Jólakveðja 2018

Ósköp vesæl vaknar sól,

varla lyftir brúnum.

Niðurlút, og nyrst við pól

norpar, mörkuð rúnum.

Og dagur eitthvað dundar sér,

en dregur stöðugt ýsur.

Í svefnrofum á fleti fer

með fornar rökkurvísur.

Þá birtan heims á hjara dvín

er huggun landsins börnum

að máninn hátt á himni skín

með höfuðkrans úr stjörnum.

Þar geislar bregða létt á leik,

því ljóst að ei er köfnuð

trúin, þó að von sé veik,

á visku, frið og jöfnuð.

Mín ósk er sú, það eitt er víst,

enn þó bregðist skjólin,

að fái kærleikslogi lýst,

og ljómi heims um bólin.

 

Nýja íslenska stjórnarskráin

Ágætu Selfyssingar og nærsveitamenn!

Jólagjöfin í ár er bókin „Nýja íslenska stjórnarskráin“.

Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, ritar formálsorð þessarar fallegu bókar, sem hefur að geyma nýju stjórnarskrána ásamt ítarlegum sögulegum inngangi eftir Þorvald Gylfason.

Hægt er að nálgast bókina hjá undirrituðum á einfaldan hátt, og á mjög hagstæðu verði, aðeins 1.200 kr.

Svona skal fara að:

  1. Greiða inn á reikning Stjórnarskrárfélagins (Upphæð = fjöldi eintaka x 1.200 kr.). Skýring: “stjórnarskrá” (kt. 5908102230) (reikningsnúmer: 0513-14-403456)
  2. Senda kvittun í greiðsluferlinu á netfangið mitt: gylfithorkelsson@gmail.com
  3. Hringja í mig í síma 895-8400 og við komum okkur saman um hvenær og hvar ég afhendi pöntunina.

Kveðja,

Gylfi Þorkelsson

Klausturbænir íslenskrar stjórnmálamenningar

Stórviðrið sem geisar í dag í fjölmiðlum og netheimum mun vonandi hafa afleiðingar. Vonandi verður dreginn af því lærdómur. Engu breyta þó viðbrögð viðkomandi einstaklinga; þeim er ekki við bjargandi. Það sem skiptir raunverulegu máli er annars vegar hvort þingheimur allur og hins vegar þjóðin læri sína lexíu.

Halda áfram að lesa

Af miðbæjarmálum Selfyssinga

Jóhann Páll Helgason skrifaði ágætan pistil á Fjasbókarsíðuna „Miðbærinn á Selfossi“. Takk fyrir þinn góða pistil, Jóhann. Pistill Jóhanns Páls sómir sér vel meðal ýmissa annarra málefnalegra skrifa um efnið. Mest hefur nefnilega verið með því móti, nauðsynlegar spurningar, vangaveltur og skoðanir hafa verið settar fram á báðar hliðar. Gagnrýni og krefjandi spurningar eru nauðsynlegar og velta þarf við hverjum steini varðandi þetta risastóra verkefni.

Halda áfram að lesa

Hrossanöfn í mótsskrá LM 2018

Sitjandi í brekkunni við kynbótavöllinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2018, blaðandi í mótsskránni og hlustandi á þulina þylja upp nöfn hrossanna sem fyrir augu bar, feðra þeirra, mæðra og stundum móðurforeldranna líka, kom stundum fyrir að mér væri sem strokið andhæris um málvitundina. Þessi tilfinning varðaði stafsetningu, beygingar og nafnaval. Ég ákvað því að skoða nánar nafngiftir hrossanna í mótsskránni og velta fyrir mér „frávikum“ m.v. eigin máltilfinningu. Ekki eru þessar vangaveltur á neinn hátt vísindalegar, til þess skortir mig dýpri málfræðiþekkingu og væri gaman ef vísindamenn á því sviði leiðréttu það sem missagt kann að vera.

Halda áfram að lesa

Slumpum bara í þá uppbótum …

Ég var að kíkja í nýgerðan kjarasamning FF og FS við Ríkið. Ekki er þar, fremur en vant er, að sjá kennimörk tiltölulega nýs menntamálaráðherra sem lýst hafði yfir bráðri nauðsyn þess að stórbæta kjör kennara. Bjóst svo sem varla neinn við því að nokkur innistæða væri fyrir þeim orðum. En staðfestist svart á hvítu í þessari samningsnefnu.

Halda áfram að lesa

Þögn er samþykki

„Með þögninni er tekin afstaða með gerandanum“, segir hin hugrakka Embla Kristínardóttir, sem nauðgað var á fermingaraldri af tvítugum íþróttamanni.

Þetta er bitur sannleikur sem á við allt ofbeldi. Skólabörnum er innrætt að rangt sé að standa hjá og þegja þegar þau verða vitni að einelti. Því með þögn og aðgerðarleysi er tekin afstaða með ofbeldinu.

Halda áfram að lesa