„Veittir hafa verið styrkir til allra framhaldsskóla til mótunar nýrrar aðalnámskrár. Sérstök áhersla hefur verið lögð á mótun styttri námsbrauta til framhaldsskólaprófs. Áhersla hefur verið lögð á eflingu starfsmenntunar. Starfsgreinanefnd vinnur nú að stefnumótun um starfsmenntun, ráðuneytið tekur þátt í verkefni á vegum OECD um starfsmenntun“, segir í Skýrslu mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu skólamála samkvæmt beiðni, sem lögð var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010-2011.
Meiri fjölbreytni og meiri sveigjanleiki
Til að vinna að þessu voru árið 2010 skipuð 12 starfsgreinaráð til að fjalla um starfsmenntun hvert á sínu sviði atvinnulífsins og yfir þeim starfsgreinanefnd, til að stuðla að samhæfingu í störfum þeirra, og til að vera ráðgefandi um mótun starfsmenntastefnu. Fulltrúar ólíkra listgreina hafa unnið sambærilega vinnu fyrir listmenntun. Í ágúst 2010 var auglýst eftir umsóknum um styrki til vinnustaðakennslu starfsnámsnemenda á framhaldsskólastigi í fyrirtækjum og stofnunum. Í apríl 2011 tilkynnti ríkisstjórnin um 150 milljóna króna framlag á ári 2012-2014 í vinnustaðanámssjóð. Unnið er að gerð frumvarps um sjóð til að efla vinnustaðanám og í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að unnið er að úttekt á íslensku starfsmenntakerfi, í samstarfi við OECD, og greiningu og mati á menntunarþörfum íslensks atvinnulífs andspænis þeirri starfsmenntun sem í boði er, í samstarfi við þrónuarmiðstöð starfsmenntunar í Evrópu.
Í nýju aðalnámskránni fyrir framhaldsskóla (maí, 2011) er opnað á leiðir til breytinga á skólastarfi sem eiga að stuðla að því að minnka brottfall nemenda. Þar er sérstök áhersla lögð á skapandi og gagnrýna hugsun í skólakerfinu, bæði í gegnum aukið list- og verknám en ekki síður með aukinni áherslu á skapandi nálgun innan hefðbundinna námsgreina, en þetta hvort tveggja er talið „ýta fremur undir námsáhuga og ánægju af námi“, samkvæmt tilvitnaðri skýrslu. Einnig er áhersla lögð á sveigjanleika í námsframboði og við skipulag náms, m.a. með því að taka upp nýtt einingamatskerfi sem byggir á vinnuframlagi nemenda (jafnt í skólum sem á vinnumarkaði) í stað kennslustundafjölda.
Í skólasamningum, sem ráðuneytið vinnur að um þessar mundir að gera við skólana, hefur megináhersla verið lögð á það, segir í skýrslunni, að finna „fjölbreyttar leiðir til að taka á móti nemendum, einkum þeim sem verr standa námslega eða félagslega með því móti að þeir fái ögrandi viðfangsefni við hæfi þannig að sjálfsmynd þeirra styrkist og menntunarlöngun vakni“.
Allt er þetta gott og blessað, fallegt og yndislegt, og til vitnis um það, sem ég hef rakið í undanfarandi pistlum, að megináherslan í þróun menntastefnu og framhaldsskólakerfisins hér á landi undanfarna áratugi hefur verið á fjölbreytileika og sveigjanleika til að koma betur til móts við ólíkar þarfir sístækkandi og fjölbreytilegri nemendahóps. Þetta hafa líka verið meginstefin í úrræðum yfirvalda til að sporna við landlægu brottfallinu. Engin breyting er enn sjáanleg á þessari stefnu.
Dýrir og ódýrir nemendur – endurtekið efni
Fleira forvitnilegt er að finna í ráðherraskýrslunni um stöðu menntamála. Til dæmis að heildarútgjöld hins opinbera til menntunar á framhaldsskólastigi 2008-2010 drógust saman um 11,2%, úr rúmum 22 milljörðum 2008 í ríflega 19,5 milljarða 2010 (reiknað á verðlagi ársins 2010). Einnig kemur fram að meðalkostnaðurinn á ári við að mjaka einum nemanda til stúdentsprófs er 733.000 krónur, eða 2.932.000 krónur á meðaljóninn, sem útskrifast á fjórum árum. „Ódýrasti“ ársneminn kostar rúmar 500 þúsund en sá „dýrasti“ tæplega eina og hálfa milljón. Dýr myndi Hafliði allur! Munurinn skýrist af hlutfalli bók- og verknáms, nemendafjölda, fjölbreytileika námsframboðs og fleiri slíkum þáttum. Skóli á höfuðborgarsvæðinu sem er tiltölulega stór, býður eingöngu upp á bóknám og einhæft námsframboð í bekkjakerfi, framleiðir ódýrustu stúdentana. Þetta er þó ekki alveg svona einfalt því nemandi í 10. bekk grunnskóla sem tekur framhaldsskólaáfanga í vali en fer svo í hefðbundinn menntaskóla (bekkjakerfisskóla) næsta haust á eftir, þarf að endurtaka áfangann þegar þangað er komið. Allir í fyrsta bekk eru nefnilega á sömu blaðsíðunni, í sömu bókinni, í sömu stofunni hjá sama kennaranum og enginn sveigjanleiki til þess að hluti nemendanna í bekknum sé að gera eitthvað annað en hinir. Það er því tvígreitt fyrir þetta nám, einu sinni í grunnskólanum og aftur í framhaldsskólanum. Þetta gildir um 42% nemenda sem nýtir sér þennan kost, væntanlega í þeim tilgangi að flýta för sinni gegnum framhaldsskólastigið! Flestir þeirra eru á Reykjavíkursvæðinu.
Ekki hafa verið gerðar fullnægjandi rannsóknir á Íslandi til að meta kostnaðinn af brottfalli og spóli í skólakerfinu. Það segir sig hins vegar sjálft að það er dýrt að kenna nemendum sama námsefnið oft – því dýrara því fleiri nemendur sem falla því oftar. Erlendar rannsóknir benda til þess að einkunnir á grunnskólaprófi hafi mest forspárgildi um námsgengi í framhaldsskóla (segir það sig ekki sjálft?). Því lægri einkunnir, því meiri líkur á brottfalli og spóli, sem hefur mikinn kostnað í för með sér. Þeir sem ekki útskrifast úr framhaldsskóla eru svo líklegri til að þiggja velferðarþjónustu og bætur, hafa lægri ævitekjur og eru meira að segja líklegri efni í afbrotamenn. Sennilega á þetta við á Íslandi líka, jafnvel þó við séum óneitanlega öðrum þjóðum fremri, og alveg frábær ef út í það er farið!
Stytting náms til stúdentsprófs – Til hvers?
Stefnt er að því fullum fetum að stytta námstíma til stúdentsprófs um eitt ár og þegar hafa nokkrir skólar skipulagt námið með það í huga: Menntaskólinn í Borgarnesi, Kvennaskólinn í Reykjavík, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Myndlistaskólinn í Reykjavík, og „reikna má með að framboð þriggja ára náms til stúdentsprófs aukist jafnt og þétt“, segir ráðherra menntamála í skýrslu sinni til Alþingis á síðasta löggjafarþingi. Þetta er bæði talið spara fé og vera hagkvæmt fyrir þjóðfélagið, því nemendur komi ári fyrr út á vinnumarkaðinn og gerist þar umsvifamiklir neytendur og skattgreiðendur.
Stytting náms til stúdentsprófs um eitt ár mun ekki lækka kostnað í réttu hlutfalli við styttingu námstímans (þ.e. 25%). Ýmiskonar kostnaðarauki mun vega þar á móti. Í fyrsta lagi þarf að endurskoða frá grunni kjarasamninga kennara. Í öðru lagi lýkur hluti nemenda nú þegar stúdentsprófi á skemmri tíma en fjórum árum í núverandi kerfi. Í þriðja lagi mun sá hópur nemenda sem þarf lengri tíma en meðalnámstíma sennilega stækka, því styttingunni fylgir meira álag, meiri samþjöppun námsefnis og lengra skólaár, sem skapa mun fleiri nemendum enn meiri erfiðleika en núverandi kerfi gerir. Í fjórða lagi mun þetta síðasttalda kalla á aukna þjónustu við þessa nemendur, með tilheyrandi starfsmannahaldi og kostnaði. Í fimmta lagi er líklegt að styttingin muni kalla á nýtt námsþrep milli framhaldsskóla og háskóla, til að tryggja viðunandi undirbúning nemenda undir sérhæft háskólanám, og búa þar með til glænýjan útgjaldalið í menntakerfinu.
Að öllu þessu samanlögðu væri fróðlegt að sjá fyrirfram í glerkúlunni afleiðingar af styttingu náms til stúdentsprófs.
Námsframvinda – Brottfall
Skýrsla OECD, Education at glance 2011, mælir brautskráningarhlutfall og námsgengishlutfall. Námsgengishlutfall mælir hve stórt hlutfall þeirra sem innritast hefur lokið prófi eftir tilskilinn tíma og er stundum notað til að mæla brottfall. Af þeim nýnemum sem innrituðust í íslenska framhaldsskóla árið 2002 hafði 45% lokið námi með prófi eftir „eðlilegan“ námstíma, sem er fjögur ár hér á landi. Eftir tvö ár til viðbótar höfðu 13% bæst við, og hlutfall brautskráðra þá komið í 58%. Miðað er við að ef nemanda duga ekki tvö aukaár til að klífa framhaldsskólafjallið (6 ár hér á landi) teljist hann hafa fallið brott úr námi. Út frá þessum mælikvarða var því 42% brottfall úr þessum árgangi. Það tók stráka 6 ár að ná sama námsgengishlutfalli og stelpur náðu á 4 árum, eða 51%. Munur var lítill á verknámi og bóknámi. Eftir fjögur ár hafði 43% bóknámsnemenda lokið prófum en 49% verknámsnemenda og eftir sex ár stóð hlutfallið á jöfnu í 58%.
Í OECD löndum, til samanburðar, var námsgengishlutfallið 68% að meðaltali eftir „eðlilegan“ námstíma (sem þar er víðast 3 ár) en tvö aukanámsár (samtals 5 ára nám) hækka hlutfallið í 81%.
Annað gildir um brautskráningarhlutfallið. Á Íslandi var það 89% til samanburðar við 82% í OECD. Af Norðurlöndunum voru aðeins Noregur (91%) og Finnland (95%) með hærra brautskráningarhlutfall en Ísland.
Munurinn á námsgengishlutfalli og brautskráningarhlutfalli sýnir að í OECD löndunum ljúka nánast allir framhaldsskólanámi með prófum á 5 árum, það er að segja af þeim sem á annað borð innritast í framhaldsskóla. Aðeins 1% innritaðra (munurinn á 81% og 82%) þarf lengri tíma en tvö aukaár til að útskrifast. Það er svo önnur saga að 18% OECD unglinga (82+18=100) virðist ekki hafa farið í skóla eftir að skyldunámi lauk. Hvort þeir einstaklingar fóru að vinna fyrir sér, sjálfum sér og þjóðfélaginu til gagns, eða lögðust upp á velferðarkerfið veit ég ekki.
Á Íslandi lítur þessi mynd allt öðruvísi út. Þar er munurinn á námsgengishlutfalli (58%) og brautskráningarhlutfalli (89%) sláandi. Þetta þýðir, ef ég skil rétt, að 31% þeirra nýnema sem innrituðu sig árið 2002 í íslenska framhaldsskólakerfið var meira en 6 ár að gaufast við að ljúka námi – en lauk því þó á endanum. Einhverjir þessara nemenda hafa hætt í skólanum um tíma (vinna? barneignir? skiptinám? heimsreisur? reiðileysi?), komið svo aftur og lokið prófum. Aðrir hafa unnið mikið með náminu, og tafist fyrir bragðið, og enn aðrir verið í skólanum allan tímann með „andlega fjarvist“ og spólað fyrir vikið aftur og aftur í sömu áföngunum.
Sveigjanleiki eða agaleysi?
Auðvitað er gott og nauðsynlegt að bjóða upp á sveigjanleika í skólakerfinu. Að því hafa Íslendingar einbeitt sér í 40 ár. En er sveigjanleikinn nokkuð kominn út yfir einhver velsæmismörk? Má með sama rétti kalla kerfið agalaust, eins og sveigjanlegt? Eða kannski hvort tveggja?
Ekki má samt gleyma því að hugsanlega skilar sveigjanleikinn (agaleysið?) okkur 7% fleiri einstaklingum úr hverjum árgangi með próf úr framhaldsskóla en gengur og gerist í OECD löndum, þó sá árangur náist að vísu ekki fyrr en eftir dúk og disk. Setja verður þó þann mikilvæga fyrirvara á þetta hlutfall að ekki er til samanburður af þessu tagi nema bara fyrir þennan eina árgang, og því auðvitað ekki hægt að slá fram neinum alhæfingum.
Allt væri svo miklu einfaldara ef allir sem „eiga erindi í“ háskólanám lykju stúdentsprófinu bara refja- og möglunarlaust – og hinir veldu brosandi einhverja af hinum fjölmörgu öðrum námsleiðum sem ráðuneyti, menntunarsérfræðingar, skólafólk og fulltrúar atvinnulífsins hafa streðað við í 40 ár að finna upp, við hæfi hvers og eins að því er talið er, og kæmu svo vel nestaðir út á vinnumarkaðinn í fyllingu tímans.
Nú á enn einn ganginn að kveikja í framhaldsskólanemendum áhuga og ánægju af námi, vekja með þeim menntunarlöngun, eða hvað allt þetta fína nú heitir, með auknum sveigjanleika og fjölbreytileika.
Ég held að það „sé ekki að fara að gerast“. Vandinn á sér dýpri rætur í samfélaginu. Til að glæða áhuga, auka árangur og aga meðal íslenskra nemenda, þarf líklega að byrja á því að skipta um foreldra.