Margt gott kom fram hjá Sölva Sveinssyni í Viðtalinu á RÚV. Eitt af því lýtur að umræðu um ónógan sveigjanleika í skólakerfinu. Stjórnmálamenn sjá í því samhengi ekkert annað en vinnutíma kennara og kennsluskyldu. Sölvi benti á lög sem hindra eðlilegt flæði milli skólastiga. Halda áfram að lesa
Greinasafn eftir: Gylfi Þorkelsson
Flóttaleiðin
PR-ræða forsætisráðherrans á framsóknarfundi á Hótel Selfossi um síðustu helgi var að mörgu leyti alveg meinfyndin. Hann varaði fundarmenn ábúðarfullur við því að auðvitað myndi hin illa stjórnarandstaða bæði snúa út úr öllu saman og ljúga hikstalaust þegar skuldaleiðréttingatillögurnar hans yrðu kynntar í lok þeirrar viku sem nú er brátt á enda runnin:
Bera andstæðingar sig,
útúrsnúning feta,
ætla’ að ljúga upp á mig
öllu sem þeir geta.
Þá er tónninn sleginn: ekki skiptir máli úr þessu hver mun hugsanlega gagnrýna tillögurnar sem allir bíða spenntir eftir, né fyrir hvað eða á hvaða forsendum. Allri gagnrýni verður svarað þannig að um sé að ræða útúrsnúninga eða lygar. Enda hafi svo sem engu verið lofað beint (jafnvel þó hægt sé að endursýna loforðaupptökurnar).
Þessi ræða var að vísu ekki ætluð þeirri sauðtryggu hjörð sem mætt var á fundinn, heldur var hún til útflutnings – í gegnum fjölmiðlana til þjóðarinnar allrar. Þessi ræða var tilraun til að hafa einhverja stjórn á umræðunni og atburðarásinni, forsætisráðherra var að skapa sér og fylgismönnum sínum varnarstöðu – og flóttaleið ef nauðsyn krefði. Almannatenglar og blaðafulltrúar forsætisráðuneytisins hafa áttað sig á því að brýn þörf væri fyrir áætlun af þessu tagi. Það skemmtilega er hve „gagnsætt“ allt þetta ferli er. Og á ekki öll stjórnsýslan einmitt að vera gagnsæ?
Þó planið sé gott er eiginlega vandræðalegt hve stjórnarandstaðan hefur verið hógvær og varkár í gagnrýni sinni, enda engar tillögur fram komnar og fátt sem hönd á festir í því sambandi. Menn hafa mest verið að velta vöngum og lýsa áhyggjum af afleiðingum hugsanlegra möguleika.
Gagnrýnin hefur ekkert síður komið úr öðrum hornum en stjórnarandstöðuhorninu og sumpart beinst að ráðaleysinu, að ekkert hafi gerst mánuðum saman þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra bæði fyrir og eftir kosningar um að skuldaniðurfellingarloforðin byggðu á þaulhugsuðum áætlunum sem ráðist yrði í STRAX. Allt væri þetta kristalstært, og snilldin fælist ekki síst í því að enginn kostnaður myndi falla á ríkissjóð!
Sumir hafa kallað þetta lýðskrum, óframkvæmanlega barbabrellu ætlaða að slá glýju í augu kjósenda. Við fáum að vita um það í vikulokin hvort svo er, og hvort ríkissjóður verður eins stikkfrí og lofað hefur verið.
Miklu meira áberandi en gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafa verið hróp framsóknarmanna sjálfra á torgum um ósanngjarnar árásir úr öllum áttum. Þeir hafa verið alveg einfærir um að halda því á lofti hvað aðrir eru voðalega vondir við þá: smá meðvirkni kæmi sér víst ekki illa.
Það eru ekki síður Seðlabankinn, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, hagfræðingar og sérfræðingar af ýmsu tagi sem hafa haft uppi varnaðarorð. En allt eru þetta víst grunsamlegir aðilar og ekki síður líklegir til að grípa til útúrsnúninga og lyga en óforbetranlegt stjórnarandstöðuliðið!
Nú er ekkert annað að gera en bíða eftir því hvað forsætisráðherrann dregur upp úr hatti sínum. Fjallið hefur loks tekið jóðsóttina. Öll vonumst við eftir einhverju brilljant-íni.
Fundinn fjársjóður
Á sunnudaginn var Anna María að grúska eitthvað í skápum og kössum með gömlu dóti. Svo kemur hún, þessi elska, og réttir mér samanbrotið, línustrikað blað sem hún hafði fundið. Þegar ég brýt sundur blaðið þekki ég strax rithöndina hans pabba heitins. Og viti menn. Á blaðið hefur hann skrifað mér kveðju í tilefni fertugsafmælis míns, fyrir hönd þeirra mömmu. Kveðjan er fallegt ávarp og fjórar frumsamdar vísur, sem ég var búinn að steingleyma að væru til, og eru mér því sannarlega fundinn fjársjóður. Vísurnar eru svona:
Íþróttunum alla tíð,
einkum snjall í körfu.
Finnur lausn í harðri hríð,
hugarflugi djörfu.
Hesta sína heiðra kann,
hátt á fjöllum ríður.
Á fullum kostum flengist hann,
fjörðið ólgar, sýður.
Áfram lítur æfileiðar
undralönd.
Tíðast hefur tvo til reiðar,
tölt við hönd.
Farsæll hefur fjóra tugi
farið keikur.
Enda er hann ofurhugi,
aldrei smeykur.
Annars gáfu foreldrar mínir mér hestastein í fertugsafmælisgjöf, stuðlaberg úr Hrepphólum sem stendur í hlaðinu og festur hefur verið við járnhringur – og svolítill áletraður málmplatti með tilefninu og tveimur vísum, þar sem minnst er fyrsta alvöru gæðingsins sem ég eignaðist og geymi alla tíð næst hjarta:
Átti Hreimur hylli í för,
hratt þó steymdu árin.
Ennþá dreymir ólgufjör,
aldrei gleymist klárinn.
Vítt um landið velja má
vegi margrar gerðar.
Leystu hestinn, leggðu á,
löngun er til ferðar.
Pabbi kunni sannarlega að setja saman vísur – og hefði gjarnan mátt gera meira af því.
Óbótastefna
Nú styttist í að margir kjarasamningar á vinnumarkaði renni út. Margir búast við hörðum átökum. Kennarar eru meðal þeirra stétta sem þurfa að setjast að samningaborðinu á næsta ári. Samningar framhaldsskólakennara renna út 31. janúar, grunnskólakennara stuttu seinna og leikskólakennara síðar á árinu. Halda áfram að lesa
Enn skal brýnt og skorið – Sunnlendingar aftastir á fjárlagamerinni
Það er ekki ofsögum sagt að fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu hafi valdið titringi víða: innibyrgðum gleðihristingi til sjávar, en ónotahrolli bæði í sollinum og til sveita. Töldu margir að eftir hin mögru ár í kjölfar tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og ríkissjóðs væri botninum náð og niðurskurðarhnífurinn yrði lagður á hilluna um sinn. En aldeilis ekki. Enn skal brýnt og skorið. Það vekur sérstaka athygli margra og óhug að undir hnífinn er leidd sjálf kýrin Velferð, sem þegar má telja í rifin af löngu færi, en tuddinn Stórútvegur, sem rorrar í þverhandarþykku spiklagi, fær a.m.k. næsta aldarfjórðunginn að graðga í sig kjarnfóðrinu, óáreittur í kálgarði kerlingar, sem á tyllidögum er víst kölluð fjallkona. Halda áfram að lesa
Siggi í Syðra
Útför Sigurðar Sigmundssonar frá Syðralangholti var gerð í dag frá Skálholtskirkju, í fallegu veðri. Jarðað var í Hrepphólakirkjugarði. Þetta var virðuleg, falleg og fumlaus jarðarför. Séra Eiríkur var ekkert að teygja lopann. Fjöldi manns var við útförina, sem vænta mátti, og boðið upp á lystuga kjötsúpu í félagsheimilinu að greftrun lokinni. Það var við hæfi.
Siggi var alltaf viðræðugóður og kom eins fram við alla, tel ég. Ég minnist þess alla vega frá hestamótum, t.d. á Murneyrum, að hann gaf sig á tal við mig, þegar á barns- og unglingsaldri, eins og hvern annan fullgildan fulltrúa Laugdæla, spurði tíðinda og tók það allt gott og gilt sem ég hafði fram að færa. Maður var töluvert hróðugur að loknum þessum samtölum við þennan karl úr fjarlægum hreppi (þetta voru töluverðar vegalengdir á þeim tíma og ekki vikulegur skreppitúr í Hreppana þá eins og nú) sem lét svo lítið að gefa sig á tal við barnið.
Seinna átti ég því láni að fagna að kynnast vel fólkinu í Syðralangholti, þegar ég ferðaðist nokkur sumur með Simma, á hestum um hálendið. Þá var Siggi oft á stjákli um hlöðin, jafnan með vélina um hálsinn auðvitað, að reyna að ná ‘myndinni’. Allt gekk þetta hjá honum með hægðinni, og hann gaf sig á tal við mig fullorðinn með nákvæmlega sama hætti og fyrr.
Ég votta ættingjum Sigga gamla samúð mína. Blessuð sé minning hans.
Frónar versta stjórn
Það var allra fremst í forgangsröð verkanna hjá núverandi ríkisstjórn að afturkalla sérstakt auðlindagjald, fyrir leyfi til að nýta sjávarþjóðarauðlindina. Þegar fyrsta fjárlagafrumvarp stjórnarinnar lítur dagsins ljós, með blóðugum niðurskurði á mörgum sviðum, verja talsmenn hennar aðgerðirnar með orðunum: „Það þarf að forgangsraða“. Það vita allir að staðan er erfið og nauðsynlegt er að forgangsraða. Og pólitík snýst mikið til um það hvernig er forgangsraðað. Þessi ríkisstjórn forgangsraðar svona:
Þjónar hér, af þjóðarauð,
þykkast skera ríkum brauð.
Mammon ver, og færir fórn
Frónar versta ríkisstjórn.
Framtíðarsýn afturkallan(n)a
Á hinum erfiðu tímum við hrunið, þegar skuldir ríkissjóðs gerðust stjarnfræðilegar, varð nauðugur einn kostur að skera niður þjónustu, þ.á.m. ýmsa þjónustu sem við lítum á sem grunn velferðarkerfis okkar. Ríkisstjórn áranna 2009-2013 var kosin til þess að takast á við þjóðargjaldþrot, sem var afleiðing óstjórnar hægri flokkanna, sem nú mynda aftur ríkisstjórn, eins og kunnugt er.
Í öllu niðurskurðarati ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur – sem var blóðugt – gagnrýndu málþófspostular Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hana harðlega fyrir niðurskurð í velferðarkerfinu. Nú blasir hins vegar við í fyrsta fjárlagafrumvarpi Bjarna Ben. að gengið er enn lengra í niðurskurði.
Eitt af því jákvæða sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms reyndi að gera í harðindunum og atvinnuleysinu var að efla menntunarmöguleika atvinnuleitenda, símenntun og ýmiskonar rannsóknar og fræðslustarfsemi.
Mörg falleg dæmi má nefna um þetta, t.d. verkefni eins og „Nám er vinnandi vegur“, raunfærnimat og aukið fé til náms- og starfsráðgjafar í gegnum fræðslumiðstöðvarnar í tengslum við þessi verkefni. Einnig má nefna í þessu samhengi „sóknaráætlun“ landshlutanna, sem telja má einhverja gáfulegustu byggðastefnu sem rekin hefur verið hér á landi. Ekki er því haldið fram hér að hún sé sköpunarverk stjórnarinnar 2009-2013, en sú stjórn hélt henni á lofti á niðurskurðartímum, góðu heilli.
Nú eru aðrir tímar. Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í gær boðar slátrun margra uppbyggilegra fræðslu- og atvinnuskapandi nýsköpunarverkefna, ekki síst á landsbyggðinni.
Gerð er aðför að átaksverkefninu „Nám er vinnandi vegur“. Annars vegar er framlag til raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar lækkað um 50% eða 30 milljónir og hins vegar er 300 milljóna króna framlag til eflingar á starfstengdu námi, sem var upphaflega veitt í fjárlögum 2012, skorið alveg niður.
Verkefni sem tengjast þessum málaflokkum, og voru hluti af fjárfestingaráætlun 2013-2015 frá fyrri ríkisstjórn, eru skorin við trog. „Afturkölluð“ eru framlög úr fjárlögum 2013 upp á 400 milljónir til sóknaráætlunar landshluta en gert ráð fyrir því „á næstu árum að fjármagna hluta sóknaráætlana með fjármunum sem nú renna t.d. í vaxtarsamninga og menningarsamninga“ eins og það hljóðar í textanum. Enda á menningin ekki upp á pallborðið og sjálfsagt að færa annað peninga sem eyrnamerktir voru henni.
Fleiri verkefni úr fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar eru skorin, enda byggðust þau á tekjuöflun sem núverandi stjórnvöld kæra sig ekki um: sérstöku auðlindagjaldi af umframhagnaði útgerðarinnar. Hér má nefna verkefni upp á ríflega 480 milljónir, þau stærstu „bygging þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri og uppbygging innviða friðlýstra svæða.“
Hvernig líst fólki á landsbyggðinni á þessar áætlanir? Hvað varð um hækkað menntunarstigið? Á sama tíma og hoggið er að rótum menntunar, rannsókna og fræðslustarfsemi, sem er forsenda nýsköpunar og þróunar atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum, er sargað á raddböndum í hinum falska stóriðjukór.
Svei því. Svei þeirri hörmulegu framtíðarsýn sem nýja fjárlagafrumvarpið boðar.
Hálfsannleikur oftast er…
Tilvitnun
Þorlákur Helgason skrifaði fyrir svona hálfum mánuði í blað sitt, Selfoss – Suðurland, fréttaskýringu um stöðu Árborgar. Þar leitaðist hann við að skýra sveiflur í fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Hann benti á þær staðreyndir að á árunum 2002 til 2010 hafi skuldir vissulega aukist, en að augljósar skýringar á því væri að finna í gríðarlegum framkvæmdum og uppbyggingu. Að sama skapi væri núna hægt að lækka skuldir með auknum tekjum og samdrætti í framkvæmdum og uppbyggingu. Formúlan væri svona:
Miklar framkvæmdir og uppbygging = Auknar skuldir.
Takmarkaðar framkvæmdir og uppbygging = Möguleg skuldalækkun
Ástæðna fyrir þessari umfjöllun Þorláks er einkum að leita í framhlaupi tímans: Nú líður að sveitarstjórnarkosningum og nauðsynlegt er, að mati hans, að leiðrétta þá einhliða framsetningu á fjárhag og rekstri sveitarfélagsins sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur stundað.
Höfuðpaur núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks hefur skýrt sveiflur í fjárhagsstöðunni þannig að bæjarstjórnir áranna 2002-2010 hafi safnað skuldum en undir stjórn hans sjálfs hafi skuldir lækkað. Og þessa framsetningu hefur hann komist upp með, gagnrýnislítið. Formúla höfuðpaursins er svohljóðandi:
Bæjarstjórnarmeirihlutar 2002-2010 = Skuldaaukning
Bæjarstjórnarmeirihluti 2010-2014 = Skuldalækkun.
Fyrir sitt leyti er það rétt að skuldir fóru vaxandi 2002-2010 en hafa lækkað nokkuð frá 2010. En framsetning af þessu tagi er ekkert annað en blekkingarleikur. Nýjasta dæmið má lesa í Selfoss – Suðurlandi í dag.
Það sem máli skiptir er einmitt það sem Þorlákur Helgason reyndi að benda á í fyrra tölublaði (hann heldur svo áfram að klappa þann stein í því nýja) að skuldaaukning áranna 2002-2010 er ekki afleiðing þess að tekin hafi verið lán og peningunum hent út um gluggann. Peningunum sem teknir voru að láni var vel varið. Þeim var varið til uppbyggingar á skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum, fráveitumannvirkjum, vatnsveitumannvirkjum og almenningssamgöngum, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ekki glatað fé, heldur liggja sameiginlegir fjármunir íbúa sveitarfélagsins í varanlegum eignum, í þeim grunnstoðum sem nauðsynlegar eru til að þrifist geti gott samfélag.
Og sveitarfélagið tók algerum stakkaskiptum á árunum 2002-2010. Hér er nú nánast allt til alls. Þannig var það ekki vorið 2002. Íbúarnir munu njóta þess til framtíðar að hér var öllum aðstæðum fjölskyldna umbylt til að þær mættu blómstra. Þetta átak kostaði verulega skuldasöfnun en núverandi bæjarstjórn nýtur góðs af uppbyggingunni og getur sem betur fer slakað mikið á framkvæmdahraðanum, horft á síauknar skatttekjurnar renna í kassann og notað þær til þess að greiða niður skuldirnar, í stað þess að velta vöngum yfir því t.d. hversu hratt mögulegt væri með nokkru móti að auka framboð á leik- og grunnskólaplássum til að fylgja íbúafjölguninni.
Á tímum sem nú, þegar íbúafjöldinn stendur nánast í stað og nauðsynleg þjónustumannvirki sinna þörfinni í stórum dráttum, væri ábyrgðarleysi að greiða ekki niður skuldir, það er í raun sjálfgefin ráðstöfun. Á uppgangstímunum 2002-2008, þegar íbúafjölgunin var um 30% og nauðsynleg þjónustumannvriki önnuðu ekki eftirspurninni nándar nærri, hefði verið ábyrgðarleysi að leysa ekki úr vandanum og fara í þá stórkostlegu uppbyggingu sem við blasir nú. Það kostaði tímabundna skuldaaukningu (jafnvel þó ekki hefði að auki komið til efnahagshrun og margfrægur „forsendubrestur“). Vonandi næst að lækka verulega skuldastabbann áður en næsta íbúafjölgunarhrina skellur á.
En það sem eftir stendur er að útskýringar höfuðpaurs Sjálfstæðismanna í Árborg á sveiflum í fjárhag sveitarfélagsins eru ekki nema hálf sagan, og tæplega það. Og allir vita það víst að…
„hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.“