Af rafrænu samfélagi, lýðræði og hindrunum

Lýðræði byggist á virkri þátttöku borgaranna í samfélaginu. Þátttaka í samfélagi grundvallast á læsi í víðasta skilningi þess orðs, málfrelsi, tjáningu, frjálsri fjölmiðlun, jöfnuði, almennum kosningarétti og mannréttindum. Tómt mál er að tala um virkt lýðræði ef hluti borgaranna er ólæs eða þegir, nýtir ekki málfrelsið til að tjá skoðanir sínar. Hvers kyns þöggun, hvort sem er gegn einstaklingum, hópum eða fjölmiðlum, misrétti eða takmörkun á kosningarétti er skerðing á lýðræði. Lýðræðisleg ákvörðun er upplýst samþykki meirihluta borgaranna.

Nú til dags byggist þátttaka í samfélaginu æ meira á tæknilegri þekkingu og getu. Stór hluti samfélagsins fer fram í rafrænum heimum. Takmörkuð tæknileg þekking og/eða geta er hindrun á þátttöku í samfélaginu – og þar með skerðing á lýðræði. Hægt er að halda því fram að það sé bara undir hverjum einstaklingi komið að afla sér nauðsynlegrar tæknilegrar getu og þekkingar. Málið er þó fráleitt svo einfalt.

Bent hefur verið á ýmsa samfélagshópa sem eru líklegri en aðrir til að rekast á rafræna veggi. Gamalt fólk t.d. – og nefna mætti ýmsa jaðarhópa í þessu samhengi. Hugtakið „jaðarhópur“ er í sjálfu sér lýsandi fyrir skert lýðræði. Jaðarhópur er hópur fólks sem hefur af einhverjum ástæðum skerta stöðu til þátttöku í samfélaginu, miðað við „flesta“. 

Fyrir einhverjum árum var stofnað til fyrirbæris sem var kallað „Íslykill“, og er nafnið táknrænt fyrir aðgang að íslensku samfélagi; lykill að samfélaginu. Íslyklillinn varð forsenda fyrir því að hver og einn gæti „sinnt sínum málum“, m.a. sínum opinberu skyldum, úr tölvunni sinni heima eða snjallsímum í lófa hvar sem er, í stað þess að heimsækja stofnanir og skrifstofur og bera upp erindi sín við fólk af holdi og blóði. Í kjölfarið var fundið upp á „rafrænum skilríkjum“ og þá þurftu þeir sem loksins voru búnir að átta sig á Íslyklinum að byrja upp á nýtt. Meðan bæði kerfin voru við lýði þurfti svo að hafa rafræn skilríki til að sækja um Íslykil, sem hið opinbera sendi í „heimabankann“. Banka sem viðkomandi þurfti þá að hafa stofnað og öðlast færni til að nota.

Um nýliðin mánaðamót varð svo sú breyting að hið opinbera henti Íslyklinum endanlega í ruslið og þeir sem höfðu streist við og notað hann áfram af gömlum vana eða öðrum ástæðum þurftu þá að læra aðrar leiðir; fá sér snjallsíma og læra á hann, ef slíkt tæki var ekki þegar í vasa eða veski. 

Eitt kerfið sem krafðist Íslykils, síðan rafrænna skilríkja eða Íslykils og nú rafrænna skilríkja eingöngu er „Inna“. Inna er rafrænt kerfi fyrir framhaldsskólana. Það heldur saman aðskiljanlegustu upplýsingum um nemendur; skráningar, námsferla, einkunnir, mætingar o.s.frv. Þar er líka kennsluumsjón. Kennarar geta sett inn námsefni, próf, tilkynningar, einkunnir og allt sem varðar nám og kennslu í hverjum námshópi. Þetta er sérlega hentugt í fjarkennslu.

Einn „jaðarhópurinn“ í samfélaginu eru fangar. Vistmenn í fangelsum eru í misjafnri stöðu. Á Litla-Hrauni, eina íslenska „öryggisfangelsinu“, hafa fangar hvorki tölvu né síma, hvað þá snjallsíma. Í sk. „opnum fangelsum“ hafa þeir betra aðgengi, m.a. tölvu og Net. En ekki snjallsíma, heldur símtæki sem Fangelsismálastofnun útvegar. Augljóst er að fangar hafa mjög takmarkaðan rétt til þátttöku í samfélaginu, og sjálfsagt má hafa á réttmæti þess ýmsar skoðanir, sem ekki verða ræddar hér í þaula. Sumir hafa þó haldið því fram að betrun verði torsóttari með því að útiloka fólk; enginn komi betri út í samfélagið úr fangelsi með því móti. 

Eitt af því sem talið er hvað mikilvægast til betrunar í fangelsum er menntun. Góð og fjölbreytt tækifæri til menntunar muni byggja fanga upp og, ekki síst, gefa þeim betri færi til þátttöku í samfélaginu þegar þeir hafa afplánað sinn dóm, jafnvel með próf upp á einhver réttindi til þátttöku í atvinnulífinu, sjálfum sér til framfærslu á eigin forsendum. Margir telja þetta frumskyldu fangelsiskerfisins, meðan aðrir álíta að fangelsin eigi fyrst og fremst að vera lokuð geymsla þar sem fólk skuli taka út sína réttlátu refsingu.

Við sem höfum þann starfa að stuðla að aukinni menntun fanga áttum okkur vel á því að skjólstæðingar okkar hafa mjög takmarkaðan rétt til þátttöku í samfélaginu, og sá réttur er skertur jafnt og þétt. Fyrr á árum sóttu fangar, með sérstöku leyfi, skóla á Selfoss, í fjölbrautaskólann þar, sem titlaður er „móðurskóli fangelsiskennslu á Íslandi“. Síðan var tekið fyrir þá skólasókn með öllu. Skóladeild FSu. í fangelsum rekur skóla á Litla-Hrauni og Sogni. Kennarar heimsækja þessi fangelsi með reglulegum hætti, skv. sérstakri stundaskrá, einu sinni til tvisvar í viku, á starfstíma skólans. Ekki er hægt að bjóða upp á staðkennslu í öllum fögum og því hefur nemendum í fangelsunum, sem áleiðis eru komnir í námi og á því þurfa að halda, verið boðið upp á fjarnám. Það hefur gengið þokkalega, kennarar FSu. eru almennt viljugir að veita þessa þjónustu og nemendur eru alla jafna ekki margir sem það langt eru komnir í námi að þeir þurfi nauðsynlega á þjónustunni að halda. Kennslustjóri hefur í sumum tilvikum getað haft milligöngu um samskipti milli kennara og nemenda, í öðrum tilvikum hefur námið farið fram í gegnum Innu á Netinu úr tölvuveri skólans á Litla-Hrauni, eða úr einkatölvum nemenda á Sogni og jafnvel öðrum opnum fangelsum.

Síðustu ár hefur það reynst þrautin þyngri að skrá nemendur í Innu svo þeir  geti stundað fjarnám. Þeir hafa ekki Íslykil. Þeir hafa ekki rafræn skilríki og engan snjallsíma til að komast í heimabanka. Stundum hafa þeir af þessum sökum þurft að hætta við fyrirhugað nám. Aðrir hafa getað orðið sér út um Íslykil með utanaðkomandi aðstoð og stundað sitt nám. Nú hefur verið girt fyrir utanaðkomandi aðstoð í þessu skyni, væntanlega í samræmi við bókstaf persónuverndarlaga. Persónverndarlög koma sem sagt í veg fyrir að hægt sé að aðstoða fólk í fangelsum við að mennta sig. Og steininn tók úr núna um mánaðamótin síðustu, þegar Íslykillinn var aflagður. Þá var girt fyrir síðustu leiðina inn í musteri menntunarinnar. 

Það eru ekki bara fangar sem eru án rafrænna skilríkja, tölvu og Netaðgengis og þar með útilokaðir frá þátttöku í samfélaginu; grundvelli lýðræðisins. Einhverjum gæti þótt það brot á mannréttindum og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. 

Einn nemandi minn á Litla-Hrauni, sem stundaði nám í íslenskuáfanga á 3. þrepi sem kallast í kerfinu ÍSLE3LX05, og fjallar um höfundarverk Halldórs Laxness, prentaði út og hengdi upp fyrir utan skólastofuna þessa tilvitnun í Atómstöðina:

„Ef til er glæpur þá er glæpur að vera ómentaður“

Það mætti kannski bæta þessu við?

Ef til er glæpur þá er glæpur að hindra fólk í að mennta sig“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *