Þjóðaratkvæðagreiðslan næstkomandi laugardag er mikilvæg. Þá gefst þjóðinni tækifæri til þess að leiðbeina Alþingi um það á hvaða grunni það skuli reisa stjórnarskrá lýðveldisins.
Fyrir liggja drög að frumvarpi, sem felur í sér heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að gera það og færa þetta grundvallarplagg okkar til nútímahorfs.
Eins og fyrrverandi formaður og varaformaður stjórnlagaráðs hafa bent á er það í verkahring og á ábyrgð Alþingis að setja nýja stjórnarskrá. Alþingi ákvað að beita lýðræðislegum aðferðum í þessu mikilvæga máli og kallaði saman „þjóðfund“ sem valinn var með slembiúrtaki. Þjóðfundurinn skilaði af sér hugmyndum um það hvaða áherslur skyldi leggja í nýrri stjórnarskrá. Alþingi skipaði stjórnlagaráð til að semja drög að frumvarpi úr niðurstöðum þjóðfundarins. Drögin eru málamiðlun fólks með ólíkan bakgrunn og ólíkar skoðanir. En þau byggja á hugmyndavinnu þjóðfundarins.
Þess vegna er mikilvægt að nýta þennan grunn. Þetta er ekki stjórnarskrárfrumvarp þar sem vinstrimenn hafa þvingað inn hugmyndum sínum í krafti skammvinnra pólitískra valda, eins og halda mætti miðað við viðbrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarmanna. Reyndar er Sjálfstæðisflokkurinn einn um það að ganga svo langt að semja sína eigin stjórnarskrá inni á flokkskontórnum.
Alþingi hefur þvert á móti leitað út fyrir hugmyndalegar girðingar stjórnmálaflokkanna. Það eitt eru meðmæli með hugmyndunum. Samþykktir Alþingis í þessu máli eru meðal skynsamlegastu ákvarðana sem það hefur tekið. Og sýnir að núverandi alþingismönnum er ekki alls varnað.
Nú er komið að okkur, íslenskum kjósendum. Það er okkar hlutverk að veita Alþingi þá leiðsögn sem það hefur kallað eftir, til að halda áfram með málið. Alþingismönnum ber að taka mark á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október nk. og semja frumvarp í samræmi við þær niðurstöður sem þar koma fram. Þar er engum undankomu auðið.
Þetta er heldur á engan hátt flókin kosning, eins og haldið hefur verið fram. Spurt er nokkurra spurninga og svarmöguleikar við hverri þeirra aðeins tveir: „já“ og „nei“. Annað hvort vill kjósandinn að plagg stjórnlagaráðs verði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár, og krossar þá við „já“, eða ekki, og krossar þá við „nei“. Þó sagt sé „já“ við þessari spurningu þýðir það ekki að ómögulegt sé að segja „nei“ við einhverri hinna. Með því er kjósandi aðeins að segja að hann samþykki grundvöllinn, að frádregnu þessu eða hinu atriðinu. Það sama gildir ef sagt er „nei“ við upphafsspurningunni, en „já“ við einhverri hinna. Með því kemur aðeins fram sú skoðun að viðkomandi sé ósammála grundvellinum en vilji samt sem áður að eitthvert atriðanna á kjörseðlinum verði í nýrri stjórnarskrá. Hvað er flókið við þetta?
Ég ætla að mæta á kjörstað. Og ég ætla að segja „já“ við fyrstu spurningunni. En ég gæti alveg átt það til að segja „nei“ við einhverri af þeim sem á eftir koma. Mér finnst það hvorki óljóst né flókið. Ég tek mark á því þegar Alþingi kallar eftir leiðsögn í þessu mikilvægasta máli samtímans og lít á það sem skyldu mína að bregðast við.
En ég krefst þess líka að Alþingi, bæði það sem nú situr og það sem kosið verður næsta vor, taki mark á leiðsögn kjósenda, sem það hefur sjálft kallað eftir.