„Ríkisvaldinu mistókst herfilega að tryggja fé á fjárlögum til innleiðingar framhaldsskólalaganna“. Svo komst fulltrúi framhaldsskólakennara í samninganefnd að orði á fundi með trúnaðarmönnum kennara og formönnum félagsdeilda innan FF sl. mánudag, þegar nýundirritað samkomulag við Samninganefnd ríkisins var til kynningar.
Óhætt er að taka undir þessi orð. Þessi herfilegu mistök ríkisstjórnarinnar lýsa sér í því að á fjárlögum eru engir peningar í þetta verkefni. Í ljósi þess að ríkisvaldið sjálft mat það svo á sínum tíma að innleiðing „nýju laganna“ kostaði a.m.k. 2 milljarða, hljómar orðalagið „herfileg mistök“ eins og sakleysisleg kaldhæðni.
Þrátt fyrir að ljóst hafi verið í september af fjárlagafrumvarpinu að engu átti að kosta til á næsta fjárlagaári að koma lögunum í framkvæmd, skrifaði samninganefnd framhaldsskólakennara undir samkomulag þar sem helstu tíðindin eru 3ja%a launahækkun og stofnun svokallaðs „Vinnumatsráðs“.
Vinnumatsráðið á að leggja fram tillögu að nýrri vinnutímaskilgreiningu kennarastarfsins fyrir árslok 2013, svo það atriði þvælist ekki fyrir í viðræðum um nýjan kjarasamning í aðdraganda þess að núverandi samningur rennur út í marslok 2014.
Þá er einnig til tíðinda í samkomulaginu að SNR hefur „fundið“ peninga, í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að því er virðist, til að kaupa af kennurum ofurlitla vinnu við innleiðingu og námskrársamningu – á yfirvinnutaxta samkvæmt kjarasamningum. En það þykir sérstaklega í frásögur færandi nú um stundir að kennurum sé greitt fyrir vinnu af þessu tagi samkvæmt gildandi kjarasamningum. Hinsvegar hafa verið tíðkaðar „sjóræningagreiðslur“ af ýmsu tagi, utan við kjarasamninga, samkvæmt hentugleikum á hverjum stað, og þarf ekki að fjölyrða um það hvoru megin við löglegan samning þær greiðslur liggja.
Það er öllum ljóst, líka samninganefndunum báðum, að þessir fjármunir sem fundust í ráðuneytinu eru ekki upp í nös á ketti í því risavaxna verkefni sem framundan er. Þeir duga aðeins fyrir um 11 tíma vinnu á hvert stöðugildi framhaldsskólakennara, miðað við meðallaun stéttarinnar. Af þessu er því morgunljóst að alls ekki á að vinna af neinni alvöru að innleiðingu laganna né samningu námskráa. Samt á innleiðingunni að vera að fullu lokið árið 2015, skv. nýjustu áætlunum.
Framhaldsskólakennarar eiga nú að samþykkja að kasta núgildandi vinnutímaskilgreiningum fyrir róða, án þess að hafa neina tryggingu fyrir því hvað þeir fá í staðinn. Því hefur verið haldið mjög á lofti að vinnutímaskilgreiningar kennara séu helsti dragbíturinn á skólastarf og skólaþróun á Íslandi. Til upplýsingar er kennslustundin grunnviðmið í vinnutímaútreikningnum. Í núverandi kerfi er full heimild til þess, m.a. í stofnanasamningum, að semja við kennara um að taka að sér önnur störf en kennslu innan skólanna – gegn kennsluafslætti á móti. Þetta hefur verið gert, svo sveigjanleikinn er fyrir hendi ef menn vilja nýta sér hann.
Hinsvegar er það auðvitað mun hagstæðara fyrir skólameistara, sem berjast í miklum niðurskurði að halda rekstrinum ekki mjög langt neðan við núllið, að kennarar vinni sína fullu kennslu og sinni innleiðingu og námskrárvinnu, ásamt fjölmörgum öðrum störfum sem vinna þarf í skólunum, í töflugötum og á fundum á dagvinnutíma. Þeir geti svo bara sinnt undirbúningi, samráði og yfirferð verkefna á kvöldin og um helgar, í sjálfboðavinnu í frítíma sínum.
Á sama tíma og þetta samkomulag er lagt fyrir kennara til samþykktar eða synjunar í atkvæðagreiðslu liggur það fyrir að þeir hafa dregist í launum langt aftur úr „viðmiðunarstéttum“ innan BHM. Skv. bókun með kjarasamningi á að reikna út og bera saman launaskriðið, og leiðrétta muninn jafnóðum. Munurinn hefur verið reiknaður út og hann nemur nú að meðaltali 60 þúsund krónum á mánuði, kennurum í óhag. Ekkert hefur hins vegar verið gert í því að leiðrétta muninn. Þessi 3ja%a launahækkun sem í boði er, og nást mun 1. desember eftir rúmt ár, segir lítið upp í það ginnungagap. Fjármunir til að kaupa meiri vinnu af kennurum er ekki launahækkun, jafnvel þó það nýmæli eigi að taka upp að borga aukavinnuna samkvæmt kjarasamningi!
Ef vinnumatsráðið á að endurskilgreina vinnutímaviðmið kennarastarfsins og breyta því, án þess að til komi auknir fjármunir til verkefnisins á fjárlögum, þýðir það einungis að ef einn hluti vinnunnar fær aukið vægi (t.d. vegna álags af undirbúningi, nemendafjölda, samsetningu nemendahópsins, eðli kennslunnar (s.s. munar á verknámi og bóknámi)) þá mun annar þurfa að lækka á móti. Sem sagt: Ef kakan er jafn lítil og fyrr, er ekki hægt að stækka eina sneið án þess að minnka aðra. Allir, sem eitthvað vit hafa á kennslu og skólastarfi, sjá hvaða hættu þetta hefur í för með sér.
Undanfarið hefur niðurskurður í skólastarfi bitnað fyrst og fremst á kennurum og nemendum. Þrengt hefur verið stórkostlega að möguleikum margra kennara á að vinna yfirvinnu, t.d. með því að stórfjölga í nemendahópum. Algengt er nú að kennarar kenni sama nemendafjölda í tveimur hópum sem þeir kenndu í þremur hópum áður. Álag á kennara er nú ómanneskjulegt í mörgum skólum. Og ýmsir valáfangar, sem ekki ná háum nemendafjöldatölum, er skornir niður við trog.
Burtséð frá kennurunum, sjá allir að þessi stefna bitnar ekki síst á nemendum. Fá þeir þá faglegu þjónustu, sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt, þegar þeim er hrúgað 30 eða fleiri í bekkina? Er það í anda sveigjanleika og fjölbreytni að fella niður kennslu í fjölmörgum valáföngum, vegna þess að stofurnar eru ekki kjaftfullar út úr dyrum? Er þetta í anda laga sem kveða á um að koma til móts við þarfir, getu og áhugasvið nemenda?
Er þetta faglegt skólastarf?
Allir sjá að svo er ekki. Samt er þessi stefna rekin ár eftir ár. Og svo eiga kennarar að gleypa við því að vinnutímaskilgreiningarnar í starfinu þeirra sé helsti dragbíturinn í íslensku menntakerfi. Þeir eiga að horfa brosandi á algert aðgerðaleysi gagnvart einhliða launaskriði viðmiðunarstétta, sem þó er bókað um í kjarasamningi að eigi að leiðrétta jafnóðum. Þeir eiga að samþykkja að falla frá vinnutímaskilgreiningunum sem þeir hafa og þekkja, í staðinn fyrir fullkomlega þokukenndar hugmyndir um eitthvað nýtt og betra. Þeir eiga að vera svaka kátir yfir því að nú eigi að fara að borga þeim yfirvinnukaup samkvæmt kjarasamningi, fyrir aukavinnu við innleiðingu laga og samningu námskráa. Og þeir eiga að falla á kné af föguði yfir 3ja%a viðbótarlaunahækkun á samningstímanum.
Ég segi nei við því samkomulagi sem skrifað hefur verið undir, og vona að allir aðrir framhaldsskólakennarar segi líka nei í atkvæðagreiðslunni 5. – 12. nóvember nk.
Þetta samkomulag er sannarlega herfileg mistök.