Um daginn var í fréttunum af óheilnæmu drykkjarvatni á Hveravöllum. Málið var blásið upp einn dag en svo fangaði annað athyglina, eins og gengur. Sennilega eru allir búnir að gleyma þessu núna, og verða jafn hissa á ástandinu þegar sagðar verða sömu fréttirnar af vatnsmálum á Hveravöllum næsta sumar.
Ég kom fyrst ríðandi á Hveravelli í fjölskylduferð á leið á Landsmót hestamanna í Skagafirði árið 1974, þá 13 ára gamall, og frá því um 1980 hef ég komið þar við a.m.k. tvisvar á ári í hópi reiðmanna, sem kellingasmali í byrjun, en fljótlega sem fararstjóri með hóp erlendra gesta sem borga háar fjárhæðir (væntanlega) til þess að njóta íslenska hestsins og hinnar „óspilltu“ íslensku náttúru.
Alveg frá því ég man eftir mér hefur vatnið á Hveravöllum verið talið ódrykkjarhæft, eða a.m.k. varhugavert til þess brúks, þó menn hafi kannski burstað upp úr því tennur og talið það nýtilegt til að skola niður úr klósettunum. Þess vegna hefur það lengi viðgengist að taka með sér hreint og heilnæmt vatn á brúsum til matargerðar og drykkjar, þegar næsti áfangastaður er þessi fallega og sögufræga vin milli jökla.
Vatnsmálin, og annar aðbúnaður á Hveravöllum, draga óneitanlega svolítið úr töfrum þessa annars eftirsóknarverða áfangastaðar; sagan og náttúran ljóslifandi á hverasvæðinu, í hrauninu og Eyvindarhelli, óborganlegt kvöldskinið á Hofsjökul sem virðist, ásamt tignarlegu Hrútfellinu, aðeins í seilingarfjarlægð í altæru fjallaloftinu.
Þegar ég var að byrja mína ferðamennsku sem ábyrgðaraðili fyrir hópi útlendinga þótti það ekki frágangsmál að setjast á kamar í Fremstaveri og Hvítárnesi, né heldur þrengslin og bágborin aðstaðan í eldhúskrókum kofanna, sem voru í engu samræmi við fjölda „gistiplássa.“ Ekki er víst að kökubasarakleinur íslenskra húsmæðra, sem mega ekki vamm sitt vita, séu soðnar við bágari aðstæður en þar var (og er sumsstaðar enn) boðið upp á að reiða fram stórsteikur handa 20-30 manna hópum glorhungraðra reiðmanna, rykugra og skítugra. En þröngt mega sáttir sitja og aldrei kvartar nokkur maður.
Síðan má segja að víða hafi orðið bylting í fjallakofamenningunni. Síaukin umferð hestahópa og auknar tekjur af heysölu og gistingu í gangnamannakofum hafa gert sveitarfélögum kleift að byggja við og bæta aðstöðuna. Landsvirkjun bætti bændum beitartap vegna Blöndulóns m.a. með því að leggja vegi og byggja kofa á öðrum hverjum hól á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðum, Tungnamenn bjóða nú upp á ágæta aðstöðu í Árbúðum og Gíslaskála, Hrunamenn eru nýbúnir að stækka Helgaskála og færa snyrtingar inn fyrir þröskuldinn. Jafnvel er víða hægt að komast í heita sturtu og verður þá ekki um meira beðið. Allt horfir þetta til bóta, enda ekki áhugi hjá ferðafólkinu fyrir lúxus eða flottræfilshætti.
Á Hveravöllum hefur hinsvegar engin framþróun orðið í þjónustu við gesti og gangandi síðastliðin þrjátíu ár. Gamli Ferðafélagsskálinn, jafn vinalegur og „kósí“ og hann nú er, er þarna enn eins og hann var og stundum þurfa matráðar tveggja hópa að reyna að borast við að elda ofan í mannskapinn, sem þarf svo að hafa allt á hnjánum. „Nýi“ skálinn er oftast eins og lestarstöð, enda hýsir hann líka staðarhaldara, sjoppu og er miðstöð þjónustunnar á staðnum og því ekki fýsilegur fyrir hópa sem vilja njóta samveru í ró og næði.
En þetta er allt saman auðveldlega hægt að umbera með tillitssemi og góða skapinu. Ef ekki væri fyrir vatnsvandræðin. Þegar við komum á Hveravelli í sumar, 22 manna hópur, var lokað kvennaklósett það fyrsta sem við blasti. Hlandskál karlamegin var merkt: „Bilað“. Sturtur náttúrulega allar lokaðar, og gerði lítið til. Undir kvöld var svo karlaklósetti alfarið lokað líka. Staðarhaldari opnaði inn á sitt prívat og bjargaði málunum, þannig að enginn missti í buxurnar, svo vitað sé. Morguninn eftir var búið að losa um stíflurnar og allt gekk því sína réttu boðleið eftir árbítinn.
Það sorglega við þetta allt saman er að nánast er hægt að ganga að svona ástandi vísu ár eftir ár.
Það er mikil umferð ferðamanna á Hveravöllum. Þangað koma stórir hópar á hestum, langferðabifreiðum eða tveimur jafnfljótum, fjölskyldur og einstaklingar á einkabílum eða reiðhjólum. Þar er boðið upp á tjaldstæði og svefnpokapláss í skálum fyrir tugi eða hundruð manna, en aðstaða og þjónustan ber langt því frá allan þann fjölda. Hvenær ætla Húnvetningar að girða sig í brók á Hveravöllum?
Annar vinsæll ferðamannastaður þar sem vatn er af skornum skammti er Gullfoss. Þar hafa staðarhaldarar einnig verið í standandi vandræðum með salernin í gegnum tíðina. Mér finnst það hálfsorglegt, og lítill virðingarvottur við Sigríði Tómasdóttur í Brattholti, að koma að læstum dyrum Sigríðarstofu með ábendingum í glugga um klósettferðir í næsta hús.
Sjálfsagt er það bæði flókið og dýrt að leysa úr þessu. En það verður að gera. Annað hvort með því að takmarka umferð verulega að þessum stöðum eða bæta aðstöðuna þar verulega. Núverandi aðstæður á Hveravöllum eru ekki boðlegar (sjálfsagt væri hægt að nefna marga fleiri staði þar sem svipað er ástatt). Ef taka þarf upp sérstakt gjald til að mæta kostnaði við úrbætur, þá verður svo að vera. Stífluð klósett á fjölförnum ferðamannastöðum eru ekki síður brýnt úrlausnarefni fyrir ráðherrana en glannaakstur rútubíla, og ætti heilbrigðiseftirlitið ekki frekar að vera með nefið ofan í slíkum vandræðum en kökubösurum vammlausra húsmæðra?