Nú eru liðin tvö ár af yfirstandandi kjörtímabili sveitarstjórna. „Hreinn meirihluti“ Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg hefur á þeim tíma staðið undir öllum þeim „væntingum“ sem til hans var hægt að gera, og virðist ljóst að á seinni hluta kjörtímabilsins muni meirihlutinn ekki heldur valda neinum manni vonbrigðum. Hér hjá okkur er sem sagt allt með hreinum endemum. Og endemin eru víst það eina sem hægt er að kalla „hreint“ í þessu samhengi.
Nú síðast fór í gang tragí-kómískur farsi í kjölfar þeirrar samþykktar fræðslunefndar að Árborg skyldi segja sig úr samstarfi við önnur sveitarfélög á starfssvæði SASS um rekstur Skólaskrifstofu Suðurlands. Elfa Dögg Þórðardóttir grét í fjölmiðlum yfir þeirri hjartaskerandi stöðu sem hún væri sett í: Hún væri formaður í SASS en félagar hennar í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins væru einhuga um að segja skilið við samstarf sveitarfélaganna um skólaþjónustu. Orð Elfu var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að formennskan í SASS væri vandamálið sem setti hana í klípu, ekki úrsögnin úr skólaskrifstofunni.
Og úrsögnin var afráðin í bæjarráði, með steinþegjandi samþykki Eggerts Vals Guðmundssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar. Arna Ír Gunnarsdóttir náði þó að koma málinu í nefnd, með tillögu þar um á næsta bæjarstjórnarfundi, og varð tillaga Örnu að hjartahnoði fyrir dauðan meirihlutann.
Nú fóru mýsnar á kreik, enda enginn köttur á svæðinu. Elfa Dögg kvaðst ekki njóta trausts félaga sinna og því væri samstarfi þeirra við hana sjálfhætt – og bæjarstjórnarmeirihlutinn þar með fallinn. Elfa vatt sér í viðræður við S, B og V lista um myndun nýs meirihluta. Það er reyndar árviss viðburður hjá henni.
En bragðarefurinn Eyþór Arnalds lét ekki snúa svo einfaldlega á sig. Hann kallaði með sér þá þrjá bæjarfulltrúa sem fylgja honum blindandi að málum og bankaði upp á hjá framsóknarmanninum Helga Haraldssyni, sem enn var funheitur eftir nýafstaðinn fund með Elfu Dögg. Helgi og Eyþór náðu svona skínandi vel saman og var strax í gadda slegið að mynda meirihluta hluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta gekk hratt fyrir sig hjá þeim félögum, enda Framsóknarflokkurinn með tiltölulega nýfengna og ánægjulega reynslu í bæjarstjórn af samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn undir stjórn Eyþórs Arnalds, og nánast hægt að taka orðrétt blessunar- og vinarkveðjurnar úr því samstarfi frá haustdögum 2006, inn í nýjan sáttmála milli flokkanna.
Þegar hinn mikli leiðtogi, Eyþór Arnalds, mætti hinsvegar á fund í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins með tíðindin, eftir kvöldkaffið hjá Helga, kom í ljós að hann réði í raun og veru engu um það hvaða meirihluta hann myndaði. Og það tók fulltrúaráðið aðeins fjóra klukkutíma að siða bæði Eyþór litla og Elfu Dögg til, og kenna þeim að „ganga í takt“. Með fylgdu yfirlýsingar um að nýjar samskiptaaðferðir yrðu teknar upp. Það þýðir í reyndinni að samskipti yrðu tekin upp innan bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Og Eyþór klykkti svo út með því að hann kærði sig ekki lengur um að leika við Helga.
Af þessu öllu má ráða að Helgi Haraldsson treystir Eyþóri Arnalds mun betur en samanlögðum bæjarfulltrúum VG, Samfylkingar og Elfu Dögg. Það eru tíðindi í sjálfu sér. Helgi grípur óhikað það tækifærið sem opið er hverju sinni. Og hann veit auðvitað líka að Elfa Dögg mætti á fundi, til að kanna jarðveginn fyrir eigin framgang, hjá bæði Framsóknarflokknum og Samfylkingunni þegar dró að kosningaundirbúningi og listauppstillingum vorið 2006, áður en hún ákvað að fara í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum – þar sem hún hreppti 4. sætið – vegna þess sem rógtungur höfðu á hraðbergi um fulltrúa hinna flokkanna. Það er því ekki hægt að álasa Helga fyrir að efast um langlífi meirihluta þriggja flokka, sem þyrftu alfarið að treysta á staðfestu hennar.
Það hefur því í bili, að því er virðist, verið myndaður nýr meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Árborg. En að kalla meirihlutann „hreinan“, hvort sem er þann nýja eða hinn gamla, er beinlínis afskræming á því orði.