Ég skildi við Kristmund Guðmundsson, langafa minn, þegar ég var búinn að rekja nokkuð afkomendur hans af fyrra hjónabandi, 7 börn og niðja þeirra að hluta. Fyrri konan, Helga Ingibjörg Bjarnadóttir frá Skúfi í Norðurárdal, lést í júní 1892, þegar yngsta barnið hennar, Guðmundur, sá er myrtur var síðar í Kanada, var rétt orðinn 6 mánaða.
Aðeins má þó tutla meira þarna. Kristbjörg var þriðja barn langafa, f. 1886. Hún ólst upp hjá Guðmundi Guðmundssyni og Helgu Þórarinsdóttur á Refsteinsstöðum og giftist Sigurði Líndal Jóhannessyni, f. 1890. Þau bjuggu m.a. á Uppsölum, eða Umsvölum, í Sveinsstaðahreppi. Börn þeirra voru Guðmundur Helgi (barnlaus), Kristmundur Jóhannes f. 1912 á Refsteinsstöðum, Finnbogi Líndal f. 1948 í Gröf í Víðidal, Ingþór, f. 1920 á Hólabaki og Hólmfríður, f. 1925 á Lækjarmóti í Víðidal.
Kristmundur Jóhannes var rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík og glímukappi. Hann varð glímukóngur Íslands 1942 og „vann fimm sinnum sigur á glímumótum í Húnaþingi.“ Börn hans og Svövu Þórðardóttur, f. 1917, frá Eyrarbakka, eru Gerður Björg, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík og Ómar Hlynur, félagsfræðingur frá HÍ og stjórnsýslufræðingur frá háskóla í Bandaríkjunum, prófessor í stjórnmálafræði við Félagsvísindadeild HÍ. Ómar Hlynur, frændi minn, var leiðbeinandi minn við skrif meistaraprófsritgerðar í opinberri stjórnsýslu við HÍ árið 2011. Kona hans er Steingerður Sigurbjörnsdóttir, sérfræðingur í barnalækningum eftir framhaldsnám í Bandaríkjunum.
Sonur Ingþórs Guðmundssonar var Þorsteinn Rafn, f. 1955, bifvélavirki í Reykjavík. Fyrri kona hans var Jóna Margrét Kristinsdóttir og þau eignuðust dótturina Eygerði, f. 1976 í Reykjavík. Dóttir Eygerðar er Valdís Mist, dóttir Óðins Braga Valdemarssonar, Bragasonar, útvarpsmanns, kirkjuvarðar og starfsmanns í Prentsmiðju Suðurlands, nú Prentmets, á Selfossi.
Seinni kona Kristmundar var Hólmfríður Jóhannsdóttir, fædd 1866 á Haukagili í Vatnsdal. Hún var Húnvetningur í báðar ættir. Hólmfríður eignaðist 12 börn á árunum 1893-1911 en lést árið 1930 í Melrakkadal. Ekki er hægt að segja að Hólmfríður hafi átt barnaláni að fagna. Fyrsta barnið var andvana fætt í Ásbjarnarnesi 1893. Hólmfríður Ingibjörg fæddist í ágúst 1894 en dó í febrúar 1895.
Jóhann fæddist 1895 og lifði langa ævi, lést 1983. Hann eignaðist þrjú börn, Elinborgu sem dó 15 ára, Hólmfríði sem á nokkuð af afkomendum, og Ásgeir sem fluttist til Kanada og á ekki afkomendur sem getið er, a.m.k. ekki hér á landi.
Kristmundur Kristmundsson fæddist 1899 og lést í elli 1982. Hann var bóndi og póstur í Melrakkadal, giftur Elínu Jónsdóttur frá Gröf í Víðidal og eignuðust þau 4 börn. Að auki átti Kristmundur soninn Guðmund, f. 1944, með Soffíu Bjarnheiði Guðmundsdóttur.
Næst í röðinni var Málfríður Guðbjörg, f. 1901 í Ásbjarnarnesi. Maður hennar var Gunnar Finnbogason, f. 1905 og bjuggu þau í Eyrar-Útkoti í Kjósarhreppi. Ekki er stór ættleggur kominn frá Málfríði. Pálmi, f. 1930, er barnlaus, Finnbogi Reynir, f.1931, á nokkurn hóp afkomenda, Gunnar Bergmann (tvíburabróðir Finnboga) dó 6 mánaða, en Kristín Gunnfríður, f. 1942, tryggir viðhald þessa leggs, ásamt Finnboga. Maður Kristínar Gunnfríðar er Skúli Kristinn Gíslason, f. 1938, vélfræðingur og eiga þau 3 börn. Elst er Guðrún Helga, f. 1963 í Reykjavík, hárgreiðslumeistari. Næstur í röðinni er Gísli Kristinn, f. 1964 í Reykjavík, rannsóknarlögreglumaður, búsettur í Mosfellsbæ, en yngstur Skúli Bergmann, f. 1970, bílasali. Kona hans er Kristjana Lilja Sigurðardóttir, f. 1973, starfsmaður á ferðaskrifstofu. Þau voru búsett á Selfossi og Kristjana Lilja vann með Önnu Maríu konu minni bæði í apóteki og í dagdvöl aldraðra á Selfossi. Börn Skúla og Kristjönu eru Kristín Elísabet, f. 1995, og Kristófer Bergmann, f. 1997.
Margrét, 16. barn Kristmundar, fæddist 1903 og bjó í Efra-Koti í Tungusveit, í Melrakkadal og í Reykjavík. Maður hennar var Jóhannes Jóhannesson, f. 1894 á Litlu-Brekku í Hofshreppi í Skagafirði. Margrét eignaðist 3 börn en þar endaði hennar erfðaefni. Hjalti Auðunn, f. 1932, húsasmíðameistari og frímerkjasafnari og Kristmundur Dalmann, f. 1934, starfsmaður í álverinu í Straumsvík, voru báðir ókvæntir og barnlausir. Þriðja barnið, Helga Ingibjörg, f. 1904, dó í desember sama ár, tæplega 6 mánaða.
Sá 17. var Loftur Hólmfreð, fæddur 1906 í Melrakkadal. Hann var lengst af verkamaður á Akureyri. Kona hans var Sigrún Leifsdóttir frá Baldursheimi í Mývatnssveit. Þau eignuðust 9 börn. Sonur Ragnheiðar Olgu, f. 1944, og Hólmsteins Snædal húsasmíðameistara á Akureyri, er Rósberg Snædal, f. 1967, hattagerðarmaður og klæðskeri en hann hefur getið sér orð sem búningagerðarmaður og leikmyndahönnuður. Afkomendur Lofts Hólmfreðs eru margir búsettir á Akureyri.
Systurnar Elín og Guðríður dóu ungar. Elín, f. 1907, aðeins 8 mánaða og Guðríður, f. 1909, rúmlega eins og hálfs árs.
Yngstur, og sá 20. í röðinni var Hermann, f. 1911 í Melrakkadal. Hann kvæntist Sigríði Kristmundsdóttur frá Möðruvöllum í Kjós. Þau skildu, en eignuðust áður 5 börn frá 1942-1961. Þetta er svo ungt fólk að ekki er von á stórum ættlegg þegar hér er komið sögu.
Og þá er eiginlega ekkert eftir, annað en að segja frá afa mínum, Guðmundi, sem fæddur var 1890. Það kemur næst og síðast.