Hér áður fyrr á árunum, meðan enn brann eldur í æðum íslenskra karlmanna og hrepparígurinn stóð undir nafni, voru ærleg hópslagsmál viðurkennd aðferð til að gera út um málin. Sveitaböll voru hvað frjóasti akurinn fyrir þessa árangursríku og kraftmiklu félagslegu samningaleið.
Í hverju plássi voru a.m.k. einn, tveir fílhraustir slagsmálahundar sem enginn átti roð í, létu sér fátt fyrir brjósti brenna og komu sínum sjónarmiðum milliliðalaust áleiðis með handafli. Þá var vissara að vera í réttu liði ef maður vildi forðast að snýta rauðu. Fámenn sveit laganna varða réði lítið við slíka beljaka, sem að auki höfðu um sig sveit minni spámanna, til að sendast og sinna ýmsum smáverkum, eins og t.d. að kynda undir ófriði meðal dela úr öðrum plássum. Hver hafði sinn Björn úr Mörk.
En þar sem vöðvaaflið þraut kom til hugkvæmnin. Og þó ótrúlegt megi virðast rann hugkvæmnin undan rifjum yfirvaldsins. Það varð þekkt aðferð og viðurkennd til árangurs að taka hörðustu slagsmálahundana og munstra þá í lögguna. Þegar þeir voru komnir í búning varð orkunni loks beint í réttan farveg.
Þorvaldur Gylfason lét hafa eftir sér í kosningaþætti í sjónvarpinu um daginn að það væri lítið vit í því að setja brennuvargana í slökkviliðið. Þarna er Þorvaldur auðvitað á algerum villigötum. Íslenskir kjósendur, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, vita af gamalli reynslu að besta betrunarráðið er að setja þá sem villast af hinum þrönga vegi dyggðanna til nokkurrar ábyrgðar.
Því hafa þeir nú munstrað brennuvargana í slökkviliðið.