Alþingi Íslendinga var sett í dag. Eftir messu í Dómkirkjunni gengu þingmenn og forseti undir eggjahríð yfir í þinghúsið. Einn þingmaður var skotinn niður. Sem betur fer virðist hann hafa sloppið við meiriháttar meiðsli. Það gat farið verr.
Sjálfsagt hafa flestir sem mættir voru til að mótmæla á Austurvelli verið sjálfum sér til sóma. En of margir voru það ekki. Það er hættulegt að kasta eggjum í fólk.
Þeir sem finna hjá sér þörf til að skipuleggja, auglýsa og standa fyrir mótmælum verða að hugsa sinn gang. Þeirra ábyrgð er mikil. Ef mótmæli við Alþingi eiga áfram að vera vettvangur ofbeldisárása verður að taka í taumana með einhverjum hætti. Skipuleggjendur verða að axla sína ábyrgð og skilgreina betur hverju þeir hyggjast mótmæla og hvernig. Það gengur ekki að blása bara til einhverra mótmæla, þar sem hver er á sínum forsendum, og hóa saman með æsingaáróðri liði sem leggur líf annarra í hættu í skjóli nafnlauss fjölda.
Ef svo fer fram sem horfir endar þetta með óafturkræfum ósköpum. Það má ekki verða. Hagsmunasamtök heimilanna, og aðrir þeir sem hyggjast skipuleggja fjöldamótmæli, þurfa nú að hugsa sinn gang. Þjónuðu mótmælin í dag tilgangi sínum? Nei.
Eftir síðustu óeirðir á Austurvelli og árásir á heimili fólks hélt maður að fólk hefði lært sína lexíu. Það hafa augsýnilega ekki allir gert.
Ofbeldisárásir af því tagi sem áttu sér stað í dag eru óafsakanlegar. Ef þjóðin ætlar að sætta sig við að þetta verði venjan við setningu Alþingis, þá sitjum við öll í súpunni. Þessu verður að linna, og það strax.
Mótmælum verður að finna annan farveg.