Ættfræði: Um Jóelsætt, 5. þáttur

Fimmta barn Jóels Bergþórssonar var Auðbjörg, fædd 1801 í Efri-Lækjardal. Hún giftist Guðmundi Ketilssyni árið 1828. Árið áður, 1827, eignuðust þau sitt fyrsta barn, Ögn. Sá böggull fylgdi skammrifi að þá var Guðmundur ekki löglega skilinn við fyrri konu sína og var Ögn því í fyrstu kennd Árna Jónssyni, mági Guðmundar, giftum Ketilríði systur hans.

Halda áfram að lesa

Ættfræði: Um Jóelsætt, 4. þáttur

Yngsta dóttir Guðrúnar Kristmundsdóttur var Unnur Sigrún, f. 1922 á Smyrlabergi í Ásum. Unnur ólst upp hjá frænda sínum, Guðmundi Kristmundssyni Meldal, afa mínum, og konu hans, Róselíu Guðrúnu Sigurðardóttur (Pálsætt á Ströndum), frá tveggja ára aldri. Þau bjuggu á Höllustöðum og Þröm í Blöndudal, síðan í Litla-Dal í Svínavatnshreppi og loks Auðkúlu.

Halda áfram að lesa

Ættfræði: Um Jóelsætt, 3. þáttur

Jóel Bergþórsson – Jóel Jóelsson – Bergþór Jóelsson – Hólmfríður Bergþórsdóttir – Kristmundur Guðmundsson, langafi minn.

Kristmundur var 20 barna faðir, fæddur 14. ágúst 1854 á Syðri-Þverá í Þverárhreppi í Vestur-Húnavatnssýslu en dó 21. ágúst 1930, nýorðinn 76 ára, í Melrakkadal, þar sem hann bjó lengst af. Í Jóelsætt segir (bls. 147) að hann hafi alist „upp hjá afa sínum, Bergþóri Jóelssyni“ og svo er tekið fram að  hann hafi verið „einn af þeim sem hlóðu veggi Alþingishússins 1880“.

Halda áfram að lesa

Ættfræði: Um Jóelsætt, 2. þáttur

Bergþór Jóelsson, langa-, langa-, langafi minn var fæddur 3. febrúar árið 1800 í Efri-Lækjardal í Austur-Húnavatnssýslu. Hann ólst upp heima hjá foreldrum sínum, a.m.k. til 16 ára aldurs. Hann kvæntist Guðbjörgu Árnadóttur árið 1835, en hún var dóttir Árna bónda í Helguhvammi og Þórunnar Þorvaldsdóttur, bónda í Krossanesi. Bróðir Guðbjargar var Jón bóndi á Illugastöðum á Vatnsnesi, og þar hófu þau Bergþór búskap sinn. Seinna bjuggu þau á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi og 1845-1860 á Syðri-Þverá. Eftir að Guðbjörg dó 1865 fór Bergþór aftur að Illugastöðum. Hann lést 1888.

Halda áfram að lesa

Ættfræði: Um Jóelsætt, 1. þáttur

Það sem einna skemmtilegast er að ræða við elskulega móður mína, þessi síðustu misserin, er ættfræði – og „gamlir tímar“. Þar er hún enn oftast á heimavelli, þó einstaka leikur fari fram á útivelli. Ég dró því fram 1. bindi Jóelsættar, gruflaði nokkuð í því og tók síðan bókina með mér í heimsókn fyrr í dag. Við mæðginin sátum svo drjúga stund, meðan regnið buldi á glerinu, og reyndum að glöggva okkur á fólki – okkar fólki.

Halda áfram að lesa

Vigdís ársgömul – Kveðja frá afa

Liðið núna eitt er ár,
ævin varla hafin.
Bæði gefið bros og tár,
blíðu og kærleik vafin.
Lýsa upp heiminn ljósar brár,
ei lítið montinn afinn.

Vinna munt þú marga dáð,
málin stöðugt ræðir.
Yndi hefur um þig stráð,
ömmuhjörtun bræðir.
Um fingur þér, sem fínan þráð,
foreldrana þræðir.

Óskrifað er æviblað,
enn þarf vernda haginn
svo dembir þér ekki á dýpsta vað,
af dæmum lærist aginn.
Vigdís, þú töltir tign af stað!
Til hamingju með daginn!

Er ekkert að gera í fangelsum?

Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.

Halda áfram að lesa

Menntun fanga

Líklega er óhætt að slá fram þeirri alhæfingu að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og möguleikum þeirra á að feta sig aftur inn í samfélagið. „Nám er besta betrunin“ er frasi sem oft er gripið til á tyllidögum – og margir hafa líka fyrir satt hversdagslega. Í skýrslu nefndar frá 2008, á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands og dóms- og menntamálaráðuneyta, um stefnumótun í menntunarmálum fanga, var þetta ein meginniðurstaðan. Og líklega eru flestir í okkar samfélagi sammála því að mikilvægast sé að í fangelsum fái einstaklingar tækifæri til að bæta sig en séu þar ekki eingöngu til að taka út refsingu.

Halda áfram að lesa

„Farðu nú varlega, ástin mín“

Þegar börnin okkar fara akandi eitthvert, t.d. hér á milli Selfoss og Reykjavíkur, segjum við gjarnan: „Farðu svo varlega“. Það er eins og mig minni líka að við höfum varað þau við að fara upp í bíla með ókunnugum, þegar þau voru lítil. Og þegar elsta barnabarnið, stórglæsileg 17 ára kjarnakona, kom sl. sumar í fyrsta skipti akandi austur yfir Fjall í  heimsókn til ömmu og afa á Selfossi, nýkomin með bílpróf og með fullan bíl af jafnaldra vinkonum, sagði ég, miðaldra, hvítur karl, ábyggilega við hana áður en hún renndi úr hlaði: „Farðu nú varlega, ástin mín“.

Ég leyfi mér að fullyrða að þessi varúðarorð – og mörg, mörg, ótalmörg fleiri af sama toga í gegnum tíðina, voru ekki sögð í þeim tilgangi að „færa ábyrgðina frá gerandanum yfir á þolandann“, ef svo skelfilega myndi henda að eitthvað hörmulegt kæmi fyrir. Það er því miður ekki öllum treystandi í umferðinni – ekki heldur öllum þeim sem bjóða blessuðum börnunum far heim úr skólanum, nú eða ævarandi vináttu og ást. Við þetta verðum við manneskjur að búa og því ágæt almenn grundvallarregla „að fara varlega“.

Undanfarið hefur allt verið á hvolfi á miðlum yfir gráhærðum, hvítum geðlækni á efri árum sem vogaði sér að segja við konur að þær ættu að fara varlega í að treysta hverjum sem er fyrir nektar- og klámmyndum af sér, því súrnað geti í samböndum og myndirnar endað á Internetinu. Sem þær því miður stundum gera. Geðlæknir þessi skíðlogar nú á vandlætingarbáli fyrir að færa ábyrgðina á slíkum myndbirtingarglæpum frá gerandanum yfir á þolandann og gott ef ekki líka fyrir að rífa niður traust, sem sé eitt það mikilvægasta í mannlegum samskiptum.

Nú veit ég ekki hvenær eðlilegt er að treysta annarri manneskju fyrir nektar- og kynlífsmyndum af sjálfum sér. En almennt séð hljóta að vera á því einhver takmörk, varla t.d. á fyrsta stefnumóti eða öðru. Hvað fólk gerir í svefnherberginu er einkamál þess og ef einhverjir telja kvikmyndun nauðsynlegan þátt í eðlilegu sambandi elskenda, krydd í kynlífið o.s.frv., þá er engra annarra að dæma eða hafa skoðun á því.

Og þó traust sé óumdeilanlega grundvöllur að góðu sambandi, þá er ekki öllum treystandi. Kannski engum algerlega, ef út í það er farið, því haft er fyrir satt að engin manneskja sé fullkomin. Konur (og karlar) hafa fengið að kenna á þessu. Þær hafa verið beittar margskonar ofbeldi í samböndum síðan sögur hófust, jafnvel eftir langvarandi, „gegnheilt og traust“ samband.

Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og ábyrgðin á því verður ekki frá gerendum tekin – ekki einu sinni með því að biðja fólk að fara varlega.