Af Bjarnagreiða og fleiru

Haustið lætur á sér kræla þetta árið með hefðbundnum hætti:

 

Kunnugt er nú komið haust,

kuldableytudrulla

og aftur byrjað, endalaust,

alþingi að bulla.

 

Elfa bróðurdóttir mín er alveg yndisleg. Hún benti fólki á að taka upp léttara hjal á Facebook og gaman væri líka að tala um það sem vel er heppnað. Ég tek hana á orðinu:

 

Ég nú verð að játa að

ég er nokkuð góður.

Rökin sem að sanna það

má sjá í dóttur bróður.

 

Núna er eitt barnið í þingliði Sjálfstæðisflokksins að berjast við að koma brennivíni í matvörubúðir:

 

Þegar bjór og brennivín

í búðum hér mun fást,

kaupstaðarangan óðar dvín,

á mér mun varla sjást.

 

Ekki var blekið þornað á fjármálafrumvarpsdrögum Bjarna og félaga þegar tilkynnt var um verðlækkun á krúseronum, en eins og menn vita er ekki étið mælt í þeim:

 

Í útrás vilja aftur skeiða,

efla ríkra hag.

Toyota býður Bjarnagreiða

bara strax í dag!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *