Árið 2008 skilaði nefnd skipuð fulltrúum frá mennta- og dómsmálaráðuneytum, Fangelsismálastofnun og Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) tillögum að stefnumótun í menntunarmálum fanga. Nefndinni var falið að huga sérstaklega að fjarkennslu gegnum Netið, verkmenntun, menntun erlendra fanga og þeim sem fallið hafa út úr skyldunámi.
Helstu niðurstöður nefndarinnar voru að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu. Leggja bæri áherslu á að kynna fyrir föngum námsmöguleika, meta fyrra nám og raunfærni, bjóða öfluga sérkennslu og einstaklingsmiðaða ráðgjöf. Lykilatriði til árangurs væri góð aðstaða til náms í öllum fangelsum, ekki síst aðstaða til verknáms og starfsþjálfunar, föngum verði tryggður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, tölvum, bókasafni og nettengingu þar sem það á við og heimild til netnotkunar verði rýmkuð í lögum. Þá lagði nefndi það til að áratuga reynsla FSu af kennslu í fangelsum verði nýtt áfram, og þannig að föngum almennt standi til boða að stunda nám, þ.e. að skólinn verði „móðurskóli“ fyrir menntun fanga á Íslandi.
Sumum tillögunum var þegar komið á koppinn. Af þeim er mest um vert stöðugildi náms- og starfsráðgjafa við FSu sem eingöngu vinnur að málefnum fanga. Að stærstum hluta er það nýtt á Litlahrauni og Sogni. Þar hefur starfsmaður fasta viðveru en sinnir einnig föngum í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Hluti stöðugildisins nýtist föngum á Kvíabryggju og Akureyri. Ráðning náms- og starfsráðgjafa er stærsta framfaraskrefið í menntunarmálum fanga í langan tíma.
Fleira mætti segja í viðunandi farvegi. Það sem enn hefur þó lítt eða ekki verið brugðist við lýtur að aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar, og hæpið er að halda því fram að öflug sérkennsla sé í boði fyrir fanga, þó mikilvæg sé.
Engin sérstök aðstaða til náms er á Kvíabryggju og mjög takmörkuð á Akureyri en í skólanum á Litlahrauni og Sogni er aðstaðan að mörgu leyti góð hvað bóknám varðar. Þar er bæði námsver fyrir háskólanema og tölvuver sem nýtist vel til fjarnáms við ýmsa skóla.
Við FSu er hálft stöðugildi fyrir kennslustjóra í fangelsum sem sér um skipulagningu náms og kennslu á Litlahrauni og Sogni. Auk hans sinna sex kennarar staðnámi á Litlahrauni og þrír á Sogni. Fimm aðrir kennarar við FSu voru með fanga í fjarnámi á síðustu önn og fangar stunda einnig fjarnám við Tækniskólann og FÁ.
Alls innritaðist í nám á Litlahrauni og Sogni 71 nemandi á haustönn 2015. Þar af voru fimm í háskólanámi, en hinir 66 voru skráðir í 43 mismunandi námsáfanga. Nemendur koma og fara á önninni, en þegar mest var taldi kladdinn 53 nemendur, þar af 42 á Litlahrauni, en þess má geta að skólastofan þar rúmar 15 nemendur og tvísetja varð því skólann í þremur grunngreinunum.
Af þessari litlu tölfræðisamantekt má sjá að töluvert er umleikis í menntamálum fanga. Margir hafa líka náð góðum námsárangri, sumir afburðaárangri. Hefðbundið bóknám hefur verið í fyrirrúmi, en brýnast til framtíðar litið er að fylgja ráðum fyrrgreindrar nefndar og bæta aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar og að koma á öflugri sérkennslu.
Tiltölulega einfalt ætti að vera að nýta húsakost á Litlahrauni betur til að bjóða upp á fjölbreyttari verkmenntun. Það þyrfti ekki að kosta mikið. Ef alvara fylgir umræðu um betrunarvist í fangelsum í stað refsivistar, og að menntun sé besta betrunarúrræðið, þá er lag að auka fjölbreytni og bæta verulega aðstöðu fanga til náms, án óhóflegs tilkostnaðar.
Að lokum má minna á að innan skamms verður tekið í notkun nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Þau tímamót er upplagt að nýta til allsherjar stefnumótunar í fangelsismálum, þar sem menntun fanga yrði í forgrunni.