Lífs míns á vegi

Í dag eru 30 ár frá því ég hitti konuna mína fyrst. Ég var tæpra 22 ára gamall þennan apríldag þess dásamlega vors árið 1983, ekkert annað en unglingsgrey sem lítið vissi um það sem máli skiptir í lífsbaráttunni, þó ég þættist náttúrulega hafa svör á reiðum höndum við flestu, eins og gengur.

Þetta var sem sagt vorið þegar útskriftin úr Kennó var á næsta leiti og býsna margt að gerast – allt skemmtilegt. Við kynntumst fyrir algera tilviljun, í gegnum sameiginlega vini, á skemmtistað í Reykjavík sem þá var í móð og hét Hollywood. Við vorum samt alveg ábyggilega bæði ‘úr móð’ þarna inni, innan um diskóliðið. Vonandi bæði hallærisleg og sveitó í þeim samanburði. En náðum svona ljómandi vel saman, eitthvað.

Þeir sem þekkja Önnu Maríu vita hve yndisleg hún er í alla staði, svo ég þarf ekkert að útmála það hér, hún lýsir sér best sjálf. En í tilefni dagsins birti ég hér afmæliskvæði sem ég orti einu sinni til hennar:

Ástin mín

Lífs míns á vegi,
vakir enn minningin
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.

Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.

Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá  skil – þar duga skammt
skilningarvitin.

Dásemdir hreinar:
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.

Af „sanngjörnum ábataskiptum“

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara, sem haldinn var föstudaginn 12. apríl síðastliðinn, héldu erindi, undir liðnum Kjaramál, samningar og staða framhaldsskólans, þau Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari Kvennaskólans, Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ og Guðmundur H. Guðmundsson, frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þetta fólk flutti okkur, óbreyttum „fulltrúunum“, tíðindin af stöðu mála í íslenska framhaldsskólakerfinu og launakjörum framhaldsskólakennara. Ekki verður sagt að neitt nýtt hafi komið fram, sem við vissum ekki fyrir, fremur tölfræðilegar staðfestingar á þeim nöturlega veruleika sem blasir við nemendum og starfsfólki í skólunum á hverjum degi. Meginniðurstaðan er sú að skólakerfið, alveg eins og heilbrigðiskerfið, verður rústir einar innan skamms ef ekki verður rækilega spyrnt við fótum.

Í máli Ingibjargar kom fram að dagvinnulaun í framhaldsskólunum hafa að meðaltali dregist saman um tæp 2% frá 2007, yfirvinna um 36,6% og ýmsar aukagreiðslur um 48%. Þrátt fyrir þennan gríðarlega sparnað í launakostnaði hafa launatengd gjöld hækkað um 7,6% á sama tíma! Rekstrarkostnaður skólanna (annar en laun) hefur verið skrúfaður niður um 64%.

Á meðan á þessu hefur gengið hefur ársnemendum fjölgað mikið, skólarnir þjóna nú 3982 fleiri nemendum en þeir gerðu árið 2007, en fjölgunin ein kostar 3,2 milljarða. Meðal annars hafa skólarnir tekið þátt í því átaki með stjórnvöldum að hvetja atvinnuleitendur til að drífa sig í skóla í atvinnuleysinu og bæta þannig stöðu sína. Til að tryggja þessum tæplega 4000 fleiri nemendum „besta atlæti“ hefur starfsfólki skólanna verið fækkað á sama tíma um 3,4% og heildarlaunakostnaður á hvert stöðugildi dreginn saman um 11%. Við allan þennan niðurskurð hefur rekstrarkostnaður hvers ársnemanda í framhaldsskólakerfinu lækkað um meira en 100 þúsund krónur, fjárheimildirnar úr 813 þúsund og niður fyrir 695 þúsund.

Samtals er sparnaðurinn 10,5 milljarðar í ríkisskólunum á fimm árum og með „einkaskólunum“ bætist við tæpur einn og hálfur milljarður: samtals 12 milljarða niðurskurður í framhaldsskólakerfinu. Til að bæta gráu ofan á svart verður að geta þess að inni í þessum tölum eru aðeins nemendur sem hafa skilað sér til prófs, ekki allir nemendurnir sem skólarnir hafa „þurft að kosta upp á“.

Til að ná þessum „árangri“ hefur þurft að „auka afköstin“ hjá hverjum kennara með því að stækka námshópana og skera grimmilega niður fámenna valáfanga, helst að bjóða upp á sem fæst annað en almenna kjarnaáfanga, þar sem hægt er að stappa inn sem næst 30 nemendum, helst fleiri.

Formúlan er þessi: Fleiri nemendur » færri störf » stærri hópar. Þá er bara spurningin hvort niðurstaðan sé betri námsárangur? En kannski er það ekki markmiðið með rekstri skólakerfis á landinu bláa? Kannski er einmitt meginmarkmiðið að minnka kostnaðinn, hvað sem það kostar?

Auðvitað vitum við kennarar allt um þetta, þ.e.a.s. hver áhrifin eru á daglegt starf í skólunum. Þar ríkir víða hörmungarástand og margir kennarar að bugast undan ómanneskjulegu álagi. Að ekki sé talað um nemendurna sem njóta ekki þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á, lögum samkvæmt.

Niðurskurður í skólakerfinu er heldur engin nýlunda, eða fylgifiskur efnahagshrunsins. Jafnvel á árunum fyrir hrun, þegar tekjur ríkissjóðs voru í sögulegu hámarki, var markviss og grímulaus niðurskurður hafinn, jafnvel þegar á fyrstu árum 21. aldar. Að þessu leyti eru heilbrigðiskerfið og skólakerfið saman á báti.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins ræddi á fundinum m.a. tilgang og markmið þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið Nýskipun í ríkisrekstri, eða New public management á erlendum tungum, og á rætur sínar í nýfrjálshyggju 10. áratugar 20. aldar. Ekki verður farið náið út í þá sálma hér, en þó hent á lofti orð hans um einn megintilgang svokallaðra „stofnanasamninga“ sem voru mikilvægur liður fyrrnefndar stefnu, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð einstakra stofnana. Grundvallarhugsunin var sú að ef stjórnendur næðu fram hagræðingu í rekstri átti stofnunin sjálf að njóta hluta ábatans. Þannig átti t.d. skólameistari að geta umbunað starfsmönnum sínum með auknum fríðindum eða hærri launum ef þeim tókst í sameiningu að lækka rekstrarkostnaðinn. Kennari væri þá (vonandi) tilbúinn til að leggja meira á sig í þeirri vissu að honum yrði umbunað með sanngjörnum hætti fyrir aukið álag. Þetta kallaði Guðmundur „sanngjörn ábataskipti“ og sagði vera eina af grunnforsendum stofnanasamninga.

Í praktíkinni hefur kennarinn aftur á móti ekki orðið var við nein ábataskipti, hvorki sanngjörn né ósanngjörn. Engum ábata hefur nefnilega verið skipt. Öll þau „vötn“ sem undin hafa verið af sífellt meira afli út úr hverjum kennara hafa fallið í eina átt – til Ríkisfjarðar. Þessa praktík, sem iðkuð hefur verið nánast alla tíð frá upphafi stofnanasamninga, kallaði fulltrúi fjármálaráðuneytisins réttilega forsendubrest, með vísan í tískuyrði samtímans. Hvaða stjórnmálaflokkar ætli hafi leiðréttingu vegna þessa forsendubrests á stefnuskrá sinni fyrir komandi kosningar?

Hagfræðingur KÍ gerði að umtalsefni misjafna „virðingu“ þjóða fyrir kennarastarfinu. Hann setti dæmið þannig upp að af vergri landsframleiðslu á mann fengi íslenskur meðalkennari aðeins 0,85%. Þetta þýðir að ef vergri landsframleiðslu væri skipt í jafnar kökusneiðar eftir íbúafjölda, miðað við að allir fengju eina sneið, þá duga kennaralaunin ekki fyrir einni meðalsneið, heldur aðeins 85%-um af henni. Það er því óhætt að segja að skorið sé við nögl handa kennurum og þeir séu í þessu tilliti undirmálsstétt í íslensku samfélagi. Til samanburðar fá kennarar í OECD-ríkjum eina heila sneið og 1/3 af annarri, í Danmörku eina heila sneið og næstum 2/3 af annarri, sem er hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum, og í Tyrklandi munu kennarar metnir ríflega tvígildir (2,03 sneiðar), sem dugar víst fyrir svipuðum launum og kennarar fá á Íslandi. Þetta var býsna forvitnilegt sjónarhorn, þótti mér.

En þetta vitum við kennarar allt saman ósköp vel. Við höfum reynt það á eigin skinni.

Skólameistari Kvennaskólans lét svo um mælt að ekki yrði gengið lengra eftir braut afkastaaukningar með stækkun námshópa. Eitthvað annað yrði undan að láta.

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Árum saman hefur dunið á kennurum og þjóðinni allri að engin þróun sé möguleg í skólakerfinu, þar standi allt fast og þversum – vegna vinnutímaskilgreininga í kjarasamningum kennara. Í þeim söng hafa sveitarfélögin sungið hæstu raddirnar, með Samband íslenskra sveitarfélaga sem forsöngvara, eftir að sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ríkisvaldið, bæði ýmsir ráðherrar og alþingsmenn, hafa svo tekið hraustlega undir í dramatískum aríum.

En um hvað snýst þessi söngur? Hann snýst um það að í kjarasamningum er skilgreint hve margar kennslustundir kennari í fullu starfi skuli kenna í viku hverri. Þetta er kallað kennsluskylda. Með þessu fyrirkomulagi er það viðurkennt að kennarastarfið sé viðameira en bara að standa (eða sitja eftir atvikum) yfir nemendum inni í kennslustofu. Það að fjöldi stunda í kennsluskyldu sé ekki jafn og vikulegur vinnustundafjöldi flestra annarra stétta er viðurkenning á því að til þess að geta „kennt“ sómasamlega þurfi kennarinn bæði að undirbúa sig fyrir samveruna með nemendum og líka að „ganga frá“ á eftir (námsmat o.fl.).

Þetta virðist bæði eðlilegt og sjálfsagt fyrirkomulag. Allir hljóta að sjá það að kennari getur ekki „kennt“ látlaust frá átta til fjögur, fimm daga vikunnar. Fyrir utan að slíkt fyrirkomulag myndi bitna hvað harðast á nemendunum, þá myndi það fljótt gera út af við kennarana, því starfinu fylgir fyrst og fremst mikið andlegt álag, og framleiðsla á nýjum kennurum er ekki slík hér á landi að dygði til að fylla í skörðin. Fyrir nú utan það að geðheilbrigðisþjónustan réði alls ekki við vandann, eins og henni er ástatt.

Nýverið var vinnutímaboltinn enn hentur á lofti. Tilefnið var vinnudeila danskra kennara og sveitarfélaga. Í fréttum RÚV var vitnað í einhver danskan sem fullyrti að vinnutímaskilgreiningar kennara þar í landi væri hinn mesti dragbítur á allt skólastarf. Og í kjölfarið var bæjarstjórinn í Hveragerði dubbaður upp til að taka undir þennan söng fyrir hönd íslenskra skólarekenda. Boðskapur bæjarstjórans var ekki uppbyggilegur: í íslenskum skólum væri öll þróun í kaldakoli vegna þess að vinnutími kennara væri rígbundinn í kjarasamningum. Skilja mátti að ef tækist að leysa þá hörðu hnúta myndi allt horfa til betri vegar. Framþróun hæfist loks. Og bæjarstjórinn klykkti út með því í viðtalinu að auðvitað ætti að nýta starfskrafta kennara í það sem þeir gera best: að kenna!

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að því meira sem kennarar kenni, því betra verði skólastarf. Því þeir eru bestir í kennslu. Og best verður skólastarfið auðvitað með því að láta kennarana gera sem mest af því sem þeir eru bestir í.

Vonandi sjá allir heilvita menn rökleysurnar og öfugmælin í þessu viðhorfi. Hvernig þrælpíning kennara leiðir til betra skólastarfs er nefnilega vandséð.

Bæjarstjórinn gat þess ekkert í viðtalinu að með því að láta kennarana gera meira af því sem þeir eru bestir í, kenna meira – fleiri tíma á viku, þá geta sveitarfélögin, og ríkið í sínum hluta skólakerfisins, fækkað kennurum umtalsvert og sparað stórar fjárhæðir.

Ætli refirnir séu ekki til þess skornir?

Hér er sem sagt kominn nýr afleggjari af þeim vegi sem skólameistari Kvennaskólans fullyrti að væri til enda genginn. Það er ekki hægt að stækka bekkina meira. En það er einlæg ósk og ásetningur íslenskra skólayfirvalda að láta kennarana kenna meira innan dagvinnumarka. Miklu meira. Til þess þarf að brjóta niður vinnutímaskilgreiningarnar í kjarasamningum þeirra.

Og svo þarf líka að stytta nám til stúdentsprófs. Skera burt dálítið af stærðfræði, tungumálum og öðrum óþarfa. Já, alveg rétt. Styttingin á m.a. að vinna bug á hinu mikla og eilífa brottfalli, sem er helsti höfuðverkur íslenskra stjórnmálamanna. Stundum virðist hlutfallstala brottfallinna í samanburði við „viðmiðunarlöndin“ vera það eina sem þeim hefur tekist að festa hönd á í umræðu um íslenska skólakerfið. Flóknari breytur í þeim samanburði virðast þeim oftast huldar þokumóðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það eru ekki vinnutímaskilgreiningar kennara sem standa í vegi fyrir þróun skólakerfisins. Í fyrsta lagi er stöðug og öflug þróun víða í skólakerfinu, þökk sé hugsjónaeldi kennara, og það er orðið fjári þreytandi að hlusta á stjórnmálamenn ómerkja það starf allt með stöðugu tali sínu um annað. Í öðru lagi er nægur sveigjanleiki í kjarasamningum kennara til að kaupa meiri vinnu af þeim sem kæra sig um að vinna meira.

Það sem skortir hins vegar er aukið fjármagn inn í skólakerfið. „Það vantar fóður í stofnanasamningana“, sagði skólameistari Kvennó. Skólameistarar fá ekki fé til að reka skólana. Fjármagnið sem þeir fá til að greiða kennurum laun er 16% lægra en meðalkennaralaunin sannanlega eru, þó lág séu! Alþingi hefur verið duglegt undanfarin 40 ár að setja ný lög, á öllum skólastigum. Alþingi hefur hins vegar ALDREI látið nýjum lögum fylgja þær fjárveitingar sem það sjálft hefur þó látið reikna út að innleiðing nýrra laga kosti. Þarna liggur meginvandi íslenska skólakerfisins. Og sveitarfélögin eru ekkert skárri en ríkið þegar kemur að rekstri skóla, nema síður sé.

Á undanförnum fimm árum hefur verið skorið niður í framhaldsskólunum um 12 milljarða. Þegar búið er að skila þeim til baka, og bæta svo einhverjum milljörðum við, þá skulum við fara að tala saman.

Laus við allt stress

Það eru liðnir rúmir þrír mánuðir síðan ég skrifaði síðast pistil hér á síðuna.  Ekki svo að skilja að nokkur maður sakni þess, en ástæðurnar fyrir þessari löngu „þögn“ eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur verið afar mikið að gera. Vinnan vill þvælast fyrir manni, fram á kvöld og um helgar líka. Svo er nóg að gera í tamningunum. Karlakórinn, Árgali. Að ekki sé talað um alla körfuboltaleikina sem bæði er ljúft og skylt er að sækja.

Ég er búinn að skrifa svo mikið um mennta- og skólamál að ég nenni því ekki lengur, í bili a.m.k. Í annríkinu kemur svo andinn ekki almennilega yfir mann – alla vega lætur ekkert birtingarhæft á sér kræla.

Og pólitíkin, maður lifandi! Hún er með slíkum endemum að þyrmir alveg yfir mann. Best að hafa ekki orð um það meir.

Nú berast af því fréttir að Smugan sé að lokast. Þá er kannski best að geyspa einhverju frá sér, með golunni?

Það bar helst til tíðinda að við hjónin brugðum okkur í bústað í eigu stéttarfélagsins um liðna helgi.

Sælt er að leigja sumarhús,
saman þar má rækta
urtir fagrar í andans krús,
ást af brunni nægta.

Það er ágætt að hverfa af hversdagssviðinu, þó ekki sé nema í tvo daga,  stutt að fara upp í Hrunamannahrepp, svo ekki þarf að hafa áhyggjur af ferðaþreytu, sem gjarnan situr eftir þegar lengra er farið, að ekki sé talað um til útlanda í stuttum fríum. Og einn er meginkostur við Hreppana:

Frá vinnu gefst í Hreppum hlé,
hvíldar njóta skal.
Þar öllu bjargar að ég sé
upp í Laugardal.

Það má svo sem líka viðurkenna að víðar er fallegt heim að líta en í Laugardalinn. Reyndar er gjörvallur fjallahringur uppsveitanna óborganlegur. Ekki síst úr heita pottinum á heiðskíru vetrarkveldi. Þegar upp úr er komið er skrokkurinn líka alslakur:

Sæll ég niðr’ í sófann féll,
sá þá út um gluggann
að blasti við mér Bjarnarfell:
Breiddi sæng á muggan.

Í slíkum ferðum gerir maður sér dagamun í mat og drykk. Að þessu sinni var hvergi til sparað og hrossasteik í farangrinum, ásamt góðum veigum:

Bjór og hvítvín á kantinum.
Kjötið bráðnar í trantinum.
Laus við allt stress
vöknum við hress.
Svo funar kaffið í fantinum.

Þetta reyndist unaðsleg helgi. Og það besta við hana var að geta í bili látið fram hjá sér fara mestallt sigmundarlodderíið. Nóg verður víst samt á næstunni.

 

 

 

Þetta er allt á uppleið

Fyrir 15 mánuðum skrifaði ég pistil hér á síðuna um brunaútsölu á húsnæðisskuldum íslenskra heimila úr gömlu, föllnu bönkunum til þeirra „nýju“ – auðvitað útsölu „án auglýsingar“ enda slík skuldakjör ekki fyrir meðalflónin, heldur einungis alvöru stórskuldara, eins og dæmin hafa sannað æ síðan.

Í pistlinum rakti ég hvernig efnahagsstefna og pólitík Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á tveggja áratuga samfelldri valdatíð fyrir hrun, færði húsnæðisskuld okkar hjóna upp um heil 40% á einni nóttu, án þess að við getum með nokkrum rétti eignað okkur neinn hlut í þeirri hækkun, því miður.

Skuldin á litla raðhúsinu okkar hækkaði sem sagt úr 18,4 milljónum í 25,3 milljónir og um leið minnkaði eignarhluturinn úr 25% og niður fyrir núll. Nýi bankinn fékk 25,3 milljóna skuldina okkar á hálfvirði en rukkar okkur auðvitað um hverja krónu. Það er ekki afskrifað nema hjá alvöru stórskuldurum og þeim sem sannanlega eru farnir á hausinn.

Og hvað hefur gerst á þessum 15 mánuðum sem liðnir eru frá því ég skrifaði þennan pistil, með nokkuð súrt bragð í munni.

Ríkisstjórnin og talsmenn hennar þreytast ekki á því að tilkynna okkur veslingunum sem þó borgum skatta og skyldur með rentum mánaðarlega að nú sé allt á uppleið í þjóðfélaginu. Best ég fari nú aftur í heimabankann minn og tékki á stöðunni.

Hún er í stuttu máli sú að upphaflegu 18,4 milljóna lánin frá 2005 sem höfðu endurfæðst eftir hrun í 25,3 milljónum standa nú í 26.823.209 krónum, þar af rúmlega 970 þúsund á svokölluðum jöfnunarreikningi vegna „greiðsludreifingar“ sem við urðum náðarsamlegast að þiggja svo mánaðarlaunin dygðu fyrir húsnæðisskuldunum. Vel að merkja: þarna eru lifandi komin úrræðin við „skuldavanda heimilanna“.

Á 15 mánuðum hafa húsnæðisskuldir heimilisins því hækkað um 1,5 milljónir, þrátt fyrir að borgað hafi verið samviskusamlega samkvæmt útreikningi bankans, nú síðast mánaðargreiðsla upp á kr. 165.342,-. Á 15 mánuðum gerir það kr. 2.480.130 krónur.

Við erum sem sagt búin að borga tæpar 2,5 milljónir síðustu 15 mánuðina til að hækka húsnæðislánið okkar um 1,5 milljónir. Það eina sem ég skil ekki í þessum reikningum er hvað varð um þessa u.þ.b. einu milljón sem upp á vantar? Sem sagt: Ef ég borga 2,5 milljónir inn á lánið mitt – hvers vegna hækkar það þá ekki um sömu upphæð?

Það er víst algengur misskilningur víða í útlöndum að þegar menn borga af skuldum þá eigi þær að lækka. En þetta vita flestir venjulegir Íslendingar að er helber blekking. Því meira sem þú borgar, því meira skuldar þú. Það eru ekki nema örfáir eðalmálmar frá eyjunni fögru, sem eru hagvanir í útlöndum, sem vita að skuldir er einfalt að láta hverfa með hókus-pókus trixum.

En boðskapur stjórnvalda er sem sagt hárréttur – þetta er allt á uppleið. Og af þessu litla dæmi úr heimabankanum mínum, þar sem heilli milljón króna munar á innborgun minni og hækkun lánsins, bankanum í óhag, má glöggt sjá að heilmiklir fjármunir, sem vel gætu nýst til enn frekari hækkana, fara í raun forgörðum.

Ríkisstjórnin getur því gert mun betur.

 

Jólakveðja 2012

Sendi ættingjum og vinum, og landsmönnum öllum, „hugheilar jólakveðjur“ og óskir um farsæld í bráð og lengd.

Er skuggarnir skríða’ upp á hól
í skammdegi, norður við pól,
þá á ljósið skal benda
og með logunum senda
gæfu og gleðileg jól.

Enn sækja að freistingafól,
með falsið og innantómt gól.
En lausnin er kær:
Líttu þér nær
um gæfu og gleðileg jól.

Hve Siggi er sætur í kjól!
Já, og Solla með tæki og tól!
Ef mót straumi þið syndið
veitir umburðarlyndið
gæfu og gleðileg jól.

Í fjölskyldufaðmi er skjól.
Hann er friðar og kærleikans ból.
Þar ávallt þú veist
að geturðu treyst
á gæfu og gleðileg jól.

Metnaðarfullt menningarverkefni

Þrátt fyrir ungan aldur er Karlakór Hreppamanna fjölmennur og öflugur og óhætt að fullyrða að hann hafi afrekað margt. Eftirminnilegir eru tónleikar til heiðurs Sigurði Ágústssyni á aldarafmæli hans og annar hápunktur í starfi kórsins er tvímælalaust mögnuð tónleikaröð til heiðurs Franz Liszt á 200 ára afmæli snillingsins haustið 2011.

Menningarráð Suðurlands hefur nú í þriðja sinn ákveðið að veita kórnum menningarstyrk, sem sýnir best hve metnaðarfullt starf hans er. Styrkurinn í ár er veittur kórnum til að takast á við óperutónlist, með tónskáldin Verdi og Wagner í forgrunni, en árið 2013 eru 200 ár frá fæðingu beggja þessara meistara. Æft verður af krafti í vetur og síðan eru fyrirhugaðir fernir tónleikar næsta vor, tvennir á Suðurlandi og tvennir á höfuðborgarsvæðinu.

Kórinn hefur í þessu verkefni fengið til liðs við sig tvo þekkta einsöngvara til að túlka allt litróf óperutónlistarinnar. Það eru þau Gissur Páll Gissurarson og Elsa Waage sem slegið hafa í gegn undanfarið, Elsa nú síðast á sviði Hörpu í magnaðri uppfærslu á óperu Verdis, Il Trovatore, sem hópur kórfélagar sá saman fyrr í haust.

Auk tónleika hér á landi mun kórinn halda til Ítalíu næsta haust og syngja á tónleikum á vegum FENIARCO (Federazione Nazionale Italiana Associazioni Corali Regionali), sem eru kórasamtök þar í landi. Því er ekki að leyna að töluverður spenningur er innan kórsins fyrir því verkefni að syngja í föðurlandi óperunnar og anda að sér tónlistarmenningunni með ítölskum söngbræðrum og systrum.

Það er von okkar í Karlakór Hreppamanna að Sunnlendingar, og landsmenn allir ef út í það er farið, taki þessu menningarbrölti öllu saman vel. Það er ekki sjálfgefið að kór af þessu tagi, skipaður áhugamönnum, flestum alls ómenntuðum í söng og tónlistarfræðum, ráðist í slík stórvirki.

Heiðurinn að listrænum metnaði kórsins á stjórnandinn, Edit Molnár, sem hefur árum saman unnið ötullega að því markmiði að færa Sunnlendingum helstu tónlistarperlur heimsins og víkka um leið listrænan sjónhring þeirra. Heimslistin er nefnilega ekki bara fyrir einhverja elítu „fyrir sunnan“. Henni til fulltingis í starfi sínu er svo afburða píanóleikari, Miklós Dalmay, sem setur sterkan svip á kórstarfið með sinni leiftrandi glettni, fyrir utan að taka sjálfum sér sífellt fram með snilldarleik á flygilinn.

Þann 21. nóvember sl. var Karlakór Hreppamanna í útvarpi allra landsmanna. Á Rás 1 er þátturinn Raddir, sem þennan dag var helgaður kórnum. Þáttinn, með söng kórsins og viðtölum við stjórnanda hans og nokkra kórfélaga, er hægt að hlusta á með því að smella á þennan tengil.

 

Kjarabarátta bak við luktar dyr?

Það var forvitnilegt að hlusta á hádegisfréttirnar í dag. Hjúkrunarfræðingar eru komnir af stað af fullum þunga í sína kjarabaráttu. Ekki er að sjá að sú kjarabarátta fari eingöngu fram milli fulltrúa samninganefnda bak luktra dyra – og að forsvarsmenn stéttarfélagsins feli sig á bak við einhverja „friðarskyldu“.

Hjúkrunarfræðingar eru komnir í bullandi „ímyndarbaráttu“ um allt þjóðfélag. Þeir koma sér í hádegisfréttirnar og láta heyra í sér. Og skafa ekkert af því. Enda engin ástæða til. Hjúkrunarfræðingar eru í svipaðri stöðu og kennarar og fleiri stéttir. Kjörin eru alls ekki boðleg.

Það gafst kjörið tækifæri fyrir forsvarsmenn Félags framhaldsskólakennara að fara sömu leið og hjúkrunarfræðingar fara nú, í kjölfar gleðilegra örlaga „samkomulagsins“ um daginn. Þá opnaðist dauðafæri fyrir forystuna að koma fram í fjölmiðlum með beittum hætti og nýta sér þannig byrinn sem félagsmenn gáfu í segl kjarabaráttunnar og vekja rækilega athygli á stöðunni og baráttuvilja kennara.

Hvernig stendur á því að  það var ekki gert? Ekki er það brot á „friðarskyldu“ við gildandi kjarasamning að láta í sér heyra? Ekki eru félagar í FF að senda inn uppsagnir í stórum stíl? Eða hvað?

Í staðinn fyrir að vekja opinberlega athygli á hraklegum launakjörum kennara þá sendir formaður FF félagsmönnum, umbjóðendum sínum, tóninn í tölvupósti: þeir hafi skítfellt samkomulagið fyrir tóman misskilning; þeir séu svo skyni skroppnir að þeir hafi misskilið meira og minna allt í þessu blessaða samkomulagi.

En það gerðu þeir ekki. Þeim einfaldlega leist alls ekkert á það sem formaðurinn undirritaði.

Rétt er að benda forystu FF á það hlutverk sitt að gæta hagsmuna félagsmanna. Það gerir hún ekki með því að tala niður til þeirra. Ef einhverjum á að senda tóninn, þá er það samninganefnd ríkisins og fjárveitingavaldið, ekki félagsmenn í FF.

Í kjölfar hrakfara sinna við samningaborðið ætti forystusveit FF að lágmarki að íhuga að breyta um taktík. Kannski ætti hún að „íhuga stöðu sína“?

Af getuskiptingu

Vanda Sigurgeirsdóttir olli nokkru uppnámi innan hreyfingarinnar um daginn með því að ræða getuskiptingu barna í íþróttum. Hún benti á að mörgum börnum liði illa, eða þau fengju alls ekki það út úr öllum þessum æfingum sem æskilegt væri.

Óðar var tekið til varna fyrir getustkiptingarkerfið og hefur Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, farið þar fremstur í flokki. Helstu rök Sigurðar eru þau að börnum líði mun betur með þeim sem eru á svipuðu róli hvað þroska og færni varðar. Í „ógetuskiptu“ kerfi (kallað „án aðgreiningar“ í skólakerfinu) myndu þeir færustu einoka boltann og sumir hreinlega aldrei fá tækifæri til að sparka í tuðruna. Því væri heillavænlegra að þeir sem hefðu minni færni í fótbolta lékju sér saman og þeir flinkustu kepptu hver við aðra á jafnréttisgrundvelli.

Allt er þetta gott og blessað og ber að þakka Vöndu fyrir að koma þessari umræðu af stað. Sjálfsagt hafa bæði sjónarmiðin sinn tilverurétt. Vanda benti líka á að keppnishyggja væri allt of ráðandi, og allt of snemma, á íþróttaferli barnanna.

Þar liggur sennilega hundurinn grafinn.

Grunnurinn að réttlætingu getuskiptingar hjá ungum börnum liggur nefnilega í keppnishugsuninni. Það er til lítils fyrir pasturslítinn krakka með lítinn hreyfiþroska að keppa við einhverja „Mini-Messia“ á fótboltavellinum.

Þá er spurningin hvort markmiðið með opinberum stuðningi við íþróttahreyfinguna er að framleiða slíka framtíðarafreksmenn eða að tryggja, að því marki sem slíkt er mögulegt, að hver og einn fái tækifæri til að hámarka getu sína, þroska og lífshamingju?

Ætli svarið sé ekki „sitt lítið af hvoru“?

Kannski að hluti vandans liggi í því að foreldrarnir píni börnin sín í fótbolta, þó þau hafi enga hæfileika á því sviði? Það eru nefnilega fleiri kostir í stöðunni fyrir börnin en fótbolti.

Og ekki get ég gert að því, þegar upp blossar umræðan um getuskiptingu barna innan íþróttahreyfingarinnar, að skólakerfið komi mér í hug. Í því kerfi er núna í tísku það sem kallað er „skóli án aðgreiningar“ og er andstæðan við getuskiptingarkerfið sem kvennaknattspyrnulandsliðsþjálfarinn talar fyrir af eldheitri sannfæringu.

Í skólakerfinu er líka uppi þessi tvíhyggja. Fyrir ekki löngu síðan mátti sjá í fjölmiðlum viðtöl við foreldra sem voru ósátt við það að sonur þeirra þyrfti að ganga í „almennan grunnskóla“, skóla án aðgreiningar, en fengi ekki inni í sérskóla þar sem hann myndi njóta sín mun betur með jafningjum, að áliti foreldranna.

Og framhaldsskólarnir eiga, skv. vilja löggjafans, að vera „fyrir alla“. Þar er hinsvegar getuskiptingarkerfið praktíserað þannig að nokkrir skólar komast upp með það að handvelja inn til sín nemendur eftir einkunnum á grunnskólaprófi. Það eru í umræðunni kallaðir „góðir skólar“. Þeim má þá jafna við A-liðin í getuskiptu starfinu hjá fótboltafélögunum. Og, eins og í skólakerfinu, eru félög og þjálfarar metin eftir því hvað yngriflokkarnir vinna marga titla – hvað þeir fá á prófinu. Þjálfari sem ekkert vinnur, er hann ekki rekinn? Skiptir þá litlu máli þó honum hafi tekist að auka hreyfiþroska, almennt heilbrigði og hamingju þeirra barna sem hann hefur á sínum snærum.

Þó kennarar séu ekki enn reknir ef nemendur þeirra falla á prófum eða meðaleinkunn hópsins er lægri en í „góðu skólunum“ (líka kallaðir elítuskólar), þá eru þeir, og skólarnir sem þeir starfa við, að engu metnir í opinberri umræðu fyrir það ef nemendum þeirra tekst að bæta árangur sinn stórkostlega, kannski um marga heila í meðaleinkunn.

„Hvaða rugl er þetta, íþróttir eru ekki það sama og skóli“, gæti nú einhver sagt.

Vissulega er það rétt. En hvort eru íþróttahreyfingin og skólakerfið fyrir börnin eða börnin fyrir íþróttahreyfinguna og skólakerfið? Snýst þetta ekki allt um það sama? Börnin okkar, þroska þeirra, líf og hamningu?

Kristín Steinarsdóttir – Minning

Kristín Steinarsdóttir er ein af þeim manneskjum sem tekur sér strax bólfestu í hjarta manns, og dvelur þar ætíð síðan. Kristínu, eða Stínu Steinars eins og hún var jafnan kölluð í vinahópnum, kynntist ég á námsárunum í Kennaraháskólanum 1980-1983. Í bekkjakerfinu í Kennó varð þegar mikill samgangur og samheldni innan bekkja en eftir því sem á leið bættust ný andlit smám saman í kunningjahópinn, ekki síst í kjölfar víðfrægra skólaballa og partýja sem þeim fylgdu. Stína var ekki ein af þeim sem var mest uppi á borðum og þar sem við vorum ekki í sama bekk var það ekki alveg strax sem ég kynntist henni náið.

En það fer ekki hjá því að í stórum hópi dregst hvert að öðru fólk sem finnur samhljóm og á skap saman. Á síðasta árinu okkar í skólanum hafði þannig orðið til vinahópur, þvert á bekkjamörkin, sem gekk kátur og samtaka út í útskriftarvorið og stóð þétt saman, fór t.d. í eftirminnilega helgarferð til Vestmannaeyja. Flest vorum við með B.Ed. gráðunni einmitt að hræra fjölskyldudeigið; að kynnast lífsförunautnum, og gott ef Stína var ekki töluvert upptekin í símanum þessa Eyjahelgi: við hin höfðum a.m.k. um það leyti fengið hugmyndir um einhvern náunga sem hét víst Sigurbjörn.

Eftir skólaárin fer hver í sína áttina, eins og gengur. Sumir verða nánir fjölskylduvinir, aðrir sjást aldrei aftur. Enn aðrir hittast að gefnu tilefni; á útskriftarafmælum eða við aðrar aðstæður. Þannig var því varið með okkur Stínu, þegar frá leið. Við hjónin hittum þau Sigurbjörn t.d. á Landsmótum hestamanna, bæði í Skagafirði og á Gaddstaðaflötum, og gerðum okkur þá glaðan dag saman eina kvöldstund á tjaldsvæðinu. Þrátt fyrir slitrótt samband og allt of fá slík tilefni á þessum bráðum þrjátíu árum sem liðin eru frá Kennóútskriftinni, þá voru vináttuböndin nógu sterk til að sú taug slitnaði aldrei. Okkur þótti einfaldlega svo vænt um hana Stínu.

Kristín var frumkvöðull og leiðtogi, eins og starf hennar að þróun tölvu- og upplýsingatækni í skólakerfinu og baráttan fyrir réttindum og velferð fatlaðra og langveikra barna bera skýrt vitni. Þó er sú mynd af henni ekki sú fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður horfir til baka og virðir hana fyrir sér, sitjandi með bekkjarfélögum sínum við eitt borðið á ganginum framan við kaffistofuna í Kennaraháskólanum. Þá finnur maður allra fyrst hlýjuna og umhyggjuna sem streymir frá henni – þá yfirvegun og ró sem henni var í blóð borin. En þrátt fyrir þessi traustvekjandi megineinkenni í fari hennar er líka áberandi í augnaráðinu sívakandi glettni. Þegar hún brosir, og það gerir hún oft, pírir hún augun svo fallega og gæti alveg átt það til að lauma stríðnislegri athugasemd inn í umræðurnar.

Kristín Steinarsdóttir dó langt um aldur fram þann 12. nóvember síðastliðinn. Hún er ein af þessum fágætu perlum, sem blessunarlega verða þó á vegi manns í lífinu, og mun áfram sindra í minninu.

Við Anna María sendum fjölskyldunni okkar dýpstu samúðarkveðjur.