Blessað brottfallið!

Aðalforsíðufréttin í Fréttablaðinu þann 30. apríl sl. fjallaði um brottfall nemenda úr framhaldsskólum. Það má vel kalla það fagnaðarefni að þetta málefni skuli vera mikilvægasta fréttaefnið þann daginn – ekki er menntamálum yfirleitt gert hátt undir höfði í íslensku pressunni. Því má einnig fagna sérstaklega að fréttin er nokkuð vönduð en ekki  jafn grátlega yfirborðskennd og allt of mörg fréttin, leiðarinn eða umfjöllun almennt er um þennan mikilvæga málaflokk.

Blaðið skoðaði ástæður þess að nemendur hættu í námi í þremur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Samviskusamlega er því haldið til haga í fréttinni að brottfall sé mun hærra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og yfir meðaltali í OECD-ríkjum.

Nemendur þessara þriggja skóla gefa upp margar ástæður fyrir brotthvarfi sínu. Þeir nefna oft, skv. Fréttablaðinu,  áhugaleysi, námserfiðleika, líkamleg veikindi og flutning yfir í annan skóla. Í um 10% tilvika nefna þeir fjárhagserfiðleika og um 9% þeirra sem hættu námi í miðju kafi segja ástæðuna vera kvíða, þunglyndi og andleg veikindi. Ef brottfallið er um 30%, eins og fram kemur í fréttinni, þá hættu um 8500 nemendur námi af þeim 28 þúsund sem skráðir voru í framhaldsskóla árið 2011. Af þessum 8500 hættu um 19%, eða um 1600 nemendur, vegna fjárskorts eða andlegra erfiðleika.

Ekkert þarf að fjölyrða um það að „fyrri námsárangur hafi mikið forspárgildi“ fyrir gengi framhaldsskólanemenda. Það segir sig sjálft að nemendum sem gengur vel í grunnskóla muni líka, ef ekkert sérstakt kemur upp á, ganga vel í framhaldsskóla – og háskóla ef út í það er farið. Á sama hátt er við búið að nemendur sem eiga í erfiðleikum í grunnskóla muni áfram glíma við erfiðleika eftir að því skólastigi er lokið. Skiptir þá engu hver ástæðan er; almennir námserfiðleikar, sértækir námserfiðleikar, hegðunarerfiðleikar, fjölskylduvandi, fíkn, sjúkdómar.

Stór hluti af þessu vandamáli er sá að í mörgum tilvikum er ekki tekið á málum af fullri festu og einurð við upphaf skólagöngunnar, heldur sættir þjóðfélagið sig við það að börn sem eiga við vanda að stríða séu látin veltast áfram í gegnum skólakerfið, án þess að viðunandi bót sé ráðin á. Skólunum er gjarnan kennt um – kennurum og skólastjórnendum.

Svo koma börnin upp í framhaldsskólana og „allt er böl sem fyrr“. Þá eiga framhaldsskólarnir skyndilega að kveikja á perunni, „koma til móts við áhuga, getu og færni hvers nemanda með fjölbreyttu námsframboði, kennsluháttum, námsmati, bla, bla, bla…“, eins og þetta sé ekki allt saman þegar viðhaft, meira og minna, á öllum skólastigum? Rótina að áhugaleysi nemenda er ekki að finna í skorti á „nýbreytni í skólastarfi“, hvort sem er í leikskólum, grunnskólum eða framhaldsskólum. Þær rætur liggja dýpra í samfélaginu. Langflestum kennurum er nefnilega ljós vandinn, og ábyrgð sín, og gera það sem þeir geta til að þjónusta nemendur sína sem best, við erfiðar aðstæður.

Ef marka má upplýsingarnar á forsíðu Fréttablaðsins, sem koma ágætlega heim og saman við þann veruleika sem kennarar standa frammi fyrir í störfum sínum, þá er hinn mikli brottfallsvandi íslenskra framhaldsskólanemenda ekki fyrst og fremst skólapólitískur. Hann er hinsvegar bæði félagslegur, heilbrigðispólitískur og efnahagslegur.

Það þarf annars vegar að stórbæta heilbrigðiskerfið, sérstaklega geðheilbrigðisþjónustuna, og hinsvegar að tryggja íslenskri æsku þær aðstæður að þurfa ekki að stunda vinnu í stórum stíl meðfram námi til að framfleyta sér, til að von sé um bættan námsárangur og minna brottfall. Á að viðurkenna þá framvindu að meðalnemandi geti lokið framhaldssskólanámi á „eðlilegum tíma“ í aukastarfi með fullri vinnu annars staðar? Eru það eðlilegar námskröfur?

Ef þjóðfélagið sættir sig við það að framhaldsskólanemendur vinni jafn mikið og þeir gera, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við það um leið að margir nemendur séu lengur en viðmiðunartíma að ljúka prófum, margir „taki sér frí frá námi“ og aðrir hætti. Ef þjóðfélagið sættir sig við það, án þess að bregðast umsvifalaust við af fullri alvöru, að fjöldi barna og ungmenna eigi við svo mikið þunglyndi og geðræn vandamál að stríða að það hamli þeim stórkostlega í námi, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við mikið brottfall og erfiðleika í skólakerfinu.

Ef við viljum bjóða upp á jafn opið og sveigjanlegt skólakerfi og raunin er, þar sem allir nemendur eiga rétt á því að velja sína leið og breyta um stefnu þegar þeim býður svo við að horfa, í stað þess að draga þá í dilka fyrir lífstíð eftir námsárangri við 10 eða 12 ára aldur  – þá verðum við líka að sætta okkur við það að brottfallið fari yfir meðaltöl OECD. Og hvað gerir það til? Eða eru mannréttindin sem felast í sveigjanleikanum einskis virði?

Leiðin að bættu skólastarfi, hvort sem er í grunnskólum eða framhaldsskólum, er ekki sú sem stjórnmálamenn hafa troðið lengi undanfarið – að reyna að breyta vinnutímaskilgreiningum og aldursafslætti í kjarasamningum kennara svo hægt sé að láta þá kenna lengur og meira innan dagvinnumarka – eða að stytta nám til stúdentsprófs. Slíkar aðgerðir munu hvorki bæta skólastarf né minnka brottfall, eins og margur einfeldningurinn hefur haldið fram.

Fleiri nemendur með fleiri „vandamál“ í fleiri bekkjum í fleiri kennslustundum í stundatöflu eldri kennara er ekki lausnin. Sjáum við fyrir okkur löggur að djöflast í slagsmálum á götunni fram undir sjötugt? Eða að hjúkkur á sjötugsaldri séu píndar til að ganga sambærilegar vaktir og þær gerðu um þrítugt?

Eitt af því mikilvægasta fyrir skólastarfið er það sem nefnt var hér að ofan: bæta þjónustuna og taka á vandamálunum strax í upphafi af meiri festu. Heilbrigðiskerfið má t.d. bæta umtalsvert með því að bjóða upp á aukna þjónustu í skólunum. Þar sárvantar sérmenntað fólk af ýmsu tagi: sálfræðinga, geðlækna, sérfræðinga í almennum og sértækum námsröskunum o.s.frv. Þetta kostar aukið fé, öfugt við töfralausnir pólitíkusanna sem allar miða fyrst og fremst að því að minnka kostnaðinn við skólakerfið – og munu um leið rústa því endanlega.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *