Í dag er 1. maí – dagur verkalýðsins. Dagur verkalýðsbaráttunnar. Eitthvað hefur nú verkalýðsbaráttan breyst í gegnum tíðina, enda „verkalýðurinn“ nú til dags eitthvað allt annað en hann var áður fyrr. „Verkalýðshreyfingin“ sýnist, svona utanfrá séð, vera fátt annað en nokkrir moldríkir kallar (sjálfsagt líka nokkrar konur), svokallaðir verkalýðsleiðtogar, sitjandi á bólgnum sjóðum sem vinnandi hendur hafa lagt til smám saman – hluta launa sinna fyrir hið daglega strit. Ekki verður séð að þær hendur hafi mikið að segja um það hvert öllum þeim milljörðum er ráðstafað – ekki fremur en launamenn um lífeyrissjóðina sem þeir greiða í.
En einu sinni var verkalýðsbaráttan með öðrum blæ. Eftirfarandi kvæði, sem mér finnst 1. maí vera ágætt tilefni til að birta, er frá öðrum tíma og lýsir öðru andrúmslofti – blæ „karlmennsku“ og hreysti, fórnfýsi, þjóðerniskenndar, trúar og samtakamáttar: „Sameinaðir stöndum vér. Sundraðir föllum vér“.
Annars er rétt að geta tilefnis. Kvæðið er þýðing, ein af mörgum sem ég gerði fyrir Karlakór Hreppamanna að beiðni stjórnanda kórsins, til að undirbúa söngdagskrá vegna 200 ára afmælis ungverska tónskáldsins og píanósnillingsins Franz Liszt síðastliðið haust. Ekki komst stjórnandinn, Edit Molnár, þó svo langt með kórinn að æfa þetta lag til flutnings. Kannski það bíði bara betri tíma?
Óður verkamannsins
(„Arbeiter-Chor“: Rossa Ernö / Franz Liszt)
Þýðing: Gylfi Þorkelsson
Stíg fram! með haka, fork og pál.
Stíg fram! Á eggjað blikar stál.
Stíg fram! ef þor og iðni átt,
hér allt er metið, stórt og smátt.
Um enni þvölum svita slær
er sindrar líkt og perla skær.
Með þandar taugar, þor og dug
nú þjóðar vorrar sýnum hug.
Af gleði erfið vinnum verk
því von og hjartans trú er sterk.
Ef saman beitum hug og hönd
þá halda munu engin bönd.
Ef saman göngum sorgum mót,
ef saman brúum óreið fljót,
ef saman réttan syngjum tón,
ef saman bætum annars tjón.
Vort föðurland með frjóa jörð,
af fúsum vinnuhöndum gjörð,
sem efla vilja hennar hag
og heiður verja, nótt sem dag.
Um frelsið syng við hamarshögg,
þá höndin tekur á sig rögg.
Á steðjann hamra styrkur vil
og stoltur vinna morguns til.
Og hvert eitt verk af guði glætt,
af gæðum hans er efnið bætt,
en allt sem geri blessun ber
og byggt á traustum grunni er.
Nú leggi allir hönd við hönd
og hnýti eilíf tryggðabönd,
og rækti sérhvern Drottinsdag
vort dýra, kæra bræðralag.
Já, tengjum saman strönd við strönd
og styrka bjóðum vinar hönd,
treystum okkar tryggðabönd
og ræktum sérhvern Drottinsdag
vort dýra, kæra bræðralag.