Nú hefur enn einn starfshópurinn um menntamál skilað niðurstöðum. Að þessu sinni starfshópur um samþættingu menntunar og atvinnu. Það getur vel verið að ég taki mig til og leggist yfir þessa skýrslu og skrifi svo eitthvað um hana. Þó veit ég ekki hvort ég nenni því. Ég er búinn að skrifa margar greinar um mennta- og skólamál hér á síðuna og er eiginlega alveg viss um að í þeim skrifum hefur komið fram allt það sem ég hef að segja um þessa nýjustu skýrslu. Því þess er ekki að vænta að þar séu nein nýmæli.
Miðað við greiningu Elnu Katrínar Jónsdóttur á visir.is í dag, er skýrslan hrein sóun, enn eitt lagið ofan á gamla góða pappírsstaflann.
Hefur ekki stöðugt verið unnið að auknum tengslum skóla og atvinnulífs frá því um 1970, undanfarin rúm 40 ár? Hvers vegna ætli gangi svo illa að ná þessu, og öðrum göfugum markmiðum í skólakerfinu?
Ætli það sé vegna skorts á lagasetningu þar um? Ætli það sé vegna skorts á starfshópum? Ætli það sé vegna skorts á hugmyndum? Ætli það sé vegna skorts á samstarfsvilja? Ætli það sé vegna skorts á niðurstöðum og skýrslum frá starfshópunum? Ætli það sé vegna skorts á málþingum og kjaftablaðri?
Nei, ætli ástæðan sé ekki einfaldari. Ætli ástæðan sé ekki bara skortur á fjármagni til að hrinda í framkvæmd öllum tillögum skýrslanna og niðurstöðum vinnuhópanna og öllum lagatextunum sem hið háttvirta Alþingi hefur samþykkt?
Ætli það sé ekki bara málið?
Auðvitað þurfa alþingismenn að hafa eitthvað fyrir stafni, einhverjar nefndir og vinnuhópa til að drýgja þingfararkaupið, það er vel skiljanlegt. En dettur ykkur það aldrei í hug, hæstvirtir alþingsmenn, að það breyti engu hvað þið skreytið ykkur oft með þessu sama gamla víni, þó á nýjum belg sé, það muni ekkert breytast fyrr en þið farið að borga kostnaðinn við margtuggnar breytingatillögurnar á skólakerfinu? Dettur ykkur það virkilega aldrei í hug?
Á sama tíma, sem sagt, og eytt er fjármagni í enn einn starfshópinn og enn eina skýrsluna, er ekki hægt að innleiða „nýju“ framhaldsskólalögin, sem alþingi samþykkti með vinstri hendi, vegna þess að þegar hægri höndin samþykkir fjárlögin virðist hún ekkert vita hvað sú vinstri hafði verið að gera.
Nú er sem sagt nóg komið af kjaftæði og tími kominn til að fjármagna allt það tillöguflóð sem þegar liggur í þykkum bunkum á alþingi, í ráðuneytum og skólastofnunum um allt land, flest áratugagamalt. Þar er að finna margt gúmelaði um aukið samstarf við atvinnulífið. Gúmelaði um aukinn sveigjanleika. Gúmelaði um þarfir, getu og áhugasvið nemenda. Gúmelaði um grunnþætti. Gúmelaði um aukna sérfræðiþjónustu.
Ef alþingi hefur hins vegar ekki efni á eigin gúmelaðiframleiðslu -að koma skólakerfinu í það horf sem lög og skýrslur kveða á um að æskilegt sé- þá þarf að viðurkenna það og hætta þessum látalátum. Þar til betur árar. Ef svo ólíklega vildi til að einhverntíma í draumalandi framtíðarinnar muni ára þannig að á alþingi sitji fólk sem forgangsraðar menntakerfinu framar í fjárlagafrumvarpinu en hingað til hefur verið skilningur á.
En í guðanna bænum: Ekki fleiri starfshópa og skýrslur um skólakerfið. Það er nóg til af þeim. Það vantar hinsvegar peninga.