Bilað, illa farið og ógangfært

Eins og þeir vita sem lesið hafa er Bændablaðið einhver frjóasti og öflugasti vettvangur frjálsra, opinna skoðanaskipta á íslenskum fjölmiðlamarkaði: þar eiga allar skoðanir skjól og vísan aðgang – enda skilja útgefendurnir að engin önnur fær leið er að heilbrigðum rökræðum um landsins gagn og nauðsynjar og upplýstri skoðanamyndun.

Og Bændablaðið sinnir einnig öllum þörfum hins venjulega Íslendings um skemmtun, enda verður að fylgja allri alvöru nokkurt gaman.

Það er í smáauglýsingunum í blaðinu sem húmorinn blómstrar, enda nánast jafngamalt erfðasyndinni það skemmtiatriði á þorrablótum að lesa upp smáauglýsingar. Þegar ég komst í síðasta tölublað fletti ég því beint á bls. 39, þar sem lítillætið skín úr hverju orði:

Einn „…vill kaupa útrunnin hlutabréf og víxla…“
Annar óskar eftir „að kaupa kartöflukálstætara…Má vera illa farinn.“
Sá þriðji óskar „eftir brunndælu eða skádælu. Má vera biluð og léleg“.
Einhverjir eru að „leita að vörubíl…Má vera ógangfær“ og aðrir vilja „kaupa dráttarvél“ sem má „þarfnast viðgerðar“.
Svo vantar líka „bilaðan bíl af sömu sort“.

Það hefur aldrei verið talin dyggð til sveita á Íslandi að setja sig á háan hest: Hátt hreykir heimskur sér, segja menn og gera bara sínar hógværu kröfur við innkaupin.

 

Ný Ölfusárbrú: Suður eða norður – eða niður?

Í Selfossi-Suðurlandi þann 6. september sl. var fréttaskýring um fyrirhugað nýtt brúarstæði á Ölfuá. Fréttaskýringin var því ánægjulegri að hún er fásén, hálfgert nývirki í fréttamiðlunum í héraðinu. Þar kemur fram að brúarstæði og aðliggjandi vegur um Efri-Laugardælaeyju hafi verið á aðalskipulagi frá því árið 1970, eða í meira en 40 ár. Gera má ráð fyrir að sveitarstjórn á þeim tíma hafi samþykkt aðalskipulagið að loknum ítarlegum umræðum um álitsgerðir sérfróðra á ýmsum sviðum, kosti þeirra og galla.

Nýtt aðalskipulag byggt á íbúaþingum

Á kjörtímabili Bæjarstjórnar Árborgar 2002-2006 var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, fjóra þá nýlega sameinaða hreppa. Með þessu hinu fyrsta aðalskipulagi Sveitarfélagsins Árborgar, var brotið blað á ýmsan hátt. Allt skipulagið var grundvallað á fjórum íbúaþingum, einu í hverri hinni aflögðu „stjórnsýslueiningu“. Lögð var áhersla á frjálsa aðkomu og frumkvæði íbúanna við mótun aðalskipulagsins og að auki leitað álits sérfræðinga á fjölmörgum sviðum. Um var að ræða algera nýlundu í sk. „lýðræðislegum vinnubrögðum“ hér um slóðir en jafnframt varð vinnan mikil og öll greining ítarleg, því kappkostað var að taka tillit til sem flestra sjónarmiða.

Ferjustaður eða Efri-Laugardælaeyja: Hagfræði Vegagerðarinnar 

Eitt af því sem mikið var rætt við gerð þessa aðalskipulags var ný veglína og brú yfir Ölfusá. Niðurstaða þeirrar umræðu var að halda sig við veglínuna um Efri-Laugardælaeyju. Á næstu árum hélt umræða um þetta mál áfram af fullum krafti. Vegagerðin hélt á lofti hugmyndum um að brúa við gamla ferjustaðinn yfir ána, nokkru norðar en gert er ráð fyrir að brúa skv. skipulagi, og beitti þeim rökum helst að sá kostur væri bæði ódýrari og veglínan styst. Meginrök Vegagerðarinnar voru og eru „hagfræðilegs eðlis“. Tillaga Vegagerðarinnar styttir hringveginn, útheimtir minna slit á bílum, minna slit á vegum, styttir ferðatímann, minnkar útblástur og aðra mengun til viðbótar við það að framkvæmdirnar sjálfar kosta minna.

Það var m.a. af „umhverfisástæðum“ sem bæjarstjórnirnar 2002-2010 lögðust gegn hugmyndum Vegagerðarinnar um að brúa á gamla ferjustaðnum. Þó það væri trúlega ódýrari og „hagkvæmari“ kostur hafði hann í för með sér ókosti sem að margra mati vógu upp beinhörð peningasjónarmið.

Í fyrsta lagi mun vegur austanmegin að þeirri brú gjöreyðileggja golfvöllinn, sneiða hann í tvennt í miðju, með þeim afleiðingum að GOS þyrfti að byrja á núllpunkti, einu sinni enn, og byggja nýjan golfvöll á öðrum stað. Það var þó samviskusamlega rætt aftur á bak og áfram og m.a. var jörðin Borg, milli Stokkseyrar og Eyrarbakka og í eigu sveitarfélagsins, í umræðunni í þessu samhengi.

Í öðru lagi mun veglína vestanmegin að ferjustaðnum rústa ræktunarstarfi Skógræktarfélagsins. Það ágæta félag hefur nefnilega áratugum saman miðað ræktunarstarf sitt við það að brúin komi á Efri-Laugardælaeyju og skilið þar eftir breitt skarð í skógræktina fyrir veginn. Engum dettur í hug að halda því fram að sá vegur sem nú er á skipulaginu sé yfir gagnrýni hafinn eða hafi engin neikvæð áhrif. Hann er hins vegar skárri kostur, sker t.d. ef ég man rétt aðeins eina holu af golfvellinum, sem mun vera hægt að bæta með annarri norðar með ánni. Og þó vegurinn gegnum skógræktina verði síður en svo staðarprýði, þá kallar núverandi veglína allavega ekki jarðýtur yfir áratugagamalt, ómetanlegt ræktunarstarf.

Í þriðja lagi liggur óskaveglína Vegagerðarinnar töluvert fjær Selfossi en sú veglína sem bæjaryfirvöldum hefur hugnast best, en aukin fjarlægð er talin minnka líkurnar á því, sem sumir telja mestu varða, að vegfarendur komi við í bænum.

Suðurleiðin“

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 talaði Vinstrihreyfingin grænt framboð, eitt framboða í Árborg, fyrir veglínu og brú sunnan Selfoss. Samkvæmt fyrrnefndri fréttaskýringu Selfossblaðsins hefur Vg bæst liðsauki í núverandi forystumanni Samfylkingarinnar í bæjarstjórn. Sá telur „fráleitt“ að brúa við Efri-Laugardælaeyju. Helstu rök hans eru þau að „dýrmætu útivistarsvæði verði fórnað“ og „glæsilegur golfvöllur skorinn í sundur“. Hann trúir því að vegur fyrir sunnan Selfossbæ „muni ekki hafa mikil áhrif á þá verslunar- og þjónustuaðila sem hafa haft áhyggjur af þróun mála“. Allt þetta hefur verið rætt í þaula, aftur á bak og áfram. Meira að segja voru líka ræddir og kannaðir kostir jarðganga undir Ölfusá, en þótti ekki vænlegur kostur vegna óhagstæðra jarðlaga – fyrir utan kostnaðinn

Þessi veglína er í fyrsta lagi lengsta mögulega leiðin framhjá Selfossi. Fáum dettur í hug, þegar ráðist er í nýframkvæmdir í vegagerð, að lengja samgönguleiðirnar eins og þessi tillaga gerir, með tilheyrandi aukinni eldsneytisbrennslu og mengun, lengri ferðatíma o.s.frv. Hætt er við að einhver hluti gegnumstreymisins muni þá stytta sér leið um „gömlu brúna“, renna Austurveginn í gegnum Selfoss, og spara sér í leiðinni nokkra bensíndropa. Og hvert fer hækkaður flutningskostnaður vöruflutningafyrirtækjanna vegna lengingar hringvegarins?

Í öðru lagi eru vestan og sunnan Selfoss, bæði í Ölfusi og Árborg, býli þar sem bændur stunda blómlegan landbúnað af ýmsu tagi. Er réttlætanlegt að fórna allri þeirri atvinnustarfsemi, fjölmörgum hestabúgörðum og kúabúm, fyrir hraðbrautina? Hvað með Sölvholt, Dísarstaði, Smjördali, Ljónsstaði, Austurkot, Votmúla, Byggðarhorn, Eyði-Sandvík og Geirakot, auk búgarðabyggðar og margra smábýla við „Votmúlaveginn“? Eða Hvol, Sunnuhvol, Kirkjuferjubæina, Kjarr og Þórustaði í Ölfusinu? Mega þessar jarðir og starfsemin þar sín einskis í samanburði við hin „dýrmætu útivistarvæði“ og „glæsilegan golfvöll“ norðan byggðar? Er þetta svæði hvorki dýrmætt né glæsilegt á neinn hátt?

Í þriðja lagi liggur stærstur hluti framtíðarbyggingarlands á Selfossi vestan og sunnan bæjarins. Af framsýni keypti bæjarstjórnin 2002-2006 jörðina Björk til þessara nota. Á að setja hraðbrautina þvert í gegnum eða alveg í jaðrinum á íbúðahverfum framtíðarinnar?

Í fjórða lagi er um að tefla heilan flugvöll. Hvers virði er hann? Að því leyti er hann þó sambærilegur golfvellinum að þar stundar hópur manna áhugamál sitt. Og ef mig misminnir ekki er völlurinn líka talinn mikilvægur út frá öryggissjónarmiðum.

Það er ekkert nýtt í umræðunum um nýtt brúarstæði á Ölfusá. Samtök verslunar- og þjónustuaðila hafa alla tíð lýst áhyggjum sínum af því að missa umferð út úr bænum. Enginn meiri þungi er í þeirri umræðu nú en verið hefur, nema síður sé. Samkvæmt könnun, sem vísað er til í fyrrnefndri fréttaskýringu Þorláks Helgasonar í Selfossblaðinu, áttu um 86% ökumanna á leið um Selfoss, eða 6 af hverjum 7, erindi þangað. Gegnumstreymið var því einungis 14%. Þetta bendir ekki til þess að sérstök ástæða sé fyrir hagsmunaaðila að óttast hjáleiðina. Sjálfsagt er þó að rannsaka það betur.

Þó Samfylkingin hafi tekið pólitíska u-beygju virðist forystumaður Sjálfstæðisflokksins standa í lappirnar í brúarmálinu. Hann lýsir þeirri skynsamlegu stefnu að halda sig við veglínuna í núgildandi aðalskipulagi en vinna jafnframt að „mótvægisaðgerðum“, til að forðast hættuna á því að ferðalangar fari beinustu leið framhjá og fyrirtæki og þjónustustofnanir í bænum missi þar með spón úr aski sínum.

Að endurskrifa söguna: Einbeittur brotavilji

Í lýsingum sínum á mótvægisaðgerðunum fer leiðtoginn þó stundum utan vegar eða móti umferð á sannleiksbrautinni. Hann segir að stór slík skref hafi verið „stigin á síðustu tveimur árum“, og gerir tilraunir til að endurskrifa söguna með því að nefna í því samhengi uppbyggingu við Larsenstræti, stefnubreytingu í uppbyggingu íþróttasvæða á Selfossi og hugmyndir um „Ölfusársetur“.

Lóðunum við Larsenstræti var sannarlega búið að úthluta löngu fyrr, þó uppbygging á þeim hafi tafist. En látum það nú vera. Um stefnubreytingu í uppbyggingu íþróttamannvirkja gildir öðru máli. Reyndar voru bæði nýr knattspyrnuvöllur (ásamt stúku) og flottur frjálsíþróttavöllur þegar til staðar og búið að ákveða viðbyggingu við Sundhöll Selfoss (að ónefndum nýjum útiklefum) áður en leiðtogi Sjálfstæðismanna tók við lyklavöldum í Ráðhúsinu vorið 2010. Má teljast undarlegt að honum hafi yfirsést þessi glæsilegu mannvirki á íþróttavallarsvæðinu, sem segja má að núverandi bæjarstjórn hafi fengið upp í hendurnar.

Gaman væri að heyra af því hvaða stefnubreyting hefur orðið á uppbyggingu íþróttamannvirkja á síðustu tveimur árum. Hyggst núverandi bæjarstjórnarmeirihluti kannski rífa þau nýju mannvirki sem risin eru og gera eitthvað annað?

Núverandi bæjarstjórn er þó skylt að hrósa fyrir að hafa tekist að kaupa miðbæjarreitinn á Selfossi, sem fyrri meirihluta tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, og að fyrir liggi ákvörðun um viðbyggingu við sundhöllina. Sú framkvæmd er þó enn aðeins í fjárhagsáætlunum, þar sem hún hefur verið um alllanga hríð.

Sömuleiðis eru „Mjólkursafn“ og „Fischersafn“ mikilvæg skref, sem núverandi bæjarstjórn á heiður skilinn fyrir að styðja við – og enginn gleðst jafn einlæglega og undirritaður að lesa það að tillögum hans um Ölfusársetur virðist ekki hafa verið stungið í pappírstætarann. Nógu hart var barist fyrir þeim, þó ekki hafi náðst samkomulag í þáverandi meirihluta um framganginn, og enginn stuðningur fengist frá minnihlutanum.

En að stefnubreyting um uppbyggingu íþróttamannvirkja og hugmyndir um „Ölfusársetur“ séu meðal þeirra skrefa sem stigin hafa verið á síðustu tveimur árum – er það ekki einum of langt gengið?

Burtséð frá einbeittum brotavilja Eyþórs Arnalds á sannleikanum, er óskandi að allar þær „mótvægisaðgerðir“ sem hann nefnir, þ.e.a.s. þær sem ekki eru þegar komnar í framkvæmd, verði að veruleika í allra nánustu framtíð.

Og valkvíðinn við næstu sveitarstjórnarkosningar snarminnkar líka, ef þessi nýja stefna Samfylkingarinnar verður þá enn ofan á.

Haust

Gulnuð blöðin
þéttskrifuð annálum,
undarlegum sögum
sem berast með vindinum
utan úr heimi.

Þau bíða örlaga sinna
í sagga
eða sólþurrki
en lenda flest að lokum
í öruggri geymslu
með nákvæmlega útreiknuðu
rakastigi.

Þannig er tryggð
varanleg geymd
hins markverðasta.

Því löngu seinna
verða þessi pergamenti
sprotar nýrra athugana

ný blöð verða þá dregin fram
og ritaðir á þau
nýir annálar
komandi kynslóða.

Skóli án aðgreiningar?

„Fjórðungur íslenskra gurnnskólakennara hefur ekki trú á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar, en aðeins 42 prósent eru jákvæð gagnvart henni samkvæmt nýrri könnun meðal kennara. Þá telja 77 prósent kennara að álag í kennslu hafi aukist mjög mikið á undanförnum fimm árum.“ Könnunin sem vísað er í var á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara. Þetta kemur fram í frétt á  visir.is laugardaginn 1. september sl.

Varla þarf að taka fram að laun kennara hafa ekki hækkað í samræmi við aukið álag.

„Skóli án aðgreiningar“ er sú stefna kölluð að öll börn í hverjum árgangi skólahverfis, hvort sem þau eru með svokallaðar „sérþarfir“ eða ekki, sæki sama skóla og sitji saman í bekk. „Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar er í raun ávöxtur kenninga um félagslegt réttlæti. Og á að búa einstaklinga með sérþarfir betur undir frekari menntun og þátttöku í samfélaginu, fremur en þeir séu eingöngu að umgangast aðra sem glíma við sömu vandamál“, segir í fréttinni.

En er það furða að kennarar hafi ekki meiri trú á þessu en raun ber vitni? Og hvernig stendur á því?

Raunveruleikinn sem blasir daglega við kennurum, þrátt fyrir fallega hugmyndafræði af ýmsum toga, er að nemendum er hrúgað allt of mörgum inn í bekkina. Er ekki skóli án aðgreiningar óraunhæfur, bara útópía, meðan boðið er upp á þessar aðstæður?

Grunnskólakennari sem horfir framan í fjölmennan bekkinn sinn og á að mæta hverjum og einum nemanda á hans grunni og taka tillit til þarfa hans, langana og áhuga – einstaklingsmiðað nám fyrir fluglæsa og torlæsa, ofvirka og ofurfeimna, fullfríska og fatlaða, fljótfæra og seinfæra, og allt þar á milli, honum ættu í raun að fallast hendur.

Hafa verður líka í huga að almennir grunnskólakennarar eru ekki sérfræðingar í meðhöndlun á sérhverri „greiningu“, þó þeir viti reyndar og geti ótrúlegustu hluti.

Sennilega styttist í að grunnskólakerfið fari að þróast eins og framhaldsskólakerfið, þar sem opinbera stefnan er „Framhaldsskóli fyrir alla“, en aðgreiningin er illa dulin með þeim hætti að hluti skólanna tekur bara inn nemendur með úrvals námsárangur á meðan aðrir skólar sinna skyldum sínum og taka við öllum nemendum. Í litróf hinna síðarnefndu vantar þó stóran hluta af hverjum árgangi – nefnilega marga af þeim nemendum sem reynist auðvelt að læra og hafa áhuga á því.

Hvenær eigum við von á „elítuskólum“ á grunnskólastigi?

Íslenskir kennarar lyfta grettistaki á hverjum degi, við erfiðar aðstæður. En engan skal undra að þeir hafi ekki tröllatrú á „skóla án aðgreiningar“ við þær aðstæður sem þeir þurfa að sætta sig við. Þeir eru væntanlega búnir að glata trúnni á að aðstæðunum verði breytt, t.d. að fækkað verði í bekkjum og ráðnir fleiri menntaðir sérfræðingar til að aðstoða nemendur með sérþarfir og ótöluáfestandi fjölda mismunandi greininga.

Nú er mikilvægur þáttur enn undanskilinn, sá mikilvægasti af þeim öllum: Nemendurnir eiga rétt, já heimtingu, á því að fá þjónustu við hæfi, hvort sem þeir hafa verið greindir með sérþarfir eður ei.

Við núverandi aðstæður er það einfaldlega útilokað. Spurningin er hvort nemendur, foreldrar, kennarar og skólamálayfirvöld sætta sig bara við það?

 

Af virðisrýrnun

Útgerðin og Mogginn eru sem betur fer óþreytandi í baráttu sinni gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í frétt á mbl.is kemur fram að HB Grandi hafi tapað 1,5 milljónum evra á fyrri hluta ársins – en á sama tímabili og þessi mikli taprekstur skall á fyrirtækinu eins og brotsjór, jukust tekjur þess um 17 milljónir evra, segir í fréttinni.

Úlfar Þormóðsson tekur þetta til umfjöllunar í pistli á Smugunni og snýr auðvitað út úr öllu saman, eins og þeirra er siður sem ekki skilja hið rétta gangverk atvinnulífsins, og raunar samfélagsins alls.

Þó ég hafi útskrifast úr máladeild, og með falleinkunn í stærðfræði á stúdentsprófi, þá átta ég mig samt vel á því að þegar fyrirtæki eykur tekjur sínar um 17 milljónir á ákveðnu, afmörkuðu tímabili, þá tapar það í raun og veru einni og hálfri milljón. Þetta sjá allir, líka hinir innmúruðu ríkisstjórnarsnatar, þó þeir vilji auðvitað ekki viðurkenna það opinberlega.

Eins og útgerðarfyrirtækið bendir á, og Mogginn kemur samviskusamlega til skila, veldur hækkun á veiðigjaldi þvílíkri virðisrýrnun, að öll formerki fordjarfast, plús verður mínus og tekjuaukning bullandi tap.

Í stað þess að vera með útúrsnúninga og samsæriskenningar, eins og Úlfar í fyrrnefndum pistli, væri nær að taka á málinu af alvöru og festu. Nú verður lag á haustþinginu að gera það. Til þess er engum betur treystandi en þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hinum skeleggu varðmönnum lýðræðislegrar, snarprar og málefnalegrar umræðu, framkvæmda í stað langhundafunda: „Athafnir í stað orða“. „Minna mas, meiri framkvæmdir“ (eða var það kannski „flas“).

Einfaldasta leiðin væri að samþykkja viðauka við skattalögin um bætur til útgerðanna vegna þessa. Lögin gætu heitið Lög um virðisrýrnunarbætur, í samræmi við Lög um húsaleigubætur og Lög um barnabætur.

Virðisrýrnunarbæturnar mætti reikna út frá virðisrýrnunarprófum sem endurskoðendur útgerðarfyrirtækjanna myndu sjá um, endan kunnugastir bókhaldinu og ólíklegastir til að klúðra einföldum prósentureikningi. Niðurstöður virðisrýrnunarprófanna yrðu svo birtar í Morgunblaðinu hálfsmánaðarlega og teknar þaðan upp á Fréttablaðinu, á Bylgjunni, Útvarpi Sögu, AMX og þessum helstu hlutlausu fréttamiðlum.

Bæturnar væru uppsöfnuð virðisrýrnun og greiddar út t.d. ársfjórðungslega.

Með þessu móti væri hægt, í gegnum skattkerfið, að hlífa þeim fyrirtækjum landsins sem minnst mega sín, fyrir ofurskattastefnu stjórnvalda. Því allir vita að þó ríkisstjórnin gumi nú af því að hafa haldið hlífiskildi yfir þeim lægst launuðu og þeim þjóðfélagshópum sem eiga undir högg að sækja, þá hafa útgerðarfyrirtækin hingað til verið skilin eftir úti á köldum klaka.

Það er kominn tími til að breyta þessu og koma hér á raunverulegum jöfnuði í fyrirtækjarekstri. Til þess þarf sértækar aðgerðir fyrir útgerðarfyrirtæki – einkanlega stórútgerðir.

Af heimilisstörfum

Dagurinn í gær, sunnudagurinn 26. ágúst, var ágætur. Á meðan konan bograði í berjamó uppi í Grafningi hafði ég það notalegt heima við, þó ég hafi svo sem líka haft ýmislegt fyrir stafni, og sumt af því hægara um að tala en í að komast. Um það vitna margar misheppnaðar vísur. Sannarlega er ekki þrautalaust að kvelja sig gegnum allar bækur – og blöðin, maður lifandi, þarf að segja meira? En svona var dagurinn minn í stórum dráttum – þar til ég fór að gæða mér á berjum!

Framá settist, mig fetti, þvó,
át frókost, þó lýsið skorti.
Blaði fletti, blettinn sló,
bók las, vísur orti.

Kunningi minn gerði athugasemdir við þessa framsetningu, sagði að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það auðvitað eftir honum, og raðaði upp sjálfsmynd af mér við heimilisstörfin:

Þjónar, stritar, sjaldan sér
sjálfum hampar maður.
Bónar, skúrar, aldrei er
argur, leiður, staður.

Ekki er samt loku fyrir það skotið að eftirfarandi mynd sé raunsærri en hin fyrri:

Staður, leiður, argur er,
aldrei skúrar, bónar.
Maður hampar sjálfum sér,
sjaldan stritar, þjónar.

Og fyrst ég er byrjaður er best að bæta við öðrum sléttuböndum, svona fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver
þrekið, veldur sjálfur.
Stjórnar drykkju, fráleitt fer
fullur eða hálfur.

Hálfur eða fullur fer,
fráleitt drykkju stjórnar.
Sjálfur veldur, þrekið þver,
þeigi sopa fórnar.

Gildi fagþekkingar

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október…Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði…Hún verður þó áfram félagsmaður í Samstöðu. Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína…“:

Hagfræðingur, hörð í skapi,
helsta vonin innan þings,
með fagþekkingu í fylgistapi
og forðast hylli almennings.

Af pólitískum væringum

Vangaveltur hafa verið í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir t.d.: „Katrín í stað Oddnýjar-Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,
broddur stingur svoddan.
Kötu skiptir inná, en
Odda leggst á koddann.

Þá var Guðmundur Rúnar Árnason ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV segist hafa heimildir fyrir því að Össur utanríksiráðherra hafi verið með puttana í málinu og Smugan slær því upp að ráðinn hafi verið „hæfasti Samfylkingarmaðurinn“. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur í DV fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlægt farið málið með,
matið faglegt hljómar þanninn:
Össur, jafnan röskur, réð
rétta Samfylkingarmanninn!

Kærleiksheimilið

Ef ég man rétt sagði vitur maður (HKL) eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forsetinn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „posh-ið“ landið.

Að mála skrattann á vegginn

Öllum er í fersku minni áróðursstríð LÍÚ í málgagni sínu, Morgunblaðinu, ásamt auglýsingaherferð í öllum fjölmiðlum landsins, gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu hér á landi. Þó mesta auglýsingabruðlið virðist um garð gengið – í bili a.m.k. – þá er morgunljóst að sú falska einshljóðfærissynfónía hefst aftur um leið og þingið tekur til starfa í haust.

Lygaáróðurinn var sá að ef þær breytingar sem stjórnvöld boðuðu yrðu að veruleika, breytingar sem þó voru orðnar útvatnaðar af undanlátssemi við svokallaða hagsmunaaðila, þá færi hér allt á hausinn og helst var að skilja að ekki yrði framar dregið bein úr sjó við Íslandsstrendur. Reyndar er það merkilega lýsandi fyrir sjálfhverfuna og einkahagsmunahyggjuna hér á landi að einu hagsmunaaðilarnir sem LÍÚmenn koma auga á í þessu máli eru þeir sjálfir. Engum dettur í hug að eigendur auðlindarinnar, þjóðin sjálf, hafi eitthvað um málið að segja eða sé hagsmunaaðili yfirleitt.

Nú er hafið annað áróðursstríð. Ríkisstjórnin hefur boðað að virðisaukaskattur á þjónustu veitingahúsa og gististaða verði hækkaður úr 7%a afsláttarþrepi í almennt skattþrep. Fjármálaráðherra lýsti skattaafslættinum, sem hefur verið veittur frá árinu 2007, réttilega sem ríkisstyrk. Hún hefur hlotið bágt fyrir það, eins og ferðaþjónustan skammist sín alveg ógurlega fyrir að þiggja ríkisstyrki. Ferðaþjónustunni til huggunar má benda henni á að heilu atvinnugreinunum er haldið á floti á ríkisstyrkjum – og ekki er að sjá að nein skömm fylgi því. Að minnsta kosti vilja flestir meira – og sumir telja jafnvel að engum komi það við hvernig með styrkina er farið.

En það er önnur saga. Ferðaþjónustan berst nú um á hæl og hnakka, í anda stórútgerðarmanna, og reynir að telja þjóðinni trú um að öll ferðaþjónusta fari á hausinn, leggist hreinlega af og ferðamenn hætti að sækja landið heim. Megum við á næstunni búast við auglýsingum frá samtökum gistihúsaeigenda, þar sem starfsmenn og gestir verða látnir með dramatískum innslögum lýsa því að þeir muni missa vinnuna og hætta að gista, ef áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika? Svo komi kannski á skjáinn prófessor í sálfræði sem upplýsi þjóðina um afleiðingar þess ef ekkert verði sofið á Íslandi, til eilífðarnóns? Allt vegna ríkisstjórnarinnar, auðvitað.

„Nú á að slátra Gullgæsinni og draga úr ferðamannastraumi til Íslands“, lét hóteleigandi í Keflavík hafa eftir sér. Sami hóteleigandi upplýsir lesendur Víkurfrétta um það að ef hótel- og gistihúsaeigendur hefðu talið sig geta hækkað verð undanfarin ár, þá hefðu þeir gert það, enda ekki veitt af til að bæta afkomuna í „harðærinu“.

Þessar yfirlýsingar eru athygli verðar, ekki síst í því ljósi að umrædd þjónusta mun hafa snarhækkað undanfarin ár, þrátt fyrir stórfelldan virðisaukaafsláttinn frá 2007, ef marka má upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu. Og þrátt fyrir stöðugar verðhækkanir hafa ferðamenn hópast inn á hótelin og gististaðina, sem aldrei fyrr. Og þeir hafa ekki heldur látið neitt stöðva sig, þegar kemur að því að kaupa vörur og aðra þjónustu. Og þeir munu ekki heldur láta það á sig fá þó þjónusta veitingahúsa og gististaða verði færð í almennt virðisaukaskattþrep. Vitið bara til.

Málflutningur af þessu tagi er engum til sóma, hvorki ferðaþjónustunni, útgerðinni, né öðrum „hagsmunahópum“. Trúverðugleiki þeirra gufar hreinlega upp með þessum eilífu heimsendaspám.

Því miður er þetta samt lenskan í opinberri umræðu hér á landi. Að mála skrattann á vegginn.