Sínum augum lítur hver silfrið

Ég sá að Guðni Ágústsson var að skrifa í Fréttablaðið sl. laugardag og renndi yfir greinina. Kjarni hennar er sá að Evrópusambandið sé slæmt og beiti fúlgum fjár til að reka einhliða áróður fyrir sjálfu sér hér á landi, í því augnamiði að fá Íslendinga til að samþykkja inngöngu í sambandið þegar þar að kemur. Guðni, eins og aðrir Evrópusambandsandstæðingar, hafnar því að nú fari fram samningaviðræður milli Íslands og ESB. Um sé að ræða bullandi aðlögun með tilstyrk peningavalds sem erfitt eða ómögulegt sé að keppa við. Gott ef allt íslenska stjórnkerfið, eins burðugt og það nú er, er ekki á mála hjá þessu formyrkvaða sambandi, sem kennir sig við Evrópu.

Guðni er auðvitað ekki einn á báti í þessum málflutningi. Þar er saman komið allt svartasta afturhald landsins, sá söfnuður sem ræður nú um stundir ríkjum í Framsóknarflokknum en stjórnar stefnu Sjálfstæðisflokksins bak við tjöldin, ásamt nokkrum framsóknarmönnum sem enn hafa ekki ratað heim úr Vinstri grænum. Þessi flokkur sameinast í klúbbi sem kallar sig Heimssýn, eins furðuleg öfugmæli og það nú eru.

Nú verð ég að taka það fram að ég geri engar athugasemdir við það að menn hafi efasemdir um Evrópusambandið. Ég hef þær töluverðar sjálfur, en neita þó að taka afstöðu, hvað þá einarðlega, fyrr en það liggur fyrir svart á hvítu um hvað málið snýst. Í mínum huga er það óskynsamlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að taka bjargfasta afstöðu til mála sem óvissa ríkir um, hvað þá skjala sem enginn hefur séð, af þeirri einföldu ástæðu að þau hafa ekki enn verið skrifuð. Sem sagt: það er jafn lítið vit í því, á meðan fuglarnir eru enn í skógi, að ákveða að þeir séu óætir og að þeir séu ljúfmeti.

Út frá þessum skilningi á skynseminni sé ég litla skynsemi í því að fara inn á öfugmælaslóðina skynsemi.is. að ábendingum Guðna Ágústssonar í Fréttablaðinu.

Og nú fer ég loksins að komast að efninu.

Landsvirkjun hefur í gegnum tíðina verið sökuð um að standa í „aðlögun“ til að greiða fyrir virkjanaframkvæmdum víða um land. Aðlögunin hefur t.d. falist í því að borga fyrir vatnsveitu sveitarfélags, vegagerð og samgöngubætur ýmsar, fundarsetur sveitarstjórnarmanna, uppsetningu ferðamannamiðstöðva og menningarsetra, stundað óeðlileg afskipti af bændum og jarðeigendum, jafnvel með hótunum, o.s.frv. o.s.frv. Sumir hafa gengið svo langt að kalla þetta mútur, við litla hrifningu, a.m.k. framsóknar- og sjálfstæðismanna sem finnst það eðlilegt og sjálfsagt að Landsvirkjun borgi kostnaðinn af allskyns braski sem fylgir framkvæmdum, og jafnvel bætur til viðkomandi. Það sé t.d. alls ekki eðlilegt að hreppsnefndir borgi fulltrúum sínum laun og kostnað vegna funda sem Landsvirkjun biður um að séu haldnir! Og auðvitað er það fráleitt að gera því skóna að hreppsnefndarmenn og misvel stæðir bændur láti formúgur fjár hafa áhrif á afstöðu sína til virkjanaframkvæmda í nágrenninu?

Þessar greiðslur eru náttúrulega líka í íslenskum krónum?

Hvernig var það hér um árið? Var nokkuð afdankaður bæjarstjóri fyrir austan dubbaður upp í embætti á vegum erlends álrisa? Jafnvel kallaður upplýsingafulltrúi eða eitthvað álíka? Og sendur svo norður í Þingeyjarsýslur til að upplýsa lýðinn þar um ágæti viðkomandi fyrirtækis og framkvæmda á þess vegum? Ég man ekki eftir því að Guðni Ágústsson eða Framsóknarflokkurinn gerði athugasemdir við þetta, verandi þó í ríkisstjórn með íhaldinu? Enda sjálfsagt óþarfi, því ekki hefur verið um að ræða einhliða áróður um ágæti viðkomandi fyrirtækis, eins og reyndin er hjá Kóka kóla og ESB. Engin aðlögun þar í gangi heldur aðeins sjálfsögð þjónusta við íbúa landshlutans sem áttu heimtingu á því að fá réttar og nákvæmar upplýsingar. Og hver var færari um að veita þær en fyrirtækið sjálft?

Hvort sem menn vilja trúa því að nú séu í gangi heiðarlegar samningaviðræður við ESB eða ótímabær og óumbeðin aðlögun í skjóli fjármagnsyfirburða og hvort sem menn vilja halda því fram að um sé að ræða eðlilega þátttöku í kostnaði vegna virkjanaframkvæmda eða lítt duldar mútur, er ljóst að sínum augum lítur hver silfrið.

Og hvað á að kalla menn sem vilja gjarnan þiggja aurinn með annarrri hendi en fúlsa við honum með hinni?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *