Jón Hreggviðsson var á miðjum slætti boðaður til sýslumanns út á Skaga og dæmdur þar til að greiða þrjá ríkisdali, en þola húðstrýkingu ella, fyrir að hafa móðga kónginn með orðaspjátri, í eyru hans majestets bífalníngsmanns og prófoss, Sigurðar Snorrasonar, um að sú allrahæsta tign hefði tekið sér þrjár frillur utan hjónabands. Þar sem Jón hirti lítt um að lúka sekt sinni við kóng var hann hýddur á þingi í Kjalardal um haustið, 24 vandarhöggum.
Að þingi loknu fóru sýslumaður, böðull, sakborningur og þingvitnin saman heim á leið, en þar sem sumir áttu töluvert langt að fara, og mjög leið nú á dag, bauð þingvitnið signor Bendix Jónsson föruneytinu öllu heim til sín í Galtarholt. Á þessum tíma var ekki búið að finna upp kvikmyndatæknina, og því gátu þeir strákarnir ekki skroppið saman í bíó, en gripu til þess er nærtækara var: að detta íða saman. „Gleymdust mönnum fljótt dagleg mótgángsefni, en tókst alsherjar fóstbræðralag með mönnum, handsöl og faðmlög. Kóngsins böðull lagðist á gólfið og kysti fætur Jóns Hreggviðssonar grátandi meðan bóndinn sveiflaði bikarnum sýngjandi“.
Til að forðast allan misskilning, og forfeðrum okkar til afbötunar, er rétt að undirstrika það skilmerkilega að þetta „strákakvöld“ og hópefli átti sér stað EFTIR að bæði dómur féll og refsing var að fullu út tekin. Nú eru hins vegar breyttir tímar.
Gestirnir riðu ofurölvi úr gleðskapnum í næturmyrkinu, villtust í fúamýri og voru hætt komnir í torfgröfum – týndu hverjir öðrum og sofnuðu á víð og dreif fjötraðir fjöðrum óminnishegrans. Jón Hreggviðsson vakti upp í Galtarholti í dagrenningu, ríðandi hesti böðulsins og með kabúss hans á höfði, enda vaknaði Jón berhöfðaður og merin týnd. Við rannsókn kom í ljós að böðullinn hafði sofnað í mýrarsprænu, stíflað hana liggjandi á fjórum fótum í skorningnum og drukknað í uppistöðulóninu sem hinn umfangsmikli skrokkur hans myndaði.
En hattur böðulsins var sem sagt á röngu höfði – og varð eitt helsta sönnunargagnið þegar Jón bóndi var dæmdur fyrir morð.
Össur Skarphéðinsson vísaði í þessa frásögn Íslandsklukkunnar í svari sínu til Vigdísar Hauksdóttur, sem aldrei þreytist á að spyrja um hin mörgu og lævísu samsæri Evrópusambandsins. Össur sagði Vigdísi með fyrirspurn sinni setja rangan hatt á ráðuneytið, þ.e.a.s. hafa það fyrir rangri sök.
Væri það ekki guðsþakkarvert ef þingmenn gætu beitt vísunum og öðrum mælskubrögðum í umræðum á þingi, dýpkað þannig málflutning sinn og gert hann fyrir vikið að einhverju leyti bærilegan áheyrnar? Því miður eru bara örfáir þingmenn færir um þetta, flestir eru alveg sljóir þegar kemur að töfrum ræðumennsku og mælskulistar: einhverjir ná sér helst á strik í málþófi, með flissi og fábjánahætti, aðrir sitja allan sinn feril fastir í Morfís-stílnum. Enn aðrir reyna sitt besta – en það kemur bara allt öfugt út úr þeim, því miður.
Þegar Siv Friðleifsdóttir tekur þetta mál upp í þinginu, segir Össur með svari sínu gera bæði grín að Vigdísi og lítið úr henni, og vill meira að segja koma því á dagskrá forsætisnefndar, þá er ekki hægt að skilja Siv öðru vísi en að henni finnist það ósæmilegt að beita myndmáli eða tala í líkingum og vísunum við fólk sem er ófært um að skilja annan málflutning en þann sem liggur allur á yfirborðinu.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá Siv – vísanir koma að engu gagni nema þegar hvort tveggja er til staðar: annars vegar að vísað sé í sameiginlegan þekkingargrunn og hinsvegar að yfirfærsla eigi sér stað – að viðkomandi sjái hliðstæðurnar milli þess veruleika sem hann er staddur í og þeirra aðstæðna sem vísað er í. Og það er líka rétt hjá Siv að það er ekki beinlínis stórmannlegt að beita mælskubrögðum, þó einföld séu, í samræðum við fólk sem maður veit fyrirfram að hefur ekki nauðsynlegar forsendur til skilnings. Það er náttúrlega bara ljótt.
Ég verð að viðurkenna að mér finnst ótrúlegt að þetta eigi við Vigdísi Hauksdóttur, jafnvel þó bögglist uppi í henni orðatiltækin. En auðvitað er Siv dómbærari á þetta en ég. Hún hefði samt getað látið vera að draga þetta svona fram.
Hins vegar mætti alveg spyrja Össur – sem óneitanlega ber nokkuð hvolpana – varðandi opnun þessarar Evrópustofu, hvort hann hafi bréf upp á það?
Ég er nokkuð viss um að Össur myndi alveg skilja spurninguna – og líka sneiðina sem í henni er fólgin, án þess þó að fara að væla um lítillækkun í sinn garð.