Ekki verður sagt að úrslit kosninganna sl. laugardag hafi komið á óvart. Sífelldar skoðanakannanir hafa endanlega fjarlægt „óvissufaktorinn“ úr blessuðu lýðræðinu, þannig að nú er jafn fyrirframvitað hver úrslitin verða eins og í ýmsum þeim ríkjum heimsins sem við hér gerum óspart grín að – t.d. með bananalíkingum – og höfum einnig fléttað ódauðlega inn í tungumálið: „rússnesk kosning“.
Þó að alþingsikosningarnar hafi ekki verið „rússnesk kosning“ nema að því leytinu til að allir vissu fyrirfram hver meginúrslitin yrðu, þá eru þau jafn lygileg fyrir því.
Stjórnviska Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá því snemma á 10. áratug 20. aldar og fram til 2007 keyrði íslensku þjóðina í gjaldþrot, hallinn á ríkissjóði var 216 milljarðar. Þessir flokkar ganga dagsdaglega undir heitinu „helmingaskiptaflokkarnir“ meðal landsmanna. Og menn kippa sér orðið ekkert upp við þá nafngift. Það er eiginlega búið að neutralisera orðið, eins og það sé bara sjálfsagt og eðlilegt að stjórnmálaflokkar séu helmingaskiptaflokkar. Inntakið virðist ekki skipta máli lengur, að kjarninn í því sé spilling, lýsing á því að flokkarnir hafi undanfarna áratugi, í skjóli pólitískra valda, skammtað „sínum mönnum“ samfélagsgæðin. Fólk kippir sér ekki upp við slík „aukaatriði“.
Helmingaskiptaflokkunum og gjallarhornum þeirra tókst í stjórnarandstöðu að sannfæra kjósendur um það að Samfylkingin og Vinstri græn „hefðu ekkert gert“ allt kjörtímabilið. Þetta keyptu kjósendur, þó það liggi fyrir að ríkisstjórninni hafi tekist að bæta skuldastöðu ríkissjóðs um rúma 212 milljarða á kjörtímabilinu, úr 216 milljarða halla í 3,6 milljarða halla í fjárlögum 2013. Til að ná þessu hefur þurft að herða sultarólina, bæði skera grunnþjónustu inn að beini og hækka skatta.
Við hrun helmingaskiptastefnunnar átti það að vera ljóst að erfiðir tímar væru framundan. Engum átti að geta komið það á óvart að það tæki mörg ár að ná jafnvægi. Engum átti að geta komið það á óvart að velferðarkerfið yrði ekki rekið nema með lágmarksafköstum meðan ríkissjóður skuldaði hundruð milljarða. Engum átti að geta komið það á óvart að á meðan verið væri að jaga niður þessa botnlausu skuldahít helmingaskiptastefnunnar, þá myndu ekki jafnhliða verða gerðar miklar rósir í heilbrigðismálum, menntamálum eða almannatryggingakerfinu. Enginn átti að geta vænst þess að á þessum erfiðu tímum yrðu teknar stórar fjárhæðir til skuldaleiðréttinga, burtséð frá því hversu óréttlátur forsendubresturinn var, sem lántakendur stóðu frammi fyrir við hrunið. Forsendubrestur í boði helmingaskiptastefnunnar, vel að merkja.
Eða hvað?
Það hefur nú komið í ljós að meirihluti kjósenda lét sér þetta allt koma á óvart. Kjósendur refsuðu grimmilega þeim flokkum sem komust á fjórum árum langleiðina með að stoppa í ginnungagapið sem helmingaskiptaflokkarnir höfðu rifið á klofbót þjóðbrókarinnar.
Sem betur fer hvikaði ríkisstjórnin ekki frá þessu markmiði. Fyrir vikið verður á næstu árum hægt að fara að byggja aftur upp þetta þjóðfélag. Ef stjórnvöld hefðu gert það sem kjósendur nú hafa refsað þeim fyrir að gera ekki – að nota lánsfé til að leiðrétta skuldir heimila og halda fullum dampi í velferðarkerfinu – þá værum við nú ekki í þeirri stöðu sem við þó erum komin í, með hagvöxt og lítið atvinnuleysi, stöðu sem hefur vakið mikla athygli víðast í heiminum – annars staðar en meðal íslenskra kjósenda. Þá værum við barasta ennþá á hausnum.
Og nú hefur altsvo meirihluti kjósenda (allt of margir sátu heima) kallað til hjúkrunarstarfa þá sem eftir botnlaust fylleríi hátt á annan áratug skildu við kroppinn í hjartastoppi, en hrakið burtu með skömm skyndihjálparsveitina, þá sem sannarlega blés og hnoðaði lífi í líkið.
Þetta er sem sagt aldeilis lygilegt, þrátt fyrir forspárvissu skoðanakannana. Þangað til það rifjast upp að maður er staddur í forheimskunnar landi.