Nú liggur fyrir niðurstaða í atkvæðagreiðslu um samkomulag SNR og samninganefndar FF/FS. Framhaldsskólakennarar kolfelldu samkomulagið, eins og við mátti búast, með 3/4 hluta atkvæða og hafa nú sent bæði ríkisvaldinu og eigin samninganefnd skýr skilaboð: „Reynið ekki aftur að bjóða okkur upp á annað eins“.
Áður hefur verið fjallað ítarlega um samkomulagið hér á síðunni og ekki ástæða til að rekja enn og aftur hvað í því felst. Framhaldsskólakennarar hafa verið teygðir að þolmörkum undanfarin ár. Niðurskurður í menntakerfinu og sparnaðaraðgerðir innan skólanna hafa beinst að stórum hluta að kennurum. Stóraukinni vinnu hefur verið hlaðið á herðar þeirra, vinnuumhverfið ómanneskjulegt og í raun fjandsamlegt öllum faglegum viðmiðum.
Það er ekki vinnutímaskilgreining kennara sem stendur í veginum fyrir faglegri þróun og það eru ekki kennarar sem vinna gegn umbótum í skólastarfi, með því að hafna þessu samkomulagi sem niðurstaða liggur nú fyrir um, heldur er það á ábyrgð menntamálayfirvalda, fjárveitingavaldsins og skólastjórnenda í hverjum skóla.
Það eru yfirvöld og stjórnendur skólanna sem hafa boðið kennurum og nemendum upp á óviðunandi starfsaðstæður. Það hafa kennarar látið yfir sig ganga, með fullum skilningi á því að hér hefur verið kreppa og nauðsyn á niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Kennarar hafa tekið þátt í þessum aðgerðum af fullri einurð og ábyrgð. Þeir hafa undanfarin ár hvergi vikist undan heldur lagst á árarnar í þeim lífróðri sem staðið hefur – og stendur enn.
En þeir ætla ekki að halda því áfram, bótalaust. Þeir ætla ekki að láta hlekkja sig við þófturnar. Nú er nóg komið.