Á ég að nenna að skrifa þennan pistil enn einu sinni? hugsaði ég í morgunsárið þegar ég drakk kaffið mitt, svældi í mig brauðrudda með osti og hlustaði á morgunútvarpið. Þar var búið að draga að hljóðnemanum á Rás 2 formann samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjaradeilu við Kennarasambandið. Í stað þess að sitja við samningaborðið og reyna að þoka málum í samkomulagsátt var formaðurinn sendur að hella olíu á eldinn með enn einni aðförinni sem dunið hefur á kennarastéttinni undanfarna daga og vikur, og opinbera um leið vanþekkingu yfirboðara sinna á kennarastarfinu, með rangfærslum og ósannindum.
Ég hef starfað sem kennari nánast alla mína starfsævi, frá útskrift úr KHÍ árið 1983, og þekki aðeins til mála, kennt bæði á grunn- og framhaldsskólastigi, allt frá 1. bekk og að lokaáföngum til stúdentsprófs, tekið þátt í mörgu verkfallinu og hlustað á sama falska sönginn í 40 ár. Virðingarleysið gagnvart kennurum og skólastarfi er yfirþyrmandi á þessu landi. Ekkert hefur breyst til batnaðar, allan þennan tíma. Um þetta hef ég í gegn um tíðina skrifað margan pistilinn, í blöðin, hér á heimasíðuna mína og samfélagsmiðla. Og margir kennarar eru líka sem betur fer duglegir að láta í sér heyra, nú sem endranær.
Það er sjálfsagt eins og að skvetta vatni á gæs, en ég ætla samt að fara yfir þetta einu sinni enn, því öllum er skylt að láta í sér heyra þegar ófrægingaráróður yfirskyggir samfélagsumræðuna.
Það er „hálf gaman að því“, eins og Bjarni bróðir minn segir gjarnan þegar honum er skemmt, fyrir mig að fyrrum nemendur mínir, þar af þrír starfandi kennarar, hafa birt mjög góða pistla og athugasemdir síðustu daga um þetta mál og eigin reynslu af kennarastarfinu, og ég vitna hér á eftir nokkuð í þeirra skrif. Þetta eru Bryndís Valdimarsdóttir og Sigrún Árnadóttir, grunnskólakennarar í Hveragerði og Elvar Ingimundarson framhaldsskólakennari á Selfossi. Einnig sæki ég mér efni í góða yfirlitsgrein eftir Sigrúnu Ólöfu Ingólfsdóttur skólastjóra Hraunvallaskóla og Ragnar Þór Pétursson, grunnskólakennara og fyrrverandi formann KÍ.
En hvað er það sem kennurum er helst núið um nasir þegar þeir fara fram á að staðið sé við skriflega samninga og við þá gerðir ásættanlegir kjarasamningar?
Óljósar kröfur?
Sveitarfélögin vísuðu verkfallsboðun KÍ til ógildingar hjá Félagsdómi vegna þess að kröfurnar væru óljósar, og þetta viðhorf hefur heyrst víðar að. Hið rétta er að kröfurnar eru alveg skýrar: Að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, standi við undirritaðan samning frá 2016 um jöfnun launa milli sérfræðinga á opinberum og almennum vinnumarkaði. Kennarar efndu undir eins sinn hluta af því samkomulagi, sem var að skerða sín eigin lífeyrisréttindi, þannig að þau yrðu jöfnuð við almennan vinnumarkað. Í átta ár hefur hið opinbera þverskallast við að efna sinn hluta. Tölurnar liggja fyrir. Meðallaun sérfræðinga á almennum markaði eru 40% hærri en kennara. Það er ekkert óljóst við þetta.
Réttindin og fríðindin
Fullyrt er: „Kennarar hafa svo mikil réttindi og fríðindi umfram sérfræðinga á almennum vinnumarkaði að óeðlilegt er að tala um jöfnun launa.“
Trúlega hafa kennarar einhver réttindi sem aðrar starfsstéttir hafa ekki. Það er þó bara önnur hliðin á peningnum. Starfsstéttir á almennum vinnumarkaði hafa á móti ýmis réttindi sem opinberir starfsmenn hafa ekki, „sum afar verðmæt. Kaupréttarsamningar, laun greidd sem viðbótarlífeyrir, vildarpunktar, aksturspeningar, föst yfirvinna, net- og símakostnaður“ (Ragnar Þór Pétursson, Facebook-færsla, 24.10.24), himinháir starfslokasamningar og svona mætti halda áfram að telja. Ekkert er heldur óeðlilegt við það að réttindi séu mismunandi milli stétta út frá eðli starfa. Auðséð er að sérfræðingar á almennum vinnumarkaði njóta margháttaðra vildarkjara sem venjulegt launafólk nýtur ekki, og því meiri sem launin eru hærri. Ef samninganefnd sveitarfélaga ætlar að draga inn í jöfnuna fleiri réttindi (sem hvergi eru nefnd í gerðum samningi) en lífeyrisréttindin, sem kennarar seldu fyrir jöfnun launa, þá væri heiðarlegra að bera þessi meintu „miklu réttindi“ a.m.k. saman við sérréttindi sérfræðinga á almennum markaði. Engin tilraun er gerð til þess, heldur er málið sett fram einhliða til að skapa óvild í garð kennara.
Blessað sumarfríið
Sumarfríið, enn einu sinni, hjálpi mér allir heilagir, og hinir líka! Veit formaður samninganefndar sveitarfélaganna ekki að kennarar vinna tæpar 43 klst. á viku á starfstíma skóla, 12 klst. lengri vinnutíma á mánuði en almennt gerist á vinnumarkaði í dagvinnu – og fá þær ekki greiddar fyrr en eftir dúk og disk, að sumri til, utan starfstíma skóla, og þá ekki í beinhörðum peningum, heldur í auknum frítíma? Svo eiga þeir væntanlega sitt 6 vikna sumarfrí eins og hver önnur starfsstétt, eða hvað? Það má kannski segja að almenningi sé vorkunn að skilja þetta ekki fyrst formaður samninganefndar SÍS gerir það ekki. En auðvitað er samninganefndinni þetta fullkunnugt, þó hún kjósi að setja mál sitt fram með þessum hætti til að koma inn hjá þjóðinni óþoli gagnvart kennurum.
Þetta er gamli söngurinn: „Athugasemdir eins og; Ertu ekki alltaf í fríi? Ertu ekki komin alltaf heim fyrir kl. 14? voru alltof algengar. Svörin voru á eina leið; Nei, svo sannarlega ekki. Vinnutími kennara er tæplega 43 klukkustundir á viku.“ (Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir. 2024. „Raunveruleiki íslenskra skóla miðað við niðurstöður úttektar Viðskiptaráðs“. Visir.is, 23. október).
Símenntunartími á launum
Samninganefndarformaðurinn fyrrnefndi kvartaði í útvarpinu yfir því að kennarar séu á launum við símenntun, það séu ósanngjörn réttindi sem aðrir njóti ekki.
„Meðan gerð er krafa á kennara um að sinna símenntun þá er það hluti starfsins. Þetta er einstaklega óábyrgt tal [….] Miðað við þær áskoranir sem menntakerfið stendur gagnvart er síst of mikil áhersla á símenntun. Ég velti því fyrir mér í hverra umboði formaður samninganefndar sveitarfélaga segir vilja sambandsins að minnka símenntun og starfsþróun. Þetta er ótrúlegt hugsunarleysi“ (Ragnar Þór Pétursson). „Viljum við minnka tækifæri kennara til faglegrar umræðu, fræðslu og annars samstarfs sem skiptir máli? Viljum við ekki vera með skóla án aðgreiningar?“ (Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir).
Eiga kennarar, og almenningur, að skilja samtök sveitarfélaga þannig að símenntun og starfsþróun sé óþörf? Eða að kennarar eigi að sinna þessum þætti starfsins í frítíma sínum, launalaust? Taka hann frá fjölskyldunni? Fara sérfræðingar á almennum vinnumarkaði ólaunaðir á eigin kostnað á starfsþróunarráðstefnur í frítíma sínum? Svona málflutningur er auðvitað óboðlegur og ekki til neins annars settur fram en að villa um fyrir almenningi og sverta kennarastéttina.
Veikindin
Mikið hefur verið rætt um veikindi kennara og Viðskiptaráð og borgarstjórinn í Rvk. verið í sviðsljósinu. Ekki er nóg með að kennarar nenni ekki að vera með börnunum, séu sífellt á námskeiðum, fundum og að undirbúa sig, heldur séu þeir líka alltaf veikir. Þannig gefa þessir aðilar, valdamiklir aðilar í þjóðfélaginu, upp boltann fyrir aurflóð samfélagsmiðlanna, í þeim tilgangi einum að grafa undan kennarastéttinni. Sennilega er gjörvöll stéttin þá sífellt bráðveik á námskeiðum, fundum, við undirbúning og í fríum, miðað við þvæluna sem gengur yfir?
„Árið 2015 kenndi ég 26 kennslustundir á viku, sem er full kennarastaða, og ég upplifði að tími til undirbúnings væri lítill. En hvað hafði breyst frá árinu 2005? Foreldrasamskipti voru orðin mun meiri. Ég þurfti að mæta á fleiri fundi. Teymisfundir í kringum nemendur, fagfundir í skólanum, kennarafundir og deildarfundir. Mér fannst ég vera að brenna út. Það kom fyrir að ég mætti nánast óundirbúin í kennslu því ég náði hreinlega ekki að klára að undirbúa mig. Ég upplifði að ég væri á þeytingi allan daginn, hafði ekki tíma til að fara á klósettið …“ (Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir).
„Í greininni á mbl.is sem birtist 21. október er dregin upp samanburðarmynd af veikindum starfsfólks í grunnskóla miðað við opinberan markað árið 2020. Árið 2020! Hvað var að gerast árið 2020? Æ já, það var Covid og kennarar voru þá framlínustarfsfólk ásamt læknum og hjúkrunarfólki. […] Þetta dæmi í greininni um veikindi kennara miðað við veikindi starfsmanna á almennum markaði var dregið upp […] til að sýna fram á að kennarar væru mikið frá vegna vinnu til að rökstyðja orð Einars borgarstjóra. Þrátt fyrir þetta furðulega dæmi sem var tekið langar mig að ræða samt veikindi hjá starfsfólki í skólum. Það sem ég sé er að kennarar fara í langtímaveikindi. Af hverju? Þeir brenna út. Álagið er svo mikið. Þeir fá ekki laun miðað við vinnuna sína. Þeir gefast upp. Nýir kennarar hætta að hausti því þeir geta þetta ekki. Þarf ekki að huga að starfsumhverfi kennara til að snúa veikindakúrfunni við?“ (Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir).
„Ég fæ oft hausverk af streitu og álagi. Ég legg mig alla fram og geri mitt besta. Ég tek vinnuna oft með heim. Stundum leggur vinnan okkur i rúmið en ég vil ekki hugsa að hún leggi okkur í gröfina“ (Bryndís Valdimarsdóttir. Facebook-færsla, 23.10. 2024).
Starfsaðstæðurnar og álagið
Sjálfsagt skilur það enginn sem ekki hefur verið kennari hve mikið andlegt álag getur fylgt starfinu. Flestir kennarar eru kennarar af því þeim þykir starfið skemmtilegt og gefandi. En böggull fylgir skammrifi. Hinn gamli tími er liðinn, þar sem nemendahóparnir voru einsleitir, lýðnum skipt upp í A, B, C, D og kannski líka E-bekki. Börnin flokkuð, eins og búfénaður eftir vikt. Oftast byggði flokkunin á hæpnum forsendum; stétt og stöðu foreldranna í samfélaginu. Góðborgarabörnin voru athugasemdalaust sett í A-bekkina og svo koll af kolli þangað til kom að börnum fátækustu fjölskyldnanna, sem voru sett í sk. tossabekki, „sett í ruslið“, eins og viðhorfið virðist oft hafa verið. Að langmestu leyti alveg burtséð frá námshæfileikum. Athyglisbrestur! Ofvirkni! ADHD! Einelti! Þessi fyrirbæri höfðu ekki verið fundin upp og flokkunin því einföld: Börn frá betri heimilium, óalandi óþekktargemlingar og heimskingjar.
Það er einfaldara að kenna einsleitum hópi og því var talið að hver kennari gæti sinnt fjölmennum bekkjum. Ekkert kjaftæði! Að ekki sé talað um fatlaða og þroskaskerta, sem hafðir voru í sérstökum stofnunum, lokaðir frá jafnöldrum sínum. Eða nemendur af erlendum uppruna, sem varla þekktust í skólakerfinu.
Nú er öldin önnur: Skóli án aðgreiningar. Einstaklingsmiðað nám. Fjölþjóðlegt samfélag. Upplýsingaskylda. Foreldrasamstarf. Samráð. Teymisfundir. Deildarfundir. Hópavinna. Tölvur. Net. Snjallsímar. Fjarkennsla. Samþætting námsgreina. Lengi væri hægt að halda áfram slíkri upptalningu.
Í skólaheimsókn í New York fékk Sigrún Ólöf þessi svör við spurningum sínum: „„Við erum með einn einhverfan nemanda annars er lítið um frávik hér. Þetta er einkaskóli og við veljum inn í skólann.“ Hmm.. ok, áhugavert. Næsta spurning mín var: „Hafið þið góðan tíma til að undirbúa kennslu?“ Svarið sem ég fékk var: „Hér er til svo mikið námsefni að við getum gengið að nánast hverju sem er …“ á meðan, segir Sigrún Ólöf, „kennarar í mínum skóla eru sjálfir að búa til námsefni, ef kennsluskyldan væri meiri þá hefði ég ekki kennara. Þeir myndu gefast upp. Hvernig eiga þeir að sinna kennslu og búa líka til námsefni og líka vera í foreldrasamskiptum og líka að sjá um að mæta þörfum allra og líka …“.
„Stundum finnst mér verkefnin sem fylgja starfi kennarans erfið. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg. Nemendur okkar glíma við ýmis verkefni. Stundum finnst mér ég hafa full marga bolta á lofti, stundum næ ég ekki að grípa alla boltana. Þá sæki ég mér aðstoð …“ (Sigrún Árnadóttir. Facebook-færsla, 18. 10.2024).
„Nemendur eru með fjölbreyttari þarfir, við erum með fleiri nemendur af erlendum uppruna, foreldrasamstarf er meira, miklu fleiri fundir. Ég hætti með umsjón fyrir 12 árum enda var það að gera út af við mig og ég get ekki hugsað mér allt álagið með því starfi. Skólastjórinn á aldrei frí, hann tekur alltaf símann og svarar tölvupóstum heima og í útlöndum, hvar og hvenær sem er. Eigum við að ræða alla rakningarvinnuna í Covid? Við verðum að hafa skólana opna! Skólastjórinn minn gefur vinnunni alla sína orku og allan sinn tíma. Það er sorglegt en satt. Það hefur tekið sinn toll af honum og ég hef áhyggjur af því daglega (Bryndís Valdimarsdóttir).
„Ég fer á námskeið og efli færni mína, viða að mér upplýsingum og verkfærum … til að geta komið betur til móts við mismunandi þarfir nemenda minna – einstaklingsmiðuð ígrunduð kennsla og „hvern tíma þarf að undirbúa og svo þarf auðvitað að gefa nemendum einstaklingsbundið mat“, nemendum sem heyja „baráttu við margskonar námsefni …“ (Sigrún Árnadóttir). „Í mínum skóla starfar fagfólk sem sinnir sínu starfi af alúð og samviskusemi á hverjum degi. Launin sem þau fá fyrir vinnu sína eru ekki í samanburði við álag í starfi. Hér er fagfólk sem vill bæta við sig þekkingu, taka þátt í skólaþróun og tekur þátt í verkefnum um víða veröld“ (Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir).
Sveigjanleikinn
Formaður samninganefndar sveitarfélaganna hélt því fram í útvarpsviðtalinu í morgun að kennarar hafi miklu meiri yfirráð yfir vinnutíma sínum en sérfræðingar á almennum markaði, þ.e. að sveigjanleikinn sé miklu meiri hjá kennurum, og á almennna vinnumarkaðnum vinni sérfræðingar eftir „stimpilklukku“.
Um þetta er það að segja að einu sinni var nokkur sveigjanleiki í boði. Þegar ég var kennari í almennum skóla fyrr á árum gat komið fyrir að ég „laumaðist“ út úr skólanum fyrir kl. 16:00, fljótlega eftir að minni kennslu lauk þann daginn, til að sinna öðru, t.d. að fara út í náttúruna, jafnvel á hestbak. Þetta gat verið mjög gott og hollt, sannkallaður „gæðatími“ til að hreinsa hugann og mæta endurnærður að verkefnastaflanum sem beið heima um kvöldið (og helgarnar) og koma ferskur að undirbúningi næsta kennsludags. Þetta mátti vel kalla sveigjanleika, ágætan og æskilegan sveigjanleika, leyfi ég mér að segja, enda voru vinnustundirnar yfir verkefnabunkunum í frítíma mínum heima margfalt fleiri en hinar „sviknu dagvinnustundir“. Slíkur sveigjanleiki er með öllu horfinn úr grunnskólunum, þó framhaldsskólakennarar hafi ekki látið svíða hann af sér með öllu ennþá.
Upp úr síðustu aldamótum þyngdist pressan um að kennarar væru skilyrðislaust á vinnustaðnum frá 8-16. Á sama tíma fór vaxandi umræða í samfélaginu um mikilvægi sveigjanlegs vinnutíma, í tengslum við það sem kallað var „fjölskylduvænt samfélag“. Fólk gæti t.d. vel sinnt ákveðnum verkefnum að hluta til heima hjá sér, a.m.k. þeim sem unnin voru í tölvum og á Netinu, það gæti unnið skemur þennan daginn og lengur hinn daginn í staðinn. Þetta þótti ýmsum ágæt vísindi, m.a. innan verkalýðshreyfingarinnar, samtaka atvinnurekenda og í stjórnmálum. Sveigjanlegur vinnutími myndi leiða af sér ánægðara starfsfólk, betri vinnuanda, meiri afköst, minni starfsmannaveltu og minni fráhvörf vegna veikinda. Á sama tíma og þessi umræða var í gangi úti í samfélaginu var djöflast á kennurum í þeim tilgangi að rífa af þeim þann sveigjanleika sem þeir þó nutu, við hið þekkta lag: „Kennarar eru alltaf í fríi“. Barningurinn sá endaði með ósköpum í hörmulegasta kjarasamningi sem grunnskólakennarar hafa samþykkt, með sk. „bundinni viðveru“, óhóflegu fundafargani og endalausri teymisvinnu, því kennarar skyldu sko vera á vinnustaðnum til kl. 16 og ekkert múður. Það skipti meira máli en hvað þeir voru að gera allan daginn í vinnunni.
Þetta viðhorf minnir óneitanlega á óborganlega senu úr Sjálfstæðu fólki, þegar börnin í Sumarhúsum segja veiðimanninum í tjaldinu við vatnið að þau „þurfi að vera að gera eitthvað“. Hvers vegna? spyr gesturinn. Það vissu börnin ekki.
Vinnutíminn og virðingin
Misskilningurinn og þekkingarleysið á vinnutíma kennara ríður röftum í samfélaginu, og hefur gert um langan aldur. Of margt fólk heldur að það eina sem kennarar þurfi að gera sé að mæta í tíma þegar hringt sé inn, kenna blessuðum englunum, og sjálfsögð krafa sé að þeir kenni linnulítið frá 8-16, séu ekki í eilífum „töflugötum“ og að auki úti með börnunum í frímínútum og í matarhléum. Að því loknu geti þeir svo bara farið sultuslakir heim að loknum hefðbundnum dagvinnutíma, sinnt sjálfum sér, börnum og maka fram að háttatíma og stormað svo morgunhressir og skælbrosandi í kennslustofuna við fyrsta hanagal morguninn eftir. Undir þessu viðhorfi róa Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, talsmenn ríkis og sveitarfélaga og pólitíkusar af vissri sort. Svona eigi skólastarf að vera, segja þessir aðilar og benda á sér „hagstæðar“ samanburðartölur sem þeir grafa upp erlendis, úr skólakerfum sem eru allt öðruvísi uppbyggð en það íslenska, eins og hér kemur fram í skrifum tilvitnaðra sérfræðinga, og allir sem farið hafa út fyrir landsteinana, og rætt þar við skólafólk, vita mæta vel.
Fjórði fyrrum nemandi minn, sem ekki er kennari, skrifaði í Facebook-færslu á dögunum að hún hefði átt þrjú börn í grunnskólum erlendis og það sem henni þætti hvað mest áberandi væri hve miklu meiri virðing væri borin fyrir kennarastéttinni í öðrum löndum heldur en hér og spurði í framhaldinu, af mestu hógværð, hvort það gæti e.t.v. verið mikilvæg ástæða fyrir aðsteðjandi vanda í skólakerfinu hér? Í sama streng tekur Bryndís Valdimarsdóttir, þegar hún skrifar í pistli sínum: „Ég verð svo sorgmædd og sár þegar ég heyri og les um þekkingarleysið og vanvirðinguna gagnvart starfinu mínu“.
Nú til dags „er mjög erfitt að fá fagmenntaða kennara til starfa í skólum landsins. Flótti menntaðra kennara raungerðist frá árinu 2015 til dagsins í dag. Hvar eru kennararnir í dag? Þeir eru í störfum sem samfélagið metur meiri að verðleikum, í störfum sem ekki heyrist talað niður til. „Hvar endar þetta?“ spyr skólastjórinn Sigrún Ólöf og heldur áfram. „Á hvað leið er menntakerfi landsins, skólarnir sem eiga að mennta börnin okkar til framtíðar, þegar virðing fyrir kennarastéttinni er engin? […] Ábyrgðina á þessu óviðunandi ástandi ber íslenskt samfélag, stofnanir íslensks samfélags, þar með taldir fjölmiðlar […]. Viðskiptaráð, borgarstjóri og fjölmiðlar draga fram verstu sviðsmyndina og kennarar landsins upplifa virðingarleysi“.
„Ég fæddist ekki kennari. Ég fór í nám og lærði til þess að eiga rétt á því að vinna við þetta góða starf. Við biðjum um virðingu, virðingu við starfið okkar, virðingu um það sem um var samið 2016 – jöfn laun á milli markaða“, segir Sigrún Árnadóttir, og biður ekki um mikið.
Foreldrarnir og agaleysið
Sigrún Ólöf minntist á skólaheimsóknir til Spánar og New York. Spurði um hegðunarvanda á Spáni: „Hegðunarvanda, það er enginn hegðunarvandi hér. Þau börn sem eru með hann eru ekki í þessum skóla.“ Hmm.. já ok, áhugavert. Næsta spurning mín var: „Hvernig gengur í foreldrasamskiptum?“ Svar sem ég fékk: „Foreldrasamskipti? Hér koma foreldrar ekkert inn í skólann og skipta sér ekki að því sem við erum að gera hér.“ „Á Spáni“, heldur Sigrún Ólöf áfram, „er borin virðing fyrir kennarastarfinu og það er ekki hlaupið að því fyrir menntaða kennara að fá starf sem kennari, ásóknin er slík. Miðað við svörin sem ég fékk geta kennarar alfarið einbeitt sér að kennslu. Skóli án aðgreiningar er eitthvað sem þau þekktu ekki“.
Í New York spurði Sigrún Ólöf: „Hvar eru foreldrarnir? Þetta var eins og á Spáni. Engir foreldrar nema þeir tóku á móti börnunum fyrir utan skólann í lok dagsins. Hvernig viljum við hafa þetta? Viljum við spara mikið í kerfinu þannig að við lokum hurðinni að skólunum og hættum foreldrasamskiptum? Og hvað með samþætta þjónustu í þágu farsældar barna? Erum við einmitt ekki að huga að hverjum einasta einstaklingi? Viljum við breyta því? Viljum við fleiri sérskóla fyrir börn með hegðunarvanda eða frávik? Á Íslandi leggjum við áherslu á að skólinn sé fyrir alla, allir nemendur eigi rétt á námi við hæfi. Við tökum á móti nemendum með annað móðurmál en íslensku og ár hvert fjölgar þeim hratt. […] Talað er um að kennsluskylda á Íslandi sé lítil miðað við önnur lönd. Þá velti ég fyrir mér hvaða öðrum verkefnum sinna kennarar í öðrum löndum?“
Hefur Viðskiptaráð handbærar samanburðartölur um það?
„Íslenskir foreldrar sem flytja erlendis frá fá áfall þegar þeir koma inn í íslenska skóla. Hér ríkir agaleysi í íslensku samfélagi. Hér eru börnin mjög opin, segja sína skoðun og það sitja ekki allir og hafa dauðaþögn inn í kennslustofu allan daginn. Hvernig viljum við hafa þetta? Viljum við að öll börn sitji og segi ekki neitt allan daginn? Íslenskir skólar eru hinsvegar hinum megin á jaðrinum. Við náum ekki niður hegðunarvanda, hér er ofbeldi, ljótt orðbragð, sumir foreldrar trúa ekki að barnið sitt taki þátt í einhverju veseni og það er oft erfitt að setja nemendum mörk. Það hefur áhrif á kennsluna okkar. Á hverjum einasta degi erum við að slökkva elda“ (Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir).
Að lokum
Í grein sem framkvæmdastjóri samtaka atvinnulífsins skrifaði nýlega „kennir ýmissa grasa en fyrst og fremst virðist þar allt viljandi gert til að snúa út úr kröfum kennara og gera lítið úr bágri stöðu kennara á vinnumarkaði. Heildarlaun háskólamenntaðra sérfræðinga á almennum markaði eru meira en 40% hærri en heildarlaun sérfræðinga í fræðslustarfsemi og kennarar eru áberandi verst launaða sérfræðingastéttin hjá ríkinu“. […] Þó framkvæmdastjórinn „segi í bréfi sínu: „Kennarar eru til fyrirmyndar og ég öfunda þau af því að fá að kenna“, virðist það fara óheyrilega í taugarnar á henni og félögum hennar að kennarar krefjist þess að ríkið virði undirritaða samninga sína við kennara. En ef ríkið má svíkja samninga við kennara, af hverju ætti það þá að virða samninga við aðila á almennum markaði? Er ekki bara best að ríkið standi við gerða samninga og fólk stilli sig um að tjá sig um mál sem það hefur ekki lagt á sig að kynna sér til hlítar?
Í stað þess að hlusta á orðagjálfur óviðkomandi aðila vil ég hvetja fólk til að styðja við bakið á okkur kennurum, fyrir samfélagið og framtíðina. Fjárfestum i kennurum!“, skrifar Elvar Ingimundarson á Facebook-síðu sína.
Það eru lokaorð við hæfi, á þennan langhund.