Himneskt haust?

Sumarið hefur verið heldur vætusamt, svo jafnvel sækir leiði að besta fólki. Undanfarnir septemberdagar hafa hins vegar verið með ágætum, og þá eru vonirnar fljótar að glæðast:

Sumar bauð það súran kost
að seint úr hug mun líða.
Náði hingað næturfrost.
Nú er sól og blíða.

Það er ei við leiða laust
af langri sumars vætu
en fáum við kannski himneskt haust
með hita og sólarglætu?

Íslandsmótið í menntun

Margir átta sig á því að menntun er lykill að farsæld, þó vitaskuld megi finna ágæt dæmi um að menn komist vel af án langrar skólagöngu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi það t.d. á stefnuskrá sinni með einhverjum hætti að „hækka menntunarstig“, enda sé það forsenda fyrir nýjum tækifærum, nýjum störfum, nýjum og auknum útflutningstekjum – já, hagvexti framtíðar. Halda áfram að lesa

Hlauptu, krakki, hlauptu!

Nú er hafið enn eitt áhlaupið að styttingu náms til stúdentsprófs. Menntamálaráðherra hefur í fjölmiðlum sagt að öll rök hnígi að þessu, því í öðrum löndum sé námstíminn ári styttri en hérlendis. Öðrum rökum virðist ekki til að dreifa. Fleiri hafa tekið undir þetta og jafnvel haldið því fram að vegna þessa séu ungmenni á Íslandi „þrepi á eftir“. Aðrir, t.d. Anna María Gunnarsdóttir og Jón Páll Haraldsson hér í Fréttablaðinu, hafa reynt að dýpka umræðuna og bent á að taka verði með í reikninginn margvíslegan aðstöðumun milli Íslands og annarra landa þegar farið er í jafn flókinn samanburð.

Þau áform að stytta framhaldsskólann hafa lengi verið á teikniborðinu og því hefur jafnvel verið haldið blákalt fram að styttingin sé vænleg leið til þess að draga úr brottfalli og bæta skólastarf, sem skili litlum árangri miðað við fjárframlög.

Gott og vel. Lengi má bæta skólastarf og ekki skal dregið úr nauðsyn þess að vera sífellt á tánum hvað það varðar. En margt gott má segja um framhaldsskólakerfið, enda hafa löggjafinn og ráðuneytisfólk, og pedagógar á þeirra vegum, undanfarin a.m.k. 40 ár setið í svitabaði við að kreista fram leiðir til að koma betur til móts við áhuga, þarfir og getu nemenda, fjölga námsleiðum og auka sveigjanleika kerfisins, svo allir gætu fundið sér eitthvað við hæfi. M.a. eru fjölbrautaskólarnir skilgetið afkvæmi þessarar viðleitni, sem og öll löggjöf frá 1970. Þrátt fyrir þetta þrjóskast langflest íslensk ungmenni enn við og innrita sig á bóknámsbrautir til stúdentsprófs.

En þetta var útúrdúr. Stytting framhaldsskólans mun, ein og sér, hvorki bæta skólastarf né draga úr brottfalli. Það sorglega við þetta allt sama er hve innilega hugmyndasnauð umræðan er. Nemendur sem fá 8,0 eða hærra í meðaleinkunn á grunnskólaprófi munu vissulega ljúka stúdentsprófi vandræðalaust á þremur árum. Brottfallsvandinn herjar ekki á þá og stytting námstíma mun lítil áhrif hafa á námsárangur þeirra eða framtíðarplön. Þeir munu bara leysa sín mál, hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir skólakerfið. Það hafa þeir lengi sýnt í áfangaskólunum, byrjað á framhaldsskólanámi á grunnskólaaldri og lokið svo stúdentsprófi á mettíma.

Styttingaráformin munu hins vegar uppfylla ríkulega hið dulda markmið, sem ekki virðist mega ræða upphátt: að spara peninga. Vel að merkja: nokkur undanfarin ár hafa verið sparaðir a.m.k. 12 milljarðar í framhaldsskólakerfinu, sem er víst orðið ódýrara hér en víða annars staðar. Hver er þá vandinn?

Öll nálgun menntamálaráðherrans að skólamálum er þess eðlis að hann líti á menntun sem keppnisíþrótt. Haldin eru „héraðsmót“ víða um land sem jafnframt eru úrtökumót fyrir „landsmót“ á þjóðarleikvanginum. U.þ.b. 95% hvers árgangs skráir sig til keppni, langflestir í hlaupagreinar og hingað til hafa allir sem komast í mark átt þess kost að keppa á landsmótinu.

En nú ákveður sem sagt mótsstjórinn að herða tímamörkin í 10 sekúndur, enda hlaupa margir í útlöndum svo hratt. „Öll rök“ hníga sem sagt að þessari breytingu. Þessi ákvörðun breytir að vísu engu fyrir hina fáu fótfráustu, þá sem eru skráðir í 100 metrana. En hvað um „keppendur“ í 200 metrum, maraþoni, 50 km. göngu eða grindahlaupi? Mun þetta leiða til betri árangurs og minna brottfalls meðal þeirra? Þvert á móti munu enn fleiri detta og meiða sig, hverfa á brott á sjúkrabörum án þess að eiga afturkvæmt, eða þurfa að setjast á hnjaskvagninn og fá aðhlynningu við hliðarlínuna áður en þeir geta haldið áfram, auðvitað langt frá tímamarkinu, undir stöðugum köllum úr stúkunni: „Hlauptu, krakki, haluptu!“ Hundraðmetrahlaupararnir eru löngu komnir í sturtu.

Það sem íslensk ungmenni eiga heimtingu á frá menntamálaráðherra eru ekki illa dulbúnar sparnaðarhugmyndir, heldur hugmyndir um það hvernig til stendur að koma til móts við lang- og grindahlauparana, þá sem hentar illa að hlaupa bara nógu hratt, en gætu jafnvel fundið sig í köstum eða stökkum. Hugmyndir um það hvernig má sannfæra afrenndan kúluvarpara til að skrá sig sjálfviljugan í kúluvarp en ekki 3000 m. hindrunarhlaup, sem hann þarf að ljúka á 10 sek.

Slíkar hugmyndir gætu dregið úr brottfalli og bætt skólastarf – og mættu gjarnan vera forgangsmál nýskipaðs menntamálaráðherra. 

Greinin birtist á visir.is 17. september 2013

Hagvöxtur á hæpnum grunni

Samráðsvettvangur forsætisráðuneytisins um leiðir til þess að auka hagsæld Íslendinga fram til ársins 2030 var settur á laggirnar í janúar á þessu ári og hefur nú skilað tillögum sínum. Samkvæmt frétt í Fréttatímanum frá 9. maí sl. miða tillögurnar við þau „metnaðarfullu markmið að meðalhagvöxtur nemi 3,5% á ári“ á þessu tímabili og við það muni Ísland færast „upp í 4. sæti í samanburði OECD ríkja hvað varðar verga landsframleiðslu á mann“ í stað þess að verma 15. sæti listans að óbreyttu, „í félagsskap þjóða eins og Grikkja, Ítala, Pólverja og Ungverja“.

Og auðvitað viljum við ekki vera í slíkum tossabekk!

Sjálfsagt er margt gáfulegt í þessari skýrslu og sjálfsagt er rétt að kynna sér hana í þaula, enda fjallar hún um „flesta þætti atvinnu- og efnahagslífsins“, en að svo stöddu hef ég bara við að styðjast frásögn Fréttatímans og umræðuþátt í sjónvarpinu. Og í þessum heimildum er einmitt sjónum beint að umfjöllun skýrslunnar um menntakerfið, sem vel að merkja er sérstakt áhugamál mitt og starfsvettvangur.

Ekki kemur á óvart að niðurstaðan sé að skólakerfið þurfi „róttækan uppskurð“ eins og segir í fyrirsögn Fréttatímans. Þegar það er haft í huga að „samráðsvettvangurinn er skipaður helstu stjórnmálaleiðtogum og forsvarsmönnum atvinnulífsins“ kemur heldur ekki á óvart hvað talið er þurfa að skera upp og hvernig það skuli gert.

Rétt er að minna á að meginmarkið hópsins var að finna leiðir til að ná fyrrnefndum meðalhagvexti næstu tæp 20 ár.

Þetta er ekki fyrsta skýrslan á Íslandi um menntakerfið. Hver skýrslan á fætur annarri, nánast árlega eða oftar síðustu áratugi, hefur verið unnin „af ábyrgð og festu“, að sögn til að finna leiðir til árangursríkara skólastarfs. Við höfum komið illa út úr árangurssamanburði í PISA könnunum, við höfum komið illa út úr OECD samanburði um brottfall úr framhaldsskólum og við komum illa út úr samanburði á rekstrarkostnaði grunnskóla. Til allrar hamingju á þetta síðasttalda þó hvorki við framhalds- og háskólana okkar, sem eru víst tiltölulega ódýrir!

Megináhyggjuefnið vegna framhaldsskólakerfisins hefur löngum verið brottfallið. Samráðsvettvangur stjórnmálaleiðtoga og atvinnulífsfrömuða hefur nú fundið í einni aðgerð lausn á brottfallsvandanum og leið til að auka hagvöxtinn. Skv. umfjöllun Fréttatímans felst lausnin í því „að stytta nám í grunnskóla og framhaldsskóla um samtals tvö ár og draga þannig að miklu leyti úr miklu brottfalli íslenskra framhaldsskólanema“. Við það myndi „landsframleiðsla aukast um 3-5%“. Svo er líka talið ráð að fækka skólum verulega og stækka þá.

Nú verður að hafa þann fyrirvara á að þetta er túlkun blaðamanns Fréttatímans á efni skýrslunnar, en hvort sem ofangreint orsakasamhengi er frá honum komið eða skýrsluhöfundum þá lýsir það alla vega algjörum skorti á ályktunarhæfni. Það er óskiljanlegt að nokkrum manni, „þeim er vitandi er vits“, detti það í hug í alvöru að stytting skólagöngu um tvö ár leiði til minnkandi brottfalls. Eða að birta slíkt í skýrslu sem væntanlega á að taka alvarlega í þjóðfélagsumræðu?

Vonandi sjá allir að hagvaxtarmarkmið samráðsvettvangsins á sviði menntamála eru á hæpnum grunni, svo ekki sé meira sagt. Og vonandi eru aðrar tillögur í skýrslunni ekki sama marki brenndar.

Aðrar niðurstöður skýrslunnar varðandi skólakerfið eru gamalkunnur söngur: auka kennsluskyldu, fjölga í bekkjum, sameina og stækka skóla („óhagkvæmar einingar“ heitir það á máli hagvaxtarfræðinganna).

Á sama tíma og forsætisráðuneytið hendir peningum í skýrslugerð af þessu tagi eru engir peningar tiltækir til þess að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, sem þó eiga að vera að fullu komin í gagnið árið 2015.

Og hverjar skyldu þá vera helstu áherslurnar í nýju lögunum? Hvernig skólakerfi er það sem stjórnmálaleiðtogarnir eru tiltölulega nýbúnir að samþykkja á Alþingi að íslensk börn og ungmenni skuli ganga í gegnum? Er það skólakerfi sem byggir á stærðarhagkvæmni, á „hagkvæmum einingum“ reiknilíkananna? Á einsleitni og fjöldaframleiðslu hagkvæmra atvinnulífseininga úr holdi og blóði?

Nei. Svoleiðis skólakerfi stendur ekki til, lögum samkvæmt, að byggja upp hér á landi.

Grunntónninn í núgildandi lögum um öll skólastigin, leik-, grunn-, og framhaldsskóla, er mannréttindi, lýðræði, -þarfir, réttindi og áhugasvið einstaklingsins-, nauðsynlegur sveigjanleiki til að undirbúa nemendur fyrir síbreytilegan heim. Grunntónninn í lögunum er mannúðlegur; að bera virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins, að efla hvern og einn svo honum geti liðið vel í eigin skinni.

Og er ekki skóli án aðgreiningar opinber stefna? Hvernig samræmist skóli án aðgreiningar stækkun skóla og fjölgun nemenda í bekkjardeildum?

Til að ná markmiðum laga þarf að auka sérfræðiaðstoð í skólunum svo hægt sé að taka vandamál, sem eru ærin, föstum tökum strax í upphafi. Eina færa leiðin til að auka kennsluskyldu íslenskra kennara byggist einmitt á þessu. Ráða inn í skólana skrifstofufólk og sérfræðinga á ýmsum sviðum og losa kennarana um leið við fjöldamörg verkefni sem þeim er nú ætlað að sinna meðfram kennslunni. Þeir yrðu manna fegnastir. Ekki hafa þeir beðið um öll „aukaverkin“ sem laumað hefur verið á borðin þeirra smám saman í gegn um tíðina og taka orðið allt of mikla orku frá sjálfri kennslunni. Þeir hafa hins vegar tekið við verkefnunum, að mestu möglunarlaust, af inngróinni samviskusemi og skyldurækni.

Þó margháttuð þróun hafi orðið á skólastarfi undanfarin 30 ár (tölvuvæðing, verkefnamiðað nám, fjarnám, „spegluð kennsla“, einstaklingsmiðað nám og svo frv.), þá er víða og á ýmsan hátt hægt að „skera upp“ í skólastarfi. Kennarar eru almennt tilbúnir til að taka þátt í alvöruvinnu við að bæta skólastarf.

En þessar hugmyndir, sem nú hefur verið kastað fram einu sinni enn, miða ekki að því að bæta skólastarf og efla fjölþætta menntun sem gagnast muni við lausn ófyrirséðra verkefna í þjóðfélagi framtíðarinnar. Þær miða einungis að því að spara peninga í skólakerfinu.

Best færi á því að þessi skýrsla færi sem hljóðlegast í ruslið.

 

 

 

 

 

 

Blessað brottfallið!

Aðalforsíðufréttin í Fréttablaðinu þann 30. apríl sl. fjallaði um brottfall nemenda úr framhaldsskólum. Það má vel kalla það fagnaðarefni að þetta málefni skuli vera mikilvægasta fréttaefnið þann daginn – ekki er menntamálum yfirleitt gert hátt undir höfði í íslensku pressunni. Því má einnig fagna sérstaklega að fréttin er nokkuð vönduð en ekki  jafn grátlega yfirborðskennd og allt of mörg fréttin, leiðarinn eða umfjöllun almennt er um þennan mikilvæga málaflokk.

Blaðið skoðaði ástæður þess að nemendur hættu í námi í þremur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Samviskusamlega er því haldið til haga í fréttinni að brottfall sé mun hærra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og yfir meðaltali í OECD-ríkjum.

Nemendur þessara þriggja skóla gefa upp margar ástæður fyrir brotthvarfi sínu. Þeir nefna oft, skv. Fréttablaðinu,  áhugaleysi, námserfiðleika, líkamleg veikindi og flutning yfir í annan skóla. Í um 10% tilvika nefna þeir fjárhagserfiðleika og um 9% þeirra sem hættu námi í miðju kafi segja ástæðuna vera kvíða, þunglyndi og andleg veikindi. Ef brottfallið er um 30%, eins og fram kemur í fréttinni, þá hættu um 8500 nemendur námi af þeim 28 þúsund sem skráðir voru í framhaldsskóla árið 2011. Af þessum 8500 hættu um 19%, eða um 1600 nemendur, vegna fjárskorts eða andlegra erfiðleika.

Ekkert þarf að fjölyrða um það að „fyrri námsárangur hafi mikið forspárgildi“ fyrir gengi framhaldsskólanemenda. Það segir sig sjálft að nemendum sem gengur vel í grunnskóla muni líka, ef ekkert sérstakt kemur upp á, ganga vel í framhaldsskóla – og háskóla ef út í það er farið. Á sama hátt er við búið að nemendur sem eiga í erfiðleikum í grunnskóla muni áfram glíma við erfiðleika eftir að því skólastigi er lokið. Skiptir þá engu hver ástæðan er; almennir námserfiðleikar, sértækir námserfiðleikar, hegðunarerfiðleikar, fjölskylduvandi, fíkn, sjúkdómar.

Stór hluti af þessu vandamáli er sá að í mörgum tilvikum er ekki tekið á málum af fullri festu og einurð við upphaf skólagöngunnar, heldur sættir þjóðfélagið sig við það að börn sem eiga við vanda að stríða séu látin veltast áfram í gegnum skólakerfið, án þess að viðunandi bót sé ráðin á. Skólunum er gjarnan kennt um – kennurum og skólastjórnendum.

Svo koma börnin upp í framhaldsskólana og „allt er böl sem fyrr“. Þá eiga framhaldsskólarnir skyndilega að kveikja á perunni, „koma til móts við áhuga, getu og færni hvers nemanda með fjölbreyttu námsframboði, kennsluháttum, námsmati, bla, bla, bla…“, eins og þetta sé ekki allt saman þegar viðhaft, meira og minna, á öllum skólastigum? Rótina að áhugaleysi nemenda er ekki að finna í skorti á „nýbreytni í skólastarfi“, hvort sem er í leikskólum, grunnskólum eða framhaldsskólum. Þær rætur liggja dýpra í samfélaginu. Langflestum kennurum er nefnilega ljós vandinn, og ábyrgð sín, og gera það sem þeir geta til að þjónusta nemendur sína sem best, við erfiðar aðstæður.

Ef marka má upplýsingarnar á forsíðu Fréttablaðsins, sem koma ágætlega heim og saman við þann veruleika sem kennarar standa frammi fyrir í störfum sínum, þá er hinn mikli brottfallsvandi íslenskra framhaldsskólanemenda ekki fyrst og fremst skólapólitískur. Hann er hinsvegar bæði félagslegur, heilbrigðispólitískur og efnahagslegur.

Það þarf annars vegar að stórbæta heilbrigðiskerfið, sérstaklega geðheilbrigðisþjónustuna, og hinsvegar að tryggja íslenskri æsku þær aðstæður að þurfa ekki að stunda vinnu í stórum stíl meðfram námi til að framfleyta sér, til að von sé um bættan námsárangur og minna brottfall. Á að viðurkenna þá framvindu að meðalnemandi geti lokið framhaldssskólanámi á „eðlilegum tíma“ í aukastarfi með fullri vinnu annars staðar? Eru það eðlilegar námskröfur?

Ef þjóðfélagið sættir sig við það að framhaldsskólanemendur vinni jafn mikið og þeir gera, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við það um leið að margir nemendur séu lengur en viðmiðunartíma að ljúka prófum, margir „taki sér frí frá námi“ og aðrir hætti. Ef þjóðfélagið sættir sig við það, án þess að bregðast umsvifalaust við af fullri alvöru, að fjöldi barna og ungmenna eigi við svo mikið þunglyndi og geðræn vandamál að stríða að það hamli þeim stórkostlega í námi, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við mikið brottfall og erfiðleika í skólakerfinu.

Ef við viljum bjóða upp á jafn opið og sveigjanlegt skólakerfi og raunin er, þar sem allir nemendur eiga rétt á því að velja sína leið og breyta um stefnu þegar þeim býður svo við að horfa, í stað þess að draga þá í dilka fyrir lífstíð eftir námsárangri við 10 eða 12 ára aldur  – þá verðum við líka að sætta okkur við það að brottfallið fari yfir meðaltöl OECD. Og hvað gerir það til? Eða eru mannréttindin sem felast í sveigjanleikanum einskis virði?

Leiðin að bættu skólastarfi, hvort sem er í grunnskólum eða framhaldsskólum, er ekki sú sem stjórnmálamenn hafa troðið lengi undanfarið – að reyna að breyta vinnutímaskilgreiningum og aldursafslætti í kjarasamningum kennara svo hægt sé að láta þá kenna lengur og meira innan dagvinnumarka – eða að stytta nám til stúdentsprófs. Slíkar aðgerðir munu hvorki bæta skólastarf né minnka brottfall, eins og margur einfeldningurinn hefur haldið fram.

Fleiri nemendur með fleiri „vandamál“ í fleiri bekkjum í fleiri kennslustundum í stundatöflu eldri kennara er ekki lausnin. Sjáum við fyrir okkur löggur að djöflast í slagsmálum á götunni fram undir sjötugt? Eða að hjúkkur á sjötugsaldri séu píndar til að ganga sambærilegar vaktir og þær gerðu um þrítugt?

Eitt af því mikilvægasta fyrir skólastarfið er það sem nefnt var hér að ofan: bæta þjónustuna og taka á vandamálunum strax í upphafi af meiri festu. Heilbrigðiskerfið má t.d. bæta umtalsvert með því að bjóða upp á aukna þjónustu í skólunum. Þar sárvantar sérmenntað fólk af ýmsu tagi: sálfræðinga, geðlækna, sérfræðinga í almennum og sértækum námsröskunum o.s.frv. Þetta kostar aukið fé, öfugt við töfralausnir pólitíkusanna sem allar miða fyrst og fremst að því að minnka kostnaðinn við skólakerfið – og munu um leið rústa því endanlega.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni.

 

In memoriam – gljúfur fullt af drullu

Ein af mínum allra sterkustu upplifunum á ríflega hálfrar aldar ævi er ferð á hestum um öræfin norðan Vatnajökuls, einmitt á þeim tíma sem framkvæmdir við Kárahnjúkastíflu voru að hefjast. Ég var leiðsögumaður fyrir hópi útlendinga á vegum Íshesta, en óskoraður ferðarforingi var Jón Þór, bóndi á Glúmsstöðum í Fljótsdal. Um þetta ferðalag hefi ég ort kvæði, sem birtist í ljóðabókinni Guðað á gluggann frá 2006.

Lagt var upp nærri Skriðuklaustri og riðið upp á Fljótsdalsheiði, í slóð Eyvindar, sem segir frá í Hrafnkelssögu, að Eyvindarfjöllum þar sem náttað var. Þá um Eyvindarskarð og niður í Hrafnkelsdal að Aðalbóli. Á þriðja degi var stefnan tekin á snarbrattar hlíðar dalsins, um fjöll og hálsa að Hafrahvammagljúfrum. Þaðan sem leið liggur um Desjarárdal meðfram Kárahnjúkum og suður Vesturöræfi að Sauðárkofa. Dýrðlegur staður og sumarnóttin ógleymanleg. Kofinn liggur nú í ómælisdjúpi, sjálfsagt líka á bólakafi í aur og leðju. Frá Sauðá var snúið til austurs; áfangastaðurinn Snæfellsskáli.

Fimmta dagleiðin lá suðurfyrir Snæfell, um Þjófagil ef mig misminnir ekki örnefnin, og fram á Eyjabakka. Hreindýrahjörð brokkaði í hæfilegri fjarlægð, útsýn yfir Eyjabakka er einhver sú fegursta sem hægt er að hugsa sér. Síðasta hluta ferðarinnar fylgdum við Jökulsá niður í Fljótsdal, með sinni ægifögru fossaröð, og enduðum á upphafspunkti ferðalagsins. Á þessu ferðalagi kom ég m.a. bæði í Sauðárkrók og að Laugarási!

Því rifja ég þetta upp að við hjónin nýttum verkalýðsdaginn til þess að renna „suður“, vestur yfir Hellisheiði, til þess að sjá mynd Ómars Ragnarssonar, In memoriam, án spurningarmerkis. Það var ánægjulegt og viðeigandi að Ómar kom í Bíó Paradís í eigin persónu og fylgdi mynd sinni úr hlaði af alkunnum eldmóði.

Starf Ómars verður aldrei metið til fjár. Myndirnar sem hann hefur tekið af hinni drekktu náttúru eru fegurstu eftirmæli sem hugsast getur og ekki þarf að orðlengja um áhrifamátt þeirra. Það sem mér þótti þó áhrifamest var niðurlag heimildamyndarinnar. Þar voru sýndar sumar afleiðingar virkjunarframkvæmdanna. Blindandi leirmökkur í lofti í sunnangjólu, ljót rofsár í þykkum jarðveginum þegar lægst er í Hálslóni og gljúfrið neðan við Kirkjufoss sem er orðið nánast fullt af framburði, yfir eitt hundrað metra þykkri uppfyllingu, jökulleir og fínsandi. Enda fer fossinn á bólakaf þegar vatnsstaðan er hæst í lóninu. Það er ekkert annað en lygilegt hve mikil jökuleðja hefur safnast fyrir á ekki lengri tíma en þessum 10 árum sem liðin eru.

Út frá þessu síðastnefnda eru leiddar að því líkur í myndinni að raunverulegur „líftími“ virkjunarinnar verði mun styttri en opinberar áætlanir kveða á um – að lónið fyllist af drullu á miklu skemmri tíma.

Ekki er ég sá reiknimeistari í framburði að geta lagt á þetta sjálfstætt, vísindalegt mat – en myndirnar af smekkfullu „fyrrverandi“ djúpu gljúfri voru óhuggulegar, sannast sagna.

 

Brennuvargana í slökkviliðið!

Hér áður fyrr á árunum, meðan enn brann eldur í æðum íslenskra karlmanna og hrepparígurinn stóð undir nafni, voru ærleg hópslagsmál viðurkennd aðferð til að gera út um málin. Sveitaböll voru hvað frjóasti akurinn fyrir þessa árangursríku og kraftmiklu félagslegu samningaleið.

Í hverju plássi voru a.m.k. einn, tveir fílhraustir slagsmálahundar sem enginn átti roð í, létu sér fátt fyrir brjósti brenna og komu sínum sjónarmiðum milliliðalaust áleiðis með handafli. Þá var vissara að vera í réttu liði ef maður vildi forðast að snýta rauðu. Fámenn sveit laganna varða réði lítið við slíka beljaka, sem að auki höfðu um sig sveit minni spámanna, til að sendast og sinna ýmsum smáverkum, eins og t.d. að kynda undir ófriði meðal dela úr öðrum plássum. Hver hafði sinn Björn úr Mörk.

En þar sem vöðvaaflið þraut kom til hugkvæmnin. Og þó ótrúlegt megi virðast rann hugkvæmnin undan rifjum yfirvaldsins. Það varð þekkt aðferð og viðurkennd til árangurs að taka hörðustu slagsmálahundana og munstra þá í lögguna. Þegar þeir voru komnir í búning varð orkunni loks beint í réttan farveg.

Þorvaldur Gylfason lét hafa eftir sér í kosningaþætti í sjónvarpinu um daginn að það væri lítið vit í því að setja brennuvargana í slökkviliðið. Þarna er Þorvaldur auðvitað á algerum villigötum. Íslenskir kjósendur, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, vita af gamalli reynslu að besta betrunarráðið er að setja þá sem villast af hinum þrönga vegi dyggðanna til nokkurrar ábyrgðar.

Því hafa þeir nú munstrað brennuvargana í slökkviliðið.

 

Í forheimskunnar landi

Ekki verður sagt að úrslit kosninganna sl. laugardag hafi komið á óvart. Sífelldar skoðanakannanir hafa endanlega fjarlægt „óvissufaktorinn“ úr blessuðu lýðræðinu, þannig að nú er jafn fyrirframvitað hver úrslitin verða eins og í ýmsum þeim ríkjum heimsins sem við hér gerum óspart grín að – t.d. með bananalíkingum – og höfum einnig fléttað ódauðlega inn í tungumálið: „rússnesk kosning“.

Þó að alþingsikosningarnar hafi ekki verið „rússnesk kosning“ nema að því leytinu til að allir vissu fyrirfram hver meginúrslitin yrðu, þá eru þau jafn lygileg fyrir því.

Stjórnviska Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá því snemma á 10. áratug 20. aldar og fram til 2007 keyrði íslensku þjóðina í gjaldþrot, hallinn á ríkissjóði var 216 milljarðar. Þessir flokkar ganga dagsdaglega undir heitinu „helmingaskiptaflokkarnir“ meðal landsmanna. Og menn kippa sér orðið ekkert upp við þá nafngift. Það er eiginlega búið að neutralisera orðið, eins og það sé bara sjálfsagt og eðlilegt að stjórnmálaflokkar séu helmingaskiptaflokkar. Inntakið virðist ekki skipta máli lengur, að kjarninn í því sé spilling, lýsing á því að flokkarnir hafi undanfarna áratugi, í skjóli pólitískra valda, skammtað „sínum mönnum“ samfélagsgæðin. Fólk kippir sér ekki upp við slík „aukaatriði“.

Helmingaskiptaflokkunum og gjallarhornum þeirra tókst í stjórnarandstöðu að sannfæra kjósendur um það að Samfylkingin og Vinstri græn „hefðu ekkert gert“ allt kjörtímabilið. Þetta keyptu kjósendur, þó það liggi fyrir að ríkisstjórninni hafi tekist að bæta skuldastöðu ríkissjóðs um rúma 212 milljarða á kjörtímabilinu, úr 216 milljarða halla í 3,6 milljarða halla í fjárlögum 2013. Til að ná þessu hefur þurft að herða sultarólina, bæði skera grunnþjónustu inn að beini og hækka skatta.

Við hrun helmingaskiptastefnunnar átti það að vera ljóst að erfiðir tímar væru framundan. Engum átti að geta komið það á óvart að það tæki mörg ár að ná jafnvægi. Engum átti að geta komið það á óvart að velferðarkerfið yrði ekki rekið nema með lágmarksafköstum meðan ríkissjóður skuldaði hundruð milljarða. Engum átti að geta komið það á óvart að á meðan verið væri að jaga niður þessa botnlausu skuldahít helmingaskiptastefnunnar, þá myndu ekki jafnhliða verða gerðar miklar rósir í heilbrigðismálum, menntamálum eða almannatryggingakerfinu. Enginn átti að geta vænst þess að á þessum erfiðu tímum yrðu teknar stórar fjárhæðir til skuldaleiðréttinga, burtséð frá því hversu óréttlátur forsendubresturinn var, sem lántakendur stóðu frammi fyrir við hrunið. Forsendubrestur í boði helmingaskiptastefnunnar, vel að merkja.

Eða hvað?

Það hefur nú komið í ljós að meirihluti kjósenda lét sér þetta allt koma á óvart. Kjósendur refsuðu grimmilega þeim flokkum sem komust á fjórum árum langleiðina með að stoppa í ginnungagapið sem helmingaskiptaflokkarnir höfðu rifið á klofbót þjóðbrókarinnar.

Sem betur fer hvikaði ríkisstjórnin ekki frá þessu markmiði. Fyrir vikið verður á næstu árum hægt að fara að byggja aftur upp þetta þjóðfélag. Ef stjórnvöld hefðu gert það sem kjósendur nú hafa refsað þeim fyrir að gera ekki – að nota lánsfé til að leiðrétta skuldir heimila og halda fullum dampi í velferðarkerfinu – þá værum við nú ekki í þeirri stöðu sem við þó erum komin í, með hagvöxt og lítið atvinnuleysi, stöðu sem hefur vakið mikla athygli víðast í heiminum – annars staðar en meðal íslenskra kjósenda. Þá værum við barasta ennþá á hausnum.

Og nú hefur altsvo meirihluti kjósenda (allt of margir sátu heima) kallað til hjúkrunarstarfa þá sem eftir botnlaust fylleríi hátt á annan áratug skildu við kroppinn í hjartastoppi, en hrakið burtu með skömm skyndihjálparsveitina, þá sem sannarlega blés og hnoðaði lífi í líkið.

Þetta er sem sagt aldeilis lygilegt, þrátt fyrir forspárvissu skoðanakannana. Þangað til það rifjast upp að maður er staddur í forheimskunnar landi.

 

Þú getur átt þinn tjakk sjálfur!

Á unglingsaldri heyrði ég fyrst brandarann um tjakkinn. Hegðun aðalpersónunnar í sögunni þótti svo absúrd að menn hlógu með öllum kjaftinum – veltust um í óstjórnlegum hlátursrokum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt betri brandara síðan. Enginn er jafn eftirminnilegur og „Tjakkurinn“.

Brandarinn er í stuttu máli á þá leið að maður nokkur er einsamall á ferð í bíl sínum yfir fáfarna heiði í myrkri og leiðindaveðri. Skyndilega springur á bílnum. Maðurinn stoppar úti í kanti og undirbýr dekkjaskipti, tekur út varadekkið og tínir til verkfærin. Þá áttar hann sig á því að það er enginn tjakkur í bílnum. Hann bölvar lánleysinu en hugsar með sér að fljótlega komi einhver akandi sem muni lána sér tjakk. Maðurinn bíður. Enginn kemur.

Nú ákveður maðurinn að ganga af stað, það geti ekki verið langt til næsta bæjar. Á göngunni fer hann að hugsa málin og í ljósi alþekktrar gestrisni Íslendinga og við brugðinni hjálpsemi fólks úti á landsbyggðinni sannfærir hann sig um að hann fái hlýjar móttökur, sjálfsagt mál að lána tjakk og trúlega verði honum líka skultað til baka og hjálpað við dekkjaskiptin.

En gangan er lengri en maðurinn hafði reiknað með, veðrið slæmt og myrkrið þétt. Hvergi grillir í ljóstýru frá sveitabýli. Smám saman fer efinn að sá fræjum í huga hans. Það eru nú víða furðufuglarnir, ekki síst á einangruðum bæjum lengst inn til dala. Og til að gera langa sögu stutta hefur manninum tekist að sannfæra sig um það, þegar hann loks greinir útiljósin á innsta bænum í dalnum, að bóndinn þar sé ekki aðeins furðufugl og sérvitringur, heldur hreinasta illmenni sem aldrei geri nokkrum gott. Hann fer því heim að bæ um miðja nótt og vekur upp með barsmíðum. Þegar heimamaður vaknar, skreiðist til dyra með stírurnar í augunum og opnar dyrnar til að kanna gestakomur, fær hann fyrirvaralaust framan í sig frá komumanni: „Þú getur átt þinn helvítis tjakk sjálfur“. Að svo búnu snýr „okkar maður“ sér á hæl og rýkur burt í fússi.

Ekki verður hjá því komist að setja þessa sögu í samhengi við stjórnmálaumræðu nútímans. Þarna eru lifandi komnir Framsóknarmennirnir í ýmsum flokkum sem vilja undir eins slíta viðræðum við ESB, án þess svo mikið að spyrja fyrst hvort á þeim bæ sé til tjakkur, hvort bóndi vilji lána tjakkinn, sé hann til, eða að láta svo lítið að kanna hvort tjakkurinn er í nothæfu ástandi, sé hann til láns.

Málefni Vísindasjóðs FF/FS

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara föstudaginn 12. apríl sl. gerðu fulltrúar FF í stjórn Vísindasjóðs FF/FS grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins. Endurskoðandi sjóðsins kynnti ársreikning 2012. Fram kom að þrátt fyrir töluverðan lögfræðikostnað á árinu og ýmsan stofnkostnað vegna flutnings sjóðsins út úr Kennarahúsi, er rekstrarkostnaðurinn síst hærri en þegar sjóðurinn var rekinn í samstarfi með öðrum sjóðum og skrifstofu KÍ. Það liggur því fyrir að Vísindasjóður mun spara fé með því að starfa og leigja eigin aðstöðu utan Kennarahúss.

Eins og fram hefur komið er ekki hægt að ganga frá ársreikningi Vísindasjóðs 2011, án fyrirvara og athugasemda endurskoðanda, vegna þess að nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir; sjóðurinn hefur ekki fengið þau afhent hjá skrifstofu KÍ, þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni.

Að lokinni kynningu endurskoðanda á reikningum gerði lögmaður Vísindasjóðs grein fyrir niðurstöðu héraðsdóms vegna innsetningarkröfu sjóðsins út af þessu máli. Niðurstaða héraðsdóms var að hafna kröfu Vísindasjóðs.

Formaður sjóðsstjórnar, Þórey Hilmarsdóttir, reifaði málið lauslega og vitnaði í útsend bréf og skýrslur sjóðsstjórnar, sem hafa reglulega verið verið send öllum sjóðfélögum til upplýsingar um framvindu mála. Þórey svaraði og nokkrum fyrirspurnum frá fundarmönnum um einstök atriði í ársreikningi.

Skrifstofustjóri KÍ tók til máls og ræddi samskipti skrifstofu KÍ við sjóðsstjórnina. Hann kom nokkuð inn á það hver hefði óskað eftir fundi með hverjum, og hvenær, og bar af sér sakir um óheilindi eða að verið væri að fela eitthvað í reikningunum. Undir slíkum ásökunum hefði verið erfiðast að sitja. Hann sagði að umræddur BIK-reikningur KÍ, sem m.a. fjármunir Vísindasjóðs hefðu verið færðir á, væri í varðveislu Íslandsbanka og stjórn Vísindasjóðs fengi ekki aðgang að honum þar, vegna trúnaðarskyldu bankans. Meira að segja fengi starfsfólk á skrifstofu KÍ ekki aðgang að þessum reikningi.

Skrifstofustjórinn sagði einnig að ef hann væri að hefja þetta ferli (samskiptin við Vísindasjóð vegna krafna sjóðsins um aðgang að bókhaldsgögnum) nú upp á nýtt myndi hann vissulega gera margt öðruvísi en hann hefði gert. Ekki kom nánar fram í máli hans hvað hann hefði gert öðruvísi, né hvers vegna. Undirritaður gat þó ekki skilið þetta öðruvísi en svo að um væri að ræða viðurkenningu á því að framkoma skrifstofu KÍ gagnvart stjórn Vísindasjóðs hefði ekki verið eins og hún helst hefði átt að vera. Dýpri skilning var ekki hægt að leggja í orð hans, ekki var t.d. um að ræða ótvíræða afsökunarbeiðni, eða viðurkenningu á ámælisverðri framkomu.

Það athyglisverðasta í máli skrifstofustjórans, að mati undirritaðs, var tvímælalaust yfirlýsing þess efnis að hann hefði aldrei fyrr, í öllum samskiptum sínum við stjórnir allra þeirra sjóða sem starfa undir hatti KÍ, kynnst neinni kjörinni stjórn sem væri jafn áhugasöm og nákvæm í störfum sínum. Jafnan hefðu sjóðsstjórnir sýnt takmarkaðan áhuga á umsýslu eða málefnum sjóðanna og því hefði sú venja skapast að hann sæi sjálfur um málin, tæki ákvarðanir og hefði rekstur þeirra einn á sinni könnu.

Undirritaður skilur þetta svo að þegar allt í einu var komin stjórn í Vísindasjóði sem vann vinnuna sína og var ljós eigin ábyrgð, fór að spyrja spurninga og krefjast svara, þá brást skrifstofustjórinn stirðlega við, enda miklu þægilegra fyrir hann að gera þetta sjálfur að gömlum vana, heldur en að vera að tína til gögn og svara einhverjum spurningum „þriggja móðgaðra kvenna“, eins og einum sjóðfélaga finnst hæfa að kalla sjóðsstjórnina.

Linda Rós Michaelsdóttir, einn þriggja stjórnarmanna í Vísindasjóði, tók til máls og lýsti upplifun sinni af því að þurfa að sitja undir vantraustsbókun stjórnar KÍ á störf sín og stjórnar Vísindasjóðs. Hún hefði aldrei lent í því, hvorki fyrr né síðar að efast væri um heilindi sín. Formaður FF stóð upp og sagði að hún hefði hringt í þær allar í stjórn Vísindasjóðs og beðist afsökunar á því að hafa samþykkt vantraustsbókunina, sem hún hefði gert „undir gríðarlegum þýstingi“. Ekki kom fram í máli formanns FF frá hverjum sá þrýstingur kom eða nákvæmlega hvers eðlis hann var. Linda sagði að eðlilegt hefði verið að sú afsökunarbeiðni hefði birst á sama stað og vantraustið, á heimasíðu KÍ.

Þá upplýsti Linda Rós fundarmenn um það að þegar stjórn Vísindasjóðs fór að spyrja hvers vegna KÍ tæki sér það vald að millifæra fjármuni sjóðsins fram og til baka hefðu þau svör verið gefin að um það væri samningur milli aðila. Stjórn Vísindasjóðs óskaði í kjölfarið eftir því að fá að sjá þann samning. Ekki var orðið við því, enda enginn slíkur samningur til, heldur því svarað að gerður hefði verið munnlegur samningur. Linda kvaðst hafa haft samband við forvera sína og spurt þá hvort þeir hefðu gert slíkan munnlegan samning við KÍ. Viðkomandi brugðust ókvæða við spurningunni, að sögn Lindu, og spurðu á móti hvað hún héldi að þeir væru? Hvort henni dytti í hug að heiðvirt fólk gerði munnlegan samning um annað eins?

Þá stendur eftir að

    • enginn löglegur samningur er til um það að KÍ hafi haft heimild til að forfæra innistæður Vísindasjóðs út af reikningum sjóðsins og inn á reikninga KÍ, og hirða þar með vaxtatekjur sem sjóðurinn á. Er það ásættanlegt?
    • stjórn Vísindasjóðs ber ein ábyrgð á fjárreiðum sjóðsins og fær reikninga hans ekki endurskoðaða nema með fyrirvara meðan bókhaldsgögn vantar. Er það ásættanlegt?
    • skrifstofustjóri KÍ viðurkennir að hann hefði, í ljósi reynslunnar, gert margt öðruvísi en hann gerði, ef þetta mál væri að koma upp nú. Enn er tækifæri til að biðjast afsökunar.
    • skrifstofustjóri KÍ hefur aldrei á sínum starfsferli hjá sambandinu kynnst jafn áhugasamri, ábyrgri og nákvæmri stjórn í nokkrum sjóði innan vébanda KÍ eins og núverandi stjórn Vísindasjóðs FF/FS. Starfsmenn KÍ: Takið sjóðsstjórnina til fyrirmyndar.
    • stjórn KÍ, þar með talinn formaður FF, bókaði opinberlega vantraust á þessa áhugasömu, ábyrgu og nákvæmu stjórn Vísindasjóðs á fundi 25. mars 2011. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ „harmar þá gagnrýni á vinnubrögð stjórnar Vísindasjóðs“ á fundi 14. október 2011 og biður „velvirðingar á henni“ en hefur hvorki beðist afsökunar á frumhlaupi sínu, né dregið vantraustsbókun sína formlega til baka. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ hefur ekki gefið neinar skýringar á því hvað við vinnubrögð sjóðsstjórnar hún taldi svo ámælisvert að verðskuldaði opinbert vantraust, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Er það ásættanlegt?
    • formaður FF segist hafa í einkasamtölum beðið stjórn Vísindasjóðs afsökunar á þætti sínum í málinu, en hefur ekki gert það með formlegum hætti opinberlega. Er það ásættanlegt?
    • rekstrarkostnaður Vísindasjóðs er lægri á eigin skrifstofu úti í bæ heldur en í samrekstri og samnýtingu starfsfólks í Kennarahúsinu. Er það ásættanleg niðurstaða fyrir skrifstofu KÍ?
    • stjórn Vísindasjóðs hefur sjálf unnið ómælda, í raun ótrúlega vinnu, við að halda sjóðnum gangandi og tryggja sjóðfélögum réttindi sín og óheftar greiðslur. Takk fyrir það.
    • þau vandkvæði sem upp hafa komið skýrast af ófullkomnu tölvukerfi, sem ræður ekki við það sem það á að gera. Unnið er að lagfæringum á kerfinu, en fyrir vikið hefur stjórn sjóðsins þurft að handvinna úr styrkumsóknum félagsmanna. Takk fyrir það.

Í þessu ljósi er það bæði ljúft og skylt, nú sem fyrr, að lýsa yfir óskoruðu trausti á stjórn Vísindasjóðs FF/FS og fullum stuðningi við hana í þessu máli til loka.

Selfossi, síðasta vetrardag 2013.
Gylfi Þorkelsson,
formaður Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands