Á síðustu tveimur árum hafa 14 einstaklingar haft tæpar fjörutíuþúsund milljónir í samanlagðar tekjur en aðeins greitt 18,8 milljónir í útsvar til sveitarfélaga sinna, sem standa undir milljarða árlegum kostnaði við „innviði“; skólastarf, samgöngumannvirki, veitukerfi, félagsþjónustu o.s.frv. – fyrir m.a. þessa fjórtán. Efsta fólkið á hátekjulista ársins hafði þrettánþúsund milljónir í tekjur en greiddi þrjár og hálfa milljón í útsvar til heimabæjarins.
Hvernig stendur á þessu? Jú, stjórnvöld hafa ákveðið að skattur af launatekjum skuli vera frá tæpum 37% til ríflega 46% en fjármagnstekjuskattur aðeins 21% – og ekki þurfi að greiða útsvar af fjármagnstekjum. Þessu átta margir sig á og stofna einkahlutafélög utan um allt og ekkert, persónulegan rekstur og eignir, til að komast hjá skattgreiðslum. Tekjur þeirra eru skattlagðar sem fjármagnstekjur en ekki launatekjur. Enda voru meðallaun einkahlutafélaga til eigenda sinna, skv. tölum frá 2017, 620.000 á mánuði á sama tíma og þau greiddu eigendunum að meðaltali 770.000 í arð mánaðarlega. Slíkt „meðalfélag“ gat því ekki greitt forstjóra sínum, og jafnvel eina starfsmanni, laun umfram lægstu taxta leikskólakennara, sem þurfa þó að greiða a.m.k. 37% af tekjum sínum í skatt. (Helgi Seljan. 2024. „Guðrún leikskólakennari ehf.“ Leiðari. Heimildin #63, 30. ágúst- 5. september, bls. 8). Þetta kallar maður jafnræði skattheimtunnar!
Flest sjávarútvegsfyrirtæki eru eignarhaldsfélög sem ekki eru skráð á raunverulega eigendur, af augljósum ástæðum, sbr. það sem fram kom hér ofar. Arður greiddur eignarhaldsfélagi frá rekstrarfélagi er skattfrjáls. Selji eignarhaldsfélagið hluta af eign sinni er söluhagnaðurinn líka skattfrjáls. Þessi hagnaður, jafnvel svimandi hár, kemur hvergi fram á skattframtölum raunverulegra eigenda, og því eru þeir margir hverjir hvergi sjáanlegir á hátekjulistum. Tilgangurinn með þessu er auðvitað sá að sniðganga skattgreiðslur, borga kannski 21% af einhverju uppgefnu smáræði og komast hjá því að taka þátt í rekstri samfélagsins á jafnræðisgrundvelli við launafólk, sem greiðir sín 37-46% af launum til samneyslunnar.
Þessu til viðbótar stunda þessi félög (auðvitað eru það hinir raunverulegu eigendur sem stunda þessi bolabrögð en ekki einhver „félög“, þó þeir feli sig á bak við þau) allskyns hundakúnstir til að sniðganga skattgreiðslur, t.d. sýndarlán milli rekstrar- og eignarhaldsfélaga, nýta sér afskriftareglur og gengistap, svo þau borga í raun og veru miklu minna en þau 21% sem skattalögin segja til um.
Skv. greiningu á tölum Hagstofunnar var hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja 2010-2020 nærri fimmtíuþúsund milljónir Á ÁRI hverju (sem sagt eftir að búið var að draga rekstrarkostnað og fjármagnskostnað frá tekjum). Þessar tekjur koma hvergi fram í framtölum eigendanna, heldur eru faldar í bókhaldi eignarhaldsfélaga sem arður, hlutafjáraukning og söluhagnaður. Eignarhaldsfélögin fitna hins vegar sem púki á fjósbitanum og kaupa upp rekstur í annarri atvinnustarfsemi, s.s. fasteignafélög, fjármálafélög, tryggingafélög o.s.frv.
Þessi gróði er gjöf þjóðarinnar til útgerðarauðvaldsins, eða kannski fremur gjöf stjórnmálamanna til útgerðarauðvaldsins með þegjandi samþykki kjósenda. Verðmæti hvers 1% af fiskveiðikvótanum er um fimmhundruð milljónir og það er í verkahring sjávarútvegsráðherra í upphafi hvers fiskveiðiárs að gefa gjafirnar í okkar nafni og á okkar kostnað (Indriði Þorláksson. 2024. „Hátekjulistinn og kvótinn“. Heimildin #63, 30. ágúst -5. september, bls. 9).
Þetta er raunveruleikinn. Íhaldið þenur sig hást á torgum um skattpíningu, þykist, svo dæmi sé tekið, ekki vilja fríar skólamáltíðir fyrir börn af því rangt sé að nota „annarra manna fé“ til að borga fyrir fólk sem þarf ekki á því að halda, en vill á sama tíma hækka framlög til einkarekinna háskóla sem taka stórar fjárhæðir í skólagjöld af því „ekki megi mismuna nemendum“. Helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa staðið fyrir hundruða eða þúsunda milljarða fjármagnstilfærslum til hinna tekjuhærri í gegn um s.k. „Leiðréttingu“, skattfrjálsa nýtingu séreignasparnaðar, gjafakvótakerfið og þá skattaglufu sem felst í ehf.-væðingu atvinnulífsins – og enginn vilji er til að leiðrétta. Svokallaðir „vinstrimenn“ í Vg eru bullandi samsekir í glæpnum, og stjórnmálaelítunni allri meira og minna fyrirmunað að verja hagsmuni almennings.
Hér er um að tefla þúsundir milljarða fjáraustur, gjafir til þeirra best settu, á sama tíma og ríkissjóður er rekinn með bullandi tapi árum saman, skatturinn okkar fer að stórum hluta í vaxtagreiðslur af erlendum lánum ríkissjóðs, vegakerfið, heilbrigðiskerfið, skólakerfið, allt félagslega samtryggingarkerfið okkar, er fjársvelt og komið að fótum fram.
Segið þið svo að helmingaskiptaflokkarnir sjái ekki um sína.
Eitt er víst: Það er ekki þjóðin og almannahagsmunir sem sem halda fyrir þeim vöku. Aðeins „velferð sérhagsmunanna“.