Margir átta sig á því að menntun er lykill að farsæld, þó vitaskuld megi finna ágæt dæmi um að menn komist vel af án langrar skólagöngu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi það t.d. á stefnuskrá sinni með einhverjum hætti að „hækka menntunarstig“, enda sé það forsenda fyrir nýjum tækifærum, nýjum störfum, nýjum og auknum útflutningstekjum – já, hagvexti framtíðar.
Til að ná þessu markmiði þarf að vinna að því að sem flestir haldi áfram námi sem lengst og einhverjir vaxi upp í að verða frumkvöðlar og standi fyrir nýsköpun og þróun sem leiði samfélagið fram á við, helst í fremstu röð í samkeppni þjóðanna. Og þá kemur til kasta nægilega vel menntaðs vinnuafls að sinna öllum nýsköpuðu og þróuðu störfunum.
En menntun er auðvitað dýpra hugtak en svo að hægt sé að afgreiða það á svo einfaldan hátt. Menntun er fyrst og síðast mikilvæg fyrir hvern einstakling, stuðlar að jákvæðri sjálfsvitund, siðferðisþroska og velferð. Að þessu leyti verður menntun ekki mæld í einkunnum og prófgráðum og allur samanburður gerist erfiður, jafnvel ómögulegur, en líka tilgangslaus, því lífsfylling eins verður trauðla sett á mælistiku annars.
Undanfarið hafa orðið háværar á ný raddir sem telja keppnisanda líklegastan til að bæta skólastarf. Gamalkunn er umræðan um nauðsyn þess að bera saman skóla eftir meðaleinkunnum nemenda á lokaprófum: sá skóli sé bestur þar sem meðaleinkunnin er hæst og lægsta meðaleinkunnin sé aumur afrakstur starfs í „lélegasta“ skólanum. Helstu rökin fyrir slíkum samanburði eru að hann sé nauðsynlegur fyrir foreldra og nemendur, svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um val á skóla, og ekki síður hollar stjórnendum og starfsfólki (í „lélegu“ skólunum) til að geta nú tekið sig á.
Þeir sem hafa gefið sér tíma til að hugleiða málið litla stund, og ekki eru pikkfastir í trúarbragðafræði frjálsrar samkeppni, vita að allir aðrir mælikvarðar en meðaleinkunn nemenda á lokaprófi eru betri til að meta gæði skóla og skólastarfs. Fyrir þá sem verða að hafa „beinharðar staðreyndir“ í höndunum, samanburðartölur, er strax skárra að skoða meðaleinkunnir ákveðins nemendahóps annars vegar við innritun og hins vegar við útskrift. Þannig má hugsanlega nálgast þann „virðisauka“ sem hver skóli skapar, og bera þá svo saman, ef það er málið.
Til viðbótar við þessi gamalkunnu stef hafa nýverið bæst nokkrar raddir á sama tónsviði. Nú er hafin ný sókn að styttingu framhaldsskólans og boðaðar hafa verið auknar kröfur um námsframvindu á háskólastigi til að fá námslán. Báðar þessar aðgerðir eru til þess hugsaðar að spara fé. En þær munu jafnframt hafa ófyrirsjáanleg áhrif á líf og framtíðaráætlanir fjölda ungmenna. Þær munu lítil áhrif hafa á „bestu“ nemendurna sem búa við „bestu aðstæðurnar“. En þessi aukna keppnisharka í skólakerfinu mun hrekja stóran hóp fólks frá námi, fólk sem þarf, vegna fjölskylduaðstæðna, efnahags, heilsufars eða námsörðugleika af ýmsum toga, að glíma við fleira í lífinu en bara námið. Er það rétta leiðin til að hækka menntunarstig þjóðarinnar?
Steininn tók þó úr þegar fram komu kröfur um að raða skólum í Reykjavík eftir árangri á lesskimunarprófum í 2. bekk. Staðreyndin er sú að upplýsingar af þessu tagi eru persónulegar og eiga ekkert erindi við aðra en nemendurna sjálfa, foreldra þeirra og kennara. Þær geta gagnast í því samhengi að setja viðkomandi barni persónulega námskrá. Það mun heita á fræðimáli „einstaklingsmiðað nám“, og er talið fínt um þessar mundir. Gæðaröðun grunnskóla eftir lestrarfærni 7 ára barna er ekki bara tilgangslaus, heldur arfaslæm hugmynd sem mun hafa neikvæðar afleiðingarnar til langs tíma, m.a. á sjálfsmynd barna og íbúa í heilu hverfunum, þar sem t.d. er hátt hlutfall fólks með annað móðurmál en íslensku, og fyrirsjáanlegt er að lestrarfærni á framandi máli í upphafi skólagöngu er ekki fullkomin. Hún mun ala á ranghugmyndum og skekkja sjálfsmynd margra, styrkja t.d. þá „elítuhugsun“ sem meira en nóg er af nú þegar.
Það er yfrið nóg af keppni í skólakerfinu: Gettu betur, Skólahreysti og fleira í sama dúr gera meira en að seðja keppnisþörfina. Ef sú braut verður gengin áfram, sem nú er farið að feta sig eftir, og skólarnir gerðir að einhverskonar leikvöngum fyrir „Íslandsmeistarmótið í menntun“, þá er raunveruleg hætta á ferðum.
Greinin birtist í Kjarnanum 19. september 2013