Öllum er í fersku minni áróðursstríð LÍÚ í málgagni sínu, Morgunblaðinu, ásamt auglýsingaherferð í öllum fjölmiðlum landsins, gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu hér á landi. Þó mesta auglýsingabruðlið virðist um garð gengið – í bili a.m.k. – þá er morgunljóst að sú falska einshljóðfærissynfónía hefst aftur um leið og þingið tekur til starfa í haust.
Lygaáróðurinn var sá að ef þær breytingar sem stjórnvöld boðuðu yrðu að veruleika, breytingar sem þó voru orðnar útvatnaðar af undanlátssemi við svokallaða hagsmunaaðila, þá færi hér allt á hausinn og helst var að skilja að ekki yrði framar dregið bein úr sjó við Íslandsstrendur. Reyndar er það merkilega lýsandi fyrir sjálfhverfuna og einkahagsmunahyggjuna hér á landi að einu hagsmunaaðilarnir sem LÍÚmenn koma auga á í þessu máli eru þeir sjálfir. Engum dettur í hug að eigendur auðlindarinnar, þjóðin sjálf, hafi eitthvað um málið að segja eða sé hagsmunaaðili yfirleitt.
Nú er hafið annað áróðursstríð. Ríkisstjórnin hefur boðað að virðisaukaskattur á þjónustu veitingahúsa og gististaða verði hækkaður úr 7%a afsláttarþrepi í almennt skattþrep. Fjármálaráðherra lýsti skattaafslættinum, sem hefur verið veittur frá árinu 2007, réttilega sem ríkisstyrk. Hún hefur hlotið bágt fyrir það, eins og ferðaþjónustan skammist sín alveg ógurlega fyrir að þiggja ríkisstyrki. Ferðaþjónustunni til huggunar má benda henni á að heilu atvinnugreinunum er haldið á floti á ríkisstyrkjum – og ekki er að sjá að nein skömm fylgi því. Að minnsta kosti vilja flestir meira – og sumir telja jafnvel að engum komi það við hvernig með styrkina er farið.
En það er önnur saga. Ferðaþjónustan berst nú um á hæl og hnakka, í anda stórútgerðarmanna, og reynir að telja þjóðinni trú um að öll ferðaþjónusta fari á hausinn, leggist hreinlega af og ferðamenn hætti að sækja landið heim. Megum við á næstunni búast við auglýsingum frá samtökum gistihúsaeigenda, þar sem starfsmenn og gestir verða látnir með dramatískum innslögum lýsa því að þeir muni missa vinnuna og hætta að gista, ef áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika? Svo komi kannski á skjáinn prófessor í sálfræði sem upplýsi þjóðina um afleiðingar þess ef ekkert verði sofið á Íslandi, til eilífðarnóns? Allt vegna ríkisstjórnarinnar, auðvitað.
„Nú á að slátra Gullgæsinni og draga úr ferðamannastraumi til Íslands“, lét hóteleigandi í Keflavík hafa eftir sér. Sami hóteleigandi upplýsir lesendur Víkurfrétta um það að ef hótel- og gistihúsaeigendur hefðu talið sig geta hækkað verð undanfarin ár, þá hefðu þeir gert það, enda ekki veitt af til að bæta afkomuna í „harðærinu“.
Þessar yfirlýsingar eru athygli verðar, ekki síst í því ljósi að umrædd þjónusta mun hafa snarhækkað undanfarin ár, þrátt fyrir stórfelldan virðisaukaafsláttinn frá 2007, ef marka má upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu. Og þrátt fyrir stöðugar verðhækkanir hafa ferðamenn hópast inn á hótelin og gististaðina, sem aldrei fyrr. Og þeir hafa ekki heldur látið neitt stöðva sig, þegar kemur að því að kaupa vörur og aðra þjónustu. Og þeir munu ekki heldur láta það á sig fá þó þjónusta veitingahúsa og gististaða verði færð í almennt virðisaukaskattþrep. Vitið bara til.
Málflutningur af þessu tagi er engum til sóma, hvorki ferðaþjónustunni, útgerðinni, né öðrum „hagsmunahópum“. Trúverðugleiki þeirra gufar hreinlega upp með þessum eilífu heimsendaspám.
Því miður er þetta samt lenskan í opinberri umræðu hér á landi. Að mála skrattann á vegginn.