Klausturbænir íslenskrar stjórnmálamenningar

Stórviðrið sem geisar í dag í fjölmiðlum og netheimum mun vonandi hafa afleiðingar. Vonandi verður dreginn af því lærdómur. Engu breyta þó viðbrögð viðkomandi einstaklinga; þeim er ekki við bjargandi. Það sem skiptir raunverulegu máli er annars vegar hvort þingheimur allur og hins vegar þjóðin læri sína lexíu.

Halda áfram að lesa

Af miðbæjarmálum Selfyssinga

Jóhann Páll Helgason skrifaði ágætan pistil á Fjasbókarsíðuna „Miðbærinn á Selfossi“. Takk fyrir þinn góða pistil, Jóhann. Pistill Jóhanns Páls sómir sér vel meðal ýmissa annarra málefnalegra skrifa um efnið. Mest hefur nefnilega verið með því móti, nauðsynlegar spurningar, vangaveltur og skoðanir hafa verið settar fram á báðar hliðar. Gagnrýni og krefjandi spurningar eru nauðsynlegar og velta þarf við hverjum steini varðandi þetta risastóra verkefni.

Halda áfram að lesa

Hrossanöfn í mótsskrá LM 2018

Sitjandi í brekkunni við kynbótavöllinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2018, blaðandi í mótsskránni og hlustandi á þulina þylja upp nöfn hrossanna sem fyrir augu bar, feðra þeirra, mæðra og stundum móðurforeldranna líka, kom stundum fyrir að mér væri sem strokið andhæris um málvitundina. Þessi tilfinning varðaði stafsetningu, beygingar og nafnaval. Ég ákvað því að skoða nánar nafngiftir hrossanna í mótsskránni og velta fyrir mér „frávikum“ m.v. eigin máltilfinningu. Ekki eru þessar vangaveltur á neinn hátt vísindalegar, til þess skortir mig dýpri málfræðiþekkingu og væri gaman ef vísindamenn á því sviði leiðréttu það sem missagt kann að vera.

Halda áfram að lesa

Slumpum bara í þá uppbótum …

Ég var að kíkja í nýgerðan kjarasamning FF og FS við Ríkið. Ekki er þar, fremur en vant er, að sjá kennimörk tiltölulega nýs menntamálaráðherra sem lýst hafði yfir bráðri nauðsyn þess að stórbæta kjör kennara. Bjóst svo sem varla neinn við því að nokkur innistæða væri fyrir þeim orðum. En staðfestist svart á hvítu í þessari samningsnefnu.

Halda áfram að lesa

Þögn er samþykki

„Með þögninni er tekin afstaða með gerandanum“, segir hin hugrakka Embla Kristínardóttir, sem nauðgað var á fermingaraldri af tvítugum íþróttamanni.

Þetta er bitur sannleikur sem á við allt ofbeldi. Skólabörnum er innrætt að rangt sé að standa hjá og þegja þegar þau verða vitni að einelti. Því með þögn og aðgerðarleysi er tekin afstaða með ofbeldinu.

Halda áfram að lesa

Hrímnir

Flestir hugsa margt við áramót,
minnast þess sem færði ást og gleði.
Kannski líka kemst á hugann rót
kvikni það, sem betur aldrei skeði.
Munum þá að gera bragarbót
og bera sig, því lífið er að veði.

Í mysu lífsins maðkur víða sést,
manninn, svik og pretti, oft skal reyna.
Það er sem blessuð skepnan skilji flest,
skynji hugann, engu má þar leyna.
Það veit sá sem eignast úrvalshest
að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.
Þín kroppuð tótt nú himni móti starir
sem áður horfði frán um fjallahring.
Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,
ég aldrei framar óð minn til þín syng
og engin von með hneggi þú mér svarir.

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls
ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:
„Viltu með mér núna, nýr og frjáls,
njóta listagangs, í fullum burði“?
Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls
að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Jólakveðja 2017

Drungalegur dagur skammur
deyfir lund og vinnuþrek.
Niður bælir næturhrammur,
niðasvartur, eins og blek.
Huggun er að ljósið lifir,
lengir göngu sína brátt,
vakir lífi öllu yfir,
eflir von og kærleiksmátt.

 

Jólakveðju ég vil senda;
jarðarbúar öðlist frið!
Þeim er eitthvað illt kann henda,
af öllum mætti veitum lið.
Það er list að þola saman,
þraut fær traustur vinur eytt,
maður er víst mannsins gaman,
þó margur hafi rjómann fleytt.

 

Baráttan um Ísland

„Þetta er baráttan um Ísland“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir í stórfróðlegri heimildamynd í sjónvarpinu um daginn. Það var við hæfi að þessi setning hljómaði einmitt nú, þegar verið er að leggja lokahönd á enn eina sölu landsins í hendur spilltra auðkýfinga. Og í fréttunum „mátti heyra jódyn“ [… ] og sjá „mann og konu ríða með margt hesta ásamt sveinum moldargötuna inn vellina í átt til Kaldadals […]. Þau voru bæði dökkklædd og hestar þeirra svartir.“

Halda áfram að lesa

Glíman við tungumálið

Hvað annað sem um rímur og rímnahætti má segja eru bragarhættirnir hreint afbragð til að æfa sig í meðferð tungumálsins, til að efla orðaforða, sníða hugsun sinni stakk og koma frá sér, þegar best lætur, meitluðum, vitrænum hendingum. Sléttubönd eru hvað vandmeðfarnasti bragarhátturinn, en lesa má slíkar vísur jafnt aftur á bak sem áfram án þess bragarhátturinn riðlist. Best er ef merkingin snýst við, eftir því hvorn veginn er lesið. Slíkar vísur eru kallaðar „refhverf sléttubönd“. Meðfylgjandi eru nokkrar hringhendar sléttubandavísur, jafnvel dýrari, og þó skáldskapurinn í þeim sé ekki rishár eru þær afrakstur skemmtilegrar glímu höfundarins við tungumálið. Og það er einmitt galdurinn: Að glíma við tungumálið, svo það deyi ekki átakalaust!

Halda áfram að lesa