Gengisfall

Það eru ekki bara bankarnir okkar sem rændir voru innan frá. Smá saman er verið að hola innan móðurmálið með einhæfni og merkingarlausum frösum. Þessu verður ekki betur lýst en með því að vitna í Andra Snæ Magnason, en í smásögunni Sofðu ást mín segir hann svo:

„Peningafölsurum er hent í steininn vegna þess að þeir offramleiða peninga sem eyðileggja hagkerfið þegar gjaldmiðillinn tapar gildi sínu. En hver á að spyrna við fótum þegar gengi dýrustu orða tungunnar lækkar? Setningar eins og  „ég elska þig“ þokast sífellt nær frösum eins og „I love you“ sem hafa fyrir löngu tapað allri merkingu. „I love you“ merkir ekki mikið meira en „mér líkar alveg sæmilega við þig“ eða jafnvel „bless“ og oft „ekki neitt“. Í hvert skipti sem maður elskar að borða ís, eða maður elskar Toyotur og pizzur, þá fellur gengið og menn þurfa sífellt fleiri og stærri lýsingarorð til að tjá hug sinn. Unglingar sóa orðinu á fyrsta stefnumóti og menn prenta það á boli og loks endar það sem klisja sem er ekki eyðandi á nokkurn mann. En hvernig á maður að orða sínar dýpstu tilfinningar þegar orðið sjáflt verður merkingarlaust? Ef það er búið að slíta það úr sambandi við hjartað og tengja það í staðinn við plasthjörtu og súkkulaði. […]

Hvað gerum við ef „ég elska þig“ verður jafn lítils virði og ágætt eða sæmilegt „I love you“? Þá hefur hjartað ekkert til að nota nema úrelta mynt. […]

Amma hefur aldrei sagt þetta orð svo ég viti. Samt veit ég að það býr í henni, hún geymir það eins og gimstein, orðið skín úr augum hennar.“

Sögnin „að elska“ er smám saman að missa gildi sitt í tungumálinu og það sama á við um fjöldamörg önnur innihaldsrík og lýsandi orð. Í hvert sinn sem fólk t.d. „gerir“ listaverk (ljóð, leikrit, málverk o.s.frv) forsmáir það sagnir eins og að yrkja, semja, mála – og fletur út málið.

Og í hvert skipti sem þjóðin velur til forystu spillta aflandsprinsa og svindlara gengisfellir hún falleg og nauðsynleg orð eins og „siðferði“ og „heiðarleiki“ og holar innan allan merkingargrunninn svo hann hrynur.

Á hverju eiga næstu kynslóðir að byggja siðferðisgrunn sinn ef orðin sjálf verða merkingarlaus? Ef búið er að slíta þau frá rótum með því að tengja þau við hvern sem er, hampa og lyfta í hæstu hæðir mönnum sem láta eins og það sé bara allt í lagi að vera siðlaus svindlari?

 

Við áramót 2016-2017

„Nú árið er liðið í aldanna skaut“
og aldrei það komi til baka
með Icehot, sem Borgun til skyldmenna skaut,
í skjólin þeir auðmagni raka,
og forsætisráðherrann flagsækið naut,
fnæsandi, siðspillt og gaga,
vort Alþingi, hæstvirt, er lægst núna laut,
samt ljóst að af miklu’ er að taka,
því lífeyrisfrumvarp á launþegum braut
sem lítt höfðu unnið til saka.

 

Nýtt ár er í vændum, og útlitið svart,
því afturhaldsstjórn er í pípum
sem gefa mun almenningseigurnar skart
til útvaldra’, í passlegum klípum,
og auðmönnum hleypa á fljúgandi fart,
þessum forhertu, siðlausu týpum,
en sjúklingur! fljóta til feigðar þú þarft
í fenjum með botnlausum dýpum.
Ég játa, mér finnst þetta helvíti hart.
Til heilbrigðra meðala grípum!

 

Jólakveðja 2016

Stríðs í heimi hrjáðum,
hungursneyðar, leiðum,
er fjöldi enn, sem um aldir,
óttasleginn á flótta.
Eins og Jósef Jesúm
úr jötu tók, um götur
hrakinn, úr landi sem hundur,
svo hlífa mætti lífi.

Þennan mæta manninn
myrtu valdsmenn kaldir
sem þelið ekki þoldu
þýða, og hylli lýðsins.
Nú á tímum „nýjum“
neglum á krossa, steglum,
þá sem valdi velgja
vel undir uggum, við stugga.

Augum lítum ætíð
Assange þannig og Manning.
Af lífi, og sögulegu,
lærum, vinir kærir.
Aðeins andófslundin
oki lyftir. Tyftir
illan bifur. Hjá öllum
til árs og friðar miði.

Hérna blessuð börnin
brosa sem sól um jólin.
Annars staðar þau stuðar
stríð með sprengjuhríðum.
Selja vesturveldi
vopnin. Huga opnum!
Innum oss að þessu:
Eru þau mannverur?

 

Hernaðurinn gegn kennarastéttinni

Anna Lára Pálsdóttir fór vel yfir það í pistli á visir.is hvernig veist hefur verið að kennarastéttinni frá því rekstur grunnskólanna var færður yfir til sveitarfélaganna. Nánast allt sem hún tínir til á við um framhaldsskólana líka, en þeir eru á ábyrgð ríkisins eins og flestir munu vita og því sama hvorum megin hryggjar kennarstéttin liggur hvað yfirstjórn varðar. Halda áfram að lesa

Þjóðarmeinin

ÉG HJÓ eftir því í útvarpsfréttunum í gær að haft var eftir Bandaríkjaforseta að Panamaskjölin hefðu flett ofan af miklu þjóðarmeini þar í landi. Hvorki skammaðist ég mín fyrir Bandaríkjaforseta að taka svo til orða, varð orðlaus né datt mér í hug að tala alvarleika málsins niður við eldhúsborðið mitt með því að fleiri ættu nú sitthvað á samviskunni en þeir sem nú eru í sviðsljósinu vegna skúffufélaga í skattaskjólum.

Í Stundinni birtist leiðari þar sem dregið var saman í hnotskurn hvers vegna rétt er að tala um þjóðarmein í þessu samhengi á Íslandi, rétt eins og í Bandaríkjunum og öðrum ríkjum veraldar. Ritstjórinn benti á…

…að „moldríkur minnihluti nýtti sér aðstöðumun sinn til að fá skuldbindingalaus lán, kaupa upp landið, auðlindirnar og fyrirtækin, taka yfir fjölmiðlana og umræðuna, lækka skattgreiðslur, fela slóðina og þegar allt um þraut fá lán sín afskrifuð“…

…að þessi sami minnihlutahópur er áhrifamikill í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum hér á landi…

…að „Panama-skjölin leiddu í ljós að stór hluti efsta lags samfélagsins sótti í að losna við að borga skatta á Íslandi og ná fram leynd um viðskipti sín með því að stofna skúffufélög í frumskógarlöndum“ og hefur því sameiginlega hagsmuni með fyrrnefndum minnihlutahópi…

…að þjóðmálaumræðan á næstu mánuðum muni snúast um að vara við breytingum og að fullvissa íslenskan almenning um að honum stafi ógn af því að einhverjir aðrir en þeir sem stjórna núna taki ákvarðanir um hagsmuni hans…

…að þegar ríkjandi valdhafar hafi verið þátttakendur í því sem fór afvega muni þeir berjast við að réttlæta hið skaðlega…

…að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna og fjölskyldur þeirra, og eiginkona forsetans, hafi stundað skattaskjólsviðskipti á laun…

…að sitjandi forsætisráðherra hafi réttlætt það að stjórnmálamenn feldu leynilega hagsmuni sína í skattaskjólum, og með því tekið þátt í að grafa undan almennu siðferði…

…að birting lofgreinar um mikilfengleika fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og seðlabankastjóra, í blaðinu sem hann sjálfur ritstýrir, sé birtingarmynd þeirrar foringjadýrkunar sem alið er á til að réttlæta ríkjandi valdhafa….

Ljóst er að sumum finnst allt þetta sem ritstjóri Stundarinnar tínir til (og ég leyfi mér, líkt og Bandaríkjaforseti, að kalla samandregin í hnotskurn ‘helstu mein samfélagsins’) eðlilegt og sjálfsagt í lýðræðissamfélagi og fyrtast jafnvel við gagnrýninni; afneita ættingjum sínum af skömm, verða orðlausir eða normalisera ástandið með því að fullyrða að aðrir séu engu betri en þeir sem opinberaðir hafa verið – sem er vel að merkja algengasta varnarviðbragðið á samfélagsmiðlum.

Ég leyfi mér þó að fullyrða að slík viðbrögð við eðlilegri gagnrýni eru fyrst og fremst „birtingarmynd þeirrar foringjadýrkunar sem alið er á til að réttlæta ríkjandi valdhafa“. Of margt fólk hefur bundið trúss sitt með óleysanlegum rembihnútum á klakk stjórnmálaflokka og -foringja.

Slíkir attaníossar eru að mínu viti á meðal alvarlegustu meinsemda hvers samfélags – og lýðræðisins.

 

Íslensku hrægammarnir

Nú eru ódæmin komin fram í dagsljósið, með umfjöllun Kastljóss RÚV í gær, og koma svo sem ekki á óvart. Augljós en undirliggjandi meinin skriðin upp á yfirborðið, eins og graftarkýli sem brýst loks fram, þó roði á húð hafi löngu fyrr gefið ótvírætt í skyn hvers væri að vænta.

Siðferði þessa fólks er utan og neðan við þann samfélagsgrundvöll sem aðrir standa á, það skilur ekki líf og kjör þess „almennings“ sem þarf að vinna fyrir sér og hafa fyrir því sem það vill eignast eða áorka í lífinu. En mál forsætisráðherrahjónanna snýr ekki einungis að persónulegu siðrofi þeirra, eða firringu íslenskrar auðstéttar. Á því eru aðrar og alvarlegri hliðar.

Rétttrúnaðarsöfnuðurinn í kringum forsætisráðherrann hefur í heilögu varnarstríði sínu undanfarna daga tekið sér vígstöðu, annars vegar gegn „ómaklegum árásum á eiginkonu stjórnmálamanns“ og hins vegar „rógi og öfund út í fólk sem á peninga“. Ekkert er fjær sanni. Það snýst um að forsætisráðherrann er lygalaupur.

Að vísu má vel halda því til haga að það er bæði ósiðlegt og ljótt að eiga ofgnótt af peningum, því peningar verða ekki til í einhverri sápukúlu. Ef á einum stað er gnótt, þá er skortur annars staðar. Og ef einhvers staðar er ofgnótt þá er nauð annars staðar. Auðlindir jarðar eru nægar til að tryggja öllum mönnum næg gæði til að lifa sómasamlega, alveg burtséð frá hugmyndum um að allir skuli endilega eiga jafn mikið. Það er annar handleggur sem má liggja milli hluta.

En hvaðan kemur þá hinn stjarnfræðilegi auður sem safnast hefur í fang fjölskyldu forsætisráðherrans?

Annars vegar er um að ræða verðmæti í eigu ríkisins sem einstaklingur sölsaði undir sig í krafti flokkspólitískra tengsla og nýtir síðan til að mala gull í eigin þágu. Hins vegar er um að ræða peninga sem dregnir eru upp úr hafinu, úr okkar verðmætustu sameiginlegu auðlind, sem nýtt er til að mala gull í þágu einstaklinga í skjóli spilltra stjórnmálamanna.

Svona er nú farið með sameiginlegar eignir okkar og auðlindir. Þær eru muldar undir einstaklinga, lenda í klóm hinna eiginlegu hrægamma, sem fela þær svo í skattaskjólum til að geta þaðan, í friði fyrir „öfundsjúkum“, margfaldað stjarnfræðilega fjarlægð sína frá veruleika almennings.

Svona er þá farið með auðlindirnar okkar, sem annars gætu auðveldlega staðið undir velferð og ágætum lífsgæðum fyrir alla í samfélaginu.

 

Af menntun og skólahaldi í fangelsum

Árið 2008 skilaði nefnd skipuð fulltrúum frá mennta- og dómsmálaráðuneytum, Fangelsismálastofnun og Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) tillögum að stefnumótun í menntunarmálum fanga. Nefndinni var falið að huga sérstaklega að fjarkennslu gegnum Netið, verkmenntun, menntun erlendra fanga og þeim sem fallið hafa út úr skyldunámi. Halda áfram að lesa

Háæruverðug fyrsta persóna

„Á almennum vinnumarkaði er hægt að segja þér upp samdægurs án ástæðna. Við erum í raun að færa reksturinn nær almennum vinnumarkaði“, segir formaður fjárlaganefndar Alþingis Íslendinga í fjölmiðlum.

Það er sem sagt eðlilegt ástand og eftirsóknarvert að hægt sé að reka fólk samdægurs og án ástæðna úr vinnunni, í augum eins valdamesta þingmanns Framsóknarflokksins.

„Við erum í raun að…“. Alls ekki að eitthvað sé til umræðu eða að lögð verði fram tillaga á þingi. VIÐ ERUM AÐ. Allt æði er hér í fyrstu persónu og engum öðrum kemur það neitt við.

Þarna er rétt lýst mannfyrirlitningunni, hrokanum og yfirlætinu sem eru aðaleinkenni orða og æðis viðkomandi, og fleiri úr forystusveit ríkisstjórnarinnar.

Nú ætlar háæruverðug fyrsta persóna, í fleirtölu með skoðanabróður sínum í Sjálfstæðisflokknum, að innleiða þennan vinnumarkaðsfasisma í opinbera kerfið, undir kjörorðunum „að liðka fyrir starfslokum“.

Einhvern tímann hefði maður ekki trúað þessu upp á Framsóknarflokkinn.

 

… litast þessi tilvik nú rauð þegar vinnumat í dálkum Q og V fer upp fyrir starfshlutfall í dálki E

Eftir að verkfalli framhaldsskólakennara lauk fyrir bráðum einu og hálfu ári tók við smíð á fyrirbæri sem kallast „nýtt vinnumat“ – og var hluti af þeim kjarasamningi sem samþykktur var í apríl 2014. Kennararnir áttu svo að kjósa sérstaklega um þennan hluta kjarasamningsins í febrúar 2015. Þeir gerðu það – og kolfelldu bastarðinn. Hófst þá vinna við að „sníða af vinnumatinu gallana“ eins og það var látið heita. Halda áfram að lesa

Eitt lítið hornsíli

Velferðarkerfið er á heljarþröm. Það eru ekki nýjar fréttir. Á sk. „góðæristímum“ fyrir hrun, fyrsta áratuginn á 21. öldinni, var þetta stoðkerfi samfélagsins svelt markvisst í pólitískum tilgangi, skv. hugmyndafræði frjálshyggju og einkavinavæðingar Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn spilaði með af fullum þunga.

Heilbrigðiskerfið fékk ekki nauðsynlegar fjárveitingar til að viðhalda sjálfu sér, endurnýja tæki og byggja yfir sig. Skorið var niður um a.m.k. tug milljarða í framhaldsskólakerfinu og skólarnir settir í þá stöðu að geta ekki rekið sig á fjárveitingunum. Þetta var ekki eitthvert athugunarleysi eða misskilin forgangsröðun þar sem peningarnir voru nýttir í aðra samfélagsþjónustu eins og t.d. vegakerfið og samgöngumál, nú eða almannatryggingar svo hægt væri að gera gangskör að því að hlúa að öryrkjum og fötluðum eða búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

Nei, þvert á móti voru framlög til þessara málaflokka skorin niður líka en gerðar skattkerfisbreytingar til að tryggja hinum efnuðu enn betri stöðu, útgerðinni sleppt lausri á sjávarauðlindina og eftirlit veiklað eða afnumið til að búa í haginn fyrir græðgisbrjálæðið sem heltók „margan góðan drenginn“ með þekktum og skelfilegum afleiðingum.

Þær afleiðingarnar eru arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þjóðargjaldþrot.

Hrunflokkarnir fengu útreið í kosningum vorið 2009 og fyrsta vinstristjórnin á Íslandi fékk það í fangið að reisa samfélagið við á ný, grafa það upp úr dýpstu gröf efnahagshruns sem um getur á byggðu bóli. Það tókst, í stórum dráttum, á einu kjörtímabili. Á aðeins fjórum árum.

En viti menn. Viðreisnarflokkarnir fengu fyrir þetta afrek aðra eins útreið, eða verri, í næstu kosningum og hrunflokkarnir höfðu fengið fjórum árum fyrr. Kjósendur mátu jafnt annars vegar það afrek hrunflokkanna að koma landinu lóðbeint í versta þjóðargjaldþrot mannkynssögunnar og hins vegar viðreisnarafrek vinstriflokkanna. Segið þið svo að kjósendur láti að sér hæða!

Nú þegar kjörtímabil hrunflokkanna er hálfnað hefur þeim tekist að gera svo mörg risavaxin axarsköft að tær og fingur duga ekki til að telja allt saman – og það við kjöraðstæður. Hrunflokkarnir hófu kjörtímabilið með pálmann í höndunum, við þær aðstæður að boltinn var sjálfkrafa á uppleið eftir að hafa skollið í gólfið, og enn langt í hæsta punkt.

Ástæðan fyrir þessu ólánlega stjórnarfari er fyrst og síðast sá grunnur sem það er reist á. Grunnurinn er tóm froða og upploginn fagurgali og á slíkum grunni fær ekkert staðist, heldur fellur flatt um sjálft sig.

Skýrasta dæmið er svokölluð skuldaleiðrétting. Í því máli má líkja Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum við mann sem lofar sveltandi stjórfjölskyldu sinni að fara og veiða í matinn handa öllum ef hann fær lánaða veiðistöngina. Hann fer, er lengi í burtu en kemur loksins heim aftur í æpandi hungrið – með eitt lítið hornsíli – sem engan veginn dugar einu sinni til að seðja sárasta hungur neins. Uppi verður fótur og fit en „veiðimaðurinn“ rífur bara kjaft og segist víst hafa veitt í matinn og staðið við loforð sitt. Hinir sveltandi vita betur.

Nýjasta axarskaftið er framkoman gagnvart hjúkrunarfræðingum og félögum í BHM.

Heilbrigðiskerfið er á heljarþröm. Rót vandans liggur ekki í axarsköftum núverandi ríkisstjórnar, ekki heldur í efnahagshruninu eða viðreisnarárum vinstristjórnarinnar. Rót vandans liggur aftur í sk. góðæri fyrir hrun og úthugsaða, pólitíska skemmdarverkastarfsemi hrunflokkanna skv. þeirri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins að koma sem mestu af opinberri þjónustu í hendurnar á sínu fólki.

Vandi heilbrigðiskerfisins er svo langvinnur, víðtækur og alvarlegur að þær auknu fjárveitingar sem Landspítalinn hefur fengið undanfarið eru eins og dropi í hafið. Kerfi með heilsuspillandi húsnæði, lokaðar deildir, aflóga lækninga- og rannsóknatæki og starfsfólk gengið upp að hnjám af álagi verður ekki bætt með neinum smáskammtalækningum.

Og það er alveg sama hvað stjórnarliðar hneykslast mikið á launakröfum hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna eða hversu lengi þeir hanga eins og hundar á roði á því prinsippi að opinberir starfsmenn eigi ekki meira skilið en samið var um á almennum markaði, því óánægjan með launkjörin og starfsaðstæður er svo megn og gamalgróin að viðunandi heilbrigðisþjónusta verður ekki byggð upp aftur hér á landi nema bæta bæði laun og vinnuumhverfi þessara stétta verulega.

Hér dugar sem sagt ekki að bjóða aftur hornsíli – og mannréttindabrot er ekki skynsamlegasta leiðin til að ná sáttum við langþreytta og niðurlægða stétt. Hún mun ekki leggjast undir vöndinn heldur láta sig hverfa. Sama hvað stjórnarliðar jarma.

Að öllu þessu virtu er knýjandi sú spurning hvort Framsóknarflokkurinn ætlar sér enn að verða virkur þátttakandi með Sjálfstæðisflokknum í því að brjóta niður stoðkerfi samfélagsins til þess að koma því endanlega í hendur einkamarkaðarins?