Bjarni á Sjöundá átti Gísla sem átti Guðnýju sem átti Sigurð með Stefáni. Sigurður Stefánsson átti Elínbjörgu með Sigríði, dóttur Jóns og Guðrúnar Pálsdóttur Jónssonar, hvern Pálsætt á Ströndum er við kennd. Elínbjörg átti Ragnheiði Ester með Guðmundi Kristmundssyni Meldal, en Ragnheiður Ester er móðir mín.
Guðmundur Kristmundsson Meldal var sonur Steinvarar Ingibjargar Gísladóttur og Kristmundar Meldal, bónda á Ásbjarnarnesi og lengi í Melrakkadal, Þorkelshólshreppi, V-Hún, Guðmundssonar, bónda á Efri-Þverá í Vesturhópi, Helgasonar og Hólmfríðar Bergþórsdóttur úr Tjarnarsókn, Jóelssonar Bergþórssonar, hvern Jóelsætt er við kennd.
Steinvör Ingibjörg var dóttir Gísla Gíslasonar, eiginmanns Vatnsenda-Rósu. Þau voru barnlaus. Móðir Steinvarar var Arnfríður, vinnukona í Vesturhópshólum, Jónasdóttir Guðmundssonar bónda í Stóru-Giljá og konu hans Hólmfríðar Jósefsdóttur, bónda á Ásgeirsá, Tómassonar.
Gísli, faðir Steinvarar var sonur Gísla Gíslasonar frá Enni, Engihlíðarhreppi, A-Hún., prests í Kaldaðarnesprestakalli, Vesturhópshólum, Staðarbakka og Gilsbakka. Gísli mun hafa verið lærður maður vel og gáfumaður mikill, skáldmæltur en drykkfelldur til vandræða og kvensamur. Gísli var sonur Gísla Arasonar bónda á Enni og s.k.h. Margrétar Jónsdóttur frá Kríthóli, Jónssonar. Gísli er af bændafólki kominn í báðar ættir og talinn „lítilla manna“ af tengdaforeldrum sínum.
Gísli, faðir Gísla föður Steinvarar, var giftur Ragnheiði Vigúsdóttur Thorarensen, systur Bjarna skálds, en Vigfús var sonur Þórarins á Grund Jónssonar, hvern Thorarensenætt er við kennd. Gísli var í þjónustu Vigfúsar sýslumanns Þórarinssonar á Hlíðarenda 1808-12 og náði þar í heimasætuna, foreldrunum til skapraunar.
Ragnheiður var þriðja barn (á eftir Þórarni og Bjarna) Vigfúsar og Steinunnar Bjarnadóttur, Pálssonar landlæknis. Móðir Steinunnar, og kona Bjarna læknis, var Rannveig Skúladóttir, landfógeta Magnússonar.