Jóhann Páll Helgason skrifaði ágætan pistil á Fjasbókarsíðuna „Miðbærinn á Selfossi“. Takk fyrir þinn góða pistil, Jóhann. Pistill Jóhanns Páls sómir sér vel meðal ýmissa annarra málefnalegra skrifa um efnið. Mest hefur nefnilega verið með því móti, nauðsynlegar spurningar, vangaveltur og skoðanir hafa verið settar fram á báðar hliðar. Gagnrýni og krefjandi spurningar eru nauðsynlegar og velta þarf við hverjum steini varðandi þetta risastóra verkefni.
Það er miður að svo virðist sem reyna eigi að gera skinhelgan píslarvott úr framkvæmdaaðila af því verkefnið er gagnrýnt, jafnvel þó harkalega sé á köflum. Dónaskapur er auðvitað óþarfur og á enda ekkert skylt við gagnrýni. En þetta mál allt þarf að skoða ofan í kjölinn – stærð þess er slík – og endanleiki.
Einnig ber að harma það ef þetta þróast út í popúlískan og yfirborðskenndan auglýsingaáróður á Fjasbók með „X-Hlynnt/ur“ merkingum einstaklinga, vídeóauglýsingaskrumi og tilfinningaþrungnum lýsingum á „minningasköpun“, þar sem látið er líta út fyrir að engin hamingja og engar góðar minningar skapist í bænum nema með þessari útfærslu, sem ég vil kalla, tilraunaútgáfu af „Árbæjarsafni“ við Ölfusárbrú.
Selfyssingar og Árborgarbúar hafa nú einstakt tækifæri til að gera eitthvað nýstárlegt og eftirminnilegt, tækifæri sem býðst ekki aftur. Fáir ef nokkrir búa við þann lúxus að geta skapað nýjan miðbæ með þessum hætti. Miðbæ sem er einstakur í heiminum. Hvert er eitt eftirminnilegasta og athygliverðasta kennileitið á Selfossi? Jú, Fjölbrautaskólinn. Á sínum tíma voru harðar deilur um hönnun hans. Mörgum þótti þessi bygging út úr öllu korti þegar hún var á teikniborðinu. Alveg galin vitleysa! Ég held að enginn myndi taka svo til orða nú, heldur eru meira og minna allir Sunnlendingar, leyfi ég mér að segja, stoltir af þessari glæsilegu byggingu. Af hverju ekki að feta slíka braut í miðbænum?
Þannig verða til nýjar, eftirtektarverðar, sérstakar, einstakar byggingar, þær eru umdeildar og framandlegar til að byrja með, en venjast í tímans rás og verða viðteknar – fyrr en varir orðnar vitnisburður um framsýni og tímalausa hönnun genginna kynslóða. Þær eru ekki eftirlíkingar af einhverju sem aðrir hafa skapað í öðru rúmi og á öðrum tíma, eins og fyrirhugaðar framkvæmdir óneitanlega eru.
Fyrir rúmum áratug, kjörtímabilið 2002-2006, var nokkur skriður á „miðbæjarmálinu“. Einstaklingur hér í bæ hafði keypt flestar lóðirnar og hafði stórar hugmyndir um að byggja nýjan miðbæ. Hann lét þekkta, erlenda arkitekta, danska minnir mig, teikna fyrir sig drög að skipulagi. Megin einkenni þess var að mest byggingarmagnið var upp í loft en ekki út um víðan völl, í tveimur turnum – og sem því nemur stærri opnum sævðum. „Turnarnir“ hefðu óneitanlega skapað verðugt uppbrot á hinum flatneskjulega minkahúsabyggingarstíl sem er alls ráðandi á Selfossi – það er ekki bara í Brúarhlaupinu sem hér er „flatasta braut landsins“ – og kallast skemmtilega á við fóðurturnana á Tóftum og í Oddgeirshólum, rammað inn í jafnarma þríhyrning kjarna Suðurlandsundirlendisins! Hvorki meira né minna!
Flóamenn rak auðvitað í rogastans að nokkrum skyldi detta það í hug að byggja hærri hús en þriggja hæða, slík hugmynd var þeim jafn fráleit og að setjast að á Mars. Það sama gilti um fjögurra hæða öldrunarþjónustuhús við Austurveginn. Stofnuð voru formleg íbúasamtök til að berjast gegn þessum tillögum og áformum með kjafti og klóm. Þar voru ekki spöruð stóru orðin og er umræðan á Netinu nú eins og sunnudagaskólakór miðað við fúkyrðaflauminn sem þá rann. Ýmsir virðast hafa gleymt því nú.
Viðkomandi einstaklingur gafst upp á barningnum og seldi lóðirnar „fjárfestum“, skipulagið var lagt til hliðar en bæjarstjórn setti það í skipulagssamkeppni. Hætt var einnig við byggingar fjögurra hæða húsa með íbúðum og þjónustu fyrir aldraða við Austurveg vegna mótmæla. Nú er verið að byggja á sama stað við Austurveg samskonar hús fyrir aldraða og engum dettur í hug að hreyfa við neinum mótmælum. Svona breytist nú stemmningin á stuttum tíma!
Af skipulagssamkeppninni er þá sögu að segja að nýr en skammlífur meirihluti bæjarstjórnar árið 2006 valdi vinningstillöguna. Ekkert varð þó af framkvæmdum, enda búið að leggja turnana á hliðina og þannig útaflagðir fylltu þeir nánast upp í allt opið svæði; byggingarmagnið var of mikið í skipulaginu til að þola þá lágreistu byggð.
Landið var þá líka í einkaeigu manna sem vildu fá fyrir sinn snúð og voru erfiðir í samningum um breytingar sem hugnuðust sveitarstjórn og bæjarbúum. Að lokum kom að því að þeir gáfust upp á biðinni og SVEITARFÉLAGIÐ GAT EIGNAST LANDIÐ. Sem er algert lykilatriði og grundvallarbreyting frá fyrri tilraunum til að byggja miðbæinn.
Nú sem sagt ræður sveitarfélagið eitt för í fyrsta skipti og hefur alla þræði í hendi sér um skipulag, byggingarmagn og allar forsendur. En í stað þess að efna til nýrrar samkeppni á forsendum sveitarfélagsins – og í kjölfarið útboðs á framkvæmdum skv. niðurstöðum hennar – eru lóðirnar afhentar einkaaðila sisvona án nokkurrar sýnilegrar samkeppni um hnossið!! Ótrúlegt, enda við völd flokkur sem leggur allan sinn metnað í frjálsa samkeppni. Kannski hefur samkeppnisþátturinn bara alveg farið framhjá mér?
En hvað um það, þetta síðasttalda þykir mér, utan úr bæ, gagnrýniverðast við allt heila klabbið nú: Sveitarfélagið á loksins lóðirnar og getur gert hvað sem því hugnast – í „opnu og lýðræðislegu ferli“ (sem stundum er í tísku), boðað til íbúafunda til að leggja línurnar fyrir arkitektasamkeppni, án alls þrýstings frá fjárfestum og meintum „gróðapungum“. Sannkölluð kjörstaða til að skapa sátt og frið í samfélaginu um nýjan miðbæ!!! En nei, takk fyrir túkall! Frekar var einum útvöldum boðið í veisluna.
Í því ljósi er ekki bara sjálfsagt heldur beinlínis skylda íbúanna að spyrja krefjandi spurninga um fjármögnun, eignarhald, framkvæmdahraða og hvað eina er að verkefninu lýtur. Annað væri hneyksli.