Það er mörg skýrslan

Nú hefur enn einn starfshópurinn um menntamál skilað niðurstöðum. Að þessu sinni starfshópur um samþættingu menntunar og atvinnu. Það getur vel verið að ég taki mig til og leggist yfir þessa skýrslu og skrifi svo eitthvað um hana. Þó veit ég ekki hvort ég nenni því. Ég er búinn að skrifa margar greinar um mennta- og skólamál hér á síðuna og er eiginlega alveg viss um að í þeim skrifum hefur komið fram allt það sem ég hef að segja um þessa nýjustu skýrslu. Því þess er ekki að vænta að þar séu nein nýmæli.

Miðað við greiningu Elnu Katrínar Jónsdóttur á visir.is í dag, er skýrslan hrein sóun, enn eitt lagið ofan á gamla góða pappírsstaflann.

Hefur ekki stöðugt verið unnið að auknum tengslum skóla og atvinnulífs frá því um 1970, undanfarin rúm 40 ár? Hvers vegna ætli gangi svo illa að ná þessu, og öðrum göfugum markmiðum í skólakerfinu?

Ætli það sé vegna skorts á lagasetningu þar um? Ætli það sé vegna skorts á starfshópum? Ætli það sé vegna skorts á hugmyndum? Ætli það sé vegna skorts á samstarfsvilja? Ætli það sé vegna skorts á niðurstöðum og skýrslum frá starfshópunum? Ætli það sé vegna skorts á málþingum og kjaftablaðri?

Nei, ætli ástæðan sé ekki einfaldari. Ætli ástæðan sé ekki bara skortur á fjármagni til að hrinda í framkvæmd öllum tillögum skýrslanna og niðurstöðum vinnuhópanna og öllum lagatextunum sem hið háttvirta Alþingi hefur samþykkt?

Ætli það sé ekki bara málið?

Auðvitað þurfa alþingismenn að hafa eitthvað fyrir stafni, einhverjar nefndir og vinnuhópa til að drýgja þingfararkaupið, það er vel skiljanlegt. En dettur ykkur það aldrei í hug, hæstvirtir alþingsmenn, að það breyti engu hvað þið skreytið ykkur oft með þessu sama gamla víni, þó á nýjum belg sé, það muni ekkert breytast fyrr en þið farið að borga kostnaðinn við margtuggnar breytingatillögurnar á skólakerfinu? Dettur ykkur það virkilega aldrei í hug?

Á sama tíma, sem sagt, og eytt er fjármagni í enn einn starfshópinn og enn eina skýrsluna, er ekki hægt að innleiða „nýju“ framhaldsskólalögin, sem alþingi samþykkti með vinstri hendi, vegna þess að þegar hægri höndin samþykkir fjárlögin virðist hún ekkert vita hvað sú vinstri hafði verið að gera.

Nú er sem sagt nóg komið af kjaftæði og tími kominn til að fjármagna allt það tillöguflóð sem þegar liggur í þykkum bunkum á alþingi, í ráðuneytum og skólastofnunum um allt land, flest áratugagamalt. Þar er að finna margt gúmelaði um aukið samstarf við atvinnulífið. Gúmelaði um aukinn sveigjanleika. Gúmelaði um þarfir, getu og áhugasvið nemenda. Gúmelaði um grunnþætti. Gúmelaði um aukna sérfræðiþjónustu.

Ef alþingi hefur hins vegar ekki efni á eigin gúmelaðiframleiðslu -að koma skólakerfinu í það horf sem lög og skýrslur kveða á um að æskilegt sé- þá þarf að viðurkenna það og hætta þessum látalátum. Þar til betur árar. Ef svo ólíklega vildi til að einhverntíma í draumalandi framtíðarinnar muni ára þannig að á alþingi sitji fólk sem forgangsraðar menntakerfinu framar í fjárlagafrumvarpinu en hingað til hefur verið skilningur á.

En í guðanna bænum: Ekki fleiri starfshópa og skýrslur um skólakerfið. Það er nóg til af þeim. Það vantar hinsvegar peninga.

 

 

 

Af rétthugsun

Undanfarið hefur eitthvert sprell í framhaldsskólakrökkum riðið húsum í fjölmiðlum, ekki síst Netmiðlum og í athugasemdakerfum bloggheima. Nú má ekki skilja mig svo að ég telji að „sprell“ eigi einungis að lúta eigin lögmálum, utan og ofan við siðgæði samfélagsins og hægt sé að afsaka hvað sem er með: „æi, þetta var nú bara sprell“, eða ámóta yfirlýsingum. En ég var samt orðinn hálf orðlaus yfir umræðunni.

Því hvenær hafa framhaldsskólanemendur hagað sér eins og ‘rétthugsuðir’ hvers tíma ætlast til? Skiptir þá engu máli hvort um er að ræða femíníska rétthugsuði nútímans, jafnréttisrétthugsuði, pólitíska- eða uppeldismálarétthugsuði. Þegar ég hugsa til baka geri ég mér alla vega grein fyrir því að margt hefði vissulega mátt betur fara í hegðun og framkomu minni og janfaldra minna, og sumt er sjálfsagt illa prenthæft. En flestir hlupu af sér hornin á tiltölulega stuttum tíma, með góðri hjálp samfélagsins, og lögðu af „óprenthæfa hegðun“ án þess þó að vera úthrópaðir, eftir því sem ég best man. Sem betur fer varð þó enginn alveg „gerilsneiddur“. En ríkti kannski meira umburðarlyndi í þá daga?

Nú á dögum er femínísk rétthugsun í tísku. Það þykir mjög fínt að segjast vera femínisti og ræða brúnaþungur um samsvarandi isma. Jafnvel heilu stjórnmálaflokkarnir taka þátt í þessu. Þó held ég að það sé síður en svo ljóst fyrir hvað allir þeir standa, sem skreyta sig með orðinu. Þrátt fyrir það eru þeir sem játa það ekki opinberlega, eins og á vakningarsamkomu hjá Hernum, að þeir sjái ljósið og séu sannfærðir femínistar, jafnharðan stimplaðir útsendarar andskotans: svörtustu karlrembur, kvennakúgarar, klámdólgar og gott ef ekki nauðgarar líka.

Ég verð að játa það hreinskilnislega að um leið og ég heyri eða sé orð sem enda á isti og ismi, þá fer ég allur í vörn. Þá líður mér eins og skollið sé á trúarbragðastríð. Og í því trúarbragðastríði er ekkert „einskismannsland“: „Ef þú ert ekki með mér í liði, þá ertu á móti mér“. Þannig er víst Ísland í dag.

Ég las um daginn eitthvað af skrifunum um þetta „sprell“ framhaldsskólakrakkanna. Í einum pistli var það, af heilagri vandlætingu, kallað „fávitavæðing“. Þó mér finnist vandlæting af þessu tagi fara langt yfir strikið, þá er ekki þar með sagt að ég sé sérstakur talsmaður sk. klámvæðingar. Ég er reyndar svo íhaldssamur og mikil tepra að mér þótti meira en nóg um fyrir 2-3 árum þegar það var aðaltíska meðal stúlkna á framhaldsskólaaldri að klæðast fötum sem voru þannig sniðin að það var mjó klæðisræma utan um mittið, en allsbert neðan við og að mestu leyti ofan við. Ekki gekk ég samt svo langt að mér dytti í hug að kalla þessar ungu stúlkur fávita. Margar þeirra auðvitað fluggáfaðar og þessi tímabundna tíska nú blessunarlega gengin yfir – í bili.

En allavega líkaði mér mun betur hófstilltari tónninn í Evu Hauksdóttur í helgardjevaffinu en háhelgislepjan á mörgu blogginu. Eva segist ekkert kæra sig um femínisma en vera jafnréttissinni. Samt er Eva Hauksdóttir kölluð „norn“ og hún er víða stimplaður „öfgamaður“. Er við hæfi að vísa í nornabrennur fyrri alda í þessu samhengi? Hvar liggja öfgarnar? „Ekki var ég rassgat hamingjusöm við skúringar eða saltfiskverkun en þó reyndi enginn að banna skúringar eða saltfisk til að „bjarga“ mér,“ segir Eva m.a. Þó maður eigi erfitt með að taka upp trú Evu á „hamingjusömu hóruna“, kannski vegna eintómra eigin fordóma, er þá ekki sannleikskorn í orðum hennar, þ.e.a.s. þessum um skúringarnar og saltfiskinn?

Í athugasemd með „fávitavæðingarpistlinum“ rakst ég á eftirfarandi tilvitnun, sem ég hef reyndar ekki gert neina sannfræðirannsókn á en finnst segja það sem segja þarf, burtséð frá heimildagildinu:

The youth of today love luxury; they have bad manners and contempt for authority; they show disrespect for elders and love chatter in place of exercise. Youth are now tyrants, not the servants of their households. They no longer rise when elders enter the room. They contradict their parents, chatter before company, gobble up food at the table, and tyrannize their teachers.“ Socrates, ca. 500 BC.

Auðvitað eru „þolmörkin“ mjög mismunandi hjá fólki, en ég hef það á tilfinningunni að um þessar mundir séu þau almennt lág og á flestum sviðum vaði uppi skaðlegur rétttrúnaðarismi. Það er kannski auðveldasta leiðin að ganga í rétttrúnaðarbjörg. En um leið er það einhver hættulegasti flóttinn frá siðuðu samfélagi, eins og dæmin sanna.

Vissulega var „sprell“ framhaldsskólanemanna siðferðilega „óviðeigandi“, sumir myndu segja „óprenthæf hegðun“. En viðbrögðin hafa líka farið út úr öllu korti, og ekki verið til þess fallin að leiða ungdóminn á hinar „réttu brautir“ hófsemi og umburðarlyndis.

Nú er nóg komið

Nú liggur fyrir niðurstaða í atkvæðagreiðslu um samkomulag SNR og samninganefndar FF/FS. Framhaldsskólakennarar kolfelldu samkomulagið, eins og við mátti búast, með 3/4 hluta atkvæða og hafa nú sent bæði ríkisvaldinu og eigin samninganefnd skýr skilaboð: „Reynið ekki aftur að bjóða okkur upp á annað eins“.

Áður hefur verið fjallað ítarlega um samkomulagið hér á síðunni og ekki ástæða til að rekja enn og aftur hvað í því felst. Framhaldsskólakennarar hafa verið teygðir að þolmörkum undanfarin ár. Niðurskurður í menntakerfinu og sparnaðaraðgerðir innan skólanna hafa beinst að stórum hluta að kennurum. Stóraukinni vinnu hefur verið hlaðið á herðar þeirra,  vinnuumhverfið ómanneskjulegt og í raun fjandsamlegt öllum faglegum viðmiðum.

Það er ekki vinnutímaskilgreining kennara sem stendur í veginum fyrir faglegri þróun og það eru ekki kennarar sem vinna gegn umbótum í skólastarfi, með því að hafna þessu samkomulagi sem niðurstaða liggur nú fyrir um, heldur er það á ábyrgð menntamálayfirvalda, fjárveitingavaldsins og skólastjórnenda í hverjum skóla.

Það eru yfirvöld og stjórnendur skólanna sem hafa boðið kennurum og nemendum upp á óviðunandi starfsaðstæður. Það hafa kennarar látið yfir sig ganga, með fullum skilningi á því að hér hefur verið kreppa og nauðsyn á niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Kennarar hafa tekið þátt í þessum aðgerðum af fullri einurð og ábyrgð. Þeir hafa undanfarin ár hvergi vikist undan heldur lagst á árarnar í þeim lífróðri sem staðið hefur – og stendur enn.

En þeir ætla ekki að halda því áfram, bótalaust. Þeir ætla ekki að láta hlekkja sig við þófturnar. Nú er nóg komið.

Snúum vörn í sókn – fellum samkomulagið

Mennta- og menningarmálaráðherra skrifar í Fréttablaðið í gær, 9. nóvember, þar sem hún reynir að sýna fram á að „nú liggi leiðin upp á við“ í menntakerfi landsins og tiltekur sérstaklega framhaldsskólana. Hún segir að eftir niðurskurðar„átak síðustu ára verður mögulegt að snúa vörn í sókn“ og þess sjái „þegar stað í frumvarpi til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir aukafjárveitingu til framhaldsskóla“ og að auki sé „gert ráð fyrir viðbótarfjármagni til framhaldsskóla fyrir aðra umræðu fjárlagafrumvarps.“

Þarna vísar ráðherra væntanlega til þeirra 216 milljóna sem lofað er, í samkomulagi samninganefndar ríkisins og KÍ f.h. FF, til vinnukaupa af kennurum við námskrárgerð, til eflingar náms- og starfsráðgjafar og til stuðnings nýliða í kennslu, auk 3ja% hækkunar á launataxta framhaldsskólakennara á næstu 13 mánuðum.

Ráðherra ítrekar í grein sinni að aukin vinnukaup af kennurum, eða „aukin fagleg forysta kennara og þróunarvinna“ eins og hún orðar það sjálf, eru lykilatriði til þess að innleiðing nýrra námskráa gangi eftir.

Í grein sinni veitir Katrín Jakobsdóttir ágæta innsýn í það hve álag á kennara og annað starfsfólk framhaldsskólanna hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Niðurskurðurinn hefur í fyrsta lagi leitt til stórfjölgunar nemenda í námshópum, raunar út yfir öll velsæmismörk með tilliti til vinnusiðferðis, að ekki sé talað um þá forsmán á faglegri sýn á gæði skólastarfs sem í þessu felst.

Í öðru lagi hafa framhaldsskólarnir á sama tíma „tekið við fleiri nemendum en nokkru sinni fyrr undir merkjum átaksins Nám er vinnandi vegur“ og í þriðja lagi hafa framhaldsskólakennarar unnið mikla þróunarvinnu við samningu og innleiðingu námskráa vegna nýjustu framhaldsskólalaganna.

Í öllum niðurskurðinum hafa kennarar framhaldsskólanna sem sagt þurft að þola stóraukið álag í starfi sínu og bæta þar fyrir utan á sig meiri vinnu og fleiri verkefnum, án þess að þess sjái nokkurn stað í launum þeirra.

„Þegar kjör íslenskra kennara“, segir menntamálaráðherra, „eru borin saman við kjör starfssystkina þeirra í nágrannalöndum okkar komum við Íslendingar því miður ekki nægilega vel út.“ Þetta vitum við og svo hefur verið lengi. Raunar eru fá teikn á lofti um að kjör íslenskra kennara verði nokkurn tíma tengd við launakjör kennara í nágrannalöndunum. Slíkar hugmyndir eru víst aðeins fyrir skýjaglópa, því illa gengur að standa við umsamin viðmið innanlands.

Áður en ráðherra fer að velta upp slíkum skýjaborgum væri nær að hún beitti sér af hörku fyrir því að staðið yrði við bókanir sem gerðar voru með síðasta kjarasamningi um að leiðrétta skyldi jafn óðum, ef í ljós kæmi launamunur milli félagsmanna í FF og FS annars vegar og viðmiðunarstétta innan BMH hinsvegar. Nú er þessi launamunur um 60 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Ráðherra endar grein sína á frómum óskum um að kennarar samþykki fyrirliggjandi samkomulag og „það verði einn liður í að bæta kjör kennara og efla stöðu þeirra“.

Því miður er ekkert í þessu nýja samkomulagi sem vísar þann veg. Sexþúsund króna launahækkun á næstu 13 mánuðum segir lítið upp í 60 þúsund króna gap. Og kennarar líta ekki heldur á það sem sérstakan virðingarvott eða mikla eflingu á stöðu sinni að gert sé skriflegt samkomulag um það að ríkisvaldið ætli loksins að fara að greiða þeim yfirvinnu samkvæmt taxta kjarasamnings fyrir örfáa tíma við innleiðingarvinnu, í staðinn fyrir þær ólöglegu „sjóræningjagreiðslur“ fyrir þessi störf sem viðhafðar hafa verið undanfarin ár, skv. orðum forsvarsmanna samninganefndar framhaldsskólakennara.

Kennarar ættu því alls ekki að samþykkja þetta samkomulag. Engin rök hníga til þess. Þeir hafa núna gullið tækifæri til að snúa vörn í sókn með því að fella samkomulagið og hefja raunverulega baráttu fyrir kjörum sínum og starfsheiðri – og um leið bættu skólastarfi.

Betra menntakerfi verður ekki reist á þrautpíndum og útjöskuðum kennurum á lágmarkslaunum.

Samkomulag um ekkert – og út í bláinn

Það er athyglisvert að enginn, ENGINN, sem tjáð hefur sig um samkomulag milli samninganefnda framhaldsskólakennara og ríkisins telur að um sé að ræða gott samkomulag. Meira að segja þeir sem mæla heldur fyrir því, forysta Félags framhaldsskólakennara og samninganefndarfólk, viðurkenna svikalaust að þetta er lélegt samkomulag hvað varðar launakjör kennara. Enda er samkomulagið SVO AUMT hvað þetta varðar að útilokað er annað en að viðurkenna það.

Hvað er það þá í samkomulaginu, sem samninganefndin okkar telur svo mikilvægt framfaraskref, að það geri meira en að bæta úr algerri katastrófu á þeim lið kjarasamninga sem öllu máli skiptir fyrir flesta?

Það er tvennt.

Í fyrsta lagi gerir ríkisvaldið um það samkomulag við kennarastéttina að það ætli á næstunni að leggja fram örlítið brot af þeim fjármunum sem það kostar að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, til að kaupa fáeina vinnutíma af kennurum í því skyni.

Í öðru lagi ætlar ríkisvaldið að skipa fulltrúa af sinni hálfu í nefnd með kennurum, til að endurskoða vinnutíma þeirra, svo hægara verði, að sögn, að koma almennilega í framkvæmd lögum sem ríkið hefur samþykkt á Alþingi. Nefndinni er ætlað að skila tillögum um breytingar á vinnutíma kennara áður en næsta kjarasamningalota hefst, væntanlega í upphafi árs 2014.

Þetta er nú allt og sumt. Hvers vegna ættu kennarar að leggja í kostnað við allsherjaratkvæðagreiðslu út af þessu?

Allt það sem í samkomulaginu felst, og samninganefndin okkar telur svo mikilvægt að það yfirskyggi launaliðinn, má gera án þessa viðauka við gildandi kjarasamning kennara: Ríkisvaldið sendir bara eins mikla peninga út í skólana, í innleiðingu og námskrárgerð, eins og það treystir sér til á hverjum tíma. Svo einfalt er það. Það mun vera á ábyrgð ríkisins að framfylgja lögum, og standa undir kostnaði við þau, en ekki stéttarfélaga.

Þannig að ég segi glaður við fulltrúa fjárveitingavaldsins: Komið bara með peningana, ef þið viljið fullkomna lögin ykkar. Það verða örugglega margir kennarar fegnir að fá nokkra tíma í yfirvinnu fyrir jólin.

Og ríkisvaldið getur hæglega óskað eftir því við forsvarsmenn kennarastéttarinnar að stofnuð verði nefnd þessara aðila til að ræða vinnutímaskilgreiningar stéttarinnar. Til þess þarf ekki þennan ónýta klíning utan á kjarasamninginn. Ef ríkið er sannfært um að þetta séu góð lög sem mikilvægt er að koma í fulla framkvæmd sem fyrst, og vinnutími kennara sé hindrun á þeirri vegferð, hlýtur þá ekki samninganefnd þess að mæta á fundi samviskusamlega? Ekki mun standa á fulltrúum kennara að mæta.

Ef þetta tvennt, innleiðingarpeningarnir og vinnutímanefndin, er tekið út fyrir sviga, því ástæðulaust með öllu er að tengja það samningum um launakjör, hvað er þá eftir?

Þá er aðeins eftir niðurlægjandi „launahækkun“ upp á svona 4 þúsundkalla á mánuði núna og 2 þúsundkalla til viðbótar eftir 13 mánuði. Á sama tíma og fyrir liggur að umsamin viðmiðunarlaun eru orðin 60 þúsundköllum hærri á mánuði en framhaldsskólakennaralaun.

Þar með er samkomulag þetta sjálffellt. Og ekki orð um það meir.

Herfileg mistök

„Ríkisvaldinu mistókst herfilega að tryggja fé á fjárlögum til innleiðingar framhaldsskólalaganna“. Svo komst fulltrúi framhaldsskólakennara í samninganefnd að orði á fundi með trúnaðarmönnum kennara og formönnum félagsdeilda innan FF sl. mánudag, þegar nýundirritað samkomulag við Samninganefnd ríkisins var til kynningar.

Óhætt er að taka undir þessi orð. Þessi herfilegu mistök ríkisstjórnarinnar lýsa sér í því að á fjárlögum eru engir peningar í þetta verkefni. Í ljósi þess að ríkisvaldið sjálft mat það svo á sínum tíma að innleiðing „nýju laganna“ kostaði a.m.k. 2 milljarða, hljómar orðalagið „herfileg mistök“ eins og sakleysisleg kaldhæðni.

Þrátt fyrir að ljóst hafi verið í september af fjárlagafrumvarpinu að engu átti að kosta til á næsta fjárlagaári að koma lögunum í framkvæmd, skrifaði samninganefnd framhaldsskólakennara undir samkomulag þar sem helstu tíðindin eru 3ja%a launahækkun og stofnun svokallaðs „Vinnumatsráðs“.

Vinnumatsráðið á að leggja fram tillögu að nýrri vinnutímaskilgreiningu kennarastarfsins fyrir árslok 2013, svo það atriði þvælist ekki fyrir í viðræðum um nýjan kjarasamning í aðdraganda þess að núverandi samningur rennur út í marslok 2014.

Þá er einnig til tíðinda í samkomulaginu að SNR hefur „fundið“ peninga, í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að því er virðist, til að kaupa af kennurum ofurlitla vinnu við innleiðingu og námskrársamningu – á yfirvinnutaxta samkvæmt kjarasamningum. En það þykir sérstaklega í frásögur færandi nú um stundir að kennurum sé greitt fyrir vinnu af þessu tagi samkvæmt gildandi kjarasamningum. Hinsvegar hafa verið tíðkaðar „sjóræningagreiðslur“ af ýmsu tagi, utan við kjarasamninga, samkvæmt hentugleikum á hverjum stað, og þarf ekki að fjölyrða um það hvoru megin við löglegan samning þær greiðslur liggja.

Það er öllum ljóst, líka samninganefndunum báðum, að þessir fjármunir sem fundust í ráðuneytinu eru ekki upp í nös á ketti í því risavaxna verkefni sem framundan er. Þeir duga aðeins fyrir um 11 tíma vinnu á hvert stöðugildi framhaldsskólakennara, miðað við meðallaun stéttarinnar. Af þessu er því morgunljóst að alls ekki á að vinna af neinni alvöru að innleiðingu laganna né samningu námskráa. Samt á innleiðingunni að vera að fullu lokið árið 2015, skv. nýjustu áætlunum.

Framhaldsskólakennarar eiga nú að samþykkja að kasta núgildandi vinnutímaskilgreiningum fyrir róða, án þess að hafa neina tryggingu fyrir því hvað þeir fá í staðinn. Því hefur verið haldið mjög á lofti að vinnutímaskilgreiningar kennara séu helsti dragbíturinn á skólastarf og skólaþróun á Íslandi. Til upplýsingar er kennslustundin grunnviðmið í vinnutímaútreikningnum. Í núverandi kerfi er full heimild til þess, m.a. í stofnanasamningum, að semja við kennara um að taka að sér önnur störf en kennslu innan skólanna – gegn kennsluafslætti á móti. Þetta hefur verið gert, svo sveigjanleikinn er fyrir hendi ef menn vilja nýta sér hann.

Hinsvegar er það auðvitað mun hagstæðara fyrir skólameistara, sem berjast í miklum niðurskurði að halda rekstrinum ekki mjög langt neðan við núllið, að kennarar vinni sína fullu kennslu og sinni innleiðingu og námskrárvinnu, ásamt fjölmörgum öðrum störfum sem vinna þarf í skólunum, í töflugötum og á fundum á dagvinnutíma. Þeir geti svo bara sinnt undirbúningi, samráði og yfirferð verkefna á kvöldin og um helgar, í sjálfboðavinnu í frítíma sínum.

Á sama tíma og þetta samkomulag er lagt fyrir kennara til samþykktar eða synjunar í atkvæðagreiðslu liggur það fyrir að þeir hafa dregist í launum langt aftur úr „viðmiðunarstéttum“ innan BHM. Skv. bókun með kjarasamningi á að reikna út og bera saman launaskriðið, og leiðrétta muninn jafnóðum. Munurinn hefur verið reiknaður út og hann nemur nú að meðaltali 60 þúsund krónum á mánuði, kennurum í óhag. Ekkert hefur hins vegar verið gert í því að leiðrétta muninn. Þessi 3ja%a launahækkun sem í boði er, og nást mun 1. desember eftir rúmt ár, segir lítið upp í það ginnungagap. Fjármunir til að kaupa meiri vinnu af kennurum er ekki launahækkun, jafnvel þó það nýmæli eigi að taka upp að borga aukavinnuna samkvæmt kjarasamningi!

Ef vinnumatsráðið á að endurskilgreina vinnutímaviðmið kennarastarfsins og breyta því, án þess að til komi auknir fjármunir til verkefnisins á fjárlögum, þýðir það einungis að ef einn hluti vinnunnar fær aukið vægi (t.d. vegna álags af undirbúningi, nemendafjölda, samsetningu nemendahópsins, eðli kennslunnar (s.s. munar á verknámi og bóknámi)) þá mun annar þurfa að lækka á móti. Sem sagt: Ef kakan er jafn lítil og fyrr, er ekki hægt að stækka eina sneið án þess að minnka aðra. Allir, sem eitthvað vit hafa á kennslu og skólastarfi, sjá hvaða hættu þetta hefur í för með sér.

Undanfarið hefur niðurskurður í skólastarfi bitnað fyrst og fremst á kennurum og nemendum. Þrengt hefur verið stórkostlega að möguleikum margra kennara á að vinna yfirvinnu, t.d. með því að stórfjölga í nemendahópum. Algengt er nú að kennarar kenni sama nemendafjölda í tveimur hópum sem þeir kenndu í þremur hópum áður. Álag á kennara er nú ómanneskjulegt í mörgum skólum. Og ýmsir valáfangar, sem ekki ná háum nemendafjöldatölum, er skornir niður við trog.

Burtséð frá kennurunum, sjá allir að þessi stefna bitnar ekki síst á nemendum. Fá þeir þá faglegu þjónustu, sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt, þegar þeim er hrúgað 30 eða fleiri í bekkina? Er það í anda sveigjanleika og fjölbreytni að fella niður kennslu í fjölmörgum valáföngum, vegna þess að stofurnar eru ekki kjaftfullar út úr dyrum? Er þetta í anda laga sem kveða á um að koma til móts við þarfir, getu og áhugasvið nemenda?

Er þetta faglegt skólastarf?

Allir sjá að svo er ekki. Samt er þessi stefna rekin ár eftir ár. Og svo eiga kennarar að gleypa við því að vinnutímaskilgreiningarnar í starfinu þeirra sé helsti dragbíturinn í íslensku menntakerfi. Þeir eiga að horfa brosandi á algert aðgerðaleysi gagnvart einhliða launaskriði viðmiðunarstétta, sem þó er bókað um í kjarasamningi að eigi að leiðrétta jafnóðum. Þeir eiga að samþykkja að falla frá vinnutímaskilgreiningunum sem þeir hafa og þekkja, í staðinn fyrir fullkomlega þokukenndar hugmyndir um eitthvað nýtt og betra. Þeir eiga að vera svaka kátir yfir því að nú eigi að fara að borga þeim yfirvinnukaup samkvæmt kjarasamningi, fyrir aukavinnu við innleiðingu laga og samningu námskráa. Og þeir eiga að falla á kné af föguði yfir 3ja%a viðbótarlaunahækkun á samningstímanum.

Ég segi nei við því samkomulagi sem skrifað hefur verið undir, og vona að allir aðrir framhaldsskólakennarar segi líka nei í atkvæðagreiðslunni 5. – 12. nóvember nk.

Þetta samkomulag er sannarlega herfileg mistök.

Skrípaleikur og sýndarlýðræði

Nú liggja fyrir niðurstöður úr ráðgefandi og leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland. Niðurstöðurnar voru afdráttarlausar í öllum tilvikum.

Og alþingismenn hafa nú fengið frá þjóðfundi þá ráðgjöf og leiðbeiningu sem þeir þurftu, báðu um – og eiga að taka mark á. Það ætti að vera létt verk hjá þeim að sameinast um að vinna úr þeim skýru skilaboðum sem þjóðin hefur sent þeim?

En það er því miður eins víst og að á eftir sunnudegi kemur mánudagur að raunveruleikinn verður allur annar. Nú streyma þeir á skrifstofu ritstjórans, Sjálfstæðismenn, til að taka við línunni. Og þeir flokkast inn í reykfylltu bakherbergin til að samræma aðgerðir í komandi hernaði gegn þjóðinni. Og svo dreifa þeir sér í skotgrafirnar og láta fýlubombunum rigna yfir almenning. Það er tómur skrípaleikur ef almenningur í landinu setur fram hugmyndir um það hvernig samfélagi það vill búa í. Því það sem samþykkt var til bráðabirgða árið 1944, þegar fólk fagnaði stofnun eigin lýðveldis eftir áratugalanga baráttu, það skal standa til eilífðar. Fólk sem lifir og hrærist í upphafi 21. aldar, það skal ekki voga sér að láta sér detta í hug að heimurinn hafi eitthvað breyst á 70 árum, að það hafi eitthvert vit á því hvað því er fyrir bestu eða að því komi það við hvernig stjórnarskráin hljómar.

Og það er hvorki meira né minna en sýndarlýðræði og jarðvegur fyrir pólitíska spillingu að spyrja þjóðina beint og milliliðalaust hvaða áherslur hún vill leggja um mikilvæg mál í sinni eigin stjórnarskrá. Enda hefur hér enginn jarðvegur verið fyrir pólitíska spillingu frá lýðveldisstofnun, þó illar tungur hafi undanfarin ár verið með á heilanum „svokallað hrun“.

Menn sem nú rembast við að taka meira mark á þeim sem sátu heima en þeim sem mættu á kjörstað og greiddu atkvæði, þeir hafa eitthvað annað í huga en að þjóna almannahagsmunum.

 

Leiðsögn kjósenda

Þjóðaratkvæðagreiðslan næstkomandi laugardag er mikilvæg. Þá gefst þjóðinni tækifæri til þess að leiðbeina Alþingi um það á hvaða grunni það skuli reisa stjórnarskrá lýðveldisins.

Fyrir liggja drög að frumvarpi, sem felur í sér heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að gera það og færa þetta grundvallarplagg okkar til nútímahorfs.

Eins og fyrrverandi formaður og varaformaður stjórnlagaráðs hafa bent á er það í verkahring og á ábyrgð Alþingis að setja nýja stjórnarskrá. Alþingi ákvað að beita lýðræðislegum aðferðum í þessu mikilvæga máli og kallaði saman „þjóðfund“ sem valinn var með slembiúrtaki. Þjóðfundurinn skilaði af sér hugmyndum um það hvaða áherslur skyldi leggja í nýrri stjórnarskrá. Alþingi skipaði stjórnlagaráð til að semja drög að frumvarpi úr niðurstöðum þjóðfundarins. Drögin eru málamiðlun fólks með ólíkan bakgrunn og ólíkar skoðanir. En þau byggja á hugmyndavinnu þjóðfundarins.

Þess vegna er mikilvægt að nýta þennan grunn. Þetta er ekki stjórnarskrárfrumvarp þar sem vinstrimenn hafa þvingað inn hugmyndum sínum í krafti skammvinnra pólitískra valda, eins og halda mætti miðað við viðbrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarmanna. Reyndar er Sjálfstæðisflokkurinn einn um það að ganga svo langt að semja sína eigin stjórnarskrá inni á flokkskontórnum.

Alþingi hefur þvert á móti leitað út fyrir hugmyndalegar girðingar stjórnmálaflokkanna. Það eitt eru meðmæli með hugmyndunum. Samþykktir Alþingis í þessu máli eru meðal skynsamlegastu ákvarðana sem það hefur tekið. Og sýnir að núverandi alþingismönnum er ekki alls varnað.

Nú er komið að okkur, íslenskum kjósendum. Það er okkar hlutverk að veita Alþingi þá leiðsögn sem það hefur kallað eftir, til að halda áfram með málið. Alþingismönnum ber að taka mark á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október nk. og semja frumvarp í samræmi við þær niðurstöður sem þar koma fram. Þar er engum undankomu auðið.

Þetta er heldur á engan hátt flókin kosning, eins og haldið hefur verið fram. Spurt er nokkurra spurninga og svarmöguleikar við hverri þeirra aðeins tveir: „já“ og „nei“. Annað hvort vill kjósandinn að plagg stjórnlagaráðs verði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár, og krossar þá við „já“, eða ekki, og krossar þá við „nei“. Þó sagt sé „já“ við þessari spurningu þýðir það ekki að ómögulegt sé að segja „nei“ við einhverri hinna. Með því er kjósandi aðeins að segja að hann samþykki grundvöllinn, að frádregnu þessu eða hinu atriðinu. Það sama gildir ef sagt er „nei“ við upphafsspurningunni, en „já“ við einhverri hinna. Með því kemur aðeins fram sú skoðun að viðkomandi sé ósammála grundvellinum en vilji samt sem áður að eitthvert atriðanna á kjörseðlinum verði í nýrri stjórnarskrá. Hvað er flókið við þetta?

Ég ætla að mæta á kjörstað. Og ég ætla að segja „já“ við fyrstu spurningunni. En ég gæti alveg átt það til að segja „nei“ við einhverri af þeim sem á eftir koma. Mér finnst það hvorki óljóst né flókið. Ég tek mark á því þegar Alþingi kallar eftir leiðsögn í þessu mikilvægasta máli samtímans og lít á það sem skyldu mína að bregðast við.

En ég krefst þess líka að Alþingi, bæði það sem nú situr og það sem kosið verður næsta vor, taki mark á leiðsögn kjósenda, sem það hefur sjálft kallað eftir.

Kennarar

Alþjóðadagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni fylgir Fréttabréf Kennarasambands Íslands með Fréttablaðinu, fjórblöðungur með greinum, viðtölum og stuttum innslögum. Margt er þar sagt fallegt um kennara. Og kennarar eiga það sannarlega skilið að um þá og starf þeirra sé talað fallega og af virðingu.

Þó misjafn sé sauður í mörgu fé, og sumt fólk eigi um sárt að binda eftir viðskipti sín við hina svörtu sauði í kennarastétt, þá er þessi dagur ekki dagurinn til að fjalla um það. Því lang-, langflestir kennarar eru til fyrirmyndar. Og þeir eru hvorki meira né minna en „þungamiðjan í skólakerfinu – þeir eru vélin sem lætur allt ganga áfram og eru lykill að allri framþróun í skólamálum“ og samvinna við þá er forsendan fyrir því „að skólinn geti verið það hreyfiafl í samfélaginu sem hann þarf að vera til að hér byggist framsækið samfélag“, segir menntamálaráðherrann okkar í fréttabréfinu.

Og skólarnir unnu hvorki meira né minna en kraftaverk í og eftir hrunið. „Kennurum tókst að vernda vinnustað barnanna okkar fyrir streitunni í samfélaginu […]. Þeim verður seint fullþakkað“, segir alþingismaðurinn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, og bætir við: „Sem stjórnmálamaður stend ég með því að kennarar fái góða menntun, skapandi starfsumhverfi og laun í samræmi við ábyrgð.“

Landssamtökum foreldra „er umhugað um velferð skólabarna“ og samtökin vita „að kennarinn skiptir þar sköpum“, segir Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla. „Eitt helsta mótunarafl í lífi barna okkar fyrir utan okkur foreldra er skólinn. Þar gegna kennarar lykilhlutverki“, segir Margrét Valgerður Helgadóttir, formaður SAMFOK.

Og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, vill „standa með kennurum í því að auka starfsánægju og bæta vinnuaðstæður þeirra“.

Já, mikil er ábyrgð kennara. Og seint verður þeim fullþakkað fyrir að tryggja velferð og leika lykilhlutverk, bæði við mótun barnanna og framþróun alls samfélagsins. Ætli önnur starfsstétt beri öllu meiri og augljósari ábyrgð, til lengri tíma litið?

En hvernig eru þær starfsaðstæður sem þessu kraftaverkafólki, íslenskum kennurum, er boðið upp á? Þær hljóta náttúrulega að vera til fyrirmyndar? Enginn getur verið svo glámskyggn að vilja draga úr starfsárangri stéttar sem ber ábyrgð á velferð og mótun barnanna, já framþróun samfélagsins alls, með því að bjóða henni upp á eitthvað annað en bestu hugsanlegar aðstæður? Eða hvað?

Allir vita auðvitað að raunveruleikinn er ekki svona. Síðastliðinn miðvikudag var haldinn aðalfundur Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fundurinn samþykkti einróma ályktun þar sem lýst var yfir

miklum áhyggjum vegna viðvarandi aukins álags á félagsmenn í starfi. Undanfarin ár hafa kennarar í F.Su. sýnt einhug og samstöðu með stjórnendum stofnunarinnar í sparnaðaraðgerðum vegna niðurskurðar á fjárframlögum frá ríkisvaldinu. Mikil fjölgun nemenda í námshópum og sífellt fleiri og flóknari verkefni, utan hefðbundinnar kennslu, auka streitu og koma niður á gæðum kennslunnar. Það er mat fundarins að nú sé komið að þolmörkum. Hópar með 30 eða fleiri nemendum, önn eftir önn, og dæmi um námshópa í undirbúningsnámi sem telja 27 nemendur, eru langt utan skynsamlegra marka. Fundurinn telur að við núverandi aðstæður sé brotið á faglegum starfsheiðri kennara sem og lögbundnum rétti nemenda til einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja fjárhagslegan grundvöll faglegs skólastarfs og stjórnendur skólans að koma starfsaðstæðum í viðunandi horf við upphaf vorannar 2013.

Auk þessa taldi fundurinn „augljósa þörf á aukinni sérfræðiþjónustu innan skólans, til að sinna hluta þeirra starfa sem nú eru í höndum almennra kennara og náms- og starfsráðgjafa.

Þessar ályktanir lýsa vel starfsaðstæðum kennara almennt, og um leið grundvallarvanda skólakerfisins.

Og allir vita auðvitað líka að yfirlýsingar eins og þær sem Katrín menntamálaráðherra og þingmaðurinn Sigríður Ingibjörg gefa í Fréttabréfi KÍ á Alþjóðadegi kennara eru varla annað en marklaus belgingur á hátíðisdegi, þó sjálfsagt meini þær vel, og ég fyrir mína parta treysti þeim báðum betur til góðra verka en flestum öðrum þingmönnum. Þetta eru bara svo gamalkunnug stef á Íslandi.

Því eins og formaður Skólameistarafélags Íslands segir þá hafa kennarar áratugum saman „staðið vaktina fyrir alltof lág laun og unnið að menntun og uppeldi ungs fólks af eldmóði og hugsjón. Þeir hafa skilað þessu unga fólki út í samfélagið færu til að takast á við margháttað nám og störf“ á skítakaupi við sífellt erfiðari aðstæður, sífellt meiri kröfur um einstaklingsmiðaða þjónustu, sífellt fjölbreytilegri nemendahóp, sífellt flóknari persónuleg úrlausnarefni, án þess þeim sé um leið gert kleift að veita þá lögbundnu þjónustu með því t.d. að fækka nemendum í bekkjunum og auka sérfræðiþekkingu innan skólanna.

„Þjóð sem metur ekki vinnu kennara hverfur aftur til miðalda. Það eru kennararnir sem eiga að fræða börnin um heiminn, og til að geta það þurfa þeir að fá góð laun og búa við aðstæður sem gera þeim kleift að bæta sífellt kunnáttu sína og þekkingu“, segir Kristín Marja Baldursdóttir, rithöfundur, af sínu skynsamlega viti.

Slitastjórnalögfræðingar raka til sín stjarnfræðilegum fjárhæðum með sjálftöku og helstu ábyrgðarmennirnir fyrir bankahruninu gera sér ekki að góðu tugi milljóna, heldur heimta hundruð milljóna í einhverskonar skaðabætur eða vangreidd laun, í skjóli meintrar „gríðarlegrar ábyrgðar“ sinnar. Þetta eru mennirnir sem hafa haft af kennurum og öðrum þegnum landsins eigur og ævisparnað. Á sama tíma lepja kennarar dauðann úr skel við hörmulegar starfsaðstæður. Er þetta, án gríns, að meta ábyrgð til launa? Sigríður Ingibjörg?

Það er líka forvitnilegt að lesa hvernig formaður sambands sveitarfélaga vill standa með kennurum og bæta starfsánægju og vinnuaðstæður þeirra. Hann vill „taka upp nýtt vinnutímafyrirkomulag“ og „sveigjanlegri kennsluskyldu“. Hvað á hann við með því? Jú, það sem býr að baki er að skólastjórnendur geti hundnýtt kennara, í hvaða störf sem er, þær stundir vinnudagsins sem þeir eru ekki með nemendum inni í skólastofu. Þetta hefur lengi verið baráttumál sveitarfélaganna, eftir að þau tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ætli það bæti starfsánægju kennara?

Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Ingibjörg og Halldór Halldórsson. Hækkið þið fyrst laun kennara svo sómi sé að. Aukið næst fjárframlög til skólanna, svo hægt sé að fækka nemendum í námshópum og fjölga starfsfólki með fjölbreytta sérfræðimenntun. Þá munu kennarar fyrst eiga möguleika á því að sinna hverjum og einum nemanda á hans forsendum, eins og lög kveða á um. Þá munu þeir líka glaðir taka með ykkur á „úreltum, miðstýrðum vinnutímaskilgreiningum“ og öðrum vanda skólakerfisins. Og ef eitthvað er að marka fagurgalann munu skólabörnin njóta góðs af og þjóðin svo blómstra í framtíðinni.

Hætt er samt við því að lítið þokist í rétta þátt. Því ef þetta ágæta fólk myndi láta athafnir fylgja orðum sínum um kennara og kennarastarfið, skapa þeim viðunandi aðstæður og borga laun í samræmi við ábyrgð, þá yrði allt sjóðvitlaust í þjóðfélaginu.

Fremstir í fordæmingunni færu forkólfar verkalýðsfélaga, eins öfugsnúið og það nú er. Fast á hæla þeim kæmu forkólfar atvinnrekenda. Og í kjölfarið allir hinir niðurrifsbesserwisserarnir, sem á hátíðisdögum setja þó á fagurgala um nánast ómannlega ábyrgð kennara og mikilvægi kennarastarfsins.