaðar) höfum komið okkur saman um að byggja samfélagið á. Þetta samkomulag er skynsamlegt, því það stuðlar að friði og sátt en vinnur gegn árekstrum, átökum og ófriði. Stuðlar að velsæld og hamingju en vinnur gegn heift og vanlíðan. Andi þessa samkomulags hefur einna best verið orðaður á þenna hátt: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“.

Sem sagt: Allir eiga skilyrðislausan rétt til þess að „vera þeir sjálfir“ og þroska hæfileika sína og hamingju á eigin forsendum. Þessi réttur gengur lengra en tjáningarfrelsið. Tjáningarfrelsið er nefnilega háð siðferðismörkum. Þeir sem misnota tjáningarfrelsið með því að svívirða fólk vegna húðlitar þess, kynhneigðar, fötlunar, trúar, útlits eða skoðana eru svíðingar.

Meira að segja í knattspyrnuheiminum, þar sem „frumskógarlögmálið“ og peningagræðgin er hvað mest áberandi í veröldinni, er tekið á kynþáttaníði með keppnisbanni og sektum. Dettur nú einhverjum í hug að þar ráði ferðinni árásir Samfylkingarinnar á tjáningarfrelsið?

Þegar við hugsum um og metum yfirlýsingar Snorra Óskarssonar (og skoðanasystkina hans) skulum við hafa þetta í huga. Þá er okkur einnig hollt að leita í þjóðararfinn og minnast visku Þorgeirs Ljósvetningagoða: „Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni, ef eigi hafa ein lög allir, en ef sundur er skipt lögunum, þá mun sundur skipt friðinum, og mun eigi við það mega búa.“ Og Þorgeir felldi sinn úrskurð, eins og kunnugt er, en rak aftan við úrskurðinn þann varnagla, að „ef leynilega er með farið, þá skal vera vítislaust.“

Skoðanir sínar um samkynhneigð verður Snorri Óskarsson að fá að hafa í friði, og ef hann fer leynilega með þær „skal vera vítislaust“. En opinberar svívirðingar hans mega aldrei verða vítislausar, því með þeim er sundur skipt friðinum. Með þeim særir hann fjölda einstaklinga, veldur kvíða og vanlíðan, ekki síst meðal „umbjóðenda“ sinna, barna og óharðnaðra unglinga. Með yfirlýsingum sínum ofbýður Snorri samborgurum sínum og gerist svíðingur.

Ef þjóðfélagið ætlar að láta framferði af þessu tagi viðgangast þá er verið að normalisera svíðingshátt. Látum það ekki henda, því þetta mál hefur ekkert að gera með tjáningarfrelsið, heldur aðeins heilagan rétt hvers einstaklings til að vera sáttur í sjálfum sér, og laus við svívirðingar annarra.

Og yfirlýsingar Árna Johnsen um annað eru aðeins enn ein staðfestingin á því að kjósendur hans hafa normaliserað yfirgang, eiginhagsmunapot og siðblindu.

 

 

Af kabússi

Jón Hreggviðsson var á miðjum slætti boðaður til sýslumanns út á Skaga og dæmdur þar til að greiða þrjá ríkisdali, en þola húðstrýkingu ella, fyrir að hafa móðga kónginn með orðaspjátri, í eyru hans majestets bífalníngsmanns og prófoss, Sigurðar Snorrasonar, um að sú allrahæsta tign hefði tekið sér þrjár frillur utan hjónabands. Þar sem Jón hirti lítt um að lúka sekt sinni við kóng var hann hýddur á þingi í Kjalardal um haustið, 24 vandarhöggum.

Að þingi loknu fóru sýslumaður, böðull, sakborningur og þingvitnin saman heim á leið, en þar sem sumir áttu töluvert langt að fara, og mjög leið nú á dag, bauð þingvitnið signor Bendix Jónsson föruneytinu öllu heim til sín í Galtarholt. Á þessum tíma var ekki búið að finna upp kvikmyndatæknina, og því gátu þeir strákarnir ekki skroppið saman í bíó, en gripu til þess er nærtækara var: að detta íða saman. „Gleymdust mönnum fljótt dagleg mótgángsefni, en tókst alsherjar fóstbræðralag með mönnum, handsöl og faðmlög. Kóngsins böðull lagðist á gólfið og kysti fætur Jóns Hreggviðssonar grátandi meðan bóndinn sveiflaði bikarnum sýngjandi“.

Til að forðast allan misskilning, og forfeðrum okkar til afbötunar, er rétt að undirstrika það skilmerkilega að þetta „strákakvöld“ og hópefli átti sér stað EFTIR að bæði dómur féll og refsing var að fullu út tekin. Nú eru hins vegar breyttir tímar.

Gestirnir riðu ofurölvi úr gleðskapnum í næturmyrkinu, villtust í fúamýri og voru hætt komnir í torfgröfum – týndu hverjir öðrum og sofnuðu á víð og dreif fjötraðir fjöðrum óminnishegrans. Jón Hreggviðsson vakti upp í Galtarholti í dagrenningu, ríðandi hesti böðulsins og með kabúss hans á höfði, enda vaknaði Jón berhöfðaður og merin týnd. Við rannsókn kom í ljós að böðullinn hafði sofnað í mýrarsprænu, stíflað hana liggjandi á fjórum fótum í skorningnum og drukknað í uppistöðulóninu sem hinn umfangsmikli skrokkur hans myndaði.

En hattur böðulsins var sem sagt á röngu höfði – og varð eitt helsta sönnunargagnið þegar Jón bóndi var dæmdur fyrir morð.

Össur Skarphéðinsson vísaði í þessa frásögn Íslandsklukkunnar í svari sínu til Vigdísar Hauksdóttur, sem aldrei þreytist á að spyrja um hin mörgu og lævísu samsæri Evrópusambandsins. Össur sagði Vigdísi með fyrirspurn sinni setja rangan hatt á ráðuneytið, þ.e.a.s. hafa það fyrir rangri sök.

Væri það ekki guðsþakkarvert ef þingmenn gætu beitt vísunum og öðrum mælskubrögðum í umræðum á þingi, dýpkað þannig málflutning sinn og gert hann fyrir vikið að einhverju leyti bærilegan áheyrnar? Því miður eru bara örfáir þingmenn færir um þetta, flestir eru alveg sljóir þegar kemur að töfrum ræðumennsku og mælskulistar: einhverjir ná sér helst á strik í málþófi, með flissi og fábjánahætti, aðrir sitja allan sinn feril fastir í Morfís-stílnum. Enn aðrir reyna sitt besta – en það kemur bara allt öfugt út úr þeim, því miður.

Þegar Siv Friðleifsdóttir tekur þetta mál upp í þinginu, segir Össur með svari sínu gera bæði grín að Vigdísi og lítið úr henni, og vill meira að segja koma því á dagskrá forsætisnefndar, þá er ekki hægt að skilja Siv öðru vísi en að henni finnist það ósæmilegt að beita myndmáli eða tala í líkingum og vísunum við fólk sem er ófært um að skilja annan málflutning en þann sem liggur allur á yfirborðinu.

Þetta er auðvitað alveg rétt hjá Siv – vísanir koma að engu gagni nema þegar hvort tveggja er til staðar: annars vegar að vísað sé í sameiginlegan þekkingargrunn og hinsvegar að yfirfærsla eigi sér stað – að viðkomandi sjái hliðstæðurnar milli þess veruleika sem hann er staddur í og þeirra aðstæðna sem vísað er í. Og það er líka rétt hjá Siv að það er ekki beinlínis stórmannlegt að beita mælskubrögðum, þó einföld séu, í samræðum við fólk sem maður veit fyrirfram að hefur ekki nauðsynlegar forsendur til skilnings. Það er náttúrlega bara ljótt.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst ótrúlegt að þetta eigi við Vigdísi Hauksdóttur, jafnvel þó bögglist uppi í henni orðatiltækin. En auðvitað er Siv dómbærari á þetta en ég. Hún hefði samt getað látið vera að draga þetta svona fram.

Hins vegar mætti alveg spyrja Össur – sem óneitanlega ber nokkuð hvolpana – varðandi opnun þessarar Evrópustofu, hvort hann hafi bréf upp á það?

Ég er nokkuð viss um að Össur myndi alveg skilja spurninguna – og líka sneiðina sem í henni er fólgin, án þess þó að fara að væla um lítillækkun í sinn garð.